Færsluflokkur: Löggæsla
23.8.2021 | 08:34
Frábær lögregla
Í fyrradag missti tæplega fertugur maður vitið. Óvænt. Enginn aðdragandi. Hann var bara allt í einu staddur á allt öðrum stað en raunveruleikanum. Ég hringdi í héraðslækni. Til mín komu tveir kvenlögregluþjónar sem hóuðu í sjúkrabíl.
Þetta fólk afgreiddi vandamálið á einstaklega lipran hátt. Minnsta mál í heimi hefði verið að handjárna veika manninn og henda honum inn á geðdeild eða löggustöð. Þess í stað var rætt við hann á ljúfu nótunum. Að hluta til fallist á ranghugmyndir hans en um leið fengið hann til að fara á fætur og koma út í sjúkrabíl.
Þetta tók alveg 2 klukkutíma. Skref fyrir skref: Að standa á fætur, að fara í skó og svo framvegis.
Að lokum tókst að koma honum í sjúkrabílinn. Hálftíma síðar hringdi önnur lögreglukonan í mig. Vildi upplýsa mig um framhaldið frá því að maðurinn fór í sjúkrabílinn. Sem var töluverð dagskrá sem náði alveg til dagsins í dag.
Þvílíkt frábær vinnubrögð. Ég hafði ekki rænu á að taka niður nöfn.
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 08:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
8.5.2021 | 02:28
Smásaga um glaðvakandi mann
Jónsi er í kvöldheimsókn hjá Binna vini sínum. Þeir hafa ekki hist síðan þeir voru saman í skóla. Það eru meira en tvær vikur síðan. Þeir hafa því frá mörgu að segja og draga hvergi undan. Mikið er hlegið og tíminn er fljótur að líða. Fyrr en varir slær stofuklukkan tíu.
Ella, kona Binna, rekur nefið inn um stofugættina. Hún segir honum að drífa sig í háttinn.
"Róleg, kona," svarar hann. "Þú sérð að ég er með gest."
Það snöggfýkur í Ellu. Hún hleypur að Binna og sparkar í fótinn á honum. Hann rekur upp sársaukavein. Ella forðar sér úr stofunni.
Skömmu síðar er barið harkalega á dyr. Ella opnar dyrnar. Fyrir utan standa tveir lögregluþjónar gráir fyrir járnum. Annar er tröllvaxinn rumur. Hinn er nett dama. Hún spyr valdmannslega: "Hvar er pésinn sem vill ekki fara að sofa?"
Ella bendir á Binna. Löggurnar ganga að honum. Þær skella honum með látum í gólfið. Hann berst um á hæl og hnakka. En er ofurliði borinn. Löggurnar tæta utan af honum fötin. Svo mikill er atgangurinn að tölurnar slitna af skyrtunni hans og spýtast í allar áttir. Jónsi notar tækifærið og læðist óséður úr húsi.
Binni róast þegar hann er aðeins á nærbuxunum. Löggudaman kallar til Ellu: "Á hann náttföt?" Hún kannast ekki við það. En segist geta lánað honum náttkjól. Löggurnar troða honum í kjólinn. Troða í bókstaflegri merkingu. Hann er nefnilega of lítill. Í honum svipar Binna til lundabagga.
Binna er dröslað inn í rúm. Ella er komin undir sæng. Rumurinn spyr: "Eigum við ekki að sekta kvikindið?" Daman svarar: "Nei, ég veiti honum bara skriflega áminningu."
Hún dregur upp áminningablokk og fyllir út formið. Rumurinn spyr: "En má ég ekki rásskella hann?" Hún samþykkir það en tekur fram: "Aðeins eitt högg."
Hann lætur ekki segja sér það tvisvar. Hann hendir Binna á magann og slær hann kröftuglega á bossann svo smellur hátt í. Því næst snýr hann honum á bakið og skorðar þétt við Ellu. Hann breiðir sængina yfir þau. Alveg upp að höku. Hann hvíslar: "Góða nótt" og kyssir hjúin á ennið. Svo hverfur hann út í náttmyrkrið ásamt dömunni.
Löggæsla | Breytt 9.5.2021 kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
5.7.2020 | 04:07
Svínað á Lullu frænku
Mín góða og skemmtilega frænka úr Skagafirðinum, Lulla, var ekki alveg eins og fólk er flest. Oft var erfitt að átta sig á því hvernig hún hugsaði. Viðbrögð hennar við mörgu voru óvænt. Samt jafnan tekin af yfirvegun og rólegheitum. Henni gat þó mislíkað eitt og annað og lá þá ekki á skoðun sinni.
Hún flutti ung til Reykjavíkur. Þar dvaldi hún af og til á geðdeild Borgarspítala og á Kleppi í bland við verndaða vinnustaði. Henni var alla tíð afar hlýtt til Skagafjarðar og Skagfirðinga.
Aksturslag hennar var sérstætt. Sem betur fer fór hún hægt yfir. 1. og 2. gír voru látnir duga. Aðrir bílstjórar áttu erfitt með að aka í takt við hana.
Á áttunda áratugnum var mágur minn farþegi hjá henni. Þá tróðst annar bíll glannalega fram úr henni. Lulla var ósátt og sagði: "Þessi er hættulegur í umferðinni. Hann svínar á manni."
Mágur minn benti henni á að bílnúmerið væri K. Þetta væri skagfirskur ökuníðingur. Lulla svaraði sallaróleg: "Já, sástu hvað hann tók fimlega framúr? Skagfirðingar eru liprir bílstjórar!"
Fleiri sögur af Lullu frænku: HÉR
27.6.2020 | 23:17
Svíi var svo fullur að lögreglan hélt að hann væri Dani
Sænskur saksóknari hefur ákært 29 ára Svía. Sakarefnið er ölvunarakstur, flótti frá árekstri og brot á vopnalögum. Við yfirheyrslu kvaðst hann hafa drukkið romm, koníak, brennivín og vatn. Síðan hafi hann farið í göngutúr og mokað smávegis snjó fyrir utan hús föður síns. Að því loknu vaknaði hann sér til undrunar upp af værum blund í fangaklefa.
Lögreglan kom auga á manninn flýja á hraðferð af vettvangi eftir að hafa klesst á tvo kyrrstæða bíla. Hraðferðin endaði í snjóskafli. Þar sat bíllinn fastur.
Þegar lögreglan opnaði bíldyrnar gus upp megn áfengislykt. Á bílgólfinu blasti við vodkaflaska. Jafnframt reyndist maðurinn vera vopnaður ólöglegum hníf.
Svo sauðdrukkinn var hann að lögreglan var lengst af sannfærð um að hann væri Dani.
Honum er gert að borga sveitarfélaginu Trollhattan 21 þúsund kall fyrir að hafa ekið niður staur. Að auki þarf hann að borga hálfa milljón fyrir bílana sem hann ók utan í. Einhverja sekt fær hann fyrir ölvun undir stýri.
Löggæsla | Breytt 28.6.2020 kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
18.11.2019 | 00:01
Gangbraut, strætóskýli, kyrrstæðir bílar, sektir...
Margt er brogað hér í borg;
ég bévítans delana þekki.
Hagatorg er hringlaga torg
en hringtorg er það samt ekki!
Fyrir þá sem þekkja ekki til: Hagatorg er hringlaga torg fyrir framan Hótel Sögu. Bílar mega ekki stöðva þegar ekið er í kringum torgið. Sá sem stöðvar er umsvifalaust sektaður. Við torgið stendur veglegt strætóskýli. Vandamálið er að strætó má ekki stöðva við skýlið - að viðlagðri sekt. Sama á við um bíla sem þurfa að stöðva fyrir aftan ef strætó stoppar. Sjaldnast stoppar hann við skýlið. Þar híma viðskiptavinir bláir af kulda dögum saman og horfa upp á hvern strætóinn á fætur öðrum aka hjá án þess að stoppa.
Þvert yfir torgið liggur gangbraut. Bílstjórar mega ekki stöðva til að hleypa gangandi yfir. Stöðvun kostar fjársekt. Hinsvegar er refsilaust að keyra gangandi niður. Einhverjir embættismenn halda því þó fram að gangbrautin eigi réttinn. Hringtorgið sé nefnilega ekki hringtorg.
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.11.2019 | 00:33
Ólíkt hafast þeir að
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
26.4.2019 | 07:03
Furðuleg lög
Ég fagnaði frjósemishátíðinni - kenndri við frjósemisgyðjuna Easter (Oester) - úti í Munchen í Þýskalandi. Næstum aldarfjórðungur er síðan ég kom þangað síðast. Margt hefur breyst. Á þeim tíma var fátítt að hitta einhvern enskumælandi. Allt sjónvarpsefni var á þýsku. Hvergi var hægt að kaupa tímarit, dagblöð eða annað lesefni á ensku. Í dag tala allir ensku. Í fjölvarpinu nást enskar sjónvarpsstöðvar. Í blaðabúðum fást ensk og bandarísk tímarit og dagblöð.
Á meðan rigndi í Reykjavík var steikjandi sólskin í Munchen alla daga. Það var notalegt. Ég var vel staðsettur mitt í miðbænum, við hliðina á umferðamiðstöðinni (central station). Þar inni sem og fyrir utan er ekki þverfótað fyrir veitingastöðum og allrahanda verslunum. Ég átti ekki erindi inn í eina einustu verslun, ef frá eru taldir stórmarkaðir og blaðsölustaðir.
Fyrsta daginn rölti ég um nágrennið; reyndi að átta mig á því og kortleggja það. Að því kom að ég þreyttist á röltinu og hitanum. Hvergi var sæti að sjá nema við veitingastaði. Ég tyllti mér á tröppur fyrir utan DHL póstþjónustu. Lét sólina skína á andlit og handleggi. Hún býr til D-vítamín á húðinni. Það kemur af stað kalkupptöku sem þéttir bein og styrkir hár, húð og tennur.
Ég var varla fyrr sestur en að mér snaraðist lögreglumaður. Hann tilkynnti mér að stranglega væri bannað að sitja á gangstéttum. Ég benti honum á að ég sæti á tröppum en ekki gangstétt. Hann hélt því fram að tröppurnar væru skilgreindar sem hluti af gangstétt. Ég stóð upp og spurði hver væri ástæðan fyrir svona banni. "Af því að þetta eru lög," útskýrði laganna vörður ábúðafullur á svip.
Þetta olli mér vangaveltum. Helst dettur mér í hug að lögunum sé beint gegn betlurum, útigangsmönnum og rónum. Að minnsta kosti sáust engir slíkir þarna. Það er sérstakt í miðbæ stórborgar (hálf önnur milljón íbúa). Reyndar varð einn betlari á vegi mínum. Hann var fótalaus en á stöðugu vappi. Rölti um á höndunum.
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 20:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.7.2018 | 17:56
Áhrifaríkt sönglag um barnsmorð
Á sjötta áratugnum var 14 ára blökkudrengur laminn í klessu af tveimur fullorðnum hvítum karlmönnum. Svo var hann skutu þeir hann og drápu. Þetta gerðist í Mississippi. Forsagan er sú að 21. árs kærasta annars mannsins laug því að gamni sínu að strákurinn hefði daðrað við sig.
Morðið hafði enga eftirmála fyrir morðingjana.
Kynþáttahatur hefur löngum verið landlægt í Mississippi. Eins og í Alabama. Þessi tvö ríki liggja saman. Frá Alabama kemur ein þekktasta og merkasta söngkona og söngvaskáld Bandaríkjanna, Emmylou Harris. Kynþáttafordómar hafa alltaf verið eitur í hennar beinum.
2011 sendi hún frá sér plötuna "Hard Bargain". Á henni er að finna áhrifaríkt sönglag, "My name is Emmett Till". Þar syngur hún í orðastað myrta barnsins. Hún vill ekki að saga hans og nafn gleymist. Hugsanlega á lagið einhvern þátt í því að dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur opnað málið að nýju.
63 ára morðmál enduropnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.6.2018 | 23:54
Verstu lönd fyrir konur
548 sérfræðingar á snærum Thomson Reuters Foundation hafa tekið saman lista yfir verstu lönd heims fyrir konur að búa á. Ekki kemur á óvart að Indland sé allra landa verst. 2016 voru 40 þúsund nauðganir kærðar þar. Þrátt fyrir að lítið komi út úr kærunum. Kærðar nauðganir eru aðeins lítið brot af ástandinu. Hátt hlutfall nauðgana eru hópnauðganir. Hátt hlutfall nauðgana er gegn barnungum stelpum. Ennfremur er algengt að fórnarlömb séu myrt í kjölfar nauðgunar.
Verst er staða svokallaðra stéttlausra stelpna á Indlandi. Nánast er almennt viðhorf að þær séu réttlausar með öllu. Þær eiga á hættu að vera lamdar eða nauðgað á ný á lögreglustöð ef þær kæra nauðgun. Allra síst geta þær búist við að kæra leiði til refsingar.
Þetta eru 10 verstu lönd fyrir konur:
1. Indland
2. Afganistan
3. Sýrland
4. Sómalía
5. Sádi-Arabía
6. Pakistan
7. Kongó - Kinsasa
8. Jemen
9. Nígería
10. Bandaríkin
Eflaust er óverulegur stigsmunur á milli allra efstu löndunum. Sláandi er að af 193 löndum Sameinuðu þjóðanna sé Sádi-Arabía í flokki með 5 verstu löndum fyrir konur. Þökk sé Bretum sem beittu sér af hörku fyrir því að skipa Sáda yfir mannréttindaráð samtakanna.
Löggæsla | Breytt 29.6.2018 kl. 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
23.6.2018 | 10:34
Dularfullt hvarf Færeyinga
Tveir ungir Færeyingar hurfu á dularfullan hátt í Kaupmannahöfn á þriðjudaginn. Lögreglan hefur síðan leitað þeirra. Án árangurs.
Færeyingarnir áttu bókað flugfar til Færeyja. Þeir skiluðu sér hinsvegar ekki í innritun. Það síðasta sem vitað er um þá er að annar ræddi við vin sinn í síma nokkru fyrir flugtak. Hann sagði þá vera á leið út á Kastrup flugvöll.
Annar drengjanna ætlaði að flytja aftur til Færeyja. Hinn ætlaði aðeins að kíkja í heimsókn.
Frá því að hvarf þeirra uppgötvaðist hefur verið slökkt á símum þeirra. Jafnframt hafa þeir ekki farið inn á netið.
Uppfært kl. 15.50: Mennirnir eru fundnir. Þeir eru í Malmö í Svíþjóð. Málið er þó ennþá dularfullt. Af hverju mættu þeir ekki í innritun á Kastrup? Af hverju stungu þeir af til Malmö? Af hverju hefur verið slökkt á símum þeirra? Af hverju létu þeir ekki áhyggjufulla ættingja ekki vita af sér dögum saman?
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 15:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)