Færsluflokkur: Kjaramál
21.11.2012 | 21:35
Kaldar kveðjur til brottrekinna
Neinn er merkilegt fyrirtæki. Stundum tapar það peningum án þess að kippa sér upp við það. Það á vini á góðum stöðum sem afskrifa skuldir þegar svo ber undir. Þannig að þetta er ekkert mál. Einu sinni hef ég þó heyrt forstjóra Neins veina sáran. Það var þegar hann tjáði sig um vörurýrnun vegna þjófnaðar á bensíni. Bensíni hafði verið stolið frá Neinum fyrir næstum 30 milljónir króna. Forstjórinn benti á að það væri virkilega erfitt og nánast óbærilegt að reka fyrirtæki sem býr við svona mikla vörurýrnun. Undir það skal tekið.
Nokkru síðar ræddi forstjórinn um tilraun Neins við að hasla sér völl á sviði bókaútgáfu. Gefnar voru út tvær bækur, hvor um sig í risaupplagi. Þær voru auglýstar til samræmis við risaupplagið. Leikar fóru þannig að uppistaðan af upplaginu endaði á haugunum. Forstjórinn sagði tapið á bókaútgáfuævintýrinu skipta fyrirtækið engu máli. Tapið væri ekki nema næstum 30 milljónir króna og fyrirtæki af stærðargráðu Neins finni hvergi fyrir svoleiðis smáaurum.
Svo skemmtilega vildi til að þetta var sama upphæð og vörurýrnun vegna bensínþjófnaðar.
Núna var Neinn að segja upp 19 starfsmönnum. Forstjórinn segir það vera til þess að bæta þjónustu fyrirtækisins. Birgjar jafnt sem starfsfólk sé yfir sig hamingjusamt með breytinguna.
Þetta verður ekki skilið öðru vísi en svo að þessir 19 brottreknu hafi dregið þjónustu Neins niður. Þeir hafi háð rekstri Neins.
Kjaramál | Breytt s.d. kl. 21:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.8.2012 | 00:28
Gróft einelti í auglýsingu
Mér er hlýtt til ritfangaverslunarinnar Griffils. Þegar ég vann í Síðumúla verslaði ég oft í Griffli sem var þá einnig í Síðumúla. Það var alltaf gaman að koma í Griffil. Eigandinn skemmtilegur (við spjölluðum oft um Bítlana) og starfsfólkið þægilegt. Vöruúrval fínt og ágæt verð. Svo urðu eigendaskipti og verslunin flutt niður í Skeifu. Ég held - en er ekki viss - að eigendaskipti hafi orðið fleiri.
Núna auglýsir Griffill að ég kaupi skólavörur í Griffli. Auglýsingarnar hefjast á orðunum "Þú kaupir skólavörurnar í Griffli." Þetta er ekki rétt. Ég kaupi engar skólavörur. Hvorki í Griffli né annars staðar. Mér er svo sem alveg sama um þessa röngu fullyrðingu. Verra þykir mér að í næstu setningu er fullyrt að sonur Egils versli ekki í Griffli heldur borgi meira fyrir skólavörur annars staðar. Svo er spurt: "Hvað er að syni Egils?"
Sonur Egils kaupir skólavörur í ritfangaverslunum í sínu hverfi. Bensín er dýrt og væri fljótt að éta upp sparnað af því að fara langt yfir skammt til að kaupa ódýrari skólavörur. Þar fyrir utan er því ranglega haldið fram í auglýsingum að Griffill sé alltaf ódýrastur.
Samkvæmt nýjustu verðlagskönnun ASÍ eru tvær ritfangaverslanir ódýrari en Griffill. Sonur Egils hefur sjálfur sagt mér að 12 trélitir í pakka sem hann keypti í Europrice kosti 499 kr. en 699 kr. í Griffli. Á sama stað keypti hann stílabækur á 180 kr. sem eru ódýrastar á 285 kr. í Griffli.
Það er ekkert að syni Egils. Þetta er skýr drengur og klár. Hann má þola það að daglega dynja á honum og skólasystkinum hans auglýsingar frá Griffli um að það sé eitthvað að honum. Þetta er einelti.
Kjaramál | Breytt s.d. kl. 00:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
26.3.2012 | 23:26
Tími húsbílsins er genginn í garð
Samkvæmt grátkórnum stefnir hraðbyr í að þorp landsins breytist í gettó (þau eru það reyndar þegar ef mark er takandi á jarmandi vælusöngvum þar um). Fiskvinnslufólk og sjómenn hætta að fá borguð laun fyrir sína vinnu. Þess í stað mun þetta fólk borga með sér til að fá að vinna. Það mun togast á um hvert starf og yfirbjóða hvert annað til að fá að vinna. Hvaðan fólkið fær pening til að borga háar upphæðir með sér er hulin ráðgáta. Hitt er ljóst að fólkið mun ferðast frá þorpi til þorps, úr einu gettói í annað eftir því hvar fólkið fær að borga með sér til að fá vinnu.
Þá er runnin upp sú stund að jarðfast húsnæði er vondur kostur. Tími húsbílsins er genginn í garð.
Best er að byrja ódýrum húsbíl.
Það getur komið sér vel að hafa smá verönd á húsbílnum, þægilega eldunaraðstöðu og snúru til að hengja vinnugallann til þerris.
Miklu skiptir að hafa gott þak yfir höfuðið til að verjast íslenskum vindum og regni. Og nýta rýmið vel. Þegar fram í sækir verður húsbíllinn stöðutákn. Þannig er þróunin. Hún verður ekki stöðvuð.
Býr til gettó á landsbyggðinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjaramál | Breytt 27.3.2012 kl. 01:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.3.2012 | 21:58
Sparnaðarráð
Það er dapurlegt að lesa í blöðum eða hlusta í útvarpi á viðtöl við fátækt fólk á Íslandi. Fólk sem hefur ekki efni á að fjármagna lyfjakaup sín eða kaupa annað hráefni í matargerð en núðlur, hafragrjón og þess háttar. Samtímis er troðið út úr dyrum á veitingastöðum sem selja 3ja rétta máltíð á hátt í 10 þúsund kall + vín (+ leigubíll). Sala á 10 milljón króna jeppum er í blóma. Afskriftir á mörg hundruð milljónum og upp í nokkurra milljarða kúlulán og allskonar er í tísku hjá fólkinu sem gefur börnum sínum og öðrum ættingjum lúxusbíla og lúxusíbúðir þegar það heldur upp á afskriftirnar.
Á sama tíma hljómar hrokafullt að gefa fátækum sparnaðarráð. Engu að síður: Það er pínulítið skrítið að lesa um einstæðinga sem ná ekki endum saman í upphafi mánaðar eftir að þeir hafa borgað 140 - 160 þúsund króna mánaðarleigu fyrir íbúð. Vissulega eru það mannréttindi að hafa þokkalegt húsaskjól. En út um allan bæ er hægt að leigja ágæt herbergi á gistiheimilum fyrir 30 - 40 þúsund kall á mánuði. Þá er allt innifalið: Internet, rafmagn, hiti og sameiginlegur aðgangur að þvottahúsi, eldhúsi og svo framvegis. Plús ágætur félagsskapur.
Þannig má spara 100 þúsund kall á mánuði.
Kjaramál | Breytt s.d. kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
4.11.2011 | 07:17
Sígaunar og íslensk vændiskona
Sígaunar setja svip á miðborg Óslóar. Þeir sitja á gangstéttum allan daginn alla daga (nema sunnudaga) í öllum veðrum. Fyrir framan þá er pappamál. Vegfarendur henda smáaurum í pappamálin um leið og þeir ganga framhjá. Ég sá aldrei neinn setja annað en verðminnsta klink í pappamálin. Ég sá heldur aldrei pappamálin nema rétt botnfull. Líklegt má telja að sígaunarnir tæmi úr pappamálunum reglulega í vasa sína. Næstum tóm pappamál laða fremur til sín smáaura en full pappamál.
Það er eitthvað dapurlegt við þetta. Ég hef ekki sett mig inn í sögu sígauna. Mér skilst að þeir séu meira og minna utanvelta í þjóðfélögum; flakki um og búi við fátækt, ólæsi og sígaunastúlkur byrji að eignast börn um 14 ára aldur. Það er að segja sígaunastúlkurnar séu 14 ára (ekki börnin þegar þau fæðast).
Kjör sígauna eru eitthvað misjöfn eftir löndum. Í einhverjum tilfellum eru þeir réttlausir: Komast ekki inn á vinnumarkað; hafa ekki aðgang að heilbrigðiskerfi, fá ekki atvinnuleysisbætur né ellilífeyri. Kostur þeirra er að betla, spila músík og stela. Í stað þess að ganga í opinbera leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er sígaunabörnum kennt að stela. Vasaþjófnaður er listgrein, náskyld sjónhverfingum. Algengt mun vera að sígaunakonur bjóði upp á spádóma gegn greiðslu. Ég rakst ekki á neina spákonu í Ósló. Hinsvegar gekk ég fram á íslenska vændiskonu í Ósló.
Þannig var að ég staldraði örstutt við hjá fullorðnum sígauna á meðan ég smalaði saman handa honum nokkrum aurum. Í þann mund sem ég hélt för minni áfram kom þar að ung, falleg, ljóshærð og vel klædd kona. Hún beygði sig niður að betlaranum, ávarpaði hann á ensku og gaf honum sígarettu. Konan afsakaði sig með þeim orðum að hún væri ekki með neinn pening á sér. Hún væri vændiskona frá Reykjavík og vinnutími hennar ekki hafinn. Hinsvegar lofaði hún sígaunanum því að ef hann yrði ennþá þarna seint um kvöldið þá myndi hún svo sannarlega gefa honum pening. Þangað til yrði sígarettan að duga. Ég varð stoltur af landa mínum. Hefði ég verið með íslenska fánann við hönd er næsta víst að ég hefði flaggað honum.
Sígaunar eru ekki þekktir fyrir að ráðast með stórskotaliði inn í lönd, sprengja upp fólk og mannvirki, útrýma kynþáttum eða salla niður ungliðahreyfingar jafnaðarmanna. Aftur á móti hafa sígaunar skemmt mörgum með söng og hljóðfæraleik. Ég saknaði þess að þeir væru ekki að "böska" í Ósló. Aðeins einu sinni varð ég var við sígauna spila á harmónikku.
Kjaramál | Breytt s.d. kl. 07:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
26.9.2011 | 01:55
Pizza með matarleifum
Við köllum hana á rammíslensku flatböku. Í daglegu tali er hún þó oftast kölluð pizza (framborið pitsa). Það er vegna þess að sjaldnast nær rammíslenskt orð að festa sig í sessi ef það er 3ja atkvæða en erlenda orðið 2ja atkvæða. Sú er ástæðan fyrir því að Íslendingar tala um bíl í stað sjálfrennireiðar.
Uppruni pizzunnar er sennilega ítalskur. Þar var hún og er ennþá fátækramatur. Þetta er flöt hveitibrauðsskífa, bökuð með tómatsósu, osti, smávegis af kjöti og grænmeti. Þetta er ómerkilegur matur. Ef mat skyldi kalla.
Á nútíma íslensku heimili fyllist ísskápur iðulega af matarafgöngum: Rest af sunnudagssteik, brúnni kjötsósu, kjúklingsrifrildi og allskonar. Að tveimur eða þremur dögum liðnum er þessu hent í ruslið. Það er sóun. Matarleifar eru í góðu lagi í 3 daga í ísskáp. Að öllu jöfnu ef þær hafa verið settar þangað strax eftir að borðhaldi lýkur.
Þá er ráð að útbúa pizzu með matarleifunum. Fletja út pizzudeig sem fæst í öllum matvöruverslunum. Skella á það vænni slummu af pizzasósu (tómatssósugumsi), öllum matarleifum og hvítlauksolíu. Hella yfir það rifnum osti og baka í ofni. Þetta er veislumatur. Fátækir Ítalir myndu ískra af gleði ef þeir kæmust í svona góðgæti. Þeir myndu góla í gleðilátum.
Kjaramál | Breytt 27.9.2011 kl. 01:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
2.9.2011 | 22:57
Illa gölluð verðkönnun ASÍ
Síðasta verðlagskönnun ASÍ hefur vakið mikla athygli. Einkum vegna þess að hún leiddi í ljós að Bónus er ekki lengur með ódýrustu (eða minnst dýru) matarkörfuna. Matarkarfan í Krónunni reyndist vera ódýrust og Víðir á svipuðu róli og Bónus. Talsmenn Bónus eru ekki par sáttir. Vísa til þess að þar fáist bananar á 198 krónur í stað þess að í matarkörfu Bónus lentu bananar á 247 krónur (eða eitthvað svoleiðis). Jafnframt að í matarkörfu Bónus var hreint kjöthakk lagt að jöfnu við kjöthakk drýgt með soyakjöti í öðrum verslunum.
Þessi dæmi sýna að verðkönnun ASÍ er meingölluð. Það er algjörlega ófært að bera saman verð á ósambærilegum vörum. Til að svona verðkönnun gefi rétta mynd af verðmun á milli verslana verður að vera um samskonar vöru að ræða. Annað er út í hött.
Heimfærum þetta upp á bíla. Ein bílasala selur BMW. Önnur selur Skoda. Sú síðarnefnda selur ódýrari bíl. En þetta eru ekki eins bílar.
Bónus selur vissulega banana á 198 kr. kílóið. Það eru svartblettaðir linir bananar á síðasta snúningi. Kannski nothæfir í bakstur með því að skera burtu svörtustu blettina. En á engan hátt samanburðarhæfir við grænleita og stinna ferska banana.
Það getur ekki verið meira mál fyrir ASÍ að bera saman verð á samskonar vörum, sömu vörumerkjum, sömu gæði, heldur en að bera saman verð á vörum í mismunandi gæðum frá mismunandi framleiðendum.
Á meðan þessi afleitu vinnubrögð ASÍ eru stunduð eru verðkannanir þess aðeins vísbending um raunverulegan verðmun á milli verslana en ekki marktækar að öðru leyti. Engu að síður er athyglisvert að ekki sé lengur á vísan að róa með að Bónus sé ódýrasta matvöruverslunin. Sú var tíð að Bónus var verulega ódýrari en aðrar verslanir. Hvað veldur breytingunni?
Kjaramál | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.4.2011 | 04:10
Gott og einfalt ráð til að kýla niður rafmagnsreikninginn
Á flestum íslenskum bæjum fer drjúgur hluti orkunotkunar heimilisins í að sjóða kartöflur. Kartöflur eru soðnar fyrir hádegisverð og annar skammtur fyrir kvöldmat flesta daga. Á sumum bæjum eru kartöflur reyndar aðeins soðnar einu sinni á dag. Þessi stöðuga suða á kartöflum telur sig saman í háa upphæð fyrir rafmagn á ársgrundvelli. Hefðin er sú að sjóða kartöflurnar í 43 mínútur.
Þessum kostnaði má auðveldlega ná verulega niður á eftirfarandi hátt: Helltu fyrst sjóðandi heitu vatni úr rafmagnskatlinum yfir kartöflurnar í pottinum. Kveiktu síðan á hellunni undir pottinum. Suðan kemur fljótlega upp. Leyfðu henni að halda sér í 16 mínútur. Þá slekkur þú á hellunni en lætur pottinn standa þar óhreyfðan með loki á í 32 mínútur. Þá eru kartöflurnar snyrtilega soðnar, ferskar og góðar. Það sem mestu máli skiptir er að hýðið er ósprungið.
Eitt það vitlausasta sem nokkur manneskja gerir er að salta kartöflur fyrir suðu. Saltið nær ekkert að smjúga inn í kartöflurnar nema saltmagnið sé nánast til jafns við kartöflurnar og hýðið springi.
Til gamans má geta að á færeysku heita kartöflur epli. Það sem Íslendingar kalla epli heitir á færeysku súr epli. Fólk reynir að ruglast ekki á þessu.
Kjaramál | Breytt s.d. kl. 04:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)
13.4.2011 | 22:10
Ósvífið svindl
Ég átti erindi til Hafnarfjarðar í dag. Í nágrenni við Fjarðarkaup rak ég augu í skilti með merkingunni "Ódýrt bensín". Bensínið sem ég hef keypt undanfarin ár hefur verið okurdýrt. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar. Ég hef ekki rekist á ódýrt bensín í áraraðir. En nú var lag. Þannig að ég brá við skjótt og fyllti á bílinn þetta sem var auglýst ódýrt bensín. Þegar á reyndi kom í ljós að hið svokallaða "ódýrt bensín" kostaði um 230 kall lítrinn.
Er það ódýrt bensín? Í minni brengluðu verðvitund er það dýrt bensín. Rándýrt. Er þetta Hafnarfjarðarbrandari?
Álagið hið lægsta frá hruni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjaramál | Breytt 14.4.2011 kl. 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
13.4.2011 | 01:51
Einn léttur
Ljóskan vann 600 milljónir í lottói. Á mánudeginum mætti hún á skrifstofu lottósins til að sækja vinninginn. Henni var tjáð að áður en hún fengi vinning greiddan út yrði hún að sækja sérstakt námskeið fyrir vinningshafa svo stórrar upphæðar. Þar myndu fjármálaráðgjafar, sálfræðingar og aðrir slíkir fara yfir málin með henni. Jafnframt væri þetta hár vinningur ekki greiddur út á einu bretti heldur myndi hún fá 100 milljónir afhentar 1. maí næstu sex ár.
Viðbrögð hennar urðu þau að segja: "Þetta er svindl. Ef ég fæ ekki mínar 600 milljónir afhentar strax þá mun ég slíta hér og nú öllum viðskiptum við fyrirtækið, skipta aldrei við það framar, og stefna ykkur til að endurgreiða mér lottómiðann undir eins!"
Kjaramál | Breytt s.d. kl. 07:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)