Færsluflokkur: Lífstíll

Ofsahræðsla

  Um síðustu helgi keypti erlendur ferðamaður í Færeyjum sér nesti og nýja gönguskó.  Tilefnið var að hann hugðist rölta upp fjallshlíð nyrst í Norðureyjum.  Fjallið heitir Borgarinn og er á Kalsey.  Það nýtur vinsælda meðal útivistarfólks.  Útsýni er stórfenglegt og hlíðin ekki brött en lögð þægilegum göngustíg.  Enda var leiðin greið upp hana.  

  Er karlinn hugðist hreykja sér í miðri hlíð brá svo við að hann var gripinn ofsahræðslu.  Þegar hann horfði niður hlíðina sundlaði hann af lofthræðslu.  Í taugaveiklun tók hann að góla tryllingslega og baða út höndum ótt og títt.  Nærstaddir skildu ekki hvað hann kallaði af því að hann gólaði á útlensku.  Svo fór þó að einn maður áttaði sig á vandamálinu.  Hann greip fjallgöngugarpinn föstum tökum og rölti með hann niður á jafnsléttu.  Þar jafnaði hann sig hægt og bítandi,  Náði úr sér skjálftanum að mestu og fékk aftur lit í kinnar.

  Til að hlífa samborgurum mannsins við háði og spotti er þjóðernið ekki gefið upp.   

Borgarin Kalsoy


Logið um dýr

  Mannskepnan er eina lífveran í heiminum sem lýgur.  Lýgur og lýgur.  Lýgur upp á aðrar manneskjur.  Lýgur um aðrar manneskjur.  Lýgur öllu steini léttara.  Þar á meðal um dýr.  Sumar lygar eru svo útbreiddar og rótgrónar að í huga margra eru þær sannleikur.  Dæmi:

 - Gullfiskar eru sagðir vera nánast minnislausir.  Þeir muni aðeins í 3 sek.  Þeir syndi fram og aftur um fiskabúr og telji sig alltaf sjá nýtt og framandi umhverfi.  Hið rétta er að minni gullfiska spannar margar vikur.

 - Hákarlar eru sagðir sökkva til botns ef þeir eru ekki á stöðugri hreyfingu.  Þetta á við um fæsta hákarla.  Örfáar tegundir þurfa hreyfingu til að ná súrefni. 

 - Kvikmyndir hafa sýnt hákarla sem banvæna mönnum.  Allt að því árlega berast fréttir af hákarli sem hefur bitið manneskju.  Þetta ratar í8 fréttir vegna þess hvað það er fátítt.  Af 350 tegundum hákarla eru 75% ófærir um að drepa manneskju.  Þeir eru það smáir.  Ennfremur komast fæstir hákarlar í kynni við fólk.  Hákarlar hafa ekki lyst á mannakjöti.  Í þau skipti sem þeir bíta í manneskju er það vegna þess að þeir halda að um sel sé að ræða.  Selir eru þeirra uppáhaldsfæða.  Líkur á að vera lostinn af eldingu er miklu meiri en að verða fyrir árás hákarls. 

 - Mörgum er illa við að hrísgrjónum sé hent yfir nýbökuð brúðhjón.  Þau eru sögð vera étin af fuglum sem drepast í kjölfarið.  Þetta er lygi.  Hrísgrjón eru fuglunum hættulaus.  

 - Rakt hundstrýni á að votta heilbrigði en þurrt boða óheilbrigði.  Rakt eða þurrt trýni hefur ekkert með heilbrigði að gera.  Ef hinsvegar rennur úr því er næsta víst að eitthvað er að. 

 - Í nautaati ögrar nautabaninn dýrinu með rauðri dulu.  Nautið bregst við.  En það hefur ekkert með lit að gera.  Naut bregst á sama hátt við dulu í hvaða lit sem er.


Hámark letinnar

  Leti er listgrein út af fyrir sig.  Það þarf skipulag til að gera ekki neitt.  Eða sem allra minnst.  Skipulag og skapandi hugsun.  Margar af bestu uppfinningum mannsins urðu til vegna leti.  Líka margt spaugilegt. 

  Ástæða getur verið að smella á myndirnar til að átta sig betur á hvað er í gangi.

leti aleti eleti fleti  gleti gleti h


Áhrifamestu plötuumslögin

  Plötuumslög gegna veigamiklu hlutverki.  Þau móta að nokkru leyti viðhorf plötuhlustandans til tónlistarinnar og flytjandans.  Þegar best lætur renna umslag og tónlistin saman í eitt.  Gamlar rannsóknir leiddu í ljós að "rétt" umslag hefur áhrif á sölu plötunnar.  Til lengri tíma getur umslag orðið þátttakandi í nýjum straumum og stefnum í tónlist.  

  American Express Essentials hefur tekið saman lista yfir áhrifamestu plötuumslögin.  Hér er ekki verið að tala um bestu eða flottustu umslögin - þó að það geti alveg farið saman í einhverjum tilfelllum. Árlega koma á markað margar milljónir plötuumslaga.  Aðeins 0,0000000% þeirra verða almenningi minnisstæð.  

  Stiklum hér á stóru í rjóma niðurstöðu AEE:

 - Elvis Presley.  Fyrsta stóra plata hans og samnefnd honum.  Kom út 1956.  Stimplaði gítarinn inn sem tákn rokksins.  Á þessum tímapunkti var það brakandi ný og fersk blanda bandarískra músíkstíla á borð við blús og rokkabilly.

 - The Clash:  London Calling.  3ja plata Clash sem var önnur tveggja framvarðasveita bresku pönkbyltingarinnar (hin var Sex Pistols).  Útgáfuárið er 1979 og pönkið búið að slíta barnsskónum.  Clash var ekki lengur "bara" pönk heldur eitthvað miklu meira;  stórveldi sem sló í gegn í Ameríku umfram aðrar pönksveitir.  Umslagið kallast skemmtilega á við upphaf rokksins.  Ljósmyndin var ekki tekin fyrir umslagið.  Hún var eldri og fangaði augnablik þar sem bassaleikarinn,  Paul Simonon,  fékk útrás fyrir pirring.  "London Calling" var af amerískum fjölmiðlum - með Rolling Stone í fararbroddi - útnefnd besta plata níunda áratugarins.

  - Bítlarnir:  Revolver.  "Sgt. Peppers...",  "Hvíta albúmið", "Abbey Road" og "Revolver" togast á um áhrifamestu Bítla-umslögin.  "Revolver" kom út 1966 og var fyrst Bítlaplatna til að skarta "allt öðruvísi" umslagi:  teiknimynd af Bítlunum í bland við ljósmyndir.  Umslagið rammaði glæsilega inn að hljómsveitin var komin á kaf í nýstárlega tónlist á borð við sýrurokk, indverskt raga og allskonar.  Höfundur þess var góðvinur Bítlanna frá Hamborg,  bassaleikarinn og myndlistamaðurinn Klaus Voorman. 

  - Velvet Underground & Nicole.  Platan samnefnd hljómsveitinni kom út 1967 undir forystu Lou Reeds.  Umslagið hannaði Andy Warhol.  Platan og sérkennilegt umslag þóttu ómerkileg á sínum tíma.  En unnu þeim mun betur á með tímanum. 

 - The Rolling Stones:  Let it Bleed.  Önnur 2ja bestu platna Stones (hin er Beggars Banquet).  Kom út 1969.  Þarna er stofnandi hljómsveitarinnar,  Brian Jones,  næstum dottinn út úr henni og arftakinn,  Mick Taylor, að taka við.  Umslagið er af raunverulegri tertu og plötu.  Þetta var löngu fyrir daga tæknibrellna á borð við fótoshop. 

 - Patti Smith:  Horses.  AEE telur "Horses" vera bestu jómfrúarplötu sögunnar.  Útgáfuárið er 1975.  Umslagið rammar inn látlausa ímynd alvörugefna bandaríska pönk-ljóðskáldsins. 

 - Pink Floyd:  Wish You Were Here.  Valið stendur á milli þessarar plötu frá 1975 og "Dark Side of the Moon".  Ljósmyndin á þeirri fyrrnefndu hefur vinninginn.  Hún sýnir tvo jakkalakka takast í hendur.  Annar stendur í ljósum logum í alvörunni.  Hér er ekkert fótoshop.   

 - Sex Pistols:  Never Mind the Bollocks Heres the Sex Pistols.  Eina alvöru plata Sex Pistols.  Platan og hljómsveitin gerðu allt brjálað í bresku músíksenunni 1977.  Umslagið er vel pönkað en um leið er klassi yfir hönnunni og skæru litavalinu.  

 - Bruce Springsteen: Born in the USA.  1984 vísuðu umslagið og titillinn í þverbandarísk blæbrigði.  Undirstrikuðu að þetta var hrátt verkalýðsrokk;  bandarískt verkalýðsrokk sem kallaði á ótal túlkanir.  Þarna varð Brúsi frændi sú ofurstjarna sem hann er enn í dag.

 - Nirvana: Nevermind.   1991 innleiddi platan Seattle-gruggbylgjuna.  Forsprakkinn, Kurt Cobain,  fékk hugmyndina að umslaginu eftir að hafa séð heimildarmynd um vatnsfæðingu.  Hugmyndin um agnið,  peningaseðilinn,  var ekki djúphugsuð en má skoðast sem háð á græðgi.

 - Björk: Homogenic.  AEE segir þetta vera bestu tekno-plötu allra tíma.  Titillinn endurspegli leit Íslendingsins að hinum eina rétta tóni plötunnar 1997. 

 - Sigur Rós: ().  Fyrir íslenska hljómsveit sem syngur aðallega á bullmáli en semur fallega og áleitna tónlist er umslagið óvenjulegt og vel við hæfi.  Svo segir AEE og áttar sig ekki á að söngur Sigur Rósar er aðallega á íslensku.  Reyndar á bullmáli á (). Platan kom út 2002.

presleyTheClashLondonCallingalbumcoverRevolver_(album_cover)VelvetLetitbleedRSPattiSmithHorsespinkfloyd-album-wish_you_were_hereNever_Mind_the_Bollocks,_Here's_the_Sex_PistolsBruceBorn1984nevermindbjörksigur rós


Töfrar úðans

  Ég var að selja snyrtivörur,  alnáttúrulegar heilsusnyrtivörur úr Aloe Vera plöntunni að uppistöðu til.  Aldraður maður á Egilsstöðum hringdi í mig.  Hann bað mig um að senda sér í póstkröfu sólarolíu sem heitir Dark Tanning Oil Spray.  Ástæðuna sagði hann vera þreytu í augum.  Hann grunaði að úðaspreyið gæti gert sér gott.  Einkum vegna þess að Aloe Vera var uppistöðuhráefnið.

  Nokkrum vikum síðar hringdi maðurinn aftur til að fá fleiri úðabrúsa.  Hann sagði að reynslan væri svo góð við að spreyja í augun að hann væri byrjaður að spreyja í eyrun líka.  Með jafn góðum árangri.  Eyrun hvíldust vel útspreyjuð.  

  Nokkrum vikum síðar hringdi hann enn í mig.  Hann vantaði fleiri úðabrúsa.  Nú var hann byrjaður að spreyja upp í munninn á sér undir svefninn.  Allt annað líf.  Hann svæfi eins og kornabarn.  Að auki væru draumfarir ljúfari.    


Oft ratast kjöftugum satt á munn. Eða ekki.

  Rokkið er lífstíll.  Yfirlýsingagleði, dramb og gaspur eru órjúfanlegur hluti af lífstílnum.  Alveg eins og "sex and drugs and rock and roll".  Þess vegna er oft gaman að lesa eða heyra viðtöl við rokkstjörnur þegar þær reyna að trompa allar hinar.  

 - Little Richard:  "Ég er frumkvöðullinn. Ég er upphafsmaðurinn. Ég er frelsarinn. Ég er arkitekt rokksins!"

 - Jerry Lee Lewis:  "Annað fólk æfir sig og æfir. Fingur mínir hafa hinsvegar innbyggðan heila. Þú segir þeim ekki hvað þeir eiga að gera - þeir gera það sjálfir. Sannkallaðir guðsgjafar hæfileikar."

 - Richard Ashcroft (The Verve):  „Frumkvöðull er ofnotað hugtak, en í mínu tilfelli er það alveg viðeigandi."

 - Jim Morrison (The Doors):  "Ég lít á sjálfan mig sem risastóra, eldheita halastjörnu, stjörnuhrap. Allir stoppa, benda upp og taka andköf: "Ó, sjáðu þetta!" Síðan – vá, og ég er farinn og þeir sjá aldrei neitt þessu líkt aftur.  Þeir munu ekki geta gleymt mér - aldrei."

 - Thom Yorke (Radiohead):  "Mig langar að bjóða mig fram til forseta. Eða forsætisráðherra. Ég held að ég myndi standa mig betur."

 - Courtney Love (Hole):  "Ég vildi að ég stjórnaði heiminum - ég held að hann væri betri."

 - Brian Molko (Placebo):  „Ef Placebo væri eiturlyf værum við klárlega hreint heróín – hættulegt, dularfullt og algjörlega ávanabindandi."

 - Pete Townsend (The Who):  „Stundum trúi ég því virkilega að við séum eina rokkhljómsveitin á þessari plánetu sem veit um hvað rokk n roll snýst."


Spaugilegar sjálfur

  Fyrir daga myndsímanna voru ljósmyndir dýrt sport.  Kaupa þurfti filmur og spandera í framköllun.  Þess vegna vönduðu menn sig við verkefnið.

  Í dag kostar ekkert að smella mynd af hverju sem er.  Ungt fólk er duglegt að taka myndir af sjálfum sér og birta á samfélagsmiðlum.  Í hamaganginum er ekki alltaf aðgætt hvað er í bakgrunni.  Enda skjárinn lítill. Þegar ljósmyndarinn uppgötvar slysið er vinahópurinn búinn að gera myndirnar ódauðlegar á netinu.  Hér eru nokkur sýnishorn:

 - Strákur kvartar undan því að kærastan sé alltaf að laumast til að mynda hann.  Í bílrúðunni fyrir aftan sést að stráksi tók myndina sjálfur.

 - Einn montar sig af kúluvöðva.  Í spegli fyrir aftan sést að hann er að "feika".

 - Kauði smellir á mynd af ömmu og og glæsilegu hátíðarveisluborði hennar.  Hann áttar sig ekki á að í spegli sést hvar hann stendur á brókinni einni fata.

 - Stúlka heimsækir aldraðan afa.  Það er fallegt af henni.  Hún notar tækifærið og tekur sjálfu á meðan kallinn dottar.  

 - Önnur dama telur sig vera óhulta í mynd á bak við sturtuhengi.  Ef vel er að gáð sést efst á myndinni í gægjudóna.  Þetta sést betur ef smellt er á myndina. 

 - Enn ein er upptekin af sjálfu á meðan barn hennar berst fyrir lífi sínu í baðkari.  

 - Pabbi tekur mynd af feðgunum.  Snati sleppur inn á sem staðgengill hárbrúsks.

 - Myndarlegur gutti tekur sjálfu.  Ekkert athugavert við það.  Nema ef vel er rýnt í bakgrunninn.  Þar speglast í rúðu að töffarinn er buxnalaus.     

Sjálfa Asjálfa bsjálfa csjálfa dsjálfa esjálfa fsjálfa gsjálfa h

 

 


Sprenghlægilegar ljósmyndir af glæpamönnum

  Fá ljósmyndaalbúm eru spaugilegri en þau sem hýsa myndir af bandarískum glæpamönnum.  Eflaust eru glæpamenn annarra þjóða líka broslegir.  Lögregluþjónar þeirra eru bara ekki eins ljósmyndaglaðir.  Síst af öllu íslenskir.  Hér eru nokkur skemmtileg dæmi:  

löggumynd alöggumynd blöggumynd hárgreiðsla clöggumynd - klipping clöggumynd - klipping d    


Ósætti út af kjúklingavængjum

  Ofbeldi tíðkast víðar en í bandarískum skemmtiþáttaseríum.  Stundum þarf ekki mikið til.  Jafnvel að gripið sé til skotvopna þegar fólki mislíkar eitthvað.  Það hefur meira að segja hent á okkar annars friðsæla Íslandi;  þar sem flestir sýna flestum takmarkalausa ást og kærleika. 

  Í Vínlandinu góða,  nánar tiltekið í Utah-ríki,  vildi umhyggjusamur faðir gera vel við þrítugan son sinn.   Á heimleið úr vinnu keypti hann handa honum vænan skammt af kjúklingavængjum.  Viðtökurnar voru ekki jafn fagnandi og pabbinn bjóst við.  Stráksa mislíkaði að kallinn hafði ekki keypt uppáhaldsvængina hans heldur einhverja aðra tegund.  Mönnum getur sárnað af minna tilefni.  Hann stormaði inn á baðherbergi.  Þar var ein af byssum heimilisins geymd.  Kauði nýtti sér það.  Hann tók byssuna og skaut á kallinn.  Sem betur fer var hann ekki góð skytta í geðshræringunni.  Kúlan fór yfir í næsta hús og hafnaði þar í uppþvottavél. 

  Kallinn stökk á strákinn og náði að afvopna hann.  Áður tókst drengnum að hleypa af tveimur skotum til viðbótar.  Bæði geiguðu að mestu en náðu samt að særa kallinn. 

  Einhver bið verður á að gaurinn fái fleiri kjúklingavængi.  Hann er í fangelsi.  

vængir

           

  .    


Brýnt að halda til haga um Guðna Má Henningsson

  Ég heyrði fyrst af Guðna Má er ég kíkti í Plötubúðina á Laugavegi 20.  Þar réði Halldór Ingi heitinn Andrésson ríkjum.  Hann sagði mér frá þessum náunga sem hlustaði á músík allan daginn alla daga.  Hlustaði og stúderaði flytjendur allan sinn vökutíma.

  Halldóri Inga þótti áríðandi að stútfullur fróðleiksbrunnur Guðna Más yrði virkjaður í útvarpi.  Mig minnir að hann hafi fyrst komið honum í útvarpsstöðina Sólina.  Þar blómstraði hann með öðruvísi lagaval en aðrir dagskrárgerðarmenn.  Heillandi lagaval.

  Síðar hreppti Rás 2 Guðna Má.  Það var happafengur.   

  2002 tók Guðni Már upp á því að spila á Rás 2 færeyskt lag,  "Ormurin langi" með víkingametalsveitinni Tý. Þá hafði færeysk tónlist ekki áður verið spiluð á Rás 2. Vinnufélagarnir stukku ekki á vagninn til að byrja með.  Hann þurfti að hafa fyrir því að koma "Ormurin langi" í fasta spilun á Rás 2.  Með harðfylgni tókst honum að landa því.

  "Ormurin langi" varð mest spilaða lag á Íslandi 2002.  Platan seldist í 4000 eintökum.  Kiddi kanína var snöggur til að venju.  Hann bókaði Tý í hljómleikaferð um Ísland.  Í leiðinni bjó hann til færeyska tónlistarveislu,  Fairwaves.  Þar kynnti hann til sögunnar fjölda færeyskra tónlistarmanna,  svo sem Eivöru,  Högna Lisberg,  hljómsveitina Clickhaze,  pönksveitina 200,  djasssveitina Yggdrasil með Kristian Blak í fararbroddi,  Lenu Anderssen,  Hanus G. og Guðrið Hansdóttir, svo aðeins örfá nöfn séu nefnd.  

  Án Guðna Más hefðu Íslendingar aldrei kynnst frábærri tónlist þessa fólks. 

  Til gamans vitna ég í frásögn Guðna Más í bók minni Gata, Austurey,  Færeyjar,  Eivör og færeysk tónlist:  "Eivör spilaði í beinni útsendingu hjá mér í Útvarpshúsinu í Þórshöfn.  Hún var mögnuð stelpan þar.  Á milli laga spjallaði ég við hana og eitt sinn þegar ég reyndi að vera mjög gáfulegur og klár þá kleip hún mig í rassinn - í beinni útsendingu!"

guðni már

        


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.