Færsluflokkur: Lífstíll
14.4.2016 | 21:36
Sá svalasti
Enski gítarleikarinn Keith Richards er einn svalasti töffari rokksögunnar. Það eru ekki meðmæli út af fyrir sig. Þannig lagað. En í tilfelli Keiths er það heillandi. Þegar ég sé forsíðuviðtal við hann í poppblöðum þá kaupi ég þau. Vitandi um að góðan skemmtilestur er að ræða. Gullmolarnir velta upp úr honum. Óviljandi ekki síður en viljandi. Hann lætur allt flakka. Hvort heldur sem er um félaga sína í Rolling Stones, aðra tónlistarmenn eða sjálfan sig. Stundum reynir hann klaufalega að fegra sinn hlut. Jafnan leiðréttir hann það síðar. Dæmi: Það rataði í heimsfréttir er hann slasaðist við að klifra í tré fyrir nokkrum árum.
Til að byrja með sagðist hann hafa dottið niður úr trénu. Svo fór að hann dró það að hluta til baka. Sagðist hafa í raun flækst í lággróðri, runnaþyrpingu, fælst, lent í áflogum við hríslurnar og slasast. Hann snöggreiddist. Barðirst um á hæl og hnakka með þeim afleiðingum að bein brákuðust. Hann skammaðist sín svo mikið fyrir að hafa farið halloka í áflogum við trérunna að fyrstu viðbrögð voru að segjast hafa dottið úr tré.
Eins þegar hann missti út úr sér að hafa tekið öskuna af föður sínum í nefið. Blaðafulltrúar Rolling Stones kepptust í kjölfarið við að upplýsa að þar hafi verið um óhappaverk að ræða en ekki ásetning. Kauði missti öskuna fyrir klaufaskap ofan í síðasta kókaín-skemmtinn sem hann átti þann daginn. Það var ekki hægt að greina öskuna frá kókaíninu undir þeim kringumstæðum. Ekki var um annað að ræða en sniffa öskuna með. Síðar upplýsti Keith að einungis hluti öskunnar hafi blandast kókinu. Hann hafi þess vegna aldrei tekið alla öskuna af pabba sínum í nefið.
Til eru ótal brandarar um Keith. Einn slíkur hermir að einungis kakkalakkar og hann lifi af kjarnorkuárás. Er þá vísað til lífernis hans sem dópista og drykkjubolta. Neyslufélagar hans hafa fallið frá hver á fætur öðrum. En Keith er alltaf sprækur. Miðað við allt og alla ber hann aldur vel. Að vísu er andlitið rúnum rist og fingurnir orðnir hnúóðttir og snúnir eins og roð í hundskjafti.
Í gær hlustaði ég á síðustu sólóplötu kappans. Hún er nokkuð góð og skemmtileg. Þar krákar hann sitthvort lagið eftir jamaísku reggí-stjörnuna Gregory Isaacs (Love Overdue) og bandaríska þjóðlaga-blúsistann Leadbelly (Goodnight Irene). Virkilega flott. Frumsömdu lögin eru líka alveg ljómandi flott.
![]() |
Klæðist gjarnan fötum eiginkonunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt 21.1.2017 kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
9.4.2016 | 20:03
Og þá voru eftir níu
Stöðugt bætist við í hóp forsetaframbjóðenda. Líka í hóp þeirra sem kallað er eftir að fari í framboð. Um þessar mundir stefnir í að frambjóðendur verði um eða yfir tuttugu. Eru þá frátaldir tveir sem hafa hætt við framboð. Fyrst var það riddari drottins, Árni Björn. Síðan riddari heilbrigðs lífstíls, Þorgrímur Þráinsson, baráttumanns gegn sígarettum og að mæður horfi ekki í augu nýfæddra barna við brjóstagjöf.
Fleiri eiga eftir að heltast úr lestinni. Ástæðan er þríþætt: Í fyrsta lagi vegna skorts á úthaldi. Það kostar mikla elju og mikinn tíma að standa í framboði af fullri alvöru.
Í öðru lagi fellir peningaskortur frambjóðendur. Það þarf lágmark 10 - 15 milljónir króna til að eiga möguleika á árangri. Tvöfalt hærri upphæð ef frambjóðandinn er ekki þegar landsfrægur. Þegar nær kjördegi líður mun þessi staðreynd blasa við frambjóðendum.
Í þriðja lagi eru það meðmælendur. Hver frambjóðandi þarf lágmark 1500 meðmælendur. Reynslan hefur sýnt að nauðsynlegt er að skila inn nöfnum 3000 meðmælenda. Á síðustu fjórum áratugum hafa að minnsta kosti tvö framboð verið felld úr leik vegna ófullnægjandi meðmælalistam - þrátt fyrir að hafa skilað inn 3000 undirskriftum.
Það sem platar marga er að einungis fólk með kosningarétt má mæla með framboði. Undirskrift yngra fólks er ógild.
Annað vandamál er að á flestum meðmælendalistum slæðast með undirskriftir grínara. Af raunverulegum dæmum um slíkt má nefna undirskrift "Karlsins í tunglinu" og "Andrésar Andar". Einnig ósamræmi í kennitölum og lögheimili. Svo og að einungis má mæla með einum frambjóðanda. Það verður stóra vandamálið í ár.
Framboð tuttugu sem skila inn undirskrift 3000 meðmælenda hver þýðir að við erum að tala um undirskrift 60 þúsund manna. Það gengur ekki upp. Þeir sem verða seinir til að fá meðmælendur lenda í vandræðum. Þegar til kastanna kemur verður fjöldi frambjóðenda nær einum tug en tveimur. Í dag hefur aðeins Sturla Jónsson náð 3000 meðmælendum. En það er ekki öll nótt úti fyrir aðra áhugaverða frambjóðendur. Slagurinn er rétt að byrja.
![]() |
Þorgrímur hættur við framboð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt 10.4.2016 kl. 17:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.4.2016 | 16:49
Vilji þjóðarinnar
Frá því löngu fyrir síðustu alþingiskosningar hafa háværar raddir hrópað eftir því að Sigurður Ingi Jóhannsson verði leiðtogi þjóðarinnar. Á þessar raddir var lengi vel aldrei hlustað af þeim sem fóru með æðstu völd. Röddunum fjölgaði og létu hærra í sér heyra. Að lokum söfnuðust 22.427 manns saman niður á Austurvelli í gær og hrópuðu í kór eftir leiðtoga lífs síns: "Við viljum Sigurð Inga Jóhannsson dýralækni! Við viljum Sigurð Inga Jóhannsson dýralækni!" Nú hefur þeim orðið að ósk sinni. Ráðandi öfl létu undan þrýstingnum. Sigurður Ingi er orðinn kóngur.
Samkvæmt skoðanakönnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins nýtur hann trausts alveg 3% þjóðarinnar (og Fiskistofu). Það skiptir máli.
![]() |
Sigurður Ingi taki við af Sigmundi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt 6.4.2016 kl. 06:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
20.3.2016 | 21:57
Íslenska lopapeysan
Fátt er íslenskara en íslenska lopapeysan. Ullarpeysa prjónuð af alúð og ástríðu með rammíslenskum höndum. Prjónuð úr rammíslenskri ull af rammíslenskum kindum. Prjónuð með rammíslensku tvílitu mynstri. Þröngt hálsmál er einkenni og lykill að því að hún haldi góðum hita á kroppnum í norðangarranum. Hún er stolt Íslands, skjöldur og sverð.
Vegna góðs orðspors, vinsælda og virðingar íslensku ullarpeysunnar er góður hrekkur að smána ómerkilega útlendinga með því að gefa þeim ljóta og kjánalega fjöldaframleidda kínverska ullarpeysu. Ljúga í þá að þetta sé íslensk ullarpeysa. Niðurlæging þiggjandans er trompuð með alltof stóru hálsmáli. Honum er sagt að klæða sig í peysuna eins og pilsi: Fara fyrst með fætur ofan í hálsmálið og hífa hana síðan upp um sig. Aðalbrandarinn er sá að þiggjandinn fatti ekki að verið sé að hafa hann að fífli. Það er endalaust hlegið að vesalingnum.
Lífstíll | Breytt 16.1.2017 kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
15.3.2016 | 10:09
Skelfilega ljót veggjakrot
Um daginn birti ég á þessum vettvangi ljósmyndir af nokkrum skemmtilegum dæmum um sláandi falleg götulistaverk. Það má sannreyna með því að smella HÉR. Því miður eiga ekki allir veggjakrotarar því láni að fagna að hafa hæfileika til að skapa falleg listaverk. Færeyingar fengu það staðfest í vikubyrjun. Þá vöknuðu Þórshafnarbúar upp við vondan draum. Umhverfissóði hafði um nóttina krotað á veggi, glugga og bíla nöfn og slagorð. Allt mjög illa gert.
Grunur leikur á að um útlending sé að ræða. Hugsanlega frá Bronx í New York. Ljósi punkturinn er að sóðinn virðist hafa horn í síðu SS-hryðjuverkamannsins Páls Watsons. Hér eru sýnishorn af krotinu.
Einn ljóður af mörgum við svona veggjakrot er að það hefur áráttu til að espa bjána upp í að herma eftir. Það henti í Færeyjum strax um morguninn.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.3.2016 | 12:53
Sláandi flott götulistaverk
Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman. Hann þarf einnig að næra sálina. Til þess höfum við listamenn. Fólk með sköpunargáfu. Til að mynda myndlistamenn. Þar á meðal götulistamenn. Þeir sjá efnivið í listaverk þar sem aðrir sjá aðeins gráan hversdagsleika, hrörleg og ómerkileg hús, sprungna veggi eða tré í órækt.
Sjón er sögu ríkari. Hér eru nokkur dæmi. Ekkert hefur verið átt við þessar ljósmyndir í fótósjopp. Smellið á myndirnar til að njóta listaverkanna betur.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.3.2016 | 21:33
Ölgerð á dauðalista sýndi Færeyingum fádæma hroka
Það fer ekki öllum vel að fara með völd. Eitt ljótasta dæmi þess var framkoma forstjóra Ölgerðarinnar, Andra Þórs Guðmundssonar, í garð bestu og traustustu vina Íslendinga, Færeyinga. Fyrir nokkrum árum sendi hann færeyskum bjórframleiðanda, Föroya Bjór, fádæma hrokafullt bréf. Krafðist þess með ruddalegum hótunum að Föroya Bjór hætti að merkja gullbjór sinn sem gullbjór. Þetta ósvífna erindi var svo yfirgengilegt að það þjónaði engum tilgangi öðrum en kitla stórmennskubrjálæði/minnimáttarkennd forstjóra fyrirtækis á dauðalista. Hann fann þörf til að sparka í minnimáttar og réðst á garðinn þar sem hann var lægstur.
Viðbrögð Íslendinga við ógeðslegri og yfirgengilegri framkomu Ölgerðarinnar við færeyska vini voru til fyrirmyndar. Þeir skiptu snarlega innkaupum frá Gull-gutli Ölgerðarinnar yfir til bragðgóða Föroya Bjór Gullsins. Svo rækilega að síðarnefndi bjórinn flaug upp sölulista vínbúðanna. Áður fékkst hann aðeins í örfáum vínbúðum. Salan jókst um 1200%. Nú er hann í öllum vínbúðum. Eða svo gott sem. Enda mun betri en Ölgerðarsullið. Margir hættir að kaupa allar aðrar vörur Ölgerðarinnar.
Það fráleita í hrokafullu frekjukasti forstjóra Ölgerðarinnar var að Föroya Gull hefur verið miklu lengur á markaði en Ölgerðar-gutlið. Þar fyrir utan er Gull alþjóðleg lýsing á tilteknum bjórflokki. Alveg eins og pilsner eða stout bjór. Já, eða "diet" á öðrum vörum. Það var engin innistæða fyrir heimskulegri yfirgangskröfu Ölgerðarinnar. Hún gerði ekki annað en opinbera illt innræti og hroka forstjórans.
Höfum þetta í huga við helgarinnkaup á bjór og öðrum drykkjum. Ekki kaupa neitt frá Ölgerðinni. Kaupið þess í stað hágæða Föroya Gull.
Ég tek fram að ég tengist ekki Föroya bjór á neinn hátt. Hinsvegar er brýnt að halda þessu til haga þegar Ölgerðin fer á markað. Hugsanlegir væntanlegir kaupendur þurfa að vita þetta. Fyrirtækið er í vondri stöðu með forstjóra sem kann ekki mannasiði.
![]() |
Vissu af dauðalistanum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt 11.3.2016 kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
9.3.2016 | 09:33
Útlendir ferðamenn á Íslandi éta ekki hvað sem er
Í ár koma hátt í tvær milljónir erlendra ferðamanna til Íslands. Þeir eru ekki í leit að alþjóðlegum skyndibitastöðum á borð við McDonalds, Burger King, Subway, KFC, Dominos eða Taco Bell. Þessa staði finna þeir heima hjá sér. Ör fjölgun túrista á Íslandi skilar sér ekki í kaupum á ruslfæði samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Þvert á móti. Það þrengir að þessum stöðum. Gott dæmi um það er að Subway á Ísafirði gaf upp öndina á dögunum. Einmitt í kjölfar túristasprengju á Vestfjörðum.
Útlendir ferðamenn á Íslandi vilja smakka eitthvað nýtt og öðruvísi. Þeir prófa kæstan hákarl, hangikjöt, svið, lifrarpylsu og ýmsa spennandi sjávarrétti. Nú er lag fyrir veitingastaði að bjóða upp á íslenskan heimilismat: Kjötsúpu, plokkfisk og sveitabjúgu. Svo að ekki sé minnst á grillað lambakjöt, kótelettur (án rasps!) og lambalæri með brúnni sósu, Ora grænum og rauðkáli. Íslenska lambakjötið er best í heimi (á eftir færeyska skerpikjötinu). Við eigum að fóðra túrista á því. Svo vel og rækilega að þeir verði háðir því. Það styrkir útflutning á kjötinu.
Á spjalli mínu við erlenda ferðamenn hef ég uppgötvað undrun þeirra yfir því að Íslendingar borði heita sósu með flestum mat. Þeir eiga öðru að venjast.
![]() |
Ferðafólki boðið lambakjöt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt 10.1.2017 kl. 18:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
2.3.2016 | 07:03
Ekkert rugl hér!
Í gær kom ég við á bókasafni. Þar hitti ég Skagfirðing. Við hófum umsvifalaust að skrafa saman. Á borðinu fyrir framan okkur lágu dagblöð og tímarit. Bar þá að roskna konu sem haltraði til okkar. Hún spurði hvort að við værum með laugardags-Moggann. Skagfirðingurinn greip upp blað, rétti að konunni og sagði: "Nei, en hérna er Sunnudags-Mogginn."
Konan tók - eins og ósjálfrátt - við blaðinu. Í sömu andrá var líkt og hún brenndi sig. Hún þeytti blaðinu eldsnöggt á borðið, hnussaði og hreytti með hneykslunartóni út úr sér um leið og hún strunsaði burt: "Ég ætti nú ekki annað eftir en fara að lesa blöðin í vitlausri röð!"
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.2.2016 | 19:12
Náðargáfa að tala tungum
Í kristni er vel þekkt sú náðargáfa að tala tungum. Heittrúaðir og sannkristnir í góðu og nánu sambandi við almættið tala þá ósjálfrátt, viðstöðulaust og án vandkvæða tungumál sem þeir kunna ekki. Um þetta eru áhugaverðar frásagnir í Biblíunni.
Víkur þá sögu að Svavari Sigurðssyni. Hann hefur í áratugi barist gegn fíkniefnadjöflinum. Á síðustu öld var hann viðmælandi Eiríks Jónssonar á Stöð 2 og talaði tungum. Það var áhrifaríkt - þó að hvorki hann né sjónvarpsáhorfendur skildu hvað hann sagði.
Lögreglan í Reykjavík hefur sagt frá kynnum af karlmanni sem talaði tungum við ljósastaur í Grafarvogi. Næsta víst er að þar var um mikilvægan boðskap að ræða. Vegna tungumálavanþekkingar lögreglunnar fáum við aldrei að vita hver hann var.
![]() |
Talaði tungum í Grafarvogi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt 30.12.2016 kl. 17:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)