Færsluflokkur: Bækur
26.3.2023 | 12:31
Varasamt að lesa fyrir háttinn
Fátt gleður meira en góð bók. Margur bókaormurinn laumast til að taka bók með sér inn í svefnherbergi á kvöldin. Þar skríður hann undir sæng og les sér sitthvað til gamans og til gagns. Þetta hefur löngum verið aðferð til að vinda ofan af erli dagsins í lok dags. Svífa síðan á bleiku skýi inn í draumaheim.
Þetta getur verið varasamt á tækniöld. Bækur eru óðum að færast af pappír yfir í rafrænt form. Vandamálið er að á skjánum glampar blátt ljós svo lítið ber á. Það ruglar líkamsklukkuna. Þetta hefur verið rannsakað. Sá sem les af skjá er lengur að falla í svefn en þeir sem lesa á pappír. Svefn þeirra er grynnri og að morgni vakna þeir síður úthvíldir.
.
Bækur | Breytt s.d. kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
12.3.2023 | 11:39
Smásaga um viðskipti
Þegar skólasystkinin byrjuðu í unglingavinnunni hannaði Nonni barmnælur með myndum af lunda og kind. Nælurnar lét hann fjöldaframleiða í Kína. Sumarið fór í að koma vörunni í túristasjoppur. Einnig í sjoppur í fámennari þorpum þar sem fátt var um minjagripi.
Er haustaði var salan orðin hálf sjálfvirk. Pantanir bárust í tölvupósti og voru sendar með Póstinum. Ágæt innkoma, lítil vinna en einmanaleg. Tíminn leið hægt. Nonni saknaði þess að hitta fólk og spjalla.
Svo rakst hann á auglýsingu. Heildverslun með ritföng óskaði eftir lagermanni í hálft starf. Hann hringdi og var boðaður í viðtal. Reksturinn var í höndum ungs manns og 17 ára systur hans.
Nonni sagði vinnuna henta sér vel til hliðar við nælurnar. Maðurinn sýndi þeim áhuga. Spurði mikils og hrósaði framtakinu. Hann fékk hugmynd: Hvernig væri að sameina þessi tvö fyrirtæki í eina öfluga ritfanga- og næluheildsölu? Hann kallaði á systurina og bar þetta undir hana. Hún fagnaði. Nonni líka. Ekki sakaði að hann var þegar skotinn í henni. Hún var fögur og hláturmild.
"Drífum í þessu," skipaði bróðirinn. "Þið tvö skottist eftir nælulagernum á meðan ég geri uppkast að samningi." Þau ruku af stað. Stelpan ók á rúmgóðum sendibíl. Eins gott því Nonni var nýkominn með stóra sendingu. Nú var gaman. Fegurðardísin daðraði við hann. Þau ferjuðu lagerinn inn í vöruhús heildsölunnar. Bróðirinn kom með skjal til undirritunar. Mikill og torskilinn texti á flóknu lagamáli.
"Ég get ekki kvittað undir þetta," kvartaði Nonni. "Ég skil ekki helminginn af þessu. Þetta hljómar eins og ég sé að afsala mér nælunum til ykkar."
"Já, það er rétt," viðurkenndi maðurinn. "Við þurfum að umorða textann. Þetta er bráðabirgðauppkast. Á morgun semjum við í sameiningu nýtt skjal og fáum lögfræðing að þínu vali til að yfirfara það. En við skulum öll krota undir uppkastið svo þetta sé komið í ferli."
"Ég á erfitt með að skrifa undir þetta," mótmælti Nonni.
"Kanntu ekki að skrifa nafnið þitt?" flissaði stelpan og ýtti skjalinu að honum. Fallegt bros hennar sló hann út af laginu. Eins og ósjálfrátt undirritaði hann en sá um leið eftir því. Stelpan dró blaðið snöggt til sín og hallaði hlæjandi höfði á öxl hans: "Ég var að stríða þér!"
"Sofum á þessu í nótt og innsiglum samrunann með handabandi," stakk bróðirinn upp á og rétti fram hönd.
"Eða með knúsi," bætti stelpan við um leið og hún faðmaði Nonna þéttingsfast.
Morguninn eftir mættu Nonni og daman á slaginu klukkan 9. Hún heilsaði honum með knúsi og sagði "Gaman að sjá þig! Bróðir minn er lasinn. Hann var með ælupest í nótt. Við getum dólað okkur á meðan við að uppfæra viðskiptamannalistann. Slá inn símanúmer, netföng og það allt. Eða hvort við byrjum á að senda þinum viðskiptavinum póst um að héðan í frá sendi þeir pantanir á netfang ritfangasölunnar. Já, gerum það fyrst."
Dagurinn leið hratt. Stelpan var stríðin. Það var mikið hlegið. Nonni sveif um á bleiku skýi.
Bróðirinn var frá vinnu í 2 daga. Svo kom helgi. Á mánudeginum mætti hann strangur á svip. "Ég hef legið undir feldi," sagði hann. "Þú gagnast ekki nógu vel í vinnu hér. Þú ert ekki með aldur til að fá bílpróf. Plan okkar gengur ekki upp."
Þetta var reiðarslag. Nonni reyndi að bera sig vel. Lán í óláni var að kynnast stelpunni. Þau gætu áfram verið í sambandi ef hann tæki tíðindunum án leiðinda. "Hún skutlar þá lagernum til mín á eftir," lagði hann til.
"Nei, höldum honum hérna!" mótmælti bróðirinn höstuglega. "Þú afsalaðir þér honum til mín. Ég þinglýsti skjalinu. Þetta eru einföld viðskipti. Ekki illa meint. Sumir eru lúserar. Aðrir sigurvegarar. Þeir hæfustu lifa!"
Bækur | Breytt s.d. kl. 16:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
3.12.2022 | 23:11
Skemmtisögur
Út er komin sjötta bókin í flokknum Skagfirskar skemmtisögur. Hún er kyrfilega merkt tölunni 6. Undirtitill er Fjörið heldur áfram.
Eins og fyrri bækurnar er það blaðamaðurinn Björn Jóhann Björnsson sem skráir sögurnar. Þær eru á þriðja hundrað. Þær er ljómandi fjölbreyttar. Sumar með lokahnykk (pönslæn). Aðrar eru meira lýsing á spaugilegri stemmningu. Svo eru það stökurnar, limrurnar og lengri vísur.
Þrátt fyrir að sögurnar séu um nafngreinda Skagfirðinga þá er ekki þörf á að vera Skagfirðingur til að skemmta sér vel við lesturinn. Ég er Skagfirðingur og kannast við flesta í bókinni. Þó ekki alla. Ég skemmti mér alveg jafn vel við lestur um þá ókunnugu.
Hér eru nokkur sýnishorn:
Að loknu stúdentsprófi í MA fór Baldur í guðfræði í Háskóla Íslands og lauk þaðan cand. theol. prófi árið 1956. Á háskólaárunum bjó hann á Nýja stúdentagarðinum. Þar var aðeins einn sími til afnota fyrir stúdenta, og þótti ekki vinsælt ef menn héldu honum mjög lengi, einkum á annatíma.
Eitt sinn hafði síminn verið upptekinn dágóða stund og voru margir farnir að bíða og huga að því hver væri að tala. Reyndist það vera Baldur, en hann bandaði mönnum frá sér og kvaðst vera að tala í landsímann. Vissu menn þá að hann var að tala við föður sinn, Vilhelm símstöðvarstjóra. Þurfti Baldur því ekki að hafa miklar áhyggjur af kostnaði við lengd símtalsins.
Öðru hverju opnuðu samnemendur Baldurs dyrnar á símklefanum, en heyrðu aðeins mas um einskis verða hluti og þar kom að einhver spurði Baldur hvort hann væri ekki að verða búinn.
"Jú," svaraði Baldur, "ég er að koma mér að efninu." Og í því að dyrnar á klefanum lokuðust heyrðist Hofsósingurinn segja:
"En án gamans, er amma dauð?"
Jón Kristjánsson, fv. ráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins, er alinn upp í Óslandshlíðinni. Ungur að árum, líklega 16 ára, var hann að koma af balli á félagsheimili þeirra sveitunga, Hlíðarhúsinu. Fékk hann far út á Krók með Gísla í Þúfum og Árna Rögnvalds. Var létt yfir mannskapnum og gekk flaska á milli. Árni var undir stýri og heyrði Jón þá margar sögurnar fjúka milli hans og Gísla.
Ein sagan hjá Árna var af ónefndum blaðamanni sem kom á elliheimili til að taka viðtal við 100 ára konu. Var hún m.a. spurð hvað hún hefði verið gömul er hún hætti að hafa löngun til karlmanns. Þá mun sú gamla hafa svarað:
"Þú verður að spyrja einhverja eldri en mig!"
Guddi var alltaf eldsnöggur til svars og þurfti aldrei að hugsa sig um. Um miðjan áttunda áratuginn kom hann sem oftar í heimsókn í Hrafnhól í Hjaltadal. Þetta var að vori til. Guðmundur bóndi var að stinga út úr fjárhúsunum. Guddi greip gaffal og bar hnausana út. Hann keðjureykti en lét það ekki trufla sig við vinnuna, sígaretturnar löfðu í tannlausum gómnum. Ungur drengur varð vitni að hamaganginum og spurði:
"Hvers vegna reykir þú svona mikið, Guddi?"
Hann svaraði um hæl:
"Þeir sem vinna mikið þurfa að reykja mikið!"
Eitt sinn bar gest að garði á Silfrastöðum, sem spurði Steingrím frétta á bæjarhlaðinu. Hann var þá með eitthvað af vinnufólki, enda hafa Silfrastaðir jafnan verið stórbýli.
"Ja, það drapst hér kerling í nótt," svaraði Steingrímur við gestinn, og bætti við: "Og önnur fer bráðum."
Margir áttu leið í Búnaðarbankann til Ragnars Pálssonar útibússtjóra, þeirra á meðal Helgi Dagur Gunnarsson. Eitt sinn hafði hann verið í gleðskap og þokkalega vel klæddur mætti hann í bankann og bað Ragnar um lán. Ragnar sagðist ekki sjá ástæðu til að lána mönnum, sem klæddust jakkafötum á vinnudegi! Helgi sagði ástæðu fyrir því.
"Sko," sagði hann, "ég er svo blankur að ég á ekki fyrir gallabuxum og þetta er það eina sem ég á eftir."
Ragnar tók þessa skýringu góða og gilda. Helgi fékk lánið og daginn eftir mætti hann til Ragnars í gallabuxum sem hann hafði keypt sér!"
Maður einn á Króknum fór í verslunina Gránu í hverri viku og keypti yfirleitt það sama í hvert skipti af helstu nauðsynjum. Í Gránu voru vörurnar keyptar "yfir borðið" og fólk lagði inn lista eða sagði afgreiðslufólkinu hvað það vanhagaði um. Sagan segir að hér hafi Jón Björnsson verið á ferð, kallaður Jón kippur, en það hefur ekki fengist staðfest. Einn daginn tók afgreiðslukona hjá Kaupfélaginu eftir því að maðurinn bað um tvær klósettrúllur, en yfirleitt hafði hann bara beðið um eina. "Stendur eitthvað til?" spurði konan og maðurinn svaraði:
"Ég ákvað að gera vel við mig í þetta skiptið!"
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
13.11.2022 | 06:58
Ný ljóðabók og hljómplata
Það hefur verið afskaplega ánægjulegt að fylgjast með Ólafi F. Magnússyni eftir að hann settist í helgan stein. Reyndar líka áður. Hann var besti borgarstjóri Reykjavíkur. Eftir það tímabil tók við nýr - og kannski óvæntur - ferill. Frjó og farsæl sköpunargleði fór á flug. Hann yrkir kjarnyrt kvæði á færibandi, semur viðkunnanleg söngræn lög og vex stöðugt sem ágætur söngvari.
Nú er komin út hans þriðja ljóðabók, Ég vil bæta mitt land. Eins og í fyrri bókum eru þetta ættjarðarljóð, heilræðisvísur og allskonar. Meðal annars um margt nafngreint fólk. Eitt kvæðið heitir Eivör Pálsdóttir:
Holdtekju listar með hárið síða,
hátónagæði með fegurð prýða.
Sönglóan okkar færeyska fríða,
flögrar um eins og sumarblíða.
Bókinni fylgir 13 laga hljómdiskur. Þar af eru 9 áður óútgefin lög. Hin eru sýnishorn af fyrri þremur diskum Ólafs.
Söngurinn er afgreiddur af Ólafi og Páli Rósinkrans, svo og óperusöngvurunum Elmari Gilbertssyni, Guðlaugu Dröfn Ólafsdóttur og Ingibjörgu Aldísi Ólafsdóttur. Útsetningar og hljóðfæraleikur eru að mestu í höndum galdrakarlsins Vilhjálms Guðjónssonar. Gunnar Þórðarson kemur líka við sögu.
Bækur | Breytt s.d. kl. 09:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
23.10.2022 | 09:54
Flott plata
- Titill: Bláturnablús
- Flytjandi: Gillon
- Einkunn: ****
Gillon er listamannsnafn Gísla Þórs Ólafssonar. Hann er Skagfirðingur, búsettur á Sauðárkróki. Hann hefur sent frá sér fjölda ljóðabóka og hljómplatna. Allt vænstu verk. Á nýjustu afurðinni, plötunni Bláturnablús, eru öll lögin og ljóðin frumsamin. Gillon syngur að venju og spilar á kassagítar og bassa. Hans hægri hönd er upptökustjórinn Sigfús Arnar Benediktsson. Hann spilar á trommur, rafgítar, gítarlele og ýmis hljómborð.
Söngstíll Gillons er "spes". Hann er í humátt eins og sitt lítið af Megasi, Bjartmari og Birni Jörundi. Stíllinn klæðir söngvana prýðilega. Ljóðin eru í frjálsu formi og súrrealísk. Sparlegu endarími bregður þó fyrir í einstaka ljóði.
Platan er frekar seintekin. Hún þarf nokkrar spilanir áður en fegurð laganna opinberast að fullu. Kannski spilaði inn í hjá mér að við fyrstu yfirferðir var athyglin á hugmyndaríku og skemmtilegu ljóðunum.
Útsetningar og hljóðfæraleikur eru snyrtileg og smekkleg. Enginn brjálaður hávaði og læti. Lögin flest róleg eða á hóflegum millihraða. Það er heldur poppaðra yfirbragð en á fyrri plötum Gillons. Til að mynda lýkur plötunni á "sing-along" tralli Gillons og þriggja kvenna. Gott niðurlag á flottri og skemmtilegri plötu.
Teikning Óla Þórs Ólafssonar á framhlið umslagsins er virkilega "töff".
Bækur | Breytt s.d. kl. 14:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.10.2022 | 00:02
Skemmtileg bók
- Titill: Glaðlega leikur skugginn í sólskininu
- Höfundur: Steinn Kárason
Sögusviðið er Skagafjörður á sjöunda áratugnum. Segir þar frá ungum dreng - 10 - 11 ára - á Sauðárkróki. Bakgrunnurinn er sjórinn, sjómennska og sveitin í þroskasögunni. Inn í hana blandast kaldastríðið, Kúbudeilan og Bítlarnir. Steinn kemur andrúmslofti þessara ára vel til skila.
Ég ætla að stór hluti sögunnar byggi á raunverulegri upplifun höfundar. Ég kannast við suma atburði sem sagt er frá. Ég var barn í Skagafirði á þessum tíma. Fyrir bragðið var sérlega gaman fyrir mig að rifja upp bernskubrekin. Bókin er þar fyrir utan líka skemmtileg og fróðleg fyrir fólk sem veit ekki einu sinni hvar Skagafjörður er. Mörg brosleg atvik eru dregin fram. En það skiptast á skin og skúrir. Ógeðfelldir atburðir henda sem og mannlegur breyskleiki í ýmsum myndum.
Þetta er stór og mikil bók. Hún spannar 238 blaðsíður. Káputeikning Hlífar Unu Bárudóttur er flott.
Steinn Kárason er þekktur fyrir fræðibækur, blaðagreinar, tónlist og dagskrárgerð í ljósvakamiðlum.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.10.2021 | 19:15
Smásaga um mann sem týndi sjálfum sér
- Af hverju kemur þú svona seint heim? spurði konan ásakandi um leið og Raggi gekk inn um útidyrnar.
- Ég týndi mér, svaraði hann skömmustulega.
- Hvað meinar þú?
- Ég var að ganga niður Bankastræti þegar ég tók eftir því að ég var kominn fram úr mér. Ég reyndi að halda í við mig en það voru alltof margir ferðamenn sem flæktust fyrir. Að lokum missti ég sjónir af mér.
- Hvaða kjaftæði er þetta?
- Ég sver. Ég varð að ganga hús úr húsi í Austurstræti í leit að mér. Þetta var rosalega seinlegt. Sum húsin eru á meira en einni hæð. Ég var sannfærður um að ég væri þarna einhversstaðar. Ég var kominn alveg að Ingólfstorgi þegar ég fann mig á austurlenskum veitingastað. Ég lét mig heyra það óþvegið og dreif mig heim.
- Veistu, ég trúi þér. Mamma kom áðan í heimsókn og spurði hvar þú værir. Ég sagði henni að þú hefðir áreiðanlega týnt þér í miðbænum.
- Hvernig datt þér það í hug?
- Það var ekkert erfitt að giska á þetta. Þetta hefur endurtekið sig á hverju kvöldi í tólf ár.
Bækur | Breytt 17.10.2021 kl. 07:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
8.5.2021 | 02:28
Smásaga um glaðvakandi mann
Jónsi er í kvöldheimsókn hjá Binna vini sínum. Þeir hafa ekki hist síðan þeir voru saman í skóla. Það eru meira en tvær vikur síðan. Þeir hafa því frá mörgu að segja og draga hvergi undan. Mikið er hlegið og tíminn er fljótur að líða. Fyrr en varir slær stofuklukkan tíu.
Ella, kona Binna, rekur nefið inn um stofugættina. Hún segir honum að drífa sig í háttinn.
"Róleg, kona," svarar hann. "Þú sérð að ég er með gest."
Það snöggfýkur í Ellu. Hún hleypur að Binna og sparkar í fótinn á honum. Hann rekur upp sársaukavein. Ella forðar sér úr stofunni.
Skömmu síðar er barið harkalega á dyr. Ella opnar dyrnar. Fyrir utan standa tveir lögregluþjónar gráir fyrir járnum. Annar er tröllvaxinn rumur. Hinn er nett dama. Hún spyr valdmannslega: "Hvar er pésinn sem vill ekki fara að sofa?"
Ella bendir á Binna. Löggurnar ganga að honum. Þær skella honum með látum í gólfið. Hann berst um á hæl og hnakka. En er ofurliði borinn. Löggurnar tæta utan af honum fötin. Svo mikill er atgangurinn að tölurnar slitna af skyrtunni hans og spýtast í allar áttir. Jónsi notar tækifærið og læðist óséður úr húsi.
Binni róast þegar hann er aðeins á nærbuxunum. Löggudaman kallar til Ellu: "Á hann náttföt?" Hún kannast ekki við það. En segist geta lánað honum náttkjól. Löggurnar troða honum í kjólinn. Troða í bókstaflegri merkingu. Hann er nefnilega of lítill. Í honum svipar Binna til lundabagga.
Binna er dröslað inn í rúm. Ella er komin undir sæng. Rumurinn spyr: "Eigum við ekki að sekta kvikindið?" Daman svarar: "Nei, ég veiti honum bara skriflega áminningu."
Hún dregur upp áminningablokk og fyllir út formið. Rumurinn spyr: "En má ég ekki rásskella hann?" Hún samþykkir það en tekur fram: "Aðeins eitt högg."
Hann lætur ekki segja sér það tvisvar. Hann hendir Binna á magann og slær hann kröftuglega á bossann svo smellur hátt í. Því næst snýr hann honum á bakið og skorðar þétt við Ellu. Hann breiðir sængina yfir þau. Alveg upp að höku. Hann hvíslar: "Góða nótt" og kyssir hjúin á ennið. Svo hverfur hann út í náttmyrkrið ásamt dömunni.
Bækur | Breytt 9.5.2021 kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
21.4.2021 | 01:24
Smásaga um fót
Bænastund er að hefjast. Bænahringurinn raðar sér í kringum stóra bænaborðið. Óvænt haltrar ókunnugur gestur inn á gólf. "Ég er með mislanga fætur," segir hann. "Getið þið beðið fyrir kraftaverki um að þeir verði jafn langir?"
"Ekki málið," svarar forstöðumaðurinn. "Leggstu á bakið hér ofan á borðið. Við græjum þetta."
Sá halti hlýðir. Forstöðumaðurinn leiðir bæn. Svo sprettur hann á fætur og grípur um fót gestsins, hristir hann kröftuglega og hrópar: "Í Jesú-nafni skipa ég þér fótur að lengjast!"
Þetta endurtekur hann nokkrum sinnum. Að lokum hrópar hann sigri hrósandi: "Ég fann fótinn lengjast! Þú ert heill, félagi."
Hann hjálpar gestinum að renna sér niður af borðinu. Þar fellur hann í gólfið en bröltir á fætur og fellur jafnharðan aftur í gólfið. Það fýkur í hann. Hann hrópar: "Helvítis fúskarar! Þið lengduð vitlausan fót!"
Forstöðumaðurinn reiðist líka. Hann hvæsir: "Það má ekki á milli sjá hvor fóturinn er vitlausari. Báðir snarvitlausir!"
Hann grípur um axlir gestsins og dregur hann að útidyrunum. Gesturinn er á fjórum fótum og spyrnir við. Hann minnir á kind í réttum sem þráast við að vera dregin í dilk.
Forstöðumaðurinn nær að henda honum út á hlað. Þar sparkar hann kröftulega í rassinn og hrópar: "Þakkirnar fyrir hjálp okkar eru ekkert nema vanþakklæti. Nú er munurinn á fótunum sá sami og þykkt gangstéttarhellu. Þú getur ólað hana á þig og gengið óhaltur."
Gesturinn fylgir ráðinu. Það reynist heillaráð.
Bækur | Breytt s.d. kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
18.1.2021 | 19:43
Glæsilegur pakki
Út er komin ljóðabókin "Staldraðu við". Hún inniheldur 156 kvæði; hvert öðru betra. Höfundur er Ólafur F. Magnússon. Þetta er hans önnur ljóðabók. Hin fyrri, "Ástkæra landið", kom út síðsumars í fyrra.
Ólafur yrkir á hefðbundinn hátt með stuðlum, höfuðstöfum og endarími. Ljóðin eru innhaldsrík og yrkisefnið fjölbreytt. Þau lýsa ást höfundar á náttúru Íslands, lífinu og trú á hið góða, vináttu og hamingjuna, svo fátt eitt sé nefnt. Mörg fjalla um nafngreinda einstaklinga, bæði lífs og liðna. Jákvæður andi svífur yfir bókinni - þó einnig sé minnt á dekkri hliðar tilverunnar. Töluvert er um uppbyggjandi heilræðisvísur.
Bókinni fylgir veglegur 12 laga geisladiskur. Þar af eru níu áður óútgefin. Upphafslagið er samnefnt bókinni, "Staldraðu við". Það er afar grípandi blús-smellur. Ef hann er spilaður að morgni þá sönglar hann í hausnum á manni það sem eftir lifir dags. Önnur lög eru ólík honum. Þau eru hátíðleg og bera keim af klassískri tónlist, þjóðlegum tónum og í sumum tilfellum sálmum. Lög Ólafs hafa frá upphafi verið góð og falleg og eru stöðugt betri.
Sama má segja um söng Ólafs. Hann hefur alltaf verið ágætur söngvari. Á síðustu árum hefur hann vaxið mjög sem söngvari. Hann syngur af miklu öryggi, yfirvegun, einlægni og innlifun. Annar söngvari á plö0tunni er Guðlaug Dröfn Ólafsdóttir. Hún syngur líka á báðum fyrri diskum Ólafs. Hún er lærð í klassískum söng. Á plötunum syngur hún - blessunarlega - ekki í óperustíl. Hún hefur snotra söngrödd. Raddir þeirra Ólafs liggja mjög vel saman, hvort heldur sem þau syngja raddað saman eða skiptast á að syngja kafla og kafla.
Hægri hönd Ólafs í tónlistinni er Vilhjálmur Guðjónsson. Hann útsetur lögin - sum ásamt Gunnari Þórðarsyni. Hann spilar á öll hljóðfæri (um 20) ef frá er talinn gítarleikur Gunnars í sumum lögum. Einnig radda þeir félagarnir. Allt er þetta afgreitt snyrtilega af smekkvísi. Útsetningarnar klæða lögin afskaplega vel. Allt leggst á eitt með að ljóðabókin og platan eru glæsileggur pakki. Virkilega flottur pakki.
Bækur | Breytt 19.1.2021 kl. 09:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)