Færsluflokkur: Löggæsla

Örstutt glæpasaga um skelfilegt morð

  Rúnar er fyrir hæstarétti.  Í héraði var hann dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir að myrða Margréti,  meðleigjanda sinn.  Hann hefur fúslega játað að hafa þrifið upp blóð úr konunni.  Hinsvegar veit hann ekki hvers vegna blóð hennar var út um allt eldhúsgólfið.  Hann tilkynnti ekki hvarf hennar.  Líkið hefur aldrei fundist.  Móðir hennar tilkynnti hvarfið eftir að hafa án árangurs reynt að ná á henni vikum saman.

  Rúnar hefur ekki leynt því að þeim Margréti sinnaðist oft.  Stundum kom til handalögmála.  Einkum þegar vín var haft við hönd.  Vitni segja að hann hafi verið ástfanginn af henni.  Ástin var ekki endurgoldin.  Þvert á móti hafi konan hræðst skapofsaköst hans og hamslausa áfengisneyslu.     

  Rúnar man ekkert eftir kvöldinu sem Margrét hvarf.  Hann hafði verið á fylleríi í nokkra daga.  Allt í "blakkáti".  Rámaði samt í að hafa þrifið upp blóð.  Einnig hníf í sinni eigu.  Mjög óljóst kannaðist hans við hugsanleg áflog. 

  Öllum að óvörum mætir Margrét í hæstarétt.  Hún óskar eftir að fá að ávarpa réttinn.  Hún segist hafa reynt sjálfsvíg kvöldið sem hún hvarf.  Skar sig á púls.  Ástæðan var ósætti við nýjan kærasta.  Á síðustu stundu hætti hún við allt.  Batt fyrir púlsana og tók rútuna norður til gamallar skólasystur sinnar.  Þar hefur hún verið síðan.  Hún fylgdist með fréttum af morðmálinu.  Henni þótti gott að vita af Rúnari engjast fyrir dómstólum.  En hún getur ekki horft upp á hann sakfelldan fyrir hæstarétti. 

  Réttarhaldið er í uppnámi.  Dómarar eru reiðir.  En hún er ekki ákærð í málinu.  Bara Rúnar.  Fangelsisvist hans er lækkuð niður í fjögur ár.  Honum til refsiþyngingar er að hann var ósamvinnuþýður við rannsókn málsins.  Þverskallaðist við að vísa á líkið.  Var óstöðugur í yfirheyrslum og reyndi að fela sönnunargögn.  Meðal annars með því að þrífa blóð af hnífi og gólfi.  Yfirlýsing Margrétar um að hann sé saklaus af meintu morði á henni er metið honum til refsilækkunar. 

  Einn dómari skilar séráliti.  Hann telur sanngjarnt að stytta dóminn niður í tvö ár.  Ástæðan sé sú að dagblað birti á baksíðu ljósmynd af Rúnari.  Myndbirtingin hljóti að hafa valdið honum skelfingu og hugarangri.  Með því hafi hann tekið út refsingu sem jafngildi einu ári í fangelsi.   

fangi    


Það getur bjargað lífi ykkar og limum að vita þetta

  Við lifum á spennandi tímum.  Því miður í neikvæðri merkingu.  Við vitum ekkert hvernig mál eru að þróast.  Er Úkraínuher að rúlla rússneska hernum upp?  Eða eru Rússar með yfirhöndina?  Vopnaframleiðsla heimsbyggðarinnar er á flugi.  Vopnasala hefur sjaldan blómstrað meir.  Eru klasasprengjur komnar í gagnið?  Verður kjarnorkuvopnum beitt?  Í hafinu umhverfis Ísland er að verða krökkt af kafbátum.  

  Hvað með loftlagsvána?  Skógarelda?  hryðjuverk?  Flóð?  Hnífaburð ungmenna? 

  Hvar er öruggur staður til að vera á?  Ég veit það.  Hann er á Bíldshöfða 6.  Þar er bílasala.  Í auglýsingu frá henni segir:  "Brimborg,  öruggur staður til að vera á".

 

her     


Klaufalegt mont

  Ég hef efasemdir um að fólk verði gáfaðra af hassreykingum.  Hvað þá að það verði miklu gáfaðra af þeim.  Kannski er það einstaklingsbundið.  Sumir hasshausar virðast ekki burðast með meiri gáfur en gerist og gengur. 

  Unglingspiltur í Bandaríkjunum tók upp á því að rækta kannabis.  Fljótlega varð hann stórtækur.  Árangurinn steig honum til höfuðs.  Hann kom sér upp netsíðu.  Þar hældi hann sér af velgengninni.  Var meðal annars duglegur við að sýna ljósmyndir af plöntunum.

  Lögreglan var ekki lengi að bruna heim til hans.  Hann var færður fyrir dómara.

  - Hvernig í ósköpunum datt þér í hug að auglýsa glæpinn á opinni netsíðu?  spurði dómarinn.

  - Ég hélt að löggan hefði annað og þarfara við tímann að gera en hanga á netinu,  svaraði kauði og uppskar 4ra ára fangelsisvist.

hass   


Tímafrekt að rekast á ölvaðan mann

  Það var föstudagskvöld.  Að venju ekkert að gera hjá lögregluþjónunum tveim í Klakksvík,  höfuðborg norðureyjanna í Færeyjum.  Einskonar Akureyri þeirra.  Um miðnætti var farið í eftirlitsferð um bæinn.  Þá rákust þeir á ungan mann vel við skál.  Hann var með nýtt smávægilega blóðrisa fleiður.  Enga skýringu kunni hann á tilurð þess.  Kom af fjöllum. 

  Lögum samkvæmt verður læknir að gefa út vottorð um að óhætt sé að láta mann með áverka í fangaklefa. Lög eru lög.  Lögreglan ráðfærði sig við neyðarlínuna.  Úr varð að ekið var með manninn í neyðarvakt sjúkrahússins í Klakksvík.  Vakthafandi læknir treysti sér ekki til að skrifa upp á vottorð á meðan engar upplýsingar væru um tilurð fleiðursins. 

  Lögreglan ók þá með manninn sem leið lá til Þórshafnar,  höfuðborgar Færeyja.  Vegna veðurs og slæms skyggnis tók ferðin fjóra tíma.  Maðurinn var skráður inn á bráðamóttöku borgarspítalans.  Vakthafandi læknir gaf þegar í stað út vottorð um að óhætt væri að hýsa manninn í fangaklefa.  Hann hvatti jafnframt til þess að maðurinn fengi að sofa úr sér vímuna í Þórshöfn. Gott væri að gefa honum kaffibolla.  Var hann því næst sendur með leigubíl frá borgarspítalanum með fyrirmæli um að leggja sig í fangaklefa hjá Þórshafnarlögreglunni.   

  Lögregluþjónarnir snéru aftur til Klakksvíkur.  Sælir eftir óvenju erilssama nótt.  Upp var runninn sólbjartur morgunn.  

      


Friðsömustu og öruggustu lönd til að heimsækja

  Íslendingar eru hræddir.  Þeir óttast að fara í miðbæ Reykjavíkur.  Óttinn við að verða stunginn með hnífum er yfirþyrmandi.  Stjórnvöld í löndum fjölmennustu túrista til Íslands vara þegna sína við að fara í miðbæ Reykjavíkur. 

  Hvað er til ráða?  Eitthvert þurfa ferðamenn að fara til að sletta úr klaufunum.  Hver eru hættulegustu lönd til að sækja heim?  Hver eru öruggustu?  

  Það þarf ekki vísindalega útreikninga til að vita að hættulegustu lönd er Afganistan,  Jemen og Sýrland.

  Institute for Economics and Peace hefur reiknað dæmið með vísindalegum aðferðum.  Niðurstaðan er sú að eftirfarandi séu öruggustu lönd heims að ferðast til.  

1  Ísland

2  Nýja-Sjáland

3  Írland

4  Danmörk

5  Austurríki

6  Portúgal

7  Slóvenía

8  Tékkland

9  Singapúr

10 Japan


Sprenghlægilegar ljósmyndir af glæpamönnum

  Fá ljósmyndaalbúm eru spaugilegri en þau sem hýsa myndir af bandarískum glæpamönnum.  Eflaust eru glæpamenn annarra þjóða líka broslegir.  Lögregluþjónar þeirra eru bara ekki eins ljósmyndaglaðir.  Síst af öllu íslenskir.  Hér eru nokkur skemmtileg dæmi:  

löggumynd alöggumynd blöggumynd hárgreiðsla clöggumynd - klipping clöggumynd - klipping d    


Frábær lögregla

  Í fyrradag missti tæplega fertugur maður vitið.  Óvænt.  Enginn aðdragandi.  Hann var bara allt í einu staddur á allt öðrum stað en raunveruleikanum.  Ég hringdi í héraðslækni.  Til mín komu tveir kvenlögregluþjónar sem hóuðu í sjúkrabíl.  

  Þetta fólk afgreiddi vandamálið á einstaklega lipran hátt.  Minnsta mál í heimi hefði verið að handjárna veika manninn og henda honum inn á geðdeild eða löggustöð.  Þess í stað var rætt við hann á ljúfu nótunum.  Að hluta til fallist á ranghugmyndir hans en um leið fengið hann til að fara á fætur og koma út í sjúkrabíl.  

  Þetta tók alveg 2 klukkutíma.  Skref fyrir skref:  Að standa á fætur,  að fara í skó og svo framvegis.

  Að lokum tókst að koma honum í sjúkrabílinn.  Hálftíma síðar hringdi önnur lögreglukonan í mig.  Vildi upplýsa mig um framhaldið frá því að maðurinn fór í sjúkrabílinn.  Sem var töluverð dagskrá sem náði alveg til dagsins í dag. 

  Þvílíkt frábær vinnubrögð.  Ég hafði ekki rænu á að taka niður nöfn.        


Smásaga um glaðvakandi mann

  Jónsi er í kvöldheimsókn hjá Binna vini sínum.  Þeir hafa ekki hist síðan þeir voru saman í skóla.  Það eru meira en tvær vikur síðan.  Þeir hafa því frá mörgu að segja og draga hvergi undan.  Mikið er hlegið og tíminn er fljótur að líða.  Fyrr en varir slær stofuklukkan tíu.  

  Ella,  kona Binna,  rekur nefið inn um stofugættina.  Hún segir honum að drífa sig í háttinn.  

  "Róleg, kona,"  svarar hann.  "Þú sérð að ég er með gest."

  Það snöggfýkur í Ellu.  Hún hleypur að Binna og sparkar í fótinn á honum.  Hann rekur upp sársaukavein.  Ella forðar sér úr stofunni.

  Skömmu síðar er barið harkalega á dyr.  Ella opnar dyrnar.  Fyrir utan standa tveir lögregluþjónar gráir fyrir járnum.  Annar er tröllvaxinn rumur.  Hinn er nett dama.  Hún spyr valdmannslega:  "Hvar er pésinn sem vill ekki fara að sofa?"

  Ella bendir á Binna.  Löggurnar ganga að honum.  Þær skella honum með látum í gólfið.  Hann berst um á hæl og hnakka.  En er ofurliði borinn.  Löggurnar tæta utan af honum fötin.  Svo mikill er atgangurinn að tölurnar slitna af skyrtunni hans og spýtast í allar áttir.  Jónsi notar tækifærið og læðist óséður úr húsi.  

  Binni róast þegar hann er aðeins á nærbuxunum.  Löggudaman kallar til Ellu:  "Á hann náttföt?"  Hún kannast ekki við það.  En segist geta lánað honum náttkjól.  Löggurnar troða honum í kjólinn.  Troða í bókstaflegri merkingu.  Hann er nefnilega of lítill.  Í honum svipar Binna til lundabagga. 

  Binna er dröslað inn í rúm.  Ella er komin undir sæng.  Rumurinn spyr:  "Eigum við ekki að sekta kvikindið?"  Daman svarar:  "Nei,  ég veiti honum bara skriflega áminningu.

  Hún dregur upp áminningablokk og fyllir út formið.  Rumurinn spyr:  "En má ég ekki rásskella hann?"  Hún samþykkir það en tekur fram:  "Aðeins eitt högg."

  Hann lætur ekki segja sér það tvisvar.  Hann hendir Binna á magann og slær hann kröftuglega á bossann svo smellur hátt í.  Því næst snýr hann honum á bakið og skorðar þétt við Ellu.  Hann breiðir sængina yfir þau.  Alveg upp að höku.  Hann hvíslar:  "Góða nótt" og kyssir hjúin á ennið.  Svo hverfur hann út í náttmyrkrið ásamt dömunni.     


Svínað á Lullu frænku

  Mín góða og skemmtilega frænka úr Skagafirðinum,  Lulla, var ekki alveg eins og fólk er flest.  Oft var erfitt að átta sig á því hvernig hún hugsaði.  Viðbrögð hennar við mörgu voru óvænt.  Samt jafnan tekin af yfirvegun og rólegheitum.  Henni gat þó mislíkað eitt og annað og lá þá ekki á skoðun sinni.

  Hún flutti ung til Reykjavíkur.  Þar dvaldi hún af og til á geðdeild Borgarspítala og á Kleppi í bland við verndaða vinnustaði.  Henni var alla tíð afar hlýtt til Skagafjarðar og Skagfirðinga.

  Aksturslag hennar var sérstætt.  Sem betur fer fór hún hægt yfir.  1. og 2. gír voru látnir duga.  Aðrir bílstjórar áttu erfitt með að aka í takt við hana.  

  Á áttunda áratugnum var mágur minn farþegi hjá henni.  Þá tróðst annar bíll glannalega fram úr henni.  Lulla var ósátt og sagði:  "Þessi er hættulegur í umferðinni.  Hann svínar á manni."

  Mágur minn benti henni á að bílnúmerið væri K.  Þetta væri skagfirskur ökuníðingur.  Lulla svaraði sallaróleg:  "Já, sástu hvað hann tók fimlega framúr?  Skagfirðingar eru liprir bílstjórar!"

Fleiri sögur af Lullu frænku:  HÉR

 


Svíi var svo fullur að lögreglan hélt að hann væri Dani

 Sænskur saksóknari hefur ákært 29 ára Svía.  Sakarefnið er ölvunarakstur, flótti frá árekstri og brot á vopnalögum.  Við yfirheyrslu kvaðst hann hafa drukkið romm, koníak,  brennivín og vatn.  Síðan hafi hann farið í göngutúr og mokað smávegis snjó fyrir utan hús föður síns.  Að því loknu vaknaði hann sér til undrunar upp af værum blund í fangaklefa.       

  Lögreglan kom auga á manninn flýja á hraðferð af vettvangi eftir að hafa klesst á tvo kyrrstæða bíla.  Hraðferðin endaði í snjóskafli.  Þar sat bíllinn fastur. 

  Þegar lögreglan opnaði bíldyrnar gus upp megn áfengislykt.  Á bílgólfinu blasti við vodkaflaska.  Jafnframt reyndist maðurinn vera vopnaður ólöglegum hníf. 

  Svo sauðdrukkinn var hann að lögreglan var lengst af sannfærð um að hann væri Dani.

  Honum er gert að borga sveitarfélaginu Trollhattan 21 þúsund kall fyrir að hafa ekið niður staur.  Að auki þarf hann að borga hálfa milljón fyrir bílana sem hann ók utan í.  Einhverja sekt fær hann fyrir ölvun undir stýri.    

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband