Færsluflokkur: Pepsi-deildin

Kvikmyndarumsögn

capitalism

- Titill:  Capitalism.  A Love Story

- Leikstjóri/höfundur:  Michael Moore

- Einkunn: ***

  Bandaríski leikstjórinn og heimildarkvikmyndakóngurinn Michael Moore veldur örlitlum vonbrigðum með myndinni  Capitalism: A Love Story.  Aðalsmerki hans hefur verið leiftrandi húmor.  Hér er hann alvörugefnari.  Að vísu stundum fyndinn.  En húmorinn er meira undirliggjandi en beinskeyttur og afgreiddur á færibandi gríns.  Hámarki nær kímnin þegar hann innsiglar banka með límbandi - eins og lögreglan notar - merktu "glæpavettvangur".

  Myndin er aldrei leiðinleg.  Hún er fróðleg og vekur upp margar áleitnar spurningar.  Án þess að þeim sé öllum svarað.  Hún fer frekar hægt af stað. Er á líður opinberast betri skilningur á upphafsatriðunum.

  Ég er ekki vel að mér í hruni bandaríska bankakerfisins.  Þekki ekki þau dæmi sem eru til umfjöllunar.  En margt virðist eiga samhljóm með siðrofinu,  fégræðginni og ýmsu öðru sem við þekkjum í ferli bankahrunsins á Íslandi.

  Athyglisverð er afstaða manns sem vann við að múta embættismönnum.  Hann segist bara hafa verið að vinna sína vinnu. Ef ekki hann þá hefði bara einhver annar afgreitt þau mál.

  Þetta er áróðursmynd gegn óheftum kapítalisma (frjálshyggju).  Gamli kapítalismi sjöunda og áttunda áratugarins fær að njóta sanngirnis. 

  Einn bútur myndarinnar sýnir klippur af hverjum republikanum á fætur öðrum kalla Barrack Hussein Obama sósíalista.  Kannski með réttu?  Og meirihluti Bandaríkjamanna kaus þennan sósíalista sem forseta Bandaríkja Norður-Ameríku.  Michael Moore lætur að því liggja að kapítalistar hafi keypt Hussein.

  Eftir stendur:  Þetta er frekar skemmtileg kvikmynd.  Hún vekur upp margar spurningar.  Hún er ekki skemmtilegasta kvikmynd Michaels Moores.  En það er hægt að mæla með henni sem ágætri skemmtun og þó öllu fremur áhugaverðri og fróðlegri.   


Hvar lásu menn fyrst um að McDonald´s væri að kveðja á Íslandi?

  Aðal fréttin í dag er að McDonald´s sé að hætta á Íslandi.  Það er sama hvar borið er niður:  Í dagblöð,  netmiðla,  útvarpsstöðvar eða fréttatíma sjónvarpsstöðva.  Allstaðar er þetta uppsláttarfréttin.  Meira að segja í erlendum fjölmiðlum þykja þetta mikil tíðindi.  Ísland er fyrsta landið í heiminum til að loka öllum McDonald´s stöðum.

  Þrátt fyrir fréttaflutninginn í dag er þetta ekki ný frétt.  Ónei.  Hún er hundgömul,  eins og sjá má hér:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/967936/.  Á þeim tíma vakti fréttin gríðarmikla athygli án þess að fréttastofur tækju við sér.  Fyrir bragðið er aulalegt að sjá þær bjóða nú upp á vikugamla frétt. 

paki13


mbl.is McDonald's hættir - Metro tekur við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvikmyndarumsögn

ólafur klemensson 

- Titill:  Guð blessi Ísland

- Leikstjóri:  Helgi Felixson

- Helstu "stjörnur":  Geir Haarde,  Bjarni Ármanns,  Björgólfur Thor,  Jón Ásgeir,  Dúni Geirsson,  Sturla Jónsson og Eva Hauksdóttir

- Tónlist:  Hilmar Örn Hilmarsson

- Einkunn: ***1/2 (af 5)

  Guð blessi Ísland  er heimildarmynd um efnahagshrunið og búsáhaldabyltinguna.  Ég var búinn að gleyma þeim gífurlega tilfinningahita,  reiði og æsingi sem einkenndi búsáhaldabyltinguna.  Hvernig allt var við að sjóða upp úr.  Lögreglan átti í vandræðum með að hemja hamslausan múginn.  Það var hættuástand og mesta mildi að enginn slasaðist alvarlega í hamaganginum. 

  Formenn stjórnmálaflokkanna urðu að flýja úr beinni sjónvarpsútsendingu á Stöð 2.  Reyndar skemmdu mótmælendur tækjabúnað Stöðvar 2 þannig að útsending rofnaði.  Ingibjörg Sólrún kannaðist ekki við að mótmælendur væru þjóðin. Hún sá hvergi þjóðina.  Hafði orðið viðskila við hana.  Bíll forsætisráðherra,  Geirs Haarde,  var laminn að utan eins og harðfiskur.  Geir taldi sig og bílstjórann hafa verið í raunverulegri hættu.  Það kemur ekki fram í myndinni en eftir þetta fylgdu Geir nokkrir lífverðir hvert sem hann fór.  Einnig Davíð Oddssyni,  þáverandi seðlabankastjóra.  Heimili hans var jafnframt vaktað af lögreglunni.  Lögreglustöðin varð fyrir harkalegri árás vegna handtöku á ungum manni er hafði flaggað Bónus-fána á alþingishúsinu.

   Björgólfur Thor,  Jón Ásgeir og Bjarni Ármannsson koma ansi furðulega fyrir í myndinni.  Þeir virðast raunveruleikafirrtir og hugsunarháttur þeirra töluvert frábrugðinn þess fólks sem er að berjast í bökkum og missir að lokum allt sitt.  Bjarni kemur skást út.  Senurnar með þeim hinum eru skondnar.  Reyndar er margt fleira ljómandi fyndið í myndinni. 

  Feðgarnir í lögreglunni,  Geir Jón og Dúni,  eru stétt sinni til sóma.  Sýna aðstæðum og mótmælendum skilning og leggja sig fram um að gera gott úr öllu af yfirvegun.  Eru stjörnur myndarinnar.  Hlýlegar jákvæðar persónur,  velviljaðar og eiga aðdáunarvert auðvelt með að afgreiða allt sem lýtur að bestu mannlegum samskiptum.  Herskáustu mótmælendur geta ekki annað en borið réttilega virðingu fyrir þeim.  Aldeilis frábærir feðgar.

  Sama verður ekki sagt um nasistana Ólaf Klemensson (starfsmann Seðlabankans) og litla feita bróðir hans (svæfingarlækni hjá Landsspítalanum).  Þeir ryðjast með fúkyrðum inn í hóp mótmælenda og reyna að efna til slagsmála.  Ólafur,  sem er með húðflúraðan hakakross (sést samt ekki í myndinni), gengur svo langt að hrinda konu upp úr þurru.  Miðað við æsinginn á svæðinu er næsta undarlegt að þeim bræðrum mistókst ætlunarverkið:  Að efna til slagsmála.  Það kemur ekki fram í myndinni en kom fram í fjölmiðlum á sínum tíma að fólk hélt að þarna væru vesalingar í annarlegu ástandi á ferð.  Sem er skiljanlegt.  Og sennilega rétt mat hvað varðar Ólaf (sjá mynd).  Sá litli feiti var meira í því hlutverki að upphefja sig í augum gamla nasistans.  Það vaknar spurning varðandi traust sem skjólstæðingar Landsspítala þurfa að bera til svæfingarlækna að eiga sitt undir samskiptum við svona kexruglaðan svæfingarlækni.   Þessi bjáni er hættulegur umhverfi sínu.  Þvílík fífl sem þessir bræður eru.  En gefa lífinu lit með verstu formerkjum.  Það kæmi ekki á óvart að Baldur Hermannsson eigi eftir að mæra þá bræður.  Kjaftur hæfir skel.

  Í gegnum myndina er fylgst með Sturlu Jónssyni taka þátt í mótmælunum,  stefna á þing fyrir Frjálslynda flokkinn og tapa öllu sínu í hruninu.  Hann og hans fjölskylda voru í góðum málum.  Áttu tvær blokkaríbúðir,  byggðu sér hús af elju,  en svo dundu ósköpin yfir:  Sturla varð atvinnulaus og skuldir hrönnuðust upp.  Að lokum flutti Sturla til Noregs.  Draumur fjölskyldunnar um að flytja til Flórída verður að bíða betri tíma.

  Nornin Eva Hauksdóttir fer í gegnum svipað ferli.  Hún flutti til Danmerkur.  Það er áhrifaríkt að fylgjast með lífsbaráttu Evu og Sturlu til samanburðar við túlkun Björgólfs,  Jóns Ásgeirs og Bjarna Ármanns á ástandinu.  Kostulegust er sú skýring Björgólfs að peningar skipti ekki um eigendur heldur hverfi eins og jurt sem visnar og hverfur.  Þessa kenningu má kannski bera á borð fyrir þá sem töpuðu öllu sínu er þeir treystu Icesave fyrir ævisparnaði sínum.  Peningar þeirra hurfu eins og visnuð jurt.  Einnig er broslegt að sjá blaðafulltrúa Björgólfsfeðga burðast með tvö kaffiglös og fleira á eftir Björgólfi Thor sem heldur ekki á neinu.  Björgólfur er kóngurinn og Ásgeir Friðgeirsson,  ja,  hvuttinn sem er í því hlutverki að dekstra húsbóndanum.

  Ég ætla ekki að nefna nein nöfn en þeir sem eru mér fróðari telja sig merkja augljós einkenni kókaínneytenda af töktum sumra.

  Tónlist Hilmars Arnar Hilmarssonar hefur öll bestu einkenni kvikmyndatónlistar.  Maður tekur varla eftir tónlistinni og áhrifaríkri beitingu hennar nema hlusta sérstaklega eftir henni.

  Galli myndarinnar er að sum skot eru of löng og þjóna ekki neinum tilgangi.  Það hefði mátt beita skærum grimmar.  Dæmi um þetta er löng sena af konu Sturlu þurrka hund og langt myndskeið tekið út um bílglugga er Sturla ekur eftir Reykjanesbraut á leið til Noregs. 

  Ég get mælt með myndinni sem skemmtilegri,  áhrifaríkri og góðri upprifjun á sérstæðum kafla í Íslandssögunni.


Davíð Oddsson hundskammar bloggaraskrílinn - og veitir ekki af

 GissurarsonOddsson

   Bloggheimar eru iðulega stórundarlegir.  Af öngvu tilefni vitna lítilmenni í stjórnmálum til þess að "bloggheimar logi" og gefa þannig í skyn að tilfinningahiti sé í þjóðfélaginu.  Það eina sem hefur gerst er að orðljótustu bloggarar hafa þrútnað út örlítið meira en endranær og reyna að yfirbjóða hvern annan með uppspuna og munnsöfnuði.  Eldglæringar á blogginu hafa aldrei skipt neinu máli um nokkurn skapaðan hlut.  Kórstjórar bloggsóðanna hafa ekki áhrif á þjóðfélagsumræðuna.

  Ofangreint er stytt samantekt á fyrri hluta leiðara Davíðs Oddssonar í Mogganum í dag.  En það skiptast á skin og skúrir.  Þó Davíð telji margan bloggarann "bölmóðsins besta vin" þá býður tilveran á Íslandi í dag upp á fleira en bloggaraskríl til að ólundast út í.  Davíð hefur velþóknun á eftirtöldum:  Spaugstofuhópnum,  Ómari Ragnarssyni,  Ladda,  Ragnari Bjarnasyni,  Jóhannesi eftirhermu Kristjánssyni og Jens Guði.  Reyndar er ég ekki alveg viss með síðast nefndan.  Það skvettist dökkur bjór yfir niðurlag leiðarans svo ég þurfti eiginlega að giska á hvað stendur þar.   

  Ég held að Davíð eigi ekki sérstaklega við Hannes Hólmstein með lýsingunni á bloggurum.  Líklegra þykir mér að Davíð jafnvel undanskilji Hannes,  eins og Ómar Ragnarsson og mig.   


Hver er hvað og hver er hvurs?

Gísli Marteinn+Sigurður Kári Kristjánsson+gisli_marteinn_baldursson1+sigurður kári=ÓlafurÖ

  Sumum þykir Davíðs-æskan í Sjálfstæðisflokknum vera einsleitur hópur.  Jafnvel eins og klónuð eintök.  Það er ekkert að því.  Hver dregur dám af sínum sessunaut.  Ungir áhrifaríkir drengir samsama sig tilteknu normi.  "Það má þekkja þá sem drekka af þeim félögum sem þeir þekkja," segir í vinsælu lagi með Ríó tríói.  Þetta má til sannsvegar færa.  Berum hér að gamni saman ljósmyndir af: Gísla Marteini,  sem lenti undir Hönnu Birnu í kapphlaupi um borgarstjórastól í Reykjavík og fór til Skotlands í nám á launum borgarstjórnarmanns;  Sigurði Kára Kristjánssyni sem ólst upp hjá fátæku fólki,  komst inn á þing sviptur ökuskírteini vegna ölvunaraksturs og kolféll í síðustu alþingiskosningum (vonandi ekki vegna þess að hafa alist upp hjá fátæku fólki);  Og byltingarsinnanum Ólafi Erni Níelssyni sem steypti óvænt sitjandi formanni SUS með vel heppnuðu áhlaupi Davíðs-armsins á þingi SUS á Ísafirði.  Ólafs vegna verður framaganga hans vonandi farsælli en tvífaranna.  Vitandi ekkert um manninn óska ég honum góðs gengis og bjartrar framtíðar.


Krúttlegt - eða...?

  krakki vill ekki sleppa tölvunni

  Ég fór í matvöruverslun til að kaupa mér Malt.  Skammt frá mér var kona með innkaupakerru.  Í barnasæti kerrunnar sat á að giska fjögurra ára drengur.  Ég var ekkert að fylgjast með þeim en heyrði drenginn segja:  "Kaupum svona."  Konan svaraði:  "Nei,  ekki núna."  Strákur mótmælti hástöfum með blöndu af frekju- og hálfgrátandi röddu:  "Jú,  mig langar svo í svona."  Konan útskýrði vandamálið:  "Ég á ekki pening fyrir þessu.  Ég á ekki einu sinni pening fyrir öllu sem ég þarf að kaupa."

  Við þessi orð var dreng brugðið.  Hann saup hveljur og spurði með uppglennt augu hálf skelfdur:  "Verðum við þá að stela?"


Bestu og verstu bloggarar landsins

larahanna

  Í helgarblaði DV er opnugrein um bestu og verstu bloggara landsins.  Úttektin leggur út af niðurstöðu 15 álitsgjafa.  Ég er ekki alveg viss en held að hver álitsgjafi nefni 3 bestu og 3 verstu bloggarana.  Mér til ómældrar gleði er ég á lista yfir bæði bestu og verstu bloggara landsins.  Rökin fyrir að ég sé einn af verstu bloggurum eru þau að ég sé: "Besserwisser sem telur sig vita allt best".

  Það er gaman.  Besserwisser er sá sem er yfirmáta fjölfróður.  Það er ég hinsvegar ekki.  Ég er fáfróður en geri mikið úr því litla sem ég veit.  Nákvæmari lýsing hefði átt að vera:  "Gefur sig út fyrir að vera besserwisser..."  En samt.  Það er skemmtilegt að vera (ranglega) skilgreindur besserwisser.

  Lára Hanna hefur yfirburði sem besti bloggarinn.  Hún er vel að þeim titli komin.  Ég er henni ekki alltaf sammála.  Það skiptir ekki máli.   Blogg hennar er eins og fjölmiðill út af fyrir sig.  Hún leggur rosalega mikla vinnu í bloggið sitt.  Ég skil ekki hvernig hún nennir að hlaða inn á blogg sitt heimildum sem sumar spanna mörg ár aftur í tímann.  Ég kvitta glaður undir að Lára Hanna sé besti bloggari landsins.

  Verra þykir mér að Stefán Friðrik Stefánsson sé útnefndur versti bloggarinn.  Sagður hafa eyðilagt fréttabloggið og vera konung endurvinnslunnar.  Ég kann vel við blogg Stefáns.  Kíki oft inn á hans bloggsíðu.  Hann bætir fróðleiksmolum við fréttir Moggans og liggur ekki á sínum skoðunum.  Hann er íhald af gamla skólanum (Sjálfstæðisflokksmaður) en gagnrýninn á sitt fólk.  Opinskár og heiðarlegur og samkvæmur sjálfum sér. 

  Daglegur fjöldi innlita á bloggsíðu Stefáns væri ekki sá sem raun ber vitni nema vegna þess að fólk hefur áhuga á því sem þar er í boði.

  Samkvæmt niðurstöðu DV veitir Jón Valur Jensson Stefáni harða samkeppni sem versti bloggarinn.  Jón Valur er sakaður um trúarhræsni,  leiðindi og ýta undir hatur,  misklíð og heiftúðskap.

  Egill Helgason er næst besti bloggarinn.  

  Gaman væri að hlera álit ykkar á bestu og verstu bloggurum.  En vinsamlegast sniðgangið mitt nafn í umræðunni.


Hvað heldur þú?

 triple lanolin

   Mig langar til að bera undir ykkur eitt atriði.  Ég tek fram að ég er ekki að nota þennan vettvang til að auglýsa fyrirbærið heldur til að fá skilning ykkar á texta.  Þannig er að í vel á þriðja áratug hef ég selt Aloe Vera gel.  Lengst af var það einungis fáanlegt í kvartlítra flösku.  Það átti ekki aðeins við um Aloe Vera gelið sem ég sel heldur öll vörumerki af Aloe Vera geli sem hér hafa verið og eru á markaði.

  Fyrir nokkrum árum bættist við hálfslítra flaska af Aloe Vera gelinu sem ég sel.  Það er hlutfallslega töluvert ódýrara per ml.  Til að vekja athygli á þessu lét ég prenta límmiða með textanum:  "Tvöfalt meira magn,  lægra verð".  Límmiðann set ég á stóru flöskurnar.

  Í dag hringdi í mig kona sem spurði:  "Hvaða búð selur Aloe Vera gelið með þessu tilboði?"  Ég fattaði ekki hvað hún átti við.  Eftir smá spjall kom í ljós að hún túlkaði merkinguna sem "2 fyrir 1".  Ég útskýrði fyrir henni hvaða upplýsingum ég var að reyna að koma á framfæri á miðanum.  Hún var mér óssamála.  Sagði textann vera villandi og plat.  Þetta var samt kurteis kona og bara gaman að spjalla við hana.

  Þess vegna spyr ég ykkur hvort skilningur konunnar á textanum sé réttur.  Hvort textinn gefi annað í skyn en ég ætlaði.

  Ég ítreka að ég er ekki að auglýsa mína vöru með því að bera þetta undir ykkur.  Þess vegna birti ég með færslunni mynd af Aloe Vera geli frá öðrum framleiðanda en Banana Boat.


Kærar þakkir

bakkabræður

  Þessa hugljúfu kveðju fékk ég senda.  Mér er ljúft að koma henni áfram.  Guðirnir blessi Ísland.  Aðrir gera það ekki.  Nema Færeyingar.


mbl.is Hálfkaraðar glæsihallir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtilegar reddingar

2009-122009-13

  Það má alltaf redda sér í kreppunni,  eins og þessar myndir sýna. 

2009-102009-142009-92009-82009-52009 - nýr Land Cruiser framkvæmdastjóra Marels

  Neðsta myndin sýnir skemmtilegustu reddinguna á efnahagshruninu.  15 starfsmönnum var sagt upp hjá Marel.  Í staðinn var þessi Land Cruser keyptur undir framkvæmdastjórann.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband