Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Fagnaðarefni

  b haukdal

  Það er gaman og gott að mest lesna fréttin á mbl.is í dag skuli vera um það að mér hafi þótt sjálfbrúnkan á Birgittu Haukdal of gul í Laugardagslögunum.  Þessi mikli áhugi á eftirtektarsemi minni bendir til þess að flest sé í allra besta horfi í þjóðfélaginu í dag.  Jafnvel að lesendur mbl.is séu komnir í jólaskap.  Til hamingju með það. 

  Ekki grunaði mig þegar ég sló inn þessa litlu sakleysislegu færslu að hún ætti eftir að vekja svona mikla og góða athygli á Birgittu í miðju jólaplötuflóðinu.  Salan á nýju plötunni hennar,  Ein,  tók sölukipp í dag í verslunum Skífunnar. 


mbl.is Fannst Birgitta Haukdal of gul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misheppnuð sjálfbrúnka á Birgittu Haukdal

  Ég sá útundan mér hluta af þættinum Laugardagslögin í sjónvarpinu áðan.  Mig langaði nefnilega til að sjá og heyra í Dr.  Spock og viðtalið við snillingana Andra Frey og Búa sem saman kallast Capone-bræður.  Í þættinum raulaði Birgitta Haukdal eitt lag.  Athygli mína vakti óeðlilegur sjálfbrúnkulitur á bringu og höndum Birgittu.  Liturinn var kjánalega gulur.  Þetta þarf að rannsaka.   Það er ástæða til að fá upplýst hvaða sjálfbrúnkukrem lék stelpuna svona grátt.  Það var hörmung að sjá þetta.

  Í vísindalegri samanburðarrannsókn sem bandaríska tímaritið Glamour gerði kom reyndar í ljós að öll - nema 2 - helstu sjálfsbrúnkukrem á markaðnum framkalla í einhverjum tilfellum þennan gula tón í stað eðlilegs sólbrúnkulits.  Það voru einungis sjálfbrúnkukrem Banana Boat og eins annars merkis (sem ég man ekki hvert er) sem framkölluðu í 100% tilfellum fallegan og eðlilegan sólbrúnkulit.  


Fróðleiksmoli

  Það var verið að benda mér á að tunglið sé óvenju stórt og skært þessa dagana.  Ekki veit ég hvers vegna svo er.  Hinsvegar veit ég að orðið tungl er dregið af orðinu tungel.  Það orð var og/eða er til í öllum norrænum tungumálum og ensku.  Orðið tungel er dregið af indó-engelska orðinu dengel sem lýsir því að eitthvað skíni. 

Af hverju tók Samkeppniseftirlitið hálfan kassa?

  Guðmundur Marteinsson,  framkvæmdarstjóri Bónus,  sagði ítrekað í útvarpsfréttum í gær og í Fréttablaðinu í dag að Samkeppniseftirlitið hafi afritað tölvugögn og einnig tekið með sér hálfan kassa af pappír.  Þetta er dularfullt.  Af hverju tók Samkeppniseftirlitið ekki heilan kassa?  Fannst enginn heill kassi í Bónus?  Hvorn helminginn af kassanum tók Samkeppniseftirlitið?  Hægri helminginn eða þann vinstri?  Eða efri hlutann,  þennan með lokinu?  Eða botninn?  Það verður að fást botn í þetta.  Tók Samkeppniseftirlitið líka hálfan kassa hjá Krónunni?  Til samanburðar eða til að púsla saman í heilan kassa?

 

 


mbl.is Samkeppniseftirlitið gerir húsleit hjá Bónus og Krónunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svívirðileg níðskrif

 rotta

  Víkverji Morgunblaðsins leyfir sér stundum að ganga lengra í skrifum en siðaðra manna er háttur.  Þetta gerir Víkverji í skjóli nafnleyndar og þeirrar staðreyndar að Víkverji er ekki ein persóna heldur skiptast blaðamenn á að skrifa í nafni Víkverja.  Í blaðinu í dag ræðst Víkverji að rottum með svívirðingum.  Meðal annars segir hann rottur vera "líklega viðbjóðslegustu kvikindi sem til eru á jörðinni."

  Víkverji segir rotturnar vera illa þefjandi,  ljótar og ógeðslegar með langt og slímugt skott.

  Hið rétta er að rottur eru stöðugt að þrífa sig og eru þess vegna lyktarlausar.  Skottið á þeim er vissulega langt í samanburði við dindil á kindum.  Skottið er jafnan tandurhreint og þurrt en alls ekki slímugt.  Rottur eru afskaplega félagslyndar og þykir sérlega gott að láta klóra sér á bak við eyrun.  Þær eru í hópi greindustu dýra og eru fljótar að læra nafnið sitt.  Rottur eru fallegar,  krúttlegar og skarpeygar.    

  Þar fyrir utan er djúpsteikt rottukjöt með hrísgrjónum og súrsætri sósu herramannsmatur. 

  Ég skora á Víkverja að biðja rottur fyrirgefningar á þessum dæmalausu níðskrifum um dagfarsprúð og sérlega snyrtileg dýr.  Hann yrði maður að meiri. 


mbl.is Rottuæði í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arnþrúður skýtur föstum skotum á Hildi Helgu

  Fram hefur komið í dagblöðum og víðar að Hildur Helga Sigurðardóttir hafi kært Arnþrúði Karlsdóttur,  eiganda Útvarps Sögu.  Hildur Helga telur sig eiga inni ógreidd laun hjá Arnþrúði.  Í dagblöðum hefur einnig komið fram að Arnþrúður telur sig ekki skulda Hildi Helgu laun.  Þvert á móti þá skuldi Hildur Helga Arnþrúði vegna leigubílakostnaðar sem hún hafi látið skrifa á Útvarp Sögu.

  Í símatíma hjá Arnþrúði í dag á Útvarpi Sögu spurði hlustandi út í málið.  Arnþrúður svaraði því til að fólk þyrfti nú að mæta í vinnuna til að fá greitt fyrir vinnu.  Svo bætti Arnþrúður við:  "Og þegar fólk mætir þá þarf það að vera í þannig ásigkomulagi að það geti sinnt vinnunni."


Einn góður

  Þennan heyrði ég í dag.  Þrátt fyrir andúð á ljóskubröndurum þá hló ég. 

  Rúnar vörubílstjóri var að keyra upp Kringlumýrarbraut síðasta vetur.  Frostbarinn snjór lá yfir borginni.  Þegar Rúnar bíður á rauðu ljósi við gatnamót Suðurlandsbrautar bankar ljóska á bílhurðina.  Rúnar skrúfar niður rúðuna og ljóskan segir:
 

 - Hæ,  ég heiti Dísa.  Ég var að keyra á eftir þér.  Það datt hluti af hlassinu á bílnum þínum.

  Um leið kemur grænt ljós og Rúnar brunar áfram án þess að svara Dísu.  Hann þarf aftur að stoppa á rauðu ljósi við Miklubraut.  Aftur bankar Dísa á bílhurðina.  Þegar Rúnar skrúfar niður rúðuna segir hún:

 - Hæ, ég heiti Dísa.  Það datt aftur hluti af hlassinu á bílnum þínum.

  Enn kemur grænt ljós áður en Rúnar nær að svara.  Við næstu gatnamót stoppar Rúnar á rauðu ljósi.  Hann stekkur út úr bílnum.  Hleypur að bíl Dísu,  rífur þar upp hurðina og hrópar:

 - Hæ, ég heiti Rúnar.  Ég vinn við að dreifa salti á götur borgarinnar! 


Allt í rugli á Prestbakka

prestbakki mynd 1 prestbakki mynd 2prestbakki mynd 3

  Frá því að byggð reis í Breiðholti hefur sú hefð skapast í raðhúsunum á bökkunum að hver hugsar um viðhald síns húss.  Einungis gaflar hafa verið sameiginlegt viðhaldsverkefni.  Um þetta hefur ríkt samhugur og engin ágreiningsmál kviknað.  Fyrr en núna á Prestbakka.

  Fjórir af 6 íbúðareigendum í raðhúslengju þar hafa ekki sinnt viðhaldi á húsþökum.  Þökin hafa hriplekið til margra ára og eru við það að grotna niður.  Eigendurnir horfa fram á háan kostnað.  Rætt var við Húseigendafélagið.  Þar var hvatt til þess að farið yrði eftir fjölbýlishúsalögum um sameiginlegan kostnað allra íbúða við þakviðgerðir.  Þar með yrðu þeir íbúðaeigendur sem þegar hafa skipt um þak á eigin reikning neyddir til að taka einnig þátt í kostnaði við ónýt þök skussanna.  Þetta þótti sumum skussanna heillaráð

  Einn íbúðareigandinn vinnur hjá Almennu verkfræðistofunni.  Sú stofa var fengin til að halda utan um verkið.    

  Svala Jóhannesdóttir og Hebbi Guðmunds búa á Prestbakka 15.  Þau endurnýjuðu þakið hjá sér fyrir nokkrum árum.  Og þykir eðlilega ósanngjarnt að þurfa að borga fyrir endurnýjun á þökum hjá öðrum.  Þegar þau reyna að höfða til sanngirnissjónarmiða er vísað í Húseigendafélagið og lögin.

  Meirihlutinn í raðhúslengjunni kyrir málið áfram af mikilli hörku.  Fyrst var mánaðargjald húsfélagsins ákveðið 50.000 kr.  Sem þykir í hærri kantinum.  Síðan var það hækkað í 500.000 kr.  Það er yfir þeim mörkum sem venjuleg fjölskylda ræður við ofan á önnur útgjöld við rekstur heimilis. 

  Ég hef imprað á þessu áður:    http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/271662/

  Framkvæmdir við Prestbakkann eru hafnar.  Svölu og Hebba undrar hvernig staðið er að málum.  Smiður var fenginn til að rölta í kringum raðhúsalengjuna og punkta niður hvar steypuskemmdir sjást og fleira sem þarf að laga.  Fyrir röltið kom reikningur upp á 165.000 kr.  Hebbi þekkir smið sem var til í að rölta þennan hring án þess að taka krónu fyrir.  Og punkta niður hvað þarf að lagfæra.

  Það er allt eftir þessu.  Almenna verkfræðistofan var búin að rukka 2 milljónir kr. fyrir sína aðkomu ÁÐUR en verkframkvæmdir hófust.   

  Verktaki sem tók að sér múrvinnu hefur tvívegis sést á svæðinu.  Laxveiðiárnar mega ekki bíða.  17 og 22ja ára guttar,  sem eru í vinnu hjá honum,  sjá um verkið.  Þeir brutu niður vegg á milli Prestbakka 17 og 19.  Slógu síðan upp mótum fyrir nýjum vegg.  Steypubílar mættu á svæðið og steypunni var hellt í mótin.  Þegar slegið var utan af þessu blasti ónýtur veggur við.  Guttarnir höfðu ekki áttað sig að það þarf að járnbinda steypu. 

  Þá var byrjað upp á nýtt á fullum taxta (hátt á fimmta þúsund kall með vsk á tímann).  Að þessu sinni var járnbundið.  Samt sem áður er veggurinn lítið skárri en í fyrri atrennu.  Húseigandinn á nr. 17 hringdi í verktakann.  Sá reif bara stólpakjaft.  Var sennilega pirraður yfir að vera truflaður með veiðistöng úti í miðri á.  Hebbi er að hugsa um að fá sett lögbann á framkvæmdir.   

  Ef smellt er á myndirnar þá stækka þær og verða skýrari.

 


Nýjasta æðið

  Einu sinni voru það fótanuddtækin.  Síðan Soda Stream tæki.  Með reglulegu millibili fara einhver afbrigði af keðjubréfum eins og stormsveipur yfir samfélagið.  Sömuleiðis svokölluð píramídafyrirtæki þar sem allir ætla að verða milljónamæringar á nokkrum vikum.  Í þeim tilfellum þarf sölumaðurinn að vera með 5 - 7 sölumenn fyrir neðan sig til að fá tekjur.  En fáir fatta að ef hver sölumaður nær að góma 10 í netið þá er litli íslenski markaðurinn mettaður svo hratt að á örfáum vikum - og í aðeins 5 þrepum - er allt komið í strand (1 x 10 = 10.  10 x 10 = 100.  10 x 100 = 1000.  10 x 1000 = 10.000.  10 x 10.000 = 100.000).  Þá verða allir voðalega hissa og skilja ekki upp né niður í því hvernig gróðabrallið klúðraðist.  Eins og þetta var pottþétt.   Það skrítna er að það er nákvæmlega sama fólkið sem fellur aftur og aftur í sömu píramídagryfjurnar.  "Trixið" er að segja því að nýja píramídadæmið sé ekki beinlínis píramídi.  Þetta sé alveg nýtt og öðruvísi dæmi.  Alveg pottþétt dæmi sem getur ekki klikkað.

  Nýjasta tískuæðið er kolefnisjöfnun.  Núna er enginn maður með mönnum nema hann hafi kolefnisjafnað bílinn sinn,  sumarfríið og ég veit ekki hvað og hvað.  Stemningin er svo öflug að maður sogast með inn í hringiðuna eins og viljalaust verkfæri.  Áður en ég vissi af var ég búinn að kolefnisjafna skrifborðið mitt,  ísskápinn og kött.  Og ég á ekki einu sinni kött. 

   


Kona lenti í áflogum við klósett

 hnífsdalurbrennurmeirahnífsdalurhnifsdalur-91-18117

  Hvað er í vatninu sem rennur úr krönum í dal Hnífs?  Íbúar eru ekki nema rúmlega 200 manns.  Samt er mannlífið álíka viðburðarríkt og í erlendri stórborg.  Ekki nóg með að einn hress Hnífsdælingurinn tæki upp á því að skjóta úr haglabyssu í andlit konu sinnar um helgina heldur var verið að dæma nágranna þeirra hjóna,  ansi spræka konu,  í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að lemja konu hnefahöggi í andlit og bíta aðra konu í fingur.  Jafnframt lenti hún í áflogum við klósett félagsheimilis Hnífsdælinga með þeim afleiðingum að klósettið mölbrotnaði.  Einnig átti hún í útistöðum við salernishurðina.  Sá leikur endaði með því að hurðin gekk af hjörum og fór í mask.  Konan játaði að hafa átt upptökin af öllum slagsmálunum. 

  Ef smellt er á myndina lengst til hægri nýtur hún sín miklu betur og þorpið kemur í ljós. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.