Færsluflokkur: Vísindi og fræði
16.8.2008 | 23:11
Madonna er forljót - og ég get sannað það!
Ég er kannski ekki rétti maðurinn til að skrifa um Madonnu. Mér þykir músík hennar óþolandi leiðinleg. En ég ætla svo sem ekki að tjá mig neitt um músíkina hennar. Þess í stað ætla ég að setja spurningamerki við það lof sem hlaðið er á Madonnu fyrir meinta fegurð. Sannleikurinn er sá að Madonna er ófríð, svo sem sjá má á myndinni hér fyrir ofan. Sú mynd er ekki "fótósjoppuð", öfugt við margar aðrar myndir af henni.
Raunveruleikinn er sá að áður en Madonna fer út á meðal fólks þá lætur hún heilan her af förðunarfræðingum breyta sér í þokkalega útlítandi manneskju. Svona er skemmtiiðnaðurinn. Tómt fals.
![]() |
Madonna fimmtug |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (92)
13.8.2008 | 23:13
Algjör snilld! Ótrúlegt en satt!
Larry Walters hét bandarískur vörubílstjóri, fæddur 1949 og dáinn 1993. 11 árum áður en hann svipti sig lífi setti hann saman heimalagað loftfar úr hægindastól og 45 helium-fylltum veðurathugunarblöðrum. Í þessum stól skaust Larry 16.000 fet (næstum 5 kílómetra) upp í loftið og setti úr skorðum flugumferð yfir Long Beach flugvelli.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
27.7.2008 | 02:42
Bangsar eru krútt - skemmtilegar myndir
Litlir sætir ísbirnir eru krútt. Stundum er leikur í þeim. Þessi sem hér um ræðir sá tjald og fann fyrir löngun til að leika sér við tjaldbúa. Hann þekkti eðlilega ekki hvernig opna á tjald. Í stað þess að renna upp fortjaldinu brá hann á það ráð að rjúfa tjaldið bakdyramegin og heilsa upp á tjaldbúa. Fyrst datt honum í hug að gaman væri að klóra einum vinalega á bakinu.
Næst langaði hann til að klóra öðrum í hársvörðinn. Það er oftast notalegt. Kannski var hann samt óþarflega harðhentur.
Því næst datt honum í hug að gaman væri að narta kumpánlega smá í fætur. Eiginlega til að kitla þessa nýju leikfélaga.
Vanþakklátir tjaldbúar kunnu ekki að meta vinahót bangsa og brugðust ókvæða við. Í stað þess að leika við litla sæta bangsa þá beittu þeir hann grófu ofbeldi sem fór úr böndunum og lauk með því að krúttið dó. Skamm, skamm.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
21.7.2008 | 23:47
Amy Winehouse - þetta er hryllingur - Hvað er í gangi?
Ég hef gífurlega miklar áhyggjur af ungri enskri söngkonu sem heitir því fagra nafni Vínhús. Nafni sem maður skimar ósjálfrátt eftir á ferðalögum erlendis. Eins og sést á efri myndinni þá var þetta fögur stelpa fyrir 2 - 3 árum og bar utan á sér barnslegt sakleysi. Á neðri myndinni virðist hún vera mun eldri en hún í raun er. Þetta virðist vera útlifuð fertug kona á "speed-flippi".
Mig minnir að hún sé 23ja eða 24ra ára. Þrátt fyrir stöðuga andlitsförðun á snyrtistofum brjótast graftarkýli og sár í andlitinu fram í gegnum farðann í tíma og ótíma. Hvað er í gangi? Borðar hún bara óhollan mat? Hefur hún lent í vondum félagsskap? Það þarf að kanna þetta mál og taka það föstum tökum. Þetta gengur ekki.
Vísindi og fræði | Breytt 22.7.2008 kl. 02:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
7.7.2008 | 23:25
Lögreglan greip mig áðan
Síðdegis í dag helltist skyndilega yfir mig þorsti. Kannski var það út af sólinni og hitamollunni. Mig langaði í kalt appelsín. Það var ekki um annað að ræða en snarast í næstu sjoppu sem var Neinn við Vatnsmýri. Þar tyllti ég mér niður um leið og ég teygaði svalandi og litað sykurvatnið. Ég var svo upptekinn af að svala þorstanum að ég tók ekki eftir neinu í kringum mig og var í eigin heimi.
Allt í einu hrökk ég inn í raunheim við það að vingjarnlegur einkennisklæddur lögreglumaður lagði hönd á öxl mér. Hann bauðst til að fylgja mér til Lindahverfis í Kópavogi. Mér þótti vænt um þetta góða boð en varð að afþakka það. Ég átti ekkert erindi í Kópavog og síst af öllu í Lindahverfið.
Lögreglumaðurinn sýndi mér þá ljósmynd af ókunnugum manni og spurði hvort að ég héti ekki Sigurður. Nei, ég kannaðist ekki við að heita Sigurður og hef ekki einu sinni heyrt að neinn hafi reynt að uppnefna mig Sigurð. Ég sagðist heita Jens og laug þar engu.
Samtalið varð ekki lengra og ég kláraði appelsínið frekar ringlaður en ekki eins þyrstur og áður. Ég tók ekki eftir því hvað varð af lögreglumanninum. Ég sá eftir að hafa ekki haft rænu á að spyrja hver þessi Sigurður væri.
Núna þegar ég kom heim og fletti mbl.is sé ég hvað var í gangi. Leit stóð yfir af alzheimer-sjúklingi, Sigurði að nafni. Af ljósmyndinni að dæma sem fylgir fréttinni er maðurinn ekkert mjög ólíkur mér. Þannig lagað; að minnsta kosti fyrir fólk sem þekkir hvorugan okkar. Að auki er tekið fram í fréttinni að hann sé með yfirvararskegg (eins og ég en það stendur reyndar ekki í fréttinni). Yfirvararskeggið á Sigurði sést ekki á myndinni en lögreglumaðurinn sagði mér að myndin sé margra ára gömul.
Allt er gott sem endar vel og Sigurður fannst. Sem betur fer er ég ekki ennþá kominn með alzheimer. Annars væri ég núna í Lindahverfi í Kópavogi og Sigurður ennþá týndur.
![]() |
Maðurinn fundinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 9.7.2008 kl. 20:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (38)
10.5.2008 | 17:27
Óvænt uppgötvun
Eitt af því skemmtilega við netheima er að þar rekst maður iðulega á eitthvað sem kemur ánægjulega á óvart. Maður leitar uppi tilteknar netsíður í ákveðnum tilgangi og uppgötvar þá eitthvað nýtt og óvænt þar eða þá að leitin heldur áfram og leiðir mann á ókunnar skemmtilegar slóðir.
Þegar ég setti inn færsluna um Diskó og pönk hér fyrir neðan þá datt mér í hug að bæta við hana mynd úr leikverkinu Ástin er diskó, lífið er pönk. Ég leitaði uppi heimasíðu Þjóðleikshússins og rakst þá skyndilega á þetta: www.leikhusid.is/?PageID=753
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
6.5.2008 | 23:32
Tókst að afstýra fleiri en einum árekstri í dag
Um fimm leytið í dag ók ég í rólegheitum vestur Kleppsveg. Þegar ég ók um gatnamótin við bensínstöð Shell klesstu tveir bílar þar saman ansi hressilega. Ég kippti mér ekkert upp við það. Hélt bara áfram og beygði síðan upp Kringlumýrabraut. Er ég kom að fyrstu gatnamótunum - við Cabin hótel og Essó-bensínstöðin - beygði ég í vesturátt. Um leið sá ég tvo bíla skella saman við gatnamótin.
Þetta kom mér ekki við svo ég hélt í humátt að verslun Nóatúns við Nóatún. Er ég renndi þar í hlað sá ég bíl bakka út úr stæði og klessa á bíl fyrir aftan sig. Þá áttaði ég mig á því hvað var í gangi. Bíllinn minn sendi frá sér vonda strauma.
Ég brá við skjótt. Lagði bílnum og tók leigubíl til hins bílsins míns. Það sem eftir lifði dags ók ég um á honum. Eins og mig grunaði urðu ekki fleiri árekstrar í dag.
Vísindi og fræði | Breytt 23.6.2008 kl. 02:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
19.4.2008 | 23:46
Hryllileg lífsreynsla
Ég vaknaði - seint og síðarmeira - í dag við það að ég var blindur. Ég sá ekki neitt. Bara allt svart. Samt taldi ég mig merkja góða birtu þó ég sæi hana ekki beinlínis. En svarta myrkrið var ekki eins kolsvart þegar ég snéri að glugga eins og þegar ég snéri frá honum. Ég fékk eðlilega áfall. Ég "sá" tilveru mína hrynja.
Ég er reyndar búinn að sjá flest sem ég þarf að sjá, svo það var ekki málið. En hvernig átti ég að geta sinnt skrautskriftarkennslu án sjónar? Hvernig átti ég að sinna útkeyrslu á heildsölunni án þess að sjá neitt?
Ég staulaðist í sturtu. Það gekk að mestu áfallalaust fyrir sig. Yfir mig helltust samt áhyggjur vegna þessarar óvæntu fötlunar. Mér tókst að klæða mig og fór að velta því fyrir mér hvernig ég ætti að staulast svona blindur á veitingastað til að fá mér eitthvað í svanginn. Jú, ég gæti hringt á leigubíl.
Í þann mund sem ég fann farsímann minn og ætlaði að hringja á leigubíl fékk ég skyndilega góða hugdettu. Ég prófaði að opna augun. Og viti menn: Þá sá ég prýðilega. Hjúkk, hvað mér var létt.
Vísindi og fræði | Breytt 20.4.2008 kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)
8.4.2008 | 23:47
Það má búa til e-töflur
Ég hélt að það væri bannað að búa til e-töflur (ecstacy, eða alsælur eins og íslenskir sölumenn kalla þær). En það er víst misskilningur. Það má framleiða þessar umdeildu töflur. Svo segir að minnsta kosti í Fréttablaðinu í dag og málinu til staðfestingar er vísað í færeyska dagblaðið Dimmalætting (dimmu léttir = árblik). Á forsíðu Fréttablaðsins segir:
"...samkvæmt útreikningum sem ákæruvaldið hefði látið gera mætti framleiða rúmlega 200 þúsund töflur úr heildarmagni e-töfluduftsins sem smyglað var með skútunni. Þá hefði mátt framleiða yfir 14 þúsund e-töflur úr þeim hluta duftsins sem varð eftir í Færeyjum."
Í annarri frétt í Fréttablaðinu fullyrðir móðir Íslendingsins - sem verið er að rétta yfir í Færeyjum - að sonur sinn sé algjörlega saklaus. Hann hafi bara verið að gera Badda vini sínum greiða með því að geyma fyrir hann e-töfluduftið. Erfitt verður að dæma drenginn fyrir eitthvað saknæmt fyrst að ákæruvaldið er búið að tvítaka fram að það megi framleiða e-töflur.
Vísindi og fræði | Breytt 9.4.2008 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
12.3.2008 | 13:53
Presley bítur frá sér
Bandarískir fjölmiðlar hafa verið að slá því upp að Lisa Marie Presley, dóttir konungs rokksins, Elvis Presley, sé farin að líkjast kallinum ansi mikið eins og hann var skömmu fyrir andlátið. Þeir láta að því liggja að mataræði dótturinnar sé sömuleiðis farið að hneigjast í sömu átt og föður hennar undir lokin.
Lisa Marie hefur brugðist hin versta við þessu sem hún kallar "særandi umfjöllun um sig" og kærir umsvifalaust þá fjölmiðla sem fjalla um hana á þennan hátt fyrir meiðyrði. Óvíst er að vangaveltur slúðurblaðanna hefðu vakið sérstaka athygli ef stelpan hefði ekki kippt sér upp við þær. Hörð viðbrögð hennar hafa hinsvegar beint kastljósinu rækilega að mataræði hennar og útliti.
Það er ágætt að stelpan sýni tennurnar og verji sig. Það er líka eðlilegt að hún eldist eins og annað fólk. Myndin hér að neðan er - að ég held - tekin af Lisu Marie fyrir þremur árum. Myndin fyrir ofan þennan texta til vinstri er nýleg. Myndin hægra megin er af Elvis.