Færsluflokkur: Lífstíll

Fólk er allskonar

  Á allra síðustu árum hefur nútímamaðurinn uppgötvað að mannlífið er fjölbreyttara en almennt var talið á síðustu öld.  Og næstu öld þar á undan.  Fyrsti íslenski homminn steig fram í blaðaviðtali um miðjan áttunda áratug síðustu aldar.  Það fór allt á hvolf.  Samfélagið fékk áfall.

  Ég veit ekki hvenær eða hvað löngu síðar kom í ljós að það væru líka til íslenskar lesbíur.  Á síðustu árum hafa bæst í flóruna kynskiptingar (eða kynleiðréttingar),  klæðskiptingar og allskonar.  Líka fólk sem skilgreinir sig BDSM.  Svo og "swingers" og hitt og þetta.  Fólk skemmtir sér á ýmsan hátt.

  Í fljótu bragði má ætla að það sé varla saga til næsta bæjar þó að einhver sé transgender.  Því síður að einhver kippi sér upp við það.  Þó er kannski ennþá - þegar á reynir - erfitt að setja sig í spor viðkomandi og aðstandenda.  Samt.  Fólk er allskonar.  Það er eins og það er.  Diskómúsík er hinsvegar vond (fyrir minn sérvitra smekk vel að merkja).

 


mbl.is „Fjölskyldan verður aldrei söm“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Broslega heimskir glæpamenn

bankaræningjarbankaræningi 

  Það er ekki öllum gefið að vera farsæll glæpamaður.  Bara  sumum.  Einkum siðblindum með greind yfir meðaltali.  Þeir sniffa kók,  ganga ungir í stjórnmálaflokka,  taka þátt í félagsstarfinu,  komast til áhrifa,  einkavinavæða sjálfa sig og sína,  ræna banka og orkufyrirtæki innanfrá og hafa það assgoti gott.  Hvort sem er utan eða innan Kvíabryggju eða Tortólaeyja.  Þetta eru fagmenn.

  Hinir eru fjölmennari:  Nautheimsku götukrimmarnir.  Þeir eru amatörar.  Ágætir fulltrúar heimsku krimmanna er par í Ohio í Bandaríkjum Norður-Ameríku.  Það rændi banka. Karlinn ekki í fyrsta skipti.  Hann afplánaði nýverið fimm ára vist í fangelsi fyrir bankarán.

  Parið komst yfir töluverða fjármuni í bankaráni.  Það uppveðraðist af árangrinum.  Tók af sér fjölda sjálfsmynda og póstaði þeim inn á Fésbókarsíður sínar.

  Lögreglan samkeyrði myndir úr öryggismyndavél bankans við ljósmyndir á Fésbók (einskonar "gúgl").  Þar blöstu við ljósmyndir af glæpaparinu hampandi ránsfengnum.

  Í dómsal spurði forvitinn dómari hvernig það hefði dottið í hug að auglýsa glæpinn á Fésbók.  Karlinn svaraði því til að þau væru ekki Fésbókarvinir lögreglunnar.  Hún hefði ekki átt að sjá myndirnar.

bankaræningjapar  

   

    


5 ára trommusnillingur

eduarda

  Hún var varla byrjuð að skríða,  brasilíska stelpan Eduarda Henklein,  þegar hún trommaði á allt sem hægt var að tromma á.  Foreldrarnir keyptu handa henni leikfangatrommusett þegar hún byrjaði að ganga.  það var eins og við manninn mælt;  hún trommaði daginn út og inn.  

  Fjögurra ára er hún komin með stórt alvöru trommusett og trommar af krafti.  Hún nennir ekki að hlusta á létt popp.  Hún vill bara hart og krefjandi rokk. Hér afgreiðir hún System of a Down.  Og ekki gleymir hún bassatrommunni með hægri fætinum.  Bleika barnarúmið hennar í bakgrunni stingur í stúf við harða rokkið:

  Skemmtilegast er þegar hún,  fimm ára,  trommar Led Zeppelin.  Því miður eru þau dæmi án hljóðs á þútúpunni vegna höfundarréttar.  Ég hef séð þau með hljóði en tekst ekki að deila þeim hér inn.  Trommumyndbönd án hljóðs eru ekki skemmtileg.  En það er líka gaman að sjá og heyra hana tromma Deep Purple.  


Sólböð til varnar heyrnartapi

 

  Á síðustu árum hafa tilteknir aðilar rekið ákafan og öfgafullan áróður gegn sól og sólböðum.  Svo langt hefur verið gengið að hérlendis setti Álfheiður Ingadóttir lög sem banna 18 ára og yngri að fara í sólbað.  Fárið hefur leitt til þess að fjöldinn felur sig kappklæddur ofan í myrkvuðum kjöllurum.  

  Á sama tíma eru krabbameinslæknar í útlöndum að hvetja fólk til að stunda sólböð.  Þau vinna gegn næstum öllum krabbameinum.  Jafnframt styrkja þau hár, tennur og húð ásamt því að vinna gegn þunglyndi.

  Hræðsla við sólarljós hefur þegar komið af stað faraldri beinþynningar og allskonar húðsjúkdóma á borð við exem og sóríasis.

  Nú hefur rannsókn leitt í ljós að sólarleysi skaðar heyrn.  Rannsóknin náði til á níunda þúsund manns yfir fertugt.  Sólarljósfælnir eru fimm sinnum líklegri til að glíma við heyrnarskerðingu í samanburði við ljóselska.  Að auki eru þeir í tvöfalt meiri hættu á að glíma við ójafnvægi.  Það leiðir til þess að þetta fólk dettur á húsgögn og meiðir sig.  Jafnvel beinbrotnar.  Einmitt vegna þess að sólarleysið veldur beinþynningu.  

  Vegna vaxandi heyrnadeyfðar ljósfælinna lagði fjöldi þingmanna fram frumvarp sem skyldar sjónvarpsstöðvar til að texta íslenskt efni.  Frumvarpið kippir rekstrargrunvelli undan minni sjónvarpsstöðvum.  Heppilegri leið er að auðvelda fólki að sporna gegn heyrnartapi með því að skreppa í sólbað.  Gefa því ljósakort í sólbaðsstofu í stað heyrnartækja.  

 


Mamman kjaftstopp

  Ég gerði mér erindi í verslunina Ikea í Garðabæ.  Við inngang blasir við hringhurð sem snérist stöðugt.  Ég nálgaðist hana ásamt konu með ungbarn og á að giska fimm ára stelpuskotti.  Stelpan var á undan okkur og virtist ætla að stökkva inn um dyragættina.  Í sama mund hrópaði mamman:  "Passaðu þig!"  Stelpan stoppaði og hrópaði krúttlega fullorðinslega til baka - auðheyranlega alvarlega misboðið:  "Ertu með svona lítið álit á mér?  Heldur þú virkilega að ég kunni ekki að passa mig?" 

-------------------------------------


Alið á útlendingahatri

  Ég átti erindi í verslun.  Aldrei þessu vant.  Mig langaði skyndilega í maltöl.  Samt ekki Egils maltöl.  Ég setti viðskiptabann á Ölgerð Egils Skallagrímssonar þegar forstjóri hennar réðist með hroka og frekju að Föroya Bjór í fyrra.  Krafðist þess af ósvífni og yfirgangsfrekju að Föroya bjór hætti að selja Föroya Bjór Gull.

  Sem betur fer snérust vopn í höndum Ölgerðarinnar.  Almenningur reis upp til varnar Föroya Bjór Gulli.  Það leiddi til þess að verslanir ÁTVR urðu að þjóna eftirspurn með því að taka Föryoa Bjór Gull í sölu í flestum Vínbúðum.  Sem ekki var áður en Ölgerðin tók frekjukast.

  Nema hvað.  Kominn inn í verslun mætti ég ungum manni og syni hans.  Strákurinn sennilega um fimm ára.  Þeir voru á leið út.  Skyndilega tekur faðirinn viðbragð,  stoppar og segir:  "Það er miðvikudagur.  Ég ætla að kaupa Lottó."

  Stráksi tók vel í það með orðunum:  "Jess! Helvítis Finnar.  Þeir ætla að reyna að stela af okkur Lottóinu!" 

  Ég hrökk við.  Í hausnum á mér bergmáluðu útvarpsauglýsingar frá Lottóinu.  Þær ganga þessa dagana út á rembing í garð nágrannaþjóða okkar.  Þær eru sakaðar um hitt og þetta svívirðilegt varðandi Lottó.  Óhörðnuð íslensk börn heyra daginn út og inn alið á útlendingahatri í auglýsingum frá Lottói.  

  Svei!  Þetta er pólitísk ranghugsun.

föroya bjór


mbl.is Einn vann 110 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvikmyndarumsögn

everesteverest baltasar

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 - Titill: Everest

 - Leikstjóri:  Baltasar Kormákur

 - Leikarar:  Ingvar E. Sigurðsson,  Jason Clarke

 - Einkunn: ****

 Everest er stórmynd í öllum skilningi orðsins.  Mikið er í hana lagt.  Nostrað við öll smáatriði.  Útkoman er sannfærandi.  Þrívíddin hjálpar.  Samt er ekki beinlínis gert út á hana.  Myndin skilar sér áreiðanlega einnig vel í tvívídd.

  Myndin hefur verið hlaðin lofi í heimspressunni.  Fjöldi stærstu fjölmiðla heims hafa "spanderað" á hana fimm stjörnum.  

  Everest byggir á raunverulegum atburði.  Hún segir sögu nokkurra fjallgönguröltara sem fórust á einu bretti á fjallinu Everest í Nepal 1996.  Það er óheppilegt að vita hvernig fer í lokin þegar um spennumynd er að ræða.  Já,  Everest er að hluta til spennumynd.  Þrátt fyrir vitneskju um framvinduna þá tekst að laða fram spennu.  Aftur og aftur.  

  Myndin er löng,  röskir tveir klukkutímar. En áhorfandinn tekur ekki eftir tímalengdinni.  Hann lifir sig inn í myndina.  Nægilega margt ber til tíðinda og sjónarspilið er svo áhrifaríkt að hann er er límdur við bíótjaldið.

  Fjallið er hrikalegt,  stórbrotið og yfirþyrmandi. Það er stórfengleg og áhrifarík upplifun út af fyrir sig að sjá það.  Tökur fóru fram í Alpafjöllum.  Í vinnslu eru þær færðar yfir á Everest.  Hvergi er hnökra að finna á þeim vinnubrögðum - fremur en öðru.

  Undir lokin kemur við sögu dálítið væmið fjölskyldudrama.  Fyrir minn smekk er það ekkert skemmtilegt.  En hvað væri kvikmyndin Titanic án væmninnar á seinni stigum?

  Fjallarölt svona almennt er gott, hollt og gefandi skaðlaus upplifun.  Þeir sem rölta upp Everest eru hinsvegar fífl.  Dauðinn er við hvert fótspor.  Tilgangsleysið er algjört.  Þetta er eins og að leika sér að rússneskri rúllettu.  Þetta er heimska.  Við getum kallað það dirfsku að leggja líf sitt í verulega hættu að ástæðulausu.  Það er dirfska fífls,  fífldirfska.  Það á ekki að hetjuvæða þessi fífl.  Þvert á móti.  Myndin afhjúpar hið besta hve tilgangslaust og heimskulegt rölt er upp á hættuleg fjöll.

  Tónlistin í myndinni er snyrtilega unnin.  Eins og allt annað.  Þegar líður á myndina eru flestir fjallaröltarar orðnir sannfærandi hásir.  Einn hóstar trúverðugum lungnaveikishósta frá upphafi myndar.  Öll svona smáatriði eru fullkomlega útfærð. 

  Ég mæli með því að fólk horfi á Everest í kvikmyndasal.  Þar nýtur glæsilegt landslagið sín og þrívíddin (D-3).  


Íslendingar gera vel við sig

  Margir Íslendingar hafa það gott.  Þeir eru á pari við frægustu erlendar poppstjörnur og tekjuhæstu Hollywood-leikara.  Tímakaup upp á 57 þúsund kall þykir vera temmilegt.  Það er hlegið að aulunum sem ná ekki 1000 kr. á mínútu.  Ennþá hærra er hlegið að vesalingunum sem ná ekki að greiða sér árlegan arð upp á milljarð.  Tveir milljarðar eru nær lagi - til að teljast maður með mönnum.

  Ennþá er einhver feimni í gangi gagnvart einkaþotunum sem héldu vöku fyrir Reykvíkingum allan sólarhringinn fyrir bankahrunið 2008.  Já, og þyrlum sem menn skutluðust á til að fá sér pylsu í Baulunni eða skutust á frá Vestmannaeyjum til að tapa milljörðum króna í misheppnuðum fjárfestingum í Reykjavík.  Ekkert mál.  

  12 milljón króna jeppar seljast um þessar mundir eins og heitar lummur. Í dag er togast á um hvern Saga Class flugmiða.  Embættismenn ríkis og borgar togast á við almenning um þessa miða.

  Þetta sama fólk hefur áhyggjur af því að kostnaður við móttöku á flóttamönnum frá Sýrlandi komi niður á íslenskum öryrkjum og ellilífeyrisþegum.  Áhyggjurnar eru skiljanlegar.  Það er útilokað að taka á móti flóttafólki öðru vísi en níðast vel og rækilega á öryrkjum og ellilífeyrisþegum.  

  Góðu fréttirnar eru þær að það er til nóg af peningum. Ríkiskirkjan fær 4 milljarða eða meir.  Veitir ekki af.  Kostnaður vegna Nató-aðildar er aðeins nokkur hundruð milljónir. Aðallega vegna loftferðaeftirlits yfir Keflavík.  Án þess myndu íslenskir öryrkjar og ellilífeyrisþegar ekkert vita hverjir fljúga um íslensku loftin blá.

  Utanríkisráðuneytið kostar marga marga milljarða.  Víða um heim eru rekin íslensk sendiráð.  Þeirra eina hlutverk er að halda kokteilboð fyrir íslenska embættismenn.  Ekkert til sparað. Sífellt er verið að stofna ný embætti hjá hinu opinbera,  nýjar nefndir (sumar kallaðar ráð.  Það réttlætir betur kostnaðinn).  Aðstoðarmönnum ráðherra fjölgar með ógnarhraða.  Það besta er að allir sem að jötunni komast fá risaflott eftirlaun það sem eftir er.   

  

  


mbl.is Slegist um flugsæti á Saga Class
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ein ástæðan fyrir því að aflétta einokun ÁTVR

  Sala á áfengum drykkjum er lögleg á Íslandi.  Neysla á áfengum drykkjum er lögleg á Íslandi.  Hið einkennilega er að einu verslanir sem mega selja þessa löglegu vöru eru örfáar ríkisbúðir. Aðeins starfsmönnum á launaskrá ríkisins er treyst til að afgreiða bjórdósir og vínflöskur.  

  Þetta er eins geggjað og hugsast getur. Þetta á eftir að verða sama aðhlátursefni og bjórbannið,  sjónvarpslausir fimmtudagar, sjónvarpslaus júní, einokunarsala mjólkurverslana,  skömmtunarseðlar, einokunarsala ríkisins á útvarpstækjum, galdrabrennur og effemm-hnakkar.    

föroya bjór 


mbl.is Vínbúðum lokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maður skotinn til bana til að forða honum frá sjálfsvígi

  Í Denver í Bandaríkjum Norður-Ameríku hringdi örvæntingafull móðir í lögregluna.  Fullorðinn sonur hennar,  andlega vanheill,  bar hníf að hálsi sér og hótaði að svipta sig lífi.  Hún bað lögregluna um að afvopna hann áður en hann færi sér að voða.

  Tveir lögreglumenn mættu í snarhasti á svæðið.  Þeir gáfu manninum ströng fyrirmæli um að hætta tafarlaust við áform um sjálfsvíg.  Hann sýndi engin merki um hlýðni.  Þvert á móti þá herti hann hníf að hálsi og hljóp aftur út á götu.  Til að forða manninum frá því að láta verða af ætlun sinni sá lögreglan ekki aðra leið en skjóta hann til dauða.

  Í kjölfar sendi lögreglan frá sér fréttatilkynningu um atburðinn.  Lögreglumennirnir voru hlaðnir lofi fyrir hugrakki og hetjuskap.  Með snarræði náðu þeir að hindra manninn í að fremja sjálfsvíg.  Að auki tekist snöfurlega að bjarga eigin lífi í sjálfsvörn áður en ofbeldisfullur og hættulegur maðurinn myrti þá.  Ennfremur áður en hann myrti alla íbúa götunnar.  Hvatt var til þess að lögreglumennirnir yrðu sæmdir æðstu orðum Bandaríkjanna fyrir hetjudáðir.

  Mörgum dögum síðar birtist á þútúpunni meðfylgjandi myndband af atburðarásinni.  Sumum virðist sem hún stangist á við lýsingu lögreglunnar.  Talsmaður lögreglunnar hefur bent á að þeir sem voru ekki á vettvangi hafi enga möguleika á að átta sig á aðstæðum;  hvernig lögregluþjónar upplifðu atvikið.   

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband