Færsluflokkur: Löggæsla
3.3.2017 | 11:10
Kona stal í búð
Sá fáheyrði atburður átti sér stað í Þórshöfn, höfuðborg Færeyja, í fyrradag að kona stal í búð. Þetta gerðist í sjoppu í miðbænum. Afgreiðslumaður í búðinni sá út undan sér hvar konan tróð einhverju ofan í buxur sínar. Síðan hvarf hún á braut eins og ekkert hefði í skorist. Kvaddi ekki einu sinni.
Afgreiðslumanninum var eðlilega illa brugðið. Hann hringdi umsvifalaust í lögregluna og sagði tíðindin. Í þessu 19 þúsund manna sveitarfélagi þekkja allflestir alla. Kannski ekki endilega persónulega alla. En vita deili á nánast öllum. Líka lögregluþjónar. Þeir eru meira að segja með símanúmer fingralöngu konunnar.
Næsta skref er að öðru hvoru megin við helgina ætla þeir að hringja í konuna. Ætla að freista þess að semja við hana um að skila þýfinu. Ef hún fellst á það fæst góð lending í málið. Þangað til harðneitar lögreglan að upplýsa fjölmiðla um það hverju konan stal.
Elstu Færeyingar muna ekki til þess að þarlend kona hafi áður stolið úr búð. Hinsvegar eru dæmi þess að Íslendingar hafi stolið úr búðum og bílum í Færeyjum.
Meðfylgjandi myndband er ekki frá Færeyjum.
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
23.2.2017 | 11:32
Hnuplað með húð og hári
1965 sungu Ellý Vilhjálms og Ragnar Bjarnason - við fjörlegan undirleik hljómsveitar Svavars Gests - fjölmörg lög í hljóðveri Ríkisútvarpsins á Skúlagötu. Þau komu út á þremur fjögurra laga plötum, svokölluðum Ep. Öll nutu mikilla vinsælda í óskalagaþáttum útvarpsins til margra ára.
Eitt þessara laga heitir "Sveitin milli sanda". Höfundur er Magnús Blöndal Jóhannsson. Testinn er nettur og auðlærður. Hann er nokkur "Aaaaaa".
Næst bar til tíðinda að ég hlustaði á þýska listamenn syngja og leika. Hraut þar um lag sem kallast "Die Liebe ist ein Raubtier" með Nik Page. Það hljómar kunnuglegt við fyrstu hlustun. Gott ef þarna hefur ekki verið hnuplað í heilu lagi "Sveitinni milli sanda". Ætli STEF viti af þessu?
Löggæsla | Breytt 29.11.2017 kl. 17:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
21.2.2017 | 10:26
Fann mannabein í fötu
Danskri konu að nafni Dorte Maria Kræmmer Möller mætti undarleg sjón um helgina. Eins og oft áður átti hún erindi í Assistens kirkjugarðinn í Kaupmannahöfn. Þangað hefur hún farið reglulega til fjölda ára. Í þetta skipti kom hún auga á stóra og ljóta málningarfötu í einu horni garðsins. Hana hafði hún aldrei áður séð í garðinum. Forvitni rak hana í að kanna málið betur. Er hún leit ofan í fötuna blöstu við nýleg mannabein og mannakjöt. Ekki fylgir sögunni hvernig hún þekkti hvað þetta var.
Hún tók ljósmynd af fötu og innhaldi. Fjölmiðlar höfðu samband við þann sem hefur yfirumsjón með garðinum. Viðbrögð voru kæruleysisleg. Skýringin væri sennilega sú að starfsmaður hafi grafið þetta upp fyrir rælni og gleymt fötunni. Vandamálið sé ekki stærra en svo að innihaldið verði grafið á ný. Málið úr sögunni.
Lögreglan er ekki á sama máli. Hún hefur lagt hald á fötu og innihald. Málið er í rannsókn.
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 17:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.2.2017 | 13:38
Rekinn og bannaður til lífstíðar
Um tíma leit út fyrir að heimurinn væri að skreppa saman. Að landamæri væru að opnast eða jafnvel hverfa. Að jarðarbúar væru að færast í átt að því að verða ein stór fjölskylda. Járntjaldið hvarf. Berlínarmúrinn hvarf. Landamærastöðvar hurfu eins og dögg fyrir sólu. Tollmúrar hurfu. Líka vörugjöld. Talað var um frjálst flæði fólks. Frjálst flæði vinnuafls. Frjálst fæði. Frjálsan markað.
Þetta gat ekki gengið svona til lengdar. Allt að fara í rugl. Tvö skref áfram og eitt afturábak. Fasískir taktar njóta nú vinsælda víða um heim. Til að mynda í Tyrklandi. Þökk sé ljúfmenninu Erdogan.
Færeyskur prestur hefur búið og starfað í Tyrklandi í fjögur ár. Kirkjan hans hefur vinsamleg samskipti við Kúrda og og sýrlenska flóttamenn. Hugsanlega er það ástæðan fyrir því að tyrkneska lögreglan sótti hann til yfirheyrslu. Hann var yfirheyrður í marga klukkutíma. Forvitnir lögreglumenn vildu vita nöfn þeirra sem hann hefur hitt í Tyrklandi, hverja hann þekkir og umgengst. Eins og gengur. Í spjallinu kom reyndar fram að þeir vissu þetta allt saman. Þá langaði aðeins að heyra hann sjálfan segja frá því.
Að spjalli loknu var honum gerð grein fyrir því að hann væri rekinn. Rekinn frá Tyrklandi. Ekki nóg með það. Hann er gerður brottrækur til lífstíðar. Hann má aldrei aftur koma þangað. Honum var umsvifalaust varpað upp í næstu flugvél. Hún flaug með hann til Danmerkur. Það var hálf kjánalegt. Hann á ekki heima í Danmörku. Hann þurfti sjálfur að koma sér á heimaslóðir í Færeyjum. Nánar tiltekið í Hvannasund.
Vísað úr landi eftir 22 ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt 11.11.2017 kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.2.2017 | 10:38
Breyttar kröfur í lögreglunni
Ekki veit ég hvaða hæfniskröfur eru gerðar til okkar ágætu íslenskra lögregluþjóna. Ég ætla að óreyndu að þær séu töluverðar. Gott ef flestir þeirra þurfi ekki að hafa farið í gegnum strangt nám í Lögregluskólanum; ásamt því að vera í góðu líkamlegu formi. Kannski líka góðu andlegu formi.
Í Bretlandi hefur lengst af verið gerð sú krafa til lögregluþjóna að þeir kunni að lesa og skrifa. Nú hefur þessari kröfu verið aflétt að hluta í London. Í dag dugir að þeir þekki einhvern sem kann að lesa og skrifa.
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.1.2017 | 11:34
Flækjustigið kryddar tilveruna
Embættismönnum er ekki alltaf lagið að hanna einfalt og skilvirkt kerfi. Þvert á móti. Algengara er að hlutirnir stangist á við hvern annan. Allt lendi í pattstöðu.
Á síðustu öld seldu vinahjón mín bílinn sinn. Þau voru að flytja til útlanda. Allt gekk vel. Flutningurinn gekk eins og í sögu. Þá kom babb í bátinn. Kaupandanum tókst ekki að umskrá bílinn. Ástæðan var sú að bíllinn var upphaflega skráður í gegnum Tryggingastofnun. Konan er öryrki og fékk einhverja tolla eða gjöld felld niður við kaupin. Til að bíllinn yrði skráður á nýja kaupandann þurfti að ganga frá málum við Tryggingastofnun.
Haft var samband við Tryggingastofnun. Þá vandaðist málið. Þar fengust þær upplýsingar að fyrst þyrfti að umskrá bílinn.
Fyrir daga internets fóru samskipti fram í gegnum sendibréf á pósthúsi. Bréfin gengu fram og til baka. Lengi vel gaf hvorug stofnunin sig. Eftir ótal bréfaskipti í marga mánuði náðist lending. Í millitíðinni olli pattstaðan fjárhagslegum erfiðleikum. Það var þó aukaatriði.
Eftir innkomu internets er ekkert lát á flækjustigi. Færeyska lögregluembættið (sem heyrir undir Danmörku) auglýsti að Færeyingum væri skylt að skrá skotvopn sín fyrir tiltekinn dag. Samviskusamur hálf áttræður byssueigandi á Austurey brá við skjótt. Hann brunaði á lögreglustöðina í Rúnavík. En, nei. Þar var honum tjáð að skráningin væri hjá Umhverfisstofu í Þórshöfn á Straumey. Ekkert mál. En, nei. Þegar á reyndi þá var Umhverfisstofan ekki komin með pappíra til að fylla út. Hinsvegar var maðurinn upplýstur um það að hann þyrfti að fara aftur á lögreglustöðina í Rúnavík. Í þetta skipti til að fá sakavottorð. Það er alltaf gaman að eiga erindi til Rúnavíkur. Þar er vínbúð Austureyjar.
Þegar pappírar voru komnir í Umhverfisstofu brá kauði undir sig betri fætinum og brunaði til höfuðborgarinnar. Töluverðan tíma tók að fylla út í alla reiti. Að því loknu kvaddi hann starfsfólkið með handabandi. Við það tækifæri fékk hann að heyra að skýrslugerðin kostaði 4000 kall (ísl).
Svo heppilega vildi til að hann var með upphæðina í vasanum. En, nei. Umhverfisstofa tekur ekki við reiðufé. Allt í góðu. Hann dró upp kort. En, nei. Það má bara borga í Eik-banka. Hann skottaðist niður í miðbæ. Eftir töluverða leit fann hann Eik. Bar upp erindið og veifaði 4000 kallinum. En, nei. Hann mátti einungis millifæra af bók. Þá kom upp ný staða. Hann á ekki í viðskiptum við Eik og á enga bók þar. Þá var minnsta mál að opna bók og leggja peninginn inn til að hægt væri að millifæra. En, nei. Það væri svindl. Eik tekur ekki þátt í svoleiðis. Eina rétta leiðin fyrir hann væri að millifæra úr sínum rótgróna viðskiptabanka yfir til Eikar.
Ekki var um annað að ræða en fara langa leið upp í nýja Nordik-bankann í Þórshöfn. Þar var millifært yfir í Eik. Að því loknu snéri hann aftur í Eik. Þar sótti hann kvittun. Með hana fór hann glaður og reifur í Umhverfisstofu. Gegn henni fékk hann vottorð um að hann væri búinn að skrá byssuna sína. Allir urðu glaðir því að allir fóru eftir settum reglum. Þetta tók ekki nema tvo vinnudaga.
Löggæsla | Breytt 9.10.2017 kl. 15:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2017 | 16:53
Mergjaðar myndir. Hvernig gat þetta gerst?
Rauði bíllinn vakti óhemju mikla athygli. Ekki vegna skærrauða litarins heldur vegna slagbrands sem stendur út úr miðri framrúðu. Bílstjórinn hafði ekkert tekið eftir því sjálfur. Enda liturinn í smekklegum stíl við ökutækið. Hann hefur ekki hugmynd um hvernig slagbrandurinn endaði þarna.
Skógarvörðurinn var í sinni reglubundnu daglegu eftirlitsferð um skóginn. Þá rakst hann á bíl uppi í einu trénu. Engin ummerki fundust um það hvernig bíllinn komst þangað. Né heldur hver á gripinn. Helst dettur mönnum í hug að bíllinn hafi fallið úr vöruflutningaflugvél.
Mánudagur leggst illa í suma.
Góðir feður sleppa ekki sunnudagsrúnti fjölskyldunnar þó að bíllinn sé með smá dæld aftast á þakinu.
Þegar skortur er á bílastæðum leggja útsjónasamir bíl sínum á ótrúlegustu stöðum.
Löggæsla | Breytt 13.1.2017 kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.1.2017 | 21:28
Vandræðaleg staða
Gallinn við marga fanga er að þeir hafa ekki sómakennd. Fyrir bragðið eru þeir kallaðir harðsvíraðir. Það er enginn sómi að því. Víða erlendis klæðast fangar sérstökum fangaklæðnaði. Því fylgja margir kostir. Það dregur úr stéttaskiptingu innan fangahópsins. Banksterinn er í samskonar búningi og samlokuþjófur. Fangabúningurinn dregur úr möguleikum fangans að flýja úr fangelsinu. Jafnframt dregur það úr möguleikum strokufanga að leynast á meðal almennings. Almenningur ber þegar í stað kennsl á að strokufangi sé á ferð og framkvæmir snöfurlega borgaralega handtöku.
Hérlendis fá fangar að sperra sig í sínum fínustu fötum. Það er óheppilegt. Sést best í Fangavaktinni þar sem Georg Bjarnfreðarson er snöggur að koma sér upp samskonar klæðnaði og fangaverðir.
Í Bretlandi eru fangar í samræmdum fangaklæðum. Vandamálið er að þau eru í stöðluðum stærðum. Þær hafa ekkert breyst í áratuganna rás. Öfugt við holdafar Breta. Breskir glæpamenn hafa stækkað á þverveginn jafnt og þétt það sem af er þessari öld. Sér þar hvergi fyrir enda á.
Óánægður fangi í góðri yfirvigt lýsir því sem refsiauka að þurfa að vera í of litlum fangafötum. Einkum er lítill sómi að þegar fötin koma úr þvotti. Þá eru þau þrengri en eftir nokkurra vikna notkun. Buxur komast rétt upp á miðjar rasskinnar. Þær eru svo þröngar að göngulag verður eins og hjá stirðbusalegasta spýtukalli.
Ennþá verra er að skyrtan nær ekki yfir útstandandi ístruna. Hún nær með herkjum að hylja efri hluta búksins niður að maga. Hann stendur nakinn eins og risabolti út í loftið.
Að sögn fangans er þetta svo niðurlægjandi að menn í hans stöðu bjóða sér ekki upp á að taka á móti gestum í heimsóknartíma á meðan fötin eru þrengst. Nóg er að þurfa að þola háðsglósur annarra fanga. Jafnvel siðblindustu glæpamenn hafa sómakennd þegar snýr að fatnaði. Þeir vilja meina að þarna séu mannréttindi þeirra fótum troðin. Það er ekki til sóma.
Hvar var sómakennd ykkar? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.12.2016 | 18:48
Hneyksli ársins
Á dögunum fór allt á hliðina í Færeyjum. Samfélagsmiðlarnir loguðu: Fésbók, bloggsíður og athugasemdakerfi netmiðla fylltust af fordæmingum og undrun á ósvífni sem á sér enga hliðstæðu í Færeyjum. Umfjöllun um hneykslið var forsíðufrétt, uppsláttur í eina dagblaði Færeyja, Sósíalnum. Opnugrein gerði hneykslinu skil í vandaðri fréttaskýringu.
Grandvar maður sem má ekki vamm sitt vita, Gunnar Hjelm, lagði í stæði fyrir fatlaða. Hann er ófatlaður. Hann vinnur á sjúkraflutningabíl og hefur hreina sakaskrá.
Hann brá sér í bíó. Að því loknu lagði hann bíl í svartamyrkri og snjóföl í bílastæði. Hann varð þess ekki var að á malbikinu var stæðið merkt fötluðum. Ljósmynd af bíl hans í stæðinu komst í umferð á samfélagsmiðlum. Þetta var nýtt og óvænt. Annað eins brot hefur aldrei áður komið upp í Færeyjum. Viðbrögðin voru eftir því. Svona gera Færeyingar ekki. Aldrei. Og mega aldrei gera.
Gunnari Hjelm var eðlilega illa brugðið. Fyrir það fyrsta að uppgötva að stæðið væri ætlað fötluðum. Í öðru lagi vegna heiftarlegra viðbragða almennings. Hann var hrakyrtur, borinn út, hæddur og smánaður. Hann er eðlilega miður sín. Sem og allir hans ættingjar og vinir. Skömmin nær yfir stórfjölskylduna til fjórða ættliðar.
Svona óskammfeilinn glæpur verður ekki aftur framinn í Færeyjum næstu ár. Svo mikið er víst.
Löggæsla | Breytt 10.12.2016 kl. 03:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2016 | 08:41
Að tala skýrt með tungum tveim
Löngum hefur háð Íslendingum að tala óskýrt um hlutina. Reglugerðir og lög eru loðin og óljós. Fróðasta fólk er í vandræðum með að átta sig á þeim. Fyrir bragðið einkennast samskipti af ágreiningi.
Nýjasta dæmið er bankabrask hæstaréttardómara. Þeir dæmdu á færibandi bankanum í vil í hverju málinu á fætur öðru. Bankanum sem þeir áttu sjálfir hlut í. Sumir telja að þarna hafi verið um grófa hagsmunaárekstra að ræða. Hæstaréttardómarar eru því ósammála. Þvert á móti. Þetta auðveldaði þeim í stöðunni. Þeir sáu málið frá báðum hliðum á meðan þeir sátu beggja vegna borðsins.
Þessu er öfugt farið í sjávarútvegi á Austurland. Þar tala menn skýrt. Þegar útgerðarmaður segir við hafnarvörð: "Drullaðu þér í burtu!" þá fer ekkert á milli mála hvað það þýðir. Hann vill að hafnarvörðurinn fari eitthvað annað. Þegar hann síðan fylgir málinu eftir með því að dúndra bumbunni í hafnarvörðinn er það ítrekun á fyrirmælunum.
Léttvægur ágreiningur vitna er um það hvort að upp úr útgerðarmanninum hrökk um leið: "Ég drep þig, ég drep þig!" Eða hvort að hann sagði aðeins einu sinni: "Ég drep þig!" - ef hann sagði það á annað borð. Hvort heldur sem er þá hefur hafnarvörðurinn sofið á bak við harðlæstar eftir þetta. Til öryggis.
Það var auðvelt fyrir héraðsdómara að komast að niðurstöðu í málinu. Þrátt fyrir að menn greini á um það hvort að hafnarverðinum hafi stafað ógn af framkomu útgerðarmannsins eða mikil ógn. Til refslækkunnar var metið að hann bað hafnarvörðinn afsökunar síðar sama dag. Hæfileg refsing er mánaðardvöl í fangelsi sem kemur ekki til fullnustu ef kauði heldur sig á mottunni í tvö ár. Ef hann hefði ekki beðist afsökunar fyrr en daginn eftir er ljóst að dómur væri þyngri.
Dæmdur fyrir að hóta hafnarverði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 17:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)