Færsluflokkur: Spaugilegt

Sparnaðarráð: Sparaðu tugi þúsunda króna!

  Margar konur kaupa sér pils á 20 - 30 þúsund kall.  Og nokkrir kallar líka.  Ýmsir,  kallar og konur,  verja álíka upphæð í að kaupa handa konum (og nokkrum köllum) pils til jólagjafa,  afmælisgjafa og annarra tækifærisgjafa.  Ég hef fundið leið til að lágmarka þennan kostnað við upphæð sem er innan við 1000 kall.

  Í Rúmfatalagernum,  Europrice og fleiri búðum má finna kodda sem kosta undir 1000 kr.  Ráðið er að klippa ofan af þessum koddum og neðan af þeim.  Henda svampi sem er innan í koddunum og eftir stendur glæsilegt pils í fallegum litum og með myndum eða munstri.

koddarA


Bráðfyndið samtal í Hagkaup

  Ég gerði mér ferð í Hagkaup í Skeifunni.  Ég var þyrstur og langaði í Malt.  Þegar gengið er inn í verslunina blasir við horn sem er blanda af upplýsingaborði og sjoppu.  Ég bar upp erindið.  Afgreiðsludaman var í þann mund að sinna því þegar háöldruð kona ruddist upp að hlið mér og kallaði á dömuna:  "Getur þú hringt á leigubíl fyrir mig?"

  "Alveg sjálfsagt,"  svaraði afgreiðsludaman glaðlega.  Hún gerði þegar í stað hlé á samskiptum við mig og tók upp símtól.  Sú gamla snérist á hæl og þrammaði í átt að útidyrunum.  Hún fór hægt yfir.  Afgreiðsludaman kallaði á eftir henni:  "Hvert er nafnið?"

  Sú gamla hægði á ferðinni og kallaði um öxl:  "Ertu að tala við mig?"

  Afgreiðsludaman kannaðist við það og ítrekaði spurninguna:  "Já,  ég er að spyrja um nafnið."

  "Hreyfill,"  hrópaði sú gamla um leið og hún hvarf út um dyrnar.  

leigubíll


Íslenskir þingmenn sluppu fyrir horn

  Samkvæmt frétt á mbl.is lentu fjórir íslenskir þingmenn í hrakningum er þeir ætluðu að taka þátt í fundi Vestnorræna ráðsins í Þórshöfn í Færeyjum.  Lending flugvélarinnar sem þeir voru í gat ekki lent í Þórshöfn vegna veðurs, samkvæmt fréttinni.  Flugvélin neyddist til að lenda í Haugasundi í Noregi í staðinn.

  Út af fyrir sig var það gæfa að flugvélin reyndi ekki lendingu í Þórshöfn.  Þar eru engin skilyrði fyrir flugvél að lenda.  Hvorki vegna veðurs né annarra lendingaraðstæðna.  Færeyingar hafa til fjölda ára varið yfir 1000 milljónum í leit að flugvelli utan Voga.  Án árangurs.  Eini flugvöllurinn í Færeyjum er í Vogum.  Þaðan þurfa farþegar að koma sér frá og til flugvallar í rútu,  leigubíl eða í bílaleigubíl (orðið bílaleigubíll er dálítið skrítið) ef þeir eiga erindi til Þórshafnar á annarri eyju,  Straumey.  Það hefði endað með ósköpum ef reynt hefði verið að lenda flugvél í Þórshöfn.   

Þórshöfn


mbl.is Ætluðu til Færeyja en enduðu í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkilegar upplýsingar um mótorhjólafólk

motorcycle_racing_picture 

  Þetta eru niðurstöður úr samantekt bresks tryggingarfélags.  Ég veit ekki hvað má heimafæra margar af þessu upplýsingum yfir á íslenska mótorhjólagarpa.  Reyndar snúa margir af þessum punktum ekki að breskum mótorhjólamönnum.  Þetta er forvitnileg samantekt frá ýmsum heimshornum.

- Flestir sem gera kröfu á hendur breskra tryggingarfélaga vegna mótorhjólaóhappa bera nafnið Davíð.  Næstir koma Páll (Paul) og Andrés (Andrew).

- Að meðaltali verða 78 mótorhjólaóhöpp í Bretlandi dag hvern.

- Á Deili á Indlandi eru konur á mótorhjóli undanþegnar því að bera hjálm.

- Sá sem tekinn hefur verið fyrir glannalegasta hraðakstur á mótorhjóli í Bretlandi var á 175 km hraða.  Mig minnir að ég hafi heyrt um meiri hraða hérlendis.

- Sá sem fer út í umferðina á mótorhjóli er 50 sinnum líklegri til að lenda í lífshættulegu umferðaróhappi en sá sem er í bíl.

- 2009 mótmæltu mótorhjólamenn í Nigeríu nýjum lögum sem skylduðu þá til að vera með hjálm.  Mótmælendur báru hjálma sem voru búnir til úr graskerum.  Dálítið kjánalegt.  


Af ókurteisi og skapofsaköstum gistihússeiganda

 

  Í gær skrifaði ég bloggfærslu um verulega dónalegan eiganda gistiheimilisins Travel-Inn á Sóleyjargötu 31 í Reykjavík.  Bloggfærslan vakti mikla athygli.  Hún var lesin upp í útvarpi og henni var deilt út og suðar á fésbók.  Margir lögðu orð í belg.  Ýmsir könnuðust við kauða og allar umsagnir voru á einn veg:  Þarna er stórt vandamál á ferð.

  Bloggfærsluna frá í gær má lesa með því að smella á:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1253128/

  Meðal þeirra sem tjáðu sig um vandamálið var Dr. Gunni.  Hann hafði þetta um málið að segja:

   "Þegar ég var að skrifa ferðahandbókina Top 10 Reykjavík & Iceland hringdi ég einmitt í þetta gistiheimili til að spyrja um prísana og karlinn svoleiðis ærðist og sagði að mér kæmi það ekki við. Greinilega algjör Mr. Fawlty á hestasterum hér á ferð."


Spennandi og ævintýraleg öðruvísi hús

15444_184402920912_657720912_3401733_2259275_n

  Í mörgum hverfum borga og bæja eru flest eða öll húsin alveg eins.  Það er ljótt - sama hversu flott hvert einstakt hús er út af fyrir sig.  Þar fyrir utan er það ruglingslegt.  Það er erfitt að þekkja húsin í sundur og rata á rétt hús.  Þetta hefur oft skapað vandræði.  Einkum þegar mjög ölvað fólk er á rölti að nóttu til.

  Á Grænlandi og víðar er til siðs að greina hús að með skærlitaðri málningu.  Ef líkt hús eins nágranna er skærrautt og annars nágranna skærblátt þá málar þú þitt hús skærgrænt eða fjólublátt eða appaelsínugult. 

  Skemmtilegast fyrir alla er samt að hús hvers og eins sé frábrugðið öllum öðrum húsum.  Það gleður augað.

19743_302753100912_657720912_4016055_3191757_n

  Takið eftir því að á milli húss og meginlands hangir kláfur í bandi.  Þannig komast gestir og heimilisfólk heim og að heiman.

blokk

  Blokk þarf ekki að vera einn ljótur ferkantaður kassi.  Það er enn ríkari ástæða til að hleypa sköpunargleðinni á skeið þegar blokk er hönnuð ein einbýlishús.

19743_302753110912_657720912_4016056_2508164_n

  Ef vel er að gáð sést glitta í stiga undir húsinu.  Hann er einungis hægt að nota í stilltu veðri.  Hann sveiflast of mikið í hvassviðri.  En útsýnið er stórfenglegt.

hús+bíll

  Ef svo óheppilega vill til að þú býrð í ófrumlegu húsi þá er upplagt að skreyta það með því sem hendi er næst.  Til að mynda með bíl.  Þar með eignast þú líka húsbíl.


Einkennilegt þref í Þorlákshöfn

kjúllarmeðkartöflum

  Ég átti leið um Þorlákshöfn.  Þar rakst ég á lítinn sætan matsölustað.  Hann heitir Viking Pizza.  Af innréttingum má ráða að staðurinn sé einnig rekinn sem bar.  Afgreiðsluborðið er barborð.  Fyrir framan það eru háir barstólar.  Fyrir innan er úrval af vínflöskum. 

  Ég bað um matseðil.  Það var auðsótt mál.  Fátt freistaði þar.  Þrautalending var að panta rétt sem samanstóð af tveimur úrbeinuðum kjúklingaleggjum með frönskum kartöflum og fersku salati.  Kjúklingaleggirnir voru ágætir þegar á reyndi.

  Á matseðlinum stóð að verðið væri 1590 kr.  Ég setti á afgreiðsluborðið 1000 kall, 500 kall og 100 kall.  Í kjölfarið hófst hið skemmtilegasta spjall.

  Afgreiðsludaman (ákveðin):  "Það vantar 90 kall."

  Ég (bendi á 100 kallinn):  "Hann er hér."

  Hún:  "Þetta er bara einn 100 kall."

  Ég:  "Einmitt.  Ég á að fá 10 krónur til baka."

  Hún:  "Það vantar annan 100 kall."

  Ég:  "Rétturinn kostar 1590.  Það er einn hundrað kall plús seðlarnir og tíkall til baka."

  Hún:  "Rétturinn kostar 1690."

  Ég (bendi á verðið á matseðlinum):  "Það stendur á matseðlinum að hann kosti 1590."

  Hún:  "Hann kostar 1690."

  Ég:  "En af hverju stendur á matseðlinum að hann kosti 1590?"

  Hún:  "Af því að hann kostaði 1590.  Það er búið að hækka hann í 1690."

  Ég:  "Hvers vegna stendur þá ekki á matseðlinum að hann kosti 1690?"

  Hún:  "Af því að það á eftir að breyta því." 

    


Mögnuð banana listaverk

  Bananar eru góðir og hollir.  Bragðbetri skyndibiti er vandfundinn.  Hann er skemmtilega hannaður:  Pakkaður innan í þykkar umbúðir sem auðvelt er að fjarlægja.  Til að byrja með þarf aðeins að fletta þeim niður hálfan bananann á meðan efri hluta hans er neytt.  Þetta er snilld. 

  Hitt vita færri að banani er upplagt hráefni til að móta myndlistaverk í.  Þeir eru aðeins mýkri en tré og töluvert mýkri og meðfærilegri en steinn.  Það er jafnframt hægt að nota lögun bananans til að túlka hár eða húfur.

banana-sculpturebanana-sculpture-07banana-sculpture-09banana-sculpture-13banana-sculpture-14banana-sculpture-15bananar-A

  Bananar hafa orðið mörgum yrkisefni.  Til eru margir söngvar um banana.  Þekktast er Banana Boat.  Margir hafa sungið Banana Boat.  Einn er Harry Belafonte.

  Bananar eru notaðir heilsusnyrtivörur.  Þaðan dregur sólarvörulínan Banana Boat heiti. 

banani+varasalvi


Er djöfullinn í Krossinum?

  Það er gaman að sækja samkomur í Krossinum.  Þar er fjör.  En pínulítið skrítið að trúfélag sé kennt við aftökutæki.  Og þó.  Krossinn er betra nafn en Hengingarólin,  Rafmagnsstóllinn eða Gasklefinn.
  Mér var illa brugðið er ég las í DV haft eftir þungavigtarkonu í Krossinum að þrír nafngreindir einstaklingar í Krossinum séu haldnir illum anda.  Ég er ekki alveg klár á því hvað það þýðir.  Held helst að sá sem er haldinn illum anda hafi lent í klóm djöfulsins og djöfullinn ráði gjörðum hans.  Hugsanlega með illt í huga.
 
  Ef að minn skilningur er réttur þá þýðir þetta að djöfullinn eigi þrjá fulltrúa í Krossinum.  Djöfullinn er þá í Krossinum.  Það er ekki gott.  Og alls ekki gott til afspurnar.  Ég hef áhyggjur af þessu.
.
  Einar S. Ólafsson lýsir fundi í Krossinum þannig:  "Það þyrfti ekkert áramótaskaup ef þessi safnaðarfundur yrði sendur út í staðinn."
  Ingibjörg Guðnadóttir segir þetta hafa verið ósköp venjulegan fund. Venjulegur fundur í Krossinum er á við áramótaskaup.  Alltaf fjör.  Alltaf gaman.  Það er ekkert að því.  Nema kannski þetta með djöfulinn. 
 .
  Safnaðarfundurinn venjulegi er til á myndbandi.  Sjónvarpið getur sparað hellings pening með því að sýna myndbandið í stað hefðbundins áramótaskaups með dýrum leikurum og öðrum tilfallandi kostnaði.  RÚV þarf að spara.  Laun og bílakostnaður útvarpsstjóra kalla á það.  Hrópa á það. 
.
elvissmall_cross

Mesti og grófasti svindlari tónlistarsögunnar

  Kannast þú við nafnið Joyce Hatto?  Það er einkennilegt.  Í virtum tónlistartímaritum hefur henni verið hampað sem besta píanóleikara og túlkanda klassískra píanóverka sem sögur fara af á okkar dögum.  Eða eitthvað svoleiðis.  Og vissulega hljómar þetta dásamlega;  lagið í myndbandinu hér að ofan til að mynda.  Það var ekki að undra að gagnrýnendur lofuðu hæfileika konunnar í hástert.  Þar fyrir utan var hún óvenju afkastamikil á gamals aldri.  Og það fárveik af krabbameini.  Dældi frá sér plötum hraðar en Sigríður Níelsdóttir.

  Veikindin drógu Joyce Hatto til dauða fyrir sex árum.  Hún náði þó 78 ára aldri.  

  Svo fór að upp komst um brögð í tafli.  Hatto spilaði ekki sjálf á plötunum sínum.  Það voru hinir og þessir sem spiluðu.  Allir dánir og lítt þekktir.  Það var eiginmaður Joyce Hatto sem stóð fyrir svindlinu.  Hann stal einfaldlega píanóspili af plötum annarra og endurútgaf það undir nafni Joyce Hatto. 

  Svo virðist sem Joyce Hatto hafi sjálf ekki vitað af svindlinu.  Hún var píanóleikari og vann lengst af við píanókennslu.  Kallinn hennar var hins vegar stöðugt í einhverju braski.  það átti ekki við hann að fara eftir lögum og leikreglum.  Hann svindlaði smá hér og smá þar.  Hann sat í fangelsi,  allt upp í heilt ár,  og stússaði undir það síðasta í plötuútgáfu.  Ýmist fyrir aðra eða þá að hann rak eigið útgáfufyrirtæki.  Allt gekk það illa.

  Þegar Joyce fór að missa heilsu ákvað kallinn að hljóðrita sem mest hann mætti af hennar píanóleik.  Henni til upphefðar.  Að hans sögn voru hnökrar á píanóleik hennar þegar hér var komið sögu.  Þá greip hann til þess ráðs að lagfæra hnökrana með píanóleik látinna manna.  Það vatt upp á sig á þennan hátt.

  Að sögn kallsins var þetta ekki illa meint.  Hann var aðeins að gleðja konu sína með því að láta hana halda að heilsan og píanófærnin væri betri en raun var á.

  Hægt og bítandi áttuðu menn sig á að eitthvað var ekki eins og það átti að vera.  Einn gagnrýnandi hrökk við er hann heyrði á plötu með Joyce Hatto sömu villu, rangan hljóm sleginn, í verki eftir Chopin og hann kannaðist við af gamalli plötu látins píanóleikara.  Aðrir fylltust grunsemdum er þeir spiluðu plötur með Joyce Hatto þar sem fleiri hljóðfæraleikarar spiluðu einnig án þess að nafn þeirra kæmi fram á plötuumbúðum.  Svoleiðis upplýsingar vantar aldrei á alvöru plötur.  Þó ekki væri nema vegna þess að liðsmenn hljómsveita sem spila inn á plötur sætta sig ekki við að þeirra sé ekki getið.

  Í enn einu tilfellinu setti tónlistargagnrýnandi plötu með Joyce í spilara í bíl sínum.  Á skjá spilarans birtist ekki nafn Joyce sem flytjanda eins verks á plötunni heldur annað nafn.  Gagnrýnandinn fann lagið á plötu með viðkomandi og heyrði að á plötu Joyce var píanóleikur þess manns.  Þar með lék ekki lengur vafi á hvað var í gangi.    


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband