Færsluflokkur: Spaugilegt
1.7.2016 | 07:18
Stórefla kafbátaleit
Utanríkisráðherra Íslands, Lilja Alfreðsdóttir, og varavaravarnarmálaráðherra Bandaríkja Norður-Ameríku, Róbert Óh Work a lot, undirrituðu í gær sameiginlega á mikilvægt plagg um áframhaldandi samstarf Íslands og Bandaríkja Norður-Ameríku. Einkum á sviði varnarmála. Ekki seinna vænna nú þegar sótt er að Íslandi úr öllum áttum.
Bandaríkjaher var búinn að greina ítarlega frá inntaki samningsins í málgagni sínu löngu áður en íslenski utanríkisráðherrann var settur inn í málið.
Plaggið er áþekkt eldri plöggum frá 1951 og 2006. Pappírinn er þó vandaðri og áferðarfallegri og blásvart pennablekið skarpara.
Í plagginu heita ríkin tvö því að eiga samstarf. Ísland skuldbindur sig til að leyna Bandaríkin engu um sín varnarmál. Síst af öllu því sem snýr að loftrýmisgæslu. Hvorugt landið mun upp á sitt einsdæmi og í leyni í skjóli nætur stunda viðhald á mannvirkjum.
Víkur þá sögu að megin inntaki skjalsins. Það kveður á um stóraukna kafbátaleit um allt Ísland. Til að byrja með verður meginþunga leitarinnar beint að Hveragerði og nágrenni.
Spaugilegt | Breytt 9.4.2017 kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.6.2016 | 11:07
Áður en fræga fólkið varð frægt
Áður en fræga fólkið varð frægt þá var það bara alveg eins og venjulegt fólk. Það var ekkert hægt að átta sig á því að síðar meir yrði það frægt. Yrði fræga og fína fólkið. Svo gerðist það og allt breyttist. Fjöldinn fór að herma eftir hárgreiðslu þess, klæðnaði og hverju sem er.
Einu sinni var Bill Clinton unglingur. Hann dreymdi um að verða saxófónleikari í Fleetwood Mac. Svo fór hann í framhaldsskóla. Þar hitti hann Hillary. Þá vissu þau ekki að hann yrði forseti Bandaríkja Norður-Ameríku. Hvað með hana?
Þegar Bob Marley var unglingur á Jamaíka þá vann hann sér inn pening sem spámaður. Hann las í laufblöð fyrir trúgjarna. Og trúði sjálfur á spágáfu sína. Nokkru síðar var hann frægasta reggí-stjarna heims.
Guðni Th. Jóhannesson var ungur handboltakappi sem lærði sagnfræði. Allt í einu er hann orðinn forseti Íslands.
.
Spaugilegt | Breytt 6.4.2017 kl. 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.6.2016 | 20:15
Hvað réði því hver fékk atkvæðið?
Á laugardaginn (kosningadag) kom ég við á bókasafni. Þar sat öldruð kona og talaði í farsíma. Sennilega var heyrn ekki í góðu lagi. Henni lág hátt rómur og kváði í annarri hverri setningu. Ég veit ekkert hvað viðmælandinn sagði. Að því slepptu sagði gamla konan þetta (ég sleppi öllu: "Ha?, "Hvað varstu að segja?"):
- Nei, ég hef ekkert kynnt mér það. Það væri vinna að reyna að kynna sér þessa frambjóðendur. Ég hef innsæi. Ég finn á mér hvort að mér líkar við fólk.
- Nei, ég kýs hann ekki. Hann er svo sjálfhverfur að ég er viss um að hann kýs sjálfan sig. Jafnvel þó að það kosti að hann ógildi atkvæði sitt. Hann er svo mikið ég-um-mig, frá-mér-til-mín.
- Það getur ekki verið. Að menn fái að kjósa sjálfan sig? Það er hálfgert svindl.
- Já, ég ætla að kjósa hann. Ég hef góða tilfinningu fyrir honum. Embættið snýst um að vera góður gestgjafi. Hann er ekta í það.
------------------------------
Allt annað: Færeyingar að fylgjast með - á torgum og túnum - Íslendingum í boltaleik:
Spaugilegt | Breytt 29.6.2016 kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2016 | 11:33
Garðsláttur lata fólksins
Tími garðsláttar er að renna upp. Hver hefur sitt lag á því. Sumir nenna ekki að ganga á eftir handsláttuvélinni. Það er sama fólkið og nennir ekki að ganga frá bílastæðinu fyrir utan líkamsræktarstöðina og inn á göngubrettið. Það leggur bílnum ólöglega eins nálægt inngöngudyrum og mögulegt er.
Til að sleppa undan því að labba á eftir handsláttuvél er ráð að banka upp hjá nágranna og biðja hann um aðstoð. Það eina sem nágranninn þarf að gera er að keyra á eftir sláttuvél þess lata með hann sitjandi á húddinu.
Ef enginn er nágranninn - eða nágranninn nennir ekki - er ráð að keyra sjálfur á golfbíl á eftir sláttuvélinni. Það er meiri kúnst. En hver er svo sem að flýta sér?
Eitt ráðið fyrir þá lötu er að eyða óhóflegum fjármunum í að kaupa stóra sláttuvél með sæti. Mikið er í húfi. Kannski þarf að slá tvisvar í sumar. Vandamálið er að það þarf að kynnast vélinni áður en til alvörunnar kemur. Læra inn á jafnvægispunkta hennar og þess háttar. Enginn verður óbarinn biskup frá þeim kynnum. Fjöldi marbletta staðfestir að menn hafa farið í gegnum það ferli.
Undir venjulegum kringumstæðum átta flestir sig á því hvaða klæðnaður er við hæfi utandyra. Menn rölta ekki á nærbuxunum einum fata út í búð. Þegar kemur að garðslætti hverfur sómakennd eins og dögg fyrir sólu. Nágrönnum, gestum og gangandi til æpandi skelfingar. Þá kemur sér vel að vera með eyrnahlífar.
Margir andvarpa þegar kemur að því að klippa limgerðið. Það er rosalega seinlegt og drepleiðinlegt vandaverk. Þá er gott að finna stæðilegt járnrör, stinga því í sláttuvélina, festa rækilega með sterku límbandi og rölta með hana eftir limgerðinu. Þetta sparar heilmikinn tíma. Þetta sparar einnig heimsókn á líkamsræktarstöð.
Kaup á rándýrri sláttuvél með sæti gengur svo nærri fjárhag heimilisins að iðulega er enginn afgangur til að kaupa og reka bíl. Vandamálið er samt ekki stærra en svo að auðveldlega má skottast á henni með frúna út í matvörubúð. Vélin fer hægt yfir og tefur bílaumferð. Þolinmæði er kostur.
Spaugilegt | Breytt 3.4.2017 kl. 12:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.6.2016 | 07:18
Keppt í nefarækt
Gott er talið að vita lengra en nef sitt nær. Einkum þykir það gott hjá þeim sem skarta stóru og löngu nefi. Þar fyrir utan er margskonar kostur við stórt nef. Það rennur betur á lykt af nýbökuðu brauði. Það auðveldar fólki að reykja í sturtu. Þannig mætti áfram telja
Víðast um heim eru stór nef eftirsótt. Enda hvers manns prýði. Í aldir hafa Þjóðverjar, Austurríkismenn og fleiri reynt að rækta sem stærst nef í sínum fjölskyldum. Metnaðurinn er slíkur að hann hefur gert nefrækt að gríðarvinsælli keppnisgrein. Heimsmeistarakeppni nefstórra var að ljúka í Þýskalandi. Hér fyrir ofan má sjá hvernig staðið var að henni. Í lokin sést sigurvegarinn kampakáti.
Spaugilegt | Breytt 31.3.2017 kl. 15:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.6.2016 | 16:23
Tóti trúður í illindum
Tóti trúður er jafn samfléttaður þjóðhátíðardeginum 17. júní og helíumblöðrur, íslenski fáninn og fjallkonan. Hann reitir ótt og títt af sér ferska og beinskeytta brandara á færibandi. Þeir smellhitta í mark hjá foreldrum ekki síður en börnum. Jafnvel líka hjá fjarskyldum.
Á síðustu öld skrapp hann til Hollands. Gott ef ekki til að kaupa trúðadót. Hann gekk snemma til náða á dýru hóteli. Enda þreyttur eftir langt flug og rútuferðir, bæði hérlendis og í útlandinu. Hinsvegar ákvað hann að taka morgundaginn snemma og stillti vekjaraklukkuna á átta. Því næst sofnaði hann vært og dreymdi margt fallegt.
Þegar vekjaraklukkan vakti hann af værum blundi brá hann sér umsvifalaust í sturtu, rakaði sig og tannburstaði. Þessu næst fór hann í sitt fínasta skart. Hann vildi koma vel fyrir í útlandinu.
Hann gekk ábúðafullur niður í veitingasal hótelsins. Þar pantaði hann enskan morgunverð (spæld egg, pylsur, beikon, bakaðar baunir, grillaða tómata, steikta sveppi, ristað brauð) og glas með nýkreistum appelsínusafa. Svo undarlega vildi til að þjónninn brást hinn versti við. Baðst undan því að taka niður pöntun á enskum morgunverði. Þess í stað vakti hann athygli á vinsælli og vel rómaðri nautasteik. Mælti með tilteknu hágæða rauðvíni með.
Trúðurinn fúlsaði við uppástungunni. Sagðist hafa andúð á áfengi. Nautasteik væri út í hött á þessum tíma dags. Varð af þessu töluvert þref. Þjónninn kom með fleiri uppástungur sem hlutu sömu viðbrögð. Að því kom að síga fór í báða. Rómur hækkaði og fleiri þjónar blönduðust í málið. Þegar allt var komið á suðupunkt og forviða matargestir farnir að fylgjast með kom í ljós hlálegur misskilningur: Það var kvöld en ekki morgun.
Kappinn hafði lagst til svefns um klukkan hálf átta að kvöldi. Klukkan vakti hann hálftíma síðar.
-----------------------------
http://utvarpsaga.is/kludur-a-vefsidu-frambjodanda-kreistir-fram-bros/
Spaugilegt | Breytt 27.3.2017 kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.6.2016 | 09:22
Byrjaði dagurinn illa?
Sumir eru fæddir hrakfallabálkar. Allt sem þeir koma nálægt fer úr skorðum og endar með ósköpum. Allt fer afsíðis sem getur farið afsíðis, eins og gárungarnir orða það. Sumir taka ekki eftir þessu sjálfir. Þeir eru svo vanir þessu ástandi að fyrir þeim er þetta eðlilegt. Þeir halda að allir aðrir séu að kljást við þetta sama.
Vissulega lenda allir í því fyrr eða síðar að eiga vondan mánudag. Leifur óheppni tekur sér bólfestu í þeim í smástund. Þá er hægt að hugga sig við að eitthvað álíka eða jafnvel verra hafi hent aðra.
Hvað gerðist sem olli því að öll þessi egg brotnuðu? (Ef smellt er á mynd þá stækkar hún og verður skýrari):
Annað hvort er skipið illa hlaðið eða ofhlaðið. Nema hvorugtveggja sé.
Martröð steypubílstjórans er að ýta á rangan takka á röngum stað - og hrauna yfir dýrasta bílinn í götunni og vænan hluta götunnar. Þeir lenda allir í þessu. Misoft.
Hver hefur ekki lent í því að hræra í fína afmælistertu, setja í form og baka. Næsti dagur fer í að laga krem á tertuna og skreyta í bak og fyrir. Svo bara missir þú tertuna í gólfið.
Eða þegar kötturinn þvælist fyrir og kvöldmaturinn endar á gólfinu.
Spaugilegt | Breytt 21.3.2017 kl. 17:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.5.2016 | 10:02
Furðulegar fjölskyldumyndir
Sú var tíð að ljósmynd af kjarnafjölskyldunni skipaði háan sess í tilverunni. Það er ekkert svo langt síðan. Þá stóð mikið til. Þetta var heilmikið fyrirtæki. Fyrst þurfti að panta tíma á ljósmyndastofu. Þar vann fagfólk; sprenglærðir ljósmyndarar. Þeir voru með alvöru ljósmyndagræjur. Rándýrar og plássfrekar. Þessu fylgdu allskonar hlutir á borð við ljóskastara, bakgrunnstjöld og svo framvegis.
Tími á ljósmyndastofu lá ekki á lausu samdægurs. Ekki heldur næstu daga. Það var allt uppbókað langt fram í næsta mánuð.
Þegar loks kom að stóru stundinni fóru allir í sitt fínasta skart. Iðulega keypt sérstaklega fyrir myndatökuna. Í millitíðinni var einnig farið í klippingu og hárið snurfusað á hárgreiðslustofu. Síðan fór heilmikill tími í að stilla fjölskyldunni virðulega upp í stúdíóinu. Mikið var í húfi. Ljósmyndatakan, framköllun á filmu og stækkanir á hágæða ljósmyndapappír kostaði sumarhýruna. Eftirprentanir voru gefnar öðrum í fjölskyldunni í jólagjöf.
Hér eru skemmtileg dæmi (myndirnar stækka og verða skýrari ef smellt er á þær):
Á níunda áratugnum þótti fátt flottara en blásið stutt hár að framan og sítt að aftan. Flottast þótti að fjölskyldan væri samstíga í þessari hártísku. Takið eftir því hvað bakgrunnstjaldið setur ævintýralegan blæ á.
Sumum þótti of bratt að hella sér í sítt að aftan. Einkum glam-rokk áhangendur. Þeir vildu hafa allt hárið eins og úfna heysátu. Þetta kallaðist hár-metall og hefur ekki elst vel. Ef pabbinn var fjarri góðu gamni á ljósmyndadaginn þá dró ljósmyndarinn fram trúverðuga dúkku sem staðgengil.
Ljósmyndarinn þurfti að huga að mörgu áður en smellt var af. Eru ekki allir með sparibros? Enginn mátti skyggja á annan. Allt eftir því. Undir álaginu vildu smáatriði sleppa framhjá rannsakandi augnráði hans. Einkum ef óöruggur patti greip sig kröftugu hreðjataki í taugaveiklun.
Allra hressasta fólk lét eftir sér að bregða á leik. Glímukappi undirstrikaði kraftana með því að taka fjölskylduna hálstaki.
Ekki eru alltaf allir til í að taka þátt í galgopahætti. Síst af öllu í útimyndatöku þar sem hópurinn krossleggur vinstri fót á þann hægri. Amma lætur ekki egna sér út í svoleiðis fíflagang.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 18:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2016 | 18:56
Smásaga - örsmá
Það er úrslitaleikur í meistaradeild: Leikmaður brýtur gróflega á leikmanni hins liðsins. Dómarinn hleypur til hans, sýnir gula spjaldið og hrópar með flautandi blæstri: "Hví-í, hvá-á, hvo-o, hvo-o, hví-í, hví-í!" Leikmaðurinn hrópar reiðilega: "Ég skil ekki orð af því sem þú ert að segja!" Sá sem brotið var á hrópar á móti: "Þú myndir nú líka tala svona ef að dómaraflauta hefði hrokkið oní kok á þér!"
---------------------------------
Fleiri smásögur HÉR
![]() |
Sprengjan dregur dilk á eftir sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 24.7.2016 kl. 19:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2016 | 14:55
Baðfatatískan - áríðandi að fylgjast með
Sumarið er handan horns. Það eru hlýindi framundan á Fróni. Sólbaðsveður um land allt. Blessuð sólin elskar allt og allt með kossi vekur. Nú er tímabært að huga að sólbaðsfötunum. Enginn vill láta grípa sig í baðfötum sem eru komin út tísku og þykja hallærisleg. Hvað segir tískan? Kvikmyndin Borat eftir breska leikarann Sacha Baron Cohen innleiddi djarfa sundbolstísku fyrir karlmenn. Kosturinn við hana er að hún er efnisrýr og kostar þess vegna ekki mikil fjárútlát.
Sundbolur Borats hefur haft mótandi áhrif á baðfatatísku kvenna. Til að hlífa geirvörtum frá því að sólbrenna og brjóstunum að sveiflast um of - þegar hlaupið er eins og fætur toga út í buskann - er konusundbolurinn efnismeiri. Þar með líka dýrari. Það er í stíl við að allar vörur ætlaðar konum eru miklu dýrari en karlavörur. Karlar láta ekki okra á sér.
Sumum körlum finnst þeir vera of berskjaldaðir í Borat-sundbol - en vilja samt hlífa geirvörtunum við því að sólbrenna. Þá er ráð að fá sér bikiní. Best er að hafa það bleikt til að líkjast húðlit. Þannig fer lítið fyrir því.
Gamla góða sundskýlan er alltaf vinsæl hjá körlum. Enda hafa sumir átt hana alveg frá því í skólasundi barna. Ef hún er týnd má smeygja sér í stuttu nærbuxurnar. Það sér enginn muninn.
Klassíski sundbolurinn býður upp á ýmsa möguleika. Nú til dags er auðvelt að prenta allskonar myndir á tau. Til að mynda teikningu af innyflum. Hún kennir gestum og gangandi líffræði.
Einliti sundbolurinn nýtur alltaf vinsælda.
![]() |
Bongó í kortunum? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 25.2.2017 kl. 18:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)