Færsluflokkur: Spaugilegt

Besta aðferð til að þrífa ketti og hunda


köttur og hundur 
 Ég sá þessa góðu uppskrift á fésbókarsíðu Önnu Sigríðar Karlsdóttur.  Uppskriftin á erindi við alla sem halda ketti eða hunda sem heimilisdýr.  Þetta er borðliggjandi frábær ferð þegar vel er að gáð.  Hún er svona og númeruð til að allt fari fram í réttri röð.  Það er mikilvægt:

1. Lyftið upp lokinu á klósettinu og hellið hálfum bolla af Aloe Vera sjampói ofan í skálina.
2. Takið köttinn upp og talið róandi við hann á leiðinni inn á salernið.
3. Setjið köttinn ofan í klósettið og lokið.  Standið ofan á klósettsetunni til að ekkert fari úrskeiðis.
4. Á þessum tímapunkti fer kötturinn að framleiða froðu ofan í skálinni.  Leiðið hjá ykkur lætin því kötturinn hefur gaman af þessu og er að komast í hreinlætisstuð.
5. Sturtið niður í klósettinu þrisvar sinnum.
6. Opnið útidyrahurðina og gætið þess að ekkert sé í veginum. 
7. Standið fyrir aftan klósettið og lyftið snöggt upp klósettlokinu.
8. Kötturinn skýst upp úr klósettinu og verður viðþolslaus að komast út úr húsi til að sýna öðrum köttum hvað hann hreinn og fínn.
9. Klósett og köttur eru skínandi hrein þegar hér er komið sögu.
 
    Það var hundurinn á heimilinu sem fann upp þessa aðferðin viðþvo ketti og hvíslaði henni að heimilisfólkinuÞað sem hvutti veit ekki er að þetta hentar einnig við þrif á hundum. 
 
köttur sparkar í hund

Skammarlega illa lagt. Broslegar / neyðarlegar myndir

  Fyrir nokkrum dögum velti ég vöngum - hér á þessum vettvangi - yfir framförum Íslendinga í umferðinni og á fleiri sviðum.  Ennþá eiga Íslendingar samt margt ólært.  Þar á meðal að leggja ekki í bílastæði fyrir hreyfihamlaða.  Það er að segja að bílstjórar með óskerta hreyfigetu virði þessi stæði og láti þau í friði.  Annað vandamál er hvað margir leggja bílum sínum illa og af tillitsleysi gagnvart öðrum.  Það er óskemmtilegt að koma að bíl sínum þegar öðrum bíl hefur verið lagt þétt upp við hurðina bílstjóramegin.  Þá þarf að klöngrast inn í bílinn farþegamegin eða bíða eftir því að bílstjóri hins bílsins komi og aki á brott.

  Svo er það þetta lið sem leggur bílnum að hálfu yfir í næsta bílastæði.  Það er lítið gaman að aka um bílastæðissvæði,  finna hvergi laust stæði en sjá einn eða fleiri bíla sem nota eitt og hálft stæði.  Annar bílstjóri getur ekki nýtt hálfa stæðið. 

  Það er undarlegt en satt að sumstaðar í útlöndum er til fólk sem leggur bílum sínum eins og kjánalegustu og frekustu Íslendingar.

illa lagt - ég var á undan

  Stundum koma upp erfið mál þegar togast er á um það hvorn bílstjórann bar fyrr að garði og eigi þar með einskonar frumburðarrétt.

illa lagt í stæði-1

  Þarna vildi ein frekjan endilega leggja á bakvið húsið þó að það væri enginn akvegur þangað og í raun alltof þröngt fyrir bíl að troðast þangað.

illa lagt í drullufor

  Sumir láta ekki smá drullufor aftra sér frá því að leggja þar sem þeir vilja.

illa lagt í stæði F

  Lögreglan er ekki alltaf til fyrirmyndar þegar kemur að því að leggja bíl snyrtilega í stæði.  Einkum þegar mikið liggur á að gægjast inn um glugga hjá grunuðum.

illa lagt í stæði H

  Þrátt fyrir allt:  Þó að illa gangi að leggja bíl á réttri hlið í stæði þá skiptir máli að hárið sé vel greitt.  Það er engin reisn yfir því að standa með úfið og illa greitt hár fyrir utan dældaðan bíl. Það er sérstaklega neyðarlegt ef rúður bílsins hafa brotnað.


George W. Bush kaus Obama!

  Sitthvað bar til tíðinda í kosningunum sem fóru fram í Bandaríkjum Norður-Ameríku á þriðjudaginn.  Enda var kosið um margt.  Á vesturströndinni grátbáðu kjósendur um að fá að borga hærri skatta.  Fylgdu þeir þar í kjölfar bandarískra auðmanna sem hafa þrábeðið um auðmannaskatt.  Í sumum ríkjum kváðu kjósendur upp úr með það að þeir vilji fá að reykja sitt hass í friði; án afskipta lögreglu og dómsvalds.  Þá reyndist - nú sem stundum áður - frambjóðendum til framdráttar að hafa kvatt þennan heim og vera komnir 6 fet neðanjarðar.  Tveir slíkir sigruðu með stæl.

  Óvæntustu tíðindin eru þau að fyrrverandi forseti,  reppinn George W. Brúskur,  kaus ekki forsetaframbjóðanda síns flokks heldur demókratann Hussein Obama.  

  Brúskur virtist óvenju ringlaður þegar hann mætti á kjörstað í Texas.  Fyrst ruglaðist hann á kjörklefa og salernisklefa.  Þegar hann náði áttum og slapp inn í kjörklefann fór allt í rugl.  Það þyrmdi yfir hann og hann vissi ekki sitt rjúkandi ráð.  Ástæðan var sú að það mátti einnig kjósa menn til þings og fleiri embætta.  Brúskur varð ringlaður af öllum þeim nöfnum sem hann sá á tölvuskjánum.  Í taugaveiklunarkasti fór hann að hamast á tölvunni til að gera eitthvað og til að reyna að átta sig á því hvernig hún virkaði.  Áður en hann vissi af var hann búinn að kjósa Obama. 

  Við það ærðist Brúskur.  Hann réðist með ofbeldi á græjuna í örvæntingarfullri tilraun til að afturkalla atkvæðið.  Hann var næstum búinn að velta bæði græjunni og kjörklefanum um koll þegar tölvan stöðvaði frekari aðgerðir og Brúskur gat ekki lokið við að kjósa þingmenn eða aðra.

  Brúskur hljóp kófsveittur, baðandi út öllum öngum, til starfsfólks kjördeildarinnar og krafðist þess að atkvæði sitt yrði gert óvirkt og hann fengi að kjósa aftur.  Það var ekki hægt. Öryggisverðir buðust til að hringja eftir áfallahjálp fyrir hann.  Hann afþakkaði en þáði bréfaþurrkur til að þerra svitann.  

  Brúskur hefur fordæmt kosningagræjuna og sagt hana vera svo flókna og ruglingslega að ómögulegt sé að finna út hvernig hún virki.  Framleiðandi græjunnar mótmælir þessu.  Hann segir að af öllum þeim milljónum sem kusu með græjunni sé Brúskur eina einasta tilfellið sem áttaði sig ekki á henni.  Allir aðrir hafi kosið vandræðalaust og verið ánægðir með hvað græjan sé einföld og auðskilin.  Græjunni verði ekki breytt.  Vandamálið sé alfarið einskorðað við Brúsk.

 brúskur talar í símabrúskur með kíkiBush snýr bók á haus

   


mbl.is Tveir náðu kjöri þrátt fyrir að vera látnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefnd í stað réttlætis

  Margir þekkja Rautt Eðal Ginseng.  Margir hafa notað það að staðaldri í áratugi.  Aðrir nota það aðeins þegar mikið liggur á,  svo sem í prófönnum,  á taflmótum eða í öðrum keppnisíþróttum.  Fyrir nokkrum árum dúkkaði upp í íslenskum verslunum vara undir nafninu Rautt royal ginseng.  Það var í samskonar pakkingum og útlitshönnun að öllu leyti keimlík.  Jafnframt voru á umbúðunum og í auglýsingum notaðar orðréttar lýsingar á umbúðum Rauðs Eðal Ginsengs og úr bæklingum um þá vöru.

  Í auglýsingum var Rautt royal ginseng ýmist kynnt sem Rautt royal ginseng eða Rautt kóreskt ginseng royal eða Rautt royal ginseng frá Kóreu eða (í sjónvarpsauglýsingu) meira að segja Rautt Eðal Ginseng.

  Brotavilji söluaðilans,  Eggert Kristjánsson hf.,  var einbeittur.  Ásetningur um að rugla neytendur í ríminu var augljós.  Fá hann til að halda að þetta væri allt ein og sama varan.  Það tókst.  Meira að segja afgreiðslufólk í verslunum hélt að þetta væri sama varan.

  Eðalvörur, umboðsaðili Rauðs Eðal Gingsengs, kærðu þetta og Neytendastofa kvað upp úr með að Eggert Kristjánsson hf.  hefði brotið samkeppnislög.  Einhverjar smávægilegar breytingar voru

  Sjá:  http://www.neytendastofa.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=2384

  Neytendasamtökin létu jafnframt að eigin frumkvæði (vegna fjölda kvartana frá neytendum) rannsaka erlendis Rautt kórekst ginseng (eins og varan er núna kölluð).  Þar reyndist vera um svikna vöru að ræða.

  Sjá:  http://www.ns.is/ns/frettir/?cat_id=12981&ew_0_a_id=294781

  Einhverjar smávægilegar breytingar voru gerðar á umbúðum.  Eðalvörur telja breytinguna ekki vera næga.  Breytingar séu það litlar að fólk sé enn að ruglast á vörunum.  Pakkningar eru ennþá eins og útlitshönnun með sömu litum og svipuð að öðru leyti.  Meira að segja innkaupastjórar verslana og afgreiðslufólk er ennþá að ruglast á vörunum.  Þessum upplýsingum hefur verið komið á framfæri við Neytendastofu.  Nýverið klöguðu Eðalvörur Neytendastofu fyrir að taka ekki á málinu.  Neytendastofa brást hin versta við og kvað í snarhasti upp þann úrskurð að engin hætta væri á ruglingi.  Og það þrátt fyrir vitneskju um hið gagnstæða. 

  Til gamans má geta að ginseng er selt út um allan heim í mismunandi og ólíkum umbúðum.  Til að mynda í glösum eða pökkum af ýmsum stærðum og þykktum. 

  ginseng-Aginseng-Bginseng-Cginseng-Dginseng-Eginseng-Fginseng-gginseng-hginseng-iginseng-jginseng-kginseng-lginseng-mginseng-nginseng-o

  Til samanburðar eru umbúðir Rauðs Eðal Ginsengs og Rauðs kóreskt ginsengs.  Litir eru þeir sömu en ég fann ekki myndir sem eru með sömu lýsingu.  Þessar myndir eru þar af leiðandi villandi.  Það þarf að hafa í huga að litir séu þeir sömu.  Reyndar sér fólk mun á þessum pökkum ef það hefur þá hlið við hlið.  En þegar fólk hefur aðeins annan pakkann í höndum þá ræður lögun pakkans og litirnir því að margir eiga erfitt með að átta sig á hvað er hvað.  Einkum fólk sem heldur að þetta sé sama varan.

rautt eðal ginsengrautt kóreskt ginseng

  Ég sé að eigandi Eðalvara er búinn að blogga um málið:  http://siggith.blog.is/blog/ginseng/entry/1266908/


mbl.is Engin hætta á ruglingi á umbúðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varúð! Ekki fyrir lofthrædda

ekkifyrirlofthrædda

  Það er frískandi að sofa úti og anda að sér fersku fjallaloftinu;  glugga í bók áður en draumheimar kalla og horfa yfir skógi vaxnar fjallahlíðarnar.  Við þessar aðstæður getur verið varasamt að lenda á fylleríi.  Líka getur verið varasamt að velta sér mikið og brölta um í svefni.

ekki-fyrir-lofthræ

  Fögur er hlíðin.  Eða gilið.  Maðurinn sem stendur efst til hægri stendur ekki nógu framarlega á klettabrúninni til að njóta stórbrotins útsýnisins til fulls.  Þetta er ragmenni.  Það er alveg hægt að standa næstum metra framar án þess að detta fram af. 

ekki-fyrir-lofthr.

  Þetta er útsýnispallur í Kína.  Kosturinn við svona útsýnispall er að hægt er að njóta útsýnis betur og lofthræðsla er ekki alveg rökrétt.

ekki fyrir lofthrædda-í fallhlíf

  Þessi mynd er EKKI fótósjoppuð.  Það hefur ekkert verið átt við myndina.  Þetta gerðist í alvörunni.

ekki fyrir lofthrædda-Preikestolen-Noregi

  Þetta er frægur útsýnispallur í Noregi.  Hann heitir Preikistolen.

  Á myndinni hér þarnæst fyrir ofan - af manninum sem hangir neðan í flugdreka:  Maðurinn er svokallaður ofurhugi.  Hann kom sér viljandi í þessar aðstæður.  Ég las um þessa mynd fyrir margt löngu.  Maðurinn er þekktur í "stunt-bransanum".  Ég man ekki hvert tilefni þessa áhættuatriðis var.  Hvort það var sýningaratriði fyrir sjónvarp eða sett upp fyrir auglýsingu.  Kannski fyrir kvikmynd.  Þegar ég rakst á myndina aftur nýverið þá var ég búinn að gleyma tilefninu.  En þetta er ekki til eftirbreytni fyrir lofthrædda.


Íslenskur veitingastaður seldi 1944 rétti sem máltíð

  Fyrir fimmtán árum eða svo dvaldi ég á hóteli úti á landi yfir helgi.  Mætti þar á föstudegi og var til mánudags.  Ég keypti hádegisverð og kvöldverð þessa daga,  ásamt því að vera í morgunmat,  síðdegiskaffi og bjór á kvöldin.  Á sama hóteli dvöldu einnig nokkrir aðkomnir iðnaðarmenn sem voru í tímabundnu verkefni á staðnum.

  Fljótlega varð ég var við að skömmu eftir að menn pöntuðu máltíð þá heyrðist frá eldhúsinu örbylgjuofn vera settur í gang.  Á þessum tíma átti ég tvo unga syni í Reykjavík.  Í ísskáp heimilisins í Reykjavík voru jafnan til staðar einhverjir tilbúnir réttir undir nafninu 1944,  auglýstir sem þjóðlegir íslenskir réttir fyrir sjálfstæða Íslendinga.  Þetta voru ítalskur Carbonara pasta-réttur,  indverskur karrýréttur, tyrkneskur korma kjúklingaréttur, asískur mango kjúklingaréttur,  ítalskur lasagna réttur, ungversk gúllassúpa,  kínverskur súrsætur réttur, indverskur tikka masala kjúklingaréttur,  rússneskur stroganoff réttur,  ítalskur Bolonese spaghettí réttur og eitthvað svoleiðis.   Það var þægilegt fyrir syni mína að geta gengið að þessum þjóðlegu íslensku réttum þegar strákarnir urðu svangir og foreldrarnir fjarverandi.

  Ég var vel að mér um þjóðlegu íslensku 1944 réttina á þessum tíma.  Eftir að hafa keypt nokkrar ágætar máltíðir á hótelinu þóttist ég merkja að þær væru nánast alveg eins og 1944 réttirnir.  Reyndar að viðbættri slettu af hrásalati,  niðurskornum gúrku- og tómatsneiðum.  Matseðillinn var eins og upptalning á þjólegu íslensku 1944 réttum fyrir sjálfstæða Íslendinga.

  Áður en dvöl minni á hótelinu lauk spurði ég hóteleigandann hvort grunur minn væri réttur:  Að máltíðirnar væru að uppistöðu til 1944 skyndiréttir.  Eigandanum brá til að byrja með en viðurkenndi að svo væri.  Bað mig jafnframt um að hafa hljótt um það.  Útskýrði síðan fyrir mér að yfir vetrartíma væri erfitt að liggja með annað hráefni en þessa 1944 rétti.  Á þessum tíma fékk hótelið réttina frá SS á um það bil 200 krónur í heildsölu.  Máltíðin með gúrkum, tómatsneiðum og hrásalati var seld á 960 kall eða því sem næst (sumir réttir á 920 krónur.  Aðrir á 980 krónur). 

  Tekið skal fram að nokkru síðar var þessi aðferð lögð af á þessu hóteli.  Eftir það hefur þar boðið upp á (dýrari) úrvals góðar máltíðir lagaðar á staðnum.

frosinn matur 

 


mbl.is 70% franskra veitingahúsa ber fram tilbúna rétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það má öfunda

það er töff að keyra á blæjulausum kagga

  Allt bíladellufólk þekkir tilfinninguna.  Hún er dásamleg:  Að aka um í kraftmiklum blæjulausum bíl í sól og sumaryl;  finna milda og hlýja gjóluna kyssa kinn.  Þessir gaurar eru ekki að leika sér á rúntinum.  Þeir fá borgað fyrir að rúnta um á þessum sportbíl.  Þeir eru í vinnunni. Ég veit að öfundin blossar upp í ykkur við að sjá þetta.  En ég stóðst ekki mátið.     


Þannig getur þú varist þjófnaði - ódýrt og pottþétt!

þjófaheld pakkning

  Allir hafa lent í vandræðum með nestið sitt.  Maður er búinn að vakna fyrir allar aldir til að smyrja sér samloku með (niðursneiddum) agúrkum,  osti,  eggjum,  pepperoni,  þurrkuðum tómötum,  sinnepi og einhverju smálegu öðru;  svo er samlokunni komið snyrtilega fyrir í nestisboxinu.  Þar gegnir hún því hlutverki að bíða þolinmóð þangað til garnirnar byrja að gaula.  Þá er fátt betra en rífa nestisboxið upp og gæða sér á góðgætinu.

  Gallinn er sá að vinnufélagarnir eru iðulega búnir að stela samlokunni og snæða hana þegar hér er komið sögu.  Við þessu er til krókur á móti bragði.  Hann er sá að mála með svart-grænum tússpenna nokkra bletti á plastpokann utan um samlokuna.  Þjófurinn hrekkur í kút þegar hann kemur auga á blettina.  Hann heldur að þetta séu myglublettir á brauðinu. 

  Ávinningurinn er tvíþættur:  Annars vegar forðar þetta samlokunni frá því að vera étin af óvönduðum.  Hins vegar er þjófnum svo brugðið og miður sín að hann þekkist af kafrjóðu andliti,  hryllingssvip og taugaveiklaðri framkomu.  Það er líklegt að hann byrji að naga á sér neglurnar.  Það er óhollt.  Líkaminn losar sig nefnilega við kvikasilfur og allskonar óþverra í gegnum neglurnar.  Sá sem nagar þær fær þetta óþvegið upp í sig.   

  Einelti er vont og ber að fordæma.  Einn skólabróðir minn tók aldrei með sér nesti í skólann.  Þess í stað réðist hann daglega á skólasystkini og náði af þeim nestinu.  Nokkra daga í röð náði hann nesti af strák sem kom alltaf með rúgbrauðssamloku með kæfu.  Svo fór að einn daginn er sá nestislausi hafði enn einu sinni náð samlokunni eftir töluverð áflog að hann andvarpaði og spurði frekjulega:  "Getur þú ekki beðið mömmu þína um að skipta um álegg?  Ég er kominn með hundleiða á þessari helvítis kæfu."

 


Krúttlegar ljósmyndir af þreyttum dýrum og börnum

þreyttBþreytt24

  Kettir hafa þann ágæta hæfileika að geta fengið sér kríu - í ýmsum merkingum orðsins - hvenær og hvar sem er.  Einu kröfurnar sem kettir gera undir þeim kringumstæðum er að hafa eitthvað til að halla höfði á. 

  Hundar hafa þennan sama hæfileika og gera sömu kröfur.

þreyttAþreytt23

  Börn geta einnig fengið sér kríu í erli dagsins. 

þreytt26þreytt21

 


Kvartað undan fréttum af Lady Gaga

  Ég byrjaði að blogga á þessum vettvangi fyrir nokkrum árum.  Þá - eins og nú - voru bloggfærslur iðulega tengdar við fréttir á mbl.is.  Einkum fréttir af frægu útlendu fólki;  kvikmyndastjörnum,  poppstjörnum og kóngafólki nágrannalanda okkar.  Hátt hlutfall af bloggfærslum gekk út á upphrópanir, hneykslun og fordæmingu á því að bornar væru á borð fréttir af frægu útlendu fólki.   

  Algengar upphrópanir voru:  "Hverjum er ekki sama?" og "Þvílík lágkúra!" og "Hvernig væri að koma með alvöru fréttir?"  og annað í þá veru.  Með þessu var viðkomandi að koma því til skila að slúðurfréttir af frægu fólki væri fyrir neðan virðingu sína;  gáfumennið sem vildi bara hámenningu og fréttir sem "skiptu máli".

  Nú hafa þeir sem úthrópa slúðurfréttir af fræga fólkinu flestir fært sig yfir á fésbók.  Þar halda þeir áfram að formæla fréttum af fræga fólkinu. 

  Þegar betur er að gáð þá er það þetta sama fólk sem hefur fyrir því að leita uppi slúðurfréttirnar af fræga fólkinu,  lesa þær og "kommenta" við þær.  Fyrir bragðið er það þetta sama fólk sem þrýstir slúðurfréttunum upp í efstu sæti mest lesnu frétta á netmiðlunum. 

  Þetta ágæta hneykslunargjarna og kvartsára fólk fékk góða útrás fyrir vanþóknunarsvipinn um helgina.  Það hafði ekki undan að kvarta sáran yfir því að fjölmiðlar væru að segja fréttir af Lady Gaga.  Þótti það lágkúra á sama tíma og brýnni ástæða væri til að segja fréttir af merkilegra fólki. 

  Skoðum þetta.  Hverjar eru mest lesnu fréttir á mbl.is í dag?

2.  Lady Gaga klæddi sig eftir veðri

3.  Lady Gaga umvafin aðdáendum

5.  Lady Gaga þakkaði Jóni Gnarr

7.  Friðarverðlaun afhent í Hörpu

   Mest lesnu fréttirnar á visir.is:

1.  Jón Gnarr mætti í Star Wars búningi

2.  Lady Gaga loksins komin

3.  Lady Gaga vill fleiri borgarstjóra eins og Jón

  Mest lesnu fréttir á dv.is:

3.  Lady Gaga hrærð á friðarverðlaunaafhendingu

6.  Lady Gaga komin til Íslands

  Vinsælast á ruv.is:

1.  Lady Gaga faðmaði aðdáendur

3.  Ræða Lady Gaga í Hörpu

4.  Lady Gaga komin

6.  Gaga hrifin af Gnarr

7.  Lady Gaga:  Barátta fyrir friði mikilvæg

  Það er greinilega spurn eftir fréttum af Lady Gaga.  Fjölmiðlar svara eftirspurninni - þrátt fyrir kvein þeirra sem drukku í sig fréttirnar af áfergju.  Þeir þökkuðu guðunum fyrir að vera ekki eins og skríllinn sem les slúður um fræga fólkið.  Nú var tilefni og ástæða til að berja sér á brjóst og hreykjast af því að vera laus við minnimáttarkennd íslensku smásálarinnar sem sýnir komu útlendrar stórstjörnu á klakann áhuga.  Miklir menn erum við,  Snati minn,  og yfir aðra hafnir.


mbl.is Lady Gaga klæddi sig eftir veðri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband