Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Músíksmekkur

  Smekkur á músík ræðst af mörgum þáttum.  Einn af þeim er andlegur þroski einstaklingsins.  Annar er hormónaframleiðsla líkamans.  Kornabörnum þykir fátt skemmtilegra en klingjandi spiladósir sem endurtaka í sífellu sama stutta stefið.  Á þetta geta blessuð börnin hlustað á sér til ómældarar skemmtunar mánuðum saman.  Það er vanþróaður tónlistarsmekkur.

  Stálpaðri börn sækja í ofurlétt popplög með grípandi laglínu.  Þegar strákar nálgast kynþroskaaldur fara þeir sumir hverjir að hlusta á poppað þungarokk samfléttað teiknimyndafígúrum.  Hljómsveitin Kiss verður oft fyrir valinu.  Flestir strákar með eðlilegan þroska vaxa upp úr Kiss um fermingaraldur.  Testóstera-framleiðsla líkamans er á flugi um og upp úr fermingaraldrinum og strákar sækja í harðari og árásagjarnari rokkmúsík.  Eða kjaftfora rappmúsík.  

  Stelpur aftur á móti sitja uppi með flæðandi framleiðslu á östrógen-hormóni.  Þess vegna sækja þær í mjúka og tilfinningaríka (verndandi og móðurlega) músík og píkupopp.  Ekkert að því.  

  Þegar dregur úr framleiðslu testóstera hjá körlum með aldrinum mýkist músíksmekkur þeirra.  All svakalega svo um munar.  Sú er ástæðan fyrir því að elliheimilin munu aldrei einkennast af Pantera og Slayer á fullu blasti.  Svo hart og hávært rokk passar einfaldlega ekki við líkamsstarfsemi gamals fólks.

  Undantekningar sanna regluna.  Á sjöunda áratugnum fóru bresku Bítlarnir mikinn.  Lögðu undir sig heimsmarkaðinn í dægurlagamúsík.  Oft háværir og rokkaðir.  Svo leystist hljómsveitin upp í lok sjöundar áratugarins.  Þá héldu liðsmenn Bítlanna út í sólóferil.  Eins og venja er mýktist músík þeirra með tímanum og poppaðist óþægilega hratt.    

  Bassaleikari Bítlanna og söngvari,  Paul McCartney,  er kominn á áttræðisaldur.  Hann er ekki alveg samstíga jafnöldrum sínum.  Hann er af og til að leika sér með framsækna Killing Joke-liðanum Youth í dúettinum The Fireman.  Þeir hafa sent frá sér þrjár spennandi plötur.  Þar á meðal fór Paul á mikið blúsflug á síðustu plötunni:  

  Þetta hljómar ekki eins og maður á áttræðisaldri.  Né heldur þegar Paul er að blúsa með Nirvana.  Kallinn heldur röddinni.  Hann gefur ekki tommu eftir.  Hann blúsar eins og ofvirkur unglingur.   

  Þessi maður er sá sami og samdi og flutti með hljómsveit sinni,  Bítlunum,  blúsinn Helter Skelter fyrir næstum hálfri öld (1968).  Það var nýlunda á þeim tíma að lag hætti tvívegis.  Það var reyndar margt fleira sem Bítlarnir gerðu á skjön við hefð þess tíma.  Mjög margt.  Einnig þessi ákafi öskursöngstíll Pauls.

   


Sokkar sem gera þig að góðum dansara

  

   Vond frétt fyrir danskennara og dansskóla.  Góð frétt fyrir aðra.  Sérstaklega þá sem girnist að dansa en kann það ekki.  Svo ekki sé minnst á þá sem vita nokkurn veginn hver danssporin eiga að vera en á dansgólfinu fer allt úrskeiðis.  Fæturnir fara í allar áttir og aðallega í vitlausar áttir.  Snælduvitlausar áttir.

  Eftir tvo mánuði koma á markað sokkar sem stýra fótunum í réttu danssporin.  Sokkarnir líta út eins og venjulegir sokkar.  Það má þvo þá í þvottavél og allt.  

  Sokkarnir eru úr næmum trefjum.  Þær eiga samskipti við forrit í snjallsíma á meðan viðkomandi dansar.  

 


Einföld leið til að tvöfalda framleiðsluna

haena_og_egg.jpg  Það er verulega undarlegt hvað mörgum gengur illa að hámarka framleiðslu í fyrirtækjum sínum.  Það er eins og framleiðendur á öllum sviðum vilji að reksturinn lulli í hægagangi á hálfum afköstum.  Dæmi:  Það er auðvelt að tvöfalda mjólkurframleiðsluna.  Líka eggjaframleiðsluna.  Það eina sem þarf að gera er að spila músík fyrir dýrin.  

  Þessar skepnur hafa einfaldan músíksmekk.  Þær kunna best við einfaldar laglínur og straumlínulagaðan flutning.  Flóknir taktar,  taktskiptingar,  ágeng sóló eða hamagangur og læti veita dýrunum ekki ánægju.  Kýr kunna vel við ljúft harmónikkuspil og léttklassík.  Hænur kunna best við létta söngleikjamúsík og léttklassík.

  Þessi músík veitir skepnunum vellíðan.  Þær slaka á,  kumra og mala inni í sér og fyllast hamingju.  Það leiðir til aukinnar mjólkurframleiðslu og örara eggjavarpi.

  Í einhverjum tilfellum er hægt að tvöfalda mjólkurframleiðsluna með þessari aðferð.  Hænurnar tvöfalda varpið með það sama. 

  Hér er sönglag sem Paul Simon orti um morgunverð.  Hann samanstóð af spældu eggi og kjúklingi.

   

  


mbl.is Lág laun ástæðan fyrir litlum hagvexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannað geimfar lenti á sólinni

geimfar_til_solarinnar_1226490.jpg

   Í gærmorgun var sautján ára drengur,  Hung Il Gong,  á leið heim til sín - eftir nætursvall - í Norður-Kóreu.  Að venju slagaði hann framhjá geimferðarstofnun landsins.  Við honum blasti nett geimflaug og dyrnar voru ekki alveg lokaðar.  Forvitni vaknaði,  Hung Il Gong skreið inn í flaugina og litaðist um.  Hann sá að allir takkar,  handföng,  mælar og annað var vel merkt og auðskiljanlegt.  

  Hung þótti ekki ástæða til að bíða með neitt.  Hann ræsti flaugina,  skaut henni á loft og setti stefnuna á sólina.  

  Svo heppilega vildi til að ferðalagið var eftir sólsetur og fyrir sólarupprás.  Hung ferðaðist þess vegna í myrkri þangað til hann kom að sólinni.  Þá stýrði hann flauginni lipurlega að bakhlið sólarinnar,  sem er ekki eins heit og framhliðin,  og lenti þar.

  Frásögn af lendingunni á sólinni var aðalfréttin í n-kóreska sjónvarpinu.  Þar sagði meðal annars að Norður-Kórea hafi skotið öllum þjóðum heims ref fyrir rass með geimferðinni til sólarinnar.  Hvatt var til þess að Hung Il Gong yrði fagnað sem hetju við heimkomuna.  Ferðin til sólarinnar væri stærsta afrek í sögu mannkyns frá upphafi. 

  Hung Il Gong er náfrændi Kim Jong-un,  leiðtoga þjóðarinnar.  Hung fyllti alla vasa af sjóðheitu sólargrjóti sem hann ætlar að færa Kim frænda að gjöf.  N-kóreskir fjölmiðlar þreytast ekki á að halda því fram að Kim Jong-un sé kynþokkafyllsti maður í heimi.  Jafnframt hamra n-kóreskir fjölmiðlar á því að Kim Jong-un hafi fundið upp herraklippingu sem farið hefur sigurför um heiminn.  Þess á milli rifja þeir upp að faðir Kim Jong-un hafi fundið upp hamborgarann.  

  Kim Jong-un hefur tekið upp sið föður síns að drekka sig blindfullan af koníaki á kvöldin.  Enda engin ástæða til annars.  Kim Jong-un hefur þó ekki apað upp sið pabbans að sitja allsnakinn við drykkjuna.  Kim Jong-un er svo kynþokkafullur að hann þarf ekki klæðaleysi til að flagga því. 

kim_jung-il_1226510.jpg  

  Hung ráðleggur næstu sólarförum að hafa sólgleraugu með.  Það er dáldið bjart á sólinni. 

kim-jong_un.jpg  

   


Nafnið skiptir meira máli en þú heldur

  Þegar foreldrar velja barni sínu nafn er um stóra ákvörðun að ræða.  Flestir velja nafn út frá því hversu vel það hljómar.  Ekki síst hvernig það hljómar með eftirnafni (hvort sem um er að ræða ættarnafn eða barn kennt við föður eða móður).  Margir velja nafn til heiðurs nánum ættingja eða vini.  Enn aðrir velja nafn út frá merkingu nafnsins.  Í sumum tilfellum er þessu öllu blandað saman og barnið fær tvö nöfn. 

  Strax í grunnskóla kemur í ljós vægi nafnsins.  Sum nöfn bjóða upp á niðrandi uppnefni.  Önnur bjóða upp á upphefjandi gælunafn.

  Þegar einstaklingurinn eldist,  þekking hans og jafnaldra á sögunni eykst,  skiptir nafnið ennþá meira máli.  Merking nafnsins hefur mikið að segja.  Líka hvort að það sé samhljóða nafni afreksfólks.  Nafnið hefur áhrif á sjálfsímynd ekki síður en hvernig það hljómar í eyrum annarra við fyrstu kynni.  Það þarf sterk bein til að bera nafn á borð við Ljótur Karl, Selja Rán eða Lofthæna (engir heita þeim nöfnum í dag). Líka Hreinn Sveinn og Erlendur Sveinn Hermannsson (sonur óþekkts bresks eða bandarísks hermanns).  

  Nokkrar íslenskar konur heita Björk Guðmundsdóttir.  Nafnið hefur mjög öfluga viðskiptavild.  Ég held að engin heiti Vigdís Finnbogadóttir.  Líkast til vegna þess að nafnið Finnbogi er ekki algengt.

  Nöfnin Jón Sigurðsson,  Egill Skallagrímsson,  Ingólfur Arnarson og Grettir Ásmundarson eru gildishlaðin í sögulegu samhengi.

  Í breska háskólanum í Cambridge voru 223.000 nöfn skráð í gagnagrunn og raðað upp eftir stöðu viðkomandi í samfélaginu út frá starfi.  Niðurstaðan var afgerandi.  Þeir sem bera "voldug" nöfn á borð við King, Prince og Lord tróna ofarlega í samfélaginu.  Þeir sem bera nöfn eins og Farmer (bóndi),  baker (bakari) og Cook (kokkur) komast ekki langt.  

  Í meira en hálfa öld hefur skemmtiiðnaðurinn verið meðvitaður um hlutverk nafns.  Elton John hefði aldrei náð frama með sínu raunverulega nafni,  Reginald Kenneth Dwight. 

  David Bowie heitir því auðmelta nafni David Jones.  Svo illa vildi til að þegar hann var að hasla sér völl þá var breskur samlandi hans og alnafni að syngja með ómerkilegri bandarískri bítlahljómsveit,  The Monkees.  Bowie varð að greina sig frá kvikindinu.      

  George Michael hefði ekki átt mikla möguleika undir sínu rétta nafni,   Georgios Kyriacos Panayitou. 

    


Þú prentar út mat í þrívídd - alvöru mat sem þú snæðir. Á markað á þessu ári!

hamburger-and-french-fries_1225884.jpg

  Hungrið sækir að.  Þú átt ekkert í ísskápnum.  Vonsku veður úti og þú nennir ekki í búð.  Þú sest við tölvuna og prentar í þrívídd út máltíð.  Það þarf aðeins að hita hana í örstutta stund í örbylgjuofni.  Þá er hún tilbúin og þú getur byrjað að snæða.

  Þetta er ekki fjarlægur framtíðardraumur.  Þessi prentari kemur á almennan markað núna í vor.  

  Þegar ég var í Barselona yfir jól og áramót var mikið um þetta rætt.  Það er spænskt fyrirtæki með höfuðstöðvar í Barselona sem stendur fyrir þessari skemmtilegu nýjung (að ég held í samvinnu við tölvufyrirtæki í fleiri löndum).  Ég sá fréttir af þessu.  Að vísu kann ég ekki spænsku.  En ég sá myndir af ferlinu.  

  Við vitum að nú þegar eru fullkomlega nothæf skotvopn prentuð út í þrívídd.  Einnig varahlutir í bíla og fleiri tæki.    

 Síðasta byltingarkennda nýjung í eldhúsi er örbylgjuofn.  Hátt í þrír áratugir eru síðan hann kom á almennan markað.  Þrívíddarprentarinn er stærri bylting.  Það þarf ekki að draga fram allskonar potta og pönnur,  skera niður lauk,  hræra í sósum,  hveiti og allskonar út um allt.  Núna sest þú fyrir framan tölvuna og velur máltíð.  Smellir á myndina og þrívíddarprentarinn hefst handa.

  Þetta býður upp á fleiri möguleika.  Ef börn fúlsa við spínati eða öðru hollu grænmeti er minnsta mál í heimi að breyta lögun þess.  Láta það líta út eins og blóm eða flugvél eða annað spennandi.  

  Hvernig virkar þetta?  Prentarinn er á stærð við nettan örbylgjuofn.  Í stað blekhylkja í litaprentara eru tiltekin hráefni og krydd í hylkjum prentarans.  Prentarinn byrjar á því að prenta örþunna flögu.  Síðan hleður hann hverri örþunnu flögunni ofan á aðra til samræmis við myndina af matnum á skjánum.  

  Fyrsta kynslóð af prentaranum ræður ekki við hvaða mat sem er.  Hann getur prentað franskar kartöflur og kartöflumús en ekki venjulegar kartöflur.  Hann prentar hamborgara,  pizzur,  lasagna og eitthvað svoleiðis.  Hann prentar allskonar kökur.  Alveg frá súkkulaðibitakökum til ostatertna.   

  Matarprentarinn kostar um 150 þúsund ísl. kr.  Líklegast er að veitingastaðir prentaravæðist á undan heimilum.  Handan við hornið - strax í vor - eru veitingastaðir sem afgreiða einungis prentaðan mat.          


Ljósmyndataka rænir ljósmyndarann minni

photographer-bull.jpg

 

 

 

 

 

  Margir taka ljósmyndir.  Sumir jafnvel flottar ljósmyndir.  Þegar eitthvað er um að vera má iðulega sjá margar myndavélar á lofti.  Þetta á við um áhorfendur og þátttakendur á skemmtunum,  einnig í afmælum,  fermingarveislum og brúðkaupum.  Nú hefur rannsókn staðfest það sem margir hafa lengi haldið:  Ljósmyndarinn skerðir minni sitt við hverja myndatöku.  Ekki nóg með það.  Ljósmyndatakan brenglar jafnframt skynjun ljósmyndarans á framvindu atburðarins.

  Vegna þessa hafa tónlistarmenn á borð við Björk og Prince bannað ljósmyndatöku á hljómleikum sínum.  

  Á áttunda áratugnum var ljósmyndaönn hluti af námi mínu í Myndlista- og handíðaskóla Íslands.  Í heilan mánuð var fátt annað gert en ljósmynda (og framkalla).  Í einhvern tíma á eftir dró ég stundum (rándýra) ljósmyndavélina fram og smellti af.  En ég fann að þetta fór illa með minnið og lagði myndavélinni.  Ég hafði grun um að það væri eitthvað efni í myndavélinni sem brenglaði minnið.  Ég hef ennþá sterkan grun um það.   

  Þeir sem stýrðu rannsókninni um þetta í háskólanum í Connecticut í Bandaríkjunum vilja meina að það sé sjálf athöfnin,  ljósmyndatakan,  sem snúi upp á minnið.  Augnablikin fyrir, á og eftir að mynd er smellt af stelur athyglinni.  Annað sem gerist á meðan eða utan þessara augnablika fer meira og minna framhjá ljósmyndaranum.   

photographer_no_smoking.jpg


Vandræðalegt

  Öllum getur orðið á.  Meira en það.  Öllum verður á.  Sumum oft.  Það er misskilningur út um allt.  Bæði réttur og rangur.  Það átta sig ekki allir á því hvernig best er að nota regnhlíf.

me_regnhlif_1222408.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

   Það er heldur ekki öllum gefið að vita um mögulegt notagildi skyggnis á húfu.  

19-19-19skrytin_mynd_1222406.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

   Ef vel er að gáð sést að konan heldur spjaldtölvunni sinni upp að eyranu eins og símtóli (eða litlum farsíma)

stupid.jpg

me_tosku.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Sumum ferðatöskum fylgir enginn leiðbeiningabæklingur.  Fyrir bragðið dregur sumt fólk níðþunga tösku á eftir sér alla ævi.  Það veit ekki að taskan er á hjólum.  Til að þau komi að gagni þarf taskan að snúa rétt.  Þau koma ekki að gagni ef taskan snýr vitlaust.  

 

 

 

 

 

 

 

  Þessi tók mynd af lyftunni til að sýna vinum sínum.  Honum þykir svo heimskulegt að í lyftunni sé takki fyrir hæðina sem hann er á.  

lyfta.jpg


mbl.is Handrukkarar bönkuðu hjá lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Veðurstofan nauðsynleg?

  Ég hlusta daglega vel og rækilega á Útvarp Sögu.  Fyrir bragðið verð ég fróðari um sitthvað á hverjum einasta degi.  Í gærdag krossbrá mér illilega.  Á Útvarpi Sögu kom fram að starfsmenn Veðurstofu Íslands séu fleiri en tuttugu og fimm og fleiri en fimmtíu og fleiri en hundrað og fleiri en hundrað og fimmtíu.  Starfsmenn Veðurstofunnar eru 152!  Segi og skrifa:  Eitt hundrað fimmtíu og tveir!

  Þeir eru fleiri en meðalstórt þorp;  til að mynda allir íbúar Laugavatns til samans.  Hvað kostar rekstur Veðurstofunnar á ári?  Þarna er allt vaðandi í stjórum (gæðastjóri, hópstjórar, fagstjórar, mannauðsstjóri, vaktstjórar, aðalbókari, bókasafnsfræðingur, framkvæmdastjórar, forstjóri, rannsóknastjóri, verkefnastjóri, náttúruvárstjóri...).  Allir sennilega með sér skrifstofu með tilheyrandi búnaði.  Áreiðanlega hið vænsta fólk, samviskusamt og fullt áhuga. 

  Nú nota flestir Íslendingar norsku veðurstofuna yr.no.  Er þörf á Veðurstofu Íslands?  Ef svo er þá þörf fyrir að íslenska ríkið reki veðurstofu?  Er ekki hægt að einkavinavæða Veðurstofuna?  

  Hvað kostar þátttakan í Nató?  Er ekki hægt að einkavinavæða hana í leiðinni? 

 


mbl.is Blint verður í fyrramálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þvottur á höndum léttir lund

  Vísindaleg rannsókn,  framkvæmd í Háskólanum í Cologne,  hefur nú staðfest niðurstöðu sem kom út úr hliðstæðri vísindalegri rannsókn,  framkvæmdri í Háskólanum í Michigan fyrir tveimur árum.  Báðar rannsóknirnar snérust um þvott á höndum;  hvaða áhrif hann hefur á andlega líðan fólks. 

  Niðurstaðan var afgerandi og óvænt:  Þvottur á höndum léttir lund svo um munar.  Því betur og rækilegar sem fólk þvær hendur sínar þeim mun glaðværara og hamingjusamara verður það.  Þegar hendurnar eru skrúbbaðar í bak og fyrir með bursta svífur fólk á bleiku hamingjuskýi lengi á eftir.  

  Sálfræðilega skýringin á þessu er sú að á meðan hendurnar eru þvegnar þá notar undirmeðvitundin tækifærið og losar sig við sektarkennd,  minnimáttarkennd,  neikvæðni og aðrar niðurbrjótandi hugsanir.  Eftir stendur manneskjan með tandurhreinar hendur,  sjálfsöryggi og jákvæðar hugsanir.

  Næst þegar þú sérð reiða,  bitra og neikvæða manneskju þá veistu um leið að hún hefur ekki þvegið sér um hendur.  Við höfum séð þetta í umræðuþáttum í sjónvarpi.  Þangað hafa einstaklingar mætt úr jafnvægi,  kófsveittir og æstir.  Ef þeir bara hefðu haft rænu á að þvo sér um hendur eftir klósettferðir þá væru þeir ljúfir sem lömb;  ósveittir og sáttir í sínu skinni.     

   Gott dæmi um mann sem þvær sér aldrei um hendurnar.   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband