Færsluflokkur: Spaugilegt
26.8.2009 | 22:30
Skemmtilegar reddingar
Það má alltaf redda sér í kreppunni, eins og þessar myndir sýna.
Neðsta myndin sýnir skemmtilegustu reddinguna á efnahagshruninu. 15 starfsmönnum var sagt upp hjá Marel. Í staðinn var þessi Land Cruser keyptur undir framkvæmdastjórann.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 22:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
25.8.2009 | 00:34
(Ó)heppinn innbrotsþjófur
Í Færeyjum er ekki til siðs að læsa húsum. Ekki einu sinni þegar heimilisfólk er fjarri til lengri tíma. Tónlistarmaðurinn og plötuútgefandinn Kristian Blak læsti þó húsi sínu þegar hann fór ásamt fjölskyldu sinni til útlanda í nokkrar vikur. Ástæðan var sú að geðveikur náungi hafði hótað og ofsótt Kristian um hríð. Meðal annars hafði sá geðveiki gengið í skrokk á bíl mannsins í næsta húsi við Kristian. Bílnum var lagt fyrir framan hús Kristians og ofbeldismaðurinn hélt að þetta væri bíll Kristians.
Kristian óttaðist að sá geðveiki kæmi inn í húsið, myndi jafnvel setjast þar að og/eða skemma tölvur og fleira. Húsinu, sem er í miðbæ Þórshafnar, var því kyrfilega læst. Samt var brotist þar inn. Sem er mjög einkennilegt. Brotist inn í eina læsta húsið í Þórshöfn. Innbrotsþjófurinn virðist hafa einungis farið inn í eitt lítið herbergi. Þaðan stal hann glæsilegum ferðageislaspilara, svokölluðum "gettó-blaster", og bunka af geisladiskum sem þar stóðu hjá, samtals 50 diskum.
Þegar Kristian og fjölskylda komu aftur heim frá útlöndum og uppgötvuðu innbrotið og þjófnaðinn gátu þau ekki varist brosi. Diskana hafði Kristian komið með frá Noregi og átti eftir að fara með þá í Norræna húsið í Færeyjum. Diskarnir innihéldu allir fornan söng Sama, svokallað joik, án undirleiks. Það eru ekki margir utan Sama sem hlusta á svoleiðis sér til gamans. Á myndbandinu hér fyrir neðan má heyra sýnishorn af því sem innbrotsþjófurinn hefur haft í eyrunum þegar hann fór að spila geisladiskana.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 13:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
16.8.2009 | 14:30
Furðulegur brandari
Eftirfarandi brandara fékk ég sendan. Ég sprakk úr hlátri við lestur hans. Ég hef samt ekki hugmynd um hvers vegna. Ég skil þennan brandara nefnilega ekki. Skil bara hvorki upp né niður í honum. Enda er hann verulega furðulegur. Fattar þú hvað er svona fyndið við hann?
Tvær konur sátu saman við borð, þögular...
14.8.2009 | 22:59
Skemmtilegar myndir af tvíförum
12.8.2009 | 20:59
2009
Munið þið eftir 2007 þegar tilveran snérist um einkaþotur, Elton John, einkasnekkjur, framlengda Hummer jeppa, þyrluferð í Bauluna til að kaupa pylsu, gullát, Ziggy Marley og 50 Cent? Nú er öldin önnur. Það er 2009 og annar veruleiki, samanber meðfylgjandi myndir.
8.8.2009 | 18:09
Hlegið að Haraldri
Nokkrir Færeyingar sem ég hitti um helgina voru sammála um að fyndnasta karlmannsnafn sem þeir heyra á Íslandi sé Haraldur. Færeyingarnir eiga erfitt með að halda niðri í sér hlátrinum þegar Íslendingur er kynntur fyrir þeim sem Haraldur. Ástæðan er sú að í Færeyjum er nafnið Haraldur einungis notað á hesta. Fyrir Færeyingum hljómar nafnið eins og ef fyrir okkur væru kynntir menn undir nöfnum á borð við Sörli eða Snati.
Jafn fyndið þykir Færeyingum þegar Íslendingur kynnir sig sem Örlyg. Þegar Íslendingur heilsar Færeyingi þannig: "Sæll, ég er Örlygur" heyrir Færeyingurinn hann aðeins segja: "Sæll, ég er fáviti." Orðið örlygur þýðir nefnilega fáviti á færeysku.
Myndin er af færeyska hestinum Haraldri. Til gamans má geta að það eru aðeins 50 hestar í Færeyjum.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 18:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
28.7.2009 | 22:04
Einkennilegt símtal
Í júníhefti breska poppblaðsins Uncut er skemmtileg myndasyrpa af ferli bandaríska gítarleikarans Rogers McGuinns, forsprakka The Byrds. The Byrds var fyrsta bandaríska "bítlahljómsveitin" og frumherji margra músíksstíla, svo sem þjóðlagarokks (folk rock), geimrokks (space), sýrurokks (acid), framsækins sveitapopps (alt-country), raga rokks (rokk með indverskum áhrifum) og svo framvegis.
Brimbrettarokkssveitin (surf) The Beach Boys varð önnur helsta bandaríska "bítlahljómsveitin". Með liðsmönnum The Byrds og The Beach Boys tóks varanlegur vinskapur. Hópurinn dópaði hressilega saman. Aðalsprauta The Beach Boys, Brian Wilson, og Roger McGuinn sömdu saman músík.
Brian "brann yfir". Missti vitið og hefur verið snar geðveikur áratugum saman. Til eru margar sögur af einkennilegum uppátækjum hans. Í myndasyrpunni í Uncut er mynd af þeim Brian og Roger saman. Með myndinni fylgir stuttur texti þar sem Roger segir frá síðustu samskiptum þeirra Brians. Þau voru þannig að Roger hringdi í Brian og kynnti sig. Brian svaraði: "Er það?" og skellti á.
---------------------
Á myndbandinu hér fyrir ofan spilar Roger lagið magnaða Eight Miles High. Þarna er hópurinn búinn að "sniffa" eitthvað meira en maura eða ösku látinna feðra sinna. Á myndbandinu fyrir neðan kráka The Beach Boys gamla Leadbelly slagarann Í kartöflugörðunum heima.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.7.2009 | 00:07
Fyndnar myndir
Þessar myndir fékk ég sendar. Og hló. Vonandi laða þær einnig fram bros hjá þér. Ég klóra mér í hausnum yfir næst efstu myndinni. Ég veit ekki hvers lenskt meginletrið er á versluninni. Að mér læðist grunur um að einhverskonar þýðingarvilla hafi leitt til þess að búðin sé einnig skráð á ensku sem Barnabjór.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
9.7.2009 | 00:22
Kvikmyndaumsögn
- Titill: Brüno
- Handrit/leikstjórn/aðalhlutverk: Sacha Baron Cohen
- Einkunn: ***1/2 (af 5)
Enski leikarinn Sacha Baron Cohen varð fyrst þekktur í hlutverki rapparans Ali G í samnefndum sjónvarpsþáttum. Bráðfyndnum sjónvarpsþáttum. Í þeim tróð Cohen einnig upp sem sjónvarpsstjarna frá Kazakstan, Borat, og samkynhneigð tískulögga, Brüno, frá Austurríki.
Cohen gerði kvikmynd um Ali G. Ekki alveg nógu góða. Hann gerði aðra kvikmynd um Borat. Sú var og er virkilega fyndin. Og nú er það kvikmynd um Brüno. Hún gefur Borat-myndinni ekkert eftir.
Eins og í fyrri myndum er gert út á svipaða framsetningu og í myndum og sjónvarpsþáttum sem skilgreina má afbrigði af "Falinni myndavél". Brüno er tilbúinn "karakter". Hann á samskiptum við fólk sem veit ekki að þar er grínari á ferð að rugla í þeim.
Ég hef séð mörg skemmtileg myndbönd með Brüno á youtube.com. Þau eru fæst í kvikmyndinni. Sum eru "out takes", það er að segja urðu útundan við endanlega vinnslu á myndinni. Sum eru kannski úr Ali G sjónvarpsþáttunum.
Það myndi skemma fyrir þeim er eiga eftir að sjá myndina að segja frá fyndnu senunum sem þar koma fyrir. Brandararnir byggja á því að koma á óvart. Vegna kynningarmyndbandsins sem fylgir þessari bloggfærslu er þó óhætt að nefna þegar Brüno kemur fram í bandarískum sjónvarpsþætti með áhorfendum af afrískum uppruna. Þar er komið inn á að Brüno hefur ættleitt blökkubarn. Hann virðist leggja sig fram um að vera með "pólitíska rétthugsun" en gengur fram af áhorfendum með því að hafa aðra hugmynd um "pólitíska rétthugsun" en þeir.
Brüno er ekkert heilagt. Hann reynir að stilla til friðar í Mið-Austurlöndum en þekkir ekki mun á "hummus" (kjúklingabaunamauk) og Hamash-samtökum Palestínumanna. Sjálfur er Cohen gyðingur en hlífir gyðingum ekki í gríninu.
Fræga fólkið er dregið sundur og saman í háði. Líka tískubransinn, bandaríski herinn og svo framvegis.
Kvikmyndin Hangover hefur verið auglýst sem fyndnasta mynd sumarsins. Ég mæli með henni sem góðri skemmtun. Kvikmyndin um Brüno er ennþá fyndnari. Kíkið á báðar myndirnar.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 23:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.6.2009 | 20:49
Hlegið að hundum
Sumu fólki þykir við hæfi að búa sér til aðhlátursefni á kostnað hunda. Það er ljótt. Hundar eru mjög spéhræddir. Þeir skammast sín rosalega mikið ef þeir halda að þeir líti kjánalega út og verið sé að hlæja að þeim. Þegar fólk er búið að "dubba" hundana sína upp í fígúrur tekur það ljósmyndir af þeim og setur á netið. Síðan berast myndirnar til mín. Þá sýni ég ykkur þær svo þið sjáið hvað fólk er leiðinlegt við hundana sína.