Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
28.8.2011 | 01:05
Eitt lítið epli í Bónus á 400 kall
Í dag átti ég erindi í Bónus í Skeifunni. Þar keypti ég 3 appelsínur, þrjá banana og eitt epli sem ég varð skotinn í. Ég tók ekkert eftir verðinu á þessum ávöxtum. Var eins og uppvakningur (Zombie eða Jesú eftir krossfestingu). Heim kominn fór ég að skoða kassakvittunina. Þá sá ég að þetta litla epli sem ég keypti kostaði 400 kall. Það var dýrara en appelsínurnar og bananrnir sem ég keypti. Eplið virðist hafa vigtað töluvert umfram raunþyngd þess.
Ég sá í hendi mér að erfitt yrði að færa sönnur á að mitt litla epli hefði aðeins verið eitt og mun léttar en kassakvittun mældi. Þannig að ég lét gott heita. Snæddi litla eplið og þótti það næstum 400 króna virði. En þessi afgreiðsla á eplinu gefur fulla ástæðu til þess að fólk gæti að kassakvittun strax við kassa í Bónus í Skeifunni.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
11.8.2011 | 21:53
Rétt skal vera rétt. Já, því ekki?
Það er fjör. Allt út af skemmtilegri stórfrétt í Fréttablaðinu af söluhæstu plötum Bubba Morthens. Þar kom eftirfarandi fram: "Þrjár mest seldu plöturnar, Dögun, frá 1987, Frelsi til sölu, frá 1986 og Kona, frá 1985 (...) eiga sameiginlegt að Jens Guð sá um markaðssetningu þeirra allra ásamt því að hanna umslögin að mestu eða öllu leyti."
Bubbi gerir alvarlega athugasemd við þetta á fésbókinni. Hann fullyrðir að Ámundi Sigurðsson hafi hannað frá a til ö umslag plötunnar Sögur af landi og hafi ásamt Bubba Morthens hannað umslag plötunnar Lífið er ljúft. Jafnframt fullyrðir Bubbi að Bubbi Morthens hafi gert mynd sem er á umslagi sömu plötu. Valdís Óskarsdóttir hafi hannað umslag Dögunar og Inga Sólveig Friðjónsdóttir gert umslag Konu.
Eftir þessa upptalningu segir Bubbi ekki vera mikið eftir handa Jens Guð og hnykkir á með orðatiltækinu góða: Rétt skal vera rétt. Undir það skal tekið. Rétt skal vera rétt. Þess vegna er ástæða til að fara yfir dæmið lið fyrir lið.
- Sögur af landi
Ég hef hvergi rekist á eða orðið var við orðróm um að einhver annar en Ámundi sé hönnuður þessa umslags. Það er ekki ágreiningur um þetta. Það var ekki stafkrókur um þessa plötu í frétt Fréttablaðsins né á bloggsíðu minni. Það má telja upp umslög miklu fleiri platna sem ég hef hvergi komið nálægt. Bæði plötur með Bubba og hverjum sem er. Jafnvel Bítlunum og Rolling Stóns. Ég mun ekki gera ágreining um þau dæmi. Og tæplega nokkur annar.
- Lífið er ljúft
Ég hef hvergi rekist á eða orðið var við orðróm um að einhverjir aðrir en Ámundi og Bubbi hafi hannað þetta umslag. Það er ekki ágreiningur um þetta. Né heldur að Bubbi Morthens hafi gert myndina á umslaginu. Það var ekki stafkrókur um þessa plötu í frétt Fréttablaðsins né á bloggsíðu minni.
- Dögun
Umslagið varð þannig til: Ég hitti Valdísi Óskarsdóttur sem hafði tekið ljósmyndir af Bubba og einnig uppstilltar og stíleseraðar myndir. Alveg bráðskemmtilegar og flottar myndir. Ási í Gramminu var líka á þessum fundi. Það var ákveðið hvaða myndir yrðu notaðar á umslagið.
Næsta skref var að ég skoðaði nokkrar leiðir til að markaðssetja plötuna og skissaði upp 3 mjög ólíkar framhliðar á umslagi út frá því hvaða leiðir yrðu farnar. Ási og Bubbi tóku ákvörðun um það hvað varð fyrir valinu. Kannski var þetta borið undir Valdísi. Ég hitti hana þó aldrei eftir þennan eina áðurnefnda fund með henni þegar við skoðuðum ljósmyndirnar. Mér bárust aldrei neinar athugasemdir eða óskir frá henni um hönnun umslagsins. Ég fullvann þá skissu sem varð fyrir valinu. Og gríðarmikil ánægja var með þetta umslag.
Til gamans má geta fyrir þá sem aðeins þekkja umslagið af geisladisksútgáfunni að upphaflega var umslagið hannað fyrir Lp vinylplötu. Þar var gyllt upphleypt letur sem skilaði tilteknum hughrifum og vísaði til útfærslu á hágæða konfekti í gjafaumbúðum. Það var reisn yfir því.
Ég vil ekki gera lítið úr þætti Valdísar á umslaginu. Alls ekki. Myndirnar hennar eru frábærar og eiga sinn stóra þátt í því hvað þetta umslag er flott. Og þar með hversu söluvænleg platan var. Hinsvegar kemur skýrt fram á umslaginu og í bókinni 100 bestu plötur rokksögunnar hver hannaði umslagið. Ásamt því hver á ljósmyndirnar á því. Þetta er óumdeilanlega söluhæsta plata Bubba. 26 þúsund seld eintök.
- Frelsi til sölu
Sömu vinnubrögð voru höfð og við Dögun. Nema að þar var valið úr myndum eftir Bjarna Friðriksson. Til gamans má geta að á nærhaldi (innra umslagi) vildi ég gera út á tölvupoppsútfærslu og "space rokk". Hugmyndafræðin var sú að búa til tilfinningu fyrir "future" stemmningu. Enda ferskur tónn ráðandi á plötunni. Á síðustu stundu kom upp ágreiningur varðandi þá leið. Mig minnir að það hafi jafnvel verið byrjað að prenta þá útfærslu þegar - að mig minnir Bubbi - strækaði á það dæmi. Í fljótheitum hannaði ég þá nýtt nærhald sem fékk afskaplega lofsamlega dóma hjá plötugagnrýnendum (sem að öðru jöfnu nefna sjaldnast umslagshönnun). Enda var það flott. Eftir stóð þó á bakhlið umslagsins tilvísun í upphaflega nærhaldið. Sú tilvísun er dálítið út í hött í endanlegri útfærslu.
Þegar umslagið var endurprentað vantaði á það grænan teygðan þríhyrning á bak við nafn Bubba. Sá þríhyrningur þjónaði hlutverki dýptar á uppstillingunni. Umslagið er hálf kjánalegt án þess.
Frelsi til sölu er næst söluhæsta plata Bubba. 22 þúsund seld eintök.
- Kona
Vinnubrögðin voru lík og við Dögun og Frelsi til sölu. Munurinn var þó sá að Inga Sólveig var búin að skissa upp gróft uppkast að framhlið umslagsins. Hún var búsett í Bandaríkjunum. Þess vegna var ekki hægt að hafa neitt samráð við hana um hönnun bakhliðar, textabæklings, plötumiða, letur eða uppsetningu og frágang á pakkanum. Þetta var fyrir daga tölvu og internets.
Mér er fjarri lagi að gera lítið úr framlagi Ingu Sólveigar í hönnun umslagsins. Ég hef ætíð tekið fram að hún átti grunnhugmyndina að umslagsinu. Ljósmynd hennar á framhlið þess setur svo sannarlega sterkan svip á umslagið. Það breytir ekki því að allt annað en framhlið umslagsins var hannað af mér og ég handskrifaði titil plötunnar og nafn Bubba á framhlið þess. Þar fyrir utan stillti ég upp markaðssetningu á Konu eins og Dögun og Frelsi til sölu.
Kona er 3ja söluhæsta plata Bubba. 20 þúsund seld eintök.
Á meðan ég var í auglýsingabransanum kynntist ég einungis rosa mikilli gleði, gargandi fagnaðarlátum og þakklæti fyrir góðan söluárangur, hvort sem um var að ræða á bókum, bílum, sælgæti eða öðru. Það er alveg nýtt að viðbrögð við glæsilegum söluarangri séu ólund og reynt að gera lítið úr minni vönduðu og árangursríku vinnu.
Hér fyrir neðan má sjá skemmtilega unna frétt Pressunnar um þetta hitamál. Það er fjör. Stanslaust fjör. Og rétt skal vera rétt. Ég átta mig ekki á því hvers vegna ég er þarna titlaður "fyrrverandi poppspekúlant":
------------------------------------------
Uhhh...hvað gerði Jens þá?
Bubbi Morthens
Hún var flennistór fréttin í Fréttablaðinu um þátt fyrrverandi poppspekúlantsins Jens Guð í velgengni Bubba Morthens.
Þar sagði um vinsælustu plötur Bubba að allar ættu þær sameiginlegt að Jens Guð hafi ekki aðeins markaðssett þær, heldur séð um að hanna umslögin að mestu eða öllu leyti. Svo segir Jens:
Ég þarf að passa mig á því að hljóma ekki rogginn. En ég var búinn að fara í gegnum nám í grafískri hönnun í Myndlista- og handíðaskólanum. Á þeim tíma var markaðsfræði töluverður hluti af náminu
Á kaffistofunni tóku menn undir orð Jens Guð um að hann yrði að passa sig...enda segir Bubbi á Facebook-inni hjá sér um málið:
Valdís Óskardóttir kvikmyndagerðarkona og klippari hannið umslagið á Dögun - Inga Sólveig Friðjónsdóttir gerði umslagið á Konu. Bubbi Morthens gerðir mynd og hannði umslagið á Lífið er Ljúft ásamt Ámunda Sigurðssyni vini sínum. Sögur af landi gerði og hannaði Ámundi frá a til ö. Þá er ekki mikið eftir handa Jens Guð af þessum fimm söluhæstu plötum. Rétt skal vera rétt
Er nema von að spurt sé hvað Jens hafi þá gert? Einn lesandi Bubba svarar því kannski á Facebookinu þegar hann segir:
Hann hefur örugglega hlustað á plöturnar, eins og við hin ;)
Viðskipti og fjármál | Breytt 13.8.2011 kl. 02:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
12.7.2011 | 23:11
Meðmæli meindýraeyða?
Það var viðtal við meindýraeyði á Bylgjunni. Hann tiltók að viðskiptavinir sínir væru svo ánægðir með árangurinn af þjónustunni að þeir panti hann aftur og aftur. Við þessi ummæli eða meðmæli vakna spurningar um árangurinn. Þetta hljómar í fljótu bragði ekki sem góð meðmæli. Eða hvað?
Rifjast þá upp fyrir mér þegar þekktur pönkari vann nokkur sumur við að "úða skordýraeitri í garða". Þetta set ég innan gæsalappa vegna þess að hann úðaði aðeins vatni á garðana. En hafði fínar tekjur af. Var með marga ánægða fasta viðskiptavini.
Ástæða er til að hvetja fólk til að ganga eftir því að meindýraeyðar sýni tilskilin leyfi og vottorð.
Viðskipti og fjármál | Breytt 13.7.2011 kl. 21:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
7.7.2011 | 12:34
Efnilegir
Mig langaði í malt. Þess vegna lagði ég leið mína í Nóatún. Þar í anddyri stóðu tveir ungir drengir. Líklega um tíu ára eða svo. Kannski aðeins yngri. Annar hélt á Fréttatímanum. Hinn hélt á Finni, fríblaði Morgunblaðsins. Þegar ég gekk framhjá kölluðu drengirnir til mín. Spurðu hvort ég vildi kaupa dagblað. Ég benti þeim á að þetta séu fríblöð og fólk borgi ekki fyrir ókeypis blöð.
Strákarnir svöruðu eitthvað á þá leið að fólk sem komi úr sveitinni til Reykjavíkur viti ekki að þetta séu fríblöð.
Lengra varð samtalið ekki. Ég settist inn í bíl og dreypti á maltinu. Á meðan varð ég vitni að því er aldraður maður stoppaði hjá drengjunum og keypti af þeim eintak af Fréttatímanum.
Ég hugsaði með mér: Þessir guttar eiga eftir að verða formenn VR.
![]() |
Háar sektir fyrir fölsun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.7.2011 | 00:34
Gríðarlegur metnaður hjá Iceland Express
Það er gott að flugfélagið Iceland Express bjóði upp á flug til útlanda. Og stundum til baka líka. Það veitir Icelandair aðhald. Heldur því flugfélagi á tánum. Vonandi með þeim árangri að verð á flugmiðum sé eins lágt og hægt er. Þess vegna er ástæða til að ferðast með Iceland Express (og einstaka sinnum með Icelandair til að það fari ekki heldur á hausinn). Ég veit ekki hverjir eiga þessi flugfélög í dag. Vonandi eru það ekki (miklir) glæpamenn.
Hitt veit ég: Það er gríðarlegur metnaður í gangi hjá Iceland Express þessa dagana. Talsmenn flugfélagsins hafa tilkynnt um nýja kappsfulla stefnu. Hún gengur út á það að í nánustu framtíð verði flugvélar fyrirtækisins á eftir áætlun í 25% tilfella.
Samskonar stefnu ætti að taka víðar upp. Til að mynda hjá strætisvögnum og öðrum áætlunarferðum. Þetta er alvöru áskorun fyrir starfsfólkið. Og fyrir viðskiptavini er þetta eins og gestaþraut. Eða kannski rússnesk rúlletta öllu heldur: Að vita aldrei hvaða ferðir verða á eftir áætlun en vita að líkurnar séu 1 á móti 4.
15.6.2011 | 23:44
Kalli bankans svarað
Nú eru bankarnir farnir að moka út peningum til skuldugs fólks. Það hljómar vel. Landsbankinn reið á vaðið. Fyrir bragðið er hann góði kallinn. Í bili. Eða þannig. Til að sýna góðan lit brá ég mér í Landsbankann og borgaði þar reikning sem ég annars er vanur að borga í öðrum banka. Þá sá ég í Landsbankanum auglýsingu með textanum: "Vinsamlegast deildu skoðunum þínum með okkur. Þitt álit skiptir okkur máli."
Ég brást vel við og deildi skoðun með gjaldkeranum með því að segja: "Mér þykir Abba ógeðslega leiðinleg hljómsveit."
Gjaldkeradaman horfði rannsakandi á mig um leið og hún afgreiddi reikninginn og svaraði hægt: "Ókey."
Þar með gekk ég út í sumarið og leið vel að vita að álit mitt skipti Landsbankann máli.
![]() |
Arion banki endurreiknar lán |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 16.6.2011 kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Í fyrradag sýndi ég hér ljósmyndir af heimili breska þungarokkssöngvarans Ozzys Osbournes, hlaðið rándýrum ljótum húsgögnum og kristalljósakrónum. Ozzy er auðmaður og hefur efni á því að kaupa ljótar ljósakrónur fyrir háar fjárupphæðir. Þú getur hinsvegar útbúið glæsilega ljósakrónu fyrir nánast engan pening.
Það eina sem þú þarft að gera er að geyma krukkurnar undan sýrðu gúrkunum, marmelaðinu og jarðaberjasultunni. Þegar þú átt 15 tómar krukkur þarf aðeins að gera gat á lokið til að koma rafmagnssnúru þar í gegn. Endinn sem verður í krukkunni þarf að vera með perustæði. Snúra með perustæði fæst í Húsasmiðjunni fyrir lítinn pening. Nota skal smáar perur og frekar daufar. Sterkar perur hita krukkuna og sprengja hana. Það viljum við ekki.
Viðskipti og fjármál | Breytt 11.6.2011 kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.6.2011 | 23:59
Bráðskemmtileg matarveisla
Nýverið tapaði kona á Suðurnesjum máli sem veisluþjónusta höfðaði gegn henni. Samið hafði verið um kaup á veisluföngum fyrir tiltekna upphæð. Að mig minnir á 4ða hundrað þúsund. Konan borgaði 100 þúsund kall fyrirfram. Hún var ósátt við veisluföngin og neitaði að borga það sem út af stóð. Taldi sig hafa verið svikna.
Í svona tilfelli tapar kaupandinn alltaf málinu. Þó að konan væri ósátt þá hafði hún fengið meira en 100 þúsund króna virði veisluföng. Til að eiga möguleika á að vinna málið hefði konan þurft að fá óháðan matsmann til að meta raunvirði veislufanganna og borga þá upphæð. Sem gat hugsanlega verið lægri upphæð en samið var um í upphafi. Þetta þarf fólk að vita. Ef það greiðir lægra verð fyrir vöru eða þjónustu en sanngjarnt þykir þá tapar það máli fyrir dómi. Líka þó að fólkið hafi ekki fengið þau veisluföng og þá þjónustu sem um var samið. Til að vinna svona mál þarf fólk að hafa borgað "sanngjarna" upphæð, studda mati óháðs aðila. Sá sem sækir málið tapar því.
Það er dýrt að tapa svona máli. Miklu dýrara en að borga sanngjarnt verð. Málskostnaður þess sem tapar máli telur nokkur hundruð þúsundkalla.
Nú í kjölfar nýafstaðinna fermingarveislna og í upphafi ættarmóta er gaman að rifja upp eftirminnilega veislu. Sú var haldin skömmu eftir bankahrun og veisluþjónustan klárlega í þröng.
Samið var um þjóðlegan aðalrétt, lambakjöt í karrý, og súkkulaðitertu með rjóma sem desert. Þegar til kom var á borðum ekki aðeins lambakjöt í karrý heldur einnig kjúklingapottréttur. Eini gallinn var sá að karrýkjötið var af skornum skammti. Góðu fréttirnar voru þær að nóg var til af kjúklingapottréttinum.
Eins og venja er þegar hátt í hundrað manns koma saman til að snæða mat fór fólk að veisluborðinu í skipulagðri röð eftir því hvar borð þess voru staðsett. Karrýrétturinn kláraðist fljótt. Fólkið á síðustu borðunum hafði ekki um annað að velja en kjúklingapottréttinn. Hann dugði öllum. En sumir horfðu öfundaraugum á þá sem náðu karrýkjötinu.
Skýringin sem var gefin var sú að kokkinn hefði misminnt hvað hann átti mikið af lambakjöti á lager. En reddaði málinu með kjúklingapottréttinum.
Næst var röðin komin að súkkulaðitertunni með rjóma. Þá kom upp annað vandamál. Það hafði gleymst að baka súkkulaðitertur og kaupa rjóma. Þessu var reddað með því að bjóða upp á konfekt. Einn mola á mann. Stór skál með konfektmolum var látin ganga á milli borða. Áður en röðin kom að síðustu borðum var konfektið á þrotum. Gamansamur maður spurði þjóninn hvort hann gæti skorið síðasta konfektmolann í nokkra bita svo allir fengju smá konfekt. Þjónninn kunni ekki að meta brandarann og sagði með þjósti að einhverjir hefðu greinilega tekið fleiri en einn konfektmola. Molarnir hefðu verið taldir og áttu að vera jafn margir gestunum. Þar með var það útrætt.
Gosdrykki keyptu matargestir sérstaklega á barnum. Einkum voru það krakkar sem sóttu í gosdrykkina. Einn bað um sogrör. Aðrir krakkar brugðu við skjótt og báðu einnig um sogrör. Þjónninn brást vel við því. Hann tók nokkur rör og klippti þau með skærum í tvennt. Hvert barn fékk hálft rör sem var of stutt fyrir glösin. Þjónninn upplýsti krakkana um að þeir yrðu að passa upp á rörin sín því þeir myndu ekki fá annað rör.
Eftir vel heppnaða matarveisluna sóttu gestir út í gott veðrið. Utan við húsið, til hliðar, er stór trépallur. Þar safnaðist fólkið saman, spjallaði og söng nokkur lög. Einhverjir sóttu sér bjórdós í bíla sína. Aðrir keyptu bjór á barnum og báru út. Inni á barnum voru spiluð fjörleg íslensk dægurlög. Það er hægt að opna hurð á barnum út á trépallinn.
Þar sem allir voru komnir út bað ég þjóninn að opna út á trépallinn til að músíkin bærist þangað út. Mér var svarað: "Það er ekki mitt hlutverk að spila músík fyrir fólk sem kaupir ekki bjór á barnum heldur drekkur bjór úr dósum sem það kemur sjálft með."
Ég benti honum á að margir væru að kaupa bjór á barnum. Þjóninn svaraði: "Þá getur það fólk verið hérna inni ef það vill heyra músík."
Skömmu síðar var húsinu lokað með þeim orðum að staðurinn ætlaði ekki að halda opinni salernisaðstöðu fyrir fólk sem væri að drekka úr sínum eigin bjórdósum í stað þess að kaupa á barnum.
Gleðskapurinn hélt þó áfram þarna fyrir utan. Allir skemmtu sér vel og sýndu aðstæðum fullan skilning. Þetta var, jú, í kjölfar bankahrunsins og veisluþjónustur urðu að horfa í hverja krónu. Og gert var upp við veisluþjónustuna eins og tilboð hennar hljóðaði fyrir lambakjöt í karrý og súkkulaðitertu með rjóma. Allir voru kátir og glaðir. Nema kannski þjónninn sem vildi selja meira á barnum.
Viðskipti og fjármál | Breytt 3.6.2011 kl. 01:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.5.2011 | 22:24
Bráðnauðsynlegt að vita um auglýsingatexta
Þessa dagana eru Íslendingar að leggja drög að því hvað skuli gera og hvert skuli fara í sumarfríinu. Samtímis eru dagblöð og tímarit full af auglýsingum um freistandi gististaði: Hótel, gistihús, tjaldstæði, húsbílaaðstöðu og þess háttar. Nánast öllum þessum stöðum er lýst sem "notalegum" í fögru umhverfi og með mörgum gönguleiðum. Þetta eru klisjur sem segja í raun ekki neitt. Engin gistiþjónusta er svo illa staðsett að ekki megi rölta hingað og þangað umhverfis hana. Hvarvetna á Íslandi má benda á eitthvað í umhverfi sem telst fagurt.
Það eru aðrar lýsingar sem taka þarf með fyrirvara. Ekki er allt sem sýnist. Hér eru nokkur dæmi:
"Kyrrð og ró." Þetta þýðir: "Hér er allt steindautt. Ekkert um að vera."
"Persónulegt viðmót." Þetta þýðir: "Við erum rosalega forvitin. Við hellum yfir gesti okkar spurningaflóði. Spyrjum hvaðan þeir komi, hverra manna þeir séu, við hvað þeir vinni. Gestirnir fá ekki stundlegan frið fyrir forvitni okkar."
"Heimabakað brauðmeti." Þetta þýðir: "Við erum svo hrikalega afskekkt að það er engin verslun og ekkert bakarí í akstursfjarlægð."
"Byggingin hefur fengið að halda uppruna sínum." Þýðir: "Ekkert aðgengi fyrir fatlaða. Engin lyfta. Það marrar í öllum gólfum og stigum. Húsakynni eru þröng og óþægileg, herbergi lítil..."
"Umhverfið geymir náttúruperlur sem bíða þess að vera uppgötvaðar." Þýðir: "Við vitum ekki um neitt merkilegt í grenndinni."
"Spennandi matseðill." Þýðir: "Við vitum aldrei hvað verður í matinn. Við notum bara það hráefni hverju sinni sem lengst er síðan fór fram yfir síðasta söludag."
"Veitingar á sanngjörnu verði." Þýðir: "Þið eigið nógan pening fyrst þið hafið efni á að ferðast um landið. Það er sanngjarnt að þið borgið rausnarlega fyrir veitingarnar."
"Fjölskyldurekið fyrirtæki." Þýðir: "Það helst aldrei neinn í vinnu hjá okkur. Við verðum að sjá um þetta sjálf."
"Gestir geta fengið sér hressingu þegar þeir vilja." Þýðir: "Það er kóksjálfsali í anddyrinu. Lítil kókdós kostar 300 kall."
"Aðgengi að hundum." Þýðir: "Það þýðir ekkert að kvarta þegar hundarnir bíta þig. Þú vissir að það væru hundar á bænum."
.
Viðskipti og fjármál | Breytt 30.5.2011 kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.5.2011 | 23:21
Svívirðileg framkoma
Velvakandi er einhvert skemmtilegasta og áhugaverðasta lesefni í Morgublaðrinu. Þar benda lesendur á sitthvað sem betur má fara. Sumt á brýnt erindi og vekur til umhugsunar. Á dögunum birtist þar lesendabréf frá Guðnýju nokkurri. Hún las auglýsingu frá verslun á Laugarveginum. Henni varð starsýnt á texta þar sem gestum var lofað kaffiglasi og kökubita. Af bréfinu má ráða að Guðný hafi vaknað fyrir allar aldir, lagt land undir fót og hangið á hurðarhúninum þegar verslunin var opnuð um morguninn. Inn komin fann Guðný hvorki kaffiglas né kökubita - þrátt fyrir að leita vel og lengi.
Eðlilega gerði Guðný athugasemd við starfsfólkið. Það kom fát á fólkið. Það kannaðist við að kökubiti væri til staðar, einhversstaðar í bakherbergi, en hafði ekki rænu á að sækja kökubita handa henni. Guðný snéri sér umsvifalaust til eiganda verslunarinnar. Sú svaraði því til að það sé ekki venja að fólk mauli sætabrauð fyrir hádegi. Þar við sat. Ekki fylgdi sögunni hvort Guðný lagði á sig ferðalagið frá Keflavík eða Selfossi eða Borgarnesi til að fá kökubita og kaffisopa í versluninni. En full ástæða er til að taka undir með henni að þetta sé svívirðileg framkoma.
Það er fyrir neðan allar hellur að narra fólk landshorna á milli með loforði um kaffiglas og kökubita án þess að taka fram að það standi aðeins til boða eftir hádegi.
Viðskipti og fjármál | Breytt 8.5.2012 kl. 02:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)