Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál
30.6.2015 | 09:33
Hlegið að hryðjuverkasamtökum
Bandarísku hryðjuverkasamtökin Sea Shepherd boðuðu komu sína til Færeyja um miðjan júní. Þar hyggjast þau standa vakt fram í október. Yfirlýstur tilgangur er að koma í veg fyrir hvalveiðar eyjaskeggja. Raunverulegur tilgangur er þó fyrst og fremstur sá að safna fjárframlögum frá vellauðugum rokkstjörnum og kvikmyndaleikurum.
Á dögunum blésu samtökin í herlúðra og héldu blaðamannafund í Færeyjum. Þar ætluðu þau að upplýsa heimspressuna um baráttuna gegn hvalveiðum Færeyinga og svara spurningum. Fjórir vígalegir fulltrúar SS komu sér makindalega fyrir við fundarborð og höfðu með sér bæklinga og fleiri gögn til að dreifa meðal blaðamanna, ljósmyndara, útvarpsfréttamanna og sjónvarpsfólks.
Aðeins einn fjölmiðlamaður mætti á fundinn. Það var kvikmyndatökumaður færeyska sjónvarpsins, Kringvarpsins. Niðurlútir og skömmustulegir reyndu SS-liðar að bera sig vel og gera gott úr þessu. Kvikmyndatökumanninum var boðið að leggja spurningar fyrir gestgjafana. Sjónvarpsmaðurinn afþakkaði það. Sagðist ekkert hafa við SS að tala. Við það varð fundurinn ennþá vandræðalegri og kvikmyndatökumaðurinn hélt á brott.
Blaðamannafundurinn hefur þegar verið útnefndur neyðarlegasti blaðamannafundur aldarinnar.
Um helgina bar svo við vart varð við marsvínavöðu (grind) í Færeyjum snemma morguns. Hvalurinn var í snatri veginn fyrir framan nokkra SS-liða sem áttu að standa vakt en höfðu sofnað. Vakti þetta ennþá meiri kátínu heimamanna en blaðamannafundurinn. Nú eru SS uppnefndir Sleep Shepherd.
SS gáfu um daginn út yfirlýsingu þess efnis að í sumar yrði öll áhersla lögð á baráttuna gegn hvalveiðum Færeyinga. Skip samtakanna yrðu kölluð frá Asíu og Ástralíu og plantað í færeyska firði. Þar á meðal eitt aðal skipið, Sam Simon. Einhverra hluta vegna hefur það ekki ennþá skilað sér til Færeyja heldur lagðist við bryggju í Tromsö í Noregi. Þar virðist það vera í reiðuleysi og án tilgangs.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.5.2015 | 17:42
Færeysk hljómsveit nefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna
Færeyska hljómsveitin Hamferð er íslenskum rokkunnendum að góðu kunn. Hún hefur spilað vítt og breytt um landið í slagtogi með víkingarokksveitinni Skálmöld. Þessar tvær hljómsveitir hafa einnig haldið hópinn á hljómleikum erlendis. Hamferð hefur sömuleiðis verið í slagtogi með Sólstöfum og færeysku Tý.
Í dag var tilkynnt að Hamferð sé nefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna ásamt Kammersveit Reykjavíkur, fiðluleikaranum Elfu Rún Kristinsdóttur og átta minni spámönnum (ja, reyndar eru sænska óperusöngkonan Anne Sofie von Otter og finnska strengjasveitin Apocalyptica skæðir keppinautar. Ég á plötur með þeim. Það segir sína sögu). Úrslitin verða tilkynnt við hátíðlega athöfn 27. nóvember á þessu ári. Vinningshafinn fær 7 glóðvolgar milljónir í sinn vasa. Til viðbótar fylgir vinningnum gríðarmikil kynning, frægð og frami um öll Norðurlöndin og víðar.
Hamferð spilar dómsdags-metal. Hljómsveitin er þaulvön að sjá og sigra. Hún hefur hlotið allskonar verðlaun í Færeysku tónlistarverðlaununum FMA. Þá sigraði hún í Wacken Battle. Og nú er röðin komin að Norrænu tónlistarverðlaununm.
Hér lofar Hamferð guð sinn herra, hans dýrðlega nafn og æru.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2015 | 20:24
Besti veitingastaður af öllum á Norðurlöndunum
Árlega er við hátíðlega athöfn valinn, kosinn, útnefndur og krýndur besti veitingastaður á Norðurlöndum. Leitin að vinningsstaðnum fer fram í nokkrum áföngum. Í ár enduðu í lokavali Marchal í Kaupmannahöfn í Danmörku, Ylajali í Ósló í Noregi, Ask í Helsinki í Finnlandi, Esperanto í Stokkhólmi í Svíþjóð og Koks í Þórshöfn í Færeyjum.
Athygli vekur að allir veitingastaðirnir sem náðu eftir harðsnúna keppni í lokaúrslit eru staðsettir í höfuðborgum landanna.
Ég hef ekki snætt á neinum af nefndum veitingastöðum öðrum en Koks í Þórshöfn. Samt kemur það mér ekki á óvart að Koks hafi nú formlega verið sæmdur nafnbótinni "Besti veitingastaður Norðurlandanna". Þvílíkur sælkerastaður. Annar eins er ekki fundinn.
Reyndar veita nokkrir aðrir veitingastaðir í Færeyjum Koks harða samkeppni.
Kokkarnir á Koks nota einungis færeyskt hráefni. Þeir byggja matreiðslu sína að verulegu leyti á færeyskum matarhefðum. Meðal annars þess vegna er matseðillinn árstíðabundinn.
Þegar Færeyjar eru sóttar heim þá er góð upplifun að snæða á Koks. Vegna ónýtu íslensku krónunnar er það pínulítið dýrt. En samt hverrar krónu virði.
Maturinn skemmist í tollinum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.5.2015 | 22:56
Slóttugheit Skota
Fyrir nokkrum árum kusu Skotar um hugsanlegan aðskilnað frá breska heimsveldinu. Um tíma leit út fyrir að sjálfstæðissinnar myndu fara með sigur af hólmi. Þegar betur er að gáð þá var sigurinn þeirra þó að niðurstaða kosninganna sýndi annað - í fljótu bragði. Ég sá strax í gegnum þetta.
Skotar eru lúmskir. Þeir hafa þurft á því að halda öldum saman. Það hefur verið illa farið með þá, svo sem sjá má í kvikmyndinni Braveheart. Þeir hafa verið fótum troðnir og fátækir. Þegar skotið er úr fallbyssum 12 skotum (með litlu s) á hádegi þvers og kruss um Bretland þá hinkra Skotar um klukkutíma og skjóta einu skoti klukkan eitt.
Þegar Skotar kusu gegn aðskilnaði frá breska heimsveldinu voru þeir í raun að styðja sjálfstæði Skotlands. Bara á annan og metnaðarfyllri hátt. Óopinbert markmið Skota er að tilheyra áfram breska heimsveldinu en yfirtaka það. Leggja það undir yfirráð Skota. Skoski þjóðarflokkurinn hefur þegar hafið stórsókn í Bretlandi. Kosningarnar í fyrradag færðu honum 56 þingsæti á breska þinginu. Hann bætti við sig 50 þingsætum. Flokkurinn er jafnframt búinn að úthýsa öðrum flokkum úr Skotlandi. Skotland er svo gott sem einsflokks kjördæmi skoska þjóðarflokksins í dag. Það eru fleiri ísbirnir í Skotlandi en breskir Íhaldsmenn. Breska Verkamannaflokknum var sömuleiðis sparkað endanlega út úr Skotlandi í kosningunum.
Vekur upp fjölda spurninga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 9.5.2015 kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2015 | 00:37
Dani fangelsaður fyrir að berjast gegn ISIS
Uppgangur glæpagengisins ISIS í M-Austurlöndum hefur margar hliðar. Sumar snúnar. Aðrar ennþá snúnari. Burt séð frá því hvernig þetta allt byrjaði með innrás í Írak, stuðningi við uppreisnaröfl í Sýrlandi og allskonar.
47 ára Dana býður nú fangelsun fyrir þátttöku í hernaði í M-Austurlöndum. Hann heitir Alan Grétar. Hann er af kúr-Dönskum ættum. Hann er harðlínu lýðræðissinni og gat ekki hugsað sér að sitja aðgerðarlaus hjá í Danmörku og leyfa ISIS að valta yfir það litla lýðræði sem þó hefur örlað á í þessum heimshluta. Svo ekki sé hlaupið yfir yfirgengilegt ofbeldi og fornaldarsjónarmið ISIS glæpagengisins.
Alan Grétar gekk til liðs við kúrdískar hersveitir sem berjast gegn ISIS. Fyrir bragðið er hann skilgreindur sem viljugur þátttakandi í hernaði í M-Austurlöndum. Og það þrátt fyrir að berjast við hið danskra hersveita með sama markmið.
Góðu fréttirnar eru þær að það er alveg þolanlegt að sitja af sér í dönskum fangelsum. Alan Grétar mun sannreyna það.
BBC nafngreinir böðulinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 09:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.2.2015 | 21:40
Tískubylgjan er kústur
Norður-Kórea er eitt af undrum veraldrar. Þetta er lokaðasta og einangraðasta ríki heims. Mannréttindabrot eru stórfelld og mikil fátækt. Forseti landsins er Kim Il Sung. Hann dó fyrir tveimur áratugum. En er samt ennþá forseti landsins. Stjórnar því af öryggi. Fyrst með aðstoð sonar síns, Kim Jong Il. Sá lagði sig svo fram um að hlaupa undir bagga með pabbanum að hann dó úr vinnuálagi. Dugði þar hvergi til að hann var árum saman búinn að safna orku og kröftum við að sitja öll kvöld allsnakinn við að þamba koníak.
Þegar Kim Jong Il dó úr vinnuálagi varð fuglum himins svo um að þeir þögnuðu. Harmur þeirra var svo yfirþyrmandi við að heyra fréttina.
Kim Jong Il fann upp hina heimsþekktu kjötsamloku sem kallast hamborgari. Þessa fróðleiksmola hef ég eftir n-kóreskum fjölmiðlum.
Við fráfall koníaksþambarans tók sonur hans, Kim Jong Un, við því hlutverki að hjálpa afa sínum við að stýra ríkinu. Eldri bróðir hans hafði klúðrað arftökunni með því að laumast til Japans á fölsuðum skilríkjum. Hann var staðinn að verki í tívolí í Japan. Fyrir bragðið varð hann aðhlátursefni um allan heim. Sem var út af fyrir sig í stíl við það aðhlátursefni sem pabbi hans og afi hans voru og eru. En í Norður-Kóreu var gerður munur á þessu.
Kim Jong Un kom brattur inn á sviðið. Hann lét þegar í stað taka af lífi háttsetta í fjölskyldunni. N-Kóreskir fjölmiðlar slógu upp á forsíðu að Kim Jong Un væri af heimsbyggðinni talinn kynþokkafyllsti maður heims.
Vissulega er Kim Jong Un kynþokkafullur. Held ég. Reyndar er ég ekki flinkur við að átta mig á því hvaða karlar eru kynþokkafullir eða ekki. Ég legg það í hendur n-kóreskra fjölmiðla. Og ykkar.
Kim Jong Un hefur aðgang að bestu stílistum N-Kóreu. Hann hefur lagt línu fyrir heimsbyggðina með stíl sem kallast kústur. Nafnið er dregið af hárgreiðslu og vel snyrtum stuttum augnabrúnum. Þetta er til fyrirmyndar. Kústur er málið.
.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 12.2.2016 kl. 14:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.12.2014 | 00:06
Hóta að sprengja jólatré í S-Kóreu í loft upp
Í Suður-Kóreu hefur verið hafist handa við að reisa 30 feta hátt jólatré á stórri hæð skammt frá landamærum Kóreu-ríkjanna. Það er reyndar dálítið villandi að kalla fyrirbærið jólatré. Þetta er stálgrindarturn sem verður þakinn ljósaseríum, ljósastjörnum og allskonar. Ljósin verða tendruð 23. desember og lýsa í tvær vikur.
Yfirvöld í N-Kóreu eru æf af reiði yfir þessu jólaskrauti. Þau skilgreina það sem ósvífna og grófa sálræna ögrun í sinn garð. Ekki vegna þess hvað jólaskrautið er ljótt heldur af því að augljóslega sé verið að hæðast að helsta stolti N-Kóreu, ljósaturni sem stendur þarna í mílu fjarlægð.
Yfirvöld í N-Kóreu hóta því að ef ekki verði þegar í stað hætt við jólaskrautið þá sé þeim nauðugur einn kostur að verja æru sína með því að sprengja það í loft upp.
Þau taka það fram að þetta hafi ekkert að gera með trúarbrögð. Það er að segja að á toppi jólaskrautsins verði kross (í stað kyndilloga í n-kóreska ljósaturninum). Né heldur að jólaskrautið tengist jólunum, rótgróinni ásatrúarhátíð sem síðar fleiri trúarhópar samfagna.
Í N-Kóreu er haldið upp á jólin. Að vísu á öðrum forsendum. 24. desember er haldið upp á fæðingardag mömmu Kim Jong Il. Pabbi hans er eilífðarleiðtogi ríkisins. Engu breytti um þá stöðu er hann andaðist á gamals aldri fyrir einhverjum áratugum. Hann heldur ennþá styrkum höndum um stjórnartaumana. Kim Jong Il hljóp undir bagga með föður sínum eftir andlátið í erfiðustu verkefnum. Svo hart gekk Kim Jong Il fram í að liðsinna pabbanum að hann sprakk vegna vinnuálags fyrir nokkrum árum. Hann bugaðist af vinnu og dó. Ekki einu sinni daglegt og gríðarlega mikið koníakssötur í bland við bjórþamb tókst að slá á vinnusemina. Og það þótt að hann tætti jafnan af sér hvert kvöld öll föt eftir að koníakið fór að hrífa.
Í kjölfar afmælishátíðar mömmu Kim Jong Il fylgir frídagur vegna stjórnarskrárafmælis N-Kóreu.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.12.2014 | 22:24
Af hverju eru engir nissar á Íslandi?
Í Færeyjum og víðar gegna nissar mikilvægu hlutverki í aðdraganda jólanna, hátíðar ljóss og friðar. Nissar eru smávaxnir jólaálfar. Þeir eru mjög margir og allt leikur í höndunum á þeim. Þar fyrir utan eru þeir gríðarlega vinnusamir. Til að mynda eru það þeir sem sjá að uppistöðu til um að gleðja börn með því að setja glaðning í skóinn hjá sofandi börnum. Gott ef það eru ekki nissarnir sem framleiða handgerðu leikföngin sem sum börn fá í jólagjöf.
Það myndi létta mjög álagi af íslensku jólasveinunum ef að þeir hefðu nissa sér til aðstoðar. Það er spurning hvort að hægt sé með gylliboði að lokka nokkra nissa til Íslands. Þeir eru fljótir að fjölga sér, eins og kanínan. Ef ekki tekst að fá nissa til Íslands með góðu þá með illu.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 3.12.2014 kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.10.2014 | 15:15
Nýr og stærri flugvöllur
Síðustu ár hefur borið töluvert á heitri umræðu um mögulegan brottflutning á Reykjavíkurflugvelli. Hvernig og hvert er jafnan óljóst. Líka kostnaður við flutning. Enginn veit heldur hvert sækja á fjárfúlgur þær sem flutningur mun kosta. Það er ekki endalaust hægt að hækka matarskattinn.
Þorri Reykvíkinga og nánast allir aðrir landsmenn eru hlynntir hinni heppilegu staðsetningu á flugvellinum í Vatnsmýri. Það eru eiginlega bara spaugararnir í borgarstjórn sem tala fyrir flutningi. Það er miklu ódýrara að flytja þá úr Reykjavík en flugvöllinn.
Í Færeyjum er aðeins einn flugvöllur. Það er vandamál. Oft þarf að aflýsa flugi til Færeyja vegna þoku. Jafnframt hafa við flugvöllinn orðið flugslys með dauðsföllum.
Færeyingar hafa varið háum upphæðum í leit að öðru flugstæði. Án árangurs. Nú hafa menn fundið lausn. Hún felst í því að fjölga eyjunum úr 18 í 19. Nýja eyjan yrði flugvöllur og höfn. Hún verður reist á milli Austureyjar og Straumeyjar, rétt fyrir utan höfuðborgina, Þórshöfn.
Neðansjávargöng verða lögð til og frá eyjunni.
Þetta mun styrkja samkeppnishæfi Færeyinga gríðarlega á mörgum sviðum. Til að mynda geta togarar þá landað fiski beint um borð í flugvélar. Fiskurinn er kominn spriklandi ferskur á fiskmarkaði um alla Evrópu 2 - 3 tímum eftir að hann er veiddur.
Eyjan hefur þegar fengið heitið Airport-19. Hún verður fljót að borga sig upp.
Færeyjar samkeppnishæfari utan EES | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 15:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.9.2014 | 20:29
Rokkstörnurnar styðja sjálfstæði Skota
Fjöldi rokkstjarna utan Skotlands hefur lýst opinberlega yfir stuðningi við skosku Já-hreyfinguna. Hún leiðir baráttuna fyrir því að Skotland segi sig formlega úr sambandríkinu Stóra-Bretlandi. Mikið er í húfi. Ekki síst fyrir afganginn af Stóra-Bretlandi. Það verður heilmikið tjón fyrir íbúa þess að missa Skotland úr sambandsríkinu. Að sama skapi er líklegt að sjálfstæði verði Skotum til framdráttar.
Meðal rokksjarna sem opinberlega styðja Já-hreyfinguna má nefna Björk, Johnny Marr (The Smiths), Matt Bellamin (The Muse) og Billy Bragg. Í þessum hópi eru líka skoskar stjörnur á borð við Edwin Collins, Alex Kapranos (Franz Ferdinand), Stuart Braithwaite (Mogwai) og liðsmenn Deacon Blue.
Paul McCartney styður hinsvegar Nei-hreyfinguna, eins og fleiri af eldri kynslóðinni. Til að mynda Mick Jagger, David Gilmour (Pink Floyd), Bryan Ferry, Sting, Cliff Richard og David Bowie.
Skotar líta til Norðurlanda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 20:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)