Færsluflokkur: Pepsi-deildin

Spilling og barátta gegn spillingu

  Ólafur F.  Magnússon,  fyrrverandi borgarstjóri,  hefur farið fremstur í flokki gegn spillingu í íslenskum stjórnmálum.  Fyrir þá sem misstu af verulega áhugaverðri umræðum í borgarstjórn í dag birti ég hér fundargerð dagsins (örlítið stytta.  Hlaupið yfir óþörf formlegheit): 

 Ár 2010, þriðjudaginn 2. febrúar, var haldinn reglulegur fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Hermann Valsson, Þorleifur Gunnlaugsson, Dofri Hermannsson, Björk Vilhelmsdóttir, Oddný Sturludóttir, Dagur B. Eggertsson, Ólafur F. Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon, Sif Sigfúsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Óskar Bergsson og Marta Guðjónsdóttir.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

1. Í upphafi fundar kveður Ólafur F. Magnússon sér hljóðs og ræðir fundarsköp.

2. Lögð fram tillaga að hjólreiðaáætlun fyrir Reykjavík.  

        Borgarfulltrúar Framsóknarflokks, Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna óska bókað:

Með samþykkt fyrstu hjólreiðaáætlunar Reykjavíkurborgar, Hjólaborgin Reykjavík, eru stigin stór græn skref í átt að umhverfisvænni borg. Markmiðið er að gera fólki kleift að ferðast um borgina á þann hátt sem það kýs. Góð aðstaða til hjólreiða á að hvetja borgarbúa til að njóta útivistar jafnframt því að sinna erindum sínum á reiðhjólum. Þúsundir Reykvíkinga hjóla nú þegar á hverjum degi enda er Reykjavík að mörgu leyti mjög hentug hjólaborg. Reykjavíkurborg hefur það nú að leiðarljósi að huga að hjólreiðum við gerð allra umferðarmannvirkja. Það er eitt af Grænu skrefunum í Reykjavík að stórauka hlutdeild hjólreiða með því að leggja fleiri og betri hjólastíga og bæta aðstöðu fyrir hjólreiðafólk. Áætlunin Hjólaborgin Reykjavík leggur drög að framkvæmdum fyrir næstu ár. Borgarstjórn samþykkti í september 2007 tillögu Árna Þórs Sigurðssonar fyrrverandi borgarfulltrúa um að vinna ætti sérstaka hjólreiðaáætlun fyrir Reykjavík til að gera hjólreiðar að fullgildum og viðurkenndum samgöngumáta fyrir Reykvíkinga. Hjólaborgin Reykjavík er afrakstur vinnu starfshóps meiri- og minnihluta, sem vann að áætluninni í samráði við hagsmunaaðila og fagfólk.

        Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Tillaga um hjólreiðaáætlun í Reykjavík er í sjálfu sér hið besta mál. Um árabil hef ég barist einn á vettvangi Borgarstjórnar Reykjavíkur fyrir breyttri forgangsröðum, þar sem velferðar- og sérstaklega öryggismál eru höfð í öndvegi. Forgangsröðun fjórflokksins hefur ætíð verið önnur. Ég sit því hjá.

3. Fram fer umræða um fjárhagslega hagsmuni borgarfulltrúa.

        Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Að minni ósk fer hér fram umræða um fjárhagslega hagsmuni borgarfulltrúa, þar með talið eignastöðu þeirra og fjárhagsleg tengsl. Eins og segir í auglýsingu borgarmálafélags F-listans í Fréttablaðinu í dag þá mun ég gera ýtarlega grein fyrir eignastöðu minni á borgarstjórnarfundi í dag og krefjast þess að aðrir borgarfulltrúar geri slíkt hið sama. Mikill fjáraustur sumra sigursælla frambjóðenda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins rennir stoðum undir vísbendingar um að fjárhagsleg tengsl og eignastaða þeirra gerir þá vanhæfa til að gegna trúnaðarstörfum sem kjörnir fulltrúar Reykvíkinga. Um sl. áramót var eignastaða mín með eftirfarandi hætti:
1. Fasteignin Vogaland 5 í Reykjavík, helmingseignarhluti. Fasteignamat eignarinnar skv. mati sem tók gildi 31. desember sl. var kr. 71.250.000 og er helmingshluti þess 35.625.000. Á eigninni hvíla tvö lán, frá Lífeyrissjóði lækna annars vegar og frá Spron, síðar Kaupþing og Arionbanki hins vegar. Upphafleg staða lánanna við kaup á húsinu var kr. 3.800.000 en er nú um kr. 1.000.000 og verða lánin fullgreidd á þessu ári.
2. Bifreiðin KEK 56 sem er af gerðinni Toyota Rav 4, árgerð 2007. Kaupverð í nóvember 2007 var um kr. 3.300.000.
3. Launareikningur minn hjá Arionbanka nr. 554482 vegna borgarfulltrúastarfsins. inneign um sl áramót var kr. 583.000.
4. Viðskipta- og launareikningurinn hjá Arionbanka nr. 004482 vegna læknisstarfsins. Staða reikningsins um sl. áramót var kr. 277.000 að teknu tilliti til yfirdráttarheimildar, sem er kr. 1.500.000, þannig að raunstaða reikningsins var neikvæð um rösklega kr. 1.200.000.

        Ólafur F. Magnússon leggur fram svohljóðandi tillögu:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að frambjóðendum til borgarstjórnar í vor ásamt sitjandi borgarfulltrúum sé gert skylt að gera grein fyrir eignastöðu sinni, bæði fasteignum, bifreiðaeign og bankainnistæðum.

        Samþykkt með samhljóða atkvæðum að taka tillöguna á dagskrá.
Tillögu Ólafs F. Magnússonar er vísað til forsætisnefndar með 15 samhljóða atkvæðum.

Að beiðni Ólafs F. Magnússonar ákveður forseti að fresta umræðu skv. 3. lið útsendrar dagskrár þar til í lok fundar og umræðu skv. 4. lið til næsta fundir.

4. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 22. og 28. janúar. 

5. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 29. janúar, framkvæmda- og eignaráðs frá 25. janúar.

6. Fram fer umræða um ráðstöfun styrkja til stjórnmálasamtaka og upplýsingaskyldu þar um.

        Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Árið 2007 lét fjórflokkurinn í Borgarstjórn Reykjavíkur hækka framlög til sín frá borginni úr kr. 13.900.000 í kr. 32.750.000 eða um 130% eða 2,3 földun. Á tímabilinu 2006-2010 ætlar fjórflokkurinn sér 90% af áætluðum framlögum borgarinnar til stjórnmálasamtaka, sem eru 90% af kr. 143.000.00 eða kr. 129.000.000. F-listinn í borgarstjórn hefur þegar lagt fram reikninga sína í borgarráði vegna einu greiðslunnar sem hann hefur fengið á kjörtímabilinu um kr. 3.400.000. Farið er fram á að önnur framboð taki borgarstjórnarflokk F-listans til fyrirmyndar á þessu sviði sem öðrum. F-listinn vill að framlög sem honum voru ætluð vegna árann 2009 og 2010 renni til líknar- og velferðarmála og skorar á hin framboðin að gera slíkt hið sama.

        Ólafur F. Magnússon leggur fram svohljóðandi tillögu:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að öllum borgarstjórnarframboðum sé gert skylt að gera grein fyrir því hvernig framlögum borgarinnar til þeirra hefur verið varið á þessu kjörtímabili, nánar tiltekið framlög borgarinnar árin 2006-2009.

        Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka tillöguna á dagskrá.

        Borgarfulltrúar Vinstri grænna óska bókað:

Borgarfulltrúar VG lögðu það til við gerð fjárhagsáætlunar í desember að styrkir Reykjavíkurborgar til stjórnmálaflokka yrði lækkaðir um helming en þeir nema nú tæplega 30 milljónum. Tillagan er til afgreiðslu í forsætisnefnd. Fram hefur komið að greiðsla Reykjavíkurborgar til stjórnmálasamtaka hækkaði úr 13,9 milljónum króna árið 2006 í 32,75 milljónir árið 2007. Undanfari þessarar hækkunar var að árið 2006 var ákveðið að ýmis kostnaður sem áður féll á sveitarfélög við alþingis- og forsetakosningar skyldi framvegis greiddur af ríkissjóði en vafasamt er að réttlæta það að þessar breytingar leiddu af sér færslu fjármuna til stjórnmálaflokka í Reykjavík. Það hefur einnig komið fram að framlög Reykjavíkurborgar til stjórnmálasamtaka eru meira en helmingi hærri en framlög annarra sveitarfélaga, svo sem Kópavogs, Akureyrar og Garðabæjar ef miðað er við höfðatölu. Það er hinsvegar ljóst að Reykjavíkurborg er skylt skv. lögum að veita þeim stjórnmálasamtökum, sem uppfylla skilyrði ákvæðisins, fjárframlög til starfsemi sinnar, og skal heildarfjárhæðinni skipti milli þeirra í hlutfalli við atkvæðamagn í næstliðnum borgarstjórnarkosningum en í lögum er ekki getið um upphæð framlagsins. Færa má rök fyrir því að borgarstjórnaflokkar, sérstaklega þeir sem eru í minnihluta, þurfi á fjárframlögum að halda til þess að sækja sérfræðiaðstoð en sú mikla hækkun sem orðið hefur á framlögum undanfarin ár er langt umfram þá þörf. Lækkun framlaga til stjórnmálaflokka svarar kalli tímans þegar mikill niðurskurður kallar á forgangsröðun í þágu velferðarmála. Skerðing á fjármagni til stjórnmálaflokka, hvort sem það er frá einkafyrirtækjum eða opinberum aðilum, færir þá nær þeim tíma þegar starfsemin var fyrst og fremst byggð á félögunum í flokkunum sjálfum.


Tillögu Ólafs F. Magnússonar er vísað til forsætisnefndar með 15 samhljóða atkvæðum.

ólafurfmagnússon



mbl.is Vísar ásökunum um lygar á bug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver á hvað og hvað er hvurs?

  Eftir því sem meira kemur fram í dagsljósið um útrásarvillingana og íslenska efnahagsviðundrið fjölgar spurningamerkjunum.  Það er eins og allt hafi verið meira og minna í tómu rugli.  Orð eins og misskilningur,  mistök,  sýndarviðskipti,  "ég vissi ekki að þetta væri ólöglegt",  "ég skrifaði bara undir en vissi ekki hvað stóð í skjalinu",  "ég veit ekkert um þetta.  Spurðu einhvern annan" og annað eftir því einkenna útskýringar þeirra sem fremstir fóru.

  Allt er svo flókið og fljótandi að maður verður ringlaður af að reyna að átta sig á hver seldi hverjum hvað,  hver átti hlut í hvaða fyrirtæki,  hvaða fyrirtæki áttu hlut í sjálfum sér og öðrum fyrirtækjum sem síðan áttu hlut hvert í öðru,  hver hefur yfirfært eignir yfir á maka og ættingja,  hver á hvað og hvað er hvurs...

  Örlítið dæmi sem vegur létt í heildarmyndinni snýr að málverkum er voru í eigu Skeljungs en enduðu uppi á vegg hjá Pálma Haraldssyni,  kenndum við Fons.  Þessi málverk höfðu áratugum saman glatt augu starfsfólks Skeljungs og viðskiptavina.  Einn góðan veðurdag voru þau horfin.  Pálmi fjarlægði þau að næturlagi.  Þau voru skráð úr og í önnur fyrirtæki tengd Pálma. 

  Nú hefur komið í ljós að við fyrstu eignarfærslu úr eigu Skeljungs voru málverkin skráð á verulegu undirverði.  Uppgefin skýring á því er þessi:  Sá sem verðmat verkin fékk - fyrir mistök - í hendur að hluta til önnur málverk en þau sem átti að verðmeta.  Þegar Pálmi greiddi fyrir verkin var allt í rugli.  Vegna misskilnings keypti hann meðal annars nokkur ódýr málverk sem hann þegar átti.  Önnur og dýrari málverk greiddi hann ekki fyrir vegna þess að hann vissi ekki að hann væri að eignast þau.  Hann bara átti þau allt í einu án þess að hafa hugmynd um að hann hafði ekki borgað fyrir þau.  Jafnframt eignaðist hann nokkur málverk sem hann þegar átti en vissi ekki að hann hafði átt.  Eftir stendur að hann á í dag gott og verðmætt málverkasafn.  Það hefur gengið kaupum og sölum á milli fyrirtækja Pálma án þess að færast til á veggjum hans.  Pálmi er listunnandi.  Safnar hvorki einkaþotum,  þyrlum,  lúxussnekkjum né lúxusbílum.  En kann vel að meta góð málverk.  Það er virðingarvert.  Ég er alltaf á leiðinni að fara að dusta rykið af penslunum mínum.  Þegar af því verður er gott að vita af mönnum eins og Pálma í Fons.    

mona-lisa-gioconda-by-leonardo-da-vinci1

Málverkið af Mónu Lísu var upphaflega passamynd fyrir ökuskírteini.  Núna er þetta eitt frægasta málverk heims.  Pínulítil mynd.

.

  


mbl.is Nýr bavíani nær langt í viðskiptum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur F. á fljúgandi siglingu

ólafurF

  Magnað frumsamið kvæði Ólafs F.  Magnússonar,  fyrrverandi borgarstjóra,  um Hönnu Birnu Kristjánsdóttur,  núverandi borgarstjóra,  hefur heldur betur slegið í gegn.  Kvæðið flutti Ólafur F.  á borgarstjórnarfundi Reykjavíkur í fyrradag og lesa má það hér á bloggi mínu fyrir neðan:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1007820/

  Nú hefur verið verið stofnuð á Fésbók síða Ólafi F.  til heiðurs.  Kíkið á hana og skráið ykkur.  Slóðin er:   http://www.facebook.com/group.php?gid=259477901537&v=info#/group.php?v=wall&gid=259477901537


Frumsamið kvæði Ólafs F. um Hönnu Birnu

  Hér er kvæðið góða sem Ólafur F.  Magnússon,  fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur,  orti í morgun um Hönnu Birnu,  núverandi borgarstjóra.  Kvæðið flutti Ólafur F.  núna klukkan rúmlega 17.  Við flutning kvæðisins spilaði Vilhjálmur Þ.  Vilhjálmsson undir á bjöllu og fléttaði inn í stuttan rapp-kafla.  Ólafur F.  þótti lítið til klukkuspils Vilhjálms og rapp-innslags koma.  Þess vegna tvílas hann kvæðið.  Í seinna skiptið án undirleiks Vilhjálms.

Gírug í ferðir, gráðug í fé
Grandvör hvorki er hún né
Gætir hófs í gerðum sínum
Gjafir fær frá banka fínum
Auðmjúk er við auðvalds fætur
Ávallt að þess vilja lætur
Velferð viljug niður sker
Víða hnífinn fína ber
Sjaldnast nálægt sjálfri sér
Sárt í annars bakið fer
Laugaveg, flugvöll láttu kjurrt
lata Hanna farðu burt
í Valhöll heim að vefja þráð
með vinum þínum í síð og bráð.

.


mbl.is Ólafur víttur á borgarstjórnarfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hanna Birna tekur "Árna Johnsen" á þetta

  hanna-birna

  Fyrir nokkrum árum spurði fréttamaður RÚV háttvirtan alþingismann,  Árna Johnsen,  um kantsteina sem Þjóðleikhúsið hafði greitt fyrir en ekki skilað sér þangað.  Árni sagði steinana vera á brettum úti í bæ.  Þegar fastar var gengið á Árna viðurkenndi hann hægt og bítandi að steinarnir væru niðurkomnir í kartöflugörðunum heima hjá honum sjálfum.  Fréttamaðurinn sakaði Árna um að hafa skrökvað að sér í upphafi viðtalsins.  Þá hrökk þetta gullkorn upp úr Árna:

  "Ég sagði ekki beinlínis ósatt heldur sagði ég ekki allan sannleikann."

  Hanna Birna,  nýjasti borgarstjóri Reykjavíkur,  viðhefur sömu vinnubrögð.  Fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur,  Ólafur F.  Magnússon,  óskaði eftir upplýsingum um utanlandsflandur Hönnu Birnu á kostnað borgarbúa.  Hanna Birna lagði fram upplýsingar um 6 ferðir upp á 800 þúsund króna heildarkostnað.

  Ólafur taldi sig þekkja vinnubrögð Hönnu Birnu og hafði grun um að hún væri ekki að segja allan sannleikann.  Hún hefði farið í fleiri utanlandsferðir.  Nú hefur Ólafi tekist að grafa upp eina af þeim ferðum.  Það var ferð sem Hanna Birna fór til Feneyja.  Sú ferð kostaði borgarbúa 340 þúsund.

  Til gamans má geta að í borgarstjóratíð sinni fór Ólafur F.  aðeins í eina utanlandsferð.  Það var ódýr boðsferð til Færeyja.

  Á borgarstjórnarfundi kl. 14 í dag flytur Ólafur F.  vantraust á Hönnu Birnu.  Fundinum verður útvarpað á fm 98,3 og á www.reykjavik.is.  Sjá ennfremur heilsíðuauglýsingu á bls. 7 í Fréttablaðinu í dag.

  Á ljósmyndinni efst er Hanna Birna þessi til hægri.  Hin manneskjan heitir Óskar Bergsson.  Sá fékk háðuglega útreið í prófkjöri framsóknarmanna á dögunum.  Var hafnað svo glæsilega að lengi verður í minnum haft.

  Næsta víst er að fundurinn verði fjörlegur og í anda myndbandsins sem þessi færsla er tengd við. 


mbl.is Slagsmálaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frétt vikunnar

  Nýverið tók hver stórmarkaðurinn á fætur öðrum upp á því að hækka verð á innkaupapokum úr 15 krónum í 20.  Í Morgunblaðinu var þetta afgreitt sem stórfrétt.  Enda um verulega mikla verðhækkun að ræða í % talið.  Það er góð fréttamennska að "fókusera" frá hinu almenna yfir á tiltekið dæmi.  Vond fréttamennska er þegar sagt er frá því að 13 íssalar í Reykjavík hafi orðið uppvísir af því að selja óhreinan (gerlamengaðan) ís án þess að fram komi neitt um það hvaða íssalar eru sekir og hverjir saklausir..

  Í Morgunblaðinu var fréttin af verðhækkun á innkaupapokum "fókuseruð" á þá staðreynd að í Bónus var verðið hækkað úr 15 kr.  í 20 á meðan innkaupapokinn kostaði ennþá 15 kr. í Krónunni.  Þessu var slegið upp í fyrirsögn og endurtekið í sjálfri fréttinni.  Eigandi Krónunnar,  Kaupás,  er aðal auglýsandinn í Morgunblaðinu.  Það er skemmtileg tilviljun. 
  Af þessu spannst mikil og fróðleg umræða.  Í umræðunni upplýstist að eigandi Bónus, 10-11 og Hagkaups er með innkaupapoka framleidda í útlöndum.  Kaupás er hinsvegar með rammíslenska og þjóðlega innkaupapoka í Krónunni,  11-11,  Nóatúni og Kjarvali.
.
  Það var dagaspursmál hvenær Kaupás myndi hækka verð á sínum innkaupapokum úr 15 kr. í 20.  Nú hefur það gerst.  Þetta er stórfrétt vikunnar.  Alveg eins og þegar verðið á innkaupapokum Bónus hækkaði í verði. 
  Frétt um verðhækkun hjá Kaupási á meira erindi til lesenda Morgunblaðsins en sama verðhækkun hjá matvöruverslun sem auglýsir lítið sem ekkert í Morgunblaðinu.  Samt hef ég ekki fundið fréttina um þetta í Morgunblaðinu.  Það er allt í lagi.  Ég tek bara að mér að slá upp fréttinni í staðinn.  Og tel það ekki eftir mér.
.
.plastpokiplastpoki
bag1
.

mbl.is Fjármálakreppa yfirvofandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rokkarar láta gott af sér leiða

  Sem kunnugt er varð 17 ára gamall slagari,  Killing in the Name,  með bandarísku þungarokkshljómsveitinni Rage Against the Machine óvænt jólalagið í Bretlandi í ár.  Yfir hálf milljón eintaka af laginu seldist síðustu vikuna fyrir jól,  meira en 50 þúsund eintökum betur en lagið sem varð í 2. sæti.  Sjá:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/994808/

  Liðsmenn Rage Against the Machine hafa sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að heildarinnkoma vegna sölunnar á laginu muni renna óskipt til neyðarskýla fyrir útigangsmenn í Bretlandi.

Rage Against The Machine wallpaper


mbl.is Bono og félagar búskuðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samanburður á jólahlaðborðum

 kona_saekir_sapu_940903.jpg

 - Staður:  Húsasmiðjan

 - Verð:  990 kr.

 - Einkunn:  ** (af 5)

  Ég ætlaði ekki að skrifa sérstaka umsögn um jólahlaðborð Húsasmiðjunnar.  Það er dálítið ósanngjarnt.  Bæði gagnvart Húsasmiðjunni og öðrum sem bjóða upp á jólahlaðborð.  Forsendur eru ekki þær sömu.  Húsasmiðjan býður upp á ódýrt jólahlaðborð til að lokka fólk á staðinn svo það kaupi í leiðinni hreinlætistæki,  málningu og skrúfur.  Verðlagningin á jólahlaðborðinu setur kokkum Húsasmiðjunnar þröngar skorður.  Það verður að sneiða hjá dýru hráefni.  Þeir spila aðdáunar vel úr þeirri stöðu.

  Eftir að ég skrifaði um jólahlaðborð á Kaffi Reykjavík hefur rignt yfir mig spurningum um jólahlaðborð Húsasmiðjunna.  Ekki síst eftir að viðtal birtist við mig í DV um jólahlaðborð.  Hér svara ég nokkrum spurningum sem leitað hafa á fólk.  Til samanburðar vísa ég á umfjöllun um jólahlaðborðið á Kaffi Reykjavík.  Sjá:  www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/989520/.

  Stjörnugjöfin ræðst af þessum samanburði með tilliti til verðs.  Án samanburðarins væru stjörnurnar fleiri.

  Fyrst eru það forréttirnir.  Í Húsasmiðjunni er gott úrval af síldarréttum,  bragðgóðu lifrarpaté með sultu,  ferskt salat og fleira.  Þar á meðal sjávarréttablanda sem samanstendur af reyktum laxi,  rækjum og túnfiski ásamt grænmeti.  Einnig eru flatkökur,  rúgbrauð,  snittubrauð og smjör.  Af kjötmeti er heit rifjasteik,  heitar reyktar medisterpylsur,  kjúklinganaggar,  kaldir kjúklingaleggir og Bayonnesskinka.  Meðlæti er m.a.  kartöflusalat,  ávaxtasalat (eplasalat með niðursoðnum blönduðum ávöxtum),  heit virkilega bragðgóð brúnsósa og ýmsar kaldar sósur,  heitar brúnaðar kartöflur (smáar, vel brúnaðar og góðar),  grænar baunir og rauðkál. 

  Þetta er sennilega eina jólahlaðborðið þar sem ein sósuskálin inniheldur tómatsósu,  önnur kokteilsósu og kartöflustrá úr "niðursuðudósum".  Ég hef tekið eftir að fólk tekur hraustlega af þessum réttum.  Ekki síst börn og unglingar.

  Réttirnir eru allir auðþekkjanlegir (þarfnast ekki merkinga eða leiðsagnar) og smekklega veislulega fram settir.  Það er stæll á jólahlaðborðinu þegar litið er yfir það.  Kokkarnir eiga hrós skilið fyrir útsjónarsemi og góða matreiðslu.

  Ég held að ég hafi engu gleymt í upptalningunni.  Allt er þetta ljómandi góður matur.  Þannig lagað.  Fólk fær veglegan og góðan veislumat fyrir lítinn pening.  Hinsvegar sakna ég nokkurra rétta sem jafnan gera jólahlaðborð svo eftirsótt sem raun ber vitni.  Svo sem laufabrauðs,  hangikjöts,  uppstúfs og ris a la mande.


Átakanleg frásögn manns sem var misnotaður af útrásarvillingum

  Eftirfarandi bréf fékk ég sent.  Ég átta mig ekki alveg á út á hvað erindið gengur.  En þetta er dapurleg frásögn sem á hugsanlega erindi til flestra annarra en mín.  Þess vegna birti ég bréfið hér í heilu lagi og dreg ekkert undan.  Undirritað nafn kemur kunnuglega fyrir sjónir.  Gott ef ekki einn karakterinn í Fangavaktinni bar það?  En það getur líka verið að þetta sé dulnefni.  Svona er bréfið:

  Útrásarvíkingar misnotuðu traust mitt.  Þeir létu mig fljúga með sér í einkaflugvélum þvers og kruss út um allan heim.  Þeir létu mig bjóða sér á einkafundi og þröngvuðu upp á mig styrkjum til ýmissa málefna.  Þannig tókst þeim að tæla mig fram fyrir linsur ljósmynda- og sjónvarpsmyndavéla.  Jafnframt létu þeir mig djamma í hásölum menningarinnar með frægasta fólki heims.  Þeir helltu ofan í mig kampavíni í lítravís og tróðu ofan í mig gullskreyttum kavíar í 10 þúsund feta hæð.  Þetta var hlálegt.  Ég drekk ekki einu sinni kampavín.

  Tvívegis var mér pískað út til Pétursborgar að mæra Björgúlfsfeðga.  Ég var dreginn sundur og saman á afturfótum í einkaþotu til Danmerkur 2007.  Þar var mér stillt upp sem leikmuni í leikriti FL Group.  Mér var dröslað í Novator-þotu til Búlgaríu og látinn lofsyngja íslensk fyrirtæki á meðan Björgúlfur Thor kom sér fyrir í spilltum viðskiptaheimi.

  Ég var dreginn á asnaeyrunum til Leeds þar sem mér var gert að blessa starfsemi Eimskipafélagsins.  Mér var plantað við hlið Sigurðar Einarssonar í Katar ásamt einhverjum Sjeik.  Sigurður varð að píra augun extra mikið til að ekki sæist glampa í dollaramerkin í augum hans. 

  Ég var sjanghæjaður til Shanghæ og stillt upp sem tákni þjóðarinnar í útrás Glitnis í Kína 2007.  Það var riðlast á mér til New York og mér troðið í glæsiveislu Glitnis 2007.  Þar þurfti ég að ausa Glitnismenn lofi fyrir að standa öllum jarðarbúum framar hvað eðlislæga snilli varðar.  Ég ældi upp úr mér klisjum á borð við:  "Útrásin er byggð á hæfni og getu,  þjálfun og þroska sem einstaklingar hafa hlotið og samtakamætti sem löngum hefur verið styrkur okkar Íslendinga..." og:  "Lykillinn að árangrinum sem útrásin hefur skilað er fólginn í menningunni,  arfleifðinni sem nýjar kynslóðir hlutu í vöggugjöf..." og:  "Raunar má leika sér með þá hugsun að landnámsöldin sé á vissan hátt upphafið að þessu öllu."

  Eftir að ég hafði verið dreginn út um allan heim og misnotaður á allan hátt sem strengjabrúða útrásarvíkinga var ég dreginn til ábyrgðar.  En ég er saklaus.  Þetta var ekki mér að kenna.  Þeir létu mig gera þetta.  Ég var nunna sem var sett í hlutverk vændiskonu.  Enginn þekkir betur en ég kvalir útþanins kampavínsmaga í háloftum í einkaþotu.  Né slóttugheit hinna útsmognu í leik með sakleysi þess sem öllum treystir.  Á daginn lofsöng ég kvalara mína.  Á kvöldin lá ég í fósturstellingu á sturtubotni úr gulli og marmara í dýrustu hótelsvítum veraldar.

  Ólafur Ragnar 

      


Glæsilega afastelpan

ylfa mjöllylfa mjöll daníelsdóttir

  Þessi færsla er "lókal".  Fyrst og fremst fyrir vini og vandamenn.  Þarna er afastelpan glæsilega,  Ylfa Mjöll Daníelsdóttir.  Hún átti að fæðast 28.  nóv. en vildi ná síðasta þættinum af Fangavaktinni.  Þess vegna spratt hún í heiminn 5.  nóv.  Og skuldar aðeins örfáar milljónir króna.  En það er bara Johnny Cash (staðgreiðsla) um leið og hún getur.  Ekki vandamálið þegar þar að kemur - fyrst Björgúlfar,  Sigurjón Þ.  Árnason og Baugsfeðgar eiga bara fyrir Diet Kók. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.