Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Ósvífið Nigeríusvindl

  Unga manninn,  Nígeríudrenginn,  dreymdi um að eignast tölvu.  Æðsta óskin var að eignast Apple tölvu.  Í Nígeríu er - einhverra hluta vegna - ævintýraljómi yfir Apple tölvum.  Kannski spilar inn í að plötufyrirtæki Bítlanna heitir Apple.  

  Á hverjum degi rölti drengurinn niður á sölutorg í von um að finna Apple tölvu á góðu verði.  Hann viðraði þetta við sölumann.  Sá selur síma af ýmsu tagi og fylgihluti.  Hann taldi sig geta útvegað Apple tölvu á góðu verði.  Hann bauð stráksa að koma á torgið daginn eftir.  Sem hann gerði.  Þar beið hans þessi fallega rauða tölva með upphleyptu gulu Apple merki.  Hann er að springa úr stolti yfir glæsitækinu. 

  Eina vandamálið er að tækið var dýrara en vonir stóðu til.  Hinir krakkarnir í þorpinu halda því fram að kauði sé fórnarlamb ósvífins Nígeríusvindls.  Hann veit að leiðindin stafa einungis af öfund.  Hann hlær að þeim. 

tölva 


Hvað gerðist?

  Grandvar virðulegur maður keypti sér rándýra spariskó sem voru í tísku.  Örfáum dögum síðar voru skórnir bókstaflega búnir:  Sólarnir götóttir,  saumar farnir að gefa sig,  hælarnir uppurnir og skórnir að öðru leyti verulega sjúskaðir.

  Maðurinn fór með skóna í skóbúðina og krafðist endurgreiðslu.  Þar reif fólk kjaft.  Sakaði hann um óvenju bíræfna kröfu.  Honum ofbauð dónaleg framkoman.  Hann snéri sér til Neytendasamtakanna.  Þar mætti hann sömu framkomu og í skóbúðinni.  Vandamál var að engin kvittun var til staðar.  Hann froðufelldi af reiði yfir óréttlæti heimsins. 

  Víkur þá sögunni að öðrum manni.  Sá var að flytja til útlanda.  Hann setti íbúð sína í sölu.  Á tilteknum degi hafði hann opið hús.  Hann átti samskonar tískuskó.  Nema að þeir voru gamlir og gjörsamlega búnir.  Hann lét þá þó duga framyfir flutninginn til útlanda.  Þar eru skór miklu ódýrari. 

  Er opnu húsi lauk uppgötvaði hann að gömlu skórnir voru horfnir.  Í staðinn voru komnir splunkunýir skór af sama tagi.    

skór


Maður sem hatar landsbyggðina

  Kunningi minn er um áttrætt.  Hann hefur andúð á landsbyggðinni;  öllu utan höfuðborgarsvæðisins.  Hann er fæddur og uppalinn í miðbæ Reykjavíkur.  Foreldrar hans ráku þar litla matvöruverslun.  Það var hokur. Ungur byrjaði hann að hjálpa til.  Honum þótti það skemmtilegt.  

  Fjölskyldan tók aldrei sumarfrí.  Stráksi stækkaði og tók bílpróf þegar aldurinn leyfði.  1974 var hringvegurinn opnaður.  Yfir því ríkti mikill ævintýraljómi.  Þá keypti hann ódýran bíl og fékk samþykki foreldranna til að taka stutt frí og aka hringinn.

  Hringvegurinn var einbreiður malarvegur,  alsettur holum og "þvottabrettum".  Ökuþórinn fékk hræðslukast af áhyggjum yfir heilsu bílsins.  Auk þess fylltist óþéttur bíllinn af ryki.  Ekki bætti úr skák að framboð á gistirými var lítið en rándýrt.  Sama var með veitingasölu.

  Okkar maður kom hvergi auga á hið rómaða landslag sem hann hafði heyrt af.  Fjöll voru hvert öðru líkt og ekki samkeppnishæf við Esjuna.  Út um allt mátti sjó óspennandi tún, beljur og annað. 

  Á leið frá Skagafirði til Akureyrar hvellsprakk dekk undir bílnum.  Varadekk og önnur dekk voru í bágu ásigkomulagi.  Þetta var um helgi.  Ökuþórinn leitaði uppi eigendur dekkjaverkstæða.  Enginn var til í að opna verkstæði fyrr en á mánudeginum.  Hann sannfærðist um að óliðlegheitin væru vegna þess að hann var utanbæjarmaður. 

  Til að spara pening svaf hann í rykugum bílnum.  Eftir að gert var við dekk hætti hann við við hringferð.  Hann brunaði aftur til Reykjavíkur og sór þess eið að fara aldrei aftur út á land.  Í kjölfar óx andúðin á "sveitavarginum".  Hann liggur ekki á skoðun sinni um að landsbyggðin sé afæta á samfélaginu.  Hann snöggreiðist undir fréttum af fyrirhugaðri gangagerð eða öðrum samgönguúrbótum.

  Eitt sinn var Hagkaupum synjað um innflutning á hollenskum kartöflum.  Kallinn hætti alfarið að borða kartöflur.  Þannig mótmælti hann "ofríki bændamafíunnar".  Síðan borðar hann bara hrísgrjón,  spagettí eða brauð með mat.

  Hann hætti líka að borða mjólkurvörur.  Smyr sitt brauð með smjörlíki og setur útlent mjólkurduft út á kaffið.

reiður      


Vandræðalegt hlutverk götulistamanns

  Böskarar er það fólk kallað sem spilar, syngur og skemmtir almenningi að öðru leyti á götum úti.  Áhorfendur/áheyrendur kunna vel að meta.  Skemmtikraftarnir hafa fyrir framan sig hatt eða opna tösku.  Þangað kasta vegfarendur smápeningum.  Þetta er vinsælt í erlendum stórborgum.  Hérlendis má stundum rekast á útlendinga spila á harmóniku fyrir utan stórmarkaði.

  Í Brighton á Englandi starfar böskari að nafni Shane Dyer.  Hann kann að syngja og spila á gítar eitt lag.  Aðeins eitt lag.  Það er "Streets of London".  Sívinsælt lag eftir Ralf McTell.  Best þekkt í flutningi Rogers Withakers og Anti-Nowhere Leaque.  Orri Harðarson hefur sungið það með íslenskum texta eftir Ómar Ragnarsson.

  Ég hef séð náungann standa með gítarinn sinn úti á götu.  Hann hvorki syngur né spilar.  Að honum streymir þó fólk og kastar peningi í töskuna hans.  Um leið tilkynnir það honum að þetta sé greiðsla fyrir að hann flytji ekki lagið næsta hálftímann á meðan viðkomandi sinnir sínum erindum í nálægum verslunum.

  Shane játar að honum þyki þetta vandræðalegt og niðurlægjandi.  Hann telur flutning sinn á laginu vera frambærilegan.  Hinsvegar grunar hann að fólk sé með óþol gagnvart laginu.  Kostur er að hann þénar meira fyrir að spila ekki heldur en á meðan hann spilaði.

  Kannski ætti hann að læra annað lag.  Hann gæti fengið fé fyrir að spila það ekki.  Gæti tvöfaldað innkomuna. 

     


Aldraðir glæpamenn

  Ég átti erindi í bókasafn.  Þar sátu tveir aldraðir karlar og ein gömul kona.  Ég giska á að þau hafi verið um eða yfir áttrætt.  Spjall þeirra barst að forréttindum aldraðra.  Þau könnuðust við að komast upp með eitt og annað vegna þess að almenningur standi í þeirri trú að gamalt fólk sé heiðarlegt.  Þau flissuðu og karlarnir nefndu dæmi.

  Annar sagðist ekki lengur aka bíl.  Þess í stað taki hann strætó - án þess að borga.  Hann tekur upp símann,  leggur hann á lesarann en borgar ekki.  Bílstjórarnir fatta ekki neitt.

  Hinn hafði unnið hjá stóru fyrirtæki.  Starfsmenn fengu skírteini sem veitir afslátt á ýmsum vörum og þjónustu.  Skírteinið er löngu útrunnið.  Hann notar það samt stöðugt og enginn fattar.    

  Þeir komust upp með að hnupla smáhlutum í verslunum.  Öryggisverðir og afgreiðslufólk vaktar bara ungt fólk.  Þeir eiga líka til að fara á matsölustaði sem rukka eftir á.  Þeir stinga af þegar komið er að borgun.  Trixið er að fara út í rólegheitum.  Ef þeir eru nappaðir þá leika þeir sig ringlaða.  Þykjast ekki skilja upp né niður.  Allir sýna því skilning. 

  "Ég myndi alddrei þora neinu svona,"  sagði konan og staulaðist út.


Banki rassskelltur

  Um eða eftir miðjan níunda áratuginn var hraðbanki kynntur til sögunnar.  Sá fyrsti sinnar tegundar hér á landi á,  eins og skáldið orðaði það.  Nýjungin var kynnt með öflugri auglýsingaherferð.  Sú kostaði skildinginn.   

  Maður nokkur átti bankanum grátt að gjalda.  Hann hafði skrifað upp á ábyrgð fyrir bankaláni ættingja.  Ábyrgðin var upp á 500 þúsund.  Lánið lenti í vanskilum.  Bankinn skuldsetti manninn.  Verra var að bankinn uppfærði upphæðina til samræmis við verðbólgu þess tíma.  Maðurinn var ósáttur og fór með málið fyrir dómstóla.  Þar tapaði hann málinu.

  Maðurinn stofnaði fyrirtækið Hraðbanki og festi sér nafnið í firmaskrá.  Því næst gekk hann á fund bankastjóra.  Gerði honum grein fyrir því hver ætti nafnið Hraðbanki.  Næsta skref væri að fá lögbann sett á auglýsingaherferðina.  Eða - það sem hann væri líka til viðræðu um - að bankinn keypti af sér nafnið.  Það væri falt fyrir 1200 þúsund krónur. 

  Maðurinn var ekki með frekju.  Þetta var sú upphæð sem hann hafði tapað í viðskiptunum við bankann.  Upphæðin var aðeins brotabrot af því sem auglýsingaherferð bankans kostaði.  Bankastjórn stökk með snatri á tilboðið. 

   


Klaufalegt mont

  Ég hef efasemdir um að fólk verði gáfaðra af hassreykingum.  Hvað þá að það verði miklu gáfaðra af þeim.  Kannski er það einstaklingsbundið.  Sumir hasshausar virðast ekki burðast með meiri gáfur en gerist og gengur. 

  Unglingspiltur í Bandaríkjunum tók upp á því að rækta kannabis.  Fljótlega varð hann stórtækur.  Árangurinn steig honum til höfuðs.  Hann kom sér upp netsíðu.  Þar hældi hann sér af velgengninni.  Var meðal annars duglegur við að sýna ljósmyndir af plöntunum.

  Lögreglan var ekki lengi að bruna heim til hans.  Hann var færður fyrir dómara.

  - Hvernig í ósköpunum datt þér í hug að auglýsa glæpinn á opinni netsíðu?  spurði dómarinn.

  - Ég hélt að löggan hefði annað og þarfara við tímann að gera en hanga á netinu,  svaraði kauði og uppskar 4ra ára fangelsisvist.

hass   


Ævintýraleg bílakaup

  1980 útskrifaðist ég úr MHÍ.  Þá lauk blankasta kafla ævi minnar.  Nokkru síðar fór ég að skima eftir ódýrum bíl.  Enda kominn með fjölskyldu.  Í gegnum smáauglýsingu í dagblaði bauðst mér að kaupa gamla Lödu.  Tvær systur áttu hann.  Sökum aldurs treystu þær sér ekki lengur út í umferðina.  Þær höfðu reyndar aldrei keyrt nema smávegis yfir hásumarið.  Bíllinn var ótrúlega lítið keyrður. 

  Ég skottaðist til systranna.  Þær bjuggu á efstu hæð í lyftulausri blokk.  Eftir spjall fylgdi önnur þeirra mér út að bíl.  Hún átti erfitt með gang.  Við vorum svo sem ekkert að flýta okkur.

  Bíllinn leit út eins og nýr.  - Hvað sagðir þú að hann væri gamall?  spurði ég.

  - Hann verður 12 ára núna 7. september,  svaraði hún án umhugsunar.

  Ég hrósaði lakkinu.  Hvergi ryð að sjá.  - Jú,  því miður,  andvarpaði konan.  Hún hafði fundið ryðblett.  Hún mundi ekki hvar hann var.  Hófst þá leit.  Ég leitaði líka.  -  Hann er neðarlega,  útskýrði hún.  Að nokkrum tíma liðnum fannst hann neðan við framhurð farþegamegin.  Þetta var smá bóla.  Varla stærri en einn mm í þvermál. 

  -  Ég var heppin að vera komin með ný gleraugu,  sagði hún.  - Ég sé svo miklu betur með þau.

   Ég spurði hvort bíllinn hafi sloppið við óhöpp.  Nei,  það kom dæld á frambretti.  Hún var löguð á verkstæði.  Sást ekki að utan en hún bauð mér að þreifa á brettinu að innanverðu.  Þar mátti finna örlitla ójöfnu.  Jafnframt sýndi hún mér smáa saumsprettu á fóðri fyrir ofan aftursæti.  Aldrei hafði neinn setið í aftursætinu.  Þetta væri framleiðslugalli.  Ég hefði ekki tekið eftir saumsprettunni sjálfur.

  Ég nefndi að gaman væri að setja bílinn í gang og sjá hvernig hann hagaði sér í umferðinni.  Sú gamla dró upp bíllykla.  Í stað þess að rétta mér lyklana þá settist hún undir stýri,  lokaði dyrum og startaði.  Ég bjóst að setjast inn farþegamegin en hún brunaði af stað.  Hún tók stóran sveig á bílaplaninu og ég horfði síðan á eftir henni hverfa fyrir horn blokkarinnar.  Að nokkrum mínútum liðnum kom hún brunandi aftur,  drap á bílnum, kom út skælbrosandi og sagði: -  Það held ég nú að hann mali fallega.  Hann er eins og hugur manns í umferðinni! 

  Ég keypti bílinn án þess að hafa sest inn í hann.  Konan tók af mér loforð um að fara vel með hann.  - Hann þekkir ekkert annað. 

  Hún fékk símanúmer mitt:  - Til að fylgjast með hvernig honum reiðir af.  

lada


Rangur misskilningur

  Til margra ára var sjoppulúgan á BSÍ umferðamiðstöðinni fastur áfangastaður á djamminu.  Þegar skemmtistöðum var lokað á nóttunni var notalegt að renna upp að lúgunni og fá sér kjamma með rófustöppu undir svefninn.   Á skemmtistöðunum neytti fólk ekki fastrar fæðu en þeim mun meira af fljótandi vökvum.  Oft áfengum. 

  Á daginn var veitingastaður inni í umferðamiðstöðinni.  Þar var boðið upp á gamaldags heimilismat á ágætu verði.  Líka hamborgara.

  Eitt sinn var ég staddur á veitingastaðnum.  Þangað inn kom par,  á að giska 17-18 ára.  Parið fór skoðunarferð um staðinn.  Svo spurði stelpan:  "Eigum við að fá okkur hamborgara?"  Strákurinn svaraði:  "Við skulum frekar fá okkur hamborgara í bílalúgunni." 

  "Viltu frekar borða út í bíl?" spurði hún undrandi.  

  "Borgararnir eru miklu betri í lúgunni," fullyrti kauði.  

  Stelpan bendi honum á að þetta væru sömu borgararnir.  Strákur þrætti.  Hélt því fram að lúgan væri á allt öðrum stað í húsinu.  Hann gekk út af staðnum en ekki stelpan.  Eftir nokkra stund kom hann aftur inn og spurði afgreiðslumanninn:  "Það eru ekki sömu hamborgarar seldir hér og í lúgunni,  er það?"

  Afgreiðslumaðurinn útskýrði:  "Þetta er sama eldhúsið og sömu hamborgarar."

  Pilturinn horfði undrandi og afsakandi á stelpuna og tautaði:  "Skrýtið.  Mér hefur alltaf þótt borgararnir í lúgunni miklu meira djúsí."

bsí


Fólkið sem reddar sér

  Fjórar fjölskyldur í Essex á Englandi urðu heimilislausar eftir að íbúðir þeirra brunnu til kaldra kola.  Þetta atvikaðist þannig að húsbóndinn á einu heimilinu tók eftir því að útimálningin var farin að flagna af.  Honum hraus hugur við að þurfa að eyða sólríkum degi í að skafa málninguna af.  Til að spara sér puð brá hann á ráð:  Hann úðaði bensíni yfir húsið og kveikti í.  Málningin fuðraði upp eins og dögg fyrir sólu.  Líka húsið og nálæg hús.

  Orkuboltinum Christina Lamb í Cornwall á Englandi datt í hug að reisa verönd við hús sitt.  Hún hófst þegar handa við að grafa grunn.  Í ákafa tókst henni að höggva í sundur gasleiðslu bæjarins sem stóð eftir í ljósum loga.

  Mike Howel í Bristol á Englandi var ekkert að æsa sig yfir því að festa fingur í smíðabekk sínum.  Fingurinn var pikkfastur.  En hann var svo sem ekki að fara neitt.  Mike hafði fátt betra að gera þann daginnn en rölta með fingurinn og smíðabekkinn 3ja kílómetraleið á sjúkrahús.  Það tók aðeins 8 klukkutíma.  Hefði tekið styttri tíma ef vegfarendur hefðu ekki stöðugt verið að stoppa og spyrja út í dæmið.  

       


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband