Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Óþægilega þröngar skorður

  Mér áskotnaðist "Cashout Ticket" frá Gullnámunni.  Gullnáman er spilavíti rekið af góðmennsku af Happdrætti Háskóla Íslands (HHÍ).  Upphæð miðans er kr. 25,-.  Það er metnaðarlítil upphæð.  Þess vegna datt mér í hug að hressa upp á upphæðina,  Bæta nokkrum núllum við.  Ég gerði það oft - með góðum árangri - á dögum ávísana. 

  Þá kom reiðarslag.  Ég kíkti á bakhlið miðans.  Þar stendur skýrum stöfum:  Miðar eru ógildir ef þeir eru falsaðir eða þeim hefur verið verið breytt. 

  Hver er munur á breyttum miða og fölsuðum?  

gjaldeyrir


Furðuleg sölubrella

  Á föstudaginn bauð 10-11 landsmönnum í kaffi- og kakóveislu.  Það gerði fyrirtækið með 2ja dálka x 40 cm auglýsingu í grænum lit í Fréttablaðinu (einkennislit fyrirtækisins).  Hvað með það?  Vel boðið.  Nema hvað.  Svo einkennilega vill til að fyrirtækið 10-11 er ekki til.  Þetta var vinsæl matvöruverslun.  Hún vann sér til frægðar að vera dýrasta búð landsins.  Svo breyttist hún í Kvikk og Krambúðina.  Þá lækkaði verðið um 25% með einu pennastriki.  Svo einfalt og auðvelt var það.  

  Þetta var hrekkur.  Langt frá 1. apríl.  Kaffiþyrstur kunningi minn ók til Mosfellsbæjar og Voga á Vatnsleysuströnd.  Honum fannst hann vera hafður að fífli.  Hvergi var ókeypis kaffi að finna.  Reyndar þurfti þetta ekki til að hann væri eins og hafður að fífli.  Hann er fífl. 

  Annað:  Rory and The Hurricanes voru stóra nafnið í Liverpool á undan Bítlunum.  Miklu munaði að Bítlarnir sömdu sín eigin lög.  Góð lög.   Bestu lög rokksögunnar.  Að auki tefldu Bítlarnir fram tveumur bestu rokksöngvurum dægurlagaheims.  Ringo var trommari Hurrycanes.  Já, og síðar Bítlanna.  Þar veðjaði hann á réttan hest.  Mestu skipti að honum þótti Bítlarnir vera miklu fyndnari og skemmtilegri en liðsmnenn Hurrycanes.  Að vera í Bítlunumn var eins og að vera í skemmtiþætti Monty Python.  Fyndnustu brandarar í heimi á færibandi.     

 


Ósvífin sölubrella

  "Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?" spyr Jón Hreggviðsson í Íslandsklukkunni.  Eðlileg spurning sem margir hafa spurt sig.  Og aðra.  Ennþá brýnni er spurningin:  Hvenær er dýrari vara ódýrasta varan? 

  Í Fréttablaðinu í dag er heilsíðu auglýsing í rauðbleikum lit.  Þar segir í flennistórum texta:  "LÆGSTA VERÐIÐ Í ÖLLUM LANDSHLUTUM". 

  Í litlum og illlæsilegum neðanmálstexta má með lagni stauta sig framúr fullyrðingunni:  "Orkan býður lítrann á lægsta verðinu í öllum landshlutum - án allra skilyrða." 

  Auðséð er á uppsetningu að auglýsingin er ekki hönnuð af fagmanni.  Líka vegna þess að fagmaður veit að bannað er að auglýsa með hæsta stigs lýsingarorði.  Líka vegna þess að ekki má ljúga í auglýsingum. 

  Ég átti erindi um höfuðborgarsvæðið.  Ók framhjá nokkrum bensínstöðvum Orkunnar (Skeljungs).  Þar kostaði bensínlítrinn kr. 216,80,-  Nema á Reykjavíkurvegi.  Þar kostaði hann kr. 188.8,-.  Sú stöð var merkt í bak og fyrir textanum:  "Ódýrasta eldneytisverð á landinu". 

  Ég var nokkuð sáttur við það.  Þangað til ég ók framhjá Costco.  Þar kostaði bensínlítrinn kr. 180.9,-  


Illa farið með góðan dreng

  Ég rekst stundum á mann.  Við erum málkunnugir.  Köllum hann Palla.  Hann býr í lítill blokk.  Í sama stigagangi býr vinur hans.  Köllum hann Kalla.  Þeir eru hálfsjötugir einstæðingar.  Fyrir bragðið sækja þeir í félagsskap hvors annars. Fá sér stundum bjór saman; tefla,  skreppa í bingó og svo framvegis.

  Í hvert sinn sem ég rekst á Palla hefst samtalið á þessum orðum:  "Ég er alveg að gefast upp á Kalla."  Í kjölfar kemur skýring á því.  Í gær var hún svona:

  "Hann bauð mér út að borða.  Þegar við héldum af stað bað hann mig um að aka að Bæjarins bestu.  Það var allt í lagi.  Mér þykir pylsur góðar.  Hann pantaði tvær pylsur með öllu og gos.  Ég hélt að önnur væri handa mér og hann myndi spyrja hvernig gos ég vildi.  En,  nei,  pylsurnar voru handa honum.  Ég pantaði pylsu og gos.  Þegar kom að því að borga sqagði hann:  "Heyrðu,  ég gleymdi að taka veskið með mér.  Þú græjar þetta."  Ekki í fyrsta skipti sem hann leikur þennan leik.  Þegar við vorum búnir með pylsurnar sagðist hann verða að fá eitthvað sætt á eftir.  Við keyrðum að konditorí-bakaríi.  Ég keypti handa okkur tertusneiðar og heitt súkkulaði.  Hann kvartaði undan tertunni.  Skóf utan af henni allt besta gumsið og borðaði það.  Skildi sjálfa tertukökuna eftir.  Lét mig síðan kaupa aðra og öðruvísi tertusneið."

  Fyrir mánuði rakst ég á Palla.  Þá sagði hann:

  "Ég er alveg að gefast upp á Kalla.  Um daginn stakk hann upp á því að við myndum halda upp á jólin með stæl.  Gefa hvor öðrum lúxus-jólagjafir.  Samt eitthvað gagnlegt sem við myndum hvort sem er kaupa sjálfir fyrr eða síðar.  Ég var tregur til.  Enda auralítill.  Honum tókst að tala mig til með þeim rökum að hann væri búinn að kaupa góða jólagjöf handa mér sem ég ætti eftir að nota oft.  Er ég samþykkti þetta sagðist hann vera búinn að velja sér jólagjöf frá mér.  Það væri tiltekinn snjallsími.  Mér þótti heldur mikið í lagt.  Um leið fékk ég þá flugu í hausinn að hann væri búinn að kaupa samskonar síma handa mér.  Ég hafði stundum talað um að fá mér snjallsíma.  Flestir eru með svoleiðis í dag.  Á aðfangadag tók ég upp pakkann frá honum.  Í honum voru tíu þvottapokar úr Rúmfatalagernum sem kosta 99 kr. stykkið"           

pylsur terta


EazyJet um Ísland og Íslendinga

  Á dögunum fór ég á flandur með ensku flugfélagi, EazyJet.  Skrapp til Edinborgar í Skotlandi.  Skömmu síðar aftur til Íslands.

  Í sætisvasa fyrir framan mig í flugvélinni fann ég bækling prentaðan í lit á pappír.  Yfirskrift hans er EazyJet Traveller. Þar má finna fróðleik um þjónustu flugfélagsins.  Líka auglýsingu um gott verð á skóm í tiltekinni verslun.  

  Skemmtilegasta lesefnið er tveggja blaðsíðna viðtal við íslenskan uppistandara. Ara Eldjárn.  Af framsetningu þess má ráða að Ari sé vinsæll og virtur uppistandari í Bretlandi.  Reyndar veit ég að svo er.

  Í viðtalinu dregur hann upp spaugilega - en góðlátlega - mynd af Íslendingum.  Hárfín og bráðfyndin kímnigáfan hittir glæsilega í mark. Stöngin inn með látum! 

  Gaman var að sjá hundruð flugfarþega frá öllum heimshornum lesa um Ara - og vita að mörgum sinnum fleiri eigi eftir að gera það.

  Í sama bæklingi er grein sem ber (á ensku) yfirskriftina "3 topp húðflúrstofur í Reykjavík".  Þar eru taldar upp nokkrar stofur og lýsing á þeim.  Þessar stofur eru: 

1.  Black kross

2.  Apollo ink

3.  Reykjavik ink

  Blaðamaður EasyJet hlýtur að hafa reynslu af þessum stofum.  Einnig fleiri reykvískum stofum fyrst að hann getur raðað upp í toppsæti. 

  Íslenskir húðflúrarar eru þeir bestu í heimi.  Ég skrifa af reynslu til margra ára.  Minn frábæri húðflúrari er Svanur Guðrúnarson í Lifandi List tattoo studio.  Hann er ekki á listanum yfir bestu reykvísku stofur vegna þess að stofan hans er í Hafnarfirði.  

 


Breskar sígarettur

  Í nýlegri dvöl minni í Skotlandi vakti athygli að allt þarlent reykingafólk virtist reykja sömu sígarettutegund.  Og það tegund sem ég kannaðist ekki við.  Eðlislæg forvitni var vakin.  Ég gerðist svo djarfur að spyrja reykingamann út í málið.  Þá var ég upplýstur um að í Bretlandi séu allir sígarettupakkar alveg eins.  Það eru lög.  Furðulög.  Rökin eru þau að ef að fólk veit ekki hvort að það er að reykja Camel eða Salem þá hættir það að reykja og maular gulrætur í staðinn. 

sígarettur


Ólíkt hafast þeir að

  Í Namibíu skemmtir fólk sér við leik og söng.  seðlarseðlasvarthol


Danir óttast áhrif Pútins í Færeyjum

  Danski forsætisráðherrann,  Mette Frederiksen,  er nú í Færeyjum.  Erindið er að vara Færeyinga við nánari kynnum af Pútin.  Ástæðan er sú að danskir fjölmiðlar hafa sagt frá þreifingum um fríverslunarsamning á milli Færeyinga og Rússa.  Rússar kaupa mikið af færeyskum sjávarafurðum.  

  Ótti danskra stjórnmálamanna við fríverslunarsamninginn snýr að því að þar með verði Pútin komninn inn í danska sambandsríkið.  Hann sé lúmskur, slægur og kænn.  Hætta sé á að Færeyingar verði háðir vaxandi útflutningi til Rússlands.  Rússar gætu misnotað þá stöðu.  Heppilegra væri að dönsku sambandsríkin þjappi sér betur saman og hafi nánara samráð um svona viðkvæm mál.

  Þetta er snúið þar sem Danir eru í Evrópusambandinu en Færeyingar og Grænlendingar ekki.  

pútín     


Dularfullt í Ikea

  Ég átti erindi í Ikea.  Eða réttara sagt gerði ég mér upp erindi þangað.  Ég átti leið um Hafnarfjörð og fékk þá snilldar hugmynd í kollinn að koma við í Ikea og kíkja á veitingastaðinn á annarri hæð.  Ég tek fram og undirstrika að ég hef engin tengsl við Ikea.  Kann hinsvegar vel við verð og vöruúrval fyrirtækisins.

  Eftir að hafa keypt veitingar settist ég sæll og glaður niður við borð.  Á næsta borði var diskur með ósnertum hangiskanka,  meðlæti og óopnaðri Sprite-flösku.  Enginn sat við borðið.  

  Fyrst datt mér í hug að eigandi máltíðarinnar væri að sækja sér bréfaþurrku eða eitthvað annað.  En ekkert bólaði á honum.  Ekki þær 20 mínútur sem ég dvaldi á staðnum.  Þetta er skrýtið.  Ég velti fyrir mér möguleikum:  Hvort að viðkomandi hafi verið geimvera sem var geisluð upp áður en máltíðin var snædd.  Eða hvort að minnisglöp (Alzheimer) hafi komið við sögu.  Þriðji möguleikinn er að útlendur ferðamaður hafi keypt matinn.  Tilgangurinn hafi ekki verið að borða hann heldur taka ljósmynd af honum til að pósta á Fésbók;  sýna vinum og vandamönnum hvernig séríslensk máltíð lítur út.  Hlutverk gosdrykksins hafi þá verið það eitt að sýna stærðarhlutföll. Eða hvað?

skanki    


Hótel Jórvík

  Á tíunda áratug síðustu aldar átti ég erindi til Þórshafnar á Langanesi.  Var með skrautskriftarnámskeið þar.  Gisti á Hótel Jórvík.  Hótelstýran var hölt öldruð kona.  Hún var hálf heyrnarlaus.  Lá því hátt rómur.  Auk mín dvöldu á hótelinu flugmaður og dúettinn Súkkat. 

  Ég kom mér fyrir í hótelinu síðdegis á föstudegi; hafði herbergisdyrnar opnar.  Ég heyrði að hótelsíminn hringdi.  Kerla svaraði.  Viðmælandinn var auðheyranlega að bjóðast til að hjálpa til.  Hótelstýran hrópaði í tólið:  "Ég slepp létt frá kvöldmatnum.  Ég er bara með nýja kalla sem komu í dag.  Hinir fóru í morgun.  Ég get þess vegna hitað upp afganginn af karríkjötinu frá því á mánudaginn og nýju kallarnir fatta ekki neitt!"

  Um kvöldið var karríkjötsréttur í matinn. 

  Hótelstýran lét okkur vita að hún hefði bjór og vín til sölu.  Við gestirnir pöntuðum eitthvað af veigum.  Enginn var barinn.  Konan sótti drykkina inn í hliðarherbergi.  Hún bar þá ekki fram í umbúðum heldur í vatnsglösum. 

  Nokkrum árum síðar var forsíðufrétt í DV um að við húsleit í Hótel Jórvík hefði fundist töluvert magn af heimabrugguðum bjór og víni ásamt bruggtólum.  Hótelstýran sagðist ekki selja áfengi.  Hún væri að geyma þetta fyrir sjómann sem hún vissi ekki hvað hét. 

Hótel Jórvík

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband