Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Vegg stolið

  Í miðbæ Þórshafnar,  höfuðborgar Færeyja,  er starfræktur írskur pöbb.  Hann heitir Glitnir.  Nafnið er ekki sótt í samnefndan íslenskan banka sem fór á hausinn.  Nafnið er sótt í hýbýli norræns guðs.  Sá er Forseti.

  Færeyski Glitnir er notalegur pöbb.  Á góðviðriskvöldum sitja viðskiptavinirnir úti á stétt.  Allir deila borðum og sætum með öllum.  Stundum taka menn lagið.  

  Á dögunum gerðist undarlegt atvik.  Um það leyti sem starfsfólk lagði drög að því að loka þá uppgötvaðist að búið var að stela vegg sem þar var innandyra.  Vitni telja sig hafa séð útundan sér tvo menn rogast í burtu með vegginn.  Vegna ölgleði fylgdist enginn sérlega vel með þjófunum.  

  Líklegt þykir sem þarna hafi verið um góðlátlegt grín að ræða fremur en bíræfinn stuld.  Færeyingar eru ekki alvöru þjófar.

þórshöfn 

 


Neyðarlegt

  Á unglingsárum vann ég í álverinu í Straumsvík.  Þar vann einnig maður sem seint verður kallaður mannvitsbrekka.  Hann var barnslegur einfeldningur.  Hann átti sextugs afmæli.  Hann bauð völdum vinnufélögum í afmælisveislu heima hjá sér.  Hann átti ekki nána fjölskyldu.  Veislan var fámenn og einungis sterkt áfengi í boði.  Allt gott um það að segja.  Ég hef verið í fjörlegri veislu.  Þó var gripið í spil og leiðinleg músík spiluð af segulbandi. 

  Er á leið sagði kallinn okkur frá trillu sem hann átti.  Jafnframt átti hann ofan í kjallara hið fallegasta trilluhús.  Hann sýndi okkur það stoltur á svip.  Hann mátti vera það.  Húsið var með opnanlegum gluggum og ýmsu skrauti.  Meðal annars skemmtilega útskornu munstri og táknum úr norrænni goðafræði. 

  Eftir að allir höfðu hlaðið lofsorði á húsið varð einum að orði:  "Hvernig kemur þú húsinu út úr kjallaranum?"  Eina sjáanlega útgönguleið úr kjallaranum voru þröngar steinsteyptar tröppur upp á jarðhæð. 

  Kallinn varð vandræðalegur og tautaði niðurlútur:  "Það er vandamálið.  Ég gleymdi að hugsa út í það.  Ég kem þessu ekki út úr kjallaranum.  Það er grábölvað.

álver     


Hlálegur misskilningur

  Fyrir næstum hálfri öld átti ungur Íslendingur erindi til Lundúnaborgar.  Á þessum árum voru menn ekkert að ferðast til útlanda bara að gamni sínu.  Enda ferðalög dýr,  sem og hótelgisting og uppihald.

  Sameiginlegur kunningi okkar ákvað að nýta tækifærið.  Hann bað vininn um að kaupa fyrir sig Labb-rabb tæki.  Þau voru nýlega komin á markað og kostuðu mikið á Íslandi.  Sögur fóru af því að þau væru mun ódýrari í Bretlandi. Labb-rabb eru handhægar talstöðvar með nokkurra kílómetra drægni.

  Er Íslendingurinn snéri heim voru engin Labb-rabb tæki meðferðis.  Hafði kappinn þó þrætt samviskusamlegar allar verslanir í London sem voru líklegar til að selja tækin.  Enginn kannaðist við Labb-rabb.  

  Þetta vakti undrun í vinahópnum.  Eftir miklar vangaveltur kom í ljós að ferðlangurinn hafði ekki áttað sig á að Labb-rabb er íslensk þýðing á enska heitinu Walkie Talkie!   

  Labb-rabb


Ótrúleg ósvífni

  Kunningi minn,  Nonni,  bætti við sig áfanga í skóla fyrir nokkrum árum.  Til að fagna  ákvað hann að blása til matarveislu.  Sá hængur er á að hann kann ekki að matreiða.  Vandamálið er ekki stærra en svo að á höfuðborgarsvæðinu eru ótal veitingastaðir.  Þar á meðal einn asískur í göngufæri frá vinnustað Nonna. 

  Hann mætti á staðinn og spurði eftir yfirmanni.  Sá birtist brosandi út að eyrum og einstaklega góðlegur á svip.  Hann sagðist heita Davíð og vera eigandi.

  Nonni bar upp erindið;  hann væri að leita tilboða í 20 manna veislu.  Davíð brosti breiðar og sagði:  "Þú þarft ekki að leita tilboða.  Ég gef þér tilboð sem undirbýður öll önnur veitingahús.  Þú velur einn tiltekinn rétt fyrir hópinn og ég gef þér 50% afslátt!  Til að það gangi upp erum við að tala um pappírslaus viðskipti."

  Nonni gekk að þessu.  Þeir innsigluðu samkomulagið með handabandi og Davíð knúsaði þennan nýja vin sinn.

  Nokkrum dögum síðar mætti Nonni með gesti sína.  Þeim var vísað til sætis og matur borinn fram:  Væn hrúga af hrísgrjónum og örfáir munnbitar af svíni í sósu.

  Afgreiðsludaman tilkynnti ítrekað að gestir með sérrétt mættu ekki fá sér af nálægu hlaðborði.

  Í lok máltíðar grínuðust menn með að vera enn glorhungraðir eftir þennan litla "barnaskammt".  Nonni hnippti í afgreiðsludömuna og spurði hvort möguleiki væri á ábót fyrir þá sem væru ennþá svangir.  Hún tók erindinu vel.  Snaraðist inn í eldhús og sótti stóran hrísgrjónapott.  Spurði hvort einhver vildi aukaskammt af hrísgrjónum.  Einhverjir þáðu það en nefndu að löngun væri meiri í kjötbita.  Það var ekki í boði. 

  Með ólund rétti Nonni afgreiðsludömunni 29000 kall.  "Nei,  pakkinn er 58000 kall,"  mótmælti daman.  "Davíð samdi um 50% afslátt,"  útskýrði hann.  Hún fullyrti á móti að það væri aldrei gefinn afsláttur.  Eftir þref bað hann dömuna um að hringja í Davíð.  Nonni skildi ekki asíumálið en þótti undarlegt að konan hló og flissaði.   Eftir símtalið sagði hún Davíð ráma í að hafa boðið 10% afslátt.Nonni þyrfti því að borga "aðeins" 52200 kall.

  Þungt var í Nonna er hann gekk heim.  Hann er sannfærður um að Davíð hafi sviðsett leikrit.  Ekki síst núna þegar Davíð er opinberlega sakaður um mansal og fleiri glæpi. 

hrísgrjón


Bráðsniðug uppfinning

  Einn kunningi minn er það sem kallast "þúsund þjala smiður".  Hann á létt með að gera við alla bilaða hluti;  hvort heldur sem er heimilistæki,  bíla eða hvað sem er.  Allt leikur í höndunum á honum.  Sjaldnast þarf hann annað en svissneska hnífinn sinn til að koma hlutunum í lag.  Hann grípur það sem hendi er næst og breytir því í varahlut.  Þetta getur verið tappi af kókflösku,  spýtubrot eða plastpoki.  

  Maðurinn er frjór í hugsun og stöðugt að finna upp nýja nytjahluti.  Eitt sinn hannaði hann dósapressu með teljara.  Mjög flott græja.  Er hann fór að kanna með að setja hana í fjöldaframleiðslu kom í ljós að samskonar tæki var til sölu í Húsasmiðjunni. 

  Þá snéri hann sér að því að hanna blaðsíðuteljara.  Dögum saman kannaði hann hina ýmsu möguleika.  Hann reiknaði og teiknaði.  Markmiðið var að tækið yrði ódýrt,  einfalt og þyrfti hvorki batterí,  rafmagn né aðra orkugjafa. 

  Eftir margra daga puð mætti uppfinningamaðurinn á bar í Ármúla,  Wall Street.  Hann sagði viðstöddum frá blaðsíðuteljaranum og vinnunni við að koma honum á koppinn.  Gleðitíðindin voru þau að hönnunin var komin á lokastig.  Þetta yrði jólagjöf næstu ára því margir fá bækur í jólagjöf.  Næsta skref yrði að koma tólinu á heimsmarkað.

  "Er ekki einfaldara að fletta upp á öftustu síðu til að sjá blaðsíðufjöldann?" spurði Siggi Lee Lewis.    

  Aldrei aftur var minnst á blaðsíðuteljarann.  

bók


Kallinn reddar

  Í samfélagi mannanna má jafnan finna kallinn sem græjar hlutina; lagar það sem úrskeiðis fer.  Hann er engin pjattrófa.  Hann grípur til þess sem hendi er næst og virkar.   Það eitt skiptir máli.  Útlitið er algjört aukaatriði.  Sama hvort um er að ræða stól,  handstýrða rúðuþurrku,  flöskuopnara,  farangursskott með læsingu,  klósettrúllustatíf eða hurð í risinu.  Það leikur allt í höndunum á honum.

kallinn sem reddar stæði fyrir stólinnkallinn reddar handstýrði rúðuþurrkukallinn reddar upptakarakallinn reddar farangursskotti með læsingukallinn kom klósettrúllunni snyrtilega fyrirkallinn græjar hurðina í risinu


Bónusgreiðslur og Bónuskort

  Í kjölfar bankahrunsins 2008 uppgötvaðist að bankarnir gengu á bónuskerfi.  Starfsmenn smöluðu gömlu fólki eins og rollum í réttir.  Smöluðu því af öruggum bankabókum yfir í Sjóð 9 og hvað þeir hétu allir þessir sjóðir.

  Bónuskerfið virkaði svo vel að Samkeppniseftirlitið og Skatturinn hafa tekið það upp.  Fleiri mætti virkja með bónuskerfi.  Til að mynda bílastæðisverði.  Það yrði handagangur í öskjunni ef vörðurinn fengi 1000 kall og Bónuskort fyrir hvern bíl sem hann sektar.  Hann myndi sleppa matar- og kaffihléi til að ná bónusnum upp.

  Hvað með lögguna?  Hvað ef hún fengi 10.000 kall og Bónuskort fyrir hverja handtöku?  Ekki má gleyma dómurum.  Þeir mættu fá vænan bónus og Bónuskort fyrir hver óskilorðsbundinn dóm.

kort

 

   


Hvar er mesta atvinnuþátttaka og minnsta?

  Mikil atvinnuþátttaka bendir til velsældar.  Að sama skapi er dræm atvinnuþátttaka vísbending um vesaldóm.  Á meðfylgjandi skjali má sjá yfirgripsmikla samantekt á þessu.  Ef smellt er á skjalið þá stækkar það til muna og verður læsilegra.

  Listinn spannar aldursbilið 15 - 74ra ára.  Hvar sem borið er niður skara Færeyingar framúr.  Sama hvort einstakir aldurshópar eru skoðaðir eða aðrir tilteknir hópar.  Til að mynda atvinnuþátttaka kvenna.  Allt flottast í Færeyjum! 

vinnuþáttaka

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Gleðilegan Þorra!

 


Jólatiktúrar afa - Annar hluti

  Aðferðir afa við að bjarga ótímabærum jólagjöfum báru ekki alltaf besta kost.  Eitt sinn fékk hann ílangan jólapakka.  Hann bankaði í kassann,  hristi og kreisti.  Hann taldi sig heyra undarleg hljóð úr pakkanum.  Því fastar sem hann bankaði í kassann þeim mun undarlegri voru hljóðin.  Á aðfangadag var afi að springa úr forvitni.  Er hann opnaði pakkann komu í ljós þrjár stórar og glæsilegar jólakúlur.  Þær voru mölbrotnar eftir barsmíðar afa. Afi kenndi Póstinum um.  

  Er ég var 10 - 11 ára fól afi mér það hlutverk að lesa upp úr jólakortum hans.  Sjón hans var ekki nógu góð.  Ég snéri út úr textanum.  Það var sama hvað ég "las" undarlegan texta;  afi trúði öllu.     

  Af einu korti þóttist ég lesa:  "Við óskum þér með hálfum huga farsæls komandi árs."

  Afa var hvergi brugðið.  Hann útskýrði:  "Þarna er Fríðu rétt lýst.  Hún er svo mislynd.  Skelfilega mislynd."

  Úr öðru korti las ég":  "Farsælt komandi ár en þökkum ekki fyrir liðið."  Afi útskýrði:  "Þetta er Jón sonur þeirra sem skrifar þetta.  Honum er strítt í skólanum.  Þess vegna lætur hann svona."  


Jólatiktúrur afa - Fyrsti hluti

  Afi var jólabarn.  Hann hlakkaði alltaf barnslega mikið til jólanna.  Var gífurlega spenntur.  Er jólapakkar tóku að berast í hús átti hann erfitt með að hemja sig.  Hann bar sína pakka inn til sín.  Þar þuklaði hann á þeim fram og til baka.  Aldrei leið á löngu uns við krakkarnir urðum varir við að afi hafði gægst í þá.  Reyndi hann þó að leyna því.  

  Þegar við sökuðum hann um þetta varð hann vandræðalegur og bar fyrir sig langsóttar ástæður.  Er hann gægðist í ferkantaða pakka sagðist hann hafa orðið að ganga úr skugga um að ekki væri um konfekt að ræða.  

  "Maður geymir ekki konfekt hvar sem er," útskýrði afi.  "Það gæti bráðnað ef pakkarnir eru nálægt ofninum." 

  Um rifu á mjúkum pökkum var afsökunin:  "Ég var að færa hann úr stað.  Tók í ógáti of fast á honum.  Bréfið brast.  Þegar ég skoðaði rifuna betur þá rifnaði hún meir.  Jólapappír er orðinn svo aumur nú til dags að það er hneisa!"

  Einstaka sinnum fékk afi konfekt í jólagjöf.  Hann hafði það út af fyrir sig.  Ég spurði af hverju hann biði ekki með sér.  Svarið var:  "Foreldrar þínir fengu líka konfekt í jólagjöf.  Við þurfum þess vegna ekkert að togast á um þessa fáu mola.  En ég skal gefa þér brjóstsykurmola."  Sem hann gerði.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband