Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Hrakfarir strandaglóps

  Fyrir nokkru átti ég erindi til Akureyrar.  Dvaldi þar á gistiheimili.  Þegar ég hugði á heimferð spurði kona við innritunarborðið hvort strandaglópur mætti fljóta með suður.  Um unglingspilt var að ræða.   Nokkru áður hafði hann hitt akureyrska stelpu á Músíktilraunum í Reykjavík.  Í kjölfarið keypti hann eldgamla bíldruslu til að heimsækja dömuna.  Fjármálin voru reyndar í klessu.  Hann átti aðeins 25 þús kall í vasanum.  Engin kort.  Þetta hlyti að reddast einhvernvegin.    

  Bíllinn gaf upp öndina í Hrútafirði.  Stráksi lét það ekki á sig fá.  Sá að vísu eftir því að hann var nýbúinn að fylla á bensíntankinn.  Hann reyndi án árangurs að fá far á puttanum.  Að vörmu spori stoppaði rúta hjá honum.  Þetta var áætlunarbíll á leið til Akureyrar. 

  Kominn til Akureyrar bankaði hann upp hjá stelpunni.  Hún var ekki heima.  Hann spurði foreldra hennar hvort hann mætti hinkra eftir henni.  Nei.  Ekki var von á henni heim fyrr en eftir tvo tíma eða síðar. 

  Úti var rok og grenjandi rigning.  Stráksi fann litla matvöruverslun.  Þar hímdi hann í góða stund uns búðin lokaði.  Þá færði hann sig yfir í sjoppu.  Hann var ekki með síma.  Að þremur tímum liðnum bankaði hann aftur upp heima hjá stelpunni.  Hún var komin heim.  Þau spjölluðu saman í forstofunni í góða stund.  Að því kom að hann spurði hvort það væri nokkuð mál að gista hjá henni.  Hún snöggreiddist.  Spurði hvort hann væri klikkaður.  Þau þekktust ekki neitt og hún hefði enga aðstöðu til að hýsa ókunnuga. 

  Þetta kom ferðalangnum í opna skjöldu.  Hann var fæddur og uppalinn í litlu sjávarþorpi.  Þar er til siðs að hýsa gesti.  Jafnvel í nokkra daga.  Stelpan benti á að í miðbænum væru ýmsir gistimöguleikar.  Hún bað hann um að ónáða sig ekki aftur. 

  Þetta var ástæðan fyrir því að hann varð staurblankur strandaglópur á gistiheimilinu.  Þegar ég tók hann með suður hafði hann ekkert borðað í tvo daga.

  Er við ókum framhjá bilaða bílnum spurði ég hvort hann vilji stoppa við hann.  Nei,  hann sagðist ekki vilja sjá drusluna framar.

  Ég benti honum á að búið væri að brjóta annað framljósið og stuðara.  "Ég braut það óvart.  Ég ætlaði að keyra nokkrar vegastikur niður.  Ég hélt að þær væru úr timbri.  Þær eru úr járni."       

  Hann bætti við að þetta væri ekki fyrsti bíllinn til vandræða.  Er hann var nýkominn með bílpróf æfði hann sig í að hringspóla á heimilisbílnum í gamalli sandgryfju.  Svo var fótboltakeppni fyrir utan þorpið.  Fjöldi áhorfenda.  Kauði ákvað að hringspóla á malarveginum þarna.  Ekki tókst betur til en svo að bíllinn sveif útaf veginum og sat pikkfastur ofan í skurði.  

  "Mjög niðurlægjandi því allir þekktu mig," viðurkenndi hann.

  Talið barst að sjómannsferli hans.  Hann sagði hana reyna á taugarnar.  Sem dæmi hefði skipstjórinn verið að öskra á hann út af litlu sem engu.  Ósjálfrátt grýtti hann fiski í kallinn.  

  - Hvernig brást hann við?  spurði ég.

  - Hann rak mig.  Það var óheppilegt.  Ég fékk enga vinnu í þorpinu.  Þess vegna neyddist ég til að flytja til Reykjavíkur og vinna á bónstöð í Kringlunni.  

  Skyndilega æpti drengurinn er við renndum inn í Reykjavík:  "Andskotinn!  Ég gleymdi að allt geisladiskasafnið mitt er í skottinu á bílnum!"      

  Nokkrum dögum síðar átti ég erindi í Kringluna.  Ákvað að heilsa upp á gaurinn.  Þá var búið að reka hann - fyrir að skrópa dagana sem hann var strandaglópur.


Breytti bíl í mótorhjól

  Franskur rafvirki lét langþráðan draum rætast er hann brunaði um Marokkóska eyðimörk.  Fararskjótinn var Citroen 2CV,  uppnefndur bragginn.  Í eyðimörkinni eru engar umferðareglur.  Kappinn naut frelsisins.  Hann leyfði sér að stíga þungt á bensínpedalann.  Þá gerðist óhappið.  Bíllinn skall ofan á steinhellu.  Undirvagninn mölbrotnaði ásamt mörgum öðrum hlutum bílsins..

  Úr vöndu var að ráða.  Ekkert símasamband.  Engir aðrir bílar á ferð.  Enginn vissi af manninum þarna.  32 kílómetrar til byggða.  Til allrar lukku var hann með mat og drykk sem gátu dugað til tíu daga ef sparlega var farið með.  Vonlaust var að rogast með næringuna í fanginu í brennheitri sólinni.  Hún var alltof þung. 

  Frakkinn fékk hugmynd:  Hugsanlega var mögulegt að tjasla saman einhverju heillegu úr bílnum.  Hanna frumstætt mótorhjól.  Verra var að nothæf verkfæri voru fá í bílnum.  Hann hafði takmarkaða þekkingu á bílum og mótorhjólum. 

  Eftir engu var að bíða.  Hann puðaði langan vinnudag við að átta sig á aðstæðum.  Verkið tók tólf daga.  Ekki mátti seinna vera.  Er hann loks náði að koma mótorhjólinu í gang átti hann aðeins hálfan lítra af vatni eftir.  Hjólið skilaði honum til byggða.  Þar vakti það mikla athygli.  Rafvirkinn hafði fundið upp ýmsar lausnir sem mótorhjólaframleiðendur tileinkuðu sér þegar í stað.

motorhjól         


Togast á um utanlandsferðir og dagpeninga

  Utanlandsferðir hafa löngum freistað opinberra embættismenn ríkis og bæja.  Togast er á um setu í nefndum,  ráðum og æðri embættum.  Öllum brögðum er beitt til að komast í utanlandsferðir.  Þær eru bitlingur.  Ekki aðeins er sport að fara í utanlandsferðir sem almenningur borgar heldur fylgja drjúgir dagpeningar með í pakkanum.

  Undantekning frá reglunni var borgarstjóratíð Ólafs F.  Magnússonar.  Hann beitti ströngu aðhaldi í rekstri borgarinnar.  Hann fór aðeins í eina utanlandsferð í embætti.  Hún var til Færeyja í boði Færeyinga.  Þetta var svo óvenjulegt að illar tungur komu af stað lygasögu um að Ólafur væri flughræddur.  

_lafur_f_magnusson_  

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is 26 ferðir til útlanda á þessu kjörtímabili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegg stolið

  Í miðbæ Þórshafnar,  höfuðborgar Færeyja,  er starfræktur írskur pöbb.  Hann heitir Glitnir.  Nafnið er ekki sótt í samnefndan íslenskan banka sem fór á hausinn.  Nafnið er sótt í hýbýli norræns guðs.  Sá er Forseti.

  Færeyski Glitnir er notalegur pöbb.  Á góðviðriskvöldum sitja viðskiptavinirnir úti á stétt.  Allir deila borðum og sætum með öllum.  Stundum taka menn lagið.  

  Á dögunum gerðist undarlegt atvik.  Um það leyti sem starfsfólk lagði drög að því að loka þá uppgötvaðist að búið var að stela vegg sem þar var innandyra.  Vitni telja sig hafa séð útundan sér tvo menn rogast í burtu með vegginn.  Vegna ölgleði fylgdist enginn sérlega vel með þjófunum.  

  Líklegt þykir sem þarna hafi verið um góðlátlegt grín að ræða fremur en bíræfinn stuld.  Færeyingar eru ekki alvöru þjófar.

þórshöfn 

 


Neyðarlegt

  Á unglingsárum vann ég í álverinu í Straumsvík.  Þar vann einnig maður sem seint verður kallaður mannvitsbrekka.  Hann var barnslegur einfeldningur.  Hann átti sextugs afmæli.  Hann bauð völdum vinnufélögum í afmælisveislu heima hjá sér.  Hann átti ekki nána fjölskyldu.  Veislan var fámenn og einungis sterkt áfengi í boði.  Allt gott um það að segja.  Ég hef verið í fjörlegri veislu.  Þó var gripið í spil og leiðinleg músík spiluð af segulbandi. 

  Er á leið sagði kallinn okkur frá trillu sem hann átti.  Jafnframt átti hann ofan í kjallara hið fallegasta trilluhús.  Hann sýndi okkur það stoltur á svip.  Hann mátti vera það.  Húsið var með opnanlegum gluggum og ýmsu skrauti.  Meðal annars skemmtilega útskornu munstri og táknum úr norrænni goðafræði. 

  Eftir að allir höfðu hlaðið lofsorði á húsið varð einum að orði:  "Hvernig kemur þú húsinu út úr kjallaranum?"  Eina sjáanlega útgönguleið úr kjallaranum voru þröngar steinsteyptar tröppur upp á jarðhæð. 

  Kallinn varð vandræðalegur og tautaði niðurlútur:  "Það er vandamálið.  Ég gleymdi að hugsa út í það.  Ég kem þessu ekki út úr kjallaranum.  Það er grábölvað.

álver     


Hlálegur misskilningur

  Fyrir næstum hálfri öld átti ungur Íslendingur erindi til Lundúnaborgar.  Á þessum árum voru menn ekkert að ferðast til útlanda bara að gamni sínu.  Enda ferðalög dýr,  sem og hótelgisting og uppihald.

  Sameiginlegur kunningi okkar ákvað að nýta tækifærið.  Hann bað vininn um að kaupa fyrir sig Labb-rabb tæki.  Þau voru nýlega komin á markað og kostuðu mikið á Íslandi.  Sögur fóru af því að þau væru mun ódýrari í Bretlandi. Labb-rabb eru handhægar talstöðvar með nokkurra kílómetra drægni.

  Er Íslendingurinn snéri heim voru engin Labb-rabb tæki meðferðis.  Hafði kappinn þó þrætt samviskusamlegar allar verslanir í London sem voru líklegar til að selja tækin.  Enginn kannaðist við Labb-rabb.  

  Þetta vakti undrun í vinahópnum.  Eftir miklar vangaveltur kom í ljós að ferðlangurinn hafði ekki áttað sig á að Labb-rabb er íslensk þýðing á enska heitinu Walkie Talkie!   

  Labb-rabb


Ótrúleg ósvífni

  Kunningi minn,  Nonni,  bætti við sig áfanga í skóla fyrir nokkrum árum.  Til að fagna  ákvað hann að blása til matarveislu.  Sá hængur er á að hann kann ekki að matreiða.  Vandamálið er ekki stærra en svo að á höfuðborgarsvæðinu eru ótal veitingastaðir.  Þar á meðal einn asískur í göngufæri frá vinnustað Nonna. 

  Hann mætti á staðinn og spurði eftir yfirmanni.  Sá birtist brosandi út að eyrum og einstaklega góðlegur á svip.  Hann sagðist heita Davíð og vera eigandi.

  Nonni bar upp erindið;  hann væri að leita tilboða í 20 manna veislu.  Davíð brosti breiðar og sagði:  "Þú þarft ekki að leita tilboða.  Ég gef þér tilboð sem undirbýður öll önnur veitingahús.  Þú velur einn tiltekinn rétt fyrir hópinn og ég gef þér 50% afslátt!  Til að það gangi upp erum við að tala um pappírslaus viðskipti."

  Nonni gekk að þessu.  Þeir innsigluðu samkomulagið með handabandi og Davíð knúsaði þennan nýja vin sinn.

  Nokkrum dögum síðar mætti Nonni með gesti sína.  Þeim var vísað til sætis og matur borinn fram:  Væn hrúga af hrísgrjónum og örfáir munnbitar af svíni í sósu.

  Afgreiðsludaman tilkynnti ítrekað að gestir með sérrétt mættu ekki fá sér af nálægu hlaðborði.

  Í lok máltíðar grínuðust menn með að vera enn glorhungraðir eftir þennan litla "barnaskammt".  Nonni hnippti í afgreiðsludömuna og spurði hvort möguleiki væri á ábót fyrir þá sem væru ennþá svangir.  Hún tók erindinu vel.  Snaraðist inn í eldhús og sótti stóran hrísgrjónapott.  Spurði hvort einhver vildi aukaskammt af hrísgrjónum.  Einhverjir þáðu það en nefndu að löngun væri meiri í kjötbita.  Það var ekki í boði. 

  Með ólund rétti Nonni afgreiðsludömunni 29000 kall.  "Nei,  pakkinn er 58000 kall,"  mótmælti daman.  "Davíð samdi um 50% afslátt,"  útskýrði hann.  Hún fullyrti á móti að það væri aldrei gefinn afsláttur.  Eftir þref bað hann dömuna um að hringja í Davíð.  Nonni skildi ekki asíumálið en þótti undarlegt að konan hló og flissaði.   Eftir símtalið sagði hún Davíð ráma í að hafa boðið 10% afslátt.Nonni þyrfti því að borga "aðeins" 52200 kall.

  Þungt var í Nonna er hann gekk heim.  Hann er sannfærður um að Davíð hafi sviðsett leikrit.  Ekki síst núna þegar Davíð er opinberlega sakaður um mansal og fleiri glæpi. 

hrísgrjón


Bráðsniðug uppfinning

  Einn kunningi minn er það sem kallast "þúsund þjala smiður".  Hann á létt með að gera við alla bilaða hluti;  hvort heldur sem er heimilistæki,  bíla eða hvað sem er.  Allt leikur í höndunum á honum.  Sjaldnast þarf hann annað en svissneska hnífinn sinn til að koma hlutunum í lag.  Hann grípur það sem hendi er næst og breytir því í varahlut.  Þetta getur verið tappi af kókflösku,  spýtubrot eða plastpoki.  

  Maðurinn er frjór í hugsun og stöðugt að finna upp nýja nytjahluti.  Eitt sinn hannaði hann dósapressu með teljara.  Mjög flott græja.  Er hann fór að kanna með að setja hana í fjöldaframleiðslu kom í ljós að samskonar tæki var til sölu í Húsasmiðjunni. 

  Þá snéri hann sér að því að hanna blaðsíðuteljara.  Dögum saman kannaði hann hina ýmsu möguleika.  Hann reiknaði og teiknaði.  Markmiðið var að tækið yrði ódýrt,  einfalt og þyrfti hvorki batterí,  rafmagn né aðra orkugjafa. 

  Eftir margra daga puð mætti uppfinningamaðurinn á bar í Ármúla,  Wall Street.  Hann sagði viðstöddum frá blaðsíðuteljaranum og vinnunni við að koma honum á koppinn.  Gleðitíðindin voru þau að hönnunin var komin á lokastig.  Þetta yrði jólagjöf næstu ára því margir fá bækur í jólagjöf.  Næsta skref yrði að koma tólinu á heimsmarkað.

  "Er ekki einfaldara að fletta upp á öftustu síðu til að sjá blaðsíðufjöldann?" spurði Siggi Lee Lewis.    

  Aldrei aftur var minnst á blaðsíðuteljarann.  

bók


Kallinn reddar

  Í samfélagi mannanna má jafnan finna kallinn sem græjar hlutina; lagar það sem úrskeiðis fer.  Hann er engin pjattrófa.  Hann grípur til þess sem hendi er næst og virkar.   Það eitt skiptir máli.  Útlitið er algjört aukaatriði.  Sama hvort um er að ræða stól,  handstýrða rúðuþurrku,  flöskuopnara,  farangursskott með læsingu,  klósettrúllustatíf eða hurð í risinu.  Það leikur allt í höndunum á honum.

kallinn sem reddar stæði fyrir stólinnkallinn reddar handstýrði rúðuþurrkukallinn reddar upptakarakallinn reddar farangursskotti með læsingukallinn kom klósettrúllunni snyrtilega fyrirkallinn græjar hurðina í risinu


Bónusgreiðslur og Bónuskort

  Í kjölfar bankahrunsins 2008 uppgötvaðist að bankarnir gengu á bónuskerfi.  Starfsmenn smöluðu gömlu fólki eins og rollum í réttir.  Smöluðu því af öruggum bankabókum yfir í Sjóð 9 og hvað þeir hétu allir þessir sjóðir.

  Bónuskerfið virkaði svo vel að Samkeppniseftirlitið og Skatturinn hafa tekið það upp.  Fleiri mætti virkja með bónuskerfi.  Til að mynda bílastæðisverði.  Það yrði handagangur í öskjunni ef vörðurinn fengi 1000 kall og Bónuskort fyrir hvern bíl sem hann sektar.  Hann myndi sleppa matar- og kaffihléi til að ná bónusnum upp.

  Hvað með lögguna?  Hvað ef hún fengi 10.000 kall og Bónuskort fyrir hverja handtöku?  Ekki má gleyma dómurum.  Þeir mættu fá vænan bónus og Bónuskort fyrir hver óskilorðsbundinn dóm.

kort

 

   


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband