Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
22.11.2011 | 21:55
Skemmtilega óvænt tilviljun og jólagjöfin 2011
Rannsóknarsetur verslunarinnar er snilldar fyrirbæri. Toppurinn í starfseminni er svokölluð jólagjafanefnd. Hún er að sögn Emils B. Karlssonar, forstöðumanns, skipuð löggiltu smekkfólki. Gaman væri að vita hvaða fyrirbæri löggildir smekkmenn. Það er brýnt að vita það. Einnig eru í nefndinni tískulöggur, sem eru þær löggur innan deilda rannsóknarlögreglu, umferðarlögreglu og fíkniefnalögreglu er gera sér best grein fyrir tísku og eru þessa dagana að reyna að staðsetja næstu tískubylgju: http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1205573/
Löggilta smekkfólkið og tískulöggurnar hafa komið sér saman um að jólagjöfin á Íslandi 2011 sé tölva. Svokölluð iPad spjaldtölva Apple. Valið kom forstjóra Epli.is, umboðsaðila Apple á Íslandi, ánægjulega á óvart. Sambýliskona hans í jólagjafanefndinni hafði ekkert samráð við hann um valið og hann kemur henni á óvart í staðinn með því að bjóða henni upp á rómantískan kvöldverð til að fagna valinu. Það eru þessi litlu óvæntu atvik sem krydda tilveruna í skugga bankahrunsins, sem er víst ekkert bankahrun heldur nett bankafall eða bankaáfall.
Ódýrasta útgáfan af Apple iPad spjaldtölvunni kostar aðeins 85 þúsund kall. Sem er innan skekkjumarka á þeirri upphæð sem fólk ver til jólagjafakaupa handa vinum og ættingjum 2011.
Rök fyrir sjaldtölvu sem jólagjöfinni 2011 er tiltekið að allir noti spjaldtölvu óháð aldri. Kornabörn í vöggu jafnt sem háaldraðar ömmur og afar.
Á einhverjum tímapunkti hef ég sem afi orðið viðskila við hugtakið "allir". Ég veit ekkert hvað spjaldtölva er, iPad og það allt. Ég hef aldrei séð jafnaldra mína (nálægt sextugu) eða mér eldri afa og ömmur brúka svona tæki. Það er ekkert að marka. Ég er sjóndapur og þekki ekki í sundur farsíma frá sjónvarpsfjarstýringu.
![]() |
Spjaldtölva jólagjöfin í ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.11.2011 | 22:06
Bráðskemmtilegar uppfinningar sem markaðurinn hafnaði
Á hverju einasta ári finna snjallir menn (yfirleitt letingjar) upp tæki, tól og aðferðir til að létta sér og öðrum lífið. Bestu hugmyndirnar eru iðulega keyptar af framsýnum fyrirtækjum og settar á markað. Þá kemur stundum í ljós það sem lætur mörgum bregða illilega í brún: Enginn kaupir nýju vöruna og hún dettur út af markaðnum með skömm.
Hér eru nokkrar frábærar hugmyndir sem markaðurinn hafnaði:
Konur - jafnt sem karlar - eru alltaf í vandræðum með að lita á sér varirnar. Liturinn fer út um allt; út á kinnar og upp að nefi. Oftar en ekki er alltof mikið af lit öðru megin en of lítið hinu megin. Japanskt fyrirtæki setti á markað þetta ódýra og þægilega varalitaskapalón. En fólk vildi heldur klessumála varirnar út um allt, illa og kjánalega.
Hver kannast ekki við það að tárfella þegar laukur er skorinn í smátt? Er það út af slæmum minningum tengdum lauk? Það veit enginn. Kannski eru það bældar minningar. En útlendur gleraugnaframleiðandi hóf framleiðslu á sérhönnuðum augnhlífum fyrir þá sem skera lauk. Þær liggja svo þétt að húðinni að uppgufun frá lauknum nær ekki að erta augun. Enginn keypti þessar augnhlífar. Hinsvegar jókst sala á sundgleraugum.
Þegar kókoshnetur falla af trjám (kókoshnetutrjám, vel að merkja) lenda þær á jörðinni. Þá þarf að beygja sig til að tína þær upp. Það reynir óþægilega á bakið. Þess vegna var þetta kókoshnetunet búið til. Maður spennir það á sig, gengur að næsta hnetutré, hristir það og hneturnar falla í netið. Kaupendur skortir.
Gallinn við regnhlífar er margþættur. Í fyrsta lagi er maður sjaldnast með regnhlífina á sér þegar byrjar óvænt að rigna. Í öðru lagi hættir fólki til að bera regnhlífarnar fyrir sig þegar gengið er á móti regni. Það skapar hættu. Útsýni er lítið sem ekkert. Hugvitssamur regnhlífaframleiðandi leysti málið með því að bæta útsýnisglugga á regnhlífina. Þetta er svo flott að það þarf ekki að rigna til að fólk geti borið regnhlífina með stolti. Enginn vill aftur á móti kaupa þessa regnhlíf. Illar tungur kenna um að það vanti rúðuþurrkur á glæra hlutann. Regnið birgir útsýnið.
Síðhært fólk á við það vandamál að stríða að hárið flækist stöðugt í mat og drykk, hvort sem er á matmálstíma eða ekki. Það er assgoti þreytandi að vera sífellt að sjúga mat úr hárinu á sér. Á hippaárunum komust síðhærðir prestar upp á lag með að færa aftari hluta prestkragans fram á enni á matmálstímum. Þannig vörðu þeir matinn fyrir hári. Fyrirtæki nokkurt sá sér leik á borði og hóf framleiðslu á krögum fyrir síðhærða í þessum tilgangi. Bleika kraga fyrir konur og bláa fyrir karla. Enginn keypti kragana.
Í hraða nútímaþjóðfélags fylgja því ýmis vandamál að borða spaghettí. Aðal vandamálið er að það er enginn tími aflögu til að bíða eftir því að nýsoðið spaghettí kólni. Japanskur framleiðandi hóf framleiðslu á nettri kæliviftu sem fest er á prjón eða gaffal. Viftan kælir spaghettíið á meðan það er tekið upp af matarskálinni og lyft upp í munn. Enginn sýndi tækinu áhuga.
Fatabúð er vandfundin á Íslandi. Einhverjum datt í hug að opna sænska fatabúð í Smáralind. Hugmyndin var dauðadæmd frá upphafi. Það eiga allir Íslendingar föt. Þetta er jafn fráleitt og að selja Grænlendingum frystikistur og aröbum sandpappír. Enda hefur enginn keypt föt í sænsku fatabúðinni í Smáralind.
(Ljósm: Tobba Marinós)
Viðskipti og fjármál | Breytt 20.11.2011 kl. 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.11.2011 | 22:26
Spennandi heilsudagar í Krónunni
Í Fréttablaðinu í dag auglýsir matvöruverslanakeðjan Krónan HEILSUDAGA. Undir textanum "HEILSUDAGAR í Krónunni" er skemmtileg teikning af málbandi sem rúllast utan um hjarta. Þar fyrir ofan er ljósmynd af fjórum 2ja lítra Coca-Cola flöskum og útlendum jóladagatölum. Undir myndunum stendur: "Með kaupum á 4x2L af Coke kippu fylgir jóladagatal að eigin vali á meðan birgðir endast."
Það er nýlunda á þessari öld að Coca-Cola sé á þennan hátt tengt heilsudögum. Þegar betur er að gáð er líkast til lagt út frá því að jóladagatölin innihaldi ekki sykrað sælgæti, eins og oft vill verða.
Í auglýsingunni er einnig vakin athygli á ágætu verði á Mackintosh. Mér skilst að það sé sér íslenskt uppátæki að sælgætið Quality Street sé kallað Mackintosh. Alveg eins og það var sér íslenskt uppátæki að kalla kaffibæti Export. Í tilfelli kaffibætisins er sagan víst á þá leið að SÍS hóf innflutning á kaffibæti. Þegar fyrsta sending skilaði sér í hús voru vörubrettin merkt í bak og fyrir merkingunni "EXPORT", sem þýðir "Til útflutnings". Á þeim árum kunnu fáir Íslendingar ensku og héldu að kaffibætirinn héti Export.
Viðskipti og fjármál | Breytt 19.11.2011 kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.11.2011 | 22:42
Ódýr og góð jólahlaðborð
Fyrir örfáum áratugum leiddu Íslendingar ekki huga að jólum fyrr en í desember. Nú er öldin önnur. Jólastemmningin hellist yfir af þunga snemma í nóvember. Jólahlaðborðin vega þar þungt. Núna um helgina héldust samráðsfyrirtækin á byggingavörumarkaðnum, Húsasmiðjan og Bykó, í hendur við að bjóða upp á jólahlaðborð. Verðið er það sama, 1290 kall. Skemmtileg tilviljun.
það er reyndar spurning hvort 2ja rétta jólamáltíð Bykó fellur undir hugtakið hlaðborð. Að vísu er "ris a la mande" í eftirrétt. En þetta er ósköp svipað og á borðum íslenskra heimila um jól án þess að talað sé um hlaðborð: Pörusteik og kalt hangikjöt ásamt meðlæti: Kartöflum, grænum baunum, rauðkáli og þess háttar.
Hlaðborðið í Húsasmiðjunni er alvöru danskt jólahlaðborð. Það er pörusteik, byonskinka, heitir kjúklingaleggir, heitar partýpylsur og kjúklinganaggar. Meðlæti og það allt er veislulegra: Reyktur lax, rækjur, þrjár tegundir af síldarsalati og svo framvegis.
Hvoru tveggja, jólamáltíðin í Bykó og danska jólahlaðborðið í Húsasmiðjunni, eru vel peninganna virði. Það er kostur að það sem í boði er sé ólíkt. Stundum er stemmning fyrir hangikjöti og "ris a la mande". Stundum er stemmning fyrir dönsku jólahlaðborði.
Þriðji kosturinn er hangikjötsmáltíð í IKEA. Hún kostar 895 kall. Með því að skjótast þangað einstaka sinnum má spara 395 kall í samanburði við hina staðina.
Það er svooooo gaman að jólunum. Sem betur fer eru þau bara einu sinni á ári. Það gerir þau svo skemmtileg.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.11.2011 | 01:44
Ekki láta hanka þig í gamaldags og úreltri tísku!
Það er gríðar mikilvægt að tolla í tískunni. Sá sem klúðrar því er í vondum málum. Nú fer hver að verða síðastur að skipta yfir í nýjustu stólatískuna. Góðu fréttirnar eru að það kostar ekki krónu og fyrirhöfnin tekur ekki meira en örfáar mínútur. Ótrúlegt en satt. Og heimilið breytir um svip svo um munar. Verður umlukið tískunni og kemur gestum rækilega í skilning um að þetta heimili sé ekki eitt af þeim púkalega gamaldags og úreltu þar sem hallærislegheit eyðileggja allt og fæla gesti burt.
Byrjum á eldhúsinu. Við eldhúsborðið eru um það bil 6 stólar. Þeir eru allir eins. Það er komið úr tísku. Núna eiga eldhússtólar að vera eins ólíkir hver öðrum og hugsast getur. Bæði að lögun og lit.
Hvernig má leysa það? Svar: Taka alla stólana nema einn og rölta með þá út á götu. Þaðan er einn stóllinn borinn að næsta húsi og beðið um að skipt sé á honum og stóli í því húsi. Þannig er gengið með hvern stól á fætur öðrum í þarnæstu hús þangað til tískunni er náð.
Kannski þarf að útskýra erindið fyrir nágrönnunum. Þó er öllu líklegra að þeir viti um hvað málið snýst og fagni ofsafengið að fá að taka þátt í nýjustu tísku.
Næst er sami leikur framinn með borðstofustóla og sófasett. Síðan er röðin komin að vinnustaðnum.
Þegar hvergi sjást tveir stólar saman af sömu tegund og í sama lit er ástæða til að ganga því næst ætíð í ósamstæðum sokkum. Með því er þessi tískubylgja fullkomnuð.
18.10.2011 | 04:16
Bankasýslu ríkisins lokað og öllum sagt upp!
Ég átti erindi um Borgartún síðdegis. Eins og svo oft áður. Nema hvað. Í þetta skipti var eitthvað undarlegt í gangi við húsnæði Bankasýslu ríkisins í Borgartúni 3. Það var búið að girða húsið af með gulum borða eða límbandi, svona eins og lögreglan gerir þegar hún afmarkar svæði vegna rannsóknar mála. Á borðanum sem Bankasýsla ríkisins var afgirt með stóð "Lokað vegna spillingar!", "Öll þátttaka í spillingu er óheimil!" og eitthvað svoleiðis.
Það var eitthvað fólk þarna fyrir utan. Svo kom kona út úr byggingunni og tilkynnti að húsinu verði lokað og læsti útidyrunum. Maður einn á vettvangi sagði mér að starfsfólk Bankasýslu ríkisins væri búið að fá uppsagnarbréf. Því væri sagt upp vegna spillingar.
Þetta var allt mjög áberandi, akandi jafnt sem gangandi og hjólandi vegfarendum. Lögreglan hringsólaði umhverfis húsið án þess að aðhafast annað en gefa þessu gætur. Mig undrar að sjá hvorki né heyra neitt um þetta í fréttum helstu fjölmiðla.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6.10.2011 | 20:44
Helgi er hættur að pota í Hönnu Birnu með priki
Stuttbuxnadeildin í Sjálfstæðisflokknum vælir nú sárt undan þeim orðum Björns Bjarnasonar að hún væli enn yfir Hörpu. Og það eftir að hafa ítrekað farið halloka á landsfundum flokksins í rimmu við Björn um mikilvægi byggingar húss utan um tónlistarsal. Væl stuttbuxnadeildarinnar tekur á sig ýmsar skrítnar myndir. Eina slíka má finna í athugasemd frá Helga við bloggfærslu Geirs Ágústssonar um málið. Helgi vælir með fólskuhljóðum undan vasklegri framgöngu Hönnu Birnu við að ljúka byggingu Hörpu. Á milli ekkasoganna segist Helgi hafa hætt við að kjósa Hönnu Birnu vegna þessa. Og það sem verra er: Hann er hættur að pota í Hönnu Birnu með priki. Hann hótar því blákalt: "hér eftir kem ég ekki við hana með priki."
Þetta vekur upp spurningu: Skyldi Hanna Birna sakna þess að vælukjóinn poti í hana með priki?
![]() |
Sakar unga sjálfstæðismenn um væl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
4.10.2011 | 23:50
Íslendingar gleðja
Útlendingar um allan heim hafa til nokkurra ára hlegið sig máttlausa yfir fíflagangi kolgeggjaðra Íslendinga, sem héldu að þeir væru mestir og bestir í heimi, snjallastir allra í fjármálabraski. Þeir hældu sér og hver öðrum við hvert tækifæri fyrir einstaka snilli. Þeir hömpuðu "íslensku leiðinni"; að láta kylfu ráða kasti í stað þess að hanga yfir smáatriðum. Forsetinn, seðlabankastjóri og aðrar toppfígúrur sáu um uppklapp og húrrahróp fyrir "íslensku útrásarvíkingana". Það þarf svo sem ekkert að halda áfram með upptalninguna á "tærri snilldinni". Mestu skiptir að sögur af brjáluðum kóksniffandi gullétandi íslensku vitleysingunum er útlendingum óendanleg uppspretta hláturs.
Það er öllum hollt að hlæja. Gamansögurnar af Íslendingum gleðja. Einu útlendingarnir sem hlæja ekki þegar tal berst að íslensku kóngunum eru þeir sem töpuðu peningum á kókflippi þeirra.
Sjálf/ir getum við Íslendingar brosað yfir lýsingum útlendinga á Íslendingum. Kíkið á fréttina hér fyrir neðan. Þaðan er hægt að smella á sjónvarpsviðtalið sem um ræðir. Spjallið um Ísland hefst á mínútu 31.30.
![]() |
Hlegið að Íslendingum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 5.10.2011 kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
1.10.2011 | 22:48
Örstutt leikrit um skóbúð
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2011 | 18:18
Af hverju er svona erfitt að telja fólk?
Það er skrítið hvað sjónarvottar á sama stað telja sig vera stadda í mis fjölmennum hópi. Þannig munar töluverðu á tölum sem gefnar hafa verið upp á fjölmenni á Austurvelli í morgun. Það hafa sést og heyrst tölur frá 1700 manns og upp í 12 þúsund. Þar á milli hafa verið nefndar tölurnar 2000, 3000 og 8000.
Af hverju er svona erfitt kasta tölu á hópinn? Það er mikill munur á 2000 og 8000 manns. Ein skýringin á misháum tölum getur verið sú að margir í hópnum hreyfa sig á meðan verið er að telja. Það er auðveldara að telja fólk ef fólk væri til í að standa kyrrt á meðan verið er að telja. Önnur skýring getur verið sú að sumir sjá huldufólk án þess að greina það frá mannfólki. Þriðja skýringin getur verið sú að sumir eru litblindir; sjá ekki suma liti. Það fólk sér kannski ekki fólk í gráum eða svörtum fötum. Og hlustar ekki á Í svörtum fötum.
![]() |
Eggjum kastað í þingmenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)