Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
28.6.2011 | 22:55
Reglur fyrir konur
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.6.2011 | 02:58
Þannig á að sjóða spaghetti
Það er alveg merkilegt hvað fólki gengur illa að læra að sjóða spaghetti (eða pasta eða núðlur eða hvað á að kalla fyrirbærið). Flestir falla í þá gryfju að sjóða það í saltvatni: 2 skeiðar af salti út í 3 lítra af vatni. Eða eitthvað svoleiðis. Besta aðferðin er að sleppa saltinu en nota þess í stað einn sprækan súputening. Spaghettið bragðast ólíkt betur. Það bragðast svo vel að hægt er að halda fjölmennar veislur með spaghetti eitt á boðstólum. Ekki neitt annað. Nema kannski tvær flöskur af kældu hvítvíni á kjaft.
Annar kostur við súputening er að hann inniheldur miklu lægra hlutfall af salti en 2 skeiðar af borðsalti. Almennt neytir fólk of mikils salts í fæðu yfir daginn. Það er óhollt. Skrúfar upp blóðþrýsting og fer illa með hjarta, æðar, nýru og fleira. Það hefur vond áhrif á astma og veldur beinþynningu. Bara svo fátt eitt sé nefnt.
8 grömm af salti á dag er hámark fyrir fullorðna manneskju. Súputeningur er málið.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
5.6.2011 | 21:34
Skúbb! Íslensk kryddblanda slær í gegn í útlöndum
Allir íslenskir gæðakokkar, hvort sem þeir eru ómenntaðir leikmenn eða hámenntaðir fagmenn, þekkja kryddblönduna Best á lambið og systurkryddblöndur hennar: Best á fiskinn, Best á kjúklinginn, Best á borgarann, Best á svínið, Best á kalkúninn, Best á nautið og hvað þetta heitir allt saman. Þessar kryddblöndur hafa notið gífurlegra vinsælda hérlendis undanfarin ár.
Nú hefur hróður kryddblöndunnar Best á lambið borist til Færeyja. Hún hefur slegið í gegn þar. Eða eins og Færeyingar orða það:
Íslendsk kryddblanding ger innrás í Føroyum
Seinastu tíðina hevur verið gjørligt at keypt íslendsku kryddblandingarnar Krydd á lambið í summum handlum í Føroyum, men í framtíðini skal hetta gerast enn lættari. Íslendsku framleiðararnir hava verið í Føroyum á sjarmuferð, og við sær hava tey ikki bara havt vælumtókta Lambakryddið, men heili seks ymisk sløg.
Søgan um íslendsku kryddblandingina tók dik á seg í 2001, eftir at Stefán Halldórsson undanfarnu árini hevði eksperimenterað við at blanda krydd, sum var serliga væl hóskandi til lambskjøt. Í 2001 hitta hann Hjördís Andrésdóttir, sum átti ein handil í Skerjafirði, og saman skipaðu tey framleiðsluna av kryddblandingini, soleiðis at hetta arbeiði nú hevur yvirtirkið bæði handil og alt annað arbeiðslív hjá teimum báðum.
KRADDAÐU KRYDD
So tað, sum byrjaði við, at vinfólk og familja hjá Stefáni kraddaði sær eitt sindur av kryddi, tá tey skuldu gera okkurt serligt til náttara, er í dag vaksið til eina veruliga framleiðslu-fyritøku.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.6.2011 | 23:59
Bráðskemmtileg matarveisla
Nýverið tapaði kona á Suðurnesjum máli sem veisluþjónusta höfðaði gegn henni. Samið hafði verið um kaup á veisluföngum fyrir tiltekna upphæð. Að mig minnir á 4ða hundrað þúsund. Konan borgaði 100 þúsund kall fyrirfram. Hún var ósátt við veisluföngin og neitaði að borga það sem út af stóð. Taldi sig hafa verið svikna.
Í svona tilfelli tapar kaupandinn alltaf málinu. Þó að konan væri ósátt þá hafði hún fengið meira en 100 þúsund króna virði veisluföng. Til að eiga möguleika á að vinna málið hefði konan þurft að fá óháðan matsmann til að meta raunvirði veislufanganna og borga þá upphæð. Sem gat hugsanlega verið lægri upphæð en samið var um í upphafi. Þetta þarf fólk að vita. Ef það greiðir lægra verð fyrir vöru eða þjónustu en sanngjarnt þykir þá tapar það máli fyrir dómi. Líka þó að fólkið hafi ekki fengið þau veisluföng og þá þjónustu sem um var samið. Til að vinna svona mál þarf fólk að hafa borgað "sanngjarna" upphæð, studda mati óháðs aðila. Sá sem sækir málið tapar því.
Það er dýrt að tapa svona máli. Miklu dýrara en að borga sanngjarnt verð. Málskostnaður þess sem tapar máli telur nokkur hundruð þúsundkalla.
Nú í kjölfar nýafstaðinna fermingarveislna og í upphafi ættarmóta er gaman að rifja upp eftirminnilega veislu. Sú var haldin skömmu eftir bankahrun og veisluþjónustan klárlega í þröng.
Samið var um þjóðlegan aðalrétt, lambakjöt í karrý, og súkkulaðitertu með rjóma sem desert. Þegar til kom var á borðum ekki aðeins lambakjöt í karrý heldur einnig kjúklingapottréttur. Eini gallinn var sá að karrýkjötið var af skornum skammti. Góðu fréttirnar voru þær að nóg var til af kjúklingapottréttinum.
Eins og venja er þegar hátt í hundrað manns koma saman til að snæða mat fór fólk að veisluborðinu í skipulagðri röð eftir því hvar borð þess voru staðsett. Karrýrétturinn kláraðist fljótt. Fólkið á síðustu borðunum hafði ekki um annað að velja en kjúklingapottréttinn. Hann dugði öllum. En sumir horfðu öfundaraugum á þá sem náðu karrýkjötinu.
Skýringin sem var gefin var sú að kokkinn hefði misminnt hvað hann átti mikið af lambakjöti á lager. En reddaði málinu með kjúklingapottréttinum.
Næst var röðin komin að súkkulaðitertunni með rjóma. Þá kom upp annað vandamál. Það hafði gleymst að baka súkkulaðitertur og kaupa rjóma. Þessu var reddað með því að bjóða upp á konfekt. Einn mola á mann. Stór skál með konfektmolum var látin ganga á milli borða. Áður en röðin kom að síðustu borðum var konfektið á þrotum. Gamansamur maður spurði þjóninn hvort hann gæti skorið síðasta konfektmolann í nokkra bita svo allir fengju smá konfekt. Þjónninn kunni ekki að meta brandarann og sagði með þjósti að einhverjir hefðu greinilega tekið fleiri en einn konfektmola. Molarnir hefðu verið taldir og áttu að vera jafn margir gestunum. Þar með var það útrætt.
Gosdrykki keyptu matargestir sérstaklega á barnum. Einkum voru það krakkar sem sóttu í gosdrykkina. Einn bað um sogrör. Aðrir krakkar brugðu við skjótt og báðu einnig um sogrör. Þjónninn brást vel við því. Hann tók nokkur rör og klippti þau með skærum í tvennt. Hvert barn fékk hálft rör sem var of stutt fyrir glösin. Þjónninn upplýsti krakkana um að þeir yrðu að passa upp á rörin sín því þeir myndu ekki fá annað rör.
Eftir vel heppnaða matarveisluna sóttu gestir út í gott veðrið. Utan við húsið, til hliðar, er stór trépallur. Þar safnaðist fólkið saman, spjallaði og söng nokkur lög. Einhverjir sóttu sér bjórdós í bíla sína. Aðrir keyptu bjór á barnum og báru út. Inni á barnum voru spiluð fjörleg íslensk dægurlög. Það er hægt að opna hurð á barnum út á trépallinn.
Þar sem allir voru komnir út bað ég þjóninn að opna út á trépallinn til að músíkin bærist þangað út. Mér var svarað: "Það er ekki mitt hlutverk að spila músík fyrir fólk sem kaupir ekki bjór á barnum heldur drekkur bjór úr dósum sem það kemur sjálft með."
Ég benti honum á að margir væru að kaupa bjór á barnum. Þjóninn svaraði: "Þá getur það fólk verið hérna inni ef það vill heyra músík."
Skömmu síðar var húsinu lokað með þeim orðum að staðurinn ætlaði ekki að halda opinni salernisaðstöðu fyrir fólk sem væri að drekka úr sínum eigin bjórdósum í stað þess að kaupa á barnum.
Gleðskapurinn hélt þó áfram þarna fyrir utan. Allir skemmtu sér vel og sýndu aðstæðum fullan skilning. Þetta var, jú, í kjölfar bankahrunsins og veisluþjónustur urðu að horfa í hverja krónu. Og gert var upp við veisluþjónustuna eins og tilboð hennar hljóðaði fyrir lambakjöt í karrý og súkkulaðitertu með rjóma. Allir voru kátir og glaðir. Nema kannski þjónninn sem vildi selja meira á barnum.
Vinir og fjölskylda | Breytt 3.6.2011 kl. 01:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.5.2011 | 22:32
Pottþétt aðverð til að venja börn af matvendni
Allir foreldrar þekkja matvönd börn. Það hlálega er að matvendnin er sjaldnast tilkomin vegna þess að börnunum þyki tiltekinn matur vondur. Þetta er aðeins aðferð barna til að kanna hvað þau komast upp með. En matvendnin er jafn hvimleið fyrir því. Einkum þegar mikið hefur verið haft fyrir matreiðslunni og barnið bara harðneitar að borða - þrátt fyrir að vera svangt. Viðbrögð foreldrisins er jafnan að reyna að finna þá eitthvað annað handa barninu að borða. Panta handa því pizzu eða eitthvað.
Til er einföld aðferð sem slær matvönd börn út af laginu. Hún er sú að hafa alltaf þríréttaða máltíð. Barnið fær að velja hvaða réttur fer á disk þess. Undir þeim kringumstæðum nær barnið ekki að hugsa hvort það eigi að neita að borða matinn eða ekki. Það eina sem kemst að í huga barnsins er hvaða réttur sé bestur.
Heppilegast er að hafa réttina sem ólíkasta. Einn rétturinn getur til dæmis að taka verið grillaður humar með hvítlaukssmjöri. Annar rétturinn getur verið pipruð nautalund með rauðvínssósu og lerkisveppa-kartöfluköku. Þriðji rétturinn getur verið kjúklingabringur, maríneraðar í tandoori-kryddi og eldaðar á fati ásamt tómötum, fenugreek, engifer og rjóma.
Þeim rétti sem barnið velur er skipt út í næstu máltíð. Hinir fá að halda sér í öllum næstu máltíðum alveg þangað til blessað barnið hefur valið þá líka.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
19.4.2011 | 01:39
Einkennilegt samtal á fésbók
Í gærkvöldi kíkti ég rétt sem snöggvast á fésbók, eftir að hafa skemmt mér konunglega í fermingarveislu (nei, það var ekki verið að ferma mig heldur frænku mína). Ég var ekki fyrr búinn að skrá mig inn á fésbókina en góðkunningi minn kastaði á mig kveðju á lokuðu spjallrásinni. Hann var blindfullur, eins og gengur. Og langdrukkinn að auki. Það er að segja var búinn að hella hraustlega í sig alveg frá því að vinnudegi lauk á föstudaginn. Þannig að hann var orðinn töluvert ringlaður.
Eftir að hafa kastað á mig kveðju og talið upp þær vínflöskur og bjórdósir sem hann var búinn að slátra sagðist hann vera að spjalla við tiltekna manneskju á fésbók. Og bætir við: "Við erum búin að ræða heilmikið um þig."
Ég spurði: "Hvað í ósköpunum getið þið rætt um mig?"
Hann svaraði: "Ég er nú eiginlega ekki alveg klár á því ennþá. Við tölum nefnilega undir rós. Við höfum ekki nefnt þig á nafn. Það getur verið að við séum að tala um einhvern annan. Ég held samt að við séum að tala um þig."
20.3.2011 | 02:22
Minningarljóð um Pál Jacobsen
Nýverið féll frá, langt fyrir aldur fram, faðir Eivarar, Páll Jacobsen. Ég vona að það virki ekki ósmekklegt af mér að birta hér á þessum vettvangi fallegt ljóð dóttur hans, Elinborgar, til minningar um föður sinn. Virkilega fallegt og hjartnæmt ljóð sem segir svo margt í knöppu formi. Páll var af öllum dáður fyrir elskulegheit og glaðværð og þekktur fyrir að vera einstaklega góður sögumaður. Yndislegur og skemmtilegur maður.
Í íslenskri þýðingu er minningarljóð Elinborgar eitthvað á þessa leið:
.
Sakna þín sérhvern dag
.
Þegar ljósin slökkna að kveldi og hugsanir fara á flug
þá sakna ég þín.
Ég varðveiti minningarnar og mun aldrei gleyma þér.
.
Allt sem við áttum saman er nú liðin tíð.
En í hjarta mínu áttu fastan samastað.
Núna ertu fjarri mér og þá sakna ég þín
- sérhvern dag.
.
Svo hrífandi, svo sterkur og svo vís.
Ég sakna þín, kæri pabbi.
En ég veit að við hittumst aftur
undir stóra fossinum.
Frumtextinn er þannig:
Sakni teg hvønn dag
.
Tá ljósini slókna um kvøldið, og tankarnir flúgva avstað.
Tá sakni eg teg.
Havi bert minnini her hjá mær, aldri eg gloymi teg.
.
Alt vit gjørdu saman, tað er nú søga.
Men tú fert altíð at vera her, við mina lið.
Og sjált um tù ert á øðrumstað, so sakni eg teg - hvønn dag.
.
So stuttligur so sterkur og so vísur
Eg sakni teg- góði babba....
Men eg veit at vit síggjast aftur
Undir stóra fossinum.
Vinir og fjölskylda | Breytt 21.3.2011 kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
18.3.2011 | 21:33
Forsetinn er írskur
Þjóðsagan kennir okkur að forseti Bandaríkja Norður-Ameríku, Barack Hussein Obama, hafi fæðst í jötu í Honolulu á eyjunni Hawai í Hawai-eyjaklasanum. Faðir hans og alnafni var frá Kenía í Austur-Afríku. Hann átti leið um Hawaii og fór að leika sér við stelpuskottið Ann Dunham. Hún giftist manni frá Jakarta í Indónesíu. Þar var Barack Hussein Obama alinn upp. Það er að segja Hussein yngri. Sá eldri var alinn upp í Kenía.
Vegna uppruna og æskuára Husseins yngri hefur löngum vakið undrun ásókn hans í írska tónlist, írska river-dansinn, írskar sögur, írskan bjór og svo framvegis. Þá hefur verið eftir því tekið hvað vel Hussein lyndir við þá Íra sem á vegi hans verða.
Nú hefur gátan varðandi þetta verið leyst. Ættfræðingar hafa rakið uppruna Husseins til Írlands. 1850 flúði 19 ára Íri hungursneyð í föðurlandi sínu og hélt vestur um haf; til Bandaríkja Norður-Ameríku. Hann eignaðist eina dóttur. Henni var gefið nafnið Ann. Þegar hún varð gjafvaxta tók hún saman við mann sem bar ættarnafnið Dunham. Afkomendur Ann Dunham teljast vera 28 (í lauslegri talningu án DNA prófunar). Þeirra á meðal móðir Husseins og alnafna ömmu sinnar.
Fyrir ættfróða Íslendinga hljómar undarlega hversu algengt er að Norður-Ameríkanar séu lítt að sér um uppruna sinn langt aftur í ættir. Hinsvegar er það svo að Bandaríkin eru litríkt fjölmenningarsamfélag. Eins og dæmið um Hussein sýnir eiga margir Bandaríkjamenn uppruna að rekja til svo margra þjóða og landa að þeir eiga nóg með að kannast við hvar foreldrar þeirra og afi og amma voru fædd.
Annar þekktur forseti Bandaríkjanna var líka af írskum ættum. Hann hét John F. Kennedy en staldraði stutt við í embætti.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
5.3.2011 | 01:01
Foreldrar ársins - eða þannig
Takið eftir barninu sem maðurinn situr á. Hann virðist ekki taka eftir því. Auðsjáanlega ekki þægileg staða fyrir barnið.
Hvað er í gangi? Er verið að hlífa barninu fyrir svifryki?
Krökkum þykir gaman að leika sér í byssó. Ég minnist þess frá mínum æskuárum. En eitt er að leika sér í byssó og annað að vera nánast á bleyjunni þjálfaður í alvöru Suðurríkjastemmningu.
Krakkinn sér um innkaupakerruna fyrir bjórinn. Lofar góðu.
Já, hvers vegna að rölta um með barnavagninn þegar hægt er að draga hann á eftir mótorhjólinu?
Það verður að leyfa krakkanum að ná "kontakt" við hættulegu dýrin á dýrasafninu. Það er enginn vandi að kippa krakkanum upp ef dýrið bítur.
Ég man ekki hvað það heitir þetta rafknúna hjólatæki. En það sparar sporin þegar krakkinn er viðraður.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 01:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
4.3.2011 | 14:05
Framhjáhald látinna
Þetta er snúið mál og ekki auðleyst. Þannig er að öldruð kona, nánar tiltekið hálf níræð, uppgötvaði nýverið sér til skelfingar að látinn maður hennar (eiginmaður frá unglingsárum þeirra og barnsfaðir) og látin systir hennar hvíla saman hlið við hlið í glæsilegum einskonar hjónagrafreit. Þarna er um mistök að ræða hjá þeim sem sáu um útförina. Gamla konan, Sandy, er niðurbrotin út af þessu. Hún er afar kirkjurækin og upptekin af trúmálum. Samkvæmt hennar trúarsannfæringu má ekki hrófla við jarðneskum leifum þessara ástvina hennar, núna þegar meira en ár er liðið frá útför systurinnar og ennþá lengra liðið frá útför eiginmannsins. Það sem verra er: Samkvæmt sömu trúarsannfæringu Sandyar jafngildir það framhjáhaldi að hjónaleysin, eiginmaðurinn og systirin, skuli hvíla saman í gröf. Og það um alla eilífð.
Á móti vegur að mágur Sandyar, látinn eiginmaður systurinnar, hvílir í næstu gröf við hlið konu sinnar. Við hina hlið hans bíður pláss ætlað líki Sandyar. Það þykir Sandy með öllu óásættanlegt af fyrrgreindum trúarástæðum.
Forsaga þessa snúna máls er sú að fyrir nokkrum árum keyptu Sandy og systir hennar sitthvorn hjónagrafreitinn hlið við hlið. Eiginmenn þeirra féllu frá með stuttu millibili og allt gekk samkvæmt áætlun. Í ágúst 2009 dó systirin. Hún var fyrir handvömm jörðuð í gröfina hennar Sandyar.
Útfararstofan hefur boðist til að breyta um merkingu á legsteini systurinnar, Sandy að kostnaðarlausu. Í stað þess að á legsteininum standi við hlið nafns eiginmanns Sandyar "Ástkær eiginkona" verði textinn "Ástkær mágkona".
Sandy þykir sáttaboð útfararstofunnar móðgandi. Sjálf hefur hún ekki komið auga á neina viðunandi lausn. En þangað til henni dettur eitthvað í hug hefur hún dregið útfararstofuna fyrir dómstól í New York og krefst 1700 milljóna ísl. kr. í skaðabætur - til að létta sér lund eftir áfallið. Nú væri gott ef netverjum dettur í hug eitthvað gott ráð til að leysa hnútinn.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)