Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
30.9.2011 | 22:17
Færeyingur smíðaði Hörpu
Ráðstefnu- og tónlistarhöllin Harpa hefur verið á milli tannanna á fólki. Samt ekki þannig að fólk sé að bíta í hana heldur er fólk endalaust að þrasa um hana. Það er stöðugt vælt undan einu og öðru sem að Hörpu snýr. Eiginlega öllu. Nema þeim sem smíðaði Hörpu. Um hann vita fáir.
Þegar Björgúlfur gamli hrinti í framkvæmd byggingu Hörpu varð strax ljóst að enginn Íslendingur myndi ráða við að smíða þetta flókna og nýstárlega hús. Hófst þá leit út um allan heim að einhverjum sem gæti smíðað Hörpu. Það var sama hvar borið var niður með fyrirspurn um slíkan mann. Allir bentu á sama manninn: Færeyinginn Ósbjörn Jacobsen.
Færeyingar neita Íslendingum aldrei um neitt. Þvert á móti. Færeyingar vilja alltaf allt fyrir Íslendinga gera. Lána Íslendingum hitt og þetta. Jafnvel háar peningaupphæðir. Reyndar eru Færeyingar ennþá áhugasamari um að gefa Íslendingum peninga. Ekki vantar viljann til þess. Það sem heldur aftur af Færeyingum með að fylla alla vasa Íslendinga af peningum er að Færeyingarnir óttast að Íslendingum þyki það niðurlægjandi og móðgandi.
Það var því eins og við manninn mælt: Um leið og Íslendingar komu skríðandi á hnjánum til Ósbjórns og spurðu hvort að nokkur smuga væri að hann gæti smíðað Hörpu svaraði Ósbjörn án umhugsunar: "Ja, tað skal ég." Hann losaði sig með það sama úr öllum verkefnum og henti sér í að byggja Hörpu.
Aðstandendur Hörpu skammast sín fyrir að hafa þurft að leita út fyrir landsteinana eftir smiði. Fyrir bragðið hafa þeir eiginlega haldið leyndu hver smíðaði Hörpu. Eða réttara sagt látið lítið á því bera. Eflaust er hægt að finna nafn Ósbjörns einhversstaðar í gögnum um Hörpu. Það er að segja í smáa letrinu.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.9.2011 | 21:26
Furðulegt nafn á verslun
Flestum fyrirtækjum er gefið nafn. Mörgum er valið aðlaðandi nafn. Nafn sem laðar fram góða tilfinningu fyrir því sem fyrirtækið hefur upp á að bjóða. Þess vegna dauðbrá mér þegar ég var á rölti í dag. Þá varð mér litið á skilti með nafni á gjafavöruverslun (að ég held). Hún heitir því einkennilega nafni Subba. Gott ef þarna eru ekki til sölu glervörur, keramik og eitthvað svoleiðis.
Þessi verslun er í Hamraborg 1. Ég er afar hugsi yfir nafninu. Hver eru skilaboðin?
Ljósmyndin er ekki af Subbu. Held ég.
Viðskipti og fjármál | Breytt 30.9.2011 kl. 01:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.9.2011 | 01:55
Pizza með matarleifum
Við köllum hana á rammíslensku flatböku. Í daglegu tali er hún þó oftast kölluð pizza (framborið pitsa). Það er vegna þess að sjaldnast nær rammíslenskt orð að festa sig í sessi ef það er 3ja atkvæða en erlenda orðið 2ja atkvæða. Sú er ástæðan fyrir því að Íslendingar tala um bíl í stað sjálfrennireiðar.
Uppruni pizzunnar er sennilega ítalskur. Þar var hún og er ennþá fátækramatur. Þetta er flöt hveitibrauðsskífa, bökuð með tómatsósu, osti, smávegis af kjöti og grænmeti. Þetta er ómerkilegur matur. Ef mat skyldi kalla.
Á nútíma íslensku heimili fyllist ísskápur iðulega af matarafgöngum: Rest af sunnudagssteik, brúnni kjötsósu, kjúklingsrifrildi og allskonar. Að tveimur eða þremur dögum liðnum er þessu hent í ruslið. Það er sóun. Matarleifar eru í góðu lagi í 3 daga í ísskáp. Að öllu jöfnu ef þær hafa verið settar þangað strax eftir að borðhaldi lýkur.
Þá er ráð að útbúa pizzu með matarleifunum. Fletja út pizzudeig sem fæst í öllum matvöruverslunum. Skella á það vænni slummu af pizzasósu (tómatssósugumsi), öllum matarleifum og hvítlauksolíu. Hella yfir það rifnum osti og baka í ofni. Þetta er veislumatur. Fátækir Ítalir myndu ískra af gleði ef þeir kæmust í svona góðgæti. Þeir myndu góla í gleðilátum.
Viðskipti og fjármál | Breytt 27.9.2011 kl. 01:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
24.9.2011 | 22:54
Gömlu skónum breytt í nýja
Allir kannast við það erfiða vandamál að fá leiða á gömlu skónum sínum. Skórnir sem lengi vel voru uppáhalds skórnir eru skyndilega orðnir þreytulegir og glæsibragurinn sem geislaði af þeim er horfinn eins og dögg fyrir sólu. Þá er til gott ráð. Það er ódýrt og einfalt. Það eina sem þarf að gera er að skipta um reimar á skónum. Nýju reimarnar þurfa að vera rauðar eða appelsínugular eða í öðrum áberandi lit. Nýju reimarnar stela allri athyglinni. Það skiptir ekki máli hvort þetta eru svartir spariskór eða strigaskór. Þetta eru orðnir nýir skór. Allir dáðst að þeim.
Viðskipti og fjármál | Breytt 25.9.2011 kl. 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.9.2011 | 01:41
Óvenjuleg nýbreytni
Allir kannast við að þegar greiðslukort af einhverjun tagi er notað þá er gjaldfærð önnur upphæð en sú sem úttekt nemur. Það er gaman. Það er fjölbreytni. Það er skemmtilegur samkvæmisleikur að fá endanlegt uppgjör frá greiðslukortafyrirtækjum og reyna að fá það til að stemma nokkurn veginn við úttektir.
Sú óvenjulega nýbreytni hefur verið tekin upp hjá bensínfyrirtæki sem ég skipti við að við sjálfsala þess hafa verið settir upp límmiðar með textanum "Einungis er gjaldfærð sú upphæð sem dælt er fyrir."
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.9.2011 | 17:10
Gleðifrétt fyrir kynlífssvelta
Nýverið dæmdi franskur dómstóll mann nokkurn til að greiða fyrrverandi eiginkonu sinni skaðabætur fyrir að hafa vanrækt hjónabandsskylduna við hana. Sigurð Þórðarson, forstjóra Eðalvara ehf., grunar að vandamálið sé ekki bundið við Frakka. Það sé jafnvel til staðar hérlendis. Þess vegna hefur hann snúið sér til lögmannsstofunnar Lagarök, Síðumúla 27, til að annast lögfræðiumsýslu fyrir fyrstu 3 sem fara fram á bætur frá maka sínum vegna ónógs kynlífs.
Ef velja þarf úr fjölmennum hópi umsækjenda munu þeir njóta forgangs sem geta staðið við það að makinn hafi ekki leitað bót meina sinna með því að neyta Rauðs Eðal Ginsengs. Um þetta má lesa nánar með því að smella á þennan hlekk:
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.9.2011 | 00:17
Ekki henda gömlu hurðinni!
Íslendingar eru alltaf að endurnýja hurðir. Það má varla halda fermingarveislu í heimahúsi eða afmælisveislu öðru vísi en skipta um hurð í íbúðinni. Sem er hið besta mál. Verra er að iðulega er gömlu hurðinni hent á haugana. Það er hið versta mál. Gömlu hurðina á að nýta sem sófaborð eða stofuborð. Það eina sem til þarf er að fjarlægja hurðarhún og setja löpp eða lappir undir gömlu hurðina. Hér er vel heppnað dæmi:
Þessi hurð á myndinni fyrir ofan yrði glæsilegt stofuborð. Hurðin á myndinni hér fyrir neðan er aftur á móti ekki heppileg til framhaldslífs sem stofuborð.
6.9.2011 | 00:34
Hrópandi kynslóðabil
Ég skrapp í verslunarmiðstöðina við Krossmóa í Keflavík í dag. Fyrir framan Nettó var sendibíll merktur grænum frostpinna, svokölluðum Hlunki, í bak og fyrir. Bíllinn var mannlaus. Hliðardyrnar voru upp á gátt. Þar fyrir innan var frystikista með grænum frostpinnum. Tveir drengir - á að giska 10 ára - tóku hvor um sig væna hrúgu af frostpinnunum. Þeir fóru með frostpinnana út á bílaplanið. Þar grýttu þeir pinnunum í allar áttir.
Ég veit ekki hver tilgangurinn var. Drengirnir reyndu ekki að hitta neitt skotmark og köstuðu ekki af fullum krafti. Svo fóru þeir á reiðhjólum í burtu.
Rétt í þann mund kom háöldruð kona gangandi. Hún kom auga á nokkra frostpinna á bílaplaninu. Hún tók þá upp og skoðaði í krók og kring. Þeir voru í glæru plasti og virtust vera heillegir. Eftir smá umhugsun stakk konan þeim í vasann og fór inn í búð.
Háaldraður maður kom út úr búðinni og gekk yfir bílaplanið. Hann rak augu í nokkra frostpinna. Viðbrögð hans voru þau sömu og konunnar. Svo fann hann bílinn sinn og ók burt með vasana úttroðna af grænum frostpinnum.
Í sama mund bar að aðra gamla konu. Hún bar sig að alveg eins þau hin. Þar með voru sennilega ekki lengur margir grænir frostpinnar á bílaplaninu.
Þarna kristallaðist kynslóðabil á krúttlegan hátt. Krakkaskammirnar sáu ekki verðmæti í grænum frostpinnum. En þeir náðu að gera sér skemmtun úr þeim. Lítið er ungbarns gaman.
Gamalt fólk borðar ekki græna frostpinna. En það getur ekki hugsað sér að láta þá liggja án hirðis á bílaplani.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.9.2011 | 22:57
Illa gölluð verðkönnun ASÍ
Síðasta verðlagskönnun ASÍ hefur vakið mikla athygli. Einkum vegna þess að hún leiddi í ljós að Bónus er ekki lengur með ódýrustu (eða minnst dýru) matarkörfuna. Matarkarfan í Krónunni reyndist vera ódýrust og Víðir á svipuðu róli og Bónus. Talsmenn Bónus eru ekki par sáttir. Vísa til þess að þar fáist bananar á 198 krónur í stað þess að í matarkörfu Bónus lentu bananar á 247 krónur (eða eitthvað svoleiðis). Jafnframt að í matarkörfu Bónus var hreint kjöthakk lagt að jöfnu við kjöthakk drýgt með soyakjöti í öðrum verslunum.
Þessi dæmi sýna að verðkönnun ASÍ er meingölluð. Það er algjörlega ófært að bera saman verð á ósambærilegum vörum. Til að svona verðkönnun gefi rétta mynd af verðmun á milli verslana verður að vera um samskonar vöru að ræða. Annað er út í hött.
Heimfærum þetta upp á bíla. Ein bílasala selur BMW. Önnur selur Skoda. Sú síðarnefnda selur ódýrari bíl. En þetta eru ekki eins bílar.
Bónus selur vissulega banana á 198 kr. kílóið. Það eru svartblettaðir linir bananar á síðasta snúningi. Kannski nothæfir í bakstur með því að skera burtu svörtustu blettina. En á engan hátt samanburðarhæfir við grænleita og stinna ferska banana.
Það getur ekki verið meira mál fyrir ASÍ að bera saman verð á samskonar vörum, sömu vörumerkjum, sömu gæði, heldur en að bera saman verð á vörum í mismunandi gæðum frá mismunandi framleiðendum.
Á meðan þessi afleitu vinnubrögð ASÍ eru stunduð eru verðkannanir þess aðeins vísbending um raunverulegan verðmun á milli verslana en ekki marktækar að öðru leyti. Engu að síður er athyglisvert að ekki sé lengur á vísan að róa með að Bónus sé ódýrasta matvöruverslunin. Sú var tíð að Bónus var verulega ódýrari en aðrar verslanir. Hvað veldur breytingunni?
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.9.2011 | 00:00
Hasskakan og Fitjagrill týnd og horfin
Ég átti erindi til Keflavíkur í kvöld. Á leið þangað ætlaði ég að koma við í Fitjagrilli. Mig minnir að matsölustaðurinn hafi heitið það. Hann var staðsettur í sama húsi og bensínstöðin við hlið Bónus í Njarðvíkum. Á gatnamótunum þar sem beygt er af Reykjanesbrautinni til Keflavíkur. Þar greip ég í tómt. Húsnæðið læst og inn um glugga mátti sjá að Fitjagrill er horfið.
Fyrir nokkrum árum átti ég dögum saman erindi til Keflavíkur um tíma. Ég vandi mig á að koma við í Fitjagrilli og fá mér þar beikon og egg með kartöflukökum sem kallast á ensku hash brown. Sama konan afgreiddi mig alltaf. Til að byrja með pantaði ég þetta með því að biðja um beikon og hasskökur. Fljótlega lærði konan inn á þetta. Þegar ég birtist spurði hún: "Beikon og hasskökur?"
Eitt sinn er ég mætti sagði konan hinsvegar: "Þú ert nú meiri kallinn. Það er þér að kenna að ég gerði mig að fífli í gær."
Hún útskýrði það þannig: "Þegar þú varst nýfarinn héðan komu nokkrir útlendingar. Þeir pöntuðu egg og beikon. Það var erill og ég með pöntun þína í huga. Þegar þeir báðu um egg og beikon spurði ég í hugsunarleysi hvort þeir vildu hasskökur með þessu. Það datt af þeim andlitið og þeir urðu skrítnir á svipinn. Ég fattaði þetta ekki strax en þegar ég sá hvað þeir urðu vandræðalegir áttaði ég mig loks á því að þú varst búinn að rugla mig í ríminu með því að kalla þetta hasskökur. Ég bara stamaði og hikstaði og reyndi að útskýra fyrir þeim að við værum með hashbrowns. Þeir virtust ekki alveg kaupa mínar útskýringar. Þeir horfðu á mig grunsemdaraugum allan tímann sem þeir voru hérna inni."
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)