Færsluflokkur: Löggæsla

Til minningar um gleðigjafa

  Tónlistarmaðurinn og gleðigjafinn Brynjar Klemensson féll frá 24. nóvember.  Hann var aðeins 67 ára.  Í vina og kunningjahópi gekk hann undir nafninu Billy Start.  Ástæðan var sú að hann var einskonar fylgihnöttur hljómsveitarinnar Start.  Forsöngvarinn,  Pétur heitinn Kristjánsson,  var hans stóra fyrirmynd.

  Billy átti auðvelt með að finna broslegar hliðar á mönnum og málefnum.  Allt í góðlátlegri frásögn.  Hann sagði skemmtilega frá.  Þegar hann mætti á svæðið tilkynnti hann jafnan viðstöddum:  "Billy Start mættur á kantinn!"  Þetta var ávísun á fjörlegar samræður og mikið hlegið. 

  Billy var smá prakkari.  Eitt sinn mætti hann á skemmtistað í Ármúla.  "Ósköp er rólegt í kvöld.  Ekkert fyrir dyravörðinn að gera," sagði hann.  Ég samsinnti því.  Sagði að dyravörður væri óþarfur þetta kvöldið.  

   Úti á miðju gólfi stóð ókunnugur miðaldra maður.  Hann góndi á boltaleik á sjónvarpsskjá.  Billy rölti til dyravarðarins og skrökvaði:  "Sérðu manninn þarna?  Þetta er alræmdur vandræðapési.  Þú þarft að fylgjast vel með honum.  Hann á eftir að hleypa öllu í bál og brand."  

  Hrekklaus dyravörðurinn lét ekki segja sér það tvisvar.  Hann læddist aftan að manninum,  stökk svo á hann með dyravarðafangbragði.  Maðurinn var í skrúfstykki.  Dyravörðurinn dró hann út á stétt og flýtti sér síðan að skella í lás.  Maðurinn var alveg ringlaður.  Hann bankaði - án árangurs - á dyrnar.  Svo náði hann á leigubíl og fór.   Þá opnaði dyravörðurinn dyrnar og allt féll í ljúfa löð.  

  Billy hrósaði dyraverðinum fyrir snöfurleg vinnubrögð.  Við mig sagði hann:  "Nú getur hann skráð í dagbók staðarins að honum hafi með lagni tekist að afstýra heilmiklu veseni!"

 

billy start


Anna frænka á Hesteyri hringdi á lögguna

  Fyrir nokkrum árum hringdi Anna Marta á Hesteyri í eldri frænku okkar í Reykjavík.  Það var alvanalegt.  Konan var nýbúin að setja lit í hárið á sér   Hún beið eftir að hann verkaðist áður en hann yrði skolaður.  Hún upplýsti Önnu um stöðuna.  Bað hana um að hringja aftur eftir 10 mínútur.  

  Í þann mund er konan skolaði hárið mundi hún eftir því að kartöflur og mjólk vantaði.  Komið fast að kvöldverðartíma og eiginmaðurinn væntanlegur úr vinnu.  Hún skrapp í matvörubúðina skammt frá.  Aðeins ein stelpa var á afgreiðslukassanum.  Hún var nýbyrjuð og óörugg.  Gerði einhver mistök með tilheyrandi töfum.  Röðin við kassann lengdist.   

  Er konan hélt heim blöstu við blikkandi ljós á sjúkrabíl og lögreglubíl í innkeyrslu  hennar.  Lögreglumaður upplýsti að tilkynnt hafi verið að kona væri steinrotuð og slösuð á baðherberginu.

  Konan sýndi lögreglunni inn í baðherbergi og útskýrði að um misskilning væri að ræða.  Síðan hringdi hún í Önnu fjúkandi reið.  Anna sagðist hafa hringt í hana 10 mínútum eftir að konan bað hana um það.  Síminn hringdi út.  Aftur og aftur.  Hún hafi þá lagt saman 2 og 2 og fengið þá niðurstöðu að konan hefði runnið til við að skola hárið og skollið harkalega á gólfið.  

  Konan bannaði Önnu að senda aftur á sig sjúkrabíl og lögreglu.  Anna svaraði:  "Jú,  ef ég verð vör við að þú liggir slösuð þá hringi ég í neyðarlínuna!  Ef þú hefðir slasast núna þá værir þú að þakka mér en ekki skamma mig."

sjúkrabílllöggubíll


Vegg stolið

  Í miðbæ Þórshafnar,  höfuðborgar Færeyja,  er starfræktur írskur pöbb.  Hann heitir Glitnir.  Nafnið er ekki sótt í samnefndan íslenskan banka sem fór á hausinn.  Nafnið er sótt í hýbýli norræns guðs.  Sá er Forseti.

  Færeyski Glitnir er notalegur pöbb.  Á góðviðriskvöldum sitja viðskiptavinirnir úti á stétt.  Allir deila borðum og sætum með öllum.  Stundum taka menn lagið.  

  Á dögunum gerðist undarlegt atvik.  Um það leyti sem starfsfólk lagði drög að því að loka þá uppgötvaðist að búið var að stela vegg sem þar var innandyra.  Vitni telja sig hafa séð útundan sér tvo menn rogast í burtu með vegginn.  Vegna ölgleði fylgdist enginn sérlega vel með þjófunum.  

  Líklegt þykir sem þarna hafi verið um góðlátlegt grín að ræða fremur en bíræfinn stuld.  Færeyingar eru ekki alvöru þjófar.

þórshöfn 

 


Anna á Hesteyri - undarlegt aksturslag

  Anna frænka á Hesteyri var um sextugt þegar einn frændi okkar gaf henni bíl og bílpróf.  Nýkomin með ökuréttindi brá hún sér upp á Hérað.  Vegurinn upp úr Mjóafirði var einbreiður og lélegur malarruðningur.  Kannski þess vegna vandi hún sig á að keyra aldrei hraðar en í öðrum gír.  

  Er Anna nálgaðist Egilsstaði var hún skyndilega komin á fínan tvíbreiðan malbikaðan veg.  Hún tók upp á því að keyra eftir honum miðjum.  Þetta olli öðrum bílstjórum vandræðum með að taka framúr eða mæta henni. 

  Einhver gerði lögreglunni viðvart.  Hún brunaði á móti Önnu;  stöðvaði hana með blikkandi ljósum og sírenu.  Önnu var illa brugðið.  Lögreglan bað hana að gera grein fyrir þessu undarlega aksturslagi.  Hún sagðist hafa orðið svo ánægð með breiða malbikaða veginn að henni datt í hug að leika sér;  leyfa öðrum ökumönnum að ráða hvoru megin þeir vildu mæta henni eða taka framúr. 

  Laganna vörður benti Önnu á að í gildi væru umferðarreglur sem öllum bæri að fylgja. 

  "Þarna er komin skýring á því hvers vegna allir flautuðu svona mikið á mig," hrökk upp úr Önnu. Síðar játaði hún að hafa skammast sín rosalega mikið.   

anna marta


Örstutt glæpasaga um skelfilegt morð

  Rúnar er fyrir hæstarétti.  Í héraði var hann dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir að myrða Margréti,  meðleigjanda sinn.  Hann hefur fúslega játað að hafa þrifið upp blóð úr konunni.  Hinsvegar veit hann ekki hvers vegna blóð hennar var út um allt eldhúsgólfið.  Hann tilkynnti ekki hvarf hennar.  Líkið hefur aldrei fundist.  Móðir hennar tilkynnti hvarfið eftir að hafa án árangurs reynt að ná á henni vikum saman.

  Rúnar hefur ekki leynt því að þeim Margréti sinnaðist oft.  Stundum kom til handalögmála.  Einkum þegar vín var haft við hönd.  Vitni segja að hann hafi verið ástfanginn af henni.  Ástin var ekki endurgoldin.  Þvert á móti hafi konan hræðst skapofsaköst hans og hamslausa áfengisneyslu.     

  Rúnar man ekkert eftir kvöldinu sem Margrét hvarf.  Hann hafði verið á fylleríi í nokkra daga.  Allt í "blakkáti".  Rámaði samt í að hafa þrifið upp blóð.  Einnig hníf í sinni eigu.  Mjög óljóst kannaðist hans við hugsanleg áflog. 

  Öllum að óvörum mætir Margrét í hæstarétt.  Hún óskar eftir að fá að ávarpa réttinn.  Hún segist hafa reynt sjálfsvíg kvöldið sem hún hvarf.  Skar sig á púls.  Ástæðan var ósætti við nýjan kærasta.  Á síðustu stundu hætti hún við allt.  Batt fyrir púlsana og tók rútuna norður til gamallar skólasystur sinnar.  Þar hefur hún verið síðan.  Hún fylgdist með fréttum af morðmálinu.  Henni þótti gott að vita af Rúnari engjast fyrir dómstólum.  En hún getur ekki horft upp á hann sakfelldan fyrir hæstarétti. 

  Réttarhaldið er í uppnámi.  Dómarar eru reiðir.  En hún er ekki ákærð í málinu.  Bara Rúnar.  Fangelsisvist hans er lækkuð niður í fjögur ár.  Honum til refsiþyngingar er að hann var ósamvinnuþýður við rannsókn málsins.  Þverskallaðist við að vísa á líkið.  Var óstöðugur í yfirheyrslum og reyndi að fela sönnunargögn.  Meðal annars með því að þrífa blóð af hnífi og gólfi.  Yfirlýsing Margrétar um að hann sé saklaus af meintu morði á henni er metið honum til refsilækkunar. 

  Einn dómari skilar séráliti.  Hann telur sanngjarnt að stytta dóminn niður í tvö ár.  Ástæðan sé sú að dagblað birti á baksíðu ljósmynd af Rúnari.  Myndbirtingin hljóti að hafa valdið honum skelfingu og hugarangri.  Með því hafi hann tekið út refsingu sem jafngildi einu ári í fangelsi.   

fangi    


Það getur bjargað lífi ykkar og limum að vita þetta

  Við lifum á spennandi tímum.  Því miður í neikvæðri merkingu.  Við vitum ekkert hvernig mál eru að þróast.  Er Úkraínuher að rúlla rússneska hernum upp?  Eða eru Rússar með yfirhöndina?  Vopnaframleiðsla heimsbyggðarinnar er á flugi.  Vopnasala hefur sjaldan blómstrað meir.  Eru klasasprengjur komnar í gagnið?  Verður kjarnorkuvopnum beitt?  Í hafinu umhverfis Ísland er að verða krökkt af kafbátum.  

  Hvað með loftlagsvána?  Skógarelda?  hryðjuverk?  Flóð?  Hnífaburð ungmenna? 

  Hvar er öruggur staður til að vera á?  Ég veit það.  Hann er á Bíldshöfða 6.  Þar er bílasala.  Í auglýsingu frá henni segir:  "Brimborg,  öruggur staður til að vera á".

 

her     


Klaufalegt mont

  Ég hef efasemdir um að fólk verði gáfaðra af hassreykingum.  Hvað þá að það verði miklu gáfaðra af þeim.  Kannski er það einstaklingsbundið.  Sumir hasshausar virðast ekki burðast með meiri gáfur en gerist og gengur. 

  Unglingspiltur í Bandaríkjunum tók upp á því að rækta kannabis.  Fljótlega varð hann stórtækur.  Árangurinn steig honum til höfuðs.  Hann kom sér upp netsíðu.  Þar hældi hann sér af velgengninni.  Var meðal annars duglegur við að sýna ljósmyndir af plöntunum.

  Lögreglan var ekki lengi að bruna heim til hans.  Hann var færður fyrir dómara.

  - Hvernig í ósköpunum datt þér í hug að auglýsa glæpinn á opinni netsíðu?  spurði dómarinn.

  - Ég hélt að löggan hefði annað og þarfara við tímann að gera en hanga á netinu,  svaraði kauði og uppskar 4ra ára fangelsisvist.

hass   


Tímafrekt að rekast á ölvaðan mann

  Það var föstudagskvöld.  Að venju ekkert að gera hjá lögregluþjónunum tveim í Klakksvík,  höfuðborg norðureyjanna í Færeyjum.  Einskonar Akureyri þeirra.  Um miðnætti var farið í eftirlitsferð um bæinn.  Þá rákust þeir á ungan mann vel við skál.  Hann var með nýtt smávægilega blóðrisa fleiður.  Enga skýringu kunni hann á tilurð þess.  Kom af fjöllum. 

  Lögum samkvæmt verður læknir að gefa út vottorð um að óhætt sé að láta mann með áverka í fangaklefa. Lög eru lög.  Lögreglan ráðfærði sig við neyðarlínuna.  Úr varð að ekið var með manninn í neyðarvakt sjúkrahússins í Klakksvík.  Vakthafandi læknir treysti sér ekki til að skrifa upp á vottorð á meðan engar upplýsingar væru um tilurð fleiðursins. 

  Lögreglan ók þá með manninn sem leið lá til Þórshafnar,  höfuðborgar Færeyja.  Vegna veðurs og slæms skyggnis tók ferðin fjóra tíma.  Maðurinn var skráður inn á bráðamóttöku borgarspítalans.  Vakthafandi læknir gaf þegar í stað út vottorð um að óhætt væri að hýsa manninn í fangaklefa.  Hann hvatti jafnframt til þess að maðurinn fengi að sofa úr sér vímuna í Þórshöfn. Gott væri að gefa honum kaffibolla.  Var hann því næst sendur með leigubíl frá borgarspítalanum með fyrirmæli um að leggja sig í fangaklefa hjá Þórshafnarlögreglunni.   

  Lögregluþjónarnir snéru aftur til Klakksvíkur.  Sælir eftir óvenju erilssama nótt.  Upp var runninn sólbjartur morgunn.  

      


Friðsömustu og öruggustu lönd til að heimsækja

  Íslendingar eru hræddir.  Þeir óttast að fara í miðbæ Reykjavíkur.  Óttinn við að verða stunginn með hnífum er yfirþyrmandi.  Stjórnvöld í löndum fjölmennustu túrista til Íslands vara þegna sína við að fara í miðbæ Reykjavíkur. 

  Hvað er til ráða?  Eitthvert þurfa ferðamenn að fara til að sletta úr klaufunum.  Hver eru hættulegustu lönd til að sækja heim?  Hver eru öruggustu?  

  Það þarf ekki vísindalega útreikninga til að vita að hættulegustu lönd er Afganistan,  Jemen og Sýrland.

  Institute for Economics and Peace hefur reiknað dæmið með vísindalegum aðferðum.  Niðurstaðan er sú að eftirfarandi séu öruggustu lönd heims að ferðast til.  

1  Ísland

2  Nýja-Sjáland

3  Írland

4  Danmörk

5  Austurríki

6  Portúgal

7  Slóvenía

8  Tékkland

9  Singapúr

10 Japan


Sprenghlægilegar ljósmyndir af glæpamönnum

  Fá ljósmyndaalbúm eru spaugilegri en þau sem hýsa myndir af bandarískum glæpamönnum.  Eflaust eru glæpamenn annarra þjóða líka broslegir.  Lögregluþjónar þeirra eru bara ekki eins ljósmyndaglaðir.  Síst af öllu íslenskir.  Hér eru nokkur skemmtileg dæmi:  

löggumynd alöggumynd blöggumynd hárgreiðsla clöggumynd - klipping clöggumynd - klipping d    


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband