Færsluflokkur: Pepsi-deildin
13.6.2009 | 00:21
Meira af Færeyjareisu
Eitt af mörgu sem gerir ferð til Færeyja ánægjulega er að færeyskt ritmál er auðlesið fyrir Íslendinga. Kunnugleg orð þýða þó ekki alltaf það sama á íslensku og færeysku. Á efstu myndinni er verslun merkt sem gávubúð. Slagorð hennar er "Góð gáva gleður". Færeyska orðið gáva þýðir gjöf. Þetta er gjafavöruverslun.
Á næstu mynd er aðstaða Rauða krossins í Færeyjum. Hann kallast Reyði krossur. Færeyingar tala um reyðan penna og reyðan jakka þegar þeir eiga við rauðan penna og rauðan jakka.
Þriðju myndina hef ég stóra til að í baksýn sjáist klettabeltin sem út um allt setja skemmtilegan svip á Þórshöfn. Ef vel er að gáð sést einnig færeyskur hrútur, eða "veðrur" eins og hrútur er kallaður á færeysku og framborið "vegrur".
Það var sama hvort kíkt var á skemmtistað, matsölustað eða í búð: Allstaðar voru Íslendingar. Þeir áttu það sameiginlegt að hafa flúið frá atvinnuleysi á Íslandi til Færeyja í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi síðasta haust. Undanfarna áratugi hefur færeysk króna kostað 10 íslenskar krónur. Í dag kostar færeysk króna 24,5 íslenskar. Laun í Færeyjum hafa verið heldur hærri en á Íslandi og þegar þau eru reiknuð á núverandi gengi í dag geta vinnandi Íslendingar í Færeyjum sent dágóða upphæð til framfærslu sinna fjölskyldna á Íslandi. Íslendingar í Færeyjum eru í sömu stöðu hvað það varðar og Pólverjar sem hafa verið í vinnu á Íslandi undanfarin ár.
Hinsvegar er nokkuð dýrt fyrir Íslending að ferðast til Færeyja um Þessar mundir. Bjór sem áður kostaði á bar 500 íslenskar krónur kostar núna 1225 kall (50 færeyskar krónur). Það er reisn yfir því.
12.6.2009 | 03:07
Færeyjareisan
Það var ekki alveg beina leiðin að heilsa upp á Færeyinga. Í fyrstu atrennu klaufuðumst við ferðafélagar til að fara til Þórshafnar á Langanesi í staðinn fyrir að fara til Þórshafnar í Færeyjum. Þetta klúður kostaði breytta ferðaáætlun um eina viku. Sem var allt í lagi. Þannig lagað. Næsta föstudag tókst þó ekki betur til en að flogið var til Egilsstaða í stað þess að heilsa upp á Færeyinga.
Íslensk hljómsveit sem heitir Mezzoforte átti á spila á hljómleikum í Færeyjum þarna um kvöldið. Það muna kannski einhverjir eftir þessari hljómsveit síðan hún sendi frá sér smellinn Garden Party fyrir næstum þremur áratugum.
Mezzoforte nýtur gífurlega mikilla vinsælda í Færeyjum. Þar er þessi hljómsveit þvílík súpergrúppa að færeyskir fjölmiðlar tíunda allt sem að henni snýr með uppsláttarfrétt á forsíðu dagblaða og í sjónvarpsfréttum. Ég veit fátt um þessa hljómsveit annað en það sem ég les um hana í færeyskum dagblöðum. Ég er ekkert neikvæður gagnvart fönkuðu fjúsjóni Mezzoforte. Bara ekki minn djass.
Þegar ég fór til Færeyja um páskana í fyrra sögðu færeyskir fjölmiðlar frá fyrirhuguðum hljómleikum Mezzoforte í Danmörku í júní sama ár. Ég varð aldrei var við að þeirra hljómleika væri getið í íslenskum fjölmiðlum.
Það var gist á hóteli á Egilsstöðum yfir blánóttina. Um kvöldið hitti ég þar (á barnum) skemmtilega Skagfirðinga, Siglfirðinga, Færeyinga og fleira skemmtilegt fólk. Síðan var haldið til Færeyja eldsnemma á laugardagsmorgni. Svo ánægjulega vildi til að í hópi þeirra ferðafélaga er ég kynntist var kærustupar. Konan er færeysk fósturdóttir Siffa vinar míns af Wall Street og Classic Rock og maðurinn er fóstursonur Erlings Thoroddsen náfrænda míns, trúfélaga í Ásatrúarfélaginu og hótelstjóra á Raufarhöfn. Hvorugt þeirra hafði ég hitt áður en þó talað við manninn í síma. Hann heitir Jens Kristján eins og ég. Það urðu fagnaðarfundir. Og Siffi varð hissa þegar hann ræddi við fósturdóttir sína þarna í síma á Egilsstöðum og hún rétti mér símann.
Mezzoforte héldu tvenna hljómleika í Færeyjum síðdegis á laugardeginum. Það var troðið út úr dyrum á báðum hljómleikunum í Norræna húsinu í Þórshöfn. Allir sem ég hitti og mættu á hljómleikana voru í sjöunda himni og verulega hamingjusamir með hljómleikana. Ég fór hinsvegar á allt öðru vísi og færeyska hljómleika með píanóleikaranum Kristian Blak og fleirum. Og var kátur.
Á myndinni hér fyrir ofan er ég að deila við færeyska rokkara sem aðhyllast óbreytt ástand: Að Færeyjar séu hluti af danska sambandsríkinu. Þetta er fyrir utan skemmtistaðinn Glitni í Þórshöfn. Á myndinni fyrir neðan syng ég fyrir þá Skál við syngja Skagfirðingar. Það er fastur liður á pöbbarölti í Færeyjum. Fyrir og eftir þann söng sagði ég þeim að Færeyingar ættu að kljúfa sig frá Danmörku. En talaði fyrir daufum eyrum. Held ég. Annars man ég það ekki glöggt. Þar fyrir utan hef ég sterkan grun um að það hafi verið gaman þarna á Glitni. Í baksýn á myndinni glittir í Íslending sem ég man ekki hvað heitir.
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
27.5.2009 | 01:56
Færeyskur brandari
Færeyskur húmor er dásamlegur. Ég kann ekki að greina hann. En það er alltaf gaman þegar Færeyingar senda mér brandara. Ég veit ekkert hvort þeir eru frumsamdir eða færeyskir yfir höfuð. Það skiptir ekki máli. Stemmningin er alltaf sú sama Hér er einn dæmigerður:
Nunna gengur framhjá geðveikrahælinu. Einn vistmanna hleypur að henni, skellir henni í jörðina og sparkar í hana liggjandi um leið og hann segir sigri hrósandi: "Já, var það ekki? Þú ert ekki eins mikið hörkutól og þú þykist vera, Batman!"
Á færeysku: Ein nonna gegg framvið Kaggan, tá ein av bumsunum har, leyp út og bukaði nonnuna av og sparkaði hana har hon lá, meðan hann segði: "náhh.. tú ert ikki so skrappir kortini, ha? Batman..."
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
24.5.2009 | 00:10
Upprifjun á spennandi og áhugaverðum skoðanakönnunum
Ég byrjaði að blogga fyrir tveimur árum. Á dögunum fékk ég ósk frá bókaútgefanda um að nokkrar gamansögur af blogginu mínu verði birtar sem kafli í bók. Það er bara gaman. Og reyndar ekki í fyrsta skipti sem gamansögur af blogginu mínu koma út í bók. Í fyrra kom út frábær bók um Önnu frænku mína frá Hesteyri, Ég hef nú aldrei verið algild. Þar eru nokkrar upprifjanir mínar af samskiptum við Önnu sem höfðu birst á blogginu.
Vegna kaflans í væntanlegri bók fletti ég upp á gömlum bloggfærslum. Þar rakst ég á fyrstu skoðanakannanir sem ég setti upp á blogginu. Það er gaman að rifja þær upp.
Fyrsta skoðanakönnun var um John Lennon og Paul McCartney. Spurt var hvor væri í meiri metum. Sjálfur tók ég fram að ég geri ekki upp á milli þessara manna. Þeir eru í sama uppáhaldi hjá mér: Sem frábærir lagahöfundar, söngvarar og túlkendur. Báðir mistækir en jafn miklir snillingar fyrir því þegar best hefur látið.
Það kom mér á óvart að strax í upphafi skoðanakönnunarinnar var hlutfallið þannig að 70% kusu Lennon og 30% McCartney. Þetta hlutfall hélst óbreytt fram yfir 1000 greidd atkvæði.
Í næstu könnun var spurt um hvor hljómsveitin væri merkilegri; Bítlarnir eða The Rolling Stones. Niðurstaðan breyttist ekkert frá upphafi til 455 greiddra atkvæða:
Bítlarnir 62,4%, The Rolling Stones 25,7% og 11,9% voru mér sammála um að gera ekki upp á milli þessara hljómsveita.
Í þriðju skoðanakönnuninni spurði ég hver væri besta/merkasta hljómsveit íslensku rokksögunnar. Ég forvann könnunina með því að ræða við 30 manna hóp tónlistaráhugamanna. Hjá þeim fékk ég uppástungur um líklega sigurvegara í svona könnun. Þegar til kom sat ég uppi með um 30 nöfn. Þá hófst niðurskurður í samvinnu við þessa sömu sem ég hafði rætt við. Takmarkið var að þrengja hringinn niður í eins fá nöfn og hægt væri. Að lokum stóðu uppi 8 nöfn sem ég stillti upp í formlega skoðanakönnun.
Nánast frá upphafi mynduðust þau úrslit sem urðu endanleg.
Ég miðaði við að úrslit væru klár þegar 500 atkvæði hefðu verið greidd. Þegar 547 atkvæði höfðu verið greidd urðu úrslitin þessi:
1. Trúbrot 24,8%
2. Utangarðsmenn 19,8%
3. Sigur Rós 16,9%
4. Sykurmolarnir 12,1 %
5. Gyllinæð 10,6%
6. Þeyr 8,8%
7. Ham 5,0%
8. Mínus 2,0%
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 17:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
21.5.2009 | 14:25
Dýramyndir
Dýr geta verið yndislega krúttleg og / eða glæsileg og tignarleg. Hér eru nokkur bráðskemmtileg sýnishorn.
Pepsi-deildin | Breytt 12.6.2009 kl. 00:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.5.2009 | 12:00
Harkalega tekist á
Ég skrapp á bókasafn í gær. Það er svo gaman að glugga í héraðsfréttablöðin. Einkum Feyki frá Sauðárkróki. Á næsta borði hægra megin við mig sat miðaldra maður og las Fréttablaðið. Skyndilega gengur að honum aldraður maður og spyr kurteislega: "Verður þú lengi enn að lesa Fréttablaðið?"
Sá miðaldra sagðist ekki vita það. Það færi eftir því hvort eitthvað áhugavert sé á blaðsíðunum sem hann eigi eftir að fletta. Þá snöggfauk í þann gamla og hann hreytti út úr sér: "Þú ert búinn að einoka blaðið í meira en 20 mínútur. Þú ert ekki Palli einn í heiminum þó þu haldir það!"
Miðaldra maðurinn afsakaði sig með því að hann vissi ekki til að neinar reglur gildi um þetta. Sjálfur telji hann eðlilegast að fólk taki sér þann tíma sem þarf til að lesa hvað sem í boði er á bókasöfnum.
Við þetta æstist sá gamli upp. Hann sagði yngri manninn vera ósvífinn frekjuhund, óhæfan í mannlegum samskiptum og óuppalinn drullusokk. Lokaorð gamla mannsins voru þau að hann kæmi aldrei aftur í þetta bókasafn og það væri ófyrirleitni hins að kenna. Svo strunsaði hann hraðgengur út úr húsinu.
Ég blandaði mér ekki í deiluna. En glotti við fót í laumi um leið og ég gjóaði augum á næsta borð mér á vinstri hönd. Þar lá annað eintak af Fréttablaðinu og enginn var að lesa það.
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
9.5.2009 | 01:26
Góður banki
Ég er ekki vanur að lofsyngja banka. Nema kannski gríska sæðisbankann fyrir að hafa verið með lógó (firmamerki) gamla Íslandsbankans löngu á undan Íslandsbanka. Í dag fór ég í útibú Íslandsbanka við Kirkjusand til að borga vel hrærða reikningasúpu. Að því loknu tók ég eftir að einn reikningurinn virtist vera ógreiddur þó af honum hafi verið tekið eintak bankans.
Ég snéri mér aftur til gjaldkera. Lenti reyndar á öðrum en þeim sem hafði afgreitt mig. Gjaldkerinn, ljúf kona, kannaði málið. Hún komst fljótlega að sömu niðurstöðu og ég. Og varð alveg miður sin. Svo niðurbrotin að ef gler hefði ekki skilið okkur að hefði ég faðmað hana, klappað og hughreyst. Ég benti henni á að enginn hefði slasast. Allir væru við góða heilsu nema fólk í útlöndum með svínaflensu.
Konan var óhuggandi þangað til hún sagðist hafa tekið eftir að ég væri aldrei með seðlaveski. Hún bauð mér að þiggja af bankanum glæsilegt seðlaveski sem afsökun fyrir mistökunum. Mér var ljúft að samþykkja það.
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 01:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
6.5.2009 | 21:02
Áhugaverð ræða Ólafs F. Magnússonar, fyrrverandi borgarstjóra
Eins og ég sagði frá á dögunum - og fréttastofur fjölmiðlanna hafa nú einnig sagt frá - hefur Ólafur F. Magnússon yfirgefið Frjálslynda flokkinn og stofnað nýtt framboð, H-listann. Ég hef komist yfir ræðu Ólafs þar sem hann gerði borgarstjórn grein fyrir ákvörðun sinni í gær. Það er hin fróðlegasta lesning og þess vegna birti ég hana hér í heild:
Forseti, góðir borgarfulltrúar.
Fyrir tíu árum, um vorið 1999, var ég í þeirri sérkennilegu stöðu, að vera borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, en gat engan veginn hugsað mér að kjósa flokkinn í Alþingiskosningum þá um vorið. Árið áður hafði ég verið í framboði fyrir flokkinn til borgarstjórnar og kosið hann í síðasta sinn á lífsleiðinni. Því mér hafði smám saman orðið ljóst, og alveg hvellljóst um vorið 1999, að Sjálfstæðisflokkurinn stóð ekki lengur fyrir þeim gildum, sem alla tíð hafa mótað lífsskoðun mína. Gildum umhyggju og réttlætis og baráttunnar fyrir velferð og öryggi þegnanna ásamt óskoruðu eignarhaldi almennings yfir auðlindum til lands og sjávar og rétti ófæddra kynslóða til að erfa landið okkar fagra með einstöku náttúrufari sínu.
Sjálfstæðisflokkurinn var þá þegar farinn að starfa þvert á þessi gildi með gegndarlausri græðgis- og einkavinavæðingu, spillingu, valdníðslu og niðurgreiddum náttúruspjöllum. Pólitík sem gat með góðu móti kallast öfug Hróa hattar pólitík með rányrkju á auðlindum og eigum almennings, umhverfissóðaskap og stalíniskri stóriðjustefnu.
Þegar ég gerðist frumstofnandi og ábyrgðarmaður grasrótarhreyfingarinnar Umhverfisvinir um haustið 1999, vissi ég að dagar mínir í Sjálfstæðisflokknum væru taldir. Það var hins vegar sannarlega þess virði að fórna stjórnmálaferli sínum fyrir jafn góðan málstað og þann að bjarga náttúruperlu á borð við Eyjabakka og forða því að þeim væri sökkt fyrir minna en engan efnahagslegan ávinning. En í þeirri baráttu kynntist ég rækilega því valdi óttans sem þáverandi forysta og ráðandi öfl innan Sjálfstæðsisflokksins beittu gegn öllum þeim, sem voguðu sér að efast um ágæti þeirrar ósjálfbæru og óhagkvæmu ofurvirkjanastefnu, sem hefur tröllriðið náttúru landsins og efnahag þjóðarinnar.
Það var því vonum seinna, að ég sagði mig úr Sjálfstæðisflokknum, hér í pontu borgarstjórnarsalarins, í upphafi borgarstjórnarfundar hinn 20. desember árið 2001, klukkustundu áður en þáverandi umhverfisráðherra felldi úr gildi úrskurð Skipulagsstofnunar um að ekki skyldi ráðist í Kárahnjúkavirkjun, vegna umtalsverðra og óafturkræfra umhverfisáhrifa hennar. Með úrsögn minni úr Sjálfstæðisflokknum var auðvitað og ekki í fyrsta sinn talið fullvíst að pólitískum ferli mínum væri lokið. Rétt eins og allt benti til þegar talningu var að ljúka í borgarstjórnarkosnungunum vorið 2002, þegar ég náði óvænt kjöri sem óháður borgarfulltrúi í samstarfi við Frjálslynda flokkinn. Samstarfi sem nú er komið að leiðarlokum vegna þess einstaka getuleysis , sem núverandi forysta Frjálslynda flokksins hefur sýnt, í einu og öllu, nema að hrekja á brott alla þá sem vilja vinna meintum málstað flokksins gagn. Málstað sem ég hélt að snerist um að vernda auðlindir almennings til sjávar og sveita fyrir þeirri gegndarlausu græðgisvæðingu og auðlindasóun, sem höfuðspillingaröfl íslenskra stjórnmála, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hafa stundað tiltölulega óáreittir um árabil og hafa alla aðstöðu til að stunda áfram um nokkurt skeið á vettvangi borgarstjórnar Reykjavíkur.
Senn fer þó að fjara undan helmingaskiptameirihlutanum í Reykjavík, þegar tillögur mínar í borgarstjórn frá síðasta ári, um að fjárframlög til frambjóðenda í prófkjörum verði gerð opinber ná fram að ganga. Allir vita að þá kemur fiskur undan steini. Og athygli vekur að einungis fulltrúar vinstri grænna hafa staðið vaktina við hlið mér gegn spillingunni í borgarstjórn Reykjavíkur. Rétt eins og fulltrúar vinstri grænna stóðu einir vaktina í umhverfis-, orku- og auðlindamálum fyrir síðustu Alþingiskosningar, sem og árið 1999, en bæði þá og í vor átti ég ekkert annað val, sem einlægur talsmaður sjálfbærrar umhverfis- og auðlindastefnu en að kjósa einmitt vinstri græna.
Í Alþingiskosningunum í vor gat ég ekki stutt,eins og ég hefði viljað, allt það ágæta fólk, sem hefur haft hugsjónir Frjálslynda flokksins um að vernda auðlindir í eigu almennings gagnvart eignaupptöku í þágu sérhyggju- og græðgisvæðingar. Því er um að kenna að forysta flokksins boðaði gegndarlitla ofveiði- og ofurvirkjanastefnu, stefnu þar sem auðlindin er hvorki vernduð né nýtt með sjálfbærum hætti og ekkert hugsað um næstu kynslóð á Íslandi. Það samrýmist ekki upphaflegum hugsjónum flokksins, að halda áfram að láta almenning greiða niður orkusölu til erlendra álbræðslurisa, á sama tíma og okrað er á innlendum orkukaupendum. Það samræmist ekki heldur hugsjónum flokksins að fórna náttúruperlum fyrir minna en ekki neitt og nýta aðeins brot af hitaorkunni úr iðrum jarðar við raforkuframleiðsluna. Ég ítreka að ég ber góðan hug til þeirra frambjóðenda og stuðningsmanna Frjálslynda flokksins, sem reyndu að þreyja þorrann fram til hins síðasta, þrátt fyrir slaka frammistöðu formannsins, fyrrverandi þingflokksformannsins og framkvæmdastjórans, sem hafa sett flokkinn málefnalega og fjárhagslega á höfuðið. Þessir þremenningar hafa sýnt dugleysi og óráðsíu og seint verða þeir vændir um hreinlyndi eða að tala vel um félaga sína.
Á borgarstjórnarvaktinni hef ég oftast staðið einn vörð um verndun umhverfisins og náttúru- og menningarminja, auk þeirrar þungu áherslu sem ég legg á velferðar og öryggismál, enda mótaður af bakgrunni mínum sem heilbrigðisstarfsmaður. Ég vænti engu að síður sívaxandi stuðnings við og samstarfs um mín sjónarmið af hálfu borgarfulltrúa og varaborgarfulltrúa vinstri grænna, sérstaklega gagnvart spillingarmálunum, enda er það einbeittur vilji minn að vinna gegn þeirri rótgrónu spillingu, sem tíðkast hefur hjá helstu valdaflokkum íslenskra stjórnmála, Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, sem illu heilli sitja enn að kjötkötlum borgarinnar og nýta það óspart í fyrirgreiðslum, launagreiðslum, ferða- og dagpeningagreiðslum og veislugjörðum sjálfum sér til dýrðar en á kostnað borgarbúa.
Góðir borgarfulltrúar og góðir Reykvíkingar.
Um leið og ég segi öllu samstarfi borgarstjórnarflokks F-listans við Frjálslynda flokkinn slitið, boða ég nýtt framboð óháðra, sem ég hyggst leiða í næstu borgarstjórnarkosnungum, að líkindum undir merkjum H-lista og með einkunnarorðunum: Hreinskilni, hæfni, heiðarleiki, þó að einkunnarorðin góðu frá 2002 Umhyggja, hreinskilni, réttlæti, séu enn í fullu gildi. Á allt þetta skortir hjá núverandi meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Það er brýn þörf á því að venjulegt fólk með eðlileg tengsl við atvinnulíf og mannlíf í borginni láti ekki útsendara á vegum óprúttinna fjárplógsmanna, hagsmunaafla og stjórnmálaflokka hrekja sig frá því að starfa að borgarmálum. Það hefur svo sannarlega verið reynt gagnvart mér en ekki tekist. Með því vil ég sýna öðrum borgarbúum gott fordæmi um leið og ég hvet allan almenning til virkrar þáttöku í borgarlífinu og að gefa duglausum atvinnvinnustjórnmálamönnum reisupassann. Af langri reynslu þekki ég vel þá ríku tilhneigingu atvinnustjórnmálamanna að hugsa fyrst og fremst um eigin velferð og vera ávallt tilbúnir að sveigja frá hugsjónum sínum og fyrirheitum. Ég mun hins vegar sem óháður borgarfulltrúi berjast fyrir velferð og öryggi allra borgarbúa, enda aðeins skuldbundinn af orðum mínum og sannfæringu.
28.4.2009 | 00:43
Partý aldarinnar
Fyrir nokkrum árum ákvað kunningi minn að halda upp á þrítugsafmæli sitt með stæl. Hann var nýskilinn við kellu sína. En blankur. Hann sló bankalán fyrir því sem kallað var "partý aldarinnar". Enda var hann í leiðinni að halda upp á skilnaðinn. Þar fyrir utan var þetta einnig innflutningspartý vegna íbúðar sem hann hafði tekið á leigu.
Ekkert var til sparað þó ekki væri gengið jafn langt og hjá íslenskum auðmönnum sem buðu upp á Elton John eða Duran Duran. Blessunarlega ekki.
Kunninginn keypti bílhlass af bjór og kampavíni. Hann skreytti íbúðina ótal uppblásnum blöðrum, utan sem innan, og allskonar partýglingri. Keypti helling af furðulegum pappírshöttum, ýlum og dóti sem er áberandi á gamlárskvöldi.
Hann fékk vin sinn til að spila á hljómborð (skemmtara) inn á geisladisk undirleik við helstu rútubílasöngva. Hann lét fjölrita texta þessara sömu slagara: Fatlafól, Stál og hnífur, Undir bláhimni og svo framvegis. Það átti að syngja vinsælustu slagarana fram undir morgun.
Allur eftirmiðdagur fór í að smyrja snittur og smábrauð. Jafnframt voru skálar fylltar kartöfluflögum og raðað innan um ídýfur af ýmsu tagi.
Um klukkan 23:00 kíkti ég við. Enginn var mættur í partý aldarinnar. Ég stoppaði stutt við og hélt síðan á hverfispöbbinn. Kunninginn gaf mér fyrirmæli: "Ekki vera of lengi. Partý aldarinnar hefst upp úr miðnætti. Þú mátt ekki missa af fjörinu."
Ég ílengdist á pöbbnum. Skilaði mér í partý aldarinnar um klukkan 2. Þá var allt með sama sniði og klukkan 23:00. Enginn hafði mætt. Ekki ein einasta manneskja. Ef undan er skilin ein fullorðin útlend kona sem kunninginn hafði rekist á í stigaganginum. Hann náði að hella í hana einu bjórglasi. En þau gátu ekki spjallað saman. Konan talar hvorki ensku né íslensku. Bara pólsku.
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 13:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
25.4.2009 | 02:26
Smásaga um hund
Einu sinni var fjárhundur á sveitabæ. Hann hét Geir Finnur Þór. Enginn vissi af því. Þess vegna var hann kallaður Snati. Einn góðan veðurdag síðsumars fékk hann að fara í göngur með húsbónda sínum. Húsbóndinn reið með björgunum fram og Snati elti. Snata þótti ósanngjarnt að þurfa að hlaupa alla þessa leið á meðan húsbóndinn sat óþreyttur á hestbaki. Snati sagði ekki neitt. En hugsaði þeim mun meira. Eftir að hafa velt málinu fyrir sér á hlaupum inn dalinn komst Snati að þeirri niðurstöðu að húsbóndinn væri ójafnaðarmaður.
Innst í dalnum hafði safnast saman hópur fólks á hestum og hundar. Snati kom þar auga á fallegustu tík sem hann hafði augum litið. Snati vonaðist til að þau yrðu samferða í fjársmöluninni. Honum varð ekki að ósk sinni. En þau hittust aftur þegar komið var með féð í réttirnar. Snati vissi ekki hvernig hann átti að stofna til samskipta við tíkina. Í ráðaleysi sínu réðist hann á hana með kjafti og klóm. Hún varði sig af hörku. Þá kom eigandi hennar og sparkaði fantalega í Snata og lamdi hann með píski. Snata þótti það svínslegt. Leikurinn var orðinn ójafn. Tvö á móti einum. Snati rölti ýlfrandi heim á leið. Það var hundur í honum.
Pepsi-deildin | Breytt 16.9.2009 kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)