Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
18.3.2021 | 23:08
Undarlegt samtal í banka
Ég var að bruðla með peninga í bankaútibúi. Það var tuttugu mínútna bið. Allt í góðu með það. Enginn var að flýta sér. Öldruð kona gekk hægum skrefum að gjaldkera. Hún tilkynnti gjaldkeranum undanbragðalaust hvert erindið var. "Ég ætla að kaupa peysu hjá þér," sagði hún. Gjaldkerinn svaraði: "Við seljum ekki peysur. Þetta er banki." Konan mælti áður en hún snérist á hæl og gekk burt: "Já, ég veit það. Ég hélt samt að þið selduð peysur."
Viðskipti og fjármál | Breytt 19.3.2021 kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
5.3.2021 | 00:10
Söluhrun - tekjutap
Sala á geisladiskum hefur hrunið, bæði hérlendis og erlendis. Sala á geisladiskum hérlendis var 2019 aðeins 3,5% af sölunni tíu árum áður. Sala á tónlist hefur þó ekki dalað. Hún hefur að stærstum hluta færst yfir á netið.
98% af streymdri músík á Íslandi kemur frá sænska netfyrirtækinu Spotify. Alveg merkilegt hvað litla fámenna 10 milljón manna þorp, Svíþjóð, er stórtækt á heimsmarkaði í tónlist.
Tæpur þriðjungur Íslendinga er með áskrift að Spotify. Þar fyrir utan er hægt að spila músík ókeypis á Spotify. Þá er hún í lélegri hljómgæðum. Jafnframt trufluð með auglýsingum.
Annar stór vettvangur til að spila ókeypis tónlist á netinu er youtube.com. Þar eru hljómgæði allavega.
Höfundargreiðslur til rétthafa eru rýrar. Það er ókostur. Þetta þarf að laga.
Ókeypis músík hefur lengst af verið stórt dæmi. Ég var í barnaskóla á Hólum í Hjaltadal á sjöunda áratugnum (6-unni). Þar var líka Bændaskóli. Nemendur í honum áttu svokölluð real-to-real segulbandstæki. Einn keypti plötu og hinir kóperuðu hana yfir á segulbandið sitt.
Nokkru síðar komu á markað lítið kassettusegulbandstæki. Flest ungmenni eignuðust svoleiðis. Einn kosturinn við þau var að hægt var að hljóðrita ókeypis músík úr útvarpinu. Það gerðu ungmenni grimmt.
Með kassettunni varð til fyrirbærið "blandspólan". Ástríðufullir músíkunnendur skiptust á safnspólum. Þannig kynntu þeir fyrir hver öðrum nýja spennandi músík. Síðar tóku skrifaðir geisladiskar við því hlutverki.
Sumir rétthafar tónlistar skilgreina ókeypis tónlistarspilun sem tekjumissi. Það er rétt að sumu leyti. Ekki öllu. Þegar ég heyrði nemendur Bændaskólans á Hólum blasta Bítlaplötum þá blossaði upp löngun í Bítlaplötur. Sem ég síðar keypti. Allar. Fyrst á vinyl. Svo á geisla.
Ég veit ekki hvað litla kassettutækið sem hljóðritaði lög úr útvarpinu skilaði kaupum á mörgum plötum. Þær voru margar. Sem og blandspólurnar.
Stór hluti þeirra sem spilar músík á Spotify og youtube.com kynnist þar músík sem síðar leiðir til plötukaupa. Eða mætingu á hljómleika flytjenda. Á móti kemur að mörg lög sem menn spila á Spotify og youtube.com hefði hlustandinn aldrei keypt á plötu. Fólk tékkar á ótal lögum og flytjendum án þess að heillast af öllu. Þess vegna er rangt að reiknað tap á höfundargreiðslum sé alfarið vegna spilunar á öllum lögum.
Netveiturnar hafa ekki drepið tónlist í föstu formi. Vinyllinn er í stórsókn. Svo brattri að hérlendis hefur sala á honum átjánfaldast á níu árum. Sér þar hvergi lát á.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.2.2021 | 19:10
Viðgerðarmaðurinn Albert
Hann er þúsundþjalasmiður. Sama hvað er bilað; hann lagar það. Engu skiptir hvort heimilistæki bili, húsgögn, pípulagnir, rafmagn, tölvur, bílar eða annað. Hann er snöggur að kippa hlutunum í lag. Hann smíðar, steypir, flísaleggur, grefur skurði, málar hvort sem er utan eða innan húss.
Um tíma bjuggum við á sama gistiheimili. Þar þurfti af og til að dytta að hinu og þessu. Þá var viðgerðarmaðurinn Albert í essinu sínu. Á gistiheimilinu bjuggu einnig hjón frá Kambódíu. Samkomulagið var gott. Ásamt öðrum íbúum vorum við eins og eins stór fjölskylda. Svo bar við að viðgerðarmaðurinn Albert og ég sátum í herbergi kambódísku hjónanna. Hjör á stórum fataskáp þeirra hafði gefið sig. Hurðin dinglaði kengskökk. Hjónin báru sig illa undan þessu.
Viðbrögð viðgerðarmannsins Alberts voru að sitja í sínum stól og líta í rólegheitum í kringum sig. Hann kom auga á járntappa af gosflösku. Teygði sig eftir honum. Um leið dró hann upp svissneskan hníf. Eða réttara sagt eftirlíkingu að svissneskum hníf. Með hnífnum hnoðaðist hann á tappanum án þess að skoða hjörina. Að skömmum tíma liðnum teygði hann sig í hana. Eftir smástund var hurðin komin í lag. Fataskápurinn var eins og nýr. Viðgerðarmaðurinn Albert stóð ekki upp af stól á meðan viðgerðarferlið stóð yfir.
Viðskipti og fjármál | Breytt 15.5.2021 kl. 15:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
12.2.2021 | 21:33
Veitingaumsögn
- Réttur: International Basic Burger
- Veitingastaður: Junkyard, Skeifunni 13A í Reykjavík
- Verð: 1500 kr.
- Einkunn: ** (af 5)
Hamborgarinn er vegan en ekki úr nautakjöti. Samt bragðast hann eiginlega eins og grillaður nautakjötsborgari. Alveg ljómandi. Á matseðlinum segir að hann sé reiddur fram með tómatssósu, sinnepi, lauk og súrsuðum gúrkum. Ég sá ekki né fann bragð af sinnepi. Né heldur lauk. Ég hefði gjarnan vilja verða var við sinnep og lauk. Hinsvegar voru gúrkusneiðarnar að minnsta kosti tvær.
Borgaranum fylgdu franskar kartöflur og kokteilsósa. Á matseðlinum segir að sósa sé að eigin vali. Mér var ekki boðið upp á það. Kokteilsósa er allt í lagi. Verra er að hún var skorin við nögl. Dugði með helmingnum af frönskunum. Fór ég þó afar sparlega með hana. Á móti vegur að frönskuskammturinn var ríflegur.
Junkyard er lúgusjoppa við hliðina á Rúmfatalagernum. Á góðviðrisdegi er aðstaða fyrir fólk að setjast niður fyrir utan og snæða í ró og næði.
Á matseðlinum er mynd af hamborgara sem er mjög ólíkur raunverulegum International Basic Burger. Við gætum verið að tala um vörusvik. Auglýsingaborgarinn er til að mynda með osti og bólginn af meðlæti.
Viðskipti og fjármál | Breytt 13.2.2021 kl. 19:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
6.2.2021 | 21:09
Hverjir selja ljótu húsin?
Um allt land eru ljót hús. Þau eru aldrei til sölu. Nema parhús í Kópavogi. Það var til sölu. Eftir fréttaflutning af því var togast á um það. Fyrstur kom. Fyrstur fékk. Í auglýsingum fasteignasala eru öll hús og allar íbúðir á söluskrá þeirra ýmist fallegar og rúmgóðar eða sérlega fallegar og glæsilegar. Sumar eru bjartar og virkilega glæsilegar og snyrtilegar. Allar eru vel staðsettar. Jafnvel tekið fram að stutt sé í allar áttir. Gott útsýni eða eða sérlega gott útsýni. Þá eru þær vel skipulagðar eða bjóða upp á ýmsa möguleika.
Sumt í fasteignaauglýsingum kemur eins og þruma úr heiðskýru lofti. Til að mynda þegar tekið er fram að þvottaaðstaða sé í íbúðinni. Kætast þá börnin smá yfir að þurfa ekki að fara með allan þvott í þvottahús langt út í bæ.
Einnig þegar tekið er fram að gólfefni fylgi með. Hvernig er íbúð án gólfefnis? Svo er það aðal sölutrikkið: Mynddyrasími fylgir. Húsið er til sölu á 120 milljónir en án mynddyrasíma. Nei, jú, hann fylgir með. Sala!
Viðskipti og fjármál | Breytt 7.2.2021 kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
8.1.2021 | 00:59
Gleyminn arkítekt
2007 varð uppi fótur og fit á bæjarráðsfundi Hvergerðisbæjar. Ástæðan var sú að bænum barst óvænt reikningur upp á 6 milljónir króna. Reikninginn sendi arkitekt sem gengur undir nafninu Dr. Maggi. Hann var að rukka fyrir hönnunarvinnu sem innt var af hendi 26 árum áður.
Við athugun á bókhaldi kom í ljós að Maggi hafði aldrei rukkað fyrir vinnuna og því aldrei fengið greitt fyrir hana. Vandamálið var að krafan var fyrnd fyrir löngu síðan lögum samkvæmt. Bænum var ekki heimilt að borga reikning sem fyrningarlög voru búin að ómerka.
Þegar þetta allt lá fyrir komst bæjarráð samt að þeirri niðurstöðu að um sanngirnismál væri að ræða. Á einhvern hátt yrði að borga kallinum fyrir sína vinnu. Með nánu samráði við Ölfusinga tókst að finna einhverja leikfléttu til komast framhjá fyrningarlögum.
En hvers vegna rukkaði Maggi ekki sínar 6 milljónir í 26 ár? Við erum að tala um upphæð sem er að minnsta kosti tvöfalt hærri á núvirði. Skýring hans var: "Ég gleymdi því."
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
28.10.2020 | 21:51
Hve langt á að ganga?
Ég er frekar andvígur Covid-19. Eða eiginlega alveg andvígur kvikindinu. Ég hallast að viðhorfi Kára Stefánssonar um að gripið verði til harkalegra varna. Jafnvel að öllum verslunum verði lokað tímabundið - nema matvöruverslunum. Vissulega sársaukafull aðgerð fyrir marga. Á móti vegur að dragist Covid-faraldurinn á langinn þá mun hann valda ennþá fleirum harm. Þetta er eins og valið á milli þess að rífa sársaukafullt af sér plástur hægt og bítandi eða kippa honum af og finna sársauka í 1 sekúndu.
Einu mótmæli ég harðlega: Það er lokun lyfjaverslana. Ég þarf að kaupa þar mínar daglegu gigtarpillur. Ég ætla að fleiri þurfi nauðsynlega að kaupa lyf.
![]() |
Vill loka fyrir helgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.8.2020 | 00:06
Tjónaskýrslur
Starfsfólk tryggingafélaga heyrir stundum einkennilegar skýringar á tjónum. Sumar sprenghlægilegar - þó að tjón séu dapurleg fyrirbæri að öllu jafna. Hér eru dæmi:
"Ég var með kalkún í ofninum. Ég ætlaði að pensla hann. Þegar ég opnaði ofninn var kalkúninn þyngri en ég hélt. Hann flaug út á gólf. Sem betur fer var ég búin að ryksuga. Ég setti hann aftur í ofninn og kláraði matreiðsluna. Þetta var góð máltíð en teppið er ónýtt."
"Ég var búinn að keyra bílinn minn í 40 ár þegar ég sofnaði fram á stýrið."
"Ég gaf syni mínum 75 þúsund kall í jólagjöf sem ég henti í ógáti í ruslatunnuna."
"Ósýnilegur bíll kom út úr buskanum, skall á minn bíl og hvarf."
"Kærastan kyssti mig, ég missti stjórn á bílnum og vaknaði á sjúkrahúsi."
"Ég hélt að bílrúðan væri niðri en komst að öðru þegar ég rak hnefann út um rúðuna."
"Þegar ég kom heim þá keyrði ég inn í vitlaust hús og lenti í árekstri við tré sem ég á ekki."
21.8.2020 | 00:04
Afmælisveisla aldarinnar
Guddi ákvað að halda upp á sjötugsafmæli sitt með stæl. Hann talaði um það sem afmælisveislu aldarinnar. Hann bauð sínum bestu vinum. Þeir voru foreldrar mínir og hjónin á Hólkoti í Unadal í Skagafirði. Fleiri yrðu ekki í veislunni. Þeir myndu bara flækjast fyrir. Veislan yrði á Hótel Mælifelli á Sauðárkróki. Ekkert til sparað: Dýrustu forréttir, dýrustu aðalréttir, dýrustu desertar, dýrasta koníakið, dýrustu vindlarnir.
Guddi stóð við sitt og stýrði veisluhöldum með glæsibrag. Eftir desertinn pantaði Guddi dýrustu vindla á línuna. Gestirnir afþökkuðu vindlana. Hann fékk sér hinsvegar rándýran vindil. Þjónninn benti honum á að bannað væri að reykja vindil inni. Guddi sýndi því skilning. Sagðist bara bregða sér út og reykja vindilinn þar. Sem hann og gerði. Nema hann skilaði sér ekki aftur inn.
Þegar ekkert bólaði á Gudda í langan tíma tóku gestir að ókyrrast. Að lokum fór pabbi út að leita að honum. Þar var enginn Guddi.
Sem betur fer voru gestirnir með ávísanahefti og gátu gert upp við Mælifell. Annað hefði orðið vandræðalegt.
Næstu misseri varð Gudda tíðrætt um veislu aldarinnar. Sagði hverjum sem heyra vildi frá henni. Ekki síst þótti honum gaman að rifja upp við gestina og spyrja hvort að þetta hafi ekki verið veisla aldarinnar. Mamma spurði hvers vegna hann hafi stungið af úr veislunni. Guddi svaraði: "Veislan var búin og þá fóru náttúrulega allir heim til sin."
Viðskipti og fjármál | Breytt 26.8.2020 kl. 18:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
8.7.2020 | 22:28
Keypti í ógáti 28 bíla
Eldri Þjóðverji hugðist uppfæra heimilisbílinn; skipta gamla bensínsvolgraranum út fyrir lipran rafmagnsbíl. Hann hélt sig innanhúss vegna Covid-19. Nógur tími var aflögu til að kynna sér hver væru heppilegustu kaup. Þegar hann var kominn með niðurstöðu vatt hann sér í að panta bílinn á netinu.
Tölvukunnátta er ekki sterkasta hlið karlsins. Allt gekk þó vel til að byrja með. En þegar kom að því að smella á "kaupa" gerðist ekkert. Í taugaveiklun margsmellti hann. Að lokum tókst þetta. Eiginlega of vel. Hann fékk staðfestingu á að hann væri búinn að kaupa bíl. Ekki aðeins einn bíl heldur 28. 1,4 milljónir evra (220 milljónir ísl. kr.) voru straujaðar af kortinu hans.
Eðlilega hafði kauði ekkert að gera við 28 bíla. Bílaumboðið sýndi því skilning og féllst á að endurgreiða honum verð 27 bíla. Tók hann þá gleði sína á ný og staðan á korti hans hrökk í betra hrof.
Viðskipti og fjármál | Breytt 12.7.2020 kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)