Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Girnilegasti áfangastaðurinn 2015

  Fyrir mánuði síðan skýrði ég samviskusamlega á þessum vettvangi frá niðurstöðu tímaritsins National Geographic yfir mest spennandi áfangastaði ferðamanna næsta árs,  2015.  Ritið er gefið út á 40 tungumálum í næstum 7 milljónum eintaka.  Í stuttu máli er niðurstaða sú National Geographic að Færeyjar séu mest spennandi áfangastaðurinn 2015.  Nánar má lesa um þetta HÉR .  Það er alveg klárt að þetta skilar ferðamannasprengju til Færeyja á komandi ári.

  Nú var bandaríska sjónvarpsstöðin CNN að birta lista sinn yfir 10 girnilegustu áfangastaði 2015. Einn af þeim er Færeyjar.  Meðal þess sem CNN færir máli sínu til rökstuðnings er að 20. mars verði fullkominn sólarmyrkvi í Færeyjum.  

  Það er ekkert smá auglýsing fyrir Færeyjar að fá þessi meðmæli í þessum þungavigtarfjölmiðlum á heimsvísu.  Í fyrra vissi heimsbyggðin varla af tilvist Færeyja.  Svo dró misheppnað áróðursátak bandarísku hryðjuverkasamtakanna Sea Shepherd,  Grindstop 2014,  athygli heimsbyggðarinnar að Færeyjum.  Með þessum árangri. Nú eru Færeyjar heldur betur í sviðsljósi alþjóðasamfélagsins.    

     


Bestu plötur ársins 2014

  Blaðamenn breska tónlistartímaritsins Mojo hafa tekið saman lista yfir bestu plötur ársins 2014.  Það orkar tvímælis að taka svona árslista saman þegar tveir mánuðir eru eftir af árinu.  Væntanlega eiga margar góðar plötur eftir að koma út til viðbótar áður en árið 2015 gengur í garð.  Á móti kemur að þeir fjölmiðlar sem fyrstir birta árslista sinn njóta um tíma meiri athygli en þeir sem standast freistinguna og hinkra framundir áramót.  

 Þessar plötur raða sér í efstu sætin hjá Mojo:

1  Beck - Morning Phase   

beck mp

 
2  The War On Drugs - Lost In The Dream
 

3  Sleaford Mods - Divite And Exit

4  Jack White - Lazaretto

5  St. Vincent - St. Vincent

6  Steve Gunn - Way Out Weather

7  Julie Byrne - Rooms With Walls And Windows

8  Damon Albarn - Everyday Robot

9  FKA Twigs - Lp1

10 The Bug - Angels And Devils

 

.


Mest spennandi áfangastaðurinn 2015

  faroe-islands

 
 Túristar í ár vita alveg upp á hár hvert skal næst halda.  Þess vegna efndi útlend tímarit til könnunar á því hvert eigi að ferðast 2015.  Ritið er gefið út á 40 tungumálum í samtals 6,8 milljón eintökum.  Til viðbótar eru netsíður tímaritsins lesnar spjaldanna á milli.

  Ritið heitir National Geographic. Lesendur sammæltust um að Færeyjar verði áfangastaðurinn 2015.

  Hvað veldur því að útlendingar hafa uppgötvað ævintýraeyjurnar Færeyjar?  Fyrir nokkrum árum vissu útlendingar ekki af tilvist eyjanna. Ekki einu sinni Íslendingar vildu neitt af Færeyjum vita.  

  Síðan hefur tvennt gerst:  Annarsvegar hefur færeyskt tónlistarfólk farið í víking um heiminn með glæsilegum árangri:  Eivör,  Týr,  Teitur,  Högni Lisberg,  200,  Hamferð,  Lena Andersen,  Evi Tausen og fleiri hafa farið mikinn á útlendum vinsældalistum og rakað til sín tónlistarverðlaunum og öðrum viðurkenningu.  Þessum árangri hefur fylgt mikil og góð landkynning í ótal fjölmiðlum.

  Hinsvegar reyndist barátta bandarísku hryðjuverkasamtakanna Sea Shepherd gegn hvalveiðum Færeyinga í sumar vera öflugur hvalreki fyrir færeyskan ferðamannaiðnað.  Samtals stóðu 500 SS-liðar vaktina í Færeyjum í 4 mánuði í sumar. Þeir komu frá ýmsum löndum og voru duglegir við að lýsa á samskiptamiðlum (Facebook, twitter...) daglegu lífi sínu í Færeyjum með tilheyrandi ljósmyndum af vettvangi. Sumt af þessu fólki er heimsfrægt,  svo sem Pamela Anderson.  Myndir af Færeyjum birtust í helstu fjölmiðlum heims.  Að auki fylgdust milljónir manna með heimasíðum SS.  Þar voru stöðugt birtar nýjar fréttir af Færeyjum. 99% af útlendingum sem fréttu af Færeyjum í gegnum SS vissi ekki af tilvist Færeyja áður.  

 Það var ekki ætlun SS með átakinu Grindstop 2014 að stimpla Færeyjar inn sem heitasta áfangastað ársins 2015.  En sú hefur orðið raunin. Heldur betur.  Það er skollin á sprengja í túrisma til Færeyja.     

 


Misvísandi fréttir af Pamelu Anderson í Færeyjum

pamela anderson 

  Fyrir nokkrum dögum sendi kanadísk-ættaða bandaríska leikkonan Pamela Anderson frá sér yfirlýsingu um að hún væri á leið til Færeyja.  Gott ef afi hennar var ekki Finni.  Þaðan er allavega eftirnafn hennar,  Anderson, komið.  Einnig norrænt útlit þessarar heimsþekktu ljósku.  Hún er ekki múlatti.  Kannski er hún samt í raun með dökkt hár sem hún litar.

  Erindi kellu til Færeyja var að styðja og vekja athygli heimsbyggðarinnar á sumarátaki bandarísku hryðjuverkasamtakanna Sea Shepherd,  GrindStop 2014.  Átakið snýst um að koma í veg fyrir veiðar Færeyinga á marsvínum.        

  Átakið hófst með miklum látum í júní.  Bátur Sea Shepherd lagðist við bryggju í höfuðborg Færeyja,  Þórshöfn.  Blásið var til blaðamannafundar á bryggjunni.  Um 15 erlendir fjölmiðlamenn mættu á fundinn.  Síðan hefur ekkert gerst.  

  Nóg um það.  Um helgina sögðu fjölmiðlar frá því að Pamela Anderson væri komin til Kaupmannahafnar í Danmörku.  Síðan sögðu færeyskir fjölmiðlar að hún væri komin til Færeyja.  Núna segir mbl.is að hún sé veðurteppt í London.  

  Hvað er í gangi?   

  Sjá:  http://aktuelt.fo/ongin+paul+bara+pamela.html

         http://www.in.fo/news-detail/news/pamela-komin-at-hjalpa-sea-shepherd/

  Ég kannast vel við það á eigin skinni að flugsamgöngur til Færeyja eru stopular.  Þar er aðeins einn flugvöllur.  Þoka er landlæg í Færeyjum. Ég hef oft tafist um nokkra daga og allt upp í heila viku að komast til Færeyja. 

  Ef að fréttir um að Pamela væri komin til Kaupmannahafnar voru réttar þá átta ég mig ekki á því hvers vegna hún er strandaglópur í Englandi.  Það eru tíðar flugferðir á milli Danmerkur og Færeyja en fátíðar á milli Færeyja og Englands. 

  Hitt veit ég að Pamela var búin að bóka gistingu í lúxussvítunni á Hótel Hafnía í miðbæ Þórshafnar í Færeyjum. 

  Inn í þetta rugl má taka að Pamela er ekki með alla hluti á hreinu.  Á dögunum sagði hún að erindi sitt til Færeyja væri m.a. að forða forsprakka Sea Sheperd,  Paul Watson,  frá því að vera handtekinn í Færeyjum og framseldur til Costa Rica.  Þar biði hans dauðadómur.  Hið rétta er að Costa Rica er friðsamt ríki í Mið-Ameríku með siðferði á hærra stigi en svo að þar séu dauðarefsingar. 

  Pamela var um tíma í sviðsljósinu sem eiginkona trommuleikara léttpopps-glamrokksveitarinnar Mötley Crue, Tommy Lee.  Hann er heimskur en nokkuð góður trommari.  Verra er að hann lamdi Pamelu.  Blessunarlega var honum stungið í steininn fyrir uppátækið. 

 

  Uppfært 31. júlí:

  Grunur leikur á að aldrei hafi staðið til að Pamela kæmi til Færeyja.  Þetta hafi allt verið sviðsett leikrit.  Svo virðist sem allar skráðar flugferðir til Færeyja hafi gengið snurðulaust fyrir sig.  

  Þó er aldrei að vita.  Nú var hún að boða til blaðamannafundar í Færeyjum síðdegis á morgun. 

 


mbl.is Pamela fór ekki til Færeyja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Stolin frétt"

  Í síðasta mánuði,  júní,  breytti Sláturfélag Suðurlands,  SS,  uppskrift á vinsælustu pylsum á Íslandi, SS pylsunum.  "Íslendingar borða SS pylsur".  Í stað þess að hafa nautakjöt sem aðal hráefni var skipt yfir í ódýrt svínakjöt.  Beljukjöt var ennþá haft með í búðingnum en í miklu minna mæli.  Það var skyndilega blandað dönsku beljukjöti.

  Frá þessu skýrði ég á þessum vettvangi í síðustu viku.  Viðskiptablaðið tók málið upp þegar í stað. Síðan Fréttablaðið,  DV, mbl.is,  visir.is og útvarpsstöðvar.  Engin gat þess hvar málinu var "skúbbað". 

  Svona er þetta iðulega með "skúbbin" á þessari bloggsíðu.  Það er svo sem bara gaman að fylgjast með "skúbbunum" ná flugi í dagblöðum,  útvarpi og víðar.  Ég kann samt betur við það þegar fjölmiðlar geta þess hver uppgötvaði málið og vakti fyrstur athygli á því.  Annað er "stolin frétt".  Sumir gera það.  Stundum.    

  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1412501/


Sea Shepherd er ósvífið þjófahyski

sea shepherd
 
 
  Sea Shepherd eru bandarísk samtök herskárra aðgerðarsinna sem berjast gegn veiðum á hákörlum, hvölum, sel og hinu og þessu.  Víða um heim eru samtökin skilgreind sem hryðjuverkahópur.  Meðal "afreka" hópsins er að 1986 sökkti hann tveimur rammíslenskum hvalveiðibátum.    
 
  Paul Watson stofnaði Sea Shepherd 1977 í kjölfar þess að hann var rekinn úr Greenpeace.  Þar á bæ þótti hann of herskár og koma óorði á Grænfriðunga.  Fjöldi bandarískra auðmanna,  kvikmyndastjarna,  rokkstjarna og fleiri ausa peningum í Sea Shepherd.  Þeirra á meðal eru söngvari Red Hot Chili Peppers,  upptökustjórinn Rick Rubin og leikararnir Martin Sheen,  William Shatner og Daryl Hannah.  Samtökin njóta skattaívilnana í Bandaríkjunum.  Þau eiga vísan stuðning margra helstu fjölmiðla Bandaríkjanna.  Þar er hampað fegraðri mynd af Sea Shepherd; hópi hugsjónafólks í sjálfboðavinnu gegn gráðugum útlendingum sem myrða með köldu blóði af illmennsku krúttleg og gáfuð sjávardýr.  Dýr sem vilja synda frjáls um heimsins höf og eru stórtækari í áti á fiski en fiskveiðimenn.  Fiskurinn er hvort sem er heimskur.  Og hvalurinn étur selinn.   
 
sea shepherd blaðamannafundur
  Nú eru Sea Shepherd með átak í gangi í Færeyjum.  Markmiðið er - að sögn - að stöðva hvalveiðar Færeyinga.  Í morgun kynntu samtökin átakið á blaðamannafundi.  Færeyskir fjölmiðlar sýndu fundinum lítinn áhuga.  Það voru aðallega bandarískir fjölmiðlar sem mættu á svæðið.  
 
  Að morgni sunnudags safnaðist hópur Færeyinga á bryggjuna þar sem bátur Sea Shepherd liggur bundinn.  Einhverjir köstuðu kveðju á bátsverja.  Við það greip um sig gríðarleg hræðsla um borð.  Bátsverjar forðuðu sér niður í lúkar,  læstu kyrfilega á eftir sér og hringdu í mikilli geðhræringu í lögregluna.   Lögreglumenn mættu óðara og báðu menn um að hræða ekki líftóruna úr vesalingunum um borð.  Hópurinn tók vel í það.  Enda kirkjur farnar að hringja til messu.  
 
   Sama morgun komu nokkrir félagar í Sea Shepherd til Færeyja með Norrænu.  Færeyingur um borð tók eftir því að við morgunverðarhlaðborð stálu SS-liðarnir öllu steini léttara.  Þetta voru greinilega þaulvanir þjófar.  Þeir báru sig svo fagmannlega að.  Þeir fylltu heilu töskurnar af brauði,  smjöri,  áleggi o.s.frv.  án þess að nærstaddir yrðu nokkurs varir.  Aðferðin sem þjófarnir notuðu var að leggja kæruleysislega munnþurrkur yfir matvælin,  hinkra svo í smástund áður en þýfinu var laumað ásamt munnþurrkunni ofan í tösku.
 
sea shepherd A
 
 
  Færeyingurinn hnippti í borðfélaga sína og benti þeim á hvað var í gangi.  Þeir urðu svo dolfallnir af undrun yfir ósvífninni að þeir frusu;  höfðu ekki rænu á að gera neitt í málinu.  Einn tók þó að lokum ljósmynd af þjófunum.  Einn var þá farinn burt með troðfulla ferðatösku af þýfi.  
 
  Við hlið svarthærðu konunnar sést glitta í rauðan makka konu sem kom með stóra húfu á höfðinu en enga tösku.  Kella fyllti húfuna af mat.  Ef myndin er stækkuð (með því að smella á hana) þá má greina að svarthærða konan heldur í sína tösku undir borðinu.
 
  Maðurinn sem horfir á ljósmyndarann var nokkrum mínútum síðar kominn á barinn.  Þar reyndi hann að æsa fulla Færeyinga upp í slagsmál.  Færeyingarnir virtu hann ekki viðlits.   
 
  Í gær sigldu þjófarnir til Nolsoy.  Þar stálu þeir bjórflöskum úr verslun.     

Færeyingar vilja ensku í stað dönsku

 

Á allra síðustu árum hefur færeyska færst mjög hratt í átt að dönsku.  Sjónvarpinu er kennt um.  Færeyska sjónvarpið sendir út mikið af dönsku efni.  Einnig útlendu sjónvarpsefni með dönskum undirtexta.  Mikil umræða er um þetta í Færeyjum í dag.  Ný skoðanakönnun sýnir að 71% Færeyinga vill efla enskukennslu í grunnskóla á kostnað dönsku.   Inn í afstöðuna spilar að margir Færeyingar - um helmingur - aðhyllist sjálfstæði Færeyja og aðskilnað frá danska sambandsríkinu.

  Athyglisvert er að ungir Færeyingar eru mun áhugasamari um enskukennslu á kostnað dönsku.  Stuðningur 29 ára og yngri við enskuna á kostnað dönsku er 87%.  Það er einmitt yngra fólkið sem jafnframt vill aðskilnað Færeyja frá danska sambandsríkinu.

  Ein rök hinna,  sem vilja óbreytta áherslu á dönskukennslu,  benda á Ísland.  Þeir telja að það hái Íslendingum verulega að kunna hvorki dönsku né önnur norræn tungumál.  Verði að tjá sig á ensku í samskiptum við aðrar Norðurlandaþjóðir.

  Sumir ganga svo langt að vilja að áhersla á enskukennslu gangi fyrir og þýska komi þar á eftir.  Þýskumælandi eru,  jú,  næst fjölmennastir í Evrópu á eftir enskumælandi.  Danska eigi að mæta afgangi.  Færeyingar læri hvort sem er dönsku af sjónvarpsglápi og lestri danskra slúðurblaða og glanstímarita.  

  Þar fyrir utan eru Færeyingar almennt næmir fyrir erlendum tungumálum.  Ótrúlega margir þeirra tala þýsku og frönsku - til viðbótar við að vera reiprennandi í ensku, dönsku, sænsku og norsku.  Og skilja talaða íslensku.   


Ósvífin markaðseinokun

arnþrúðurutvarp saga

 

 

     Íslenski útvarps- og sjónvarpsmarkaðurinn er óheilbrigður.  Honum var og er skipt á milli 365 miðla og Ríkisútvarpsins.  Öðrum var og er haldið úti í kuldanum með slóttugheitum.  Og ósvífni.  Dæmi um það er að fyrir sjö árum - í skjóli nætur - keyptu 365 miðlar og Ríkisútvarpið í sameiningu tækjabúnað sem mælir notkun á tilteknum útvarps- og sjónvarpsstöðvum rafrænt.  Þessu næst var skoðanakannanafyrirtæki fengið til að fylgjast með því sem tækjabúnaðurinn sýnir og birta niðurstöður.

  Auglýsingastofur,  birtingahús og helstu auglýsendur byggja sínar auglýsingaherferðir á þessum niðurstöðum.  Máta markhópa við tölurnar yfir aldurshópa,  kyn,  stétt og stöðu þeirra sem hlusta á útvarp og horfa á sjónvarp.  Síðan er reiknað út snertiverð (það er hver krónukostnaður er við að ná til rétta markhópsins).

  Stóri gallinn við þetta er að tækjabúnaðurinn góði og dýri mælir aðeins hlustun og gón á sjónvarps- og útvarpsstöðvar í eigu eigenda tækjabúnaðarins.  Þar með vinna auglýsingastofur,  birtingahús og helstu auglýsendur með tölur yfir aðeins þá ljósvakamiðla.  Allar aðrar útvarps- og sjónvarpsstöðvar eru ekki með.  Þær eru dæmdar úr leik.  Þeir sem stýra auglýsingabirtingum eru ekkert að skipta sér af öðrum fjölmiðlum en þeim sem eru mældir.  

  Í fimm ár hafa forráðamenn Útvarps Sögu kvartað undan þessu við samkeppnisyfirvöld og menntamálanefnd Alþingis.  Í fimm ár hafa svörin verið á þá leið að málið sé í athugun.

  Nú bregður svo við - eftir fimm ár - að Samkeppniseftirlitið hefur fallist á að rafrænu mælingarnar - með tækjabúnaðinum góða - skekki samkeppnisstöðu, tryggi yfirburðarstöðu risanna á markaðnum og brjóti samkeppnislög.  

  Með þessum snöfurlegu viðbrögðum Samkeppniseftirlitsins (tók ekki nema fimm ár að skoða málið) er fjölmiðlakannanafyrirtækinu gert að hleypa öðrum en eigendum rafræna tækjabúnaðarins að markaðnum.     

   Hafandi unnið á auglýsingastofum til fjölda ára og stýrt mörgum auglýsingaherferðum skil ég að sumu leyti vinnubrögð auglýsenda með þessi gögn í höndunum frá fjölmiðlakannanafyrirtækinu en ekki önnur gögn.  Það er svo auðvelt að velja fyrirhafnarminnstu leiðina fremur en vinna heimavinnuna.  Að vera mataður í stað þess að leggjast í sjálfstæða rannsókn á fjölmiðlamarkaðnum.  

  Sömuleiðis:  Hafandi þekkingu á markaðnum var ég gapandi af undrun yfir því þegar bjartsýnir menn - utan 365 - réðust í það að setja upp sjónvarpsstöðvar á borð við Miklagarð og Bravó.  Það voru engar forsendur fyrir því að dæmið gengi upp.  Ekki fremur en þegar NFS stöðin var sett á laggir á sínum tíma.   

   


mbl.is 365 eignast Bravó og Miklagarð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk hljómsveit í 55. sæti

  Ég rakst á vandaðan og vel rökstuddan lista á Myspace yfir bestu goth-hljómsveitir rokksögunnar.  Tilefnið er að 22. maí er alþjóðlegi goth-dagurinn (greinin er frá 22. maí í fyrra).  Fyrirsögnin er "Frá Bauhause til Nick Cave,  heimsreisa með 80 böndum".  Í 55. sæti listans er íslenska hljómsveitin Q4U. 

  Þetta er enn ein staðfestingin á því hve Q4U er vel kynnt erlendis.   Meira má finna um það með því að smella á þessa slóð:   http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1345886/   

  Heildarlistann yfir bestu goth-hljómsveitirnar sérð þú með því að smella á þessa slóð:  https://myspace.com/discover/editorial/2013/5/22/its-a-celebration-from-bauhaus-to-nick-cave-around-the-world-in-80-goth-bands

 

ICELAND

55. Q4U

Years active: 1980–1983
Q4U, from Reykjavik, may have been influenced by U.K. punk, and a big part of the Icelandic punk scene, but they created a sound that leaned more towards post-punk. Hear their unpronounceable but fantastic track, above.


Skúbb! Rammíslenskur söngvari tilnefndur! Líka íslensk bók! Spennandi tónlistarverðlaun!

  Um næstu helgi,  nánar tiltekið laugardaginn 15.  mars,  verður opinberað - við hátíðlega athöfn í Norræna húsinu í Þórshöfn - hverjir uppskera verðlaun í Færeysku tónlistarverðlaununum,  Faroe Music Awards 2014 (FMA),  fyrir frammistöðu sína 2013.   Íslenska ríkisútvarpið og Stöð 2,  svo og flestar íslenskar útvarpsstöðvar verða með beina útsendingu frá hátíðarhöldunum.   Það hlýtur að vera.  Færeyingar eru okkar nánustu frændur.  Fjöldi færeyskra tónlistarmanna á fjölmenna aðdáendahópa hérlendis.  Þar fyrir utan eru bæði íslenskur söngvari og íslensk bók tilnefnd hægri - vinstri.  Á næsta ári - eða fljótlega þar á eftir - verða Íslensku tónlistarverðlaunin og Færeysku tónlistarverðlaunin sameinuð í eitt.  Það liggur beinast við. Enda eru flestir færeysku tónlistarmennirnir sem eru tilnefndir á leið til Íslands í hljómleikaferð.  Allt frá kántrýboltanum Halli Joensen til dómsdagsrokkaranna Hamferðar og Lailu av Reyni.  Og allt þar á milli. 

  Atkvæði 15 manna dómnefndar gilda 50% á móti sms-atkvæðum almennings.  Kosið er á milli eftirfarandi:

Flytjandi ársins (einstaklingur eða hljómsveit):
Eivør
Bendar Spónir
Kvartettin í Betesda

Plata ársins:
Motion/Emotion – Sunleif Rasmussen
Skrímslið, lítla systir mín - Eivør
Hvussu bendir man spónir - Bendar Spónir

Lag ársins:
Lurta nú – Eivør
Motion/Emotion – Sunleif Rasmussen
Hin nýggi sangurin – Bendar Spónir

Nýliði ársins:
Byrta
Døgg Nónsgjógv
Greta Svabo Bech
The Absent Silver King
LoverLover
Flamma
Allan Tausen

Laila av Reyni
Jákup Lützen

  Guðríð Hansdóttir og Janus Rasmussen stofnuðu Byrtu á Íslandi.  Janus er einnig í Bloodgroup.  Guðríð á að baki farsælan sólóferil.  Gott er að kunna að nafn hennar er framborið Gúrí (og nafn Eivarar er framborið Ævör).    

  Laila av Reyni er þekktur fatahönnuður, stílisti og söngkona.  Hún hefur m.a. ítrekað hannað föt fyrir dönsku dömurnar sem keppa í Miss World.  Fyrsta sólóplata hennar kom út í fyrra.  Laila verður með hljómleika á Íslandi eftir nokkrar vikur.   

Poppsöngvari ársins:

Teitur
Høgni Reistrup
Knút
Jens Marni
Hallur Joensen

  Knút er hátt skrifaður söngvahöfundur, söngvari og hljómborðsleikari.  Hann var í fyrstu hljómsveit Eivarar,  Reverb.

Poppsöngkona ársins:
Greta Svabo Bech
Guðrið Hansdóttir
Guðrun Pætursdóttir Háberg
Døgg Nónsgjógv
Laila Carlsen

  Guðríð hefur tvívegis búið til lengri tíma á Íslandi.  Hérlendis hefur hún komið fram á ótal hljómleikum.

Poppplata ársins:
Byrta – Byrta
Story Music – Teitur
Undirgangstónar – Swangah
Áðrenn vit hvørva – Høgni Reistrup
With Stars & Legends – Hallur

  Högni naut vinsælda hérlendis með lagið "Besame Mucho" fyrir nokkrum árum.

Popplag ársins:
Loyndarmál – Byrta
Tú tók mína hond – Døgg Nónsgjógv
Shut Up & Sing – Greta Svabo Bech
Rock And Roll Band – Teitur
Heyah – Allan Tausen

  Teitur er í hópi heimsfrægustu Færeyinga.

Popphljómsveit eða -einstaklingur ársins:
Byrta
Teitur
Greta Svabo Bech
Høgni Reistrup
Swangah

  Greta Svabo er enn ein sönnun þess hvað Færeyingar eru öflugir lagahöfundar.  Í fyrra var hún stödd í enskri fatabúð.  Þá hringdi síminn.  Hringjandinn kynnti sig sem starfsmann bandarísku söng- og leikkonunnar Cher.  Erindið var að Cher hefði kolfallið fyrir lagi sem hún heyrði með Gretu Svabo.  Cher væri búin að hljóðrita lagið.  Spurningin væri hvort að hann mætti spila lagið í flutningi Cher fyrir Gretu og hvort að það væri reiðulaust af hennar hálfu að það yrði á næstu plötu Cher.  Greta sá ekki ástæðu til að amast við því. Reyndar hélt hún fyrst að einhver væri að stríða sér.  Þetta var svo óvænt og súrrealískt. En hún þekkti strax söngrödd Cher og þetta var raunveruleiki.  Platan kom út og flaug í 1. sæti bandaríska vinsældalistans og víðar.  Ekkert annað færeyskt lag hefur náð því að vera á plötu í toppsæti almenna bandaríska vinsældalistans. 



---

Flokkur jaðartónlistar (þungarokk,  djass og vísnasöngur)


Söngvari ársins:

Kári Sverrisson
Jón Aldará
Høgni Lisberg

  Högni Lisberg hefur átt fjölda vinsælla laga á Íslandi.  Þar á meðal "Morning Dew" sem náði toppsæti vinsældalista Rásar 2.  Hann hefur margoft spilað á Íslandi.  Bæði sem sólósöngvari og eins sem trommuleikari hjá Eivöru. 



Hljómsveit ársins:
Týr
Hamferð
Kári Sverrisson & Bendar Spónir

  Týr sló rækilega í gegn á Íslandi 2002 með laginu "Ormurin langi".  Alla tíð síðan hefur Týr átt hér harðsnúinn hóp aðdáenda.  Hljómsveitin er vinsæl um allan heim í dag.



Plata ársins:
Valkyrja – Týr
Evst – Hamferð
Nøkur fá fet aftrat – Kári Sverrisson & Bendar Spónir

  Hamferð sigraði í færeysku Músíktilraunum 2011.  Síðan hefur hljómsveitin túrað víða um heim.  Meðal annars til Íslands (spilaði til að mynda á Eistnaflugi) 2012. 

Lag ársins:
Stóra lívmóðurin – Kári Sverrisson & Bendar Spónir
Þokan – Marius og Svævar Knútur
Nation – Týr

  Þetta er í fyrsta skipti sem rammíslenskur tónlistarmaður hlýtur tilnefningu í Færeysku tónlistarverðlaununum.  Það er Svavar Knútur.  Maríus hefur oft komið til Íslands og líklega komið fram á hátt í 20 hljómleikum hérlendis.


  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband