Færsluflokkur: Spaugilegt
10.3.2015 | 21:59
Hvergi sér fyrir enda á íslenska mannanafnagríninu
Mannanafnanefnd hefur mótmælt því harðlega að vera lögð niður. Það er gott grín. Eins og allt sem að mannanafnanefnd snýr. Þessi nefnd hefur aldrei verið annað en til mikillar óþurftar, kostnaðar og aðhláturs. Ekki aðeins á Íslandi heldur víða um heim.
Mannanafnanefnd óttast umfram annað að án síns nafnalögguhlutverks muni stúlku vera gefið nafnið Sigmundur. Ég deili þeim áhyggjum - óháð því hvort að nafninu sé klínt á stúlku, dreng eða heimilishundinn.
Inn á milli hefur nefndin verið flengd fram og til baka af Mannréttindadómstól Evrópu. Og þykir það gott. Skemmst er að minnast afgreiðslu á hinu mjög svo fallega kvenmannsnafni Blær. Sem er einnig til sem fallegt karlmannsnafn. Og nákvæmlega ekkert að því. Nema síður sé.
Nú hefur Þjóðskrá hótað að beita fjársektum foreldra sem í óþökk mannanafnanefndar kalla dóttir sína Alex: 547.500 kr. á ári (1500 kr. á dag), takk fyrir. Geggjunin er spaugileg. En getur verið foreldrunum dýr.
Vonandi hefur innanríkisráðherra bein í nefinu til að bregðast sköruglega við og rassskella forpokaða embættismenn mannanafnanefndar og Þjóðskrár. Og um leið að leggja hina fáránlegu og illilega óþurftar mannanafnanefnd niður.
Alex er fallegt nafn, hvort sem er á strák eða stelpu. Ein þekktasta sálarsöngkona Breta ber þetta nafn með reisn, Alex Hepburn heitir hún. Ég hef líka lúllað hjá breskri sjónvarpskonu sem heitir Alex. Það var gaman. Síðar póstsendi ég henni íslenskt Nóa konfekt. Henni þótti það gott.
Spaugilegt | Breytt 11.3.2015 kl. 09:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
5.3.2015 | 10:48
Verra gæti það verið
Oftast er hver dagur góð skemmtun. Inn á milli koma samt dagar þar sem allt gengur á afturfótunum. Þeir krydda tilveruna þegar upp er staðið. En á meðan allt fer afsíðis sem getur farið afsíðis þá er plástur á sárið að hafa í huga að það gæti verið verra. Til að mynda hefur það hent mann á fínum jeppa að taka U-beygju til að komast yfir á akrein úr gagnstæðri átt; svo bara allt í einu situr rándýri jeppinn pikkfastur í steypu.
Hvað með það að koma heim úr löngu sumarfríi seint að kvöldi og útidyralykillinn brotnar í læstingunni?
Það er kúnst að aka um með málningu á holóttum vegi. Þá er betra að gleyma ekki að setja lokið á málningafötuna.
Það er aldrei fyndið að sjá fólk í vandræðum á biðstofunni á Slysó. Eða næstum því aldrei.
Spaugilegt | Breytt 25.2.2016 kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.3.2015 | 21:24
Viðhald festist við gifta konu
Í sveitinni í Hjaltadal fóru tíkur stundum á flakk á milli bæja. Þá voru þær á lóðaríi. þegar hundar sinntu þeim festi tíkin þá í dágóða stund. Þetta getur hent í samskiptum fólks líka. Til að mynda í S-Afríku. Þar kom harðgift hálf fertug kona sér upp viðhaldi, tvítugum dreng. Eiginmanninn á fimmtugsaldri grunaði þetta. Til að komast að hinu sanna þá leitaði hann til töfralæknis. Sá framkvæmdi þegar í stað svartagaldur og lagði á konuna. Það var eins og við manninn mælt. Viðhaldið festist við hana í ástarleik.
Þegar konan og friðillinn uppgötvuðu vandamálið hrópuðu þau á hjálp. Sem betur fer voru allar dyr í húsinu ólæstar. Verra var að fólkið sem kom fyrst að gat enga hjálp veitt. Þess í stað hringdi það í vini og kunningja í nágrenninu og sagði tíðinda. Á örskammri stundu var 2000 manna hópur mættur á svæðið til að fylgjast með vandræðum elskendanna.
Fólk flissaði, tók bakföll og ljósmyndir. Þetta þótti góður farsi. Lögreglu bar að. Fólkið vildi halda áfram að fylgjast með. Lögreglunni tókst seint og síðar meir með hjálp piparúða að fæla fólkið á brott. Að lokum voru turtildúfurnar fluttar á sjúkrahús. Þar var konunni gefið vöðvaslakandi lyf til að losa um vöðvakrampann.
Myndin sýnir mannfjöldann streyma að áður en lögreglan skarst í leikinn.
Spaugilegt | Breytt 21.2.2016 kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.2.2015 | 23:05
Snati kann og veit
Venjulegur hundur með þokkalega rænu skilur um 70 orð. Sumir fleiri orð og aðrir færri. Eitt sinn átti ég hund sem var meinilla við að vera settur í bað. Ef heimilisfólkið nefndi orðið bað hvarf hundurinn með það sama. Faldi sig með hraði undir eða á bakvið húsgögn. Það kostaði mikið at að ná honum. Hann varðist eins og ljón - samt án þess að bíta.
Eitt sinn var brugðið á það ráð að stafa orðið bað. Hvutti hvarf á sama augnabliki. Við prófuðum oftar að stafa orðið til að sannreyna skilning hundsins. Alltaf með sömu útgáfu.
Ég er fæddur og uppalinn í sveit; í útjaðri Hóla í Hjaltadal. Ætíð þegar minnst var á heimaslátrun þá þaut heimilishundurinn eins og píla til fjalla og sást ekki í tvo daga. Það var fastur liður.
Í N-Karólínu Í Bandaríkjum Norður-Ameríku er hundur sem skilur á annað þúsund orð. Sumt fólk þar um slóðir kann ekki einu sinni svo mörg orð.
Til að sannreyna skilning Snata í N-Karólínu hefur hann verið látinn sækja 900 leikföng. Nafn leikfangsins er nefnt og hann sækir það án vandkvæða.
Kári vill komast í strætó | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 28.2.2015 kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.2.2015 | 22:20
Uppfærð Orðabók Menningarsjóðs
Fyrir alla sem hafa gaman af blæbrigðum og fjölbreytileika íslenskrar tungu eru Vigdís Hausdóttir og Bibba á Brávallagötu himnasending. Jafnvel í fleirtölu og nefnifalli. Báðar hafa dágóða kímnigáfu fyrir því að skirpla á svellinu. Það er allt annað en vefjast tunga um fót.
Nýjasta dæmið er gagnrýni Vigdísar á Hildi Sverrisdóttur fyrir að hafa, ja, að mati Vigdísar, fundið upp orðskrípið skrýtilegt.
Kannski er notkun orðsins landshlutabundin. Ég veit það ekki. Ég er fæddur og uppalinn í Skagafirðinum. Þar er þetta orð brúkað daglega athugasemdalaust.
Ég á Orðabók Menningarsjóðs, útg 1988. Þar stendur:
skrýtilegur L kátlegur skrýtinn.
Í næstu prentun á Orðabók Menningarsjóðs má bæta við
skrýtilegt L Vigdís
Vigdís vandar um við Hildi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 17.3.2015 kl. 19:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.2.2015 | 22:01
Spaugilegar fjölskyldumyndir
Fyrir daga farsíma með innbyggðri myndavél og snjallsíma var ekki kastað til höndum er kom að ljósmyndatöku. Við hátíðleg tækifæri mættu fjölskyldur spariklæddar á ljósmyndastofur. Þar var eftir kúnstarinnar reglum stillt upp ljósalömpum og öll lýsing mæld út með ljósmæli. Ekki var smellt af fyrr en allir voru með sitt hlutverk á hreinu. Hver ljósmynd kostaði drjúgan skilding.
Eins og gerist og gengur hafði fólk ólíkan skilning og smekk fyrir því hvernig rándýra ljósmyndin átti að vera. Einnig slæddust með mistök. Einkum þegar ung börn föttuðu ekki út á hvað dæmið gekk.
Hér eru nokkur skondin dæmi (ungt fólk fattar ekki hvað þetta er broslegt)
Hér náði allt barnastóðið að setja upp sparisvip. En á sama tíma og sprenglærður ljósmyndarinn smellti af brast flótti á ungan gutta sem er skelfingu lostinn yfir uppstillingunni.
Fyrir vestan haf eru strandmyndir vinsælar. Það er í fínu lagi og gaman að sveifla börnum til á ströndinni. Spurning um að draga línuna réttu megin við strikið.
Vinaleg og snyrtileg fjölskylda. Karlarnir í eins skyrtu. Af hverju heldur sonurinn um mömmuna eins og hann sé í þann mund að kyrkja hana?
Ótrúlegt en satt: Allir í fjölskyldunni eru skjólstæðingar sömu hárgreiðsludömunnar.
Þessi mynd var jólakort. Klæðnaður - eða ðllu heldur klæðaleysi - húsbóndans er spurningarmerki.
Trúlofunarmynd feimna fólksins. Að giftingu afstaðinni ætla þau að taka stóra skrefið og prófa að haldast í hendur.
Heppnasta fjölskylda í heimi. Hún datt inn á útsölu og fann svartar peysur með bleikum skrautborðum og herðakústum. Þær voru til í öllum stærðum sem pössuðu fjölskyldunni.
Gárungarnir kalla fjölskylduna "Græna gengið". Það er út af því að fjölskyldubíllinn er grænn. Líka íbúðarhúsið að utan. Já, og að innan.
Spaugilegt | Breytt 23.2.2015 kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.2.2015 | 20:46
Jón Þorleifs og símahleranir
Einn góðan veðurdag fékk Jón Þorleifsson, verkamaður og rithöfundur, þá flugu í höfuðið að bandaríska leyniþjónustan, CIA, fylgdist með sér. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvenær honum datt þetta í hug. Mig grunar að það hafi verið í kjölfar þess að systir mín og hennar fjölskylda flutti til útlanda fyrir aldarfjórðungi eða svo. Fyrstu símtölin að utan voru úr lélegum símasjálfsölum. Á sama tíma varð Jón þess var að pakkar að utan voru greinilega opnaðir á Tollpóststofunni.
Grunur og vissa Jóns um þessar njósnir urðu þráhyggja. Hann velti sér upp úr þessu. Það var í aðra röndina eins og honum þætti upphefð af því að vera undir eftirliti CIA.
Sumir urðu til að fullyrða við Jón að þetta væri hugarburður hjá honum. "Hvers vegna ætti leyniþjónusta vestur í Ameríku svo mikið sem vita af íslenskum eftirlaunþega þó að hann gefi út fjölritaðar bækur í örfáum eintökum?" var spurt.
Jón svaraði: "Það er merkilegt að leyniþjónustan hafi svona miklar áhyggjur af bókunum mínum. Orð geta verið beittari en sverð."
Jón gerði sér nokkrar ferðir til Símans í Ármúla. Þar krafðist hann þess að Síminn hætti umsvifalaust að leyfa CIA að hlera síma sinn. Kunningi minn sem vann hjá Símanum sagði að heimsóknir Jóns vektu kátínu þar á bæ.
Jón taldi sig merkja af viðbrögðum starfsmanna Símans að þeir vissu upp á sig skömmina. Þeir urðu lúpulegir og missaga.
Svo fór að starfsmaður Símans heimsótti Jón. Sagðist vera að rannsaka þessar hleranir. Jón sagðist hafa verið fljótur að sjá í gegnum það leikrit. "Maðurinn var ósköp vinalegur. Hann ræddi við mig um flest annað en símhleranirnar. Vildi vita hvernig heilsa mín væri og hvaðan ég væri af landinu. Hann tók aðeins upp símtólið til að heyra sóninn. Hann hafði ekki einu sinni rænu á að þykjast leita að hlerunarbúnaði. Enda vissi hann jafn vel og ég að hlerunarbúnaðurinn er staðsettur í húsakynnum Símans eða Sendiráði Bandaríkjanna."
Fleiri sögur af Jóni: hér
Spaugilegt | Breytt 22.2.2015 kl. 08:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.2.2015 | 21:40
Tískubylgjan er kústur
Norður-Kórea er eitt af undrum veraldrar. Þetta er lokaðasta og einangraðasta ríki heims. Mannréttindabrot eru stórfelld og mikil fátækt. Forseti landsins er Kim Il Sung. Hann dó fyrir tveimur áratugum. En er samt ennþá forseti landsins. Stjórnar því af öryggi. Fyrst með aðstoð sonar síns, Kim Jong Il. Sá lagði sig svo fram um að hlaupa undir bagga með pabbanum að hann dó úr vinnuálagi. Dugði þar hvergi til að hann var árum saman búinn að safna orku og kröftum við að sitja öll kvöld allsnakinn við að þamba koníak.
Þegar Kim Jong Il dó úr vinnuálagi varð fuglum himins svo um að þeir þögnuðu. Harmur þeirra var svo yfirþyrmandi við að heyra fréttina.
Kim Jong Il fann upp hina heimsþekktu kjötsamloku sem kallast hamborgari. Þessa fróðleiksmola hef ég eftir n-kóreskum fjölmiðlum.
Við fráfall koníaksþambarans tók sonur hans, Kim Jong Un, við því hlutverki að hjálpa afa sínum við að stýra ríkinu. Eldri bróðir hans hafði klúðrað arftökunni með því að laumast til Japans á fölsuðum skilríkjum. Hann var staðinn að verki í tívolí í Japan. Fyrir bragðið varð hann aðhlátursefni um allan heim. Sem var út af fyrir sig í stíl við það aðhlátursefni sem pabbi hans og afi hans voru og eru. En í Norður-Kóreu var gerður munur á þessu.
Kim Jong Un kom brattur inn á sviðið. Hann lét þegar í stað taka af lífi háttsetta í fjölskyldunni. N-Kóreskir fjölmiðlar slógu upp á forsíðu að Kim Jong Un væri af heimsbyggðinni talinn kynþokkafyllsti maður heims.
Vissulega er Kim Jong Un kynþokkafullur. Held ég. Reyndar er ég ekki flinkur við að átta mig á því hvaða karlar eru kynþokkafullir eða ekki. Ég legg það í hendur n-kóreskra fjölmiðla. Og ykkar.
Kim Jong Un hefur aðgang að bestu stílistum N-Kóreu. Hann hefur lagt línu fyrir heimsbyggðina með stíl sem kallast kústur. Nafnið er dregið af hárgreiðslu og vel snyrtum stuttum augnabrúnum. Þetta er til fyrirmyndar. Kústur er málið.
.
Spaugilegt | Breytt 12.2.2016 kl. 14:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.2.2015 | 21:29
Bráðskemmtilegar myndir úr umferðinni
Umferð í Japan getur verið afar ruglingsleg. Fyrir ókunnuga líkist hún helst flókinni gestaþraut. Fyrir ferðamenn er heppilegra að taka leigubíl en fara sjálfir undir stýri á leigðum bíl. Þessi mynd sýnir gatnamót. Allir bílarnir eru á góðri ferð.
Í Bandaríkjum Norður-Ameríku njóta vinsælda "aktu taktu" matsölustaðir sem kallast Drive-thru. Bein þýðing getur verið "ekið í gegn". Ótrúlega margir taka þetta bókstaflega og reyna að aka í gegnum matsölustaðinn.
Þessi mynd er úr bílastæðahúsi verslunarmiðstöðvar. Öll bílastæði voru upptekin. Einhvernvegin tókst ökumanni að leysa vandamálið með því að troða bíl sínum ofan á annan bíl.
Þetta er jafn undarlegt og þau ótal dæmi af ökumönnum sem tekst að leggja bíl sínum þversum í rými þar sem slíkt á ekki að vera mögulegt. Þau dæmi eiga það sameiginlegt að ökumaðurinn skilur allra manna síst hvernig þetta gerðist. Hann var að reyna að snúa bílnum þegar hann var allt í einu fastur. Komst hvorki aftur á bak né áfram.
Hvorki lögregla né ökumaður skilja upp né niður í því hvernig þessi bíll komst á bak við gulu steyptu staurana. Húdd bílsins dældaðist þegar ökumaðurinn reyndi að koma sér og bílnum úr þessari klemmu.
Eiginmaðurinn gaf konunni nýja eldavél í jólagjöf. Hann er dáldið gamaldags í hugsun. Telur stöðu konunnar vera á bak við eldavélina. Myndin sýnir viðbrögð konunnar.
Atburðarrásinni lauk ekki þarna heldur þurfti með mikilli lagni og fyrirhöfn að losa kallinn úr leiktæki í bakgarði heimilisins.
Sonur hjónanna fékk bíl í jólagjöf. Hann er ekki með bílpróf. En tók samt rúnt á bílnum. Svo varð bíllinn bensínlaus. Þá fauk í stráksa og hann henti bílnum í ruslið. Hann hélt að bensínlaus bíll væri ónýtur.
Spaugilegt | Breytt 11.2.2016 kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.2.2015 | 20:25
Geggjuð andlitshúðflúr
Húðflúr segja mikið um þann sem ber húðflúrið. Einkum húðflúr á andliti. Í fyrsta lagi þarf töluverða dirfsku til að fá sér húðflúr á jafn áberandi stað. Oft er það fífldirfska.
Flest húðflúr í andliti eru sakleysislegar augnlínur og ennþá saklausari augnabrúnir. Það er ekkert nema í góðu lagi ef húðflúrið fylgir stæði raunverulegu augnabrúnna. Mörgum konum þykir það þægilegt. Það sparar tíma og peninga við að lita stöðugt á sér augnabrúnir. Verra er þegar húðflúrið fylgir ekki augnabrúnastæðunum. Það er sama hversu vel augnabrúnahárin eru rökuð burt; það sést alltaf móta fyrir stæðunum. Útkoman verður kjánaleg.
Sumir nota augnabrúnirnar til að skreyta ennið enn frekar með húðflúri. Það takmarkar mjög mikið möguleika fólks á vinnumarkaðnum. Ekki einungis vegna þess að þetta er langt frá því að vera flott heldur vegna þess að þetta sýnir glöggt að einstaklingurinn er ekki í lagi. Manneskja sem sýnir augljósan dómgreindarskort er ólíklegur til að standa sig vel í vinnu. Að auki einkennir þannig fólk iðulega sauðalegur svipur.
Enn aðrir merkja yfirlýsingu á ennið á sér. Þeir taka af allan vafa um hversu hættulega brenglaðir þeir eru.
Ein vinsæl aðferð er að láta húðflúra "augu" á augnlokin. Þá sér enginn þegar viðkomandi blikkar augunum. Eða, jú. Allir sjá að viðkomandi verður fíflalegur og sturlaðir á svip.
Í glæpagengjum leyfa höfuðpaurar sér gjarnan að fá húðflúr yfir allt andlitið. Þeir vita að þeir muni aldrei fara út á almennan vinnumarkað. Húðflúrað andlitið háir þeim þess vegna ekki. Þvert á móti. Það er stöðutákn innan glæpagengisins.
Svo eru þeir til sem fá sér húðflúr yfir allt andlitið til að tjá þjóðernisrembing. Kannski takmarkar það ekki verulega atvinnumöguleika. Hinsvegar er meiri reisn yfir því að láta húðflúra á sig fána lágréttum fremur en lafandi lóðréttum.
Til að fyrirbyggja misskilning þá hef ég ekkert á móti húðflúrum. Fjarri því. Ég er með fjölda húðflúra. En ekki á andlitinu.
Ljóska sér eftir að hafa tattúverað augnabrúnirnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 6.2.2016 kl. 16:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)