Færsluflokkur: Vísindi og fræði
31.12.2024 | 11:31
Undarleg gáta leyst
Dýralæknir var kallaður á heimili gamallar konu. Hún bjó ein í stórri blokkaríbúð á höfuðborgarsvæðinu. Hún átti litla og fallega kisu. Nú var hún veik. Verulega uppþembd og aðgerðalítil. Læknirinn fann strax út að kisan var kettlingafull.
"Það getur ekki verið," mótmælti gamla konan. "Hún er alltaf hérna inni. Hún fær aðeins að skjótast út á svalir þar sem ég fylgist með henni."
Læknirinn var viss í sinni sök. Hann fullyrti að stutt væri í að kettlingarnir kæmu í heiminn. Meira gæti hann ekki gert í málinu.
Á leið sinni út kom hann auga á kött. Sá svaf makindalega í forstofunni. Læknirinn kallaði á konuna og benti á köttinn. "Hér er ástæðan fyrir því að kisa er kettlingafull."
Konan gapti af undrun og hreytti hneyksluð út úr sér: "Er herra læknirinn eitthvað verri? Þetta er bróðir hennar!"
1.10.2024 | 10:07
Breytti bíl í mótorhjól
Franskur rafvirki lét langþráðan draum rætast er hann brunaði um Marokkóska eyðimörk. Fararskjótinn var Citroen 2CV, uppnefndur bragginn. Í eyðimörkinni eru engar umferðareglur. Kappinn naut frelsisins. Hann leyfði sér að stíga þungt á bensínpedalann. Þá gerðist óhappið. Bíllinn skall ofan á steinhellu. Undirvagninn mölbrotnaði ásamt mörgum öðrum hlutum bílsins..
Úr vöndu var að ráða. Ekkert símasamband. Engir aðrir bílar á ferð. Enginn vissi af manninum þarna. 32 kílómetrar til byggða. Til allrar lukku var hann með mat og drykk sem gátu dugað til tíu daga ef sparlega var farið með. Vonlaust var að rogast með næringuna í fanginu í brennheitri sólinni. Hún var alltof þung.
Frakkinn fékk hugmynd: Hugsanlega var mögulegt að tjasla saman einhverju heillegu úr bílnum. Hanna frumstætt mótorhjól. Verra var að nothæf verkfæri voru fá í bílnum. Hann hafði takmarkaða þekkingu á bílum og mótorhjólum.
Eftir engu var að bíða. Hann puðaði langan vinnudag við að átta sig á aðstæðum. Verkið tók tólf daga. Ekki mátti seinna vera. Er hann loks náði að koma mótorhjólinu í gang átti hann aðeins hálfan lítra af vatni eftir. Hjólið skilaði honum til byggða. Þar vakti það mikla athygli. Rafvirkinn hafði fundið upp ýmsar lausnir sem mótorhjólaframleiðendur tileinkuðu sér þegar í stað.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
27.8.2024 | 08:46
Að bjarga sér
Upp úr miðri síðustu öld lenti heilsulítill bóndi í tímahraki með heyskap. Þetta var fyrir daga heyrúllunnar. Framundan var blautt haustveður en mikið af heyi ókomið í hlöðu. Unglingur af öðrum bæ var sendur til að hlaupa undir bagga. Kona bóndans var fjarri vegna barneignar. 10 ára sonur hennar tók að sér matseld í fjarveru hennar.
Er nálgaðist hádegi sá unglingurinn dökkan reyk leggja frá eldhúsinu. Í sömu andrá sást stráksi hlaupa út úr húsinu með rjúkandi pott. Pottinn gróf hann með hröðum handtökum ofan í skurð.
Unglingurinn ók dráttarvélinni að pjakknum og spurði hvað væri í gangi. Hann svaraði: "Ég veit ekki hvað fór úrskeiðis. Ég var að sjóða brodd og gerði alveg eins og mamma. Ég hellti broddinum í sömu plastkönnu og hún. Ég sauð hana í sama potti og hún. Það næsta sem gerðist var að kannan bráðnaði og allt brann við!"
Unglingurinn vissi þegar í stað að pilturinn hafði ekki áttað sig á að kannan átti að fljóta í vatni í pottinum.
Þegar kaffitími nálgaðist kallaði strákur á bóndann og unglinginn. Sagðist ver búinn að hella upp á kaffi og útbúa meðlæti. Meðlætið var heimalagað kremkex. Kexið var sett saman í samloku með kakósmjörkremi á milli. Þetta bragðaðist illa. Var eins og hrátt hveitideig. Stráksi sagði: "Ég veit ekki hvað fór úrskeiðis. Ég gerði alveg eins og mamma; hrærði saman smjöri, kakói, hveiti og vanilludropum."
Smjörkrem er ekki hrært með hveiti heldur flórsykri. Hann er hvítur eins og hveiti en er sykurduft.
Vísindi og fræði | Breytt 28.8.2024 kl. 07:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
5.8.2024 | 12:11
Pottþétt ráð gegn veggjalús
Veggjalúsin er leiðinda kvikindi. Hún lifir í þurru og hlýju umhverfi. Hún felur sig á daginn og bíður í rólegheitum eftir að fórnarlambið fari að sofa. Þegar það er sofnað læðist lúsin hljóðlega að því og sýgur úr því blóð. Í bitinu er staðdeyfiefni. Þess vegna vaknar fórnarlambið ekki við bitið.
Blessunarlega er lítið um lúsina hérlendis. Til þess er of kalt. Á ferðalögum erlendis verður margur var við kláða og blóðblett í sárinu. Einfalt er að sporna gegn dýrinu. Aðeins þarf að kaupa létta frystikistu og geyma í henni föt, handklæði, snyrtivörur og fleira. Þar með eru litlir möguleikar fyrir skepnuna að laumast heim til Íslands með ferðamanninum.
Ekki taka upp úr ferðatöskum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
29.7.2024 | 08:35
Stórmerkileg námstækni
Ég var staddur í verslun. Þar varð ég vitni að því er tveir unglingspiltar hittust og heilsuðust fagnandi. Annar spyr: "Hvernig gekk þér í prófinu hjá...?" og nefndi nafn sem ég gleymdi jafnóðum. Hinn svaraði: "Ég notaði öfluga námstækni sem ég hannaði sjálfur. Í stað þess að pæla í gegnum alla bókina þá byrjaði ég á því að sortera í burtu allt sem ég var 100% viss um að aldrei yrði spurt um. Síðan lærði ég utanað 50% af því sem eftir stóð. Með þessari aðferð reiknast mér til að maður eigi að geta verið pottþéttur með að fá að lágmarki 6 eða jafnvel 7.
- Hvað fékkstu? spurði skólabróðirinn spenntur.
- Helvítis gaurinn felldi mig. Gaf mér aðeins 2. Spurði aðallega um það sem ég lærði ekki!
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.5.2024 | 08:40
Bráðsniðug uppfinning
Einn kunningi minn er það sem kallast "þúsund þjala smiður". Hann á létt með að gera við alla bilaða hluti; hvort heldur sem er heimilistæki, bíla eða hvað sem er. Allt leikur í höndunum á honum. Sjaldnast þarf hann annað en svissneska hnífinn sinn til að koma hlutunum í lag. Hann grípur það sem hendi er næst og breytir því í varahlut. Þetta getur verið tappi af kókflösku, spýtubrot eða plastpoki.
Maðurinn er frjór í hugsun og stöðugt að finna upp nýja nytjahluti. Eitt sinn hannaði hann dósapressu með teljara. Mjög flott græja. Er hann fór að kanna með að setja hana í fjöldaframleiðslu kom í ljós að samskonar tæki var til sölu í Húsasmiðjunni.
Þá snéri hann sér að því að hanna blaðsíðuteljara. Dögum saman kannaði hann hina ýmsu möguleika. Hann reiknaði og teiknaði. Markmiðið var að tækið yrði ódýrt, einfalt og þyrfti hvorki batterí, rafmagn né aðra orkugjafa.
Eftir margra daga puð mætti uppfinningamaðurinn á bar í Ármúla, Wall Street. Hann sagði viðstöddum frá blaðsíðuteljaranum og vinnunni við að koma honum á koppinn. Gleðitíðindin voru þau að hönnunin var komin á lokastig. Þetta yrði jólagjöf næstu ára því margir fá bækur í jólagjöf. Næsta skref yrði að koma tólinu á heimsmarkað.
"Er ekki einfaldara að fletta upp á öftustu síðu til að sjá blaðsíðufjöldann?" spurði Siggi Lee Lewis.
Aldrei aftur var minnst á blaðsíðuteljarann.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 09:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.3.2024 | 08:44
Páskagaman
Páskarnir eru allskonar. Í huga margra eru þeir forn frjósemishátíð með einkennandi frjósemistáknum á borð við kanínur, egg, unga og páskalamb. Síðar blandaði kristna kirkjan sögunni af krossfestingu Jesú inn í páskana. Dagsetningin sveiflast til og frá eftir tunglstöðu.
Fyrir nokkrum árum var Hermann heitinn Gunnarsson með páskaþátt í sjónvarpsseríunni "Á tali hjá Hemma Gunn". Hann ræddi við börn á leikskólaaldri. Meðal annars spurði hann dreng hvers vegna væru páskar. Hann sagði það vera vegna þess að Jesú hafi verið krossfestur.
"Hvers vegna var hann krossfestur?" spurði Hemmi.
Stráksi svaraði að bragði: "Menn voru orðnir leiðir á honum!"
13.3.2024 | 10:08
Allir góðir saman!
Fyrir nokkrum árum stálpuðust barnabörn mín. Þau lærðu að lesa og lásu mikið; allskonar blöð, tímarit, bækur og netmiðla. Gaman var að fylgjast með því. Nema að mér varð ljóst að margt í fjölmiðlum er ekki til fyrirmyndar. Þá datt mér í hug að setja sjálfum mér reglu: Að skrifa og segja aldrei neitt neikvætt og ljótt um neina manneskju.
Þetta var U-beygja til góðs. Það er miklu skemmtilegra að vakna og sofna jákvæður og glaður heldur en velta sér upp úr leiðindum. Til viðbótar ákvað ég að hrósa einhverjum eða einhverju á hverjum degi. Svoleiðis er smitandi og gerir öllum gott.
28.2.2024 | 09:36
Maður með nef
Margir kannast við ævintýrið um Gosa spýtukall. Hann er lygalaupur. Hann kemur jafnóðum upp um sig. Þannig er að í hvert sinn sem hann lýgur þá lengist nef hans. Þetta er ekki einsdæmi. Fyrir áratug fór að bera á svona hjá breskum hermanni á eftirlaunum, Jóa lygara, Þegar hann laug bólgnaði nef hans. Að því kom að nefið formaðist í stóran hnúður. Þetta hefur eitthvað að gera með taugaboð og örari hjartslátt þegar hann fer með fleipur.
Þetta lagðist þungt á 64 ára mann. Hann einangraði sig. Læddist með Covid-grímu út í matvörubúð að nóttu til þegar fáir eru á ferli. Fyrir tveimur árum leitaði hann til lýtalæknis. Sá fjarlægði hnúðinn, lagaði nefið í upprunalegt horf og gaf Jóa ströng fyrirmæli um að láta af ósannindum..
Vísindi og fræði | Breytt 29.2.2024 kl. 08:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
31.12.2023 | 12:09
Lán í óláni
Kunningi minn er á áttræðisaldri. Hann á orðið erfitt með gang. Þess vegna fer hann sjaldan úr húsi. Nema ef frá er talið rölt í matvörubúð. Hann býr við hliðina. Tilvera hans er fábrotin. Sjón hefur dofnað. Hann les ekki lengur. Bækur voru honum áður besti félagsskapur.
Fyrr í þessum mánuði ákvað hann að rjúfa einangrun sína. Hann fékk sér sjónvarp og sjónvarpspakka, internet, ráder, myndlykil, prentara, snjallsíma og allskonar. Hann kunni ekkert á þetta. Hann fékk ungan mann til að tengja allt og kenna sér á helstu aðgerðir.
Ekki gekk þjónustumaðurinn vel um. Hann skildi eftir á gólfinu hrúgu af snúrum af ýmsu tagi. Á dögunum vaknaði gamlinginn utan við sig. Hann flæktist í snúrunum; sveif á hausinn og rotaðist. Það síðasta sem hann man var að horfa á eftir stóra flatskjánum skella á næsta vegg.
Margar snúrur höfðu aftengst. Með aðstoð 8007000 tókst honum að tengja þær upp á nýtt. Honum til undrunar stóð flatskjárinn af sér höggið. Hann virkar. Ekki nóg með það; myndin á skjánum er ennþá skýrri og litir skarpari en áður. Jafnframt örlar núna á þrívídd.
Allra best þykir honum að sjónvarpsdagskráin á skjánum er betri en fyrir óhappið.
Vísindi og fræði | Breytt 14.1.2024 kl. 16:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)