Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Lærum af dæminu með Hildi

  Nú er lag að læra af dæminu um Hildi Lillendahl.  Láta eitthvað gott koma út úr því dapurlega dæmi.  Skerum upp herör gegn dulnefnum.  Þau bjóða ekki upp á annað en óábyrgar yfirlýsingar, hótanir,  heitingar og óábyrga umræðu.  Gerum þá kröfu til netmiðla að notendur skrifi undir fullu nafni.  Þannig er notendum gert að standa við orð sín án þess að felast á bakvið dulnefni.  

  Netmiðlar þurfa að taka ábyrgð á því sem fær að standa í umræðudálkum þeirra.  Ég er ekki að kalla eftir neinni ríkisrekinni netlöggu.  Netmiðlarnir sjálfir verða að sýna ábyrgð með því að eyða "kommentum" sem fela í sér hótanir um nauðganir,  dráp og annað ofbeldi.

  Þeir sem verða fyrir netníði þurfa að bregðast snöggt við og kæra umsvifalaust allar hótanir og annað níð.  Ekki bíða eftir því að þetta líði hjá og fyrnist á tveimur árum.  Dómstólar þurfa að taka á netníði af festu.  Líðum ekki netníð.  Við eigum alveg að ráða við það að ræða ágreiningsmál án hatursumræðu.  Erum við ekki nógu félagslega þroskuð til þess?  Öll dýrin í netheimum eiga að vera vinir. 


mbl.is Vildi drepa Svein Andra með hamri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgát skal höfð i nærveru netsins

  Netið er varasamt.  Ekki síst spjallþræðir,  svo og athugasemdakerfi fréttamiðla.  Fyrir það fyrsta tjáir fólk sig öðruvísi á lyklaborði en þegar staðið er fyrir framan þann sem orðum er beint að.  Eða verið er að fjalla um.  Bremsurnar eru ekki þær sömu og þegar horft er framan í manneskjuna.  Í annan stað tjáir fólk sig öðruvísi á netinu undir dulnefni en réttu nafni.  Það er eins og losni um hömlur og fólk leyfir sér meiri ókurteisi og ruddaskap þegar það er falið á bakvið dulnefni.  Í þriðja lagi kemur iðulega illa út að blanda þessum tveimur atriðum - lyklaborði og dulnefni - saman við ölvun.  Það þarf ekki netið til að fullt fólk segi sitthvað annað en þegar það er edrú. 

  Stemmning í athugasemdakerfum og spjallþráðum hefur mikið að segja.  Ég þekki ekki barnaland.is og bland.is.  Mér er sagt að umræðan á barnaland.is hafi verið svakaleg á köflum.  Þar hafi notendur síðunnar keppst við að toppa hvern annan með slúðri um frægt fólk og niðrandi ummælum um það.  Það ku hafa eitthvað dregið úr þessu eftir að nafni síðunnar var breytt í bland.is.  Ég kíkti núna inn á bland.is og sé að allir skrifa þar undir dulnefni.  Umræðan er eftir því. 

  Stundum má sjá í athugasemdakerfi fréttamiðla hvernig umræða þróast.  Fyrstu "komment" eru kannski kurteisleg.  Svo mætir einhver yfirlýsingaglaður á svæðið.  Þá spólast aðrir upp.  Áður en líður á löngu eru menn komnir í kapp við að toppa hvern annan.  Þetta á einkum við um það þegar verið er að fjalla um ofbeldismenn,  nauðgara,  barnaníðinga og aðra slíka.  Þá er stutt í yfirlýsingar á borð við:  "Hnakkaskot og málið er dautt."   Eða lýsingar á því hvernig gaman væri að pynta viðkomandi og láta hann deyja hægum sársaukafullum dauðdaga.  

  Annað mál er að sumt sem hljómar ruddalegt í skrifuðum texta er ekki illa meint.  Það er sett fram í kaldhæðni eða á að vera í léttum dúr.  Málið er að án þess að sjá svipbrigði þess sem skrifar og eða þekkja hann er auðvelt að meðtaka textann á annan hátt.  Netið er svo ungur samskiptavettvangur að við höfum ekki ennþá náð að höndla það almennilega.  

  Fyrir daga netsins skrifaði fólk lesendabréf eða pistil í dagblöð.  Fólk vandaði sig.  Tók marga daga í að skrifa vandað bréf.  Lét ættingja og vini lesa það yfir áður en það var sent til dagblaðs.  Á þeim árum komu út mörg dagblöð:  Morgunblaðið,  Vísir,  Tíminn,  Þjóðviljinn,  Dagblaðið,  Alþýðublaðið og Dagur.  Þessi dagblöð birtu ekki hvaða lesendabréf eða pistil sem var.  Ósæmilegu efni var hafnað eða farið fram á að texta væri breytt.  Það sem birtist á prenti hafði farið í gegnum síu.  Núna hinsvegar getur fólk ýtt á "enter" um leið og það hefur lokið við að slá texta á lyklaborðið.  Á næstu sek. er textinn orðinn opinber á netinu.     

     


mbl.is Fullur kærasti á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sífellt bætist í hóp þeirra sem ætla að vera drukknir á páskunum

  Það er langt síðan ég tók staðfasta ákvörðun um að reyna að stefna á að verða drukkinn á páskunum.  Það hentar svo vel á þessari skemmtilegu alþjóðlegu frjósemishátíð.  Frjósemistáknin;  súkkulaðikanínur,  litlir gulir hænuungar og Nóaegg smellpassa við páskabjórinn.  Mér er kunnugt um að fleiri en ég ætli að verða drukknir á páskunum.  Þar á meðal Jesús. 


mbl.is Jesús drukkinn á páskunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný útvarpsstöð, ný fréttasíða

  Það er allt í gangi.  Nú er heldur betur uppsveifla hjá Útvarpi Sögu.  Hleypt hefur verið af stokkum spennandi netsíðu:  Fréttasíðunni sem þú ferð inn á með því að smella á þennan hlekk:  http://www.utvarpsaga.is/index.php  Það dugir líka að slá inn slóðina utvarpsaga.is

  Hægt er að fara inn á þessa síðu til að hlusta á beina útsendingu Útvarps Sögu og nýrrar útvarpsstöðvar,  Vinyls.  Útvarps- og tónlistarstjóri Vinyls er Kiddi Rokk (einnig kenndur við Smekkleysu).  Lagavalið samanstendur af klassískum rokk og -dægurlögum tímabilsins 1955 - 1985.  Þetta tímabil var gullöld vinylplötunnar.  Spannar upphaf rokksins og nær yfir til nýbylgjunnar (new wave). 

  Ég hef haft Vinyl mallandi í dag.  Lagaflæðið er gott og notalegt.  Allskonar klassískt rokk í bland við hátt hlutfall af eldri íslenskum dægurlögum.  Kiddi Rokk kann þetta.  Enda einn af hæst skrifuðu plötusnúðum landsins.  Kíkið á fésbókarsíðu Vinyls og "lækið":  https://www.facebook.com/vinylnetutvarp


Stórkostlegar ljósmyndir af Íslandi

  Bandaríska lífstíls- og menningarnetsíðan Airows spannar allt frá listum og bílum til ferðalaga og margt þar á milli.  Í nýlegri færslu er ljósmyndasyrpa sem ber yfirskriftina "20 ótrúlegar ljósmyndir sem vekja þér löngun til að sækja Ísland heim".  Þó að ég sé búsettur á Íslandi þá blossaði upp í mér löngun til að sækja Ísland heim er ég leit þessar myndir augum.  Algjört dúndur. 

isl_11.pngisl_12.pngísl 13ísl 14ísl 15ísl 16ísl 17ísl 18ísl 19ísl 20  ísl 4ísl 3ísl 2ísl 6ísl 7ísl 8ísl 9ísl 10ísl 5ísl 1


Hvaða poppstjörnur eru þekktastar?

 

  Í helgarblaði breska Sunday Times er áhugaverð frétt um vinsældir breskra tónlistarmanna í Bandaríkjum Norður-Ameríku.  Staða breskra tónlistarmanna er sterk í Bandaríkjunum.  Og reyndar í heiminum öllum ef út í það er farið.  Bandaríski tónlistarmarkaðurinn er - eðlilega - nokkuð sjálfhverfur.  Flestir helstu músíkstílar dægurlagatónlistar eiga uppruna í þeim suðupunkti fjölmenningar sem einkennir bandaríska tónlist og heimspoppið.  Blús,  djass,  rokk,  kántrý,  blúgrass,  rokkabilly,  soul,  gospel og hipp-hopp á allt uppruna í Bandaríkjunum,  svo aðeins sé fátt eitt talið.

  Á sjöunda áratugnum héldu breskir rokkarar innreið í bandaríska tónlistarmarkaðinn.  Í júní 1964 áttu bresku Bítlarnir 6 af 6 vinsælustu lögum í Bandaríkjunum.  Í árslok 1964 reyndust Bítlarnir hafa selt 60% af öllum seldum plötum í Bandaríkjunum.  Næstu ár á eftir urðu að auki The Rolling Stones,  Kinks,  Animals,  Who,  Manfred Mann og fleiri breskar hljómsveitir stórveldi í Bandaríkjunum.  Talað var um þessar ofurvinsældir breskra hljómsveita í Bandaríkjunum sem "bresku innrásina".

  Allar götur síðan hafa breskir popparar og breskar hljómsveitir verið með sterka stöðu á bandaríska markaðnum.  Án þess að vera endilega samstíga heimsmarkaðnum.  Á pönkárum síðari hluta áttunda áratugarins náði forystusveit breska pönksins,  Sex Pistols,  ekki árangri í Bandaríkjunum.  En The Clash varð þar stórveldi ásamt The Police og Billy Idol.

  Í dag er ein af hverjum 8 seldum plötum í Bandaríkjunum með breskum flytjanda.  Í Sunday Times er því haldið fram að vinsældir breskra tónlistarmanna í Bandaríkjunum sé ekki bundin við sjálfa músíkina heldur heilli persónuleiki breskra tónlistarmanna ekki síður.  

  Bandarískur almenningur er ekki þekktur fyrir að hafa góða og yfirgripsmikla þekkingu á því sem er í gangi utan Bandaríkjanna.  Hann er samt nokkuð vel að sér þegar kemur að tónlist.  

  96% Bandaríkjamanna þekkja John Lennon.  Hann er sá breski tónlistarmaður sem flestir Bandaríkjamenn kunna deili á. Þetta er verulega merkilegt vegna þess að "aðeins" 90% kannast við Bítlana,  hljómsveit Johns Lennons.  

  Í 3ja sæti er annar Bítill,  Paul McCartney.  82% Kana vita deili á honum.

  Í 4ða sæti er þriðji Bítillinn,  George Harrison.  Það kemur ekki á óvart.  Harrison er stærra nafn í Bandaríkjunum en utan Bandaríkjanna.  Hann var fyrstur Bítla til að ná á sólóferli lagi í 1. sæti bandaríska vinsældalistans.  Fyrir margt löngu heyrði ég í Kanaútvarpinu á Íslandi þátt um George Harrison.  Á þeim tímapunkti var hann einnig sá Bítill sem átti síðasta toppsæti á bandaríska vinsældalistanum.  Til viðbótar var Harrison liðsmaður í bandarísku súpergrúppunni Traveling Wilburys (með Dylan,  Tom Petty,  Roy Orbison og reyndar breskum Jeff Lynne).  Hér flytja þeir Harrison og Lynne lag Þjóðverjans Kurts Weills,  September Song.  Þetta var fyrsta lagið sem Bítlarnir hljóðrituðu en upptakan er ekki til.  

 

  Fimmta þekktasta breska dægurmúsíkfyrirbæri í Bandaríkjunum eru ásatrúarfélagar okkar í Led Zeppelin.  The Rolling Stones er í 25. sæti.  

  


Vaxandi vinsældir íslenskrar hljómsveitar í útlöndum

  Fyrir mánuði síðan sagði ég frá vaxandi vinsældum íslensku hljómsveitarinnar Q4U í útlöndum.  Um það má lesa með því að smella á slóðina:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1339108/             Vinsældunum hefur fylgt umfjöllun í útlenskum fjölmiðlum.  Hér eru dæmi (kannski þarf að smella á mynd til að hún stækki:

q4u umsögn A

 q4u umsögn B

  Vinsældum íslensku pönksveitarinnar Q4U hefur fylgt að fjöldi fyrirbæra vill kenna sig við hljómsveitina.  Allt frá framleiðendum krema og úra til verslana. 

q4u-verslun.jpgq4u-hrukkukrem.jpgq4u_rif.jpgq4u_ur.jpgq4u_ruta.jpg


Flottur útvarpsþáttur

virkir_morgnar.jpg

   Virkir morgnar  á Rás 2 eru með allra skemmtilegustu þáttum í sögu útvarps á Íslandi.  Þau Andri Freyr Viðarsson og Gunna Dís Emilsdóttir fara á kostum. 

  Ég hef fylgst með Andra Frey í útvarpi alveg síðan hann byrjaði með rokkþáttinn  Karate  á X-inu fyrir mörgum árum.  Þessu næst fór hann á svakalegt flug í þættinum  Freysa  á sömu útvarpsstöð.   Sá þáttur var ein samfelld rosaleg flugeldasýning.  Engum var vægt og allt látið flakka.  Það kostaði sitt.  Lögfræðingar fengu hellings vinnu við að útbúa kærur á hendur Andra Frey og / eða hóta honum kærum.  Líka handrukkarar.  Grallaragangurinn á Andra Frey kostaði hann peninga.  Og jafnvel vini.  Á þessum tíma var hann gítarleikari í Botnleðju og lék aðra í bransanum grátt með "grófu" slúðri.

  Þegar hlustað var á þáttinn  Freysa  hvarflaði ekki að neinum að Andri Freyr væri framtíðarstjarna RÚV,  sjónvarps og Rásar 2.  En það var augljóst að maðurinn var stjarna:  Hugmyndaflugið óendanleg uppspretta spaugilegs gassagangs,  hnyttin tilsvör,  fyndið kæruleysi en jafnframt metnaður.  

  Stjórnendur og yfirmenn X-ins voru lengst af ótrúlega djarfir og umburðarlyndir gagnvart þættinum  Freysa.  Ég man ekki hvers vegna þátturinn var tekinn af dagskrá.  Hvort að kærumál og skaðabætur voru farnar að íþyngja. 

  Allt í einu var Andri Freyr - ásamt Dodda litla - kominn með snilldar föstudagsþátt á Rás 2,  Litlu hafmeyjuna.  Þá var Andri Freyr  plötusnúður í Danmörku.  Gott ef ekki á skemmtistað Dóru Takefúsa og víðar.  

  Staðsettur á Íslandi hélt Doddi litli utan um þáttinn.  Andri Freyr var meira með innslög og eitthvað svoleiðis.  Viðtöl við danskar poppstjörnur og þess háttar.  Það kom afskaplega vel út að Andri Freyr hefði einhvern við hlið sér sem veitti aðhald og héldi honum nær jörðinni.

  Gunna Dís,  sem er með Andra Frey í  Virkum morgnum,  er glæsileg í því hlutverki.  Móðir mín á níræðisaldri gætir þess vandlega að missa aldrei af  Virkum morgnum.  Henni þykir þau tvö rosalega skemmtileg.  Og skemmtilegast þykir henni þegar Gunna Dís veitir drengnum aðhald / tiltal.

  Þau eru frábær saman.  Ég er sammála mömmu með það.  Og reyndar fleira sem er þessu óviðkomandi.           

  Andri Freyr er sömuleiðis meiriháttar skemmtilegur sjónvarpsmaður.  Þættirnir um  Andra á flandri  eru afskaplega vel heppnaðir.  Þar vinnur hann að hluta með skrifaðan texta (sem hann skrifar sjálfur) og þættirnir eru unnir fram og til baka.  Í sumar verður Andri á flandri í Færeyjum.  Ég hlakka mikið til að sjá þá.   

  Hér er Andri Freyr með hljómsveitinni stórkostlegu Bisund:

  Og hér með Botnleðju - líka meiriháttar:


mbl.is „Af hverju skiptiru þá ekki um stöð?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk hljómsveit nýtur vaxandi vinsælda erlendis

  Hljómsveitin Q4U varð til í rokkbyltingunni 1980 - 1983,  frjóasta og orkumesta tímabili íslensku rokksögunnar.  Tímabili sem í dag er kennt við kvikmyndina og plötuna  Rokk í Reykjavík

rokkireykjavik_1224054.jpg   Auglýsingar um myndina og framhlið umslags plötunnar skreytti ljósmynd af Ellý,  söngkonu Q4U.  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Á þessu tímabili naut Q4U mikillar athygli og vinsælda.  Vinsælasta lag Q4U,  Böring,  er sívinsæl klassík.  

  Eins og flestar aðrar hljómsveitir í  Rokki í Reykjavík  lagðist Q4U í dvala.  Liðsmenn hennar fóru að spila og syngja með öðrum hljómsveitum.  Af og til reis hljómsveitin úr dvala og er enn að.  

  Fyrir nokkrum árum tók að berast póstur til Q4U frá Þýskalandi.  Í póstunum var upplýst að í Þýskalandi ætti Q4U harðsnúinn aðdáendahóp.  Einhverjir höfðu rekist á efni með Q4U á þútúpunni og heilluðust.  Leikar fóru þannig þýski aðdáendahópurinn keypti 300 eintök af diski með heildarútgáfu á lögum Q4U.  Það voru mun fleiri eintök en seldust af disknum hérlendis.  

  Þjóðverjarnir lögðu hart að Q4U að koma í hljómleikaferð til þýskalands.  Áður en til þess kom barst Q4U póstur frá Brasilíu.  Þar var annar harðsnúinn aðdáendahópur Q4U.  Brassarnir lögðu enn harðar að Q4U að koma í hljómleikaferð til Brasilíu.  Jafnframt vildu Brassarnir fá að gefa út "Best of" plötu með Q4U.  Þeir fengu leyfi til þess.  "Best of" platan kom út fyrir tveimur árum og seldist í 1000 eintökum í Brasilíu.  

  Á meðan liðsmenn Q4U veltu vöngum yfir hugsanlegri hljómleikaferð til Brasilíu og Þýskalands tók að berast póstur frá Bandaríkjunum.  Þar var enn einn harðsnúni aðdáendahópurinn.  Sá hópur grátbað Q4U um að koma í hljómleikaferð til Bandaríkjanna.  Þá var komin upp sú staða að halda í hljómleikaferð til Þýskalands,  Brasilíu og Bandaríkjanna.  Ljóst var að það yrði töluverður pakki.  Kannski 2ja - 3ja mánaða túr.  Það var snúið mál.  Liðsmenn hljómsveitarinnar voru í fastri vinnu sem erfitt var að hlaupa úr.  Jafnframt foreldrar barna á ýmsum aldri.  Allt niður í ung börn.  

  Túrinn var eiginlega þegar afskrifaður er Ingólfur gítarleikari veiktist af hvítblæði fyrir 15 mánuðum.  Hann féll frá í vor og er sárt saknað.  

  Nýverið kom út í Bandaríkjunum vinyl-plata með Q4U.  Hún er kölluð "Deluxe Edition 1980 - 1983".  Hún inniheldur 16 lög frá þessum árum.  Umslagið er hið sama og á Ep-plötu sem kom út með Q4U 1983.  

q4u_front.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

   Það er vel til útgáfunnar vandað í alla staði.  Plötunni fylgir textablað og allar helstu upplýsingar um hljóðritanir á hverju lagi fyrir sig.  Mér þykir líklegt að vinylplatan sé til sölu í helstuplötubúðum á Íslandi - sem á annað borð selja vinyl. 


Skemmtileg grein í héraðsfréttablaðinu Feyki

  Þessi bloggfærsla er dálítið staðbundin (lókal).  Feykir heitir héraðsfréttablað Skagfirðinga og Húnvetninga.  Frábært vikurit sem upplýsir okkur brottflutta af því landssvæði um það sem helst ber til tíðinda í Skagafirði og Húnavatnssýslu.  Til viðbótar við margt annað sem gaman er að lesa um,  svo sem mataruppskriftir og skagfirska fyndni (Dreifarinn). 

  Í nýjasta hefti Feykis er viðtal við gamlan Skagfirðing: 
---------------------------

Jens Guð skrifar um færeysku söngkonuna á Íslandi

eivor

 

Hjá Æskunni er komin út bók eftir Jens Guð, sem í Skagafirði er betur þekktur undir nafninu Jens Kristján. Þrátt fyrir að vera löngu brottfluttur er þessi landsþekkti bloggari og skrautskriftarkennari Skagfirðingur að ætt og uppruna. Bókin sem hann skriftar fjallar um færeysku söngkonuna Eivöru og ber titilinn Gata, Austurey, Færeyjar, EIVÖR og færeysk tónlist.

-Ég er fæddur (1956) og uppalinn á Hrafnhóli í Hjaltadal. Sonur Guðmundar Stefánssonar og Fjólu Kr. Ísfeld. Bærinn á Hrafnhóli brann 1979. Þá flutti fjölskyldan til Akureyrar. Nema Sæunn systir mín. Hún tók saman við Hallgrím Tómasson á Sauðárkróki, settist þar að og eignaðist með honum tvo syni. Sjálfur var ég kominn suður í nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands þegar bærinn á Hrafnhóli brann,“ segir Jens.

Hin nýútkomna bók fjallar að uppistöðu um færeysku söngkonuna Eivöru, sem er vinsælasti erlendi tónlistarmaðurinn á Íslandi ef miðað er við plötusölu. Hérlendis selur hún um 10 þúsund eintök af hverri plötu. Miðað við vinsældir Eivarar hérlendis má ætla að bókin verði vinsæl. Hún er einnig seld í Færeyjum. Viðræður eru um að bókin verði þýdd yfir á dönsku og norsku.

Jens segist ennþá vera Skagfirðingum að góðu kunnur. -Flestir íbúar Hjaltadals og Viðvíkursveitar þekkja mig. Ég var tvo vetur í gagnfræðaskóla á Steinsstöðum. Flestir í Lýtingsstaðahreppi þekkja mig þess vegna. Það var nokkur samgangur á milli nemenda í Steinsstaðaskóla og Varmahlíðarskóla. Við krakkarnir í Hjaltadal lærðum sund á Sauðárkróki með krökkunum í Hofsósi og Hofshreppi.

Öll haust vann ég í Sláturfélagi Skagfirðinga á Sauðárkróki, þar sem pabbi var forstjóri. Pabbi var oddviti í Hólahreppi, lengi formaður ungmennafélagsins Hjalta og meðhjálpari á Hólum í Hjaltadal. Ég hef alltaf skilgreint mig sem Skagfirðing þrátt fyrir að hafa átt heima í Reykjavík síðastliðna áratugi. Til viðbótar þessari upptalningu á ég stóran frændgarð þvers og kruss um Skagafjörðinn. Þegar ég ferðast um Skagafjörðinn í dag þá þekki ég meirihlutann af öllum sem ég hitti.

Auk þess að vera landþekktur bloggari og hafa áður gefið út bækur er Jens kunnur fyrir skrautskriftarnámskeið sem hann hefur haldið vítt og breytt um landið. – Um nokkurra ára skeið kenndi ég skrautskrift fyrir Farskóla Norðurlands vestra. Ég þekkti ekki alltaf alla nemendur í upphafi námskeiðs. En jafnan kom í ljós þegar á leið að ég þekkti foreldra þeirra, maka eða aðra nátengda. Ég hef einnig verið með fjölmörg skrautskriftarnámskeið í Húnavatnssýslu og þekki marga þar.

 -------------

  Nánar: 

http://www.feykir.is/archives/77325


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.