Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
22.12.2010 | 03:02
1001 gamansaga - V. hluti
.Þegar Hannes Rúnar var fimm ára og tannlaus tók Ómar Ragnarsson við hann viðtal en hann var þá á Stöð tvö. Hann spurði Hannes hvað honum fyndist vanta á Stöð tvö og sá litli var skjótur til svars: Bannaðar myndir.
.Hákon Unnar bauð okkur hjónum að þvo og bóna bílinn okkar. Hann fékk hjá mér 5000 krónur til að kaupa sig inn á þvottastöðina og kaupa svo bón og fleira. Þegar hann kom með afganginn til mín sagði ég honum að hann mætti eiga afganginn. Þá svaraði hann með skelmislegu brosi: Ég hefði nú ekki keypt svona mikið, afi, ef ég hefði vitað að ég mætti eiga afganginn.
.Þegar Snær Seljan var um það bil þriggja ára var hann með móður sinni á göngu í Kaupmannahöfn og rakst þar á dauðan fugl og færði henni. Aumingja fuglinn, hann er dáinn, sagði mamma hans. Þá sagði Snær: Vantar ekki bara batterí?
.Hildur Seljan, dóttir Önnu Árdísar, var mikið hjá ömmu sinni og afa þegar hún var lítil. Einu sinni var hún svo óþæg og handóð að afa hennar fannst að hann sló á höndina á henni. Þá fór sú litla að hágráta og afinn fullur eftirsjár fór að spyrja. Meiddi afi þig í hendinni, má ég sjá? Þá grét sú litla enn meira og stundi svo upp: Ég man ekki hvor höndin það var. Þá létti afanum..Steinunn var einu sinni með Helgu Björk frænku sinni og þær fóru í kirkjugarðinn á Eskifirði þar sem margir ættingjar okkar hvíla. Helga var að segja henni frá hver hvíldi hvar og sú litla fylgdist vel með. Allt í einu segir hún: Það er gaman að vera hérna, Helga Björk, við þekkjum svo marga sem eru gróðursettir hérna.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 05:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.9.2010 | 14:53
Sparnaðarráð - 50% sparnaður!
Í því árferði sem ríkir um þessar mundir er brýnt að Íslendingar standi saman og deili með hver öðrum sparnaðarráðum. Guðirnir blessi Ísland. Ekki stendur á mér. Ég hef komið á framfæri í Sunnudagshugvekjunni á Nálinni fm 101,5 mörgu notadrjúgu sparnaðarráðinu. Þó flestir hlusti samviskusamlega á Nálina eru alltaf einhverjir í þeirri ömurlegu aðstöðu að koma því ekki við að hlusta á útvarp einmitt þegar Sunnudagshugvekjan er í loftinu. Þetta á til að mynda við um fólk sem er statt í flugvél eða er í yfirheyrslu hjá lögreglunni.
Mér er ljúft að koma til móts við þá vesalinga sem lenda í þessum ósköpum og birta hér nýlegt sparnaðarráð úr Sunnudagshugvekjunni.
Þannig er að flestar fjölskyldur og einstaklingar þurfa að fara til læknis eða á slysavarðstofu af og til. Sumir oft á ári. Það kostar pening. Margar ferðir kosta marga peninga. Þennan kostnaðarlið má lækka um 50%. Það munar um minna. Það eina sem þarf að gera er að fara aðeins í annað hvert skipti.
Hér eru fleiri hagræðis- og sparnaðarráð:
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.9.2010 | 18:40
Veitingahússumsögn - Færeyskir dagar
- Veitingahús: Smurbrauðsstofa Sylvíu, Laugavegi 170
- Réttur: Ræstkjötssúpa og brauð með áleggi
- Verð: 500 kr. + 1000 kr.
- Einkunn: **** (af 5)
Þessa dagana eru færeyskir dagar á Smurbrauðsstofu Sylvíu. Þar er boðið upp á ræstkjötssúpu (rast kjöt). Einnig bakka með fjórum brauðsneiðum. Á einni brauðsneiðinni er skerpukjöt (skerpikjöt). Á annarri er færeysk rúllupylsa. Á þeirri þriðju eru niðursneiddir knettir. Á þeirri fjórðu eru niðursneiddir fríkadellur.
Ræst kjöt og skerpukjöt eru hvorutveggja þurrkað lambakjöt. Ræstkjötið er hryggur og frampartur og hangir skemur uppi. Það er á stigi svipuðu því sem við köllum siginn fisk. Skerpukjötið er læri (sjá mynd) og hangir lengur uppi en er ekki jafn þurrt og harðfiskur. Bæði skerpukjötið og ræstkjötið eru bragðsterk og gefa endingargott eftirbragð.
Það er algengt að Íslendingum þyki þetta ekki góður matur þegar það er smakkað í fyrsta skipti. Eftir að hafa smakkað það oftar vex sterk löngun í að komast í svona kjöt oftar. Þetta er svipað og löngunin í kæstan hákarl, kæsta skötu og hangikjöt. Eitthvað sem maður verður að fá sér í það minnsta árlega. Helst miklu oftar.
Ræstkjötssúpunni svipar mjög til íslensku kjötsúpunnar. Þetta er matmikil grænmetissúpa með rófum, gulrótum, lauk, hrísgrjónum og þess háttar. Hlutfall ræstkjötsins er minna en kjötið í íslensku kjötsúpunni. Í Færeyjum er algengt að ræstkjötið sé fjarlægt úr súpunni og borðað sér með soðnum kartöflum. Á Smurbrauðsstofu Sylvíu er kjötið í súpunni. Bragðið af ræstkjötinu gefur súpunni töluvert skarpara bragð en er af íslensku kjötsúpunni. 500 krónur fyrir súpuna á Smurbrauðsstofu Sylvíu er gott verð og auðveldar óvönum að smakka. Innifalið í verðinu er ábót ef einhver er rosalega svangur. Ég hef aldrei þurft á því að halda. Súpan er saðsöm og ein besta ræstkjötssúpa sem ég hef fengið. Alveg súper. 5 stjörnu súpa.
Það er ósanngjarnt að gefa einföldu "smurðu heimilisbrauði" hefðbundna einkunn (þó ég láti það draga heildareinkunn örlítið niður í þessari umsögn). Smurðu heimilisbrauði er ekki ætlað að vera veislumatur sem keppir við alvöru "danskt smurbrauð". Brauðbakkinn gefur góða hugmynd um hefðbundið smurt brauð á færeyskum heimilum. Þó er skerpukjöt meira til spari í Færeyjum en snætt hvunndags.
Færeyska rúllupylsan er keimlík þeirri íslensku. Sú færeyska er mildari og hlutfall kjöts meira á móti fitu. Það er töluvert af lauk í henni og smávegis af púðursykri.
Knettir eru soðnar fiskbollur. Uppistöðu hráefnið í knöttum er þorskur og kindamör. Saman við það er blandað lauk, salti og pipar. Sumir hafa örlítið af sykri með. Færeysku knettirnir eru blessunarlega lausir við hveitibragð íslensku fiskbollanna. Fyrir bragðið (í bókstaflegri merkingu) eru knettirnir eins og ferskari. Að öðru leyti er bragðið líkt.
Fríkadellur eru steiktar fiskbollur. Að öðru leyti eru þær alveg eins og knettir.
Þannig er frá brauðbökkunum gengið að hægt er að grípa þá með sér heim. Það er upplagt að gera. Meðal annars til að gefa öðrum að smakka með sér. Og þess vegna að grípa með sér nokkra bakka til að eiga daginn eftir. Jafnvel marga bakka til að eiga í marga daga.
Smurbrauðsstofa Sylvíu er lítil og hlýleg. Þar eru 14 sæti sem raðast við fjögur borð.
Færeysku dagarnir standa fram á helgi. Þið hafið morgundaginn (föstudag til klukkan 22.00) og laugardaginn (opið til klukkan 14.00) til að upplifa færeyska stemmningu í mat fyrir lítinn pening.
Vinir og fjölskylda | Breytt 17.9.2010 kl. 18:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.9.2010 | 22:55
Kallinn reddar þessu
Öll þekkjum við þúsund þjala smiðinn. Kallinn sem kann öll ráð til að redda hlutunum. Eitthvað fer úrskeiðis og hann reddar dæminu með hið sama. Leitar ekki langt yfir skammt heldur grípur það sem hendi er næst og málið er dautt. Hér eru skemmtileg dæmi:
Það vantar skeið til að slafra í sig súpuna. Kallinn lítur í kringum sig. Sér einnota plastfrauðsmál og gaffal. Þetta steinliggur.
Festing öryggisbeltisins virkar ekki. Kallinn reddar því. Klemmir beltið bara með rúðunni. Málið er dautt.
Gamla túpusjónvarpið smellpassaði í hillusamstæðuna. Nýi flatskjárinn tekur meira pláss. Kallinn sagar bara úr hliðarplötunni. Flatskjárinn passar eins og hanski.
Hver kannast ekki við það vandamál að upptakarinn finnst ekki. Kallinn reddar því. Skellir skrúfbolta í næstu spýtu sem hann rífur undan sófasettinu.
Nýja sparperan í stofunni gefur ekki nóga birtu. Kallinn reddar því. Bætir bara við nokkrum perum til viðbótar.
Það er eitthvað ólag á innstungunni. Kallinn reddar því með skærum.
Geislaspilarinn og útvarpið í bílnum virkar ekki. Kallinn reddar því með ferðatækinu. Þetta þarf ekki að vera merkilegur gettó-blaster. Öllu skiptir að þetta virkar.
Bókahilluna í bókabúðinni vantar stuðning. Sem betur fer er til nóg af bókum í búðinni til að redda því. Kallinn kann þetta.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
7.9.2010 | 23:09
Jenis av Rana skýtur sig í fótinn - II
Í næstu bloggfærslu hér fyrir neðan geri ég grein fyrir því hvernig Jenis av Rana hefur tapað tiltrú almennings í Færeyjum á málflutningi hans. Færeyingar almennt skammast sín fyrir öfgafullan málstað hans. Það er mikilvægt að halda því til haga. Gott dæmi um viðbrögðin er opið bréf guðfræðingsins Árna Zachariassen til Jóhönnu Sigurðardóttur. Sjá: http://www.arnizachariassen.com/ithinkibelieve/?p=1187
Árni er virtur blaðamaður á dagblaðinu Dimmalætting (færeyska Mogganum). Færeyska áfladrottningin Eivör hefur hingað til ekki verið yfirlýsingaglöð á opinberum vettvangi um pólitík eða trúarmál. Nú er henni nóg boðið. Hún hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu á fésbók sem útleggst: "Ég set sjaldan hér inn yfirlýsingar en Jenis fær mig til að fyllast af skömm fyrir að vera Færeyingur!!!!!!":
Eg skrivi sjálvdan slíkar viðmerkingar inni her, men Jenis far meg at føla skomm yvir at vera føroyingur!!!!!!
![]() |
Danir blása Jenis-málið út |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt 8.9.2010 kl. 11:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (58)
7.9.2010 | 19:04
Jenis av Rana skýtur sig í fótinn
Á síðustu 4 árum hefur orðið gríðarleg viðhorfsbreyting í Færeyjum gagnvart samkynhneigðum. Vendipunkturinn var þegar gítarleikari rokksveitarinnar Makrel, Rasmus Rasmussen, varð fyrir fólskulegum barsmíðum nokkurra manna á skemmtistað. Ástæða barsmíðanna var sú ein að Rasmus er samkynhneigður og hafði ekki flúið land, öfugt við aðra samkynhneigða Færeyinga. Daginn eftir sætti Rasmus hótunum um frekari barsmíðar. Þegar fjölskylda Rasmusar óskaði eftir lögregluvernd kom í ljós að færeysk lög heimiluðu ofsóknir gegn samkynhneigðum.
Þetta vakti undrun og hneykslan víða um heim. Ekki síst á Íslandi og hinum Norðurlöndunum. Rannveig Guðmundsdóttir, þáverandi þingkona, tók málið upp á vettvangi Norðurlandaráðs. Geir Haarde, þá forsætisráðherra, Guðrún Ögmundsdóttir, þá þingkona, ég og ýmsir fleiri létu frá sér heyra í færeyskum fjölmiðlum.
Þetta var hörmulegur atburður. En nokkru skipti að Rasmus var vinsæll og virtur rokkari. Hafði spilað með flestum helstu rokksveitum Færeyja. Jafnframt stýrði hann eina alvöru rokkþættinum í færeysku útvarpi, Rokkstovunni. Færeyski tónlistarheimurinn snérist - eins og hann lagði sig - á sveif með Rasmusi. Ég endurtek: Eins og hann lagði sig. Einnig yngri kynslóðin að uppistöðu til. Ef einhver "no name" hommi hefði verið laminn er næsta víst að almenningsálitið í Færeyjum hefði ekki sýnt fórnarlambinu og málstaðnum sama stuðning.
Leikar fóru þannig að lögum í Færeyjum var breytt. Nú er óheimilt að ofsækja samkynhneigða. Jenis av Rana var fremstur í flokki þeirra sem börðust gegn nýju lögunum. Hann taldi áríðandi að hommar væru lamdir þangað til þeir myndu afhommast. Annars brenni þeir í vítislogum til eilífðar. Það er víst alveg hrikalegt helvíti. Jenis flaggaði í hálfa stöng ásamt trúfélögum sínum þegar nýju lögin voru samþykkt. Nú í haust hefur Jenis reynt að vinna fylgi frumvarpi þess efnis að nýju lögin verði afnumin. Nýjustu útspil hans hafa algjörlega komið í veg fyrir að þetta frumvarp hans eigi upp á pallborðið. Hann er búinn að girða rækilega í veg fyrir það. Hann er búinn að skjóta sig í fótinn.
Annað: Síðast þegar ég vissi var Rasmus kominn með kærasta í Færeyjum og sestur að á fámennri norð-austur eyju.
Enn annað: Í sumar hélt Elton John hljómleika í Færeyjum. Jenis brást við hart. Sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis að Elton John væri samkynhneigður útsendari Satans. Ummælin vöktu meiri athygli í Danmörku en Færeyjum. Elton John nýtur hlutfallslega hvergi meiri vinsælda en í Færeyjum. Næstum 6 þúsund manns mættu á hljómleika Eltons í Færeyjum. Það jafngildir því að 40 þúsund manns myndu borga sig inn á hljómleika á Íslandi. Það hefur aldrei gerst. Metið hérlendis er þegar 18 þúsund mættu á hljómleika hjá Metallica. Númer 2 eru 12 þúsund sem borguðu sig inn á hljómleika Rammstein.
Hræðsla Jenis av Rana við Elton John og kenningin um að hann sé útsendari Satans varð aðhlátursefni í Færeyjum. Ef Jenis hefði fordæmt á sama hátt einhverja minna vinsæla poppstjörnu hefðu kannski fleiri samsinnt bullinu í honum.
Framkoma Jenis av Rana í garð forsætisráðherra Íslands hefur vakið hörð viðbrögð í Færeyjum. Hver þungavigtarmanneskjan á fætur annarri hefur stigið fram og fordæmt Jenis av Rana. Þar á meðal æðstu ráðamenn Færeyja. Færeyingar bera mikinn og einlægan hlýhug til Íslendinga og finnst Jenis av Rana sýna íslensku þjóðinni skammarlegan dónaskap. Ef Jenis hefði sýnt fulltrúa annarrar þjóðar sömu viðbrögð er alveg klárt að samlandar hans hefðu ekki brugðist eins harkalega við.
Jenis av Rana er í frekar lokuðum trúarsöfnuði. Ekki alls fyrir löngu komst upp að Jenis hafði beitt sér í þöggun á barnaníði innan safnaðarins. Einhverjir í söfnuðinum standa þétt við bakið á Jenis. Almenningur er hinsvegar hættur að taka mark á honum. Og jafnvel farinn að fyrirlíta hann og skoðanir hans. Og skammast sín fyrir kallinn. Sem þeir þurfa ekki að gera. Alls ekki. Færeyingar eru frábærir. Eitt og eitt skemmt epli breytir engu um það. Við Íslendingar getum alveg greint Jenis av Rana frá færeysku þjóðinni. En auðvitað erum við þakklát færeysku þjóðinni fyrir að láta okkur vita að Jenis sé ekki talsmaður hennar.
Myndin hér fyrir neðan er af Rasmusi og borgarstjóra Reykjavíkur, Jóni Gnarr.
![]() |
Gegn vilja Guðs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
7.9.2010 | 02:39
Mikilvægt að vita
Randaflugur eru einhver krúttlegustu skordýr sem maður rekst á. Eða öllu heldur eru það randaflugurnar sem rekast á mann. Búkurinn á þeim er eins og þykkur loðinn hnoðri. Vængirnir virðast vera alltof litlir til að bera stóran búkinn. En það vita randaflugur ekki og fljúga á þrjóskunni einni.
Fyrir tveimur dögum flaug stór og pattaraleg randafluga inn um glugga hjá mér. Henni þótti gaman að skoða margt. Hún hafði aldrei séð tölvu áður. Sitthvað fleira þótti henni nýlunda og spennandi.
Ég reyndi að kenna henni á tölvu. En skilningsleysi randaflugunnar var þess eðlis að mér er til efa að hún muni nokkurn tíma ná tökum á tölvum. Að minnsta kosti mun hún aldrei skara fram úr á því sviði.
Aðra og miklu merkilegri uppgötvun gerði ég. Eins og þið vitið þá þykir hundum og köttum gott að vera klappað frá hnakka og aftur á bak. Þetta þykir randaflugunni aftur á móti ekki gott. Jafnvel frekar óþægilegt. En þegar henni er klappað í hina áttina, frá baki og fram á höfuð, þá kemur annað hljóð í strokkinn. Þá jaðrar við að flugan mali eða eiginlega eins og kumri. Þetta er mikilvægt að vita.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.7.2010 | 23:02
Færeyska álfadrottningin á afmæli
Bandaríski rithöfundurinn Ernest Hemingway á afmæli í dag. Einnig fjöldi tónlistarmanna. þar á meðal Bretinn Norman Cook (Fatboy Slim), bandaríski trommarinn Bill Berry (R.E.M.), breski trommarinn Will Champion (Coldplay), bandaríski djassgítaristinn Kenny Burrell og bandaríski djasspíanistinn Henry "Hank" Jones.
Þetta lið fellur allt í skuggann af færeysku álfadrottningunni Eivöru. Hún er 27 ára í dag. Um verslunarmannahelgina skemmtir hún ásamt fjölda annarra færeyskra tónlistarmanna á færeyskri fjölskylduhátíð á Stokkseyri. Það verður í fyrsta skipti sem Eivör skemmtir 27 ára á Íslandi. Eftir tvo eða þrjá mánuði kemur út bók um hana. Til hamingju með afmælið, Eivör!
Vinir og fjölskylda | Breytt 22.7.2010 kl. 01:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.7.2010 | 21:41
Kúvending hjá Baugssystkinum
Hingað til hefur Baugsfjölskyldan verið afskaplega samheldin og samstíga í málflutningi. Það hefur reynst henni öflugur styrkur þegar á móti hefur blásið. Nú er hinsvegar þrengt svo að Jóni Ásgeiri að hann kúvendir í stíl. Hann sakar systur sína um grófa skjalafölsun; að hafa án hans vitneskju falsað nafn hans undir lánasamning vegna láns frá Glitni til eignarhaldsfélaginu 101 Chalet. Þetta þýðir að vitundarvottar á samningnum eru sömuleiðis ósvífnir glæpamenn.
Kristín, systir Jóns Ásgeirs, segir þetta vera svívirðilega haugalygi. Það er alvarlegt mál: Að lýsa því yfir að Jón Ásgeir sé ófyrirleitinn lygari.
Þegar þessi staða er komin upp er full ljóst að annað hvort þeirra systkina er siðblind og forhert glæpamanneskja. Hver er meira í kókinu og hver er meira í diet kókinu?
![]() |
Systkinin ósammála |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt 20.7.2010 kl. 01:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
25.6.2010 | 20:57
...Þá var hringt í Hólakirkju öllum jólabjöllunum
Hólar í Hjaltadal eru (einn) fallegasti staður landsins. Fátt er ánægjulegra en keyra heim til Hóla eftir löngum beinum vegi og beygja síðan upp með skógarrjóðrinu, kirkjunni og turninum og hringspóla á hlaðinu við skólann. Nei, annars. Það á að aka varlega þarna í svona fögru umhverfi. Um Hóla í Hjaltadal hafa verið ort mörg góð kvæði. Þar á meðal þetta bráðskemmtilega eftir Kristján Runólfsson.
Þegar lít ég heim til Hóla,
horfi ég á marga póla,
biskupinn og bændaskóla,
ber við sjónir nútímans.
Flæðir saga um minni manns.
Garður fylltur grænum njóla,
Guðbrands staðinn skreytir, (þar sem prentsmiðjan stóð)
Þetta eru þankar sundurleitir.
Þarna bjuggu bændur góðir,
betri en gerðust hér um slóðir,
margir voru menntafróðir,
mörg eru áhrif búskólans.
Flæðir saga um minni manns.
Vaxa af því viskuglóðir,
víða hér um sveitir.
Þetta eru þankar sundurleitir.
Stöndug kirkja staðinn prýðir,
stóðu að henni bændalýðir.
Sóknarprestar sungu tíðir,
sinntu boði frelsarans.
Flæðir saga um minni manns.
Maður sá er messu hlýðir,
meira um lífið skeytir.
Þetta eru þankar sundurleitir.
Tíminn líður, flest á Fróni,
fyrnist þó að nýtt við prjóni,
það sannaðist á séra Jóni,
og seinni tíma nafna hans. (Jóni Bjarnasyni)
Flæðir saga um minni manns.
Varla þetta telst með tjóni,
og tæpast nokkru breytir.
Þetta eru þankar sundurleitir.
Fylla loftið fornar sögur,
fram í dali og ystu gjögur,
löngum voru ljóðin fögur,
lofuð á vörum almúgans.
Flæðir saga um minni manns.
Hér var Óðins hornalögur,
handa þeim sem neytir.
Þetta eru þankar sundurleitir.
Sér í hylling Guðmund góða,
ganga um með hökulslóða,
Galdra-Loft hinn galna og óða,
Guðbrand prenta bókafans.
Flæðir saga um minni manns.
Yfir sumu er algjör móða,
á því minnið steytir.
Þetta eru þankar sundurleitir.
Taumlaus áfram tíminn rennur,
tifar hratt sem eldur brennur,
víst hann gerir mörgum glennur,
gefur aldrei nokkurn sjans.
Flæðir saga um minni manns.
Birtist hann með beittar tennur,
brögðin mögnuð þreytir.
þetta eru þankar sundurleitir.
Heilladísir Hólastaðar,
höndum tóku saman glaðar,
að setja allt sem sálu laðar,
saman þar sem gullinn krans.
Flæðir saga um minni manns.
Gleðisólin geislum baðar,
grænka hugans reitir.
Þetta eru þankar sundurleitir.
Sé ég Biskup Gottskálk grimma,
og Guðmund upp í skálar trimma,
þeir fara á stjá er fer að dimma,
og förlar sjónum horfandans.
Flæðir saga um minni manns.
Löng var forðum Rauðskinns rimma,
rifust andar heitir.
Þetta eru þankar sundurleitir.
Líkaböng er löngu brotin,
lenti í Köben sundur rotin,
öll voru kathólsk áhrif þrotin,
endanlega um sveitir lands.
Flæðir saga um minni manns.
Herra Jón var herðalotinn,
og hálsvöðvarnir feitir.
Þetta eru þankar sundurleitir.
Allir vita að Auðunn Rauði,
einnig sat í þessu brauði,
reisti múr af rýrum auði,
ríkt var eðli mannsandans.
Flæðir saga um minni manns.
Hann var ansi klár sá kauði,
klókur sverðabeitir.
Þetta eru þankar sundurleitir.
Lít ég yfir sögusviðið,
sumt er nýtt og annað liðið,
hér hafa ýmsar skepnur skriðið,
og skrefað tímans villta dans.
Flæðir saga um minni manns.
Hafa oft um hérað riðið,
höfðingjarnir feitir.
Þetta eru þankar sundurleitir.
Núna mun ég ljúka ljóði,
og linna þessu kvæðaflóði,
klára það með köldu blóði,
kveð nú sagnir frónbúans.
Flæðir saga um minni manns.
Er ég talinn orðasóði,
sem órum frá sér hreytir.
Þetta eru þankar sundurleitir