Færsluflokkur: Pepsi-deildin
13.8.2009 | 23:11
Best á nautið - loksins!
Fyrir mörgum árum var umtöluð í Skerjafirði kryddblanda sem Stefán Halldórsson hafði þróað og notað á lambakjöt. Kryddblandan þótti einstaklega vel heppnuð og gerði lambakjöt að meira sælgæti en áður þekktist. Þeir sem smökkuðu urðu friðlausir og gátu ekki hugsað sér að elda lamb án þessarar rómuðu kryddblöndu. Eftirspurn varð slík að fyrir nokkrum árum setti Stefán á almennan markað kryddblönduna Best á lambið. Hún sló í gegn og fæst nú í flestum íslenskum matvöruverslunum og einnig í Færeyjum.
Síðan hefur Stefán bætt við öðrum vinsælum kryddblöndum: Best á fiskinn, Best á kjúklinginn og Best á kalkúninn. Í síðustu viku bættist við kryddblandan sem margir hafa beðið eftir: Best á nautið.
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.8.2009 | 11:43
Skúbb! Jógvan með íslenska krákuplötu (cover)
X-factor sigurvegarin, Jógvan, er kominn vel á veg með sína næstu plötu. Áður hefur hann sent frá sér eina sólóplötu og plötu með þáverandi unglingahljómsveit sinni, Aria. Á væntanlegri sólóplötu verða 10 gömul íslensk dægurlög. Lög á borð við Vegbúinn (eftir KK), Lítill drengur (eftir Magnús Kjartansson, þekktast í flutningi Vilhjálms Vilhjálmssonar) og Traustur vinur (eftir Jóhann G. Jóhannsson, þekktast í flutningi Upplyftingar).
Það sem gerir þessa plötu áhugaverða umfram annað er að þessir gömlu slagarar verða allir sungnir á færeysku. Þeir munu því öðlast nýtt líf í Færeyjum - og víðar. Platan mun mokseljast í Færeyjum og vekja áhuga Færeyinga á að kynna sér frumgerð laganna líka. Platan mun sömuleiðis mokseljast á Íslandi.
Jógvan hefur sömuleiðis valið 10 færeysk lög fyrir Friðrik Ómar til að syngja með íslenskum textum inn á plötu. Þar af eitt gullfallegt eftir Kára P. Meira veit ég ekki um það dæmi. Mér skilst að lögin með Friðriki og Jógvani verði á einni og sömu plötunni.
Pepsi-deildin | Breytt 8.8.2009 kl. 17:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
4.8.2009 | 22:19
Frábærir færeyskir fjölskyldudagar á Stokkseyri
Um verslunarmannahelgina voru í fyrsta skipti haldnir færeyskir fjölskyldudagar á Stokkseyri. Þessi frumraun tókst einstaklega vel. Alla helgina var boðið upp á þétt pakkaða fjölbreytta dagskrá frá morgni til klukkan 3 eða 4 að morgni. Fjöldi færeyskra tónlistarmanna skipti á milli sín prógrammi sem spannaði allt frá klassískri músík, þjóðlagamúsík og harmónikkuleik til popp- og rokkmúsíkur, færeyskum hringdönsum og dagskráin spannaði einnig bryggjuball, varðeld, glæsilega flugeldasýningu og ótal viðburðum; málverkasýningum, mörkuðum með íslensku handverki og ýmsu því sem í boði er á Stokkseyri: Draugasetri, álfa- og tröllasetri, kajakróðri, fótboltakeppni og svo framvegis. Hægt er að finna dagskrána á www.stokkseyri.is.
Aðsókn var vonum framar. Á sunnudagsmorgni voru 1500 manns á tjaldstæði Stokkseyrar. Sumarbústaðir, gistiheimili á Stokkseyri og Selfossi voru líka þéttsetin. Mörg heimili á Stokkseyri voru gestkvæm, ef ráða má af bílum þar fyrir utan og tjöld í görðum. Margir komu einnig af suðvesturhorninu án þess að gista á Stokkseyri yfir nótt.
Það er illmögulegt að slá á tölu gesta þegar mest lét. Sumir giskuðu á 700 manns umfram gesti á tjaldstæði. Aðrir töldu nær lagi að ætla 1000 - 1500 manns hafa mætt á svæðið umfram þá sem voru á tjaldstæðinu. Ég ætla ekki að fara í þann talnaleik að búa til stærstu hugsanlega tölu. Læt nægja að fullyrða að gestafjöldi hafi verið eitthvað á þriðja þúsundið. Ég get staðið við þá tölu með góðri samvisku.
Góð vísbending um fjölda gesta er að veitingastaðurinn Við fjöruborðið afgreiddi 800 skammta af humri á laugardeginum og yfir 700 skammta á sunnudeginum.
Mestu skiptir að allt fór fram eins og best var á kosið. Glaðværð og ánægja réði ríkjum alla helgina. Ekki svo mikið sem til ágreinings kom á milli neinna. Bara skemmtun frá A-Ö.
Á morgun geri ég betur grein fyrir dagskránni og hápunktum hennar.
Ljósmyndin hér fyrir ofan er tekin af færeysku fréttasíðunni www.portal.fo (http://www.portal.fo/leit.php?lg=63578). Á henni er kær frændi okkar Jógvans, hinn frábæri Sverrir Sævarsson (Sverrissonar söngvara Spilafífla, Egó, Gal í Leo, Roðlaust og beinlaust...).
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
29.7.2009 | 22:32
Besta veðrið um verslunarmannahelgina
Ég hef verið að skoða veðurspá helstu veðurfræðinga landsins til að komast að því hvar besta veðrið verður núna um helgina, verslunarmannahelgina. Ég hef einnig haft samband við svokallaða sjáendur. Þeir sjá sýnir, "framtíðar-flass" sem í tíma og rúmi er andstæða "flash-back" af því tagi er margir gamlir LSD neytendur upplifa óvænt.
Af þeim gögnum sem ég hef skoðað virðast allar vísbendingar benda á einn stað: Besta veðrið um helgina verður á Stokkseyri. Það fer vel á því. Svo skemmtilega vill til að á Stokkseyri er jafnframt glæsilegasta dagskrá helgarinnar í boði. Yfirskriftin er "Föroyskt landnám Stokkseyri". Undirskriftin er "Færeyskir fjölskyldudagar á Stokkseyri um verslunarmannahelgina".
Margir af helstu tónlistarmönnum Færeyja, um 20 manns, halda uppi fjölbreyttri dagskrá fram á nótt alla helgina. Þar bera hæst fiðlusnillingurinn Angelika Nielsen, gullfallegt undrabarn sem lærði skrautskrift hjá mér þegar hún var á fermingaraldri. Það var á 3ja daga námskeiði í Færeyjum. Hún missti af fyrsta deginum en sló öllum nemendum við nánast um leið og hún settist við skriftir. Það kom ekki á óvart að fylgjast með henni síðar dúxa í tungumálum, fiðluleik og hverju öðru sem hún hefur tekið sér fyrir hendur.
Píanóleikarinn Kristian Blak er potturinn og pannan í allri færeyskri músík. Mikill stuðbolti á sjötugsaldri sem leikur jöfnum höndum dansmúsík, djass, klassík, þjóðlagamúsík og rokk í ýmsum þyngdarflokkum. Jafnvel pönkrokk þegar sá gállinn er á honum.
X-factor stjarnan og kyntröllið Jógvan opnar færeysku dagskrána með hljómleikum á föstudagskvöldinu. Af vinsælum lögum hans sem spiluð eru sem mest í útvarpi má ætla að hann sé léttpoppari. En hann er líka hörku rokkari þegar þannig liggur á honum.
Simme var fyrsta færeyska súperstjarnan á Íslandi. Fyrir hálfri öld átti hann hug og hjörtu Íslendinga með laginu um Rasmus. Þá kom hann einmitt til Íslands og tryllti Íslendinga upp úr skónum.
Nánar um dagskrána má lesa á www.stokkseyri.is. Myndirnar efst eru af Jógvani, Angeliku og Kristian Blak.
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
28.7.2009 | 22:04
Einkennilegt símtal
Í júníhefti breska poppblaðsins Uncut er skemmtileg myndasyrpa af ferli bandaríska gítarleikarans Rogers McGuinns, forsprakka The Byrds. The Byrds var fyrsta bandaríska "bítlahljómsveitin" og frumherji margra músíksstíla, svo sem þjóðlagarokks (folk rock), geimrokks (space), sýrurokks (acid), framsækins sveitapopps (alt-country), raga rokks (rokk með indverskum áhrifum) og svo framvegis.
Brimbrettarokkssveitin (surf) The Beach Boys varð önnur helsta bandaríska "bítlahljómsveitin". Með liðsmönnum The Byrds og The Beach Boys tóks varanlegur vinskapur. Hópurinn dópaði hressilega saman. Aðalsprauta The Beach Boys, Brian Wilson, og Roger McGuinn sömdu saman músík.
Brian "brann yfir". Missti vitið og hefur verið snar geðveikur áratugum saman. Til eru margar sögur af einkennilegum uppátækjum hans. Í myndasyrpunni í Uncut er mynd af þeim Brian og Roger saman. Með myndinni fylgir stuttur texti þar sem Roger segir frá síðustu samskiptum þeirra Brians. Þau voru þannig að Roger hringdi í Brian og kynnti sig. Brian svaraði: "Er það?" og skellti á.
---------------------
Á myndbandinu hér fyrir ofan spilar Roger lagið magnaða Eight Miles High. Þarna er hópurinn búinn að "sniffa" eitthvað meira en maura eða ösku látinna feðra sinna. Á myndbandinu fyrir neðan kráka The Beach Boys gamla Leadbelly slagarann Í kartöflugörðunum heima.
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.7.2009 | 22:50
Plötuumsögn
- Titill: Köld
- Flytjandi: Sólstafir
- Útgefandi: Spikefarm Records, Finnlandi
- Einkunn: **** (af 5)
Hljómsveitin Sólstafir hefur verið að síðan 1995. Köld er þriðja "alvöru" plata hljómsveitarinnar. Hún hefur einnig sent frá sér nokkrar smáskífur og kynningarplötur (promo).
Framan af voru Sólstafir í fararbroddi íslenskra svartmálmshljómsveita (black metal), sem reyndar hafa aldrei verið margar. Síðan hefur svartmálmurinn vikið fyrir fjölbreyttari og sjálfstæðari músíkstílum. Það er ekki auðvelt að finna músík Sólstafa í dag afmarkaðan bás. Þetta er ekki beinlínis þungarokk, nema stakir kaflar. Þegar rennt er yfir plötuna hvarflar hugur til kanadísku hljómsveitarinnar Godspeed You Black Empiror og dúndur góðrar plötu ensku hljómsveitarinnar Killing Joke frá 2003.
Opnunarlag plötunnar, 78 Days in the Desert, er án söngs og spannar hálfa níundu mínútu. Það hefst á teygðu gítarvæli. Við tekur þægilegur gítarhljómagangur og léttur trommutaktur. Hægt og bítandi myndast spenna, flutningurinn verður ágengari og örlítið hávaðasamari. Fátt ber til tíðinda. Þetta er hljómfagurt og virðist vera inngangur að æsilegur rokki. Kannski voru það þó bara mín fyrstu viðbrögð við plötu hljómsveitar sem hefur fortíð í svartmálmi.
Og vissulega byrjar næsta lag, titillagið, kröftuglega en breytist í drynjandi og magnað rólegt lag með þróttmiklum öskursöng og fallegri laglínu. Rokkhamagangur fær að njóta sín inn á milli í þessu 9 mínútna langa lagi. Það er gaman að titillagið sé sungið á íslensku á plötu sem gefin er út í Finnlandi fyrir alþjóðamarkað. Skyndilega tekur við ljúfur kirkjulegur orgelleikur sem brýtur lagið skemmtilega upp áður en allt fer á fullt "blast" á ný. Besta lag plötunnar. Frábært lag.
Þriðja lagið, Pale Rider, byrjar með rólegu gítarpikki en æsist fljótlega. Hljómagangur þess og laglína eru eins og í beinu framhaldi af titillaginu. Það er hvergi gefið eftir í öskursöngnum og orkan í hljóðfæraleiknum er óbeisluð. Þetta lag er 8 mínútna langt.
Við tekur lagið She Destroys Again. Söngurinn er á mjúkum nótum við gítarundirleik áður en allt er sett á fullt í öskursöng og látum. Hér kemur breska hljómsveitin Mötorhead upp í hugann. Allt á útopnu. Rokk og ról.
Fimmta lagið er Necrologue. Það byrjar á rólegheitum. Er ballaða þó bæti í rokkið er á líður. Það er hálf níunda mínúta að lengd.
World Void of Souls hefst sem "goth" legt. Texti er lesinn ofan á "draugalegan" hljóðfæraleik. Þetta lag er næstum 12 mínútur að lengd. Það er eitthvað fallega Sigur Rósar-legt við lagið. Á níundu mínútu eða svo detta rokklætin inn og setja glæsilegan punkt í lok flotts lags.
Næst síðasta lagið, Love is the Devil (and I´m in Love), keyrir strax á rokki. Hressilegt og aftur kemur Mötorhead upp í hugann. Þetta lag er innan við 5 mínútna langt.
Lokalagið er Goddess of Ages. Það duga ekki minna en næstum 13 mínútur til að afgreiða þetta afbragðsfína rokklag. Það er hvergi dauðan punkt að finna á plötunni. Hún nýtur sín best þegar hlustað er á hana í heild. Lögin kallast á hvert við annað og renna notalega saman í sterka heild. Þessi plata hlýtur að blanda sér á lista yfir bestu plötur ársins 2009.
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.7.2009 | 22:36
Bíllinn sem hvarf
Ég hef efasemdir um allt sem kallast "yfirnáttúrulegt". Tel eðlilegar og náttúrulegar skýringar nærtækari en skilgreininguna "yfirnáttúrulegt". En margt er skrítið og ég kann ekki skýringar á öllum slíkum fyrirbærum. Áðan ók ég í rólegheitum frá Hafnarfirði til Reykjavíkur. Umferð var lítil. Á leiðinni frá gatnamótunum í Garðabæ og í átt að Kópavogi ók á undan mér á hægri akrein nýlegur lítill rauður fólksbíll. Hann fór hægar yfir en ég. Þess vegna tók ég framúr.
Ég leit í hliðarspegilinn til að vita hvort ég væri kominn nægilega langt fram fyrir bílinn til að beygja aftur inn á hægri akrein. En það sást enginn bíll í speglinum. Ég leit aftur fyrir mig og kom heldur ekki auga á bílinn. Það er til fyrirbæri sem kallast "svartur blettur" eða "dauðapunktur". Það er punktur sem sýnir ekki í hliðarspeglinum bíl sem er staðsettur við hægra afturhorn míns litla sendibíls. Það var sama hvernig ég horfði í spegilinn eða aftur fyrir mig. Bíllinn sást ekki.
Ég beygði á hægri akrein eftir að hafa fullvissað mig um að þar væri ekki þessi bíll að flækjast fyrir. Allt gekk vel. Bíllinn sást ekki í baksýnisspeglinum. Bíllinn var horfinn. Það er enginn hliðarvegur þarna til hægri sem bílinn gat beygt út á. Þetta var dularfullt. Ég ók út í kant. Stöðvaði bíl minn og fór út. Horfði í allar áttir. Rauði bíllinn var horfinn.
Hvað var í gangi? Var þetta huldubíll? Hafði ég séð ofsjónir?
Er huldufólk að aka um þjóðvegi landsins á huldubílum? Hvaðan fær huldufólkið huldubíla?
Ég er ekki vanur að sjá ofsjónir. Held ég. Að vísu er ég á pensillínkúr, á verkjalyfjum, bólgueyðandi og acidophilus. Veldur sú blanda ofskynjunum?
Einn möguleikinn er sá að ég sé geðveikur og rugli saman ímyndun og raunveruleika. Útiloka það ekki. Eða er til enn ein skýring sem mér yfirsést?
20.7.2009 | 11:37
Aulaklúbburinn
Ég er ekki höfundur þessa nafns. Ég er ekki heldur að skrifa um alþingismenn heldur þann hóp poppstjarna sem hefur fallið frá 27 ára. Hér er listi yfir tvo tugi slíkra. Flestar eiga sameiginlegt að hafa neytt vímuefna og áfengis í óhófi um langa tíð. Athygli var beint rækilega að 27 ára aldursári fráfallandi poppstjarna þegar nokkrar af skærustu poppstjörnum heims gáfu upp öndina á tímabilinu 3. júlí 1969 til 3. júlí 1971. Allar voru þær 27 ára. Einkum þótti þetta hrópandi þegar Jimi Hendrix og Janis Joplin létust með 16 daga millibili og Jim Morrison 9 mánuðum síðar. Eftir það var farið að tala um að poppstjörnur væru komnar yfir dauðaþröskuldinn þegar þær náðu 28. aldursári.
Í kjölfar fráfalls Jims Morrisons fóru í gang miklar vangaveltur um að Robert Johnson, Brian Jones, Jimi Hendrix, Janis Joplin og Jim báru öll upphafsstafinn J í nafni sínu. Alan Wilson var ekki talinn með af því að þau hin voru miklu frægari súperstjörnur. Allkskonar talnarugludallar, stjörnuglópar og álíka kjaftæðispakk velti sér upp úr þessu með sameiginlega upphafsstafinn. En svo hélt þeim áfram að fjölga poppstjörnunum sem dóu 27 ára en ekkert bólaði á fleiri nöfnum með upphafsstafnum J. Síðan hefur dregið úr kenningum er leggja út af honum.
Til að öllu sé til haga haldið skal þess getið að sumir á listanum hér fyrir neðan voru búnir að drekka eða dópa sig út úr hljómsveitinunum er þeir létust..
Erlend rokkblöð hafa meðvitað unnið gegn því að upphefja þennan hóp poppstjarna, sem slíkan, og kallað hann aulaklúbbinn (the stupid club). Bubbi og Rúnar sungu um aulaklúbbinn í samnefndu lagi á plötu með GCD. En listinn er merkilegur:
- Robert Johnson, einn áhrifamesti gítarleikari blússögunnar, dó 16. ágúst 1938. Þessi bandaríski meistari hafði áður selt djöflinum sálu sína. En það var unnusta hans sem byrlaði honum eitur. Það var ólund í henni vegna framhjáhald hans.
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.7.2009 | 02:57
Falleg smásaga af ættleiðingu
Þið munuð öll, þið munuð öll,
Pepsi-deildin | Breytt 7.9.2009 kl. 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
11.7.2009 | 20:20
Skúbb! Fyrrverandi þingmaður sigurvegari á Landsmóti UMFÍ
Gífurlegur fjöldi er nú á Akureyri vegna Landsmóts UMFÍ. Ég fylgist ekki með íþróttaviðburðum (ef hnefaleikar eru undanskildir ásamt strandblaki kvenna). En meistarinn Magnús Geir Guðmundsson (www.meistarinn.blog.is) var svo elskulegur að senda mér skýrslu um hápunkta mótsins. Fyrst hann slær því ekki upp á sínu bloggi bregð ég við skjótt og skúbba hér:
Keppt var í sjósundi yfir Eyjafjörð. Af hátt í fjörtíu keppendum sigraði með glæsibrag Sigurjón Þórðarson formaður Ungmennafélags Skagafjarðar, Hegranesgoði og fyrrverandi alþingismaður Frjálslynda flokksins. Ég sló á þráðinn til Sigurjóns. Hann var að vonum ánægður með árangurinn. Sigurinn kom honum á óvart. Þetta er í fyrsta skipti sem hann prófar sjósund.
Sigurjón var 29 mínútur að synda yfir fjörðinn en flestir aðrir um þrjú korter. Vegalengdin var vel á annan kílómetra. Sennilega tæpur hálfur annar.
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)