Færsluflokkur: Spaugilegt
23.11.2015 | 20:30
Óvænt útspil
Til fjölda ára hefur þjóðin verið samhuga um nauðsyn þess að fjölga lögreglumönnum. Embættismenn - sem hafa með málaflokkinn að gera - eru þar fremstir í flokki. Víða um land er skortur á lögregluþjónum. Verst er samt ástandið á höfuðborgarsvæðinu.
Þrátt fyrir algjöra samstöðu almennings og stjórnmálamanna í málinu hefur ekkert gerst svo lengi sem elstu menn muna. Ekkert. Nema núna á dögunum: Lögmaður að nafni Sveinn Andri Sveinsson steig fram og stingur upp á því að lögregluþjónum landsins verði fækkað um einn.
Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins tekur vel í þennan nýja flöt á lögregluflota landsins. Hann ætlar að skoða uppástungu lögmannsins. Kannski er þetta farsælasta lausnin á manneklu lögreglunnar. Nýstárlegar og frumlegar hugmyndir hafa oft reynst vel.
![]() |
Mál Bigga löggu til skoðunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 24.11.2015 kl. 15:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
22.11.2015 | 14:29
Neyðarleg mistök
Frægt fólk vekur athygli hvar sem til þess sést. Einkum í útlöndum. Það allra frægasta er umkringt "lífvörðum". Þeirra hlutverk er að verja frægu manneskjuna fyrir ágangi og áreiti almennings. Almenning þyrstir í eiginhandaráritun frægra. Á síðustu árum hefur bæst við ljósmynd af sér með frægum.
Vandamálið er að oft ber óskhyggja og ákafi almenning ofurliði. Það þekkja allar manneskjur sem líkjast frægu fólki.
Fyrir nokkrum árum spilaði sænska hljómsveitin Europe á G!Festivali í Færeyjum. Hún var ofurfræg 1986 og næstu ár þar á eftir. Þökk sé lögum á borð við "Final Countdown" og "Cherrie". Svo komu fram á sjónarsvið rokksins Guns N´ Roses og Nirvana. Europe hvarf í skuggann og féll í gleymskunnar dá.
Í Færeyjum bar enginn kennsl á liðsmenn Europe. Þessir áður snoppufríðu drengir voru orðnir gráleitir miðaldra menn. Enn voru þeir samt í leðurjakkanum og snjáðu gallabuxunum. Þeir sem enn gátu skörtuðu síðu hári.
Á G!Festivali var einnig kvennarokksveit frá Vestmannaeyjum, VaGínas. Skömmu fyrir heimferð komu stelpurnar auga á liðsmann Europe. Honum var óðar stillt upp í myndatökur með þeim og krafinn um eiginhandaráritun á alla tiltæka pappíra.
Í flugvélinni veifuðu stúlkurnar sönnunargögnum af kynnum sínum af Europe. Ég sá strax að áritunin var mun færeyskri en sænsk. Jógvan á Heygum. Maðurinn á myndunum var að sönnu síðhærður og klæddur leðurjakka og gallabuxum. Að öðru leyti ekkert líkur neinum í Europe.
Neyðarleg mistök af þessu tagi eru algeng. Mörg slík hafa orðið aðhlátursefni á Twitter og Fésbók. Eitt vandamálið er að tvífarinn leiðréttir sjaldnast misskilninginn. Hann nýtur athyglinnar. Þiggur jafnvel gjafir frá þeim uppveðraða. Allt frá pylsu og áfengis til skartgripa. Í besta falli þarf hann ekki að borga fyrir veitingar á matsölustöðum né tískufatnað í tískufatabúðum.
Þessi dama hélt að hún hefði hitt bandaríska leikarann Johnny Depp. Hún varð svo upp með sér að hún keypti handa honum pylsu með öllu.
Hér er hinn raunverulegi Johnny Depp. Jú, jú, þeir eru líkir. Aldursmunur ekki nema kannski 20 ár. Kauði gengur augljóslega alla leið í tvífarahlutverkinu: Alveg eins gleraugu, alveg eins skegg...
Gaurinn hélt að hann hefði komist í samneyti við bandaríska klámkónginn Hugh Hefner.
Þrátt fyrir að vera sláandi líkir þá er Hugh þekktur fyrir myndarlegt hvítleitt nef með breiðum og rúmgóðum nösum. Enda þarf hann á miklu súrefni að halda. Rauðnefinn nasagranni bætir upp fyrir það sem greinir þá tvífara að með því að klæðast náttfatalegum sloppi.
Bandaríska sjónvarpskonan Oprah Winfrey flýgur landshorna á milli í einkaþotu. Tvífarar hennar ferðast í almennu rými í troðfullum farþegaflugvélum.
Að öðru leyti hefði þetta alveg getað verið Oprah - ef hún kynni að ferðast aftur í tímann um 20 - 30 ár.
Bandarískur mótorhjólaknapi var sperrtur yfir því að hafa hitt leikarann Owen Wilson.
Kannski var móða á sólgleraugunum. Samt svipar manninum til Owens. Báðir ljóshærðir og með sömu hárgreiðslu.
..
Spaugilegt | Breytt 23.11.2015 kl. 20:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2015 | 20:09
Hulunni svipt af hræðilegu leyndarmáli
Fréttir af banksterum eru skemmtilegri en afleiðingar bankahrunsins/bankaránsins. Er þá mikið sagt. Skemmtilegastar eru fréttir af réttarhöldum yfir klíkunni. Þær keppa við fréttir af vist hennar á Kvíabryggju: Átök um rauðvín með matnum, átök um reiðnámskeið - með og án vændis og svo framvegis.
Verðbréfamiðlari hjá Glitni upplýsir vinnufélaga og nú alþjóð um að Jón Ásgeir hafi verið og/eða sé á djöflamerg. Það ku vera betra en að vera á djöflasýru. Nema það sé það sama. Rifjast þá upp að korteri fyrir bankahrun kallaði Jón Steinar Gunnlaugsson nafna sinn viðarrenglu. Um það má lesa hér
Í dag er pistill í dagblaði Jóns Ársgeirs (skráð á konu hans), Fréttablaðinu. Pistilinn skrifar eiginkona Ólafs Ólafssonar, hótelgests/vistmanns á Kvíabryggju. Henni er niðri fyrir. Eina sinni, einu sinni enn. Að þessu sinni sakar hún forstjóra Fangelsismálastofnunar um að brjóta á skjólstæðingi sínum, kallgreyinu, með því að opinbera persónugreinanlegt einkamál hans. Það gerði hann með því að kjafta frá vel varðveittu leyndarmáli: Að "mjög lítill hópur fanga hefði aðgang að mörgum milljónum".
![]() |
Jón Ásgeir á djöflamergnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.11.2015 | 11:14
Karlinn sem reddar hlutunum
Þúsund þjala smiðurinn er ómissandi í hverju þorpi; þessi sem reddar hlutunum snöfurlega. Enginn hlutur er svo bilaður að reddarinn kippi honum ekki í lag á mínútunnni. Hann þarf ekki annað en skima í kringum sig eitt augnablik til að koma auga á nothæfan varahlut.
Heimafyrir bera flestir hlutir þess merki að reddarinn hafi farið um þá höndum. Þegar pulla í sófasettinu ónýtist kemur eldhússtóll að góðum notum.
Veggklukkan fellur í gólfið og brotnar. Þá er minnsta málið að teygja sig í vélritunarblað og tússpenna. Klukkan er sem ný.
Slökkvitækið í sameigninni tæmist. Vatnsflaska gerir sama gagn.
Hliðarspegillinn á fína jeppanum brotnar. Þá er gott að eiga handspegil og límband.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.11.2015 | 20:55
Varasamar vídeóleigur
Allir eru utan við sig af og til. Kannski er einhver stigsmundur á milli einstaklinga á því sviði. Kannski kippir fólk sér mismikið upp við það að vera utan við sig. Sumir taka varla eftir því þó að þeir séu meira og minna utan við sig alla daga. Aðrir taka það mjög nærri sér. Þeim hættir til að velta sér upp úr því með áhyggjusvip.
Rannsóknir hafa leit í ljós að unglingar eru alveg jafn oft utan við sig og eldra fólk. Þá erum við ekki að taka með í dæmið alvarleg elliglöp á borð við alzæmer.
Fyrir mörgum árum tilkynnti vinur minn - eldsnemma að morgni - lögreglu að bíl hans hafi verið stolið um nóttina. Hann hringdi jafnframt í mig og sagði tíðindin. Alla næstu hálftíma fram að hádegi hringdi hann í mig með kenningar um bílstuldinn. Hann var sannfærður um að bíllinn yrði seldur í varahluti. Næst var hann sannfærður um að bíllinn hafi verið fluttur til Vestmannaeyja. Og svo framvegis.
Síðasta símtalið þennan dag kom um hádegisbil. Lögreglan fann bílinn. Hann stóð fyrir utan myndbandaleigu í göngufæri frá heimili mannsins. Gátan var ekki flóknari en það að hann hafði tekið sér þar myndbandsspólu á leigu kvöldið áður.
![]() |
Gleymdi barninu á vídeóleigu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 7.10.2016 kl. 12:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.11.2015 | 21:03
Ljósmyndir af börnum sem urðu síðar heimsfræg
Sumir halda því fram að það sé hægt að sjá af ljósmyndum af börnum hver verði "stjarna" (fræg afreksmanneskja) á fullorðinsárum. Kannski er það óskhyggja einhverra. Kannski er það eitthvað sem miðlar draga fram og benda á í tæka tíð (fremur en löngu síðar)
Hér eru nokkur dæmi:
Björk
John Lennon
David Bowie
James Hetfield (Metalica)
Zack De La Rocha (Rage Against the Machine)
Boy George
Jim Morrison (Doors)
Kurt Cobain (Nirvana)
Nína Simone
Marilyn Manson
Janis Joplin
Patti Smith
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.11.2015 | 07:51
Íslenskur miðill fær 130 milljónir
Margur góður maðurinn og mörg góð konan hafa í áranna rás reddað sér fyrir horn fjárhagslega með því að bjóða upp á miðilsfund. 50 eða 100 eða 150 manns borga glaðir í bragði 3000 kall eða 4000 þúsund kall eða 5000 kall fyrir að fá hlýja kveðju frá draugum fortíðar.
Þetta er góður bisness. Ennþá betra er að fólk sem syrgir nýlátna ástvini gleðjist yfir kveðju frá þeim. Þó ekki sé nema með þeim orðum að viðkomandi fylgist með, sé með syrgjanda í vöku og draumi og hafi það gott. Verra væri ef einhver kvartaði undan því að hafa það djöfull skítt í draugaheimi. Það er ekki í boði. Það væri vondur bisness.
Bestu fréttirnar eru þær að til er mun arðbærari leið fyrir sjáendur drauga en að tína seðla upp úr peningaveski fátækra syrgjenda nýlátinna ástvina. Það eina sem þarf að gera er að halda miðilsfund fyrir framan mann að nafni James Randi. Hann borgar miðlinum 130 milljón krónur fyrir frambærilegan miðilsfund. Það er gott tímakaup.
Að þessum fróðleik uppgefnum er næsta víst að miðillinn og leikkonan Anna Birta komist aftur i fréttir. Að þessu sinni undir fyrirsögninni "Íslenskur miðill fær 130 milljónir!" Þá býður hún Frosta Logasyni og frú út að borða á Draugabarnum á Stokkseyri.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 15:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
23.10.2015 | 22:24
Jón Þorleifs um Rússlandsforseta
Ég hef af og til rifjað upp sögur af Jóni heitnum Þorleifssyni, rithöfundi og verkamanni. Hann átti auðvelt með að setja saman vísur af hvaða tilefni sem var. Oft sátum við og fylgdumst með sjónvarpsfréttum eða öðru sjónvarpsefni. Þá hrökk eldsnöggt upp úr Jóni vísa um eitthvað sem þar kom fram.
Jón skráði þær ekki niður hjá sér á staðnum. Mörgum gleymdi hann. Sumar mundi hann áfram og hélt þeim þá til haga.
Ef mér þótti vísa fyndin þá átti ég til að punkta hana niður - ef penni og blað voru í seilingarfjarlægð.
Í dag rakst ég á gamlan miða með vísu. Mér hefur láðst að skrá höfund. En dagsetning er skráð 6. nóv. 1996. Ég er handviss um að höfundur sé Jón Þorleifs. Vísan er í hans stíl. Mér er ljúft og skylt að varðveita hana með því að birta hana hér:
Af fáu vaknar fögnuður
sem forsjón okkur gefur.
Boris Jeltsin bölvaður
batalíkur hefur.
Sögur af Jóni má finna með því að smella hér
Spaugilegt | Breytt 24.10.2015 kl. 10:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.10.2015 | 11:19
Græðgi og frekja
Á sjöunda áratug síðustu aldar bryddaði veitingastaðurinn Askur upp á ýmsum nýjungum. Þar á meðal að börn borðuðu frítt. Það var auglýst með orðunum: "Ókeypis fyrir börn í fylgd með foreldrum." Þessu var vel tekið. Þar á meðal af roskinni frú og miðaldra karlmanni.
Að lokinni veglegri veislumáltíð var komið að greiðslu. Frúin tilkynnti að þau þyrftu aðeins að borga fyrir hennar mat. Barnið borði frítt.
Þjónninn hváði og mótmælti. Hann sagði: "Þessi fúlskeggjaði miðaldra maður getur ekki talist vera barn."
"Jú, hann er barnið mitt," svaraði frúin ákveðin og reiðileg á svip. "Börn borða frítt í fylgd með foreldrum."
Vopn voru slegin úr höndum þjónsins. Til viðbótar vildi hann forðast leiðindi, skv. reglunni um að kúnninn hafi alltaf rétt fyrir sér. Honum var samt misboðið. En lét gott heita.
Í þann mund sem mæðginin stigu út um dyrnar þá brá þjónninn við snöggt. Hann hljóp á eftir þeim með sleikibrjóstsykur á lofti og kallaði hátt - til að allir í troðfullum veitingastaðnum heyrðu: "Barnið á að fá sleikibrjóstsykur! Öll dugleg börn sem klára matinn sinn fá sleikibrjóstsykur í verðlaun!"
![]() |
Hér fá börnin frítt að borða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.10.2015 | 19:09
Níðst á frænku
Í Bandaríkjum Norður-Ameríku er flóra dómsmála fjölbreytt og skemmtileg. Hún kryddar tilveruna. Sum dómsmál virðast vera sérkennileg. En eru það ekki þegar betur er að gáð.
Dómur var kveðinn upp í sakamáli drengs sem átta ára faðmaði frænku sína. Hún mætti í afmæli hans. Enda uppáhalds frænka. Guttinn var að hjóla fyrir framan heimili sitt er frænkan birtist. Ofsakæti greip hann. Hann stökk af nýja afmælishjólinu með slíkum látum að það datt á hliðina. Hann flaug í fang frænku gólandi: Jen frænka! Jen frænka! Jen frænka!"
Í látunum nuddaðist frænkan á úlnlið. Hún kippti sér ekki upp við það. Gleymdi því. Þangað til móðir drengsins lést. Í ljós kom að hún var líftryggð upp á tugi milljóna (mig minnir um 60).
Við þau tíðindi tók fjögurra ára gamli úlnliðsnúningurinn sig upp að nýju. Frænkan höfðaði þegar í stað mál á hendur frænda. Hann - orðinn 12 ára - er hvort sem er vís til að eyða líftryggingunni í óþarfa.
Frænkunni til undrunar og mikilla vonbrigða hafnaði kviðdómur sanngjarnri kröfu hennar. Hún fór fram á að fá 15 milljónir af líftryggingu. Meira var það nú ekki fyrir nudd á úlnlið.
![]() |
Vildi skaðabætur fyrir knúsið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 21.9.2016 kl. 18:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)