Færsluflokkur: Lífstíll

Ósætti út af kjúklingavængjum

  Ofbeldi tíðkast víðar en í bandarískum skemmtiþáttaseríum.  Stundum þarf ekki mikið til.  Jafnvel að gripið sé til skotvopna þegar fólki mislíkar eitthvað.  Það hefur meira að segja hent á okkar annars friðsæla Íslandi;  þar sem flestir sýna flestum takmarkalausa ást og kærleika. 

  Í Vínlandinu góða,  nánar tiltekið í Utah-ríki,  vildi umhyggjusamur faðir gera vel við þrítugan son sinn.   Á heimleið úr vinnu keypti hann handa honum vænan skammt af kjúklingavængjum.  Viðtökurnar voru ekki jafn fagnandi og pabbinn bjóst við.  Stráksa mislíkaði að kallinn hafði ekki keypt uppáhaldsvængina hans heldur einhverja aðra tegund.  Mönnum getur sárnað af minna tilefni.  Hann stormaði inn á baðherbergi.  Þar var ein af byssum heimilisins geymd.  Kauði nýtti sér það.  Hann tók byssuna og skaut á kallinn.  Sem betur fer var hann ekki góð skytta í geðshræringunni.  Kúlan fór yfir í næsta hús og hafnaði þar í uppþvottavél. 

  Kallinn stökk á strákinn og náði að afvopna hann.  Áður tókst drengnum að hleypa af tveimur skotum til viðbótar.  Bæði geiguðu að mestu en náðu samt að særa kallinn. 

  Einhver bið verður á að gaurinn fái fleiri kjúklingavængi.  Hann er í fangelsi.  

vængir

           

  .    


Brýnt að halda til haga um Guðna Má Henningsson

  Ég heyrði fyrst af Guðna Má er ég kíkti í Plötubúðina á Laugavegi 20.  Þar réði Halldór Ingi heitinn Andrésson ríkjum.  Hann sagði mér frá þessum náunga sem hlustaði á músík allan daginn alla daga.  Hlustaði og stúderaði flytjendur allan sinn vökutíma.

  Halldóri Inga þótti áríðandi að stútfullur fróðleiksbrunnur Guðna Más yrði virkjaður í útvarpi.  Mig minnir að hann hafi fyrst komið honum í útvarpsstöðina Sólina.  Þar blómstraði hann með öðruvísi lagaval en aðrir dagskrárgerðarmenn.  Heillandi lagaval.

  Síðar hreppti Rás 2 Guðna Má.  Það var happafengur.   

  2002 tók Guðni Már upp á því að spila á Rás 2 færeyskt lag,  "Ormurin langi" með víkingametalsveitinni Tý. Þá hafði færeysk tónlist ekki áður verið spiluð á Rás 2. Vinnufélagarnir stukku ekki á vagninn til að byrja með.  Hann þurfti að hafa fyrir því að koma "Ormurin langi" í fasta spilun á Rás 2.  Með harðfylgni tókst honum að landa því.

  "Ormurin langi" varð mest spilaða lag á Íslandi 2002.  Platan seldist í 4000 eintökum.  Kiddi kanína var snöggur til að venju.  Hann bókaði Tý í hljómleikaferð um Ísland.  Í leiðinni bjó hann til færeyska tónlistarveislu,  Fairwaves.  Þar kynnti hann til sögunnar fjölda færeyskra tónlistarmanna,  svo sem Eivöru,  Högna Lisberg,  hljómsveitina Clickhaze,  pönksveitina 200,  djasssveitina Yggdrasil með Kristian Blak í fararbroddi,  Lenu Anderssen,  Hanus G. og Guðrið Hansdóttir, svo aðeins örfá nöfn séu nefnd.  

  Án Guðna Más hefðu Íslendingar aldrei kynnst frábærri tónlist þessa fólks. 

  Til gamans vitna ég í frásögn Guðna Más í bók minni Gata, Austurey,  Færeyjar,  Eivör og færeysk tónlist:  "Eivör spilaði í beinni útsendingu hjá mér í Útvarpshúsinu í Þórshöfn.  Hún var mögnuð stelpan þar.  Á milli laga spjallaði ég við hana og eitt sinn þegar ég reyndi að vera mjög gáfulegur og klár þá kleip hún mig í rassinn - í beinni útsendingu!"

guðni már

        


Af hverju eru Debbie Harry og Blondie pönk?

  Vegna Íslandsheimsóknar bandarísku söngkonunnar Debbie Harry hefur margur fróðleiksfús spurt sig,  ættingja og nágranna:  Af hverju var Blondie pönk?  Hljómsveitin hljómaði ekki eins og pönk.  Hún var meira eins og létt popp í bland við reggí.  

  Málið er að í Bandaríkjunum var pönk ekki einhver tiltekinn músíkstíll.  Það var samheiti yfir viðhorf tónlistarfólks til tónlistarbransans.  1974-1975 þótti prog (framsækið rokk) flottast.  En átti ekki upp á pallborð hjá vinahópi sem spilaði í New York skemmtistaðnum CBGB.  Hann spilaði einfalda músík sem var ekkert flækt með flóknum sólóum og taktskiptum.  Málið var að kýla á hlutina óháð færni á hljóðfæri.  Allir fengu að vera með:  Blondie,  Patti Smith, Televison,  Ramones...  Þetta var "gerðu það sjálf/ur" (Do It Yourself) viðhorf.

  Þetta tónlistarfólk var kallað pönk með tilvísun í fanga sem níðst er á í bandarískum fangelsum.  Aumast allra aumra.  

  Víkur þá sögu til Bretlands.  1976 myndaðist þar bylgja hljómsveita sem spilaði svipaða rokktónlist (blöndu af glam rokki og pöbbarokki).  Þetta voru Sex Pistols,  Clash,  Damned, Buzzcocks og fleiri.  Í ágúst 1976 skrifaði blaðakona NME vikublaðsins um þessa bylgju.  Hún sá sterka samlíkingu við bandarísku pönkarana.  Hún fékk samþykki bylgjunnar til að kalla hana pönk.  

 


Höfrungar til vandræða

höfrungar

 

 

 

 

 

 

 

 Á dögunum rákust færeyskir smábátaeigendur á höfrungavöðu.  Þeir giskuðu á að um væri að ræða 200 kvikindi.  Það er ágætis magn af ljúffengu kjöti.  Þeir ákváðu að smala kjötinu inn í Skálafjörð.  Hann er lengstur færeyskra fjarða,  14,5 km.  Allt gekk vel.  Nema að höfrungunum fjölgaði á leiðinni.  Að auki varð misbrestur á að að láta rétta menn í landi vita af tíðindunum.  Fyrir bragðið mættu fáir til leiks.  Þess vegna lenti það á örfáum að slátra 1400 dýrum.  Það tók tvo klukkutíma.  Einungis lærðum og útskrifuðum mænustungufræðingum er heimilt að lóga hvölum í Færeyjum.  

  Útlendir Sea Shepherd liðar í Færeyjum notuðu dróna til að senda aðfarirnar út í beinni á netsíðum erlendra fjölmiðla.  Meðal annars BBC. 

  Dýradráp er ekki fögur og aðlaðandi sýn fyrir nútímafólk sem heldur að kjöt og fiskur verði til í matvöruverslunum.  Ég vann í sláturhúsi á Sauðárkróki til margra ára sem unglingur.  Þar rann ekki minna blóð en þegar dýrum er slátrað í Færeyjum (sjá myndina fyrir neðan úr sláturhúsi).

  Ef sláturhús væru glerhús er næsta víst að sömu viðbrögð yrðu við slátrun á svínum, kindum, kjúklingum,  hestum og beljum og eru nú við höfrungadrápinu í Færeyjum. 

  Samt.  Höfrungadrápið var klúður.  Alltof mörg dýr.  Alltof fáir slátrarar.  Þetta var of.  Á venjulegu ári slátra Færeyingum um 600 marsvínum (grind).  Fram til þessa eru skepnurnar reknar 2 - 3 km.  Í þessu tilfelli voru höfrungarnir reknir 50 km.

  Stuðningur færeysks almennings við hvalveiðar hefur hrunið.  Þingmenn tala um endurskoðun á lögum um þær.  Sjávarútvegsfyrirtæki hafa opinberlega mótmælt þeim.  Líka færeyska álfadrottningin Eivör.  Hún er að venju hörð á sínu og hvikar hvergi í ritdeilum um málið.   

  Dráp á höfrungum þykir verra en grindhvaladráp.  Höfrungarnir þykja meira krútt.  Samt hef ég heyrt að höfrungur hafi nauðgað liðsmanni bandaríska drengjabandsins Backstreet Boys.  

sláturhús 

 

 

 


Frábær lögregla

  Í fyrradag missti tæplega fertugur maður vitið.  Óvænt.  Enginn aðdragandi.  Hann var bara allt í einu staddur á allt öðrum stað en raunveruleikanum.  Ég hringdi í héraðslækni.  Til mín komu tveir kvenlögregluþjónar sem hóuðu í sjúkrabíl.  

  Þetta fólk afgreiddi vandamálið á einstaklega lipran hátt.  Minnsta mál í heimi hefði verið að handjárna veika manninn og henda honum inn á geðdeild eða löggustöð.  Þess í stað var rætt við hann á ljúfu nótunum.  Að hluta til fallist á ranghugmyndir hans en um leið fengið hann til að fara á fætur og koma út í sjúkrabíl.  

  Þetta tók alveg 2 klukkutíma.  Skref fyrir skref:  Að standa á fætur,  að fara í skó og svo framvegis.

  Að lokum tókst að koma honum í sjúkrabílinn.  Hálftíma síðar hringdi önnur lögreglukonan í mig.  Vildi upplýsa mig um framhaldið frá því að maðurinn fór í sjúkrabílinn.  Sem var töluverð dagskrá sem náði alveg til dagsins í dag. 

  Þvílíkt frábær vinnubrögð.  Ég hafði ekki rænu á að taka niður nöfn.        


Líkamsóvirðing

  Sjónvarp Símans er skemmtilegt.  Þar eru endursýndir þættir árum saman þangað til öruggt er að áhorfandinn kunni þá utanað.  Þannig er haldið þétt utan um hlutina. 

  Ein áhugaverðasta þáttaserían heitir Love island.  Hún sýnir mannlegt eðli ungs fólks.  Þættirnir ganga út á það að breskum ungmennum er holað niður í afskekkt hótel á Spáni.  Þar býr það í vellystingum.  Eina kvöðin er að para sig.  Sem er létt verk og löðurmannlegt. 

  Ýmsu er bryddað upp á til að freista.  Við það skapast drama, ótryggð, afbrýðisemi og allskonar breskleiki.  Til að skerpa á hefur þátttakandi möguleika á að eignast 20 milljón kall eða álíka. 

  Strákarnir í hópnum eru hugguleg húðflúruð líkamsræktartröll.  Þeir tala um stelpur á máli boltaleikja.  Þeir tala um að skora.  Koss er fyrsta höfn,  kynlíf önnur höfn og eitthvað svoleiðis.  Öllum þreifingum er fagnað sem sigri.

  Strákarnir eru íklæddir boxer sundskýlum.  Stelpurnar eru íklæddar efnislitlu bikini.  Þær farða sig svo ríflega að þær eru nánast óþekkjanlegar hver frá annarri.  Sítt slétt hár niður á bak er litað ljóst.  Allar eru með gerviaugnhár.  Allt í góðu með það.  Nema að þær eru með þrútnar botox-varir.  Það er ekki flott.  Ég fordæmi það sem vonda fyrirmynd ungra kvenna.  Mér að meinalausu mega konur á elliheimilum þrykkja í ýktar botox-varir.  Það er svo sem ekki margt annað um að vera á elliheimilum.  Ef frá er talin harmónikkumúsík.    

varir avarir b       

          


Illa farið með börn

  Sumt fólk kemur illa fram við börn.  Stundum svo undrum sætir.  Það fengu sjö tólf ára stelpur að sannreyna er þær brugðu sér af bæ og hugðust horfa saman á kvikmynd,  Hungurgeimana, í þar til gerðum bíósal. 

  Stelpurnar voru ekki búnar að sitja lengi undir myndinni er hávært sírenuvæl frá nokkrum lögreglubílum truflaði skemmtunina.  Þetta var í Austur-Sussex í Englandi.  Laganna verðir stormuðu inn gráir fyrir járnum.  Þeir smöluðu stelpunum út á hlað og sökuðu þær um að brjóta höfundarrétt.  Þær væru að taka myndina upp á síma og iPoda.  Skoðun á tækjum stelpnanna sannaði sakleysi þeirra.  Þar var ekkert höfundarvarið efni að finna.  Þrjár stelpnanna voru ekki einu sinni með síma eða aðrar græjur til að taka neitt upp.

  Fyrir utan hímdu stelpurnar í grenjandi rigningu og skulfu úr kulda baðaðar í bláum blikkljósum.  Fjórar þeirra fengu taugaáfall hágrátandi og þurftu að kalla á foreldra til að ferja sig heim.  Lögreglan meinaði stelpunum að halda hópinn.  Þeim var haldið aðgreindum.  Ein stúlkan sagði móður sinni síðar að hún hafi verið svo hrædd að henni hafi verið ómögulegt að gráta.  Hún var bara í losti.  Þær höfðu enga reynslu af samskiptum við lögregluna. 

  Eigendur kvikmyndahússins hafna sök.  Vísa alfarið á lögregluna.  Segja að í kjölfar símtals við hana hafi hún borið alla ábyrgð á framvindunni. Endurgreiðslu á miðum er hafnað.  Nýjum miðum er hafnað.  Stelpurnar eyddu um 20 þúsund kalli í kaup á miðum,  poppkorni, gosdrykkjum og fleiru.  En þær hafa ekki ennþá séð myndina.  Hvorki í kvikmyndahúsi né á netinu.  Lögreglan hefur beðist afsökunar.

  Góðu fréttirnar eru að svona gerist ekki á Íslandi. 

 

      


Aðdáunarverður metnaður

  Á árum áður voru Prince Polo og kók þjóðarréttur Íslendinga - þá sjaldan er þeir gerðu sér dagamun.  Í dag er þjóðarrétturinn pylsa og Kristall með sítrónubragði. 

  Þangað til nýverið samanstóð pylsan af uppsópi af gólfi kjötiðnaðarmannsins.  Það eru breyttir tímar.  Nú til dags er eru meiri er meiri sérviska við framleiðsluna.

  Vinsælustu sölustaðir pylsunnar eru afgreiðslulúgur Bæjarins bestu.  Varast ber að rugla þeim saman við samnefnt héraðsfréttablað á norðanverðum Vestfjörðum.  Pylsan í Bæjarins bestu kostaði 430 kall uns verðið hækkaði í 480 á dögunum.  Nokkru síðar skreið það í 500 kall.  Núna er erlendir ferðamenn komu til landsins og hófu að hamstra pylsu var verðið snarlega hækkað í 550 kall.

  Þetta er alvöru bisness.  Fyrst að ferðamaðurinn er reiðubúinn að borga 550 kall með bros á vör þá um að gera að sæta lagi.  Hann hefur ekki hugmynd um að í bensínsjoppum á borð við Kvikk kostar pylsan 349 kall.  Verðmunurinn er 201 króna. 

pylsa 


Hver er uppáhalds Bítlaplatan?

  Hér til vinstri á bloggsíðunni hef ég stillt upp nýrri skoðanakönnun.  Hún mun standa þangað til 1000 atkvæði hafa skilað sér í hús.  Reynslan hefur þó kennt að línur skýrast strax með fyrstu 100 - 200 atkvæðum.  Samt.  1000 atkvæði eru trúverðugri.

  Varast ber að taka svona skoðanakönnun of hátíðlega.  Þetta er fyrst og fremst skemmtilegur samkvæmisleikur.  Úrslitin  mæla ekki smekk þverskurðar af þjóðfélaginu.  Þau túlka einungis smekk lesenda bloggsíðunnar.  Þeir eru að uppistöðu til karlmenn komnir af léttasta skeiði og nokkrar konur á sama aldri.  

  Takið endilega þátt í könnuninni.  Spurt er um uppáhalds Bítlaplötu.  Ekki bestu Bítlaplötu.  Á þessu er munur.  Pavarotti er betri söngvari en Megas.  Megas er skemmtilegri.   

 

 

 


Afi hótar bónda - framhald

  Hvort bróðir minn braut rúðuna i skólanum er óvíst.  Aldrei hefur fengist úr því skorið.  Hann hélt fram sakleysi sínu.  Og gerir enn.  Þó er eins og hann verði pínulítið skömmustulegur á svipinn þegar þetta ber á góma.  Bróðir húsbóndans hélt því fram að hann hafi séð bróðir minn brjóta rúðuna. 

  Afi trúði engu upp á sonarson sinn.  Hann sór þess eið að ná fram hefndum.  Tækifærið kom næst er hann fékk far með mjólkurbílnum að skólanum. Ekki var von á skólabílnum á allra næstu mínútum.  Bóndinn bauð afa í kaffi.  Á borð voru bornar kökur og tertur af ýmsu tagi.  Segja má að afa hafi verið haldin veisla.  

  Afi sat gegnt bóndanum við eldhúsborðið.  Þeir spjölluðu um heima og geima.  Virtist fara vel á með þeim;  uns bóndinn spurði:  "Hvað er Mundi með margar ær í hverri kró í vetur?"

  Afi brá við skjótt.  Eldsnöggt teygði hann sig yfir borðið.  Lætin voru svo mikil að gusaðist úr kaffibollanum hans.  Hann lagði krepptan hnefa að kinn bóndans.  Hann kýldi ekki.  Lagði bara hnefann að kinn,  skók hann og hrópaði reiðilega:  "Sonur minn heitir Guðmundur.  Ekki Mundi!"

  Bóndanum dauðbrá.  Hann hikstaði og stamaði:  "Já,  ég hérna...já, meina Guðmundur."

  Afi róaðist þegar í stað og fékk sér síðasta kaffisopann um leið og hann svaraði sallarólegur:  "Það eru ýmist 20 eða 21."

  Næstu daga hældi afi sér aftur og aftur fyrir að hafa hrellt bóndann svo rækilega að hann myndi dreyma martraðir næstu nætur.

  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband