Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Lulla frænka og bíllinn hennar í vonsku veðri

  Lulla frænka, föðursystir mín, átti það til að vera óþarflega neikvæð út í hlutina.  Þegar sá gállinn var á henni miklaði hún það neikvæða fyrir sér.
  Einu sinni sem oftar var verið að útskrifa Lullu af geðdeild.  Í þetta skipti dvaldi hún stutt á deildinni í kjölfar þess að hafa tekið inn of stóran skammt af pillum.
  Fullorðin frænka okkar bauð Lullu að búa heima hjá sér á meðan hún væri að ná áttum.  Frænkan bjó í stóru húsi.  Börnin flutt að heiman og nóg pláss.  Hún bauð Lullu að hafa risið út af fyrir sig.  Þar voru tvö kvistherbergi og sér baðherbergi. 
  Komin inn til frænku okkar hringdi Lulla í mig.  Erindið var að hana vantaði bílinn sinn.  Hann stóð á Skólavörðuholti.  Lulla vildi hafa hann nær sér þó að hún væri of slöpp til að aka á næstunni.
  Ég spurði Lullu hvort að ekki færi vel um hana hjá frænkunni.  Nei,  Lulla sagðist vera nánast í spennitreyju þarna í risinu.  Það væri svo þröngt að hún gæti varla snúið sér við öðruvísi en að rekast í allt.
  Þetta kom mér á óvart.  Þarna höfðu börnin á heimilinu alist upp og að því er manni skildist við góðan kost.  Ég leyndi ekki undrun minni:  "Nú?  Eru þetta ekki alveg tvö herbergi sem þú hefur til umráða og baðherbergi?"
  Það hnussaði í Lullu:  "Ég get ekki kallað þetta herbergi.  Þetta eru skápar.  Þú sérð það þegar þú sækir bíllyklana til mín."
  Ég sótti bíllyklana og við blöstu rúmgóð herbergi.  Hvort um sig 10 - 12 fm. "Þetta eru engir skápar,"  sagði ég.  "Þetta eru virkilega fín herbergi."
  Lulla gaf sig ekki:  "Ég þakka guði fyrir að vera ekki hærri í loftinu en þetta.  Stærri manneskja yrði að skríða eftir gólfinu til að athafna sig í þessum skápum."  Lulla benti á hallandi kvistloftið þar sem lægst var til lofts, ranghvolfdi augunum og hristi hneyksluð höfuðið.  Stærsti hluti herbergjanna var með fullri lofthæð.  Lulla var rösklega meðalmanneskja á hæð.  Það var vel rúmt um hana þarna og miklu stærri manneskja hefði ekki þurft að kvarta undan þrengslum. 
  Þegar ég sótti bílinn hennar kom ég að honum með báðar framdyr opnar.  Næstum því upp á gátt eða rúmlega að hálfu.  Þannig hafði bíllinn staðið í marga daga.  Kannski hálfan mánuð eða eitthvað.  Það var furða að hvorki börn né útigangsmenn hefðu lagt bílinn undir sig.  Sennilega bjargaði langvarandi frostharka og kuldatíð því að fáir áttu gönguleið um holtið.  Aðeins hafði fennt framan á bílinn.  Það var dálítill snjór innan í honum.  Ekki samt meiri en svo að lítið mál var að moka honum út með höndunum. 
  Er ég skilaði bílnum og lyklunum til Lullu spurði ég hana út í opnu dyrnar.  Lulla horfði stórum augum á mig undrandi yfir skilningsleysi mínu:  "Ég vil ekki að hurðirnar frjósi fastarEf það gerist þá kemst ég ekki inn í bílinn."   
---------------------------------
Hér er hægt að rekja sig áfram í gegnum fleiri sögur af Lullu frænku:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1351524/
---------------------------------
Yoko Ono þykir - eins og öðrum - söngkonuna Adele skorta flest til að koma söngvum sómasamlega til skila.  Yoko tók sig til á dögunum og hélt sýnikennslu fyrir Adele um það hvernig á að gera þetta.  Spennandi verður að vita hvort að kennslan komst nógu vel til skila þannig að Adele sendi frá sér frambærilega sungið lag í framtíðinni. 
 

   

mbl.is Fundu mannlausan bíl í gangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lulla frænka og jólin - 2. hluti

hangikjöt og uppstúf 

  Lulla frænka var góður kokkur.  Það var gaman þegar hún bauð í mat.  Þá var alvöru veisla.  Ein jólin bauð hún mér og minni frú,  svo og systir minni og hennar manni, í hangikjöt á annan í jólum.  Á miðju stofugólfi stóð reisulegt jólatré,  glæsilega skreytt í bak og fyrir.  Lulla hóf þegar að leggja á borð í stofunni.  Systir mín settist í stakan stól með háu baki.  Skömmu síðar steyptist hún út í kláða á bakinu og kvartaði undan því.  Lulla útskýrði það eins og ekkert væri sjálfsagðra:  

  "Það er út af englahárinu.  Ég slétti það út á stólbakinu áður en ég setti það á jólatréð.  Það er svo voðalega mikið af glerflísum í englahárinu.  Þess vegna glitrar það svona fallega á jólatrénu."

  Vissulega var rétt hjá Lullu að englahár var samsett úr bómull og glerflísum.  Þess vegna gætti fólk þess að láta englahárið ekki snerta neitt nema jólatré.  Ég held að englahár sé ekki lengur selt.  En kláðinn hélt áfram að angra systir mína þó að hún skipti þegar í stað um sæti.  Kláðinn eyðilagði dálítið fyrir henni kvöldi. 

  Lulla frænka var ekki nísk þegar hún bauð í mat.  Alls ekki.  En hún var barnslega opin og hreinskilin.  Þegar hún bar á borð fat með nýsoðnu hangikjöti kallaði hún til okkar:

  "Sjáið þessa örfáu hangikjötsbita.  Hvað haldið þið að þeir hafi kostað?  Ég veit að þið getið ekki giskað á það.  Þeir eru miklu dýrari en þið haldið.  Mér alveg krossbrá þegar ég sá verðið.  Það lá við að ég hætti við að kaupa þá.  Ég hefði hætt við það ef ég hefði ekki verið búin að bjóða ykkur í hangikjöt."

  Lulla frænka upplýsti okkur um verðið á hangikjötsbitunum.  Það var hátt.  Þetta var 1977.  Ég man ekki upphæðina.  Við gestirnir fengum nett samviskubit yfir að að setjast við veisluborðið upplýst um þessi útgjöld fátæks öryrkja.  Það var ekki ætlun Lullu.  Hún var ætíð höfðingi heim að sækja og í engu til sparað.  Fimm manna veisluborðið hefði mettað fjölmennari hóp og samt verið nóg eftir.

  Í annað sinn bauð Lulla frænka sama hópi í glæsilega kjötbolluveislu.  Kjötbollurnar hennar voru hnossgæti.  Þegar allir höfðu borðað sig pakksadda og lagt frá sér hnífapör hvatti Lulla til frekara áts:

  "Fáið ykkur endilega meira.  Nóg er til.  Þetta eru góðar kjötbollur,  þó að ég segi sjálf frá."

  Mágur minn,  stór og mikill,  ýtti frá sér disknum og sagði:  "Þetta eru bestu kjötbollur sem ég hef smakkað.  Ég er áreiðanlega búinn að torga 10 eða 12 og er gjörsamlega sprunginn."

  Lulla leiðrétti hann:  "Nei,  þú ert búinn að borða sjö."   

----------------------------

  Fyrri hluti af jólum Lullu frænku: 

---------------------------
Hjarðhegðun:
hjar_heg_un.jpg

 

   

  


Lulla frænka á jólunum

  Jól og áramót voru Lullu frænku oft erfið andlega.  Stundum fór hún svo langt niður á milli jóla og nýárs að hún var vistuð inni á Klepp eða geðdeild Borgarspítalans.  Læknar sögðu hana upplifa einsemd sterkar á þessum árstíma en oftast annars.  Jólin eru svo mikil barna- og fjölskylduhátíð.  Engu að síður voru ættingjar og vinir Lullu duglegir að senda henni jólakort, jólagjafir og hringja í hana.  Henni var líka boðið í jólakaffi og jólamat.  Hún fékk einnig heimsóknir.  

  Ég veit ekki hvort eða hvernig það spilaði saman við annað að Lulla var mjög óánægð með nánast allar jólagjafir sem henni bárust.  Það átti hún sameiginlegt með föður sínum,  afa mínum.  

  Þegar ég heimsótti hana um jól þá sýndi hún mér jólagjafirnar með útskýringum:

  "Foreldrar þínir gáfu mér þennan náttlampa.  Ég skil ekki hvernig þeim datt það í hug.  Ég er ekki með neitt náttborð.  Ég les aldrei uppi í rúmi.  Ég get hvergi haft lampann nema á eldhúsborðinu.  Þar er hægt að stinga honum í samband.  En það hefur enginn náttlampa á eldhúsborðinu.  Ég verð að athlægi.  Náttlampinn er bara til vandræða.  Ekkert nema vandræða."

  Og:  "Frænka þín gaf mér þessa bók.  Ég er ekki með neina bókahillu.  Ég hef enga aðstöðu fyrir bækur.  Alveg dæmalaust að einhverjum detti í hug að gefa mér bók."

  Ég:  "Það eru allir að tala um að þessi bók sé mjög skemmtileg."

  Lulla:  "Já,  það má hafa gaman af henni.  Ég hef gluggað í hana.  En ég er í algjörum vandræðum með að leggja hana frá mér.  Eini staðurinn sem ég get lagt hana frá mér er svefnherbergisgólfið.  Það geymir enginn bækur á gólfinu.  Bókin er alveg fyrir mér á gólfinu þegar ég skúra."

  Fljótlega eftir að ég flutti til Reykjavíkur reyndi ég að gleðja Lullu frænku með jólagjöfum.  Mér tekst ekki að rifja upp hvað varð fyrir valinu.  Aftur á móti man ég að Lulla setti út á valið.  Ég kippti mér ekkert upp við það.  Þekkti viðbrögðin,  bæði hjá henni og afa.  Þau áttu það jafnframt sameiginlegt að taka sumar gjafirnar síðar í sátt.  Og jafnvel verða ánægð með þær.  

  Í tilfelli afa voru upprunalegu óánægjuviðbrögð hans útskýrð af foreldrum mínum sem spennufall.  Hann hlakkaði alltaf svo rosalega mikið til jólanna að þegar hann pakksaddur eftir aðfangakvöldsveisluna fór að taka upp pakka þá réði taugakerfið ekki lengur við spennuna.  Hann hafði allt á hornum sér gegn öllum jólapökkum sem hann fékk.  Ég tel að foreldrar mínir hafi haft rétt fyrir sér með spennufallið.

  Ég veit ekki hvort að sama skýring nær yfir viðbrögð Lullu.  Ég varð ekki var við sama spenning hjá henni fyrir jólunum og hjá afa.  Kannski er það ekkert að marka.  Lulla var á allskonar lyfjum og synti áfram í rólegheitum í vímu þeirra meðala sem hún tók inn.  

  Þegar ég kvæntist áttaði konan sig fljótlega á því hvaða jólagjöf gæti glatt Lullu.  Konan vann í sjoppu.  Hún smalaði saman í stóran pakka þverskurð af sælgætinu í sjoppunni.  Þetta hitti í mark.  Lulla hringdi í mig á jóladag og lék við hvurn sinn fingur.  Hún skammtaði sér hóflegan skammt fyrir hvern dag.  Naut hvers bita og náði að láta nammið endast yfir marga daga.  

  Á annan í jólum hringdi Lulla aftur í mig.  Hún hafði fundið súkkulaðistykkjum á borð við Bounti og Snickers nýtt hlutverk.  Hún skáskar stykkin þannig að hver sneið leit út eins og tertusneið:  Þykk í annan endann og örþunn í hinn endann.  Lulla sagði:

  "Ég raða sneiðunum á lítinn disk.  Örfáum í einu.  Fjórum sneiðum eða fimm.  Svo geymi ég diskinn inni í ísskáp.  Í kaffitíma helli ég mér í kaffibolla og næ í diskinn.  Þá þykist ég vera með alvöru tertusneiðar.  Fæ mér bita af þeim með litlum gaffli.  Litla bita.  Þetta er svo gaman.  Sneiðarnar líta út alveg eins og alvöru tertusneiðar með kremi og öllu."  

------------------------------------

Meira af Lullu frænku:   http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1335376/


Lulla frænka í umferðinni

  Lulla frænka var tíður gestur á tilteknu bílaverkstæði.  Aðallega var gert við smádældir sem einkenndu iðulega bílinn hennar.  Hún rauk ekki með bílinn á verkstæði þó að ein og ein dæld og rispa bættist við.  Það var ekki fyrr en ljós brotnuðu líka eða stuðari losnaði eða eitthvað slíkt bættist við.

  Á meðan gert var við bílinn sat Lulla inni í honum og fylgdist með.  Hún skráði af nákvæmni í bók hvenær vinna við bílinn hófst og hvenær henni lauk.  Í hvert sinn sem viðgerðarmaður brá sér frá í kaffi,  mat,  síma (þetta var fyrir daga farsíma) eða annað þá tók Lulla tímann og skráði niður.  Með þessu afstýrði Lulla því að vera rukkuð um of.  Hún taldi sig merkja einbeittan vilja verkstæðisins til ofrukkunar.  Það réð hún meðal annars af því hvað starfsmenn þar lögðu hart að henni að koma út úr bílnum;  bíða frekar á kaffistofunni hjá þeim eða þá að þeir buðust til að skutla henni heim.   Lulla lét ekki plata sig.  Þó að viðgerð tæki 2 eða 3 daga þá var hún mætt í bílinn sinn á slaginu klukkan 8 að morgni og stóð vaktina til klukkan 18.00.     

  Afturendinn á bíl Lullu varð helst fyrir hnjaski.  Ég uppgötvaði einn daginn hvernig á því stóð.  Þannig var að Lulla bjó í bakhúsi við Laugaveg.  Að húsinu lá nokkurra metra löng innkeyrsla.  Við húsið lagði Lulla bíl sínum.  Pláss var ekki nægilegt til að snúa bílnum þarna.  Það þurfti að bakka til baka og út á Laugaveg þegar ekið var frá húsinu.  

  Svo vildi það til að ég var farþegi hjá Lullu er hún ók að heiman.  Hún leit ekki aftur fyrir sig né í spegla á meðan hún bakkaði út á Laugaveginn.  Þess í stað horfði hún aðeins fram fyrir sig og reykti af ákafa.  Hún bakkaði bílnum löturhægt á bíl sem ók niður Laugaveginn.  Hvorugur bíllinn varð fyrir eiginlegum skaða.  En það voru skrifaðar tjónaskýrslur.  Að því loknu nefndi ég við Lullu að hún þyrfti að gá aftur fyrir sig áður en hún bakki út á Laugaveginn.  Hún yrði að ganga úr skugga um að enginn bíll sé fyrir á Laugaveginum.  

  Lulla svaraði í rólegheitum:  "Nei,  ég hef prófað það.  Þá þarf maður að bíða svo lengi.

  Fleiri sögur af Lullu frænku:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1332896/


Forvitnilegir fróðleiksmolar um þakkargjörðardaginn

  Öldum saman út um allan heim hafa bændur fagnað uppskerulokum með veisluhöldum.   Á mínum uppvaxtarárum í Skagafirði var veislan kölluð töðugjöld.  Ég hef grun um að töðugjöld hafi lagst af eftir að heyskapur vélvæddist gróflega.  
  Önnur íslensk uppskeruhátíð,  slægjur,  lagðist af um þarsíðustu aldamót.  Við af slægjum tók almennt skemmtanahald sem kallast haustfagnaður.  Með því að smella á eftirfarandi slóð má lesa um elstu heimild um slægjurhttp://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1331030/
.
sara pálína og uppskeruhátíðin
.
  Í Norður-Ameríku fögnuðu frumbyggjar, indíánar,  haustuppskerunni með kalkúnaveislu löngu áður en þeir kynntust evrópskum nýbúum.   
  Á 17. öld flúði hópur breskra pjúritana undan trúarofsóknum til Norður-Ameríku.  Indíánar kenndu þeim að rækta korn og koma því í hlöðu fyrir veturinn.  Indíánarnir kenndu þeim matreiðslu.  Þar á meðal að matreiða kalkúna.       
  Um haustið héldu indíánarnir og ensku pjúritanarnir sameiginlega uppskeruhátíð.  Pjúritanarnir þekktu til hliðstæðrar uppskeruhátíðar meðal mótmælendatrúar á Englandi.  Fyrstu árin sem indíánar og pjúritanar héldu sameiginlega uppskeruhátíð var veislan einfaldlega kölluð uppskeruhátíð.  Löngu síðar var farið að kalla hana þakkargjörðardag.   
.
  Þakkargjörðardagur hafði þá verið haldinn hátíðlegur árlega í Kanada frá því á 16. öld.  Þar var ekki um uppskeruhátíð að ræða heldur fögnuð enskra sæfara yfir því að hafa náð landi í Kanada eftir miklar hrakningar á sjó.   
  Franskir nýbúar í Kanada héldu hinsvegar uppskeruhátíð. 
.
  Á 19. öld varð uppskeruhátíðin,  þakkargjörðardagurinn,  opinber frídagur í Kanada og Bandaríkjunum.  Í Kanada er hann annan mánudag í október.  Í Bandaríkjunum er hann síðasta fimmtudag í nóvember. 
  Víða um heim er uppskeruhátíðin kennd við þakkargjörð. 
  Í Þýskalandi er uppskeruhátíðin kölluð emtedankfest (þakkargjörðarhátíð).  Hluti af hátíðarhöldunum er bjórhátíðin Oktoberfest.
  Í Grenada er þakkargjörðardagurinn 25. október opinber frídagur.  Uppruni hans er að minnsta kosti jafn gamall og uppskeruhátíðirnar í Kanada og Bandaríkjunum.
  Í Japan heitir dagurinn verkalýðs-þakkargjörðardagurinn.  Hann er opinber frídagur 23. nóv.
  Í Líberíu er þakkargjörðardagurinn fyrsta fimmtudag í nóvember.
  Þannig mætti áfram telja.
.
  Íslenskar verslanir og veitingastaðir hafa valið bandaríska þakkargjörðardaginn sem fyrirmynd.  Bæði dagsetninguna, kalkúnann og meðlætið.  Það sem vantar inn í íslensku útgáfuna er að í Kanada og Bandaríkjunum er þakkargjörðarhelgin samverustund stórfjölskyldunnar.  Safnast er saman heima hjá ættarhöfðingjum fjölskyldunnar (nema um annað sé samið).  Hefðin er svo sterk að þeir yngri ferðast um langan veg til að sameinast stórfjölskyldunni. 
 
  Annar bandarískur siður, tengdur þakkargjörðarhelginni,  er svarti föstudagurinn.  Hann er að ryðja sér til rúms hérlendis.  Hann er daginn eftir þakkargjörðardaginn.  Þá byrja jólainnkaup með látum.  Verslanir bjóða upp á verulegan afslátt.  Lengst af voru verslanir opnaðar snemma á föstudeginum.  Á allra síðustu árum hefur opnunartíminn færst sífellt framar.  Undanfarin ár hefur verið miðnæturopnun aðfaranætur föstudags.  Í ár þjófstörtuðu verslanir að kvöldi þakkargjörðardags.  
 
  Trix verslananna er að bjóða aðeins örfá eintök af hinum ýmsu vörum á veglegu afsláttarverði.  Þetta skilar sér í því að múgurinn safnast saman fyrir framan verslanirnar mörgum klukkutímum fyrir opnun.  Þegar opnað er verður allt brjálað.  Fólk slæst,  stingur hvert annað með hnífum.  kýlir,  brýtur bein og er æst.  Öryggisverðir standa í ströngu.  Það hentar Íslendingum vel að troðast út af lækkuðu verði á minnislykli úr 980 kr. í 890 kr.         
 



mbl.is Kalkúnninn sprakk í loft upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar Lulla frænka fór til útlanda

  Lulla frænka hélt að hún væri altalandi á dönsku og ensku.  Það var misskilningur.  Að vísu kunni hún nokkur orð í þessum tungumálum.  En hún var ekki með réttan skilning á þeim öllum.  Til að mynda hélt hún að "spiser du dansk?" þýddi "talar þú dönsku?" (í stað "borðar þú dönsku?").  Þetta kom ekki að sök.  Útlendingar urðu lítið sem ekkert á vegi Lullu frænku.  Þangað til eitt árið að hún fór í utanlandsreisu með skipi.  Það var til Englands og Hollands. 

  Í Hollandi keypti Lulla helling af litlum styttum af vindmillum.  Þær fengu ættingjar í jólagjöf næstu ár.  Fallegar og vel þegnar litlar skrautstyttur.  Í Englandi keypti Lulla fátt.  Ástæðan var tungumálaörðugleikar.  Lulla sagði þannig frá:

  "Það kom mér á óvart hvað Englendingar eru lélegir í ensku.  Það var ekki hægt að ræða við þá.  Þeir skilja ekki ensku.  Ég reyndi að versla af þeim.  Það gekk ekki neitt.  Hollendingar eru skárri í ensku.  Samt eru þeir líka óttalega lélegir í ensku.  En mér tókst að versla af þeim með því að tala hægt og benda á hluti."

----------------------

  Fleiri sögur af Lullu frænku:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1330749/


Lulla frænka og lögreglan

  Lulla frænka var það sem kallast "góðkunningi lögreglunnar".  Ekki vegna þess að hún væri í neinum afbrotum.  Það var hún ekki.  Alls ekki.  Ekki þannig lagað.  Lulla frænka var strangheiðarleg.  Hitt er annað mál að hún hafði annan skilning á umferðarlögum en flestir.  Hún tók lítið mark á umferðarljósum,  umferðarskiltum og öðru slíku.  Hún var svipt ökuréttindum.  Það breytti engu.  Hún ók eftir sem áður.  Svo fékk hún ökuskírteinið aftur.  Á sjöunda og áttunda áratugnum var mun meira umburðarlyndi gagnvart því að ökumenn túlkuðu umferðarlög frjálslega en er í dag. 

  Á þessum árum voru gangandi lögregluþjónar áberandi á gatnamótum.  Einkum í miðbænum.  Þegar Lulla ók yfir á rauðu ljósi eða virti ekki stöðvunarskyldu hlupu lögregluþjónarnir á eftir bíl Lullu og veifuðu ákaft.  Lulla veifaði á móti og flautaði til að endurgjalda þessa vinalegu kveðju frá þeim.  Hún var upp með sér af því:  "Ég er í miklu uppáhaldi hjá lögreglunni.  Hvert sem ég keyri þá veifa og veifa lögregluþjónarnir mér eins og ég sé gömul skólasystir þeirra eða eitthvað."   

  Þegar ég var í heimavistarskóla á Laugarvatni fékk ég einstaka sinnum bæjarleyfi.  Þá heimsótti ég alltaf Lullu frænku.  Það var svo gaman.  Í einu bæjarleyfi fékk ég Lullu til að skutla mér og Viðari Ingólfs frá Reyðarfirði,  skólabróður mínum,  á hljómleika í félagsmiðstöðinni Tónabæ.  

  Á leiðinni ókum við frammá mann sem gekk yfir merkta gangbraut.  Lulla sló hvergi af né beygði framhjá manninum.  Hún ók harkalega utan í hann.  Hann flaug í götuna.  Mér var brugðið og hrópaði í undrun og taugaveiklun á Lullu:  "Þú keyrðir manninn niður!"  

  Ég ætlaðist til að Lulla stöðvaði bílinn svo við gætum hugað að slösuðum manninum.  Lulla ók áfram og svaraði sallaróleg eins og ekkert væri eðlilegra:  "Hann á náttúrulega ekkert með það að vaða svona í veg fyrir umferðina."  

----------------------------

Fleiri sögur af Lullu frænku:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1328591/


mbl.is „Hef ekkert á móti lögreglunni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lulla frænka komst í hann krappan

  Lulla frænka var stundum á dagdeild stofnunar sem heitir Hvítabandið á Skólavörðustíg.  Öryrkjabíll sótti hana á morgnana og hún föndraði þarna yfir daginn.  Bjó til ávaxtaskálar úr trépinnum samskonar þeim sem eru í íspinnum.  Og eitthvað svoleiðis.  Þessar skálar og fleira dót gaf Lulla í jólapakka.  Um kvöldið var Lullu ekið heim til sín.  Hún talaði um þetta sem vinnuna sína.

  Einn daginn gerði brjálað veður.  Kafaldsbylur og gríðarleg niðurkoma lamaði allt höfuðborgarsvæðið.  Það var ófært.  Fólk komst ekki til vinnu.  Skólastarf og bara allt lagðist niður.  Það sá ekki handaskil utan húss.

  Um kvöldið hringdi Lulla í mig og sagði:  "Ég lenti í þvílíku puði í dagÖryrkjabíllinn sótti mig ekki í vinnunaÉg varð sjálf að keyra í Hvítabandið."

  Ég skil ekki hvernig henni tókst það.  Hún var ekki góður bílstjóri og átti gamlan Skoda.

  Lulla hélt áfram:  "Ég þurfti að gera allt á Hvítabandinu.  Ég þurfti að sjá um símann.  Ég þurfti að hella upp á kaffið og ég þurfti að sjá um allar kaffiveitingar.  Ég þurfti að leggja á borð, setja í uppþvottavélina og ganga frá. Það lenti öll vinna á mér.  Ég þurfti að sjá um alla föndurvinnu.  Ég var alein þarna.  Sem betur fer hringdi síminn aldrei.  Ég kann ekkert á símkerfið.  Ég hefði lent í vandræðum ef einhver hefði hringt."  

hri.jpg

---------------------------------

Fyrri færslur um Lullu frænku:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1326639/ 

   

  


Lulla frænka - II

  Um daginn kynnti ég til sögunnar á þessum vettvangi Lullu,  föðursystur mína.  Áður en lengra er haldið ráðlegg ég þér að fletta upp á þeirri færslu svo ég þurfi ekki að endurskrifa þá kynningu:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1301441/

  Lulla átti það til að hafa allt á hornum sér gagnvart tilteknum manneskjum.  Það þurfti lítið sem ekkert til.  Þá málaði Lulla upp sterka og neikvæða mynd af viðkomandi og ýkti verulega allt sem að þeim snéri.  Þetta átti einungis við um fólk sem var Lullu alls óskylt og ótengt fjölskylduböndum. 

  Í gegnum svilkonu sína kynntist Lulla systrum sem bjuggu saman.  Lulla tók upp á því að heimsækja þær af og til.  Ekki mjög oft.  Kannski 3 - 4 sinnum á ári.  Systurnar voru afskaplega gestrisnar og lögðu á borð fyrir gesti veglega veislu.  Þær vissu að Lulla eldaði sjaldan eða aldrei heitan mat fyrir sig eina heima fyrir.  Þess vegna lögðu þær sig fram um að tína til og útbúa heitan mat handa Lullu - þrátt fyrir að hún kæmi ætíð í heimsókn utan matmálstíma.

  Eitt sinn kom Lulla í heimsókn til svilkonu sinnar.  Það var ólund í Lullu.  Hún hóf upptalningu á öllu því sem henni datt í hug systrunum til vansa.  Svilkonan brást til varnar og sagði hvasst:  "Að þú skulir leyfa þér að tala illa um systurnar.  Þær hafa aldrei sýnt þér annað en vinsemd.  Þú ert ekki fyrr komin inn úr dyrum hjá þeim en þær eru farnar að tína til allt það besta matarkyns sem þær eiga og útbúa veislumáltíð fyrir þig."

  Það hnussaði í Lullu af vandlætingu og hún sagði:  "Þær nota mig nú bara fyrir ruslafötu.  Henda í mig leifunum!"

 matardiskur.jpg 


Það er svo undarlegt með unga menn í bakgrunni

  Það er ekki alltaf nægilegt að "pósa",  stilla sér upp fyrir ljósmyndatöku.  Það þarf að hyggja að fleiru.  Til að mynda öðru fólki.  Fólkinu í bakgrunni sem veit ekki af fyrirhugaðri myndatöku.  Það er sérlega skætt.  En það er jafnframt það sem gerir marga ljósmyndina bráðskemmtilega þegar betur er að gáð. 

fur_umynd5.png   Manninum í bakgrunninum er greinilega illa brugðið við að sjá tvær huggulegar dömur kyssast innilega.  Hann gapir af undrun og augun standa á stiklum. 

fur_umynd4.png

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Hvað er maðurinn í bakgrunni að gera?  Miðað við hvernig skyrtubolurinn lyftist og hvernig lúkurnar snúa virðist sem gaurinn sé í frjálsu falli.  Ég hef séð mann drepast áfengisdauða á nákvæmlega þennan hátt.

 

   Drengurinn neðst til vinstri á myndinni virðist vera að leita að einhverju sem hann hefur týnt.

fur_umynd3.png   

 

 

 

 

 

 

   Maðurinn montar sig af upphandleggsvöðvunum.  Stelpan tekur ekki eftir því.  Enda upptekin við að kasta upp.

 furðumynd2

  Hvað ergir drenginn?  Varla er bjórinn svona vondur.

fur_umynd1.png


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband