Færsluflokkur: Lífstíll

Smásaga - örsmá

Það er úrslitaleikur í meistaradeild:  Leikmaður brýtur gróflega á leikmanni hins liðsins.  Dómarinn hleypur til hans,  sýnir gula spjaldið og hrópar með flautandi blæstri:  "Hví-í, hvá-á, hvo-o, hvo-o, hví-í, hví-í!"  Leikmaðurinn hrópar reiðilega:  "Ég skil ekki orð af því sem þú ert að segja!"  Sá sem brotið var á hrópar á móti:  "Þú myndir nú líka tala svona ef að dómaraflauta hefði hrokkið oní kok á þér!

---------------------------------

Fleiri smásögur HÉR

 


mbl.is „Sprengjan“ dregur dilk á eftir sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baðfatatískan - áríðandi að fylgjast með

baðföt e

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Sumarið er handan horns.  Það eru hlýindi framundan á Fróni.  Sólbaðsveður um land allt.  Blessuð sólin elskar allt og allt með kossi vekur.  Nú er tímabært að huga að sólbaðsfötunum.  Enginn vill láta grípa sig í baðfötum sem eru komin út tísku og þykja hallærisleg.  Hvað segir tískan?  Kvikmyndin Borat eftir breska leikarann Sacha Baron Cohen innleiddi djarfa sundbolstísku fyrir karlmenn.  Kosturinn við hana er að hún er efnisrýr og kostar þess vegna ekki mikil fjárútlát.

baðföt Borat

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Sundbolur Borats hefur haft mótandi áhrif á baðfatatísku kvenna.  Til að hlífa geirvörtum frá því að sólbrenna og brjóstunum að sveiflast um of - þegar hlaupið er eins og fætur toga út í buskann - er konusundbolurinn efnismeiri.  Þar með líka dýrari.  Það er í stíl við að allar vörur ætlaðar konum eru miklu dýrari en karlavörur.  Karlar láta ekki okra á sér.  

baðföt a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

   

 

 

 

 

 

 

 

 

  Sumum körlum finnst þeir vera of berskjaldaðir í Borat-sundbol - en vilja samt hlífa geirvörtunum við því að sólbrenna.  Þá er ráð að fá sér bikiní.  Best er að hafa það bleikt til að líkjast húðlit.  Þannig fer lítið fyrir því.

baðföt f

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Gamla góða sundskýlan er alltaf vinsæl hjá körlum.  Enda hafa sumir átt hana alveg frá því í skólasundi barna.  Ef hún er týnd má smeygja sér í stuttu nærbuxurnar.  Það sér enginn muninn.

baðföt - nærbuxur

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Klassíski sundbolurinn býður upp á ýmsa möguleika.  Nú til dags er auðvelt að prenta allskonar myndir á tau.  Til að mynda teikningu af innyflum.  Hún kennir gestum og gangandi líffræði.

baðföt sundbolur m innyflum

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Einliti sundbolurinn nýtur alltaf vinsælda.

baðföt sundbolur       


mbl.is Bongó í kortunum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar kunna sig í útlöndum

  Forsætisráðherra Íslands,  Sigurðar Inga Jóhannssonar, og forsætisráðherrafrú Íslands, Ingibjörg Elsa Ingjaldsdóttir, mættu glöð og reif í partý hjá Hussein forseta Bandaríkja Norður-Ameríku.  Í fyrirsögn af partýinu segir í málgagni kvótaaðalsins að forsætisráðherrafrúin hafi mætt í buxum.  

  Eðlilega er það stóra fréttin í Mogganum að konan hafi óvænt ekki mætt buxnalaus í partýið.  Mér þykir það hinsvegar vera svo eðlilegt og við hæfi að ég er hættur við að skrifa ósmekklegt blogg um þetta. Ég styð 100% þá djörfu ákvörðun Ingibjargar Elsu að vera ekki að væflast buxnalaus um Hvíta húsið í Washington.  Ekki viljum við að hún fái blöðrubólgu. 

john and yoko


mbl.is Forsætisráðherrafrúin mætti í buxum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í mál fyrir að leiðast í vinnunni

í vinnunni

 

 

 

 

 

 

 

 

  44 ára franskur karlmaður hefur höfðað mál á hendur fyrrverandi vinnuveitanda sínum.  Kæran gengur út á það að manninum leiddist í vinnunni.  Hann vann hjá ilmvatnsframleiðanda í París.  Of lítils var krafist af honum.  Honum var sjaldan sem aldrei úthlutað nægilega mörgum verkefnum.  Hálfu dagana hafði hann ekkert fyrir stafni;  sat bara og starði út um glugga,  fletti ómerkilegum slúðurtímarit og sötraði kaffi.  Bara til að láta tímann líða.  Hann kann ekki á samfélagsmiðla á borð við Fésbók,  Twitter,  blogg eða slíkt.  Hann langar ekkert að hanga í tölvu.  Honum þykir leiðinlegt að blaðra í síma.  Fátt var til bjargar sem stytti honum stundir.  

  Lögmaður fyrirtækisins undrast kæruna.  Enginn kannist við að maðurinn hafi nokkru sinni gert athugasemd við vinnu sína.  Enginn varð var við að honum leiddist.  En hann er neikvæða týpan.  Finnur alltaf dökkar hliðar á öllum hlutum.  Kvartaði yfir vondu kaffi,  drykkjarvatn væri ekki nógu kalt og þess háttar.  Reyndar játa vinnufélagarnir að þeir hafi verið uppteknari við að sinna krefjandi vinnunni en fylgjast náið með manninum.  


Af hverju eru rauðhærðir unglegri en aðrir? Gátan leyst

rauðhærðrauðhærð c

 
  Allir hafa tekið eftir því að rauðhært fólk eldist hægar en aðrir.  Fram eftir öllum aldri lítur það út eins og unglingar.  Nú hefur þetta verið rannsakað.  Niðurstaðan staðfestir að þetta sé tilfellið svo um munar.  Rauðhærðir eru mælanlega unglegri en jafnaldrar þeirra.  Ástæðan er/u gen.  Gen rauðhærðra eru forrituð þannig.  Þar spilar margt inn í.  Svo sem að húð rauðhærðra framleiðir D-vítamín í sól miklu hraðar en annarra.  D-vítamínið kemur af stað öflugri upptöku líkamans á kalki.  Hún skilar sterkari tönnum, hári, nöglum og betri húð sem meðal annars eldist hægar,  svo fátt eitt sé nefnt.  D-vítamín sem sólin framleiðir á húðinni er mun kröftugra en D-vítamín sem fæst með inntöku (til að mynda lýsis).    

  Vísindaleg rannsókn framkvæmd af háskóla í Frakklandi sýnir að aðdráttarafl rauðhærðra á skemmtistöðum er afgerandi meira en annarra.  Aðrar rannsóknir - líka á dýrum - staðfesta að góð D-vítamín staða er segull á hitt kynið.    

  Rauðhærðir Bretar eru 1%.  4% forstjóra í Bretlandi eru rauðhærðir.  Þetta þýðir að rauðhærðir eru fjórum sinnum líklegri til að ná toppstöðu á vinnumarkaði en aðrir.  Eldri rannsókn leiddi í ljós að rauðhærðir eru meiri töffarar en aðrir.  Eða þannig.  Uppátækasamari,  kjaftforari og áræðnari.  Hærra hlutfall þeirra er "rebels" (uppreisnargjarnir).  Þar fyrir utan er rautt hár flott.

  Færeyska sjálfstæðishetjan Þrándur í Götu var fagurrauðhærður og dæmigerður sem slíkur.  Sá lét ekki Noregskonung vaða yfir Færeyinga á skítugum skóm með skattheimtu eða annan yfirgang.  Það er ekki tilviljun að konungur pönksins,  Bretinn Johnny Rotten (Sex Pistols), er sömuleiðis fagurrauðhærður.  Hans kjaftfora uppreisnarframkoma er dæmigerð fyrir rauðhærða.  Sem hann svo kryddar með góðri kímni.      

  Það væri fróðlegt að skoða árangur rauðhærðra í músík eða leiklist. Þekkt er  hljómsveitin Simply Red,  kennd við rauðhærða söngvarann.  Hvað með Eirík Hauksson og Pál Rósinkrans?  Eða Dortheu Dam og Axl Rose? Eða Ágústu Evu og Sögu Garðarsdóttur? Ómar Ragnarsson og Jón Gnarr?  

rauðhærð d

    


Svona matreiðir þú besta lambalæri í heimi

  Svokallaður skyndibiti (fast food) er einnig kallaður ruslfæði (junk food).  Réttilega.  Það þarf enga sérfræðikunnáttu í heilsu- og næringarfræði til að átta sig á því.  Til er brosleg bandarísk heimildarkvikmynd um þetta. Hún heitir Supersize me.  

  Andstæða skyndibitans er hægeldun (slow food).  Vandamálið er að fólk almennt kann ekki hægeldun.  Það stillir hita á of háa tölu.  Sama hvort er um að ræða eitthvað í potti eða á pönnu og þó einkum það sem er eldað í ofnskúffu.

  Tökum lambalæri sem dæmi.  Kúnstin við bragðbesta lambalæri er að rispa grunnt netmunstur á yfirborð þess. Ekki má rista ofan í sjálft kjötið.  Síðan er lærinu komið fyrir í ofnskúffu.  Salti, pipar og sítrónusafa er nuddað frekjulega ofan í rispurnar.  Olíu er penslað yfir.  Rósmarin og hvítlauksrifjum er plantað í óhófi yfir og undir lærið.  

  Í ofnskúffuna er hellt úr kældri hvítvínsbelju þannig að fljóti upp að börmum.  Í fallegt hvítvínsstaup er einnig hellt hvítvíni.  Það er sötrað og hellt í aftur og sötrað.  Fólk finnur á sér hvað oft þarf að endurtaka þetta.

  Til að halda safa í kjötinu þarf að þekja með steikarfilmu (eða álpappír) allt sem stendur upp úr hvítvínsleginum.  Skúffunni er stungið lipurlega inn í ofninn.  Hitinn stilltur á 78 - 80°.  Enginn má skipta sér af ofninum næstu klukkutíma. Best er að þykjast ekki sjá hann.  

  Að 14 klukkutímum liðnum er stokkið óvænt að ofninum,  hann opnaður og steikarfilmunni svipt burt með svo hröðum handtökum að líkist galdri.  Hitinn er aukinn í 187 - 190°.  Þannig standa mál í næstu 47 mínútur (þetta er trix til að fá ysta lag lærisins til að brúnast og herðast lítið eitt).  Á meðan er rifjað upp dæmið með að sötra hvítvín,  fá sér aftur í glas,  halda áfram að sötra o.s.frv.

  Lokahnykkurinn felst í því að merja (nú) mjúk hvítlauksrifin ofan í rispurnar á lærinu. Soðið má (það er ekki skylda) nota í bestu sósu sem til er.  Bragðbetra lambalæri færð þú aldrei og hvergi.

  Það er líka upplagt að endurtaka þetta stundum án lambalæris.   

lamb

      

   

   

         


Matvöruverslun án afgreiðslufólks

síld í amsterdam

 

 

 

 

 

 

 

 

  Í Amsterdam er margt að sjá.  Hægt er að læra af sumu.  Til að mynda eru síldarflök seld í vögnum samskonar pylsuvögnum.  Kosturinn við síldarvagna er að þar þarf ekki pott til að hita mat í né rafmagn. Síldarflakið er þverskorið í hæfilega munnbita.  Það er ýmist afgreitt lagt á bréf eða í pylsubrauði.  Sósur,  laukur,  súrsaðar gúrkur og eitthvað fleira er hægt að sulla á.  Þetta er eðlilega vinsælt. Síld er holl.  Pylsan ekki.

  Í Amsterdam rakst ég inn í matvöruverslun án sjáanlegrar afgreiðslumanneskju. Ekkert annað starfsfólk sást heldur. Þó má ætla að einhverjir vinni á lager og við eftirlit.  Viðskiptavinir afgreiða sig sjálfir.  Skanna vörurnar inn og borga með korti. 

  Klárlega er töluverður launasparnaður við þetta fyrirkomulag.  Spurning hvernig svona verslun er varin gegn þjófnaði.  Það hljóta að vera öflugar þjófavarnir við útganginn.  Ef þetta gefst vel þá er næsta víst að þetta breiðist út um allan heim.  Hver verður fyrstur til að innleiða þetta á Íslandi?  Ekki Kaupfélag Skagfirðinga.     

  Í S-Kóreu er annar háttur hafður á.  Þar er matvöruverslun ósköp hefðbundin á að líta.  Þegar betur er að gáð þá eru engar vörur í hillum. Þess í stað eru myndir af vörunum.  Viðskiptavinurinn ýtir á myndir af þeim vörum sem hann vill kaupa.  Samstundis smalast vörurnar saman inni á lager.  Síðan koma þær á færibandi í poka eða pokum fram á afgreiðsluborðið.  Þarna er rýrnun vegna þjófnaðar 0%.  Hér er ljósmynd úr þannig búð:

s-kóresk matvöruverslun           


Nakið starfsfólk og viðskiptavinir í London

nekt

 

 

 

 

 

 

 

 

   Innan skamms býðst Íslendingum í London að snæða kviknaktir á veitingastað.  Annarra þjóða kvikindum líka.  En einkum höfðar þetta til Íslendinga.  Grunar mig.  Starfsfólk staðarins verður einnig klæðalaust.  Samt ekki starfsfólk í eldhúsi.  Það er fyrst og fremst til að forðast slys með sjóðheitan mat.  Líka af hreinlætisástæðum.  Gestir sjá hvort sem er ekki inn í eldhúsið.  Þeir upplifa aðeins nekt hvert sem litið er.  

  Gestir fá ekki að hafa með sér neina hluti. Hvorki farsíma,  úr né skartgripi.

  Hugmyndafræðin á bak við veitingastaðinn er sú sama og með nektarnýlendur og nektarhjólreiðar:  Frelsi.  Jafnframt að vera í snertingu við náttúruna.  Allar innréttingar og áhöld eru sem náttúrulegust.  Ekkert plast,  engir málmhlutir.  Ekkert rafmagn.  Borð verða aðgreind með bambustjöldum.  Svigrúm til að góna mikið á ókunnuga á næstu borðum er þannig takmarkað.  Þetta er ekki staður fyrir perra.  Hinsvegar er staðurinn upplagður fyrir vinnufélaga til að styrkja móralinn og hrista hópinn saman.   

  Staðurinn verður opnaður eftir rúman mánuð.  Þegar er byrjað að taka við borðpöntunum.  Þrátt fyrir töluverða gagnrýni og efasemdir liggja fyrir bókanir 16 þúsund gesta.  Aðallega Íslendinga - giska ég á.  Þó getur verið að þetta sé blandaður hópur.  Óljóst er hvort að 365 miðlar eigi hlut í veitingastaðnum. Kannski bara í öllum hinum veitingastöðum í hverfinu.    


Sá svalasti

  Enski gítarleikarinn Keith Richards er einn svalasti töffari rokksögunnar.  Það eru ekki meðmæli út af fyrir sig.  Þannig lagað.  En í tilfelli Keiths er það heillandi. Þegar ég sé forsíðuviðtal við hann í poppblöðum þá kaupi ég þau. Vitandi um að góðan  skemmtilestur er að ræða. Gullmolarnir velta upp úr honum. Óviljandi ekki síður en viljandi. Hann lætur allt flakka.  Hvort heldur sem er um félaga sína í Rolling Stones,  aðra tónlistarmenn eða sjálfan sig.  Stundum reynir hann klaufalega að fegra sinn hlut.  Jafnan leiðréttir hann það síðar.  Dæmi:  Það rataði í heimsfréttir er hann slasaðist við að klifra í tré fyrir nokkrum árum.  

  Til að byrja með sagðist hann hafa dottið niður úr trénu.  Svo fór að hann dró það að hluta til baka.  Sagðist hafa í raun flækst í lággróðri,  runnaþyrpingu,  fælst, lent í áflogum við hríslurnar og slasast.  Hann snöggreiddist.  Barðirst um á hæl og hnakka með þeim afleiðingum að bein brákuðust. Hann skammaðist sín svo mikið fyrir að hafa farið halloka í áflogum við trérunna að fyrstu viðbrögð voru að segjast hafa dottið úr tré.  

  Eins þegar hann missti út úr sér að hafa tekið öskuna af föður sínum í nefið. Blaðafulltrúar Rolling Stones kepptust í kjölfarið við að upplýsa að þar hafi verið um óhappaverk að ræða en ekki ásetning.  Kauði missti öskuna fyrir klaufaskap ofan í síðasta kókaín-skemmtinn sem hann átti þann daginn.  Það var ekki hægt að greina öskuna frá kókaíninu undir þeim kringumstæðum.  Ekki var um annað að ræða en sniffa öskuna með.  Síðar upplýsti Keith að einungis hluti öskunnar hafi blandast kókinu. Hann hafi þess vegna aldrei tekið alla öskuna af pabba sínum í nefið.  

  Til eru ótal brandarar um Keith.  Einn slíkur hermir að einungis kakkalakkar og hann lifi af kjarnorkuárás.  Er þá vísað til lífernis hans sem dópista og drykkjubolta.  Neyslufélagar hans hafa fallið frá hver á fætur öðrum.  En Keith er alltaf sprækur. Miðað við allt og alla ber hann aldur vel.  Að vísu er andlitið rúnum rist og fingurnir orðnir hnúóðttir og snúnir eins og roð í hundskjafti.

  Í gær hlustaði ég á síðustu sólóplötu kappans. Hún er nokkuð góð og skemmtileg.  Þar krákar hann sitthvort lagið eftir jamaísku reggí-stjörnuna Gregory Isaacs (Love Overdue) og bandaríska þjóðlaga-blúsistann Leadbelly (Goodnight Irene).  Virkilega flott. Frumsömdu lögin eru líka alveg ljómandi flott.

keith unglingur 

Keith akeith bkeith ckeith dkeith ekeith fkeith g


mbl.is Klæðist gjarnan fötum eiginkonunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og þá voru eftir níu

ólafur ragnar

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Stöðugt bætist við í hóp forsetaframbjóðenda.  Líka í hóp þeirra sem kallað er eftir að fari í framboð.  Um þessar mundir stefnir í að frambjóðendur verði um eða yfir tuttugu.  Eru þá frátaldir tveir sem hafa hætt við framboð. Fyrst var það riddari drottins,  Árni Björn.  Síðan riddari heilbrigðs lífstíls,  Þorgrímur Þráinsson, baráttumanns gegn sígarettum og að mæður horfi ekki í augu nýfæddra barna við brjóstagjöf.

  Fleiri eiga eftir að heltast úr lestinni.  Ástæðan er þríþætt:  Í fyrsta lagi vegna skorts á úthaldi.  Það kostar mikla elju og mikinn tíma að standa í framboði af fullri alvöru.  

 Í öðru lagi fellir peningaskortur frambjóðendur.  Það þarf lágmark 10 - 15 milljónir króna til að eiga möguleika á árangri. Tvöfalt hærri upphæð ef frambjóðandinn er ekki þegar landsfrægur. Þegar nær kjördegi líður mun þessi staðreynd blasa við frambjóðendum.

 Í þriðja lagi eru það meðmælendur.  Hver frambjóðandi þarf lágmark 1500 meðmælendur.  Reynslan hefur sýnt að nauðsynlegt er að skila inn nöfnum 3000 meðmælenda.  Á síðustu fjórum áratugum hafa að minnsta kosti tvö framboð verið felld úr leik vegna ófullnægjandi meðmælalistam - þrátt fyrir að hafa skilað inn 3000 undirskriftum.  

  Það sem platar marga er að einungis fólk með kosningarétt má mæla með framboði.  Undirskrift yngra fólks er ógild.

  Annað vandamál er að á flestum meðmælendalistum slæðast með undirskriftir grínara.  Af raunverulegum dæmum um slíkt má nefna undirskrift "Karlsins í tunglinu" og "Andrésar Andar".  Einnig ósamræmi í kennitölum og lögheimili.  Svo og að einungis má mæla með einum frambjóðanda. Það verður stóra vandamálið í ár.  

  Framboð tuttugu sem skila inn undirskrift 3000 meðmælenda hver þýðir að við erum að tala um undirskrift 60 þúsund manna.  Það gengur ekki upp.  Þeir sem verða seinir til að fá meðmælendur lenda í vandræðum.  Þegar til kastanna kemur verður fjöldi frambjóðenda nær einum tug en tveimur.  Í dag hefur aðeins Sturla Jónsson náð 3000 meðmælendum.  En það er ekki öll nótt úti fyrir aðra áhugaverða frambjóðendur.  Slagurinn er rétt að byrja.     

  

sturla                


mbl.is Þorgrímur hættur við framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband