Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
14.6.2014 | 02:15
Lulla frænka og Jón Þorleifs
Jón Þorleifs, rithöfundur, og Lulla frænka áttu ekki skap saman. Þau voru bæði það sem kalla má heimagangar hjá mér. Og einnig hjá Júlíu systur minni. Oft bar þau að á svipuðum tíma. Enda komu þau helst að kvöldi til. Stundum fyrr um helgar.
Einhverra hluta vegna virtu þau hvort annað vart viðlits. Lulla hafði engan áhuga á frásögnum Jóns af óréttlæti heimsins og þeirri baráttu sem hann stóð í við verkalýðsforingja. Hún tók aldrei undir neitt sem hann sagði né sýndi önnur viðbrögð. Það var frekar að hún snéri tali að einhverju allt öðru. Greip þá stundum orðið af Jóni og fór að tala um drauga eða eitthvað annað. Jón lét eins og hann heyrði ekki í henni. Þagði á meðan hún talaði. Þegar hún þagnaði hélt hann áfram að tala um Gvend Jaka og Eðvarð Sigurðsson.
Lulla og Jón bjuggu á sama blettinum. Hann við Hlemm og hún á Skúlagötu fyrir neðan Hlemm. Jón var bíllaus. Ótal oft, einkum þegar kalt var í veðri, var stungið upp á því að Jón fengi far með Lullu heim á leið. Nei, það kom aldrei til greina af hálfu Jóns. Hann kaus heldur að ganga - þó að leiðin væri margir kílómetrar; alveg frá Skipasundi eða Ásgarði.
Ég tel víst að Lulla hafi lítið skilið í því sem Jón talaði mest um.
Eitt sinn var afmælisveisla heima hjá systur minni. Ég og mitt fólk mætti. Líka Lulla og Jón. Þegar sest var við veisluborð kveikti Lulla sér í sígarettu. Eftir smá stund spratt Jón óvenju snöggur í hreyfingum fram í eldhús. Að vörmu spori kom hann með öskubakka, lagði hann á borðið fyrir framan Lullu og tilkynnti: "Hér er öskubakki fyrir þig." Öskubakkinn kom sér vel því að Lulla keðjureykti að venju.
Síðar, þegar Lulla og fleiri gestir, höfðu kvatt sagði systir mín við Jón: "Takk fyrir að sýna Lullu frænku þessi almennalegheit; að sækja fyrir hana öskubakka."
Það hnussaði í Jóni og hann svaraði: "Ég var ekkert að sýna henni nein almennalegheit. Ég sá að konubjálfinn hafði enga rænu á að slá ösku af sígarettunni. Ég var að bjarga gólfteppinu."
-----------------------
Fleiri sögur af Jóni: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1396811/
Of af Lullu frænku: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1390234/
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.5.2014 | 21:26
Lulla frænka kaus
Lulla föðursystir mín fylgdist ekkert með stjórnmálum. Var að mestu áhugalaus um þau - ef undan er skilið að hún gætti þess vandlega að mæta ætíð á kjörstað. Þar kaus hún Sjálfstæðisflokkinn, eins og bræður sínir og fleiri ættingjar. Hún lét Sjálfstæðisflokkinn sjá um pólitíkina; þá þurfti hún þess ekki sjálf. Einu áhyggjurnar sem hún hafði voru af því hvort að hún myndi gleyma að kjósa eða kjósa vitlaust fyrir klaufaskap eða ógilda kjörseðilinn.
Lulla gerði ráðstafanir í tæka tíð til að tryggja að ekkert færi úrskeiðis. Hún samdi við einhvern um að fylgja sér á kjörstað. Eitt sinn fylgdi henni kona sem var afar stríðin og mikill stuðbolti. Hún fylgdi Lullu að kjörklefanum svo langt sem það mátti. Þetta var á áttunda áratugnum og reglur frjálslegri en í dag. Njósnarar frá stjórnmálaflokkunum sátu við kjörklefann og skráðu hjá sér hverjir mættu á kjörstað og hvenær.
Fylgi stjórnmálaflokka var fastara í hendi en í dag. Kjósendur fylgdu sínum flokki fram í rauðan dauðann hvað sem á gekk. Þetta var eins og trúarbrögð eða áhang við fótboltalið. Þeir sem mættu seint á kjörstað fengu upphringingu frá sínum flokki og voru hvattir til að drífa sig. Þeim var boðin aðstoð í formi aksturs eða annars liðsinnis.
Lulla staulaðist inn í kjörklefann. Síðan leið og beið. Hún kom ekki aftur út úr honum. Allir viðstaddir urðu langeygir. Þeir horfðu með undrunar- og ráðaleysissvip hver á annan. Svo mændu þeir á fylgdarkonu Lullu eins og hún gæti leyst málið. Hún brosti glaðlega á móti og þótti biðin brosleg.
Að mörgum mörgum mínútum liðnum heyrðist Lulla kalla hátt og snjallt: "Er það D eins og drottinn?"
Stríðna fylgdarkonan svaraði um hæl af hvatvísi: "G eins og guð!"
Sumir viðstaddra hvesstu reiðilega augu að fylgdarkonunni. Einn sýndi henni manndrápssvip. Allir voru mjög alvörugefnir. Henni þótti það gera hrekkinn við Lullu ennþá fyndnari. Höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins, Alþýðubandalagið, var með listabókstafinn G. Sjálf nýtti hún ekki kosningarétt sinn.
Nú gengu hlutir hraðar fyrir sig. Lulla skilaði sér glaðbeitt að vörmu spori út úr kjörklefanum og stakk kjörseðlinum í kjörkassann.
Þegar þær stöllurnar voru komnar út og sestar inn í bíl sagði Lulla: "Það er skelfilega ruglingslegt að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki X-S. Það ruglar mann í ríminu að hann sé með einhvern annan staf. Ég var alveg á nálum. Ég var svo hrædd um að kjósa vitlaust út af þessu rugli með stafinn!"
--------------------
Fleiri sögur af Lullu frænku: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1382276/
--------------------
![]() |
Staðgengill borgarstjóra hefur afnot af bíl hans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt 24.5.2014 kl. 15:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.5.2014 | 23:28
Kettir
Kettir eru eina húsdýrið sem valdi sjálft að verða húsdýr. Kettir eru eiginhagsmunaseggir út í eitt. Hjá köttum er ekkert til sem heitir trygglyndi. Allt er á þeirra eigin forsendum út frá þeirra hagsmunum.

Auglýst eftir týndum ketti.

Köttur á priki.

Köttur laumast í inniskó.

Köttur horfir yfir snjóruðning.
Köttur með gorm á höfði.





Vinir og fjölskylda | Breytt 11.5.2014 kl. 13:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
2.5.2014 | 23:27
Lulla frænka og karlamál
Lulla frænka bjó alla tíð ein. Þess á milli dvaldi hún á geðdeildum ýmissa stofnana. Hún nefndi oft hversu fögur hún væri. Sagðist vera svo lík ítölsku leikkonunni Sophiu Loren að fólk þekkti þær ekki í sundur. Lulla nefndi oft að hún hefði verið með fallegasta hár allra í Skagafirði. Sítt, svart og þykkt hár sem allir dáðust að.
Ég geri mér ekki grein fyrir því en ég held að Lulla hafi alveg verið nokkuð myndaleg. Eitt sinn spurði ég hana að því hvort að hún hafi aldrei átt kærasta. "Jú, ég átti kærasta sem hét Óli," svaraði Lulla.
"Hvað varð um hann?" spurði ég: "Hann var vitleysingur," svaraði Lulla og gaf ekkert frekar út á það.
Ég: "Af því að þú varst svona falleg þá hljóta karlmenn að hafa verið stöðugt að reyna við þig."
Lulla: "Já. Þá gaf ég þeim svoleiðis á kjaftinn að þeir reyndu það ekki aftur."
-------------
Fleir sögur af Lullu frænku: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1374813/
Vinir og fjölskylda | Breytt 3.5.2014 kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.4.2014 | 00:31
Lulla frænka og jólaöl
Þegar ég var í Myndlista- og handíðaskólanum á áttunda áratugnum var stranglega bannað að selja bjór á Íslandi (nema á Keflavíkurvelli). Þingheimur taldi bjór vera stórhættulegan drykk sem myndi tortíma mannkyninu. Ég hafði efasemdir og bruggaði dökkan bjór. Líka vegna þess að námslánin dugðu ekki til að ég gæti styrkt ríkiskassann með myndarlegum fjárframlögum í gegnum vínbúðir ÁTVR. Þrautalending var að brugga bjór.
Svo bar við eitt sunnudagskvöld að ég tappaði bjórnum á flöskur. Allt var á kafi í snjó (úti, vel að merkja) og ófærð. Þá birtist Lulla frænka skyndilega í útidyrunum hjá mér. Hún var alveg ónæm fyrir muni á færð og ófærð. Það vissi enginn til þess að hún hefði einhvertíma lent í vandræðum á Skodanum sínum vegna ófærðar. Þó hlýtur það að hafa gerst. Ég hef áður sagt frá því þegar öll umferð lá niðri í Reykjavík vegna brjálaðs veðurs. Allt lamaðist. Fólk komst hvorki til vinnu né í skóla. Öryrkjabíllinn fór hvergi. En Lulla brunaði á sínum bíl frá Skúlagötu til Hvíta bandsins efst á Skólavörðustíg. Og aftur til baka um kvöldið. Eins og ekkert væri.
Jæja, nema það að komin inn á gólf hjá mér rak Lulla augu í bjórinn. Það hýrnaði heldur betur yfir kellu. Hún klappaði saman höndum og hrópaði í fögnuði: "Þetta lýst mér á! Húrra! Ég hef ekki fengið jólaöl frá því að ég var krakki. Nú ber vel í veiði. Ég verð að fá glas af jólaöli hjá ykkur."
Ég vildi ekki upplýsa Lullu um að þetta væri bjór. Lögreglan hafði alltaf töluverð afskipti af Lullu og aldrei að vita hvað hún segði laganna vörðum í ógáti. Það var, jú, ólöglegt að brugga áfengan bjór. Ég brá á það ráð að segja Lullu að ölið væri ókælt og ekki tilbúið til drykkjar. En Lulla var viðþolslaus af löngun og sagði að það gerði ekkert til. Jólaöl væri það besta sem hún fengi hvort sem það væri kælt eða ókælt.
Ég hellti í hálft glas. Lulla skellti því í sig í einum teyg og ískraði af ánægju: "Helltu almennilega í glasið, drengur! Þú átt nóg af þessu. Þetta er sælgæti." Lulla var ekki vön að vera frek. Nú lá rosalega vel á henni. Ég hlýddi. En hafði nettar áhyggjur af þessu. Lulla hafði aldrei bragðað áfengi. Hún hafði óbeit á því.
Lulla drakk frekar hratt úr fulla glasinu og vildi meira. Hún fékk aftur í glasið. Drakk heldur hægar úr því. Að því loknu sagði hún: "Ég er kominn með svima." Hún var orðin þvoglumælt. Ég notaði tækifærið og sagði: "Það borgar sig ekki að drekka meira af ölinu. Það er ekki alveg tilbúið til drykkjar."
Lulla féllst á það. Sagðist ætla að koma sér heim. "Þetta er ekkert óþægilegur svimi," útskýrði hún. "En ég ætla samt heim og leggja mig."
Eftir að hafa kvatt heimilisfólkið og þakkað fyrir sig fór Lulla fram í forstofu og tróð sér í stígvél. Það gekk brösulega. Lulla vaggaði óstöðug yfir stígvélunum og slagaði utan í vegg. "Þetta er furðulegt," tautaði hún. "Það er eins og fæturnir hitti ekki í stígvélin. Ég vona að ég sé ekki að fá matareitrun."
Áhyggjur mínar jukust. Það hvarflaði að mér að hvetja Lullu til að taka leigubíl. Jafnharðan vissi ég að enga leigubíla var að fá í þessari ófærð. Að lokum komst Lulla í bæði stígvélin eftir heilmikið puð. Hún slagaði út í bílinn sinn. Ég fylgdist með út um glugga. Lulla kveikti sér í sígarettu um leið og hún settist inn í bílinn. Hún setti bílinn ekki í gang næstu 40 mínútur. Keðjureykti bara inni í bílnum. Loks ræsti hún bílinn og brunaði af stað í gegnum snjóskaflana.
Þegar ég áætlaði að Lulla væri komin heim til sín hringdi ég í hana. Mér til óblandinnar gleði svaraði hún í heimasímann. Heimförin hafði gengið vel. Ég spurði hvernig sviminn væri. Lulla svaraði: "Hann er notalegur. Ég ætla að leggjast en ekki sofna strax."
---------------------------------------
Fleiri sögur af Lullu frænku: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1371568/
---------------------------------------
Hans klaufi
--------------------------------------
Fyrir þremur áratugum eða svo stýrði Bryndís Schram ofur vinsælum barnatíma Sjónvarpsins. Fjölmiðlakannanir mældu mjög gott áhorf. Það einkennilega var að uppistaðan af áhorfendum voru miðaldra og eldri karlmenn.
Líkt þessu er hlustendakönnun á vinsælum barnatíma í færeyska útvarpinu.

Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2014 | 22:57
Lulla frænka fann upp nýja aðferð
Síðustu árin bjó Lulla frænka á Skúlagötu. Hún var tíður gestur á heimili vinafólks á Leifsgötu. Það er ekki löng akstursleið þar á milli. Eitt sinn hringdi Lulla í mig. Hún var dálítið drjúg yfir því að vera búin að finna upp aðferð til að keyra þessa leið án þess að þurfa að stoppa á leiðinni: "Ég keyri bara mjög hægt alla leið," sagði hún. "Stoppa aldrei. Keyri á jöfnum hraða. Þannig kemst ég alla leið án þess að stoppa."
Ég spurði: "En þegar kemur að ljósunum á Hverfisgötu? Þú verður að stoppa þar ef að það er rautt ljós."
Lulla hélt nú ekki: "Nei, ég keyri löturhægt yfir á rauðu ljósi. Ef að bílar eru fyrir og stopp þá beygi ég framhjá þeim og held áfram. Bílarnir sem keyra upp og niður Hverfisgötuna stoppa þegar þeir sjá að ég held mínu striki yfir götuna. "
--------------------------------
Fleiri sögur af Lullu frænku: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1369024/
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
31.3.2014 | 22:26
Skemmtilegar öðruvísi brúðkaupsmyndir
Brúðkaupsmyndir eru í föstum skorðum. Þær eru yfirleitt teknar af atvinnuljósmyndara. Fagmennska og hefð ráða för. Brúðhjónin stilla sér upp hlið við hlið - eða að konan situr en maðurinn stendur hjá - og eru í sínum fínasta skrúða. Karlar í jakkafötum og skartar blómi í hnappagati á kraganum. Konur í brúðarkjóli og oft með slör. Þau brosa breitt.
Vegna þess hve hefðin er rótgróin og ráðandi þá stinga undantekningarnar skemmtilega í stúf. Þarna er greinilega um utanhússuppstillingu að ræða. Af regnhlífinni að ráða hefur byrjað að rigna. Gretta mannsins og hvernig hann eins og stendur í kút styðja þá kenningu. Konan nær hinsvegar að brosa sínu breiðasta. En hann heldur pönk-kúlinu.
Það er ekkert pönk í hefðbundnu brúðkaupi og hefðbundinni brúðkaupsmynd. Þessi pönkari stígur hálft skref. Hann hefur ekki tímt að fórna hanakambinum heldur flaggar honum með ýktum gulum og grænum lit. Hann er með lokk í neðrivör, hundaól um hálsinn og þar fyrir utan hengilás í grófri keðju. Þó að daman laðist að pönkaranum þá heldur hún sig við borgaralegu hefðina í klæðaburði og brosi.
Þarna er allt samkvæmt hefðinni. Nema þessi Vandetta-gríma sem karlinn ber ásamt sleggju. Ég held að Vandettu-gríman standi fyrir uppreisn og einhverskonar anarkisma. Það er engin uppreisn og enginn anarkismi í hefðbundnu brúðkaupi og hefðbundinni brúðkaupsmynd.
Það er ekki gott að ráða í þetta. Kallinn hampar tveimur rifflum. Konan hylur andlitið algjörlega með slæðu. Ég reyndi að grafast fyrir um uppruna myndarinnar. Án árangurs. Enda með ótrúlega takmarkaða tölvukunnáttu. Mig grunar að myndin sé frá Mið-Austurlöndum - eða þar í grennd. Þar um slóðir er hefð að skjóta úr rifflum upp í loftið í brúðkaupsveislum. Bandarískir hermenn á þessum slóðum eru ekki upplýstir um þessa hefð. Fyrir bragðið slátra þeir heilu brúðkaupsveislunum á einu bretti: Brúðhjónum og gestum þeirra. Í bókhaldi Bandaríkjahers og í fréttatilkynningum er uppátækið skráð sem vel heppnuð árás á skæruliða. Eftir ítrekaðar slátranir á brúðhjónum og gestum þeirra fá bandarískir hermenn orðu, Purple Haze, fyrir djarflega slátrun á skæruliðum.
Algengt er að aukabrúðkaupsmynd sýni brúðhjón skera í sameiningu sneið af brúðkaupstertu. Oftast undir breiðu brosi. Þarna setur konan aftur á móti upp hryllingssvip og karlinn er krítískur á svip.
Algengt er að brúðkaupsmynd sýni brúðhjón kyssast. Ég átta mig ekki á hvað er í gangi með konuna lengst til hægri. Hún heldur á opinni öskju í vinstri hendi og treður með hægri hendi einhverju niður á milli brjósta nýgiftu konunnar.
Sérkennilegustu brúðkaupsmyndir sem ég hef séð eru af parinu sem hafði ekki efni á að kaupa sér föt. Brúðkaupsveislan var svo dýr. Þau létu bara vaða klæðalaus.
Vinir og fjölskylda | Breytt 1.4.2014 kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.3.2014 | 08:20
Lulla frænka um fallega hárið á sér
Lullu föðursystur minni datt margt í hug. Hana rangminnti um suma atburði. Aðra atburði túlkaði hún á sinn hátt. Oft töluvert fjarri raunveruleika. Fáir urðu til að leiðrétta hana. Lulla átti það til að vera sjálfhælin. Samt án rembings eða hroka. Það var einhvernvegin frekar eins og hreinskilni og einlægni.
Þegar ég hóf nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands kom Lulla því að við hvern sem heyra vildi að ég hefði erft teiknihæfileika frá henni. Hún sýndi fólki teikningar eftir sig því til sönnunar. Teikningar Lullu voru líkastar teikningum fjögurra ára barna af Óla priki (punktur, punktur, komma, strik). Teikningarnar áttu að vera af tilteknu frægu fólki. Það var ekki séns að geta sér til um hver var hvaða Óli prik.
Systir Lullu var eiginlega eina manneskjan sem leiðrétti hana og benti á villur. Þær systur voru gestkomandi ásamt mér og fleirum heima hjá systurdóttur mömmu. Systurnar fóru að rifja upp atburði frá æskuárum sínum. Lulla sagði: "Ég var með óvenju fallegt hár sem barn og unglingur. Ég var með fallegasta hár af öllum í sveitinni. Ég var með þykkasta hárið og lengsta hárið. Það var tinnusvart og liðað. Það stirndi á það. Allir dáðust að hárinu á mér."
Lóa systir hennar gerði athugasemd: "Dæmalaus della. Það voru allar stelpur í sveitinni með þykkt og sítt hár. Þitt hár var ekkert öðruvísi en þeirra hár."
Lulla bakkaði ekki. Hún kom með óverjandi gullmola: "Þú getur nú barasta spurt pabba heitinn að þessu. Sumarið áður en hann dó viðurkenndi hann að ég hafi verið með einstaklega fallegt hár sem barn og unglingur."
--------------------------------------------------
Fleiri sögur af Lullu frænku: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1366492/
--------------------------------------------------
Það er skelfilegt að heyra þennan 5 ára gutta segja frá sinni stuttu ævi. Hann segist vera fastur í fangelsi eftir að hafa skotið mann, til þess eins að sjá hann deyja. Það er svo langt síðan guttinn sá til sólar að hann man ekki eftir því.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.3.2014 | 21:53
Lulla frænka forðaði sér
Eins og áður hefur komið fram í upprifjun minni af Lullu frænku þá var hún dugleg að heimsækja systkini sín. Þau bjuggu öll á Norðurlandi en Lulla í Reykjavík. Í heimsóknum sínum norður til systkinanna dvaldi Lulla vikum saman á hverjum bæ. Öllum til mikillar gleði og ánægju. Lulla var svo skemmtileg.
Norðurreisa Lullu fékk óvæntan endi eitt sumarið. Hún mætti til bróðir síns að kvöldi dags. Er leið að háttatíma gekk heimilisfólkið og Lulla til hvílu. Morguninn eftir var Lullu og bíl hennar hvergi að finna. Á þessum árum var símasamband með öðru sniði en í dag. Aðeins var möguleiki á að hringja út fyrir sína sveit í einn eða tvo klukkutíma snemma morguns og eða að kvöldi til. Um kvöldið var gerð tilraun til að hringja í síma Lullu í Reykjavík. Hún svaraði. Sagðist hafa vaknað óvænt snemma nætur. Þá mundi hún skyndilega eftir því að hestalest átti að fara úr Reykjavík norður í land einhverja næstu daga. Lullu hugnaðist ekki að lenda inni í hestaþvögu. Hún spratt þegar í stað á fætur, rauk út í bíl og brunaði suður til Reykjavíkur - án þess að kveðja kóng né prest eða skilja eftir sig orðsendingu. Mikilvægara var að komast hjá hestaþvögunni.
Nú leita ég til þín, kæri lesandi, eftir hjálp við að staðsetja hestalestina - upp á seinni tíma sagnfræði (Bókaforlag hefur óskað eftir því að fá að gefa út sögurnar af Lullu frænku í bókarformi). Þetta var einhvern veginn þannig að hestalest flutti póst á milli landshluta af einhverju sérstöku tilefni. Frímerkjasafnarar sættu lagi, sendu póst og náðu þar póststimpli sem aðeins var notaður í þessari einu póstlest.
------------
Fleiri sögur af Lullu frænku: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1360372/
Vinir og fjölskylda | Breytt 8.3.2014 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
2.3.2014 | 00:35
Lulla frænka og Sophia Loren
Lulla frænka var ekki alltaf fyrirsjáanleg. Hvorki í orðum né gjörðum. Hún átti þrjú systkini á Norðurlandi. Sjálf bjó hún í Reykjavík. Hún var dugleg að heimsækja systkini sín og frændfólk. Dvaldi þá dögum saman hjá hverjum og einum. Það var alltaf mjög gaman þegar Lulla var í heimsókn. Hún skipti sér meira af okkur börnunum en flest annað fullorðið fólk. Spjallaði mikið við okkur alveg frá því að við lærðum að tala. Hún söng fyrir okkur í ítölskum óperustíl og jóðlaði heilu ósköpin. Hún kenndi okkur að húlla. Það var einhverskonar dans með stórri gjörð um mittið.
Lulla sagðist vera ein örfárra Íslendinga sem kynni að jóðla og kynni tökin á húlla. Gat sér til um að hún væri flinkasti húlla-dansari Íslands. Kannski var það rétt hjá henni. Við höfðum engan samanburð. Nema, jú, við krakkarnir gáfum henni lítið eftir þegar á reyndi. Kannski er húlla-hæfileikinn ættgengur.
Lulla taldi sig vera tvífara þekktrar ítalskrar leikkonu, Sophiu Loren. Henni dauðbrá, að sögn, stundum þegar hún leit í spegil. Í speglinum blasti við andlit Sophiu Loren. Hana grunaði sterklega að þegar hún væri á gangi niðri í bæ þá héldi fólk að þar færi Sophia Loren.
Lulla vissi ekki til að þær Sophia Loren væru skyldar. Engu að síður taldi hún augljóst að um æðar sér rynni suðrænt blóð. Hún gat ekki staðsett hvort hún væri af ítölskum, frönskum eða spænskum ættum. Það kom til greina að eiga ættir að rekja til allra þessara landa. Með orðum Lullu: "Sennilega er ég komin af einhverju fínu fólki í þessum löndum." Vísbendingarnar sem hún hafði fyrir sér voru meðal annars þær að þegar hún hélt á bolla þá lyftist litli putti ósjálfrátt út í loftið. Einnig skar hún skorpuna af smurbrauðsneiðum og leifði skorpunni. Hvorutveggja einkennandi fyrir kónga og annað fyrirfólk í suðrænum löndum, að sögn Lullu.
Lulla var svarthærð með svartar augabrúnir og stór augu. Með einbeittum vilja mátti merkja að eitthvað væri svipað með andlitsdráttum þeirra Sophiu Loren. En þær voru ekki tvífarar. Það var lítil hætta á að fólk ruglaði þeim saman.
Á æskuheimili mínu, sveitabæ í útjaðri Hóla í Hjaltadal, var oft fjölmennt á sumrin. Einkum í sumarfrísmánuðinum júní. Þá komu ættingjar og vinir foreldra minna í heimsókn. Flestir stoppuðu í marga daga eða vikur. Foreldrum mínum og okkur krökkunum þótti þetta rosalega gaman. Þegar best lét voru hátt í 30 næturgestir til viðbótar við 9 heimilisfasta. Þá var slegið upp tjaldi úti á hlaðvarpanum. Jafnframt man ég eftir tilfellum þar sem við nokkrir krakkar sváfum úti í hlöðu. Það var mikið ævintýri og góð skemmtun.
Lulla var eitt sinn í heimsókn þegar gestum fjölgaði. Einhverra hluta vegna var hún ósátt við það. Hugsanlega fannst henni þrengt að svefnstað sínum. Mér dettur það í hug vegna þess að hún tók upp á því að vaka fram á nótt eftir að aðrir voru lagstir til hvílu. Hún sat þá alein í eldhúsinu, drakk svart kaffi og keðjureykti.
Snemma nætur renndi nýr bíll í hlað. Lulla spratt til dyra. Úti fyrir stóð vinafólk okkar, langt að komið. Daginn eftir tilkynnti Lulla okkur að hún hafi verið snögg að snúa þessu fólki við. Hún hafi sagt þeim að það væri ekki smuga á næturgistingu fyrir þau. Það væri þvílíkt stappað að fjöldi manns svæfi á eldhúsgólfinu og sjálf þyrfti hún að sofa í baðkarinu.
Hvorutveggja var ósatt. Það svaf enginn í eldhúsinu og því síður í baðkarinu. Næturgestir voru ekkert það margir í þetta skiptið þó að þeir væru margir. Það var alveg pláss fyrir fleiri. Foreldrum mínum þótti miður að Lulla hefði vísað vinafólkinu á brott. Fannst samt fyndið að Lulla skyldi skrökva þessu með baðkarið. Lullu þótti ekkert fyndið við það. Hún sagði alvörugefin: "Þetta var það eina sem mér datt í hug. Og það hreif. Fólkið snéri við í dyrunum og fór. Ég fór að sofa og hef sjaldan sofið betur."
--------------------------------
Meira af Lullu frænku: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1358050/
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)