Færsluflokkur: Bækur
3.8.2008 | 23:01
Anna á Hesteyri - frumlega sjálfbjarga farandsali
Önnu frænku minni á Hesteyri í Mjóafirði er margt betur gefið en rata í þéttbýli. Í fyrsta skipti sem hún keyrði á Skódanum sínum upp á Egilsstaði týndi hún bílnum með það sama. Hún lagði honum við fyrstu verslun sem hún sá. Fór þangað inn til að skoða sig um og sá þar margt spennandi. Þegar hún fór út úr versluninni fann hún bílinn hvergi. Að vísu hætti hún sér ekki langt frá versluninni til að týna hvorki sjálfri sér né versluninni. En bílinn fann hún ekki. Að lokum hringdi hún í lögregluna sem fann bílinn undir eins. Hann var þarna í grennd. Bara ekki á þeim bletti sem Anna leitaði vandlega á.
Anna er heimavanari á Norðfirði. Þangað hefur hún oftar farið. Eitt sinn fór hún þangað til að selja barnabækur til styrktar Aðventístum. Anna er aðventísti og heldur laugardaginn sem hvíldardag.
Kona nokkur á Norðfirði sá út um gluggann hjá sér hvar Anna kom kjagandi í átt til hennar. Anna átti erfitt með gang, var eins og hálf sliguð, skjögraði óstöðug til og frá. Anna er reyndar mikil um sig. Þarna var hún þó ekki nema hálf sjötug (hún verður áttræð á næsta ári) og við ágæta heilsu. En hún var með þunga pinkla meðferðis.
Anna bankaði upp hjá konunni og bar upp erindið. Konan keypti af henni nokkrar bækur. Þegar Anna kvaddi dró hún upp úr pinklum sínum rösklega lófastóran stein og sagði:
"Ég ætla að biðja þig um að leyfa þessum steini að vera hér við útidyrnar hjá þér í dag. Þá geri ég þér ekki aftur ónæði."
Konan tók vel í það og horfði í forundran á eftir Önnu kjaga burt með bækur og grjóthnullunga. Það undraði konuna enn meira að Anna gekk ekki kerfisbundið úr húsi í hús inn eftir götunni heldur rölti hún - að því er virtist - tilviljunarkennt þvers og kruss um kaupstaðinn. Er leið að kvöldi hafði húsum fjölgað verulega sem skörtuðu grjóthnullungi við útidyrnar. Engu að síður voru þau fleiri inn á milli sem höfðu enga heimsókn fengið.
Fleiri færslur um Önnu á Hesteyri má finna á
- Bók á leiðinni
www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/592177
- Hringdi á lögguna
www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/463661
Bækur | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
15.7.2008 | 20:12
Skúbb! - Anna á Hesteyri - bók á leiðinni
Anna Marta Guðmundsdóttir náfrænka mín á Hesteyri í Mjóafirði er fyrir löngu síðan orðin þjóðsagnarpersóna. Ekki aðeins fyrir mörg broslega sérkennileg og barnsleg uppátæki heldur einnig fyrir sterka réttlætiskennd og ást á dýrum. Ég hef rifjað hér upp á blogginu nokkrar sögur af henni. Það má fletta þeim upp á http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/532905.
Um mánaðarmótin september/október mun Bókaútgáfan Hólar frá sér í bókarformi ævisögu Önnu á Hesteyri. Anna er 79 ára og komin á sjúkrahús. Það er því ekki seinna vænna að tekin sé saman bók um þessa merku konu. Margir hafa rætt um þörfina á slíku í áratugi.
Rannveig Þórhallsdóttir bókmenntafræðingur skráir ævisögu Önnu. Rannveig er þekktust fyrir störf sín sem safnstjóri Minjasafns Austurlands.
Það er fleiri en ég þegar farnir að hlakka til útkomu bókarinnar.
Til gamans fylgir hér brot úr nýlegri bloggfærslu ungrar konu frá Reyðarfirði, Jóhönnu Kristínar:
"Alla amma er svo mikill lukkunar pamfíll að hún liggur á stofu með Önnu á Hesteyri sem er náttúrulega bara alveg einstök og sérstök..
Anna var semsagt að drekka súpu úr bolla, þeas hún hellti súpunni úr disknum yfir í bolla og drakk það sollis.. Hún notaði hvert tækifæri til að segja frá og troða að hnyttnum spakmælum/ máltækjum.. Og svo var hún alveg viss um að Ormurinn sem hún kallaði stráksa væri nautsterkur og heimtaði að fá hann í krumlu.. Ormurinn lét nú ekki biðja sig um það 2svar heldur greip í kellu og þau byrjuðu að togast á.. (ég varð hálfhrædd, því mér leist nú ekkert á blikuna á tímabili)
Enda Anna orðin eins og sprungin tómatur í framan og súpuhelvítið á leiðinni út úr henni.. og stráksi bara heldur sterkari en hún þorði að vona og hvað þá trúa.. hahhaha frekar fyndið atriði.. og svo segir hún eftir átökin (hún var nærri búin að frussa út úr sér tönnunum) að hann sé bara nokkuð sterkur og þá gall í mér.. já hann hefur það frá móður sinni þá hló nú Anna og sagði já þú segir það þegar kallinn heyrir.. og hélt að auðvitað Bjarki væri pabbi Ormsins.. Hahhaha
Þetta var priceless spítalaheimsókn.."
Í öðru bloggi, sem kallast 1964, segir frá Nönnum í kvenfélagi Neskaupstaðar. Þær lýstu eftir ungum manni að nafni Axel og fengu margar vísbendingar um ferðir hans. Þetta stendur síðan:
"Anna á Hesteyri hafði einnig samband og framan af símtalinu við Önnu taldi yfir-Nannan líklegt að Axel væri að finna í Mjóafirði. Undir lok símtalsins kom í ljós að svo var ekki heldur vildi Anna fá Axel sem húskarl; taldi hann vel brúklegan til allra nota."
Bækur | Breytt s.d. kl. 21:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
13.5.2008 | 23:32
Léttsteikt smásaga
Það er ofsagt að Jonni sé ekki eins og annað fólk. Til að mynda svipar honum mjög til föðurbróður síns: Sama sljóa augnráðið. Sama lafandi neðrivör og slef í munnvikunum. En fólk forðast samneyti við Jonna. Kannski vegna þess að hann þrífur sig ekki. Fer aldrei í sturtu eða bað.
Jonni hefur ástæðu til. Hann veit að sturtur eru hættulegar og vísar til sturtuatriðis í kvikmynd eftir Alfred Hitchock. Tvívegis hefur Jonni farið í bað. Í bæði skiptin með skelfilegum afleiðingum.
Í annað skiptið var hann næstum drukknaður. Hann er nefnilega ósyndur. Það varð honum til lífs að vatnið í baðkarinu var svo grunnt að höfuðið fór aldrei ofan í það.
Í hitt skiptið gerði hann vel við sig. Keypti nokkrar plastendur og litla leikfangabáta. Með þetta dót fór hann í bað og gleymdi sér í leik við endurnar og bátana. Hann rumskaði ekki fyrr en eftir langan tíma er síminn hringdi. Sem hefur verið mjög langur tími vegna þess að Jonni er ekki með síma. Vatnið var þá orðið ískalt. Jonni skalf eins og víbrator í hæsta gír, fékk lungnabólgu og það sem honum þótti verst: Hann missti matarlyst í 2 daga. En Jonna þykir ekkert betra en taka hraustlega til matar síns. Oftast með þeim afleiðingum að sósur sullast yfir peysuna sem hann fer aldrei úr og sefur í.
Á framhlið peysunnar er ætíð fjölbreytt sýnishorn af misgömlum íssósum, brúnsósum, "dressing" og öðru álíka.
Jonni er hlýr maður. Hann elskar að faðma fólk og smella slefblautum kossi á kinn þess. Þegar Jonni er á vappinu og rekst á einhvern sem hann þekkir þá ljómar hann eins og tungl í fyllingu. Andlitið verður eitt slefandi bros svo skín í gulan og skörðóttan tanngarðinn. Jonni kjagar í átt að viðkomandi með útbreiddan faðm. En einhverra hluta vegna forðar fólk sér undan honum á hlaupum sem myndu skila verðlaunasæti á Ólympíuleikum. Eftir stendur Jonni með grátstaf í kverkum og slefandi bros breytist í slefandi skeifu.
Jonni er afskiptur af foreldrum sínum. Þau (ekki þeir) hafa aldrei samband við hann. Þegar Jonni kvartaði við mömmu sína undan því að hafa ekkert heyrt frá þeim er hann varð 25 ára sagði hún að fyrir handvömm hafi gleymst að færa nafn hans inn í afmælisdagbók heimilisins. Þau hefðu því ekki hugmynd um hvenær hann eigi afmæli.
Fyrir klaufaskap var líka slökkt á farsíma þeirra þennan dag. Þó þau hefðu reynt að hringja hefði það ekki gengið upp vegna þess að Jonni er ekki með síma.
Þegar Jonni hringir í foreldra sína úr tíkallasíma slitnar sambandið alltaf með það sama. Það er stöðugt ólag á þessum tíkallasímum. Nema þegar Jonni pantar pizzur eða annan heimsendan mat.
Eitt sinn náði Jonni þó að eiga símaspjall við mömmu sína. Í því símaspjalli kvartaði hann undan kvenmannsleysi. Mamma hans benti honum á að hann skorti kynþokka. Jonni skildi fyrr en skall í gómi. Hann brá við skjótt. Stal kynþokkanum frá Gilzenegger. Það var eins og við manninn mælt. Gullfalleg kona tók upp sambúð með Jonna. Að auki kom Jonni sér upp tveimur viðhöldum á örfáum dögum: Einni konu og einum karli. En engin/n lítur lengur við Gilzenegger.
Bækur | Breytt 5.8.2008 kl. 00:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.3.2008 | 23:38
Aldeilis furðulegt kvæði
Einstaka sinnum hellist skáldagyðjan yfir mig. Þá fæ ég ekkert við neitt ráðið. Út úr mér vellur vísa sem ég geri enga athugasemd við. Sama hvað hún er furðuleg. Vísan birtist mér bara fullsköpuð og ég endurskoða eða endurskrifa hana ekki. Enda er ég ekki hagmæltur og þess ekki umkominn að ritskoða hana.
Í dag fór ég á söluskrifstofu Flugleiða til að kaupa ferð til Boston um þarnæstu helgi. Þá hrökk upp úr mér eftirfarandi vísa. Ég skil reyndar ekki upp né niður í henni. En svona er hún:
Langdregin flugvél
ber á borð
borð og ber
og fer.
Hún bítur ekki.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
27.11.2007 | 23:40
Spaugileg orðabók
Þessa skemmtilegu orðabók fékk ég senda. Mig grunar að eitthvað af þessu sé sótt í Petrísku, orðabók Péturs Þorsteinssonar prests Háóða safnaðarins.
Afleggjari : maður í megrun
Atvinnuglæpamaður : lögfræðingur, hefur atvinnu af glæpum
Bálreið : slökkviliðsbifreið
Blaðka : kvenkyns blaðamaður
Bleðill : karlkyns blaðamaður
Blóðsuga : starfsmaður Blóðbankans
Brautryðjandi : snjóruðningsmaður á flugbraut
Bráðabrundur : of brátt sáðlát
Brennivínsbrjálæðingur : alkóhólisti
Brúnkubrjálæðingur: maður sem sækir stíft í sólbrúnku (fm-hnakki)
Bumbubúi : ófætt barn
Bylgjubæli : vatnsrúm
Dauðahafið : vatnsrúm þar sem kynlíf er ekki stundað
Djúpsteiktir jarðeplastrimlar : franskar kartöflur
Djöfladjús : brenndir drykkir
Dótakassinn : Kaffi Reykjavík, þar sem menn fara þangað til þess að finna sér nýtt leikfang
Dragtardrós : kona sem gengur í dragt
Dritriti : bleksprautuprentari
Eiturblys : sígaretta
Eldát : það að borða grillmat
Endurholdgun : að fitna eftir megrun
Farmatur : matur sem er tekinn heimi af veitingastað (take away)
Frumsýning : að kynna hugsanlegan maka í fyrsta sinn fyrir vinum og venslafólki
Fylgikvistir : foreldrar
Gamla gengið : foreldrar
Gleðigandur: titrari, víbrador
Gleðiglundur : jólaglögg
Græjugredda : fíkn í alls konar tól og tæki
Gullfoss og Geysir : niðurgangur og uppköst
Heimavarnarliðið : foreldrar stelpunnar sem eru alltaf að stressa sig yfir stráknum sem hún er með
Hreinlætiseyðublað : blað af klósettrúllu
Hvatahvetjandi : eggjandi
Hvataklæðnaður : hvers kyns klæðnaður sem vekur hvatir hjá körlum til kvenna sem og konum til karla
Kjerkönnun : samfarir
Kjetkurlssamloka : hamborgari
Klakakrakki : egg sem búið er að frjóvga og er geymt í frysti
Kúlusukk : Perlan, þar sem sukkað var með peninga við byggingu hennar
Limlesta : pissa (gildir aðeins um karlmenn)
Orkulimur : bensínslanga
Plastpokapabbi : karlmenn sem flytja inn til einstæðra mæðra með búslóð sem rúmast í einum plastpoka
Pottormar : spagettí
Rafriðill: titrari, víbrador
Ranaryk : neftóbak
Samflot : það að sofa saman í vatnsrúmi
Stóra hryllingsbúðin : Kringlan
Svipta sig sjálfsforræði : gifta sig
Tungufoss : málglaður maður
Veiðivatn : ilmvatn
Viðbjóður : afgreiðslumaður í timburverslun
Þurrkaðir hringormar: cheerios
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.10.2007 | 21:16
Hvað segir þetta um formann Framsóknarflokksins?
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
14.10.2007 | 23:51
Gott tímarit heldur áfram að batna, vaxa og dafna
Á mínum fyrstu hjúskaparárum - á áttunda áratugnum - var tímaritið Vikan keypt reglulega. Bæði var það vegna þess að ungur frændi minn seldi blaðið í lausasölu. En einnig vegna þess að okkur ungu hjónunum þótti gaman að lesa blaðið. Efni þess var létt og fjölbreytt.
Síðar sá ég um poppmúsíkskrif fyrir blaðið um hríð. Á einhverjum tímapunkti þróaðist Vikan úr því að vera fjölskyldublað yfir í að verða kvennablað. Þá fjaraði minn áhugi á blaðinu út. Ég leiddi blaðið hjá mér í fjöldamörg ár.
Í sumar sá ég út undan mér - þar sem ég beið í biðröð við kassa í Nóatúni - að forsíðu Vikunnar var vísað í ofsóknir gegn Gunnari í Krossinum. "Það getur verið gaman að lesa um þær," hugsaði ég. Og keypti blaðið. Þá uppgötvaði ég að Vikan er orðið gott blað. Það var heilmikið áhugavert lesefni í blaðinu. Eftir þetta hef ég fylgst með Vikunni. Mér til ánægju. Á þetta hef ég áður minnst hér á blogginu.
Núna í gær var nýjasta tölublaði Vikunnar dreift með Morgunblaðinu. Þess vegna hafa áreiðanlega fleiri en fastir lesendur Vikunnar fengið staðfest að blaðið er orðið virkilega gott og áhugavert blað. Fróðlegt, skemmtilega skrifað og fjölbreytt.
Í þessu nýjasta tbl. er til að mynda langt og umhugsunarvert viðtal við móðir tvítugs sprautufíkils. Einnig er forvitnileg grein um menn sem vinna við það að njósna um ótrúa maka. Líka eru lífsreynslusögur fólks sem hefur mætt áföllum í persónulegum málum. Og allskonar fróðleikur um eitt og annað. Vissuð þið að Dyrhólaey er ekki eyja? Svo er þarna viðtal við mig. Mér þótti gaman að lesa það - þó að fátt í því hafi komið mér á óvart.
Og talandi um mig: Á þriðjudaginn verður viðtal við mig á Útvarpi Sögu klukkan 4 síðdegis. Ég veit fátt um það viðtal annað en að ég á að taka með mér í viðtalið 5 geisladiska sem eru í uppáhaldi.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
20.7.2007 | 02:32
Örstutt saga
Það liggur vel á Berta. Rosa vel. Hann flautar lagstúf og hlakkar til kvöldsins. Ekkert smá. Að hugsa sér: Að hann, fátækur fertugur bóndi í afskekktri sveit í Hjaltadal, skuli vera búinn að ná fallegustu og vinsælustu 16 ára stelpunni á Sauðárkróki á stefnumót. Hvernig hafði hann þorað að bjóða Evu á stefnumót? Eins rosalega feiminn og hann er. Henni sem er alltaf umsetin af sætustu og vinsælustu strákunum. Henni sem getur valið hvern sem hún vill.
Kannski var það gruggóttur landinn sem hann drakk á leiðinni á dansleikinn. Kannski hafði landinn gefið honum kjark til að ganga til Evu og spyrja: "Hæ, sæta! Hvenær má ég bjóða þér út?"
Hún hló vinalega svo skein í mjallhvítar tennurnar og spurði á móti: "Hvenær viltu bjóða mér út?"
Áður en hann vissi hafði hann misst út úr sér: "Þú mátt bara fara út núna ef þú vilt!" Svo áttaði hann sig í tæka tíð á að þetta hljómaði ekki nógu vel og leiðrétti sig afsakandi: "Sorrý. Smá grín. Ég á við; mig langar að bjóða þér út næsta laugardag."
"Ókey, díll," svaraði hún áhugasöm. Þau sömdu um að hann myndi sækja hana klukkan 7. Og nú var stóra stundin að renna upp. Hann er búinn að undirbúa kvöldið vandlega. Hann er búinn að fara yfir það aftur og aftur í huganum. Þó farið sé að hausta ætlar hann að grilla úti. Grilla eitthvað alveg spes. Eitthvað eftirminnanlegt.
Berti sest brosandi á hlaðvarpann og tekur smalahundinn Snata í fangið.
- Já, Snati minn. Heldurðu ekki að ég eigi eftir að heilla Evu upp úr skónum? Ætli hún endi ekki sem húsfrúin hérna?
Snati sleikir vinalega á honum aðra höndina. Með hinni hendinni klórar Berti Snata hlýlega aftan á hálsinn. Eftir nokkra stund laumar hann snöru varlega um háls Snata og herðir síðan snöggt að. Snati ýlfrar og berst um. Berti hefur snöruna á loft og bindur hana á snúrustaur. Hundurinn spriklar og rétt nær að snerta jörðina með afturfótunum. Berti nær í prik og lemur Snata í höfuðið. "Þetta fær adrenalínið til að dælast út í vöðvana," hugsar Berti og veit að þannig verður kjötið stinnara.
Þegar hundurinn gefur upp öndina tekur Berti hann niður, flær af honum skinnið og heggur kjötið niður í bita. Hellir yfir það grillolíu og fer þar næst í bað. Klæðir sig svo í sparifötin og ekur út á Sauðárkrók.
Það kemur hik á Evu þegar Berti segist ætli að bjóða henni í grillveislu upp í sveit. - Ég hélt að þú ætlaðir að bjóða mér á veitingastað og svo færum við á ball á eftir, mótmælir hún.
Berti lofar henni að hún muni ekki sjá eftir grillveislunni. Þau geta farið á ball á eftir. - Ég skal meira að segja kveikja glæsilegasta varðeld sem þú hefur séð, spaugar hann.
Eva fellst á þetta með semingi gegn loforði um að fá að skreppa á hestbak í leiðinni.
Þau aka í hlað og Berti kveikir upp í grillinu. "Það er best að þú bregðir þér á hestbak á meðan ég elda veislumat," stingur hann upp á. Sörli er í haganum. Það er fljótgert að ná honum og leggja á. Sörli er gamall og þægur hestur. Eva ríður honum um hlaðið á meðan Berti grillar kjötið af Snata, sýður rófur og hitar brúna lauksósu. Svo ber hann plastborð og stóla út á hlað og sækir borðbúnað, landaflösku og kók. Landinn er betri þegar hann er blandaður gosi.
- Hvar er varðeldurinn? spyr Eva stríðnislega þegar þau setjast niður við borðið.
- Ja, það er nú það. Hann getur svo sem verið hvar sem er, svarar Berti vandræðalegur. Eftir smá umhugsun stekkur hann á fætur og segir: "Ég redda varðeldi."
Berti hleypur eftir bensínbrúsa sem hann geymir í bílnum, gusar bensíninu yfir forstofugólf íbúðarhússins og hendir logandi eldspítu á gólfið. Það skíðlogar samstundis. Eldurinn er fljótur að læsa sig í úlpur og annað lauslegt.
- Ertu geðveikur? spyr Eva með skelfingarsvip og er verulega brugðið.
- Ég veit það ekki. Hef aldrei farið í geðrannsókn, útskýrir Berti afskandi.
- Hringdu strax á slökkviliðið! öskrar Eva í móðursýkiskasti.
- Nei, þessi varðeldur er bara fyrir okkur tvö. Ég fer ekkert að hringja og bjóða fleiri áhorfendum, segir Berti ákveðinn.
- Ég er hrædd. Keyrðu mig heim strax, biður Eva og fer að gráta.
- Já, þegar við erum búin að borða, lofar Berti.
- Nei, núna strax. Gerðu það. Mér er flökurt," öskrar Eva skipandi og hágrátandi.
- Ókey, ég geri flest sem þú biður mig um.
Þau setjast inn í bílinn. Berta langar samt að horfa aðeins lengur á varðeldinn. Eldtungurnar eru farnar að teygja sig út um glugga. Þetta er tilkomumikil sjón.
- Æ, keyrum af stað áður en líður yfir mig, biður Eva og hristist í ekkasogum.
Berti hlíðir. Þau tala lítið saman á leiðinni. Berti spyr hvort það hafi ekki verið gaman að fara á hestbak.
- Æ, ég er í sjokki. Ekki tala við mig núna. Ég vil bara komast heim sem fyrst.
Þegar Berti beygir inn í innkeyrsluna heima hjá Evu man hann eftir nýju vandamáli:
- Heyrðu, er ekki eitthvert gistiheimili hérna í kaupstaðnum. Mig vantar nefnilega gistingu vegna þess að húsið mitt er að brenna.
- Ha? Já, auðvitað. Jú það er gistiheimili hérna í næstu götu fyrir ofan. Þú finnur það strax. Það er vel merkt.
- Gott. Þá er það vandamál leyst.
Bíllinn stöðvar og Eva opnar dyrnar.- Takk fyrir kvöldið þrátt fyrir allt. Þetta var geðveikt, segir hún og hoppar fegin út.
- Heyrðu, ég var að fá nýja hugmynd, segir Berti og ljómar. Ég get náttúrulega sofið hjá þér í nótt. Þá spara ég gistikostnað.- Ég er ekki viss um að það sé góð hugmynd. Við þekkjumst ekkert. Samt líst mér vel á þig. Annars hefði ég ekki farið á stefnumót með þér. Reyndar hef ég ekkert riðið í meira en viku, svo það er kannski bara fínt að fá kall í bólið.
- Þetta er ekki rétt hjá þér. Þú reiðst Sörla mínum áðan, leiðréttir Berti.
Þau fara bæði að skellihlæja og hugsa það sama: "Þetta er skemmtilegt kvöld!"
Bækur | Breytt 4.8.2008 kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
11.7.2007 | 13:25
Stutt og snaggaralegt leikrit
Persónur: 1. Níræður kall sem lýtur út fyrir að vera útigangsmaður. Úfinn og íklæddur tötrum. Hann er með of stór sólgleraugu. Þau eru með stórri grænni umgjörð.
2. Virðulegur og spariklæddur afgreiðslumaður.
Svið: Plötubúð með gamaldags "úti"símklefa við enda afgreiðsluborðsins
---------------------------------------------------------------------------------------------------
Gamli maðurinn læðist flóttalegur á svip inn í búðina eins og þjófur að nóttu. Hann skimar forvitinn um búðina. Hann tekur ekki eftir afgreiðslumanninum innan við búðarborðið.
Afgreiðslumaðurinn (lágróma og kurteis): "Góðan dag! Get ég aðstoðað?"
Gamli (hendist til eins og hann hafi verið sleginn í andlitið. Hvæsir ásakandi á afgreiðslumanninn): "Þarftu að öskra svona eins og geðsjúklingur?"
Afgreiðslumaðurinn (áfram lágróma og kurteis en undrandi): "Nei, ég þarf þess ekki. Nei, nei. Alls ekki. Þú heyrir óvenju vel, herra."
Gamli (pirraður og argur): "Ef eitthvað er óvenjulegt við heyrnina hjá mér þá fer ég til eyrnalæknis en ekki í plötubúð." (Verður aftur skimandi, flóttalegur og niðurlútur): "Ég er hér með gallaða plötu." (Dregur upp úr úlpuvasanum mölbrotna og grútskítuga vinylplötu): "Sérðu, nálin á plötuspilaranum hoppar þegar ég spila fyrstu lögin á plötunni. Það heyrist ekkert nema brestir og brak."
Afgreiðslumaðurinn: "Brestir og brak er nú aldeilis fínt lag eftir Jón Múla og Jónas Árnasyni. Björk hefur sungið það inn á plötu. Þú þarft ekki að kvarta á meðan nálin spilar Bresti og brak."
Gamli: "Nei, ég á við að nálin hoppar bara og hoppar svo það heyrast bara brestir: Klikk, klikk, klikk, klikk Hún hoppar svo mikið nálin í fyrstu lögunum."
Afgreiðslumaðurinn (umhyggjusamur og hugsandi): "Þú segir nokkuð. Hoppar nálin í fyrstu lögunum? Getur verið að nálin sé að dansa? Þetta er dansplata."
Gamli (ákveðinn): "Nei, ég get ekki spilað plötuna. Nálin hoppar svo mikið. Ef nálin væri að dansa myndi hún gera svona." (tekur nokkur ótrúlega glæsileg ballettdansspor). "En hún hoppar bara svona" (hoppar beinstífur nokkrum sinnum upp og niður).
Afgreiðslumaðurinn: "Hefurðu prófað að skipta um nál? Kannski er nálin gölluð. Nálar eru oft gallaðar."
Gamli (ergilegur): "Það er ekkert að nálinni! Ég get spilað allar aðrar plötur með henni."
Afgreiðslumaðurinn (mjög undrandi) "Ha? Líka geislaplötur?"
Gamli (skömmustulegur og niðurlútur): "Nei, ég veit það ekki. Ég hef ekki prófað það. En nálin spilar allar aðrar plötur sem ég á. Hún spilar meira að segja síðasta lagið á þessari plötu." (veifar plötubrotunum).
Afgreiðslumaðurinn (feginn og glaður): "Það er gott! Síðasta lagið er nefnilega eina góða lagið á plötunni. Hin lögin eru hundleiðinleg."
Gamli (tekur plötuna og stingur henni í vasann með háværum brothljóðum): "Ég vona að þú segir satt!" (Hvessir illum augum á afgreiðslumanninn): "Ég vona svo sannarlega að hin lögin séu hundleiðinleg!" (Snýr sér við og ætlar að yfirgefa búðina. Hættir við á síðustu stundu og gengur aftur að afgreiðsluborðinu. Græna gleraugnaumgjörðin er þá allt í einu orðin rauð. Röddin er smeðjuleg): "Heyrðu Ljúfurinn. Heldurðu að þú eigir plötu með laginu "I´m Bad" með Michael Jackson?"
Afgreiðslumaðurinn (hikandi og ráðvilltur): "Bíddu við. Kannast ekki við nafnið. Hvaða lag getur þetta verið?"
Gamli: "Það er svona:.." (byrjar að syngja lagið og dansar alveg eins og Michael Jackson gerir í myndbandinu við lagið).
Afgreiðslumaðurinn (klórar sér vandræðalega í hausnum, tekur upp plötuna með laginu og setur á fóninn): "Getur það verið þetta lag?"
Gamli (syngur með laginu og dansar áfram eins og Michael Jackson. Lyftir þumalputta upp til að sýna að þetta sé lagið og hrópar síðan glaður): "Já, þetta er lagið! Þetta er lagið!"
Afgreiðslumaðurinn (vandræðalegur og afsakandi um leið og hann lækkar í músíkinni): "Því miður þá höfum við ekki fengið þessa plötu ennþá."
Gamli (hissa): "Hvað áttu við? Hvar get ég þá fengið þessa plötu?"
Afgreiðslumaðurinn (hugsandi): "Það er nú vandamálið. Þessi plata hefur ekki verið flutt til landsins. Hún er alveg ófáanleg."
Gamli (niðurlútur og skilningsríkur): "Ég hef náttúrulega bara heyrt þetta í sjónvarpinu."
Afgreiðslumaðurinn (feginn): "Það er alveg klárt. Þetta er bara til í sjónvarpinu. Þetta lag hefur aldrei komið út á plötu. Það kemur aldrei út á plötu. Þessi músík er farin úr tísku." (Tekur plötuna af fóninum og setur á sinn stað). "Gott ef þessi söngvari er ekki líka bara dauður eða lasinn eða eitthvað svoleiðis. Hann er að minnsta kosti orðinn voðalega fölur." (Ákveðinn): "Já, pjakkur. Þú verður að taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti."
Gamli (gapir í forundran og spyr): "Hundsbiti? Hvað er hundsbiti?"
Afgreiðslumaðurinn (drjúgur með sig): "Veistu ekki hvað hundsbit er? Hefur þú aldrei verið í sveit?"
Gamli (skömmustulegur): "Nei, ég hef aldrei verið í sveit. En ég hef séð ljósmynd af sveit."
Afgreiðslumaðurinn (hissa): "Hvað segirðu, maður? Hefurðu aldrei verið í sveit? Við verðum að redda því. Bíddu." (gengur að símklefanum og kallar í tólið): "Halló, getur þú gefið mér samband Hóla í Hjaltadal." (bíður smástund, lyftir svo upp þumalputta sigri hrósandi í átt að gamla manninum sem starir gáttaður á): "Halló, er þetta frændi? Blessaður frændi! Vantar þig ekki strák í sveitina núna? Ég er hérna með einn ansi góðan í heyskapinn." (Undrandi): "Nú hvað segirðu? Er aldrei heyjað yfir vetrartímann? Jæja, hann mokar þá bara snjóinn fyrir þig. Beljurnar verða kátar ef einhver mokar snjóinn frá þeim. Nú er enginn snjór í fjósinu? Óskapar veðurblíða er þetta hjá þér. Ha? Já, bíddu. Ég skal spyrja hann " (kallar til gamla mannsins): "Drekkurðu áfengi?"
Gamli (hneykslaður): "Nei, ég hef aldrei drukkið. Ég er algjör bindindismaður í alla staði!"
Afgreiðslumaðurinn (í símann) "Nei, nei, blessaður vertu. Hann drekkur ekki. Þetta er pottþéttur strákur!" (hlustar á símann og kallar svo til gamla mannsins): "En reykirðu?"
Gamli (pirraður): "Nei, ég var að segja að ég er bindindismaður í alla staði!"
Afgreiðslumaðurinn (í símann): "Nei, hann reykir ekki. Ég sendi hann þá bara með pakkann minn." (þreifar eftir sígarettupakkanum í vösum sínum, finnur hann, réttir þeim gamla og kallar til hans um leið): "Hérna taktu þennan með þér handa bóndanum!"
Gamli (gáir undrandi ofan í sígarettupakkann, hvolfir úr honum í lófa sinn einum uppreyktum sígarettustubbi. Horfir hissa á stubbinn og stingur honum svo ofan í pakkann aftur).
Afgreiðslumaðurinn (hefur hlustað á símann á meðan en kallar svo til gamla mannsins) "Ertu með meðmæli?"
Gamli (drjúgur með sig): "Já, já. Ég er með meðmæli." (dregur upp stóran bunka af krumpuðum, rifnum og óhreinum bréfum og réttir afgreiðslumanninum).
Afgreiðslumaðurinn (gluggar í bréfin og segir svo ávítandi við gamla manninn): "Þetta eru engin meðmæli um þig. Þetta eru meðmælabréf um allskonar fólk."
Gamli (montinn): "Ég veit allt um það. Ég rek verðbréfamiðlun og var að auglýsa eftir sendli. Þetta eru meðmælabréfin frá þeim sem sóttu um sendlastarfið. Bóndinn hlýtur að geta notað þessi bréf. Þau eru sum mjög góð."
Afgreiðslumaðurinn (klórar sér vandræðalegur í kollinum) "Já, þessi hljóta að duga." (Í símann ákveðinn): "Já, ég er nú hræddur um það. Hann er með vasana fulla af meðmælabréfum. Ég sagði það: Þetta er pottþéttur strákur. Hann kemur með rútunni á eftir. Segjum það, frændi. Ég bið að heilsa eiginkonunni og syni þínum." (Hlustar í smástund): "Já, eða mínum. Það er satt. Við verðum að fara að fá úr því skorið hvor er faðirinn. Það er betra að hafa það á hreinu. Maður vill nú gefa sínu eigin barni veglegri jólagjöf en einhverjum fjarskyldum lausaleikskróa norður í rassgati. Já, já, við finnum út úr því einhvern daginn. Ókey. Bless, bless!" (Leggur á og snýr sér ánægður að gamla manninum): "Þetta gekk vel. Allt klappað og klárt. Þú ferð niður á Umferðarmiðstöð núna klukkan tvö, tekur þar Norðurleiðarrútuna til Varmahlíðar og ferð svo á puttanum upp í Hjaltadal. En á leiðinni niður á Umferðarmiðstöð þarftu að koma við á Laugarvegi 17 og grípa með þér bréf sem á að fara norður."Gamli (gengur ringlaður út úr búðinni en tautar á meðan): "Niður á Umferðarmiðstöð, gríp upp bréf á Laugavegi 17 og já, já " (Kallar til afgreiðslumannsins) "Blessaður og þakka þér fyrir almennilegheitin!"
Afgreiðslumaðurinn (kallar á móti) "Blessaður og góða ferð!" (Hleypur í símklefann, hringir æstur og kallar ofsaglaður í tólið): "Halló, Magga. Alltaf erum við jafn heppin. Núna losnum við alveg við að borga fyrir frímerkið undir jólakortið til þeirra í Hjaltadal. Það er maður á leið til þín. Hann ætlar að grípa kortið með sér norður. Hann er að fara norður núna á eftir. Ókey. Flott. Bless!"
Tjaldið fellur. Þegar tjaldið er dregið frá aftur vegna gífurlegra fagnaðarláta og uppklapps eru leikararnir ekki á sviðinu heldur 3 unglingstelpur, gjörólíkar leikurunum í útliti. Ein er með sólgleraugu gamla mannsins. Þær hneigja sig og tjaldið fellur aftu
Bækur | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.4.2007 | 23:00
Ný metsölubók
Benni páfi sendi í gær frá sér splunkunýja bók. Hún seldist í 50 þúsund eintökum. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því hvað bækur þurfa litla sölu til að teljast metsölubækur. Þess eru mörg dæmi að plötur seljist í yfir milljón eintökum á fyrsta degi. "Draumalandið" eftir Andra Snæ hefur selst í 18 þúsund eintökum. Að vísu yfir lengra tímabil. En íslenski markaðurinn er aðeins minni en heimsmarkaðurinn.
Samkvæmt mbl.is kallar páfinn bókina "Jesús frá Nasaret". Það er merkilegt að páfinn skuli hafa íslenskan titil á henni. Hann er augljóslega að herma eftir bókartitlinum "Jón frá Bægisá".
Það er ekki á hverjum degi sem páfinn sendir frá sér bók. Hann er vanari að tefla. Það væri forvitnilegt að vita um hvað þessi bók er.
Nýja bók páfans rokseldist á fyrsta degi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Breytt 19.4.2007 kl. 01:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)