Færsluflokkur: Pepsi-deildin

Jack Bruce hraunar yfir Led Zeppelin

Cream

  Skoski söngvarinn,  bassaleikarinn og lagahöfundurinn Jack Bruce er þekktur fyrir hroka,  kjafthátt og frekju.  Á árum áður átti hann til að veitast að meðspilurum sínum í hljómsveitum með barsmíðum.  Hann hefur víst lagt af þann sið,  tæplega sjötugur.  Jack er þekktastur fyrir að hafa leitt blús-rokktríóið Cream 1966 - ´68.  Meðal annarra sem hann hefur spilað með eru Manfred Mann,  Frank Zappa,  Michael Mantlier,  Ringo Starr og John Mayall´s Bluesbreakers.  Bara svo fáir séu nefndir.

  Í nýjasta hefti breska rokkblaðsins Classic Rock getur kallinn ekki leynt afbrýði sinni út í Led Zeppelin:

  "Allir eru að tala um Led Zeppelin - og þeir komu fram á einum fjandans hljómleikum.  Einum lélegum hljómleikum.  Á sama tíma túruðum við í Cream vikum saman og héldum hvarvetna góða hljómleika.  Ekki lélega eins og Led Zeppelin,  sem þurftu að lækka sig um tónhæð og hvaðeina.  Við fluttum öll okkar lög í upphaflegri tónhæð.    

  Fjandinn hirði Led Zeppelin;  þið eruð drasl.  Þið hafið alltaf verið drasl og þið verðið aldrei neitt annað.  Gallinn er sá að fólk gleypir við draslinu sem því er selt.  Cream var tíu sinnum betri hljómsveit en Led Zeppelin. 

  Ætlar einhver að líkja vesalingnum Jimmy Page við Eric Clapton?  Svoleiðis samanburður er út í hött.  Eric er góður (gítarleikari) en Jimmy er lélegur.  Eini frambærilegi náunginn,  eini gaurinn sem gat eitthvað í Led Zeppelin er dauður."

  Ljósmyndin hér að ofan er af Cream.  Jack Bruce er lengst til vinstri. Á myndbandinu hér fyrir neðan flytja Cream eitt sitt þekktasta lag,  Sunshine of your Love.  Cream var frábær hljómsveit og hafði töluverð áhrif á þróun blúsrokksins yfir í þungarokk.  Það breytir engu um að Led Zeppelin var besta hljómsveit rokksögunnar.


Skúbb! Uppselt á Bubba

bubbi1

  Laugardaginn 31. janúar heldur Bubbi hljómleika í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn í Færeyjum.  Norðurlandahúsið í Þórshöfn er einstaklega glæsilegt - aldeilis frábær arkítektúr -  og mun rúmbetra en Norræna húsið í Reykjavík.  Stærsti salurinn í Norðurlandahúsin í Þórshöfn tekur um 200 manns í sæti.  Það seldist upp á hljómleika Bubba "á no time".  Vegna eftirspurnar hefur öðrum hljómleikum með Bubba verið bætt við sunnudaginn 1.  febrúar. 

  Bubbi er stórt nafn í Færeyjum.  Það líður vart sá dagur að lög með Bubba séu ekki spiluð í færeyskum útvarpsstöðvum.  Sennilega er  Það er gott að elska  mest spilaða lagið með Bubba í Færeyjum.   Talað við gluggann  er einnig þekkt lag með Bubba í Færeyjum.  Það var "krákað" (coverað) á plötu,  Hinumegin ringveginn,   með einu hæst skrifaða söngvaskáldi Færeyja,  Kára P.,  1992.  Sú plata fæst í Pier í glerturninum við Smáratorg og á Korputorgi.  Margir aðrir Færeyingar hafa krákað lagið,  bæði á plötum og þó enn fremur á hljómleikum.  Þetta er "klassískur" pöbbaslagari í Færeyjum.  Það er sérstök upplifum að vera á pöbbahljómleikum í Færeyjum þegar allir syngja  Talað við gluggann.   

  1998 var ég með mitt fyrsta skrautskriftarnámskeið í Færeyjum og spurði hvort nemendur kynnu eitthvert íslenskt lag.  Með það sama brast á kröftugur söngur 24 nemenda í  Talað við gluggann.

  Á morgun,  laugardag,  klukkan 16:00 mun Bubbi frumflytja í Iðnó lag um fjöldamorð nasistanna í Ísraelsher á Palestínumönnum,  konum og börnum á Gaza.

 


Óvænt uppgötvun. Ekki er allt sem sýnist!

  Ég átti erindi upp í Breiðholt í kvöld.  Þegar ég rölti þar á milli húsa heyrði ég kallað eða stunið:  "Óh! Óh! Óh!"  Ég velti því ekki frekar fyrir mér.  Gekk út frá því sem vísu að þarna væri fátækt fólk á krepputímum að búa sér til ódýra skemmtun.  Það var ekki fyrr en ég heyrði í fréttum að nú væri þrettándinn sem ég kveikti á perunni:  Ég hafði heyrt í jólasveini fara afturábak heim til sín.      

Breytingar á bloggi

  Áramótin eru tíminn þegar fólk setur sér markmið.  Ákveður að byrja að reykja á nýja árinu eða byrja að klæðast sokkaleistum.  Áramót eru góður tími til að endurskoða og endurmeta hluti.  Bloggið mitt fer ekki varhluta af því.  Nú verður heldur betur breyting á því.

  Ég byrjaði að blogga fyrir einu og hálfu ári.  Þá hafði ég aldrei lesið blogg og vissi ekkert um blogg.  Fram að þeim tíma höfðum við bræðurnir og systursynir skipst daglega á "reply to all" tölvupósti.  Aðallega til að spjalla um músík.  En einnig til að benda hver öðrum á sitthvað broslegt sem við rákumst á í fjölmiðlum,  rifja upp sögur af afa eða Önnu frænku á Hesteyri,  ræða um pólitík og bara sitthvað.  Stundum var tölvupósturinn þess eðlis að hann var áframsendur til fleiri.   

  Bloggið átti að vera framhald á minni þátttöku í "reply to all" tölvupóstinum.  Eitthvað fór úrskeiðis þegar frá leið.  Í stað þess að bloggið mitt væri bundið við samskipti við ættingja og vini fór það að fá 1000 - 1500 innlit á dag.  Ég á ekki svo marga ættingja og vini.

  Þessu hefur fylgt vaxandi fjöldi óska um að ég veki athygli á einu og öðru á blogginu.  Auglýsi þetta og fjalli hitt.  Sumar vikur hafa allt upp í 8 af hverjum 10 bloggfærslum mínum komið til á þennan hátt.  Þessu hafa fylgt heilmikil tölvupóstsskipti og ennþá fleiri símtöl.  Ekki síður frá ókunnugum en fólki sem ég þekki.  Pósturinn og símtölin hefjast alltaf á orðunum:  "Af því að það eru svo margir sem lesa bloggið þitt..."

  Ekki misskilja mig.  Það er gaman að vera í aðstöðu til að hjálpa fólki.  Það er líka gaman að vera í samskiptum við fólk.  Á hinn bóginn hefur þetta leitt til þess að alltof mikill tími fer í bloggið.  Sú er ástæðan fyrir því að ég ætla að fækka verulega innlitum á bloggið mitt.  Það geri ég með því að láta fara minna fyrir mér og mínu bloggi.  Einkum með því að blogga sjaldnar,  hafa bloggfærslurnar "látlausari",  tengja ekki við fréttir o.s.frv.

  Annað:  Munið að kjósa í skoðanakönnun um best jólalagið hér vínstra megin á síðunni.


Broslegar kreppuauglýsingar

  Núna þegar þrengir ört í búi hjá íslensku hryðjuverkaþjóðinni er gott að búa sig undir frekari þrengingar með því að skoða þessar auglýsingar frá fátæku fólki sem reynir að gera sér pening úr hverju sem er.  Vissulega broslegar auglýsingar í augum okkar á meðan við eigum ennþá til hnífs og skeiðar.  En þess verður ekki langt að bíða að við sjáum svona auglýsingar í íslenskum blöðum.

auglýsing3

Hér er notaður legsteinn til sölu.  Hann er sagður henta best fyrir þann sem heitir Homer Hendel Bergen Heinzel.  Aðeins eitt eintak.  til sölu.

auglýsing4

Sett af lítið notuðum gervigómum til sölu.  Aðeins 2 tennur vantar.

auglýsing5 

Rúmdýna í fullri stærð.  20 ára ábyrgð.  Eins og ný.  Örlar á hlandlykt.

auglýsing6

Kalkúni til sölu. Að hluta til snæddur.  Aðeins 8 daga gamall.  Báðir leggir ósnertir.


Almenningur styður mótmælendur

  hordurtorfa

  Val hlustenda rásar 2 á söngvaranum,  gítarleikaranum,  söngvaskáldinu og leikstjóranum Herði Torfasyni sem manni ársins er vísbending um að almenningur á Íslandi styðji mótmælafundina sem Hörður hefur staðið fyrir.  Atkvæðin dreifðust yfir á 130 manns.  Hörður fékk 20% atkvæðanna.  Hann hefur alltaf hvatt til þess að mótmælin fari friðsamlega fram.

  Í öðru sæti var handboltalið sem líka mætti á útifund.  Þar var það blessað af forsetanum,  borgarstjóranum og ýmsum stjórnmálamönnum.  Þar á meðal menntamálaráðherra,  Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur.  Hún fékk 1 atkvæði í valinu á manni ársins.

  Næstir boltaköllunum í atkvæðamagni voru meðal annars Vilhjálmur Bjarnason, formaður Samtaka fjárfesta;  Björk Guðmundsdóttir og Ólafur F.  Magnússon,  fráfarandi borgarstjóri.   

.

.


mbl.is Mótmælin áttu að vera friðsamleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að ritskoða sjálfa/n sig

  peningar

  Tjáningarfrelsi er gott fyrirbæri.  Íslendingar - eins og aðrir norðurlandabúar - búa við mesta tjáningarfrelsi í heimi,  samkvæmt mælingu stofnunar sem kallast Free Press.  Það er gott.  Verra er að stofnunin mælir ekki þá tegund ritskoðunar sem kallast sjálfsritskoðun.

  Vinkona mín hefur verið að blogga hér á moggablogginu.  Hún hefur tjáð sig um ýmis hitamál í þjóðfélaginu.  Á vinnustað hennar hafa skoðanirnar sem hún viðrar á blogginu fallið í grýttan jarðveg.  Jafnvel svo að í kjölfar sumra bloggfærslnanna hefur andað köldu til hennar.

  Nú er sú staða uppi í þjóðfélaginu að allt umhverfis konuna er verið að skera niður og segja upp fólki.  Hún er lent í þeirri stöðu að þurfa að ritskoða sjálfa sig til að veikja ekki stöðu sína á vinnumarkaði.  Reyndar hefur hún stigið það stórt skref í ritskoðuninni að hún er hætt að blogga,  komin í bloggfrí,  þangað til um hægist. 


Einn léttur

  Þennan fékk ég sendan fyrir nokkru.  Ég var búinn að gleyma honum þangað til ég rakst á fréttina um að hrossalæknir, Árni M.  Mathiesen, væri að slá öll met í skoðanakönnun bandaríska vefblaðsins Huffington Post um versta bankamann heims.  Næst verstu bankamenn heims komast hvergi með tærnar þar sem Árni hefur hælana.  Það er eins gott að útlendingar komist ekki að því að Árna tókst á tveimur dögum að verða versti dómsmálaráðherra heims á sínum tíma.

  Dag einn var frægasti bankamaðurinn í bílferð í stóru flottu limmósínunni sinni þegar að hann sá 2 menn við veginn bítandi gras. Hann bað bílstjórann að stoppa og steig áhyggjufullur út úr stóru flottu limmósínunni, gekk til annars mannsins og spurði af hverju þeir væru að bíta gras?
  Maðurinn svaraði að það væri vegna þess að þeir ættu ekki pening til ad kaupa mat og því þyrftu þeir að gera sér gras að góðu.
  Bankamaðurinn varð hissa og bauð manninum að koma með sér heim í stóra glæsihúsið.  Hann skuli gefa fátæka manninum nóg að borða.
  Fátæki maðurinn svaraði að hann gæti ekki komið því hann ætti konu og 2 börn og benti í átt til trés skammt frá þar sem konan og börnin voru á beit.
  Bankamaðurinn sagði að auðvitað kæmu konan og börnin með. Bankamaðurinn snéri sér svo að hinum manninum og bauð honum einnig med því nóg pláss var í stóru flottu limmósínunni.
  Maðurinn þakkaði fyrir sig en sagðist því miður ekki geta komið því hann ætti konu og 6 börn Bankamaðurinn bauð þeim að koma með líka.
  Þegar allur hópurinn var kominn upp í stóru flottu limmósínuna og þau lögð af stað í glæsihúsið gat annar mannanna ekki á sér setið og grátklökkur þakkaði hann bankamanninum fyrir góðmennskuna:  "Kæri bankamaður,  þú ert mjög góður maður.  Í kvöldbænum mínum skal ég biðja guð um að blessa þig á hverjum degi."
  Bankamaðurinn svaraði:  "Þetta er alveg sjálfsagt og allir myndu gera það sama í mínum sporum. Ykkur á eftir að líka vel heima hjá mér því garðurinn minn er stór og grasið alveg 20 cm hátt, fallega grænt og safaríkt."

----------------------------------------------------------------------------------------

árnimathiesen

  "Sjáið þið ekki veisluna,  drengir?" spurði Árni M.  Mathiesen hæðnislega í ræðupúlti á alþingi þegar þingmenn vöktu athygli á að viðvörunarbjöllur um yfirvofandi kreppu væru farnar að hringja óþægilega hátt. 


mbl.is Árni versti bankamaðurinn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lauflétt smásaga

boltamynd

  Baddi boltabulla sækir alla fótboltaleiki sem hann veit af.  Reyndar bara þá sem ekkert kostar inn á.  Að öðru leyti skiptir það Badda boltabullu ekki máli hvort 4ðu deildar lið séu að keppa eða utandeildarlið. 
  Badda boltabullu er alveg sama hvaða lið keppa.  Hann stendur ýmist með öðru liðinu eða báðum ef liðin eru ekki í vel aðgreindum búningum.  Hann gerir hróp að leikmönnum.  Stundum með hvatningaorðum en oftast með skömmum.  Sakar þá um klaufaskap,  aulagang og að brjóta af sér í leiknum.  Hróp hans óma allan leikinn.  Hann tilkynnir rangstöðu,  hendi,   víti og annað sem honum þykir aðfinnsluvert.  Tilkynningarnar eru aldrei til samræmis við úrskurð dómarans.  Kannski er það þess vegna sem hann hellir spurningum yfir dómarann:  "Ertu blindur,  fíflið þitt?",  "Ertu sofandi,  heimski ræfill?",  "Ertu vangefinn?"
   Einstaka sinnum hleypur Baddi boltabulla inn á völlinn og eldsnöggt út af aftur.  Í þau skipti hefur hann hripað niður á blað orðsendingu til leikmanna.
  Um daginn hljóp hann að einum með bréf sem í stóð:
  "Lýður Hörður!  Þú ert ömurlegasti knattspyrnumaður sem ég hef séð.  Síðast þegar ég sá þig spila var ég svo heppinn að heyra dómarann kalla nafn þitt.  Ég var fljótur að skíra útikamarinn minn í höfuðið á þér.  Ef þú átt leið um Grímsnesið getur þú fundið kamarinn við sumarbústaðinn minn.  Kamarinn er merktur stórum gulum stöfum "Lýður Hörður".  Í mínum huga eru Lýður Hörður og kamar eitt og hið sama." 
  Undir þetta skrifaði Baddi stoltur fullt nafn sitt.
  Baddi boltabulla hristist af hlátri á meðan hann fylgdist með manninum lesa bréfið.  Hláturinn breyttist í forvitnissvip er maðurinn,  að loknum lestri,  dró upp blað og penna og byrjaði að skrifa á blaðið.
  Þegar leikurinn var flautaður af gekk hann framhjá Badda boltabullu og rétti honum blaðið.  Á því stóð:
  "Kæri Baldur.  Ég hef aldrei spilað fótbolta.  Þess vegna get ég hvorki verið ömurlegur knattspyrnumaður né góður.  Hinsvegar er ágætt að þú skulir hafa eytt tíma og málningu í að skrifa Lýður Hörður á kamarinn þinn.  Láttu það standa þar áfram.  Ég heiti ekki Lýður Hörður og dómarinn segir ekki Lýður Hörður þegar hann kallar til mín.  Hann segir línuvörður."
------------------

Hættulegustu óvinir Bretlands

óvinir
mbl.is Bresk nefnd aftur til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband