Færsluflokkur: Spaugilegt
2.5.2016 | 19:21
Af hverju eru rauðhærðir unglegri en aðrir? Gátan leyst
Vísindaleg rannsókn framkvæmd af háskóla í Frakklandi sýnir að aðdráttarafl rauðhærðra á skemmtistöðum er afgerandi meira en annarra. Aðrar rannsóknir - líka á dýrum - staðfesta að góð D-vítamín staða er segull á hitt kynið.
Rauðhærðir Bretar eru 1%. 4% forstjóra í Bretlandi eru rauðhærðir. Þetta þýðir að rauðhærðir eru fjórum sinnum líklegri til að ná toppstöðu á vinnumarkaði en aðrir. Eldri rannsókn leiddi í ljós að rauðhærðir eru meiri töffarar en aðrir. Eða þannig. Uppátækasamari, kjaftforari og áræðnari. Hærra hlutfall þeirra er "rebels" (uppreisnargjarnir). Þar fyrir utan er rautt hár flott.
Færeyska sjálfstæðishetjan Þrándur í Götu var fagurrauðhærður og dæmigerður sem slíkur. Sá lét ekki Noregskonung vaða yfir Færeyinga á skítugum skóm með skattheimtu eða annan yfirgang. Það er ekki tilviljun að konungur pönksins, Bretinn Johnny Rotten (Sex Pistols), er sömuleiðis fagurrauðhærður. Hans kjaftfora uppreisnarframkoma er dæmigerð fyrir rauðhærða. Sem hann svo kryddar með góðri kímni.
Það væri fróðlegt að skoða árangur rauðhærðra í músík eða leiklist. Þekkt er hljómsveitin Simply Red, kennd við rauðhærða söngvarann. Hvað með Eirík Hauksson og Pál Rósinkrans? Eða Dortheu Dam og Axl Rose? Eða Ágústu Evu og Sögu Garðarsdóttur? Ómar Ragnarsson og Jón Gnarr?
Spaugilegt | Breytt 14.2.2017 kl. 17:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
27.4.2016 | 14:23
Bjóst aldrei við að ná svona langt
Nýverið yfirgaf almannatengill bandaríska forsetaframbjóðandans Donald Trump sinn sómadreng. Ástæðan sem sú ágæta kona gefur upp er að grínið sé komið úr böndunum. Upphaflega hafi framboðið verið létt sprell. Ætlað að gera grín að og atast í hefðbundinni kosningabaráttu. Guttinn hafi sett markið á að ná 2. sæti í forvali repúblikanaflokksins.
Leikar fóru þannig að grallarinn náði næstum því strax forystu í forvalinu. Henni hefur hann haldið af öryggi síðan. Jafnframt fóru að renna tvær grímur á almannatengilinn, Cegielski. Konan taldi sig verða vara við sífellt fleiri glórulausar, fordómafullar og mannfjandsamlegar yfirlýsingar í málflutningi frambjóðandans. Einnig algert bull. Sitthvað sem henni mislíkaði.
Að lokum kom kornið sem fyllti mælinn: Það var yfirlýsing frá Trump vegna fjöldamorða á kristnum í Pakistan. Hún hljómaði þannig: "I alone can solve." Það útleggst sem svo að hann aleinn geti leyst vandamálið.
Konan fullyrðir að þannig virki utanríkispólitík ekki. Ekki fyrir neinn. Aldrei.
Hún ítrekar að guttinn hafi alls ekki gert ráð fyrir að sigra í forvalinu. Núna aftur á móti sé stolt hans í slíku rugli að hann geti ekki séð að sér.
Ástæða er til að hafa í huga að konan styður ekki lengur framboð Trumps. Hún vinnur ekki lengur fyrir hann. Kannski er hún óþokki og gengur illt eitt til. Því gæti ég best trúaað.
Trump og Hillary með stórsigra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 28.4.2016 kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.4.2016 | 13:37
Fróðleiksmolar sem gott er að vita
- Hrá gulrót er lifandi þegar þú borðar hana. Hún sýnir mælanleg óttaviðbrögð þegar þú bítur í hana. Hún er skelfingu lostin.
- Víða í Afríku borðar fólk með bestu lyst köku sem kallast kunga. Meðal hráefna í henni eru mýflugur. Hellingur af þeim.
- Í að minnsta kosti 2000 ár var kakó aðeins þekkt til drykkjar. Það var ekki fyrr en um miðja 19. öld sem menn föttuðu að hægt væri að gera súkkulaðistykki úr kakói. Við það tóku margir gleði sína.
- Vinsældir súkkulaðis bárust nýverið til Kína. Þar breiðast þær hratt út. Þetta veldur innan örfárra ára kakóskorti í heiminum. Þá hækkar verð á súkkulaði svo bratt að einungis auðmenn með falda peninga í skattaskjóli hafa efni á því. Ráð er að hamstra súkkulaði þegar í stað og geyma til mögru áranna.
- Ef sniglum er gefið geðlyfið Prozak þá tapa þeir hæfileikanum til að framleiða límkennt slím. Það er betra að leyfa þeim að vera geðveikum.
- Stinningarlyfið Viagra var upphaflega notað gegn brjóstsviða. Fljótlega urðu sjúklingar varir við einkennilega hliðarverkun.
- Allir þurfa svefn. Án hans þyrfti fólk ekki heimili. Fjölskyldur myndu flosna upp. Fyrirbærið lögheimili væri ekki til. Þá væru stjórnmálamenn ekki skráðir til heimilis á eyðibýli norður í landi. Lengsti skrásetti samfleytti vökutími einnar manneskju er tæpir 19 sólarhringar. Ekki er mælt með svo löngum vökutíma. Án svefns lætur margt undan á örfáum dögum. Fólk fer að sjá ofsjónir og geðraskanir mæta á svæðið.
- Rannsóknir hafa leitt í ljós að fólk yfir meðalgreind gengur ver að vakna á morgnana en öðrum. Er morgunsvæfara. Undantekning er gáfað fólk með geðveilu. Fólk sem sefur reglulega í örfáa klukkutíma á sólarhring (4 - 5 klukkutíma) er í andlegu ójafnvægi.
- Fuglinn næturgali kann og man yfir 200 mismunandi laglínur sem hann tístir til að heilla gagnstæða kynið. Reyndar ekkert merkilegar laglínu. Raggi Bjarna kann álíka mörg lög. Miklu betri lög.
Spaugilegt | Breytt 31.1.2017 kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.4.2016 | 11:16
Það er flugmaðurinn sem talar
Þegar skroppið var til Amsterdam á dögunum þá flaug ég með flugfélaginu Wow. Það geri ég alltaf þegar því er við komið. Fyrstu árin voru flugfreyjur Wow uppistandarar. Þær reittu af sér vel heppnaða brandara við öll tækifæri sem gafst. Eðlilega gekk það ekki til lengdar. Það er ekki hægt að semja endalausa brandara um björgunarbúnað flugvélarinnar, útgönguleiðir og svo framvegis. Því síður er boðlegt að endurtaka sömu brandarana oft þar sem fjöldi farþega ferðast aftur og aftur með Wow.
Ennþá er létt yfir áhöfn Wow þó að brandarar séu aflagðir. Ein athugasemd flugmannsins kitlaði hláturtaugar farþega á leið frá Amsterdam. Hún kom svo óvænt í lok þurrar upptalningarþulu. Þið kannist við talanda flugmanns í hátalarakerfi. Röddin er lágvær, blæbrigðalaus og mónótónísk: "Það er flugmaðurinn sem talar. Við fljúgum í 30 þúsund feta hæð... Innan skamms verður boðið upp á söluvarning. Upplýsingar um hann er að finna í bæklingi í sætisvasanum fyrir framan ykkur. Í boði eru heitir og kaldir réttir, drykkir og úrval af sælgæti. Mér finnst Nóa kropp best!"
Verið er að skoða töskur mannsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 15.4.2016 kl. 21:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.4.2016 | 22:07
Fagnaðarefni
Það er fátt neikvætt við að fráfarandi forsætisráðherra Íslands, Sigmundur Davíð Gunn-LAUG-sson, sé aðhlátursefni út um allan heim. Heimspressan - netmiðlar, dagblöð og sjónvarpsstöðvar - keppast við að búa til, fara lengra með og teygja brandara og skemmtiefni úr klaufaskap hans við að ljúga. Það er ekkert nema kostur að kæta heimsbyggðina með safaríku grínfóðri.
Í framhjáhlaupi má skjóta því inn að vandræðagangur kauða, stam og óðagot, sannar að hann er ekki siðblindur. Hann þekkir mun á réttu og röngu. Afhjúpandi einkenni siðblindra er að þeir eiga jafn auðvelt með að ljúga og segja satt. Þetta eru góðar fréttir.
Ennþá betri fréttir er að mikil umfjöllun um Ísland í heimspressunni vekur athygli á Íslandi og skilar auknum ferðamannastraumi. Útlendingar þyrpast til Íslands sem aldrei fyrr með fangið fullt af gjaldeyri. Okkur bráðvantar þann gjaldeyri í stað allra peninganna sem Íslendingar fela í skattaskjólum á Tortóla.
Sigmundur Davíð skotspónn spéfugla beggja vegna Atlantshafs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 12.4.2016 kl. 08:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
6.4.2016 | 19:36
Misskildasti maður heims
Áðan var hringt í mig frá Bandaríkjum Norður-Ameríku. Í símanum var maður sem ég hef aldrei áður rætt við í síma. Hafði aðeins keypt af honum vörur í fyrrasumar. Samskiptin þá fóru fram í gegnum ópersónulegan tölvupóst.
Erindið í dag var að viðkomandi sagðist vera eitt spurningamerki og verulega forvitinn vegna frétta í bandarískum fjölmiðlum um að allt væri "crazy" á Íslandi. Hann spurði hvernig íslenska heilbrigðiskerfið taki á persónulegum vandamálum hátt settra. Ég skildi ekki spurninguna og gat engu svarað. Stamaði þó út úr mér að það væri áreiðanlega gott að taka sopa af lýsi á morgnana.
Í dag hringdi einnig í mig Íslendingur búsettur í Noregi. Hann sagði að Íslendingar væru aðhlátursefni í Noregi.
Það þarf ekki að fara stóran rúnt um netsíður helstu fjölmiðla heimspressunnar til að sjá að Ísland og Íslendingar séu uppspretta ótal brandara í dag. Íslenskum ráðamönnum er líkt við klaufana í dönsku sjónvarpsþáttunum Klovn og dauða páfagaukinn hjá bresku Monty Python: "Hann er bara að hvíla sig."
Það má líka líkja ástandinu við vaktaseríurnar og kvikmyndina Bjarnfreðarson. Þetta er allt misskilningur.
Forsætisráðherrann, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þrætti við sænskan sjónvarpsmann um að tengjast skattaskjóli í útlöndum. Að vísu játaði hann hugsanleg tengsl við verkalýðsfélög sem ættu snertiflöt við peninga í útlöndum. En hann þrætti kokhraustur fyrir það sem í dag liggur fyrir: Að hann og eiginkona hans hafa til fjölda ára geymt hundruð milljóna króna í útlöndum í skjóli frá íslenskum gjaldeyrislögum.
Hann þrætti hraustlega fyrir að hafa selt eiginkonunni hlut sinn í peningasjóði þeirra. Reykjavík Medía hefur undir höndum afrit af undirskrift hans á þeirri leikfléttu. Svo sat hann beggja vegna borðs í samningum við hrægamma föllnu bankanna. Segist þar hafa gengið harkalega fram gegn heimilistekjum sínum. En enginn vissi eða átti að vita það. Kröfuhafar eru þó nokkuð sáttir með allt að 97% afslátt.
Þegar 10 þúsund manns boðuðu mótmælastöðu á Austurvelli fullyrti SDG með hæðnistóni að þetta fólk myndi ekki mæta. 22.427 mættu. Munurinn bendir til þess að SDG sé úr tengslum við þjóðina.
Ítrekað aðspurður um afsögn vísaði SDG því út í hafsauga. Allt tal um það væri misskilningur. Ekkert slíkt kæmi til greina. Í sömu andrá sagði hann af sér.
Í gærmorgun skrifaði SDG Fésbókarfærslu. Þar tilkynnti hann að næsta skref væri að rjúfa þing (og hefna sín þannig á Sjálfstæðisflokknum sem treysti sér ekki til að lýsa yfir stuðningi við SDG). Forsetanum var misboðið. Hann hafnaði því að embættið yrði dregið inn í reiptog á milli formanna stjórnarflokkanna. Þetta útskýrði forsetinn á blaðamannafundi. SDG brást við blaðamannafundinum með því að saka forsetann um lygar. SDG segist hafa upplifað eitthvað allt annað á fundinum með forsetanum. Gott ef ekki að þeir hefðu bara horft á kúrekamynd saman og maulað poppkorn.
Sigurður Ingi Jóhannsson dýralæknir kvaddi sér hljóðs og tilkynnti að hann væri orðinn forsætisráðherra. SDG væri búinn að segja af sér.
Blaðafulltrúi SDG sendi í kjölfarið út fréttatilkynningu til allra helstu fjölmiðla heims um að SDG væri hvergi búinn að segja af sér. Hann væri aðeins að stíga til hliðar. Heimspressan hendir gaman að þessu um leið og hún játar vandræði við að skilja dæmið. Hún spyr: Hver er munurinn á því að segja af sér eða stíga til hliðar? Þetta er gott grín. Það er hið besta mál að Íslendingar kæti heimsbyggðina. Líka að framsóknarmenn allra sveita landsins syngi: "Should I Stay or Should I go?"
Brýn ástæða er til að taka fram og undirsstrika að hvorki SDG né eiginkona hans eru á leið út í geim í geimskutlu. Það er alveg eins hægt að fara "Eight Miles High" á eyðibýli norður í landi.
Sigmundur: Anna vildi ekki út í geim | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 7.4.2016 kl. 11:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
4.4.2016 | 05:26
Heimsfrægur í útlöndum
Þetta er allt einn stór misskilningur. Samfélagsmiðlarnir loga. Í fljótu bragði virðist þetta vera flest á einn veg: Menn túlka atburði gærdagsins sem svo að forsætisráðherra þjóðarinnar, hinn rammíslenski og þjóðholli Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hafi lagt land undir fót og flúið með skottið á milli lappanna undan meinleysislegum spurningum forvitinna drengja. Einungis vegna þess að hann var kominn í einhverskonar ógöngur; rak í vörðurnar með taugarnar þandar og þurfti ferskt útiloft til að ná jafnvægi á ný.
Samkvæmt mínum heimildum er ástæðan önnur. Sveitastrákinn af eyðibýli á Norðurlandi langaði skyndilega í súkkulaðitertu. Þegar mallakúturinn kallar á djöflatertu þá þolir það enga bið. Þetta vita allir sem hafa ástríðu fyrir súkkulaðitertu. Við erum að tala um bráðatilfelli.
Bestu fréttirnar eru þær að núna er súkkulaðistrákurinn orðinn frægasti Íslendingurinn í útlöndum. Það er meira fjallað um hann í heimspressunni í dag en Björk. Miklu meiri. Hann er á forsíðu stórblaðanna í sex heimsálfum. Öllum nema Suðurskautslandinu.
http://panamapapers.sueddeutsche.de/articles/56fec0cda1bb8d3c3495adfc/
http://www.svtplay.se/video/7373606/agenda/agenda-3-apr-21-15
Lögregla kölluð að heimili Sigmundar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
20.3.2016 | 21:57
Íslenska lopapeysan
Fátt er íslenskara en íslenska lopapeysan. Ullarpeysa prjónuð af alúð og ástríðu með rammíslenskum höndum. Prjónuð úr rammíslenskri ull af rammíslenskum kindum. Prjónuð með rammíslensku tvílitu mynstri. Þröngt hálsmál er einkenni og lykill að því að hún haldi góðum hita á kroppnum í norðangarranum. Hún er stolt Íslands, skjöldur og sverð.
Vegna góðs orðspors, vinsælda og virðingar íslensku ullarpeysunnar er góður hrekkur að smána ómerkilega útlendinga með því að gefa þeim ljóta og kjánalega fjöldaframleidda kínverska ullarpeysu. Ljúga í þá að þetta sé íslensk ullarpeysa. Niðurlæging þiggjandans er trompuð með alltof stóru hálsmáli. Honum er sagt að klæða sig í peysuna eins og pilsi: Fara fyrst með fætur ofan í hálsmálið og hífa hana síðan upp um sig. Aðalbrandarinn er sá að þiggjandinn fatti ekki að verið sé að hafa hann að fífli. Það er endalaust hlegið að vesalingnum.
Spaugilegt | Breytt 16.1.2017 kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
2.3.2016 | 07:03
Ekkert rugl hér!
Í gær kom ég við á bókasafni. Þar hitti ég Skagfirðing. Við hófum umsvifalaust að skrafa saman. Á borðinu fyrir framan okkur lágu dagblöð og tímarit. Bar þá að roskna konu sem haltraði til okkar. Hún spurði hvort að við værum með laugardags-Moggann. Skagfirðingurinn greip upp blað, rétti að konunni og sagði: "Nei, en hérna er Sunnudags-Mogginn."
Konan tók - eins og ósjálfrátt - við blaðinu. Í sömu andrá var líkt og hún brenndi sig. Hún þeytti blaðinu eldsnöggt á borðið, hnussaði og hreytti með hneykslunartóni út úr sér um leið og hún strunsaði burt: "Ég ætti nú ekki annað eftir en fara að lesa blöðin í vitlausri röð!"
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 09:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.2.2016 | 12:17
Spaugileg réttarhöld
Í réttarsal eru samtöl dómara og lögmanna við sakborning og vitni samviskusamlega skráð og færð til bókar. Eðlilega eru allir misjafnlega upplagðir. Þar getur verið dagamunur á. Að auki er fólk mis rökfast að upplagi og mis klárt í að skilja og skilgreina spurningar og svör viðmælenda.
Eftirfarandi samtöl eru öll tekin upp úr dómsskjölum í Bandaríkjum Norður-Ameríku:
-----------------
Lögmaður: Hvað er sonur þinn gamall, sá sem býr heima hjá þér?
Vitni: 38 eða 35. Ég man ekki hvort.
Lögmaður: Hvað hefur hann búið lengi hjá þér?
Vitni: Í 45 ár.
-----------------
Lögmaður: Hver er fæðingardagur þinn?
Vitni: 18. júlí.
Lögmaður: Hvaða ár?
Vitni: Á hverju ári.
-----------------
Lögmaður: Hvað var það fyrsta sem eiginmaður þinn sagði við þig þennan morgun?
Vitni: Hann sagði: Hvar er ég, Kata?
Lögmaður: Hvers vegna kom það þér í uppnám?
Vitni: Ég heiti Súsanna.
-----------------
Lögmaður: Hefur þessi sjúkdómur nokkuð haft áhrif á minni þitt?
Vitni: Jú.
Lögmaður: Á hvern hátt?
Vitni: Ég gleymi.
Lögmaður: Gleymir? Getur þú nefnt mér eitthvað sem þú hefur gleymt?
-----------------
Lögmaður: Ertu kynferðislega virk?
Vitni: Nei, ég ligg bara þarna.
-----------------
.
Lögmenn með 185 þúsund á tímann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 12:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)