Færsluflokkur: Löggæsla
8.3.2014 | 21:30
Hlálegur misskilningur
Einu sinni sem oftar var ég með skrautskriftarnámskeið á Selfossi. Ferðin frá Reykjavík austur yfir Hellisheiði var óþægilega þung vegna hríðarbyls. Ég velti fyrir mér að fá mér hótelgistingu á Selfossi fremur en brjótast aftur til baka yfir heiðina um miðnætti. Ég deildi vangaveltunum með nemendunum. Af því spratt fjörleg umræða. Þar á meðal var sögð saga sem margir heimamenn könnuðust við. Höfðu heyrt (en kannski svokölluð flökkusaga). Hún var eitthvað á þessa leið:
Vegna þæfingsfærðar og ofankomu myndaðist umferðarhnútur á Hellisheiði. Sýslumaðurinn á Selfossi kom þar að. Hann var í gullbrydduðum herskrúða, með gullhnöppum og kaskeiti. Sem æðsti yfirmaður lögreglunnar í héraðinu tók hann umferðarstjórn þegar í stað í sínar hendur. Hann óð út á veg og hófst handa við að leysa umferðarhnútinn. Þá kom þar brunandi eldri ökumaður. Hann hringdi umsvifalaust í lögregluna og tilkynnti að maður í lúðrasveitabúningi væri að atast í umferðinni uppi á Hellisheiði. Allt væri komið í rugl og umferðarhnút.
Alltaf sama ruglið í löggunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt 10.3.2014 kl. 01:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
6.3.2014 | 22:01
Ökuníðingur á göngugötu
Það varð uppi fótur og fit þegar bláum fólksbíl var ekið glannalega eftir göngugötunni Strikinu í Kaupmannahöfn. Göngugatan er jafnan troðfull af gangandi vegfarendum kvölds og morgna og um miðjan dag. Það var kraftaverki næst að enginn lenti alvarlega fyrir bílnum. Bíllinn rakst þó utan í einhverja án eiginlegra slysa. Til bjargar varð að vegfarendur flúðu á harðaspretti æpandi í allar áttir og vöruðu þannig aðra vegfarendur við. Þeir forðuðu sér með því að skutla sér eins og til sunds úr vegi frá bílnum sem var á töluverðri ferð.
Einhverjir hringdu á lögregluna. Hún var fljót að finna ökuníðinginn. Bíllinn var nefnilega kyrfilega merktur skemmtistaðnum Skarv í Kaupmannahöfn. Sá skemmtistaður er einskonar færeyskt félagsheimili, rekið af Færeyingum, sótt af Færeyingum og býður iðulega upp á "lifandi" færeyska tónlist. Grænlendingar sækja einnig staðinn í nokkrum mæli. Lögreglan gómaði ökuníðinginn þegar hann var um það bil að renna í hlað við Skarv. Það fylgir sögunni að frá bílnum hafi tónlist U2 hljómað "á fullu blasti".
Samkvæmt Föroyjaportalinum undrast bílstjórinn lætin í dönsku lögreglunni út af þessu. Honum þykir "skide danskurinn" hafa farið offari án tilefnis. GPS staðsetningatæki bílsins vísaði honum inn á göngugötuna. Þaulvanur því að aka vandræðalaust eftir göngugötunni í Þórshöfn í Færeyjum til að komast í Café Natur þótti honum ekkert athugavert við að bruna eftir göngugötu í Kaupmannahöfn. "Ég get ekki gert að því hvaða leið GPS tækið valdi þegar ég keyrði eftir Strikinu til að komast í Skarv," segir ökumaðurinn.
Ljósmyndin er samsett.
-------------------------
Tvö færeysk lög krauma nú undir vinsældalista Rásar 2. Það eru Far Away með Eivöru og Freaks með Lailu av Reini. Flott lög og full ástæða til að styðja þau til frama á vinsældalista Rásar 2: http://www.ruv.is/topp30
l
Löggæsla | Breytt 7.3.2014 kl. 20:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.3.2014 | 22:13
Rússar þenja brjóst og sperra stél
Það er eins og Rússar verði sperrtari með hverjum deginum sem líður. Pútín og hans lið kemst upp með allt. Sama hvort er að bjarga sýrlenskum stjórnvöldum undan innrásarhótunum Obama eða bjarga Snowden undan Obama. Eða dæma gagnrýnendur Pútíns í þrælkunarbúðir. Eða halda Olympíu-leika og láta rússneska herinn umkringja úkraínskar herstöðvar og afvopna þær.
Rembingurinn í Rússum og og sjálfsupphafning þeirra er farin að taka á sig ýmsar myndir. Þar á meðal eru þeir farnir framleiða fólksbíla í rembingslegri yfirstærð.
Til að taka af allan vafa þá hefur ekkert verið átt við þessar ljósmyndir. Bíllinn er þetta stór.
Hinsvegar birtist sperringur Rússa líka í samsettum brúðkaupsmyndum. Hér þykist brúðguminn jafnhatta fólksbíl með brúðurina innanborðs:
Líka frekar undarlega samsett mynd af brúðhjónum sem eru sett inn sem dekk undir bíl:
Sumir Rússar monta sig af dráttarvélinni sinni. Í rússneskum sveitum er dráttarvélin stöðutákn. Metingurinn gengur út á að hafa stór dekk undir vélinni og góðan heyvagn aftan í henni. Takið eftir að við hlið annars framhjólsins er öðru og stærra dekki stillt upp til að dráttarvélin sýnist vera vörpulegri. Jafnframt er myndin tekin frá sjónarhóli þar sem þak á nálægu húsi virðist vera þak á heyvagninum og húsi traktorsins.
Þetta er stríðsyfirlýsing | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt 3.3.2014 kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
1.3.2014 | 00:14
Lærum af dæminu með Hildi
Nú er lag að læra af dæminu um Hildi Lillendahl. Láta eitthvað gott koma út úr því dapurlega dæmi. Skerum upp herör gegn dulnefnum. Þau bjóða ekki upp á annað en óábyrgar yfirlýsingar, hótanir, heitingar og óábyrga umræðu. Gerum þá kröfu til netmiðla að notendur skrifi undir fullu nafni. Þannig er notendum gert að standa við orð sín án þess að felast á bakvið dulnefni.
Netmiðlar þurfa að taka ábyrgð á því sem fær að standa í umræðudálkum þeirra. Ég er ekki að kalla eftir neinni ríkisrekinni netlöggu. Netmiðlarnir sjálfir verða að sýna ábyrgð með því að eyða "kommentum" sem fela í sér hótanir um nauðganir, dráp og annað ofbeldi.
Þeir sem verða fyrir netníði þurfa að bregðast snöggt við og kæra umsvifalaust allar hótanir og annað níð. Ekki bíða eftir því að þetta líði hjá og fyrnist á tveimur árum. Dómstólar þurfa að taka á netníði af festu. Líðum ekki netníð. Við eigum alveg að ráða við það að ræða ágreiningsmál án hatursumræðu. Erum við ekki nógu félagslega þroskuð til þess? Öll dýrin í netheimum eiga að vera vinir.
Vildi drepa Svein Andra með hamri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 00:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
22.2.2014 | 22:37
Lulla frænka og stöðumælar
Lulla frænka tók lítið mark á umferðarreglum. Fyrir bragðið var hún stundum án ökuréttinda. Það breytti engu hjá henni. Hún keyrði eftir sem áður. Frændi minn var lögregluþjónn til skamms tíma. Á Lögreglustöðinni við Hverfisgötu fann hann heila möppu smekkfulla af umferðarsektum af öllu tagi á Lullu. Allar ógreiddar.
Þetta var löngu fyrir daga tölvunnar. Sektir voru handskrifaðar og innheimta í molum. Umferðalagabrot voru ekki neitt meiriháttar mál. Áreiðanlega var eitthvað umburðarlyndi gagnvart því að Lulla var andlega vanheil og eignalaus að frátalinni bíldruslunni, dældaðri á öllum hliðum.
Þegar Lullu var bent á að varasamt væri að keyra án ökuréttinda svaraði hún: "Það getur enginn ætlast til þess að ég labbi út í búð, eins slæm og ég er til fótanna. Ég þarf auðvitað að kaupa sígarettur eins og allir aðrir."
Og: "Það skilja nú allir að ég þurfi að keyra niður í SÍBS til að endurnýja happdrættismiðann minn. Ekki endurnýjar miðinn sig sjálfur."
Lulla bjó í Reykjavík alveg frá unglingsárum. Hún þekkti Reykjavík eins og lófann á sér. Samt fór hún iðulega einkennilegar leiðir án nokkurra vandræða að komast á réttan stað. Um tíma bjó ég á Kleppsvegi við hliðina á Laugárásbíói. Lulla kom í heimsókn síðdegis á sunnudegi. Um kvöldmatarleytið hugði hún að heimferð. Okkur hjónakornum datt í hug að skreppa í Gamla bíó og fá að sitja í hjá Lullu þangað (hún var með ökuréttindi þann daginn). Lulla bjó á Skúlagötu, skammt frá bíóinu. Leiðin frá Kleppsvegi meðfram sjónum og niður á Skúlagötu var einföld, þægileg og fljótfarin.
Lulla fór ekki þá leið. Hún brunaði austur að Elliðaám. Í undrun minni sagði ég að Gamla bíó væri á Hverfisgötu. Lulla svaraði: "Heldurðu að ég viti ekki hvar Gamla bíó er? Ég veit hvar allir staðir eru í Reykjavík. Þess vegna get ég alltaf ekið stystu leið hvert sem er. Ég keyri aldrei krókaleiðir."
Síðan brunaði hún vestur að Tjörninni, ók Lækjargötuna og skilaði okkur af sér við hornið á Gamla bíói. Þessi leið var að minnsta kosti tvöfalt lengri en hefði hún ekið vestur Kleppsveginn.
Bróðir minn var unglingur og farþegi í bíl hjá Lullu niður Skólavörðustíg. Eins og ekkert væri sjálfsagðra þá ók hún eftir gangstéttinni. Komst reyndar ekki langt því að stöðumælar voru fyrir. Lulla ók tvo niður. Það var ekki þrautalaust. Þeir voru vel skorðaðir í gangstéttina og bíll Lullu í hægagangi. Lögregluþjónn kom aðvífandi og skrifaði skýrslu á staðnum. Lulla hellti sér yfir hann með skömmum og formælingum. "Hvað á það eiginlega að þýða að planta stöðumælum niður þvert fyrir umferðina? Þetta eru stórhættulegir stöðumælar? Þú skalt ekki láta hvarfla að þér að ég fari ekki lengra með þetta!"
Til að byrja með reyndi lögreglumaðurinn að benda Lullu á að gangstéttin væri fyrir gangandi vegfarendur en ekki bíla. Það var eins og að skvetta vatni á gæs. Lulla herti á reiðilestrinum. Lögreglumaðurinn lenti í vörn, muldraði eitthvað, flýtti sér að ljúka skýrslugerð og forðaði sér. Lulla kallaði á eftir honum að hann ætti að skammast sín og allt hans hyski.
Lullu tókst að bakka bílnum af stöðumælinum, komast út á götuna og halda áfram för niður Skólavörðustíginn. En hún var hvergi hætt að hneykslast á þessum fíflagangi að setja stöðumæla þar sem fólk þurfi að keyra.
-----------------------------------------
Fleiri sögur af Lullu frænku: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1353811/
Löggæsla | Breytt 23.2.2014 kl. 18:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2014 | 21:52
Ævintýralegar breytingar á þyrlum Landhelgisgæslunnar
Það hefur lengi háð Landhelgisgæslunni að þyrlur hennar líta út eins og aðrar þyrlum. Fyrir vikið tekur enginn eftir þeim né ber tilhlýðilega virðingu fyrir þeim. Fólki finnst þær vera bara eins og hverjar aðrar þyrlur. Það er brýnt verkefni að ráða bót á þessu. Þegar hefur ein þyrlan verið sent til Noregs í tilraunaskyni. Norðmenn eru snillingar þegar kemur að því að breyta þyrlu úr því að vera venjuleg í það að stinga í stúf.
Ef Norðmönnum tekst vel upp með að breyta þessari þyrlu verður þeim einnig sigað á aðrar þyrlur. Verið er að skoða nokkra möguleika.
Einn möguleikinn er að líma mynd af jólasveini á þyrluhurðina og skreyta þyrluna með myndum af kartöflum. Það er glaðvær stemmning í því.
Sumir hallast að heimilislegri útfærslu. Aðrir eru hrifnastir af timbruðu útgáfunni. Ódýrast er að breyta engu í útliti þyrlanna öðru en því að hnýta á þær litríkar slaufur. Það er snyrtilegt. Starfsmenn þyrlanna verða einnig að skera sig frá almúganum. Þeir fá húfur.
Þyrlurnar verða mjög áberandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.1.2014 | 22:11
Kvikmyndarumsögn
- Titill: 12 Years a Slave
- Leikstjóri: Steve McQueen
- Leikarar: Brad Pitt, Michael Fassbinder og fleiri
- Einkunn: **** (af 5)
Bandaríska kvikmyndin 12 Years a Slave er byggð á raunverulegum atburðum. Handritið er ævisaga blökkumanns, Solomons Northups. Hann var fiðluleikari í New York um miðja nítjándu öld. Honum vegnaði vel og var hamingjusamur tveggja barna faðir. Svo dundi ógæfan yfir. Honum var rænt af tveimur mönnum og seldur í þrældóm til Suðurríkjanna. Það var algengt á þeim tíma. Og refsilaust. Líka þó að þannig mál væru rekin fyrir dómsstólum í Norðurríkjunum þar sem þrælahald var bannað.
Sagnfræðingar sem taldir eru þeir fróðustu um þrælahald í Suðurríkjunum votta að engin kvikmynd hafi áður dregið upp jafn raunsanna mynd af þrælahaldinu. Það er ekki ástæða til að efast um það. Þetta er, jú, frásögn manns sem upplifði hryllinginn á eigin skinni - í bókstaflegri merkingu.
Bent hefur verið á að kvikmyndin sé framleidd fyrir hvíta áhorfendur. Það er ekki ókostur út af fyrir sig. Myndin er áhrifarík og situr eftir í huga áhorfandans. Ég tel mig hafa haft þokkalega þekkingu á þrælahaldinu í Suðurríkjunum. Fyrir bragðið kemur ekkert á óvart. Samt er sláandi að sitja undir því hversu óhugnanlegt og ofbeldisfullt þrælahaldið var. Líka hversu ógeðfelld viðhorf þrælahaldara voru. Jafnvel þeirra sem teljast voru - innan gæsalappa vel að merkja - "góðir" í samanburði við illgjörnu hrottana og sadistana.
Ég hvet til þess að þið farið í bíó og sjáið 12 Years a Slave. Það er ekki langt síðan þrælahald í Suðurríkjunum var upprætt. Innan við hálf önnur öld. Svona var þetta á tímum afa okkar og ömmu (eða foreldra þeirra). Enn í dag er fjöldi manns í Suðurríkjunum sem saknar þrælahalds. Enn er fjöldi manns sem heldur því fram í "kommentakerfum" bandarískra netmiðla að þrælar hafi haft það betra en hörundsdökkir útigangsmenn í Bandaríkjunum í dag. Þrælarnir hafi þó haft húsaskjól og verið í fæði. Þeir sem hampa þessari kenningu þurfa að sjá 12 Years a Slave.
Myndin er ekki gallalaus. Hún er of löng (næstum 2 og hálfur tími með hlé). Sumar senur eru langdregnar og hægar. Kannski með vilja gert til að laða fram tilfinningu fyrir því að 12 ár í þrældómi er langur tími. Einnig koma fyrir senur sem gera ekkert fyrir myndina. Hugsanlega skipta þær máli í bók mannsins sem segir söguna. Dæmi: Þrælar ganga fram á hóp Indíána. Í næstu senu eru Indíánarnir að spila á hljóðfæri og syngja. Svo eru þeir úr sögunni.
Fleira slíkt mætti tína til. Eftir stendur: Farðu í bíó. Kíktu á þessa mynd. Kynningarmyndbönd gera ekkert fyrir hana.
Önnur nýleg kvikmyndarumsögn: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1346507/
Allt annað: Þessi dama segist vera svo dugleg í líkamsræktinni að hún sé ekki með appelsínuhúð:
Löggæsla | Breytt 19.1.2014 kl. 12:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.1.2014 | 17:32
Embættismenn skemmta sér og skrattanum
Íslenskum embættismönnum þykir fátt skemmtilegra en setja reglur. Ekki síst embættismönnum ÁTVR. Þeir skríkja í kæti þegar þeim tekst að banna hitt og þetta. Eitt sinn bönnuðu þeir sölu á cider-drykk. Forsendan var sú að dósin var og er skreytt smáu blómamynstri. Innan um blómin mátti - með aðstoð stækkunarglers - koma auga á teikningu af nöktum fótlegg.
- Viðurstyggð! Stórskaðlegt og gróft klám, hrópuðu embættismenn ÁTVR.
Heildsali cider-drykksins áfríaði ákvörðun ÁTVR til dómsstóls. Þar voru embættismenn ÁTVR rassskelltir. Klám fannst ekki á umbúðunum. ÁTVR var skikkuð til að taka cider-drykkinn í sölu. Síðan hefur hann selst vel - án þess að leiða til ótímabærs kynsvalls og óhóflegrar fjölgunar kynlífsfíkla.
Í annað skipti komu embættismenn auga á smátt letur á bjórnum Black Death. Þar stóð: Drink in Peace.
- Grófur áróður fyrir neyslu áfengs drykkjar og getur leitt til ölvunar, hrópuðu embættismenn ÁTVR.
Í enn eitt skiptið bönnuðu embættismenn ÁTVR bjórinn Motorhead.
- Þeir sem drekka Motorhead eru í mikilli hættu á að byrja umsvifalaust að hlusta á enska hljómsveit með sama nafni. Þá er stutt í heróínneyslu og krakkreykingar.
Þetta var sameiginleg niðurstaða embættismanna ÁTVR.
Fyrir örfáum árum bönnuðu embættismenn ÁTVR íslenskan páskabjór.
- Það er teikning af svipljótum hænuunga á dósinni. Veruleg hætta á að börn hamstri þennan bjór, var útskýring embættismanna ÁTVR.
Nú er bjórframleiðendum gert að farga öllum jólabjór. Jólin eru búin.
Af hverju samt að farga hollum og neysluvænum drykkjum þó að jólin séu að baki?
- Þetta eru reglur. Við verðum einfaldlega að framfylgja reglum, segja embættismenn ÁTVR.
Hver setti þessar reglur?
- Við, er svar þessara sömu embættismanna.
Farga óseldum jólabjór | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
6.1.2014 | 00:06
Vasaþjófar og fjör í Barselona
Ég fagnaði sólrisu, sólstöðuhátíðinni og áramótum með því að taka snúning á London, Barselona og Kaupmannahöfn. Þetta var fyrsta heimsókn mín til Spánar. Þess vegna staldraði ég lengst við þar.
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.12.2013 | 22:23
Og HJARTA ÁRSINS er...
Sæunn Guðmundsdóttir! Það er niðurstaða áhorfenda og dómnefndar sjónvarpsstöðvarinnar flottu, N4. Þetta fólk hefur ekki rangt fyrir sér. Ég votta það.
Það var skemmtilegt uppátæki hjá N4 og Miðbæjarsamtökum Akureyrar að efna til leitar að hjartahlýjustu manneskjunni. Sæunn er alltaf á fullu í því að hjálpa öllum og gleðja aðra.
Hún kann ekkert á peninga. Þegar hún kemur auga á bók eða plötu í búð þá er hennar fyrsta hugsun hvern bókin eða platan geti glatt. Það hvarflar ekki að henni hvort að hún hafi efni á kaupa enn eina gjöfina til að gleðja. Hún hefur ekkert efni á því. En löngun til að gleðja aðra víkur fyrir öllu.
Þrátt fyrir ýmsa erfiðleika þá slær hún aldrei af við að sprella og grínast. Gefur frekar í en hitt við hverja raun. Hún og fjölskylda hennar hafa fengið stærri skammt af veikindum en hollt telst. Maður hennar er að glíma við eftirstöðvar heilablóðfalls. Er í endurhæfingu. Sjálf hefur Sæunn strítt við heilsuleysi af ýmsu tagi alveg frá barnsaldri og er móðir 2ja langveikra barna. Samtals eru börn hennar fjögur. Ég kann ekki upptalningu á veikindum Sæunnar. Hún er áhugasamari að tala um flest annað en nýrnabilun, vefjagigt og hvað þetta heitir.
Sæunn er ein af stofnendum Aflsins, systursamtaka Stígamóta á Norðurlandi. Hún er ennþá að vinna allan sólarhring fyrir Aflið.
Svo skemmtilega vill til að sama dag og Sæunn var útnefnd Hjarta ársins þá varð hún amma í annað sinn. Á myndinni hér fyrir ofan er hún með hinu ömmugullinu. Sæunn er til hægri á myndinni.
Til hamingju með daginn, kæra systir!
Löggæsla | Breytt 6.1.2014 kl. 01:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)