Færsluflokkur: Spaugilegt
19.8.2015 | 20:35
Pottþétt ráð sem tryggir að bílnum sé ekki stolið
2007 dönsuðu Íslendingar umhverfis gullkálfinn sem aldrei fyrr. Það þarf ekki að rifja upp fyrir neinum þá geggjun sem einkenndi dansinn. Miðbærinn þagnaði ekki vegna flugs einkaþotna; menn skruppu á einkaþyrlum í sjoppu til að fá sér pylsu. Í stað þess að bjóða neftóbak í nefið að hætti bænda fyrri tíma buðu stórtækir dansarar hver öðrum hreint kók í nefið.
Hámarki náði dansgleðin daginn fyrir bankahrunið 2008. Þá flugu einkaþoturnar úr landi drekkhlaðnar töskum fullum af gjaldeyri. Síðan heyrðist ekki í þeim meir. Dansinn lagðist af og bank á búsáhöld tók við.
Núna er verið að endurreisa byggingakranana og rykið dustað af dansskónum. Togast er á um hvern einasta flotta 15 - 20 milljón króna jeppann. Vandamálið er að vondir menn sækja líka í fína jeppa. Þeim er stolið.
Til er ráð. Einföld aðferð til að forða fína dýra bílnum frá því að vera hnuplað af vondu fólki. Það eina sem þarf að gera er að fá næstu skiltagerð til að þrykkja mynd af ryðguðum bíl á dúk. Svo er fíni bíllinn klæddur í dúkinn. Eini gallinn er sá að þá vita nágrannarnir ekki að þú eigir nýjan og fínan bíl. Því er kippt í lið með því að taka ljósmynd af bílnum fyrir dúklagningu og sýna nágrönnunum myndina.
Ísland á leið í hóp þeirra ríku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.8.2015 | 22:00
Heilaþvegin þjóð - hnípin í vanda
Fyrir nokkrum árum dvaldi ég í góðu yfirlæti í Ósló, höfuðborg Noregs. Á sama hóteli þar í borg var meðal gesta ungur maður frá Suður-Kóreu. Okkur varð vel til vina. Forvitnir um þjóðir hvors annars spjölluðum við saman yfir bjór úti á gangstétt allt að því á hverju kvöldi.
Hann spurði margs um Ísland. Ýmislegt sem ég upplýsti hann um vakti undrun. Mér þótti áhugaverðara sitthvað sem hann sagði mér af sínu lífi.
Dvölin í Noregi var hans fyrsta alvöru frí til nokkurra ára. Og fyrsta utanlandsferð. Hann var svo óheppinn að verkstjóri hans var vinnualki. Naut þess að vinna alla daga og oftar fram á kvöld en ekki. Í S-Kóreu vinna undirmenn jafn lengi og yfirmenn. Það er svo algjör regla að hún er ekki rædd.
Drengurinn hafði gegnt herþjónustu. Að mig minnir til tveggja ára. Hún fólst í gæslu við landamæri Suður- og Norður-Kóreu. Á milli þessara ríkja er svæði sem er skilgreint hlutlaust. Það er um 4 km breitt. Sitthvoru megin sitja hermenn ríkjanna gráir fyrir járnum. Iðulega má lítið út af bregða til að skipt sé á skotum.
Kunninginn var svo heppinn að hermenn beggja ríkjanna á þessu varðsvæði höfðu vingast. Þeir léku sér saman í fótbolta, tefldu og tóku í spil. Fóru meira að segja saman í gönguferð upp á hátt fjall. Horfðu saman á sjónvarp og voru ágætir vinir. Skiptust á gjöfum og eitthvað svoleiðis. Forðuðust samt eins og heitan eld að ræða pólitík.
Meðal annars horfðu þeir saman á beina útsendingu frá einhverri heimsmeistarakeppni í fótbolta. Þar kepptu S- og N-Kórea. Leikar fóru þannig að N-Kórea tapaði illilega. Þá brá svo við að n-kóresku hermennirnir fóru að gráta. Þeir hágrétu eins og kornabörn. Þeir ætluðu ekki að trúa sínum eigin augum.
S-kóresku hermennirnir reyndu að hugga þá. Sögðu að þetta væri bara saklaus leikur. Það væri eðli svona leiks að stundum vinnur annað liðið. En n-kóresku hermennirnir voru óhuggandi.
Þá áttaði kunninginn sig á því hvað n-kóresku vinirnir voru og eru svakalega heilaþvegnir. Í þeirra huga var óhugsandi að n-kóreskt landslið gæti tapað leik.
Hárgreiðsla Kim Jong Un leiðtoga N-Kóreu kallast kústur. Hann fann upp á henni sjálfur. Nú nýtur hún gríðarmikilla vinsælda aðdáenda N-Kóreu um allan heim.
Forveri hans og faðir, Kim Jong Il, var þekktari fyrir að þamba allsnakinn koníak á hverju kvöldi. Uns hann dó á miðjum aldri vegna vinnuálags. Hann lagði sig hart fram um að finna upp nýja og spennandi rétti. Til að mynda hamborgara. Heimshorna á milli drúpa jarðarbúar höfði í lotningu og snæða hamborgara - Kim Jong Il til heiðurs.
Kveikja á hátölurum við landamærin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 12.8.2015 kl. 15:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.8.2015 | 10:55
Furðufólk í útlöndum - Varúð! Rasismi!
Sinn er siður í landi hverju. Því lengra sem fólk er búsett frá Íslandi þeim mun furðulegar hegðar það sér. Það er þumalputtaregla. Tökum Japani sem dæmi. Þegar heitt er í veðri þá klæða þeir ung börn sín í vatnsmelónur.
Í tengslum við brúðkaup klæðist brúðguminn brúðarkjólnum og keppir í spretthlaupi fyrir hönd brúðurinnar.
Japanskar konur eru nýlega teknar upp á því að ganga í sundbol á baðströndinni. Þær eru spéhræddar. Til að slá á spéhræðsluna hylja þær andlitið með lambhúshettu. Hugmyndina fengu þær frá rússnesku kvenpönksveitinni Pussy Riot. Giska ég á.
Vestrænar þjóðir eru vanar svokölluðum fingramat; skyndibita sem einfaldast er að slafra í sig án hnífapara. Japanir snerta ekki mat með berum höfnum. Þeim þykir það vera sóðalegt og villimannslegt. Japanir stinga upp í sig ruslfæðinu með prjónum.
Japanir eru gríðarlega spenntir fyrir öllu sem tengist hugsanlegum geimverum. Þeim finnst fátt skemmtilegra en klæða sig í furðubúning með ævintæýralegu geimveru-þema.
Japönsk flugfélög hafa góðar tekjur af því að rúnta um með fólk á flugvöllum. Japanirnir sitja þá ofan á flugvélinni. Flugmönnum er stranglega bannað að taka á loft með þessa farþega.
Þegar japanskir töffarar taka upp vestrænar tískubylgjur í hárgreiðslu þá fara þeir alla leið. Trompa vestrænu fyrirmyndina Sama hvort Elvis er stældur eða Smutty Smitt.
.
Spaugilegt | Breytt 20.8.2016 kl. 19:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2015 | 22:01
Svívirðileg framkoma
Hjálparsveitir, björgunarsveitir og eiginlega allar sveitir - líka lúðrasveitir - vinna gott starf hérlendis (og víðar). En ekki alltaf óaðfinnanlegt starf, þrátt fyrir eflaust góðan hug. Mörgum er illilega brugðið við fréttaflutning af frönskum ferðamanni sem björgunarsveitir Landsbjargar fundu á Hornströndum. Að honum var veist og tilraun gerð til að troða upp í hann ógeðstuggu af útlendu ullabjakki sem kallast Snickers.
Vitaskuld varðist nýfundni Frakkinn fimlega. Það hefði næstum því verið meiri mannsbragur af því að bjóðast til að æla upp í hann máltíðum síðustu tveggja daga.
Það er forkastanlegt að íslensk björgunarsveit þrammi um óbyggðir og ógni rammvilltum útlendum strandaglópum með útlendum viðbjóði. Hvað segir Guðni Ágústsson við þessu? Hvar er harðfiskurinn með rammíslensku smjöri (nýhækkað í verði um tæp 12%)? Hvar er metnaðurinn? Hvar er Nóa konfektið með fallegum myndum af íslenskri náttúru? Besta konfekt í heimi?
Afþakkaði Snickers | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
30.7.2015 | 10:39
Húðflúr heimska fólksins
Fyrir tveimur árum eða svo var hugur í mörgum stjórnmálamanninum í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Þeir vildu taka húðflúr föstum tökum. Banna öll húðflúr önnur en þjóðleg og þjóðholl. Banna í leiðinni "piercings" (ég veit ekki hvert íslenska orðið er yfir það þegar húð er götuð og hringar eða annað glingur þrætt í). Lengst var gengið í Arkansans. Þar var lagt fram frumvarp til laga. Það fékk góðar móttökur til að byrja með en tók einhverjum breytingum. Ég veit ekki hvernig það endaði.
Húðflúralögga er jafn geggjað fyrirbæri og mannanafna- og hundanafnanefnd ríkisins. Húðflúr heimska fólksins eru ekkert nema góð skemmtun. Ekki aðeins vegna þess að þau eru iðulega illa teiknuð. Líka vegna þess að stafsetning er sjaldan rétt. Þessi ætlaði að flagga ágætri fullyrðingu, "Þekking er vald". Í stað orðsins "knowledge" er orðskrípi sem bendir til þess að þekkingu höfundarins á réttritun sé ábótavant.
Elvis Presley er í uppáhaldi hjá heimska fólkinu eins og öðrum. Munurinn er sá að í fyrrnefnda hópnum teikna menn sjálfir andlit rokkstjörnunnar. Taka verður viljann fyrir verkið. Málið er að gera fremur en geta.
Mér vitanlega hefur engum dottið í hug að láta húðflúra andlit Presleys á sitt andlit. En heimska fólkið lætur húðflúra önnur andlit á andlitið á sér. Þaðan er komið orðið tvíhöfði.
Ein af þeim gryfjum sem heimska fólkið fellur í - aftur og aftur - er að merkja sig dægurflugu. Tískufyrirbæri sem eru öllum gleymd daginn eftir. Hver man í dag eftir Gangnam Style eða Harlem Shake? Twitter-krossinn verður jafn gleymdur og tröllum gefinn á morgun og Ircið.
Flísalagningamann langar í húðflúr. Hann er allan daginn að leggja svartar og hvítar flísar á baðgólf, eldhúsgólf og önnur gólf. Hvernig húðflúr sér hann fyrir sér?
Þetta er ekki nógu mikið rannsakað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 14.8.2016 kl. 12:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
28.7.2015 | 21:32
Hryðjuverkamenn hóta stjórnmálamönnum lífláti
Barátta bandarísku hryðjuverkasamtakanna Sea Shepherd í sumar gegn hvalveiðum Færeyinga tekur á sig ýmsar myndir. Að sumu leyti ber baráttan merki örvæntingar - vegna árangursleysis. Hvorki gengur né rekur í "rétta" átt. Þvert á móti. Allt gengur á afturfótunum. Spaugilegasta dæmið (af mörgum) var þegar skip SS, Birgitta Bardot, rak fyrir klaufaskap 200 hvali upp í fjöru. Þar slátruðu Færeyingar fengnum og kunnu SS bestu þökk fyrir.
SS-liðum gengur illa að átta sig á danska sambandsríkinu. Færeyjar eru ásamt Grænlendingum hluti af því. En hafa sjálfstæða utanríkisstefnu og sjálfstæða sjávarútvegsstefnu. Danmörk er í Evrópusambandinu. Ekki Færeyingar og Grænlendingar. Færeyingar hafa aldrei verið í Evrópusambandinu. Grænlendingar voru það en sögðu sig úr því. Fyrsta og eina þjóð sem stigið hefur það gæfuríka skref.
Sem aðildarríki Evrópusambandsins eru Danir á móti hvalveiðum. Þeir geta samt ekki gengið gegn sjálfstæðri sjávarútvegsmálastefnu Færeyinga og hvalveiðum þeirra.
Fyrir nokkrum dögum skipulögðu SS-liðar mótmælastöðu í Englandi fyrir utan danska sendiráðið. Mótmælastaðan snérist öll um slagorð gegn meintum hvalveiðum Dana (sem engar eru). Kveikt var í danska fánanum við fagnaðarlæti og Dönum formælt sem aldrei fyrr.
Á dögunum skrifaði bandaríska leikkonan, módelið og Strandvarðarpían (Bay Watch) Pamela Anderson danska forsætisráðherranum bréf. Þar fordæmdi hún hvalveiðar Dana. Jafnframt áréttaði hún fyrri fullyrðingar um að hvalir séu fallegir, gáfaðir og fjölskylduhollir.
Í fyrra hélt hún því fram að fjölskyldutengsl hvala séu hornsteinn hvalasamfélagsins. Þegar einn hvalur sé drepinn þá syrgi öll fjölskyldan: Systkini, foreldrar, afkvæmi og meira að segja fjarskyldir.
Þetta er della hjá kellu. Hvalir eru heimskir, ljótir og hafa enga rænu á neinum fjölskyldutengslum nema rétt á meðan kálfar eru nýfæddir.
Hvalveiðar Færeyinga koma danska forsætisráðherranum ekkert við.
Ýmsir danskir ráðherrar hafa einnig fengið póst frá SS-liðum með líku erindi. Sumir allt upp í 200 bréf. Þar á meðal hafa slæðst með ruddalegar morðhótanir (líflátshótanir eru kannski alltaf dálítið ruddalegar).
Spaugilegt | Breytt 29.7.2015 kl. 10:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.7.2015 | 19:55
Neyðarlegur happdrættisvinningur
Á sjöunda áratugnum - og eflaust fyrr og síðar - urðu flokksbundnir í Sjálfstæðisflokknum sjálfkrafa áskrifendur að árlegum happdrættismiða flokksins. Þar á meðal foreldrar mínir. Svo bar til að einn miðaeigandi, Grétar á Goðdölum í Skagafirði, fékk langlínusímtal frá Reykjavík. Erindið var að tilkynna honum að hann hefði unnið glæsibifreið í happdrættinu.
Á þessum tíma, á fyrri hluta sjöunda áratugarins, var heilmikið mál að ferðast landshluta á milli. Helsta ráð var að leita uppi vörubíl á leið suður. Björninn var ekki unninn þegar komið var til höfuðborgarinnar. Þá var eftir að finna hótel og gistingu næstu daga. Það skaust enginn eina dagstund suður og til baka samdægurs. Í bestu færð við góð skilyrði fór dagurinn í ferð aðra leið.
Farið til Reykjavíkur fékk Grétar á föstudegi. Sanngjarnt þótti að hann tæki þátt í bensínkostnaði við ferðina. Þar við bættist að það sprakk á tveimur dekkjum á leiðinni með tilheyrandi kostnaði. Þetta var í tíð gúmmíslöngunnar og dekk voru fljót að étast upp á grófum malarvegum. Farþeginn deildi kostnaði af hrakförunum með vörubílstjóranum. Útgjöldin voru ekki óvænt. Svona var þetta fyrir hálfri öld.
Kominn til Reykjavíkur naut Grétar aðstoðar leigubílstjóra við að finna rándýra gistingu næstu örfáa daga. Hann gisti á Hótel Sögu. Það var gaman. Um helgina voru dansleikir á hótelinu. Matartímar á Grillinu á Hótel Sögu voru glæsilegar veislur en dýrar.
Á mánudeginum mætti Grétar glaður og hamingjusamur á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins til að veita glæsibifreið móttöku. Þá kom babb í bátinn. Happdrættismiðinn sem hann framvísaði passaði ekki við vinningsnúmerið. Þar skeikaði síðasta tölustaf. Við nánari athugun kom í ljós að bróðir Grétars, Borgar, átti vinningsmiðann. Borgar bjó einnig í Goðdölum.
Aldrei var fyllilega upplýst hvað fór úrskeiðis. Kannski víxluðustu happdrættismiðar bræðranna þegar þeir voru póstlagðir. Líklegra þótti þó að lélegt og frumstætt símasamband ætti sök að máli. Hringja þurfti frá einni símstöð til annarrar til að koma á símtali. Ein símadama þurfti að biðja aðra um að ná sambandi við þann sem kallaður var til. Nafnið Borgar á Goðdölum varð við þessi skilyrði Grétar á Goðdölum. Hugsanlega spilaði inn í að Grétar fékk oft langlínusímtöl en ekki Borgar.
Spenningurinn og tilhlökkun Grétars við að eignast nýjan bíl breyttist í spennufall. Bílar voru ekki á öllum heimilum, eins og í dag. Hlutfallslega voru bílar miklu dýrari og meiri lúxus. Grétar var gráti nær. Að auki var hann að eyða mörgum dögum í ferðalagið, mikilli fyrirhöfn og heilmiklum útgjöldum í platferð suður.
Næsta skref var að á skrifstofu flokksins var hringt í Borgar. Hann var upplýstur um stöðu mála. Hann þurfti ekki að framvísa happdrættismiðanum. Númer miðans var skráð á hann. Er leið á símtalið var Grétari rétt tólið. Hann sagði síðar þannig frá: "Það var eins og nudda salti í sárið þegar Borgar bað mig um að grípa bílinn með norður fyrst að ég væri á norðurleið hvort sem er."
Næstu ár bjó Grétar við það að horfa upp á glæsikerru Borgars í heimreiðinni á Goðdölum. Á þeim tíma voru aðeins gamlir jeppar á öðrum sveitabæjum. Ef þar var bíll á annað borð.
Framhaldsskólakennari vann Mercedes-Benz | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 19.7.2015 kl. 17:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.6.2015 | 21:01
Vigdís kom mér í opna skjöldu. Og aftur.
Fyrir nokkrum árum átti ég erindi í Pósthúsið á Eiðistorgi á Seltjarnanesi. Þar var töluverður erill. Tvær dömur stóðu vakt við afgreiðsluborðin. Ég var að venju með smá frekju. Tróðst fram fyrir raðir og bað um tiltekna límmiða og og eitthvað fleira. Þá snýr sér við í röð kona og segir við mig: "Mikið er gaman að heyra skagfirskan framburð." Þetta var Vigdís Finnbogadóttir.
Ég er fæddur og uppalinn í Skagafirði. Flutti þaðan á unglingsárum fyrir næstum hálfri öld og hélt að skagfirski framburðurinn hefði fjarað út strax á unglingsárum. En greinilega ekki alveg miðað við viðbrögð Vigdísar.
Ég efast um að fleiri en Vigdís nemi það sem ennþá eimir eftir af skagfirskum framburði mínum. Það er ekki tilviljun að hún reki Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. Sú stofnun hefur allt að segja um allskonar tungumál. Ég hef skrautskrifað ýmsa diplóma fyrir hana - án þess að hitta Vigdísi þar.
1983 skrifaði ég af hvatvísi og í miklu tímahraki ömurlega bók sem heitir Poppbókin. Bókaforlag Æskunnar gaf hana út. Bókin mokseldist. Því miður. Einn góðan veðurdag birtist Vigdís inn á gólfi hjá Æskunni og óskaði eftir því að kaupa eintak af bókinni. Viðbrögð urðu þau að vilja gefa henni eintak af bókinni. Hún tók það ekki í mál. Áreiðanlega er þetta versta bók í bókasafni hennar.
Ég kaus Vigdísi í forsetakosningunum. Og er stoltur af.
Vigdísi fagnað í miðborginni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 22:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.6.2015 | 21:21
Dálæti Jóns Þorleifs á Hólmfríði Karlsdóttur
Jóni Þorleifssyni, verkamanni og rithöfundi, varðaði lítið um fræga fólkið. Hann var afar gagnrýninn á flesta íslenska stjórnmálamenn. Líka á erlenda stjórnmálamenn. Nema Stalín, Maó, Lenín og kannski einhverja örfáa aðra. Á tímabili fékk hann dálæti á Davíð Oddssyni. Þá fordæmdi hann að venju íslenska stjórnmálamenn á einu bretti. Sakaði þá um að vera glæpamenn, mútuþega, svikara. drullusokka og eitthvað álíka. En bætti við: "Nema Davíð Oddsson. Hann er meira í listum og menningu."
Margir urðu til að fussa yfir afstöðu Jóns. Þá gaf hann í. Vísaði til Doddssonar sem snjalls höfundar skopseríunnar Matthildar (naut vinsælda á Rás 1 á áttunda áratugnum). Eitthvað fleira tíndi hann til. Ég man ekki hvort að Davíð var á þessum tíma búinn að senda frá sér sögur og leikrit á prenti. Held ekki.
Jón hafði gengið á fund Doddssonar, þáverandi borgarstjóra, og upplýst hann um meinta glæpastarfsemi verkalýðsforingjanna Gvendar Jaka og Eðvarðs Sigurðssonar. Davíð tók undir gagnrýni Jóns. Jón vildi gefa honum bækur sínar. Doddsson krafðist þess að fá að borga fyrir þær fullu verði.
Jón orti nokkur kvæði Doddssyni til dýrðar. Síðar móðgaðist hann út í kappann. Fannst hann sýna glæpamönnum verkalýðshreyfingarinnar algjört fálæti.
Um svipað leyti, 1985, var Hólmfríður Karlsdóttir krýnd alheims fegurðardrottning. Jón fékk mikið dálæti á henni. Hann las öll viðtöl við hana, keypti öll tímarit og blöð með viðtölum við hana; gekk með þau á sér og vitnaði óspart í þau. Að mati Jóns var hún ótrúlega vel gerð í alla staði. Jón mætti ítrekað í heimsókn til mín með blaðaviðtöl við hana og sagði. "Þetta er einstaklega trygglynd kona. Hún getur valið úr öllum strákum heims. En hún sýnir kærasta sínum fulla tryggð. Það er mikið varið í þessa stelpu."
Einnig: "Hún hefur möguleika á að vera heimsfrægt módel. En hún hefur ákveðið að halda áfram að vera leikskólakennari í Garðabæ. Svona er hún heilsteypt og hænd að börnum. Það er gott í þessari stelpu."
Hólmfríður Karlsdóttir spilaði á klarínett með Stuðmönnum í áramótaþætti sjónvarpsins. Jón hreifst af því: "Henni er margt til lista lagt. Hún gæti orðið heimsfræg poppstjarna en hún vill bara vera barnfóstra í Garðabæ og halda tryggð við æskuástina sína. Það er afskaplega mikið varið í þessari stelpu."
Jón var bókelskur mjög. Keypti hann nánast einungis "hágæðabækur". Það er góðar ljóðabækur og merkar skáldsögur. Eina "léttúðuga" bókin sem hann keypti á sinni löngu - næstum tíræðu - ævi var myndabók um alheimsfegurðardrottninguna Hólmfríði Karlsdóttur.
Ég er sannfærður um að Jón skilgreindi það ekki þannig; en ég hef grun um að hann hafi verð pínulítið skotinn í Hólfríði - á sinn hátt.
______________________________
Fleiri sögur af Jóni Þorleifs: hér
Synir Hófíar Karlsdóttur unnu í WOW cyclothon | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 26.6.2015 kl. 20:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.6.2015 | 21:07
Varasöm matvæli
Oft er ekki allt sem sýnist þegar kemur að mat í útlöndum. Sjálfur formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur vakið athygli á því. Hann hefur sagt frá veirum eða einhverju álíka í útlendu kjöti sem breytir hugunarhætti og hegðun heilu þjóðanna; það með svo afgerandi hætti að enginn framsóknarmaður finnst í öllu útlandinu. Ekki einu sinni í Kína þó að það sé fjölmennasta land heims.
Margur Íslendingurinn hefur bjargað sér frá hættulegri kjötvöru í útlöndum með því að seðja sárasta hungrið með rjómaköku. Betra er að skoða kvikindið vandlega. Oft leynist padda í henni.
Enn aðrir snúa sér að súkkulaðibollu. Í henni leynist iðulega súkkulaðiormurinn ægilegi.
Ýmsir veðja á ferskt salat í útlöndum. Salat er bara gras. Hvað getur verið varasmat við gras? Mörg dýr lifa góðu lífi á grasi. Salat geymir samt eitt og annað fleira en grasið grænt. Til að mynda haus af eðlu.
Svo ekki sé talað um blessaða músina. Hún finnur sér ætíð leið í allskonar mat og drykk.
Meira að segja í gosdósirnar. Þetta er þráhyggja. Hún vill vera hluti af fæðu mannsins.
Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman. Það er músarkenningin í hnotskurn
Djúpsteiktir kjúklingabitar luma stundum á skemmtilegu viðbiti í formi flugu.
.
Fundu áratugagamalt frosið kjöt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 10.7.2016 kl. 15:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)