Færsluflokkur: Spaugilegt

Bensíntittur rændi völdum

  Ég átti erindi norður í land.  Áður en brunað var aftur til borgar óttans tók ég krók á minni leið og lagði bíl upp við bensíndælu.  Þar leist mér vel á dælu merkta "Power".  Kom upp í huga mér lag Johns Lennons "Power to the People".  Ljómandi gott lag.

  Ég greip bensíndæluna föstum tökum og beindi stút ofan í bensíntank bílsins.  Í sömu andrá sveif að eldri maður,  merktur bensínstöðinni.  Hann var nánast láréttur í loftinu er hann skutlaði sér eins og til sunds á milli mín og bíls.  Reif dæluna úr bensíntanknum og hrópaði:  "Nei,  ekki Power!".  

  Svo leit hann æstur, óðamála,  áhyggjufullur og rannsakandi á mig og spurði:  "Varstu byrjaður að dæla?"

  Nei,  ég kannaðist ekki við það.  Róaðist maðurinn mjög mikið við þau tíðindi.  Honum var létt. Hann náði andlegu jafnvægi og byrjaði að dæla "venjulegu" bensíni á bílinn.  Um leið upplýsti hann mig:  "Power bensínið er 50 kr. dýrara en venjulega bensínið.  Það er að vísu aðeins kraftmeira.  En ekki 50 króna virði.  Það er bara bull."

  Ég hef ekkert vit á bensíni.  Látum fagmenn um þetta.  Ætli sé einhver sala í "Power"?  Varla á þessari bensínstöð.  


Það er ekki öllum gefið að "krimmast" svo vel sé

  Hér eru dæmi um það.  Laganna verðir komu böndum á viðkomandi - einmitt vegna þessara upplýsinga.

krimmaklúður b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Steve vonar að allt sé í lagi.  Hann hafi panikað og stungið af vitandi að guð ætlaðist ekki til þess.  En hann getur ekki hugsað sér að lenda í fangelsi.  Þetta hafi hvort sem er bara verið útigangsmaður.

  Vinirnir hvetja Steve til að gefa sig fram.  Hann segist ekki vita hvernig hann eigi að sleppa frá þessu.  Ekki gangi að hringja í lögguna.  Það þýði fangelsi. Kannski væri ráð að grafa manninn.

  Vinirnir hvetja áfram til þess að hann gefi sig fram.  Hann segir það vera of seint.  Hann verði að fara á vettvang og fela verksummerki svo að enginn komist að því hvað gerðist.

  "Heimurinn veit ekki hvað ég gerði.  Aðeins þið og þið munið aldrei kjafta frá.  Lögreglan myndi aðeins handtaka mig.  Ég verð að taka þessu eins og karlmaður."

krimmaklúður a

 

 

 

 

 

 

Loren auglýsir á Fésbók eftir persónuskilríkjum sem hana bráðvantar fyrir næsta kvöld.

Steve svarar og segist hafa undir höndum fjölda persónuskilríkja sem hann hafi tekið af unglingum undir aldri er reyni að smygla sér inn inn á skemmtistaði.  Hann kæri þá umsvifalaust fyrir fölsun.  

Jennifer hlær og minnir Loren á að pabbi hennar sé lögregluþjónn.

krimmaklúður c

 

 

 

 

  "Þetta atvik þegar þú faldir hassið í brjósthaldaranum er helvítis löggusvínin stoppuðu ykkur mágkonu þína.  Haha við höfum lent í svo mörgu."

  Stöðufærslan fær 13 "læk".

  Skjáskotinu fylgir textinn:  "Þetta atvik þegar þessi sömu löggusvín böstuðu ykkur síðar sama dag vegna Fésbókarfærslunnar."

krimmaklúður d

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  "Góður fundur.  Maður þarf bara að kunna að leita á réttum stað."

  "Þú ert þó ekki að pósta á Fésbók að þú sért að ræna ókunnugt hús."

----------------------

Meira HÉR


mbl.is Sendi ekki fjárkúgunarbréfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamborgari og danskar

  Ég skrapp á veitingastað í dag.  Á næsta borði sat ungur maður.  Eftir nokkurn tíma kom afgreiðsludama með á diski handa honum hamborgara og nokkrar afskrældar - og sennilega soðnar - kartöflur.  Maðurinn brást hinn versti við.  Hann gargaði pirraður:  "Hvað er eiginlega í gangi?"

  Afgreiðsludaman: "Hvað áttu við?  Er ekki allt í lagi?"

  Maðurinn:  "Allt í lagi?  Ertu vönkuð?"

  Daman:  "Hvað er að?"

  Maðurinn:  "Hvaða rugl er með þessar kartöflur?"

  Daman:  "Þú pantaðir hamborgara og danskar.  Þetta eru danskar kartöflur."

  Maðurinn:  "Ég pantaði hamborgara og franskar.  Franskar en ekki einhverjar djöfulsins danskar kartöflur!"

  Daman:  "Ekkert mál.  Mér heyrðist þú biðja um danskar.  Ég skal sækja franskar."

  Hún skottaðist eftir vænum skammti af frönskum kartöflum.  Og hló mikið er hún lagði þær á borðið hjá manninum.  Hún sagði:  "Þetta er ekki falin myndavél en ég var samt að stríða þér."

  Maðurinn tók gleði sína á ný og fór líka að hlæja.  Ég fékk á tilfinninguna að þau þekktust og þarna hafi verið um kunningjahrekk að ræða.  

soðnar kartöflur


Einfættur hrekkur

  Keith Moon,  tommuleikari bresku rokkhljómsveitarinnar The Who,  var lífsglaður og uppátækjasamur grallari.  Að vísu ekki lífsglaðari en svo að hann fór í keppni við bítlana John Lennon og Ringo Starr,  svo og söngvarann Harry Nilson, um það hver yrði fyrstur til að drekka sig í hel.  Baráttan var hörð og illvíg.  Menn drukku allskonar og ældu yfir margar sætaraðir og viðstadda þegar best lét.  Hvergi dugði til þó að fram kæmu menn sem vottuðu um edrúmennsku þeirra og æluleysi.  Þeir hefðu ekki einu sinni étið túlípana hvað þá meira.  Hinsvegar væru þeir með magabólgur.

  Keith vann keppnina.  Harry Nilson náði 2. sæti.  John Lennon var myrtur.  Ringó er einn eftir.  

  Þrátt fyrir góðar tekjur var Keith alltaf stórskuldugur.  Uppátæki hans voru mörg hver dýr.  Til að mynda að henda sjónvörpum út um hótelglugga og keyra glæsibílum út í sundlaug.

  Eitt sinn fékk Keith vin í lið með sér til að kíkja í vinnugallafataverslun.  Þeir sýndu tilteknum gallabuxum áhuga.  Til að reyna á styrkleika vörunnar tóku þeir í sitthvora skálmina og rykktu samtaka í af öllum kröftum.  Við það rifnuðu buxurnar í sundur í miðju.  Kapparnir héldu á sitthvorum helmingnum.

  Afgreiðslufólk búðarinnar fékk nett áfall og horfði í forundran á.  Áður en hendi var veifað hoppaði inn í búðina einfættur betlari (sem Keith hafði borgað fyrir að taka þátt í sprellinu).  Hann hrópaði:  "Einmitt það sem ég var að leita að.  Ég ætla að fá tvo svona vinstri buxnahelminga!"  


mbl.is Einfættri konu vísað af rauða dreglinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frakkar stelpur

  Ég sat í rólegheitum í kyrrstæðum bíl og las Stundina.  Ég átti mér einskis ills von.  Skyndilega var bankað kröftuglega á bílrúðuna. Mér krossbrá.  Úti fyrir stóð unglingsstúlka.  Ég renndi bílrúðunni niður.  Hún heilsaði ekki né kynnti sig heldur bar umsvifalaust upp erindið:  "Viltu gefa mér 300 kall?"

  Ég:  "Hvers vegna í ósköpunum ætti ég að gefa þér 300 kall?"

  Hún:  "Af því að mig langar í smávegis nammi í nammibarnum í 10-11."

  Þetta þótti mér vera sanngjörn og góð rök fyrir því að gefa henni 300 kall.  Svo heppilega vildi til að ég var með 300 kall í vasanum (reyndar aðeins meira.  En lét ekki á því bera).  Annars hefði ég þurft að fara í 10-11 - sem var þarna rétt hjá - og biðja kassastrákinn um að skipta fyrir mig seðli.  

  Þegar ég horfði ringlaður á eftir stelpunni storma hröðum skrefum í 10-11 mundi ég skyndilega eftir því að það var ekki nammidagur.  En það var of seint að bregðast við því. Hún slapp í nammið á virkum degi.  


mbl.is Vafðar inn í teppi á vespu um nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þefaði uppi heimsmet

  Færni fólks á lyklaborð hefur aukist jafnt og þétt með tilkomu tölvu og internets.  Flestir eru orðnir leiknir og hraðhentir með það.  Flestir nota fingurna til að hamra á lyklaborðið.  Hálfþrítugum Indverja að nafni Mohammed Khursheed Hussain þykir það ekki vera nógu mikla áskorun.  Hann vélritar með nefinu á sér.  Það tekur hann 47.44 sek að slá inn 103 orð.  Það er heimsmet.  Gott þefskin piltsins hjálpar.  Hann þefar uppi stafina.  

Mohammed_Khursheed_Hussain


Áhorfendur plataðir upp úr skónum

  Það er sívinsæll og skemmtilegur samkvæmisleikur að plata áhorfendur.  Oft í því formi að frægar poppstjörnur fara í dulargervi og þykjast vera óþekktar.  Þetta er líka stundum gert til að poppstjarnan fái að vera í friði.  Bob Dylan dulbjó sig eitt sinn sem gamla konu og rölti langa leið um nótt til að skoða hús Bruce Springsteens að utan.  Lögreglukona á vakt sá til hans,  handjárnaði hann snarlega og færði niður á lögreglustöð.  Samt upplýsti Dylan konuna strax um það hver hann væri.

  Það vakti kátínu á lögreglustöðinni þegar í ljós kom að konan kannaðist ekki við nafnið Bob Dylan og því síður við hans raunverulega nafn,  Robert Zimmerman.  Hún hafði það sér til afsökunar að lesa aldrei nein blöð,  horfa einungis á bíórásir í sjónvarpi og hlusta aðeins á RnB músík.

  Michael Jackson dulbjó sig stundum.  Þá setti hann upp stóran skrautlegan konuhatt,  risastór skreytt sólgleraugu, rykgrímu yfir nef og munn og klæddist lúðrasveitargalla með gullhnöppum og utanáliggjandi herðapúðum með dúski.  Aðal trixið var síðan að klæðast hvítum hanska á báðum höndum - í stað þess að vera með hanska á annarri hendi þegar hann mátti þekkjast.

  Þrátt fyrir gott felugervi föttuðu alltaf allir strax hver var þar á ferð.  Verra var þegar hann dulbjó sig svona í Bretlandi.  Þá var sólarlaust dumbungsveður.  Sólgerlaugun birgðu honum sýn.  Hann gekk á vegg, hurð, ljósastaur og allskonar.  Ráðið var að skipta um dulargerfi.  Hann hermdi eftir klæðaburði Yoko Ono frá því í lok sjöunda áratugarins.  Þóttist vera Yoko.  Já, til að fá að vera í friði.  Fékk sér svartan klæðnað frá toppi til táar.  Hatt og allt.  Og gleraugu með glæru rúðugleri.  Allir þekktu hann undir eins.  Samt var erfitt að bera kennsl á hann í dulargervinu.  Bretar eru bara svo ótrúlegir mannþekkjarar.

 michael jackson í yoko dressi

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Þegar Stuðmenn túruðu í fyrsta skipti um Ísland földu þeir höfuð sitt innan í dýrahausum.  Það mátti enginn vita að þarna voru á ferð Jakob Magnússon úr Rifsberju,  strákarnir í Spilverki þjóðanna,  Preston Heyman (trommuleikari Tom Robinson Band) og einhverjir fleiri.

  Þetta svínvirkaði.  Enginn vissi hverjir Stuðmenn voru.

  Áratug síðar eða svo tóku Stuðmenn annan snúning á þessu.  Þá spiluðu tvífarar Stuðmanna á hljómleikum á Lækjartorgi.  Áhorfendur voru grunlausir uns hinir raunverulegu Stuðmenn ruddust upp á svið og hröktu tvífarana á brott.  

  Nokkru áður en Elvis Presley dó var sagt frá því í bandaríska vikublaðinu Weekly World News að hann hafi - undir dulnefni - tekið þátt í Presley eftirhermukeppni.  Með góðum árangri.  Hann náði 3ja sætinu og var alsæll.  Hann ku hafa endurtekið leikinn af og til eftir dauða sinn.    

  Út um allan heim er fjöldi manna sem telur sig vera Presley endurfæddan.  Eða launson hans. Eða tvíburabróðir hans sem dó í fæðingu.  Þeir herma nákvæmlega eftir Presley í söng, útliti og klæðnaði.  Það er enginn munur á þeim og Presley.  Eina vandamálið er að þeir eru farnir að hverfa til Valhallar eða Heljar hver á fætur öðrum.  Enda flestir fæddir mörgum árum á undan Presley.  

 


mbl.is U2 hélt tónleika í dulargervi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvikmyndarumsögn: Dásamleg mynd

bakkkvik 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  - Titill:  Bakk

 - Handrit:  Gunnar Hansson

 - Leikstjórn:  Gunnar Hansson og Davíð Óskar Davíðsson

 - Leikendur:  Gunnar Hansson,  Víkingur Kristjánsson,  Saga Garðarsdóttir,  Ágústa Eva...

 - Tónlist:  Snorri Helgason

 - Einkunn: ****

  Í fljótu bragði hljómar ekki spennandi kvikmynd um fólk að bakka bíl hringinn í kringum Ísland.  En kvikmyndin Bakk er góð skemmtun.  

  Myndin hefst á því að ungur leikari frá Hellissandi,  Gísli (Gunnar Hansson),  er á sviði í leikhúsi í Reykjavík.  Hann er í lítilvægu hlutverki.  Er "drepinn" í upphafssenu og leikur dauðan mann á sviðinu þaðan í frá.  Þetta reynist vera táknrænt fyrir raunverulegt lífshlaup hans.  Hann er með allt niðrum sig.  Hann er ekki endurráðinn hjá leikhúsinu.  Konan sparkar honum.  Hann flýr vestur til pabba síns á Hellissandi. Pabbinn hefur meiri metnað fyrir hans hönd en hann sjálfur.  

  Í fljótfærni hörfar Gísli undan stjórnsemi pabbans með því að ákveða að bakka bíl í kringum Ísland. Tilgangurinn - í og með - er að safna peningum fyrir langveik börn.  Hann suðar í og neyðir æskuvin sinn,  Viðar (Víkingur Kristjánsson) til að slást með í för. Á leiðinni taka þeir upp puttaferðalang sem heitir því fagra nafni Blær (Sara Garðarsdóttir).

  Ferðalagið verður viðburðarríkt.  Samt ekki þannig að eins og sé verið að troða atburðum inn í söguna.  Framvindan er öll trúverðug og lipur.  Sagan rennur eðlilega áfram.  Ekki átakalaus en eins og búast mátti við eftir á að hyggja.

  Þar komum við að einum helsta styrkleika myndarinnar:  Persónusköpun er svo sterk að áhorfandinn fær þegar í stað samkennd með öllum persónunum.  Gallar þeirra og kostir er eitthvað sem við þekkjum í kunningjahópi okkar.

  Annar styrkleiki myndarinnar er að hún er verulega fyndin.  Ég hef ekki hlegið jafn oft upphátt í bíóhúsi síðan ég sá Klovn og Bjarnfreðarson.  Ég stóð mig ítrekað að því að garga úr hlátri.  

  Jú, jú.  Það slæðast með fimmaurabrandarar og endurnýttir góðir brandarar.  Það jaðrar við að vera ofnotað flotta stilbragðið að hafa viðmælanda næst myndavél úr fókus í samtölum en viðmælanda lengra frá í fókus.  Á móti kemur að allt er þetta afgreitt svo skemmtilega að útkoman er harla góð.  Leikararnir vinna hvern leiksigur á fætur öðrum.  Valinn maður í hverju rúmi.  Mest mæðir á Gunnari Hanssyni og Víkingi Kristjánssyni.  Þeir fara á kostum.  Eins og allir aðrir.

  Í bland við brandarana er sagan drama í aðra röndina.  Allt í réttum hlutföllum og í góðum takti myndina út í gegn.  

  Kántrýblús-skotin þjóðlagakennd tónlist Snorra Helgasonar leikur stórt og áhrifamikið hlutverk.  Skemmtileg og vel við hæfi tónlist.  Hún neglir í mark í öllum tilfellum. Gerir mikið fyrir myndina.  Líka fagurt íslenskt landslag.

  Ég mæli með og hvet til þess að fólk fari í bíó og upplifi góða kvöldskemmtun.  Virkilega vel heppnuð mynd.  Sem lærður grafískur hönnuður er ég að auki hrifinn af "lógói" myndarinnar.

           


Stóri bróðir í góðu stuði

  Ráðherrar eiga það margir sameiginlegt að hrökkva úr sambandi við raunveruleikann á milli þess sem þeir mæta í kokteilboð,  viðra sig í útlöndum á Saga Class og og skutla sér á tertusneið hvenær sem þeir fá vitneskju um súkkulaðitertu á boðstólum.

  Það er góð skemmtun að setja lög.  Og breyta reglum.  Það þarf ekkert að hugsa málið til enda.  Hitt skiptir meira máli.

  Í síðustu ríkisstjórn bannaði Álfheiður Ingadóttir fólki undir 18 ára að fara í sólbað.  Enginn hefur eftirlit með því.  Samt er það farið að skila sér í D-vítamínskorti og beingisnun.  

  Reisupassinn er annað dæmi um geggjaða hugmynd um nefskatt / gjaldtöku sem var dauðadæmd della frá fyrsta degi.  En þráast var við fram á síðasta dag.  Icesave I, II og III vvar ítrekað reynt að troða þversum ofan í landsmenn.  Tölum ekki ógrátandi um makrílfrumvarpið.  

  Ég veit ekki hver það var sem stytti gildistíma vegabréfa úr 10 árum niður í 5 ár.  Það var út í hött.  Síðan hefur allt verið í klessu hjá vegabréfadeild Sýslumannsins í Kópavogi.  Álagið er að sliga embættið.  Einnig allskonar sérviskulegar reglur.  Svo sem að það verði að póstsenda ný vegabréf til sýslumannsembætti viðkomandi.  Fólk sem mætir á staðinn má ekki fá afhent vegabréf þó að starfsmaður embættisins sé með það í höndunum.  Computer says no.

 Vegabréf miðaldra og eldri eiga að duga alveg í 10 - 15 ár.  Ljósmynd sýnir sömu manneskju.  Ólíklegt er að hæð hennar breytist verulega, fæðingardagur eða augnlitur.  

    


mbl.is Hafa fengið nóg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hárþvottur upp úr kúahlandi

  Í aldir hafa vel hærðar konur þvegið hár sitt upp úr kúahlandi.  Kúahlandið er í raun jurtasjampó.  Beljan lifir alfarið á grasi.  Hún er sólgin í gras.  Grasið inniheldur ýmis góð næringarefni.  Meðal annars fyrir hárið.  

  Ókosturinn við að þvo hárið upp úr kúahlandið er að beljan pissar ekki eftir klukkunni.  Fagurhærðar konur þurfa þess vegna að sitja tímum saman úti í fjósi og bíða eftir því að belju verði mál.  Þegar að því kemur er nauðsynlegt að hafa snör handtök og setja höfuðið undir bununa.  Til að hámarks árangur náist þarf kúahlandið góða stund til að koma sér fyrir í hársverðinum og næra hann.  Kannski hálftíma eða svo.

  Kostur við að næra hárið með kúahlandi er að það skilur eftir sig þægilega fjósalykt.

  Önnur hárnærandi aðferð til að þrífa hárið er að þvo það upp úr hreinu Aloe Vera geli.  Það hefur hreinsandi eiginleika og nærir hársvörðinn af 75 vítamínum og steinefnum.  Ókosturinn er að þá vantar fjósalyktina.  

 


mbl.is Má bjóða þér hland í hárið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.