Færsluflokkur: Lífstíll
6.6.2021 | 11:54
Hártískan
Í dægurlagaheimi er algengt að poppstjörnur veki athygli á sér með sérstakri hárgreiðslu. Í sumum tilfellum smitast þetta út til almennings og verður almenn tíska. Stærsta dæmið er þegar Bítlarnir tóku upp á því að greiða hárið niður á enni. Einnig síðar þegar þeir leyfðu hárinu að vaxa niður á herðar og skiptu í miðju. Svo voru það pönkararnir sem skörtuðu móhíkanakambi. Ekki má gleyma "sítt að aftan" á 8-unni.
Í upphafi 20. aldar voru tískustraumar í hárgreiðslu. Að minnsta kosti í Bandaríkjunum. Sérlega virðist hafa verið vinsælt að koma sér upp töluverðri hárhrúgu hægra megin á kollinum. Eða til beggja hliða. Hér eru sýnishorn:
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
28.5.2021 | 22:40
Ferðagjafarvandræði
Ég vaknaði upp með andfælum þegar í útvarpinu glumdi auglýsing um ferðagjöfina. Þar var upplýst að hún væri alveg við það að renna út. Ég hafði ekki leist mína út. Nú voru góð ráð dýr. Ég var ekki á leið í ferðalag eitt né neitt. Ég var bara á leið í Kringluna. Ég brá mér í Hamborgarafabrekkuna sem þar er staðsett.
Ég tilkynnti afgreiðsludömu að ég hefði hug á að virkja ferðagjöfina. Ég dró upp takkasímann minn. Hann hefur þjónað mér dyggilega frá síðustu öld. Hún spurði hvort ég væri ekki með snjallsíma. Nei, bara þennan. Ég veit ekki einu sinni hvað snjallsími er. Daman fórnaði höndum og skipaði mér að hinkra. Ég hlýddi möglunarlaust. Hún brá sér frá og sótti aðra afgreiðsludömu. Sú reyndi að virkja gjöfina. Án árangurs. Ég bað hana að reyna aftur. Hún fórnaði höndum og sagði að þetta virkaði ekki.
Næst átti ég erindi í Hamraborg í Kópavogi. Þar er Subway. Ég þangað. Afgreiðslumanneskjan komst ekki lengra en sú í Kringlunni. Hún reyndi samt aftur og aftur. Ungur karlmaður blandaði sér í málið. Hann var allur af vilja gerður að hjálpa. Eftir nokkrar atrennur áttaði hann sig á því hvernig hlutirnir virkuðu. Hann er greinilega tölvusnjall. Hann var allt í einu kominn með strikamerki í símann sinn. Hann gaf dömunni fyrirmæli um að taka mynd af því og þá væri dæmið í höfn. Það gekk eftir.
Til að klára inneignina gerði ég mér ferð í Pítuna í Skipholti. Afgreiðsludaman sagðist þurfa að gúggla hvernig hún gæti afgreitt dæmið. Eftir smástund sagði hún: "Þetta virkar ekki í tölvunni. En ég get græjað þetta í snjallsímanum mínum." Það gekk eins og í sögu.
Á meðan ég beið eftir matnum varð ég vitni að eftirfarandi: Ung kona fékk máltíð sína. Skömmu síðar stormaði hún með diskinn sinn að afgreiðsluborðinu. Spurði hvort að hún hefði pantað þennan rétt. Afgreiðsludaman játti því og benti á að það stæði á kvittun hennar. Konan sagði: "Ég ætlaði ekki að panta þetta. Ég ætlaði að panta..." Ég náði ekki hvað hún nefndi.
Afgreiðsludaman tók erindinu vel. Sagði eitthvað á þessa leið: Ekkert mál. Ég afskrifa pöntun þína og læt þig fá máltíðina sem þú ætlaðir að panta.
Þetta er þjónustulund til fyrirmyndar.
Lífstíll | Breytt 29.5.2021 kl. 09:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
23.5.2021 | 06:13
Hvað ef...?
Ef John, Paul, George og Ringo hefðu aldrei hist væri margt öðruvísi en það er í dag. Ekki aðeins tónlistin. Fjórmenningarnir frá Liverpool breyttu mörgu öðru. Allt frá hártísku til almennra viðhorfa til margs. Sprengikrafturinn lá í liðsheild kvartettsins. Hvað hefði orðið um einstaklingana ef þeir hefðu aldrei hist?
Fyrsta ályktum um John Lennon gæti verið að hann hefði orðið myndlistamaður. Hann var í myndlistaskóla. Fyrri eiginkona hans og barnsmóðir, Cynthia, var skólasystir hans. John var efnilegur myndlistamaður. Hinsvegar lauk hann aldrei námi í skólanum. Hann var rekinn úr honum fyrir ítrekuð agabrot og árekstra við kennara og samnemendur. Það einkenndi einnig grunnskólagöngu hans. Hann átti erfitt með að fylgja reglum, hafði ekki reiðistjórn og var ofbeldismaður. Það þurfti sérstakar manngerðir til að umbera skapofsaköst hans og ofbeldishneigð.
Líklegra er að John hefði orðið rithöfundur. Hann skrifaði frábærlega fyndnar og frumlegar smásögur sem voru gefnar út í bókarformi. Þorsteinn Eggertsson þýddi sumar þeirra og birti í dagblaðinu Tímanum. Gaman væri ef hann þýddi þær allar og gæfi út á íslensku í heilu lagi.
Sem tónlistarmaður hefði John ekki náð langt án Pauls, Georges og Ringos. Hann stofnaði hljómsveitina The Quarrymen sem varð undanfari Bítlanna. Þó að þetta væri hans hljómsveit, sem söngvara og allsráðandi, þá tókst ekki betur til en svo að hann spilaði banjóhljóma á gítarinn. Báðir foreldrar hans voru banjóleikarar og spiluðu að auki á ukoleli. Mamma hans var einnig píanóleikari. Pabbi hans var söngvari og lagahöfundur. John var með tónlistargen í blóðinu. Án Pauls hefðu þau gen aðeins gert John að glamrara og gutlara í hljóðfæraleik. Eins og foreldrana.
Hljómsveitin The Quarrymen er starfandi enn í dag. En er ekki að skora hátt. Fjarri því góð hljómsveit. Næstum 70 árum síðar stenst hún ekki samanburð við frumútgáfu af Bítlunum með John, Paul og George. Það er hrópandi munur á "karakterunum" í músíkinni.
. Vegna skapofsa Johns og ofbeldishneigðar er lílegt að hann hefði skrifað sínar sögur í fangelsi.
Þegar Paul kynntist John var hann á leið í háskólanám í læknisfræði og ensku. John stillti honum upp við vegg: Annað hvort velur þú skólann eða The Quarrymen. Það er ekkert bæði. Bara annað hvort. Paul valdi rétt. Ef hann hefði valið annað hefði hann orðið gutlari á pöbbum eins og pabbi sinn.
George var byrjaður að spila með Bítlunum þegar hann skráði sig í nám sem ratvirki. George drepleiddist námið. Kolféll á fyrsta prófi. Erfitt er að reikna út hvað hann hefði tekið sér fyrir hendur án Bítlanna. Sjálfur giskaði hann á garðyrkju eða grænmetisveitingastað.
John Lennon sagði eitt sinn að Ringo væri eini Bítillinn sem hefði "meikað það" án Bítlanna. Hann hefði gert það gott sem trommari og ennfremur orðið góður kvikmyndaleikari. Hann var í góðum málum sem trommari í vinsælli hljómsveit í Liverpool, áður en hann gekk til liðs við Bítlana. Hann tók niður fyrir sig með því. En honum þótti Bítlarnir svo brjálæðislega skemmtilegir að hann lét slag standa. Sá aldrei eftir því. Hann var eini Bítillinn sem John lamdi aldrei. Eru þá fyrsti bassalerikari Bítlanna, Stu, og trommuleikari The Quarrymen meðtaldir, svo og Cynthia.
Lífstíll | Breytt 9.11.2021 kl. 12:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
8.5.2021 | 02:28
Smásaga um glaðvakandi mann
Jónsi er í kvöldheimsókn hjá Binna vini sínum. Þeir hafa ekki hist síðan þeir voru saman í skóla. Það eru meira en tvær vikur síðan. Þeir hafa því frá mörgu að segja og draga hvergi undan. Mikið er hlegið og tíminn er fljótur að líða. Fyrr en varir slær stofuklukkan tíu.
Ella, kona Binna, rekur nefið inn um stofugættina. Hún segir honum að drífa sig í háttinn.
"Róleg, kona," svarar hann. "Þú sérð að ég er með gest."
Það snöggfýkur í Ellu. Hún hleypur að Binna og sparkar í fótinn á honum. Hann rekur upp sársaukavein. Ella forðar sér úr stofunni.
Skömmu síðar er barið harkalega á dyr. Ella opnar dyrnar. Fyrir utan standa tveir lögregluþjónar gráir fyrir járnum. Annar er tröllvaxinn rumur. Hinn er nett dama. Hún spyr valdmannslega: "Hvar er pésinn sem vill ekki fara að sofa?"
Ella bendir á Binna. Löggurnar ganga að honum. Þær skella honum með látum í gólfið. Hann berst um á hæl og hnakka. En er ofurliði borinn. Löggurnar tæta utan af honum fötin. Svo mikill er atgangurinn að tölurnar slitna af skyrtunni hans og spýtast í allar áttir. Jónsi notar tækifærið og læðist óséður úr húsi.
Binni róast þegar hann er aðeins á nærbuxunum. Löggudaman kallar til Ellu: "Á hann náttföt?" Hún kannast ekki við það. En segist geta lánað honum náttkjól. Löggurnar troða honum í kjólinn. Troða í bókstaflegri merkingu. Hann er nefnilega of lítill. Í honum svipar Binna til lundabagga.
Binna er dröslað inn í rúm. Ella er komin undir sæng. Rumurinn spyr: "Eigum við ekki að sekta kvikindið?" Daman svarar: "Nei, ég veiti honum bara skriflega áminningu."
Hún dregur upp áminningablokk og fyllir út formið. Rumurinn spyr: "En má ég ekki rásskella hann?" Hún samþykkir það en tekur fram: "Aðeins eitt högg."
Hann lætur ekki segja sér það tvisvar. Hann hendir Binna á magann og slær hann kröftuglega á bossann svo smellur hátt í. Því næst snýr hann honum á bakið og skorðar þétt við Ellu. Hann breiðir sængina yfir þau. Alveg upp að höku. Hann hvíslar: "Góða nótt" og kyssir hjúin á ennið. Svo hverfur hann út í náttmyrkrið ásamt dömunni.
Lífstíll | Breytt 9.5.2021 kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
11.4.2021 | 10:17
Samherjasvindlið
Eftir að ég tók virkan þátt í starfsemi Frjálslynda flokksins skipti ég um hest í miðri á; kúplaði mig út úr pólitískri umræðu. Hinsvegar brá svo við í gær að vinur minn bað mig um að snara fyrir sig yfir á íslensku yfirlýsingu frá Anfin Olsen, nánum samstarfsmanni Samherja í Færeyjum. Þetta á erindi í umræðuna: Reyndar treysti ég ekki minni lélegu færeysku til að þýða allt rétt. Þú skalt ekki heldur treysta henni. Ég á líka eftir að umorða þetta almennilega. Ég hef fengið flogakast af minna tilefni.
Hefst þá málsvörn Anfinns:
Lífstíll | Breytt 12.4.2021 kl. 08:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.3.2021 | 20:14
Færeyingar skara framúr
Í fréttum af erlendum vettvangi er iðulega tíundað hvernig norrænu þjóðunum vegnar í baráttunni við kóróna-vírusinn. Gallinn við þennan fréttaflutning er að Færeyingar eru taldir með Dönum. Fyrir bragðið fer glæsilegur árangur Færeyinga framhjá flestum. Nú skal bætt úr því:
Í Færeyjum er enginn smitaður. Enginn er að bíða eftir niðurstöðu úr skimun. Enginn er í innlögn. Enginn er í sóttkví.
Færeyingar hafa skimað um 240 þúsund manns. Það er mikið fyrir þjóð sem telur 53 þúsund. Skýringin er margþætt. Meðal annars hafa margir Færeyingar búsettir erlendis átt erindi til Færeyja oftar en einu sinni frá því að Covid gekk í garð fyrir tveimur árum. Sama er að segja um marga útlendinga sem þurfa að bregða sér til Færeyja vinnutengt. Einnig hefur verið töluvert um að Íslendingar og Danir sæki Færeyjar heim í sumar- og vetrarfríum. Erlend skip og togarar (þar af íslenskir) kaupa vistir í Færeyjum og landa þar. Svo eru það erlendu skemmtiferðaskipin.
Sjálfir gera Færeyingar út glæsilegt skemmtiferðaskip, Norrænu, sem siglir til og frá Færeyjum, Íslandi og Danmörku. Í þessum skrifuðu orðum er tveir Danir í sóttkví um borð í Norrænu.
Færeyingar hafa gefið 10 þúsund bólusprautur. Þar af hafa 11% af þjóðinni fengið fyrri sprautuna og 7,7% seinni sprautuna.
Danskur ráðherra, að mig minnir Mette Frederiksen, sagði í viðtali að Danir gætu lært margt af Færeyingum í baráttunni við Covid-19. Íslendingar geta það líka. Og reyndar lært margt annað af Færeyingum.
Lífstíll | Breytt 30.3.2021 kl. 08:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
11.3.2021 | 19:09
Hártískan
Tískan er harður húsbóndi. Ekki síst hártískan. Oft veldur lítil þúfa þungu hlassi. Eins og þegar fjórir guttar í Liverpool tóku upp á því að greiða hárið fram á enni og láta það vaxa yfir eyrun á fyrri hluta sjöunda áratugarins (6-unni). Þetta kallaðist bítlahár. Það fór eins og eldur um sinu um heimsbyggðina. Svo leyfðu þeir hárinu að síkka. Síða hárið varð einkenni ungra manna. Svo sítt að það óx niður á bak og var skipt í miðju.
Löngu síðar komu til sögunnar aðrar hártískur. Svo sem pönkara hanakambur og þar á eftir "sítt að aftan".
Margt af því sem um hríð þótti flottast í hártísku hefur elst mis vel. Skoðum nokkur dæmi:
Lífstíll | Breytt 13.3.2021 kl. 16:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
18.2.2021 | 19:10
Viðgerðarmaðurinn Albert
Hann er þúsundþjalasmiður. Sama hvað er bilað; hann lagar það. Engu skiptir hvort heimilistæki bili, húsgögn, pípulagnir, rafmagn, tölvur, bílar eða annað. Hann er snöggur að kippa hlutunum í lag. Hann smíðar, steypir, flísaleggur, grefur skurði, málar hvort sem er utan eða innan húss.
Um tíma bjuggum við á sama gistiheimili. Þar þurfti af og til að dytta að hinu og þessu. Þá var viðgerðarmaðurinn Albert í essinu sínu. Á gistiheimilinu bjuggu einnig hjón frá Kambódíu. Samkomulagið var gott. Ásamt öðrum íbúum vorum við eins og eins stór fjölskylda. Svo bar við að viðgerðarmaðurinn Albert og ég sátum í herbergi kambódísku hjónanna. Hjör á stórum fataskáp þeirra hafði gefið sig. Hurðin dinglaði kengskökk. Hjónin báru sig illa undan þessu.
Viðbrögð viðgerðarmannsins Alberts voru að sitja í sínum stól og líta í rólegheitum í kringum sig. Hann kom auga á járntappa af gosflösku. Teygði sig eftir honum. Um leið dró hann upp svissneskan hníf. Eða réttara sagt eftirlíkingu að svissneskum hníf. Með hnífnum hnoðaðist hann á tappanum án þess að skoða hjörina. Að skömmum tíma liðnum teygði hann sig í hana. Eftir smástund var hurðin komin í lag. Fataskápurinn var eins og nýr. Viðgerðarmaðurinn Albert stóð ekki upp af stól á meðan viðgerðarferlið stóð yfir.
Lífstíll | Breytt 15.5.2021 kl. 15:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
12.2.2021 | 21:33
Veitingaumsögn
- Réttur: International Basic Burger
- Veitingastaður: Junkyard, Skeifunni 13A í Reykjavík
- Verð: 1500 kr.
- Einkunn: ** (af 5)
Hamborgarinn er vegan en ekki úr nautakjöti. Samt bragðast hann eiginlega eins og grillaður nautakjötsborgari. Alveg ljómandi. Á matseðlinum segir að hann sé reiddur fram með tómatssósu, sinnepi, lauk og súrsuðum gúrkum. Ég sá ekki né fann bragð af sinnepi. Né heldur lauk. Ég hefði gjarnan vilja verða var við sinnep og lauk. Hinsvegar voru gúrkusneiðarnar að minnsta kosti tvær.
Borgaranum fylgdu franskar kartöflur og kokteilsósa. Á matseðlinum segir að sósa sé að eigin vali. Mér var ekki boðið upp á það. Kokteilsósa er allt í lagi. Verra er að hún var skorin við nögl. Dugði með helmingnum af frönskunum. Fór ég þó afar sparlega með hana. Á móti vegur að frönskuskammturinn var ríflegur.
Junkyard er lúgusjoppa við hliðina á Rúmfatalagernum. Á góðviðrisdegi er aðstaða fyrir fólk að setjast niður fyrir utan og snæða í ró og næði.
Á matseðlinum er mynd af hamborgara sem er mjög ólíkur raunverulegum International Basic Burger. Við gætum verið að tala um vörusvik. Auglýsingaborgarinn er til að mynda með osti og bólginn af meðlæti.
Lífstíll | Breytt 13.2.2021 kl. 19:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
6.2.2021 | 21:09
Hverjir selja ljótu húsin?
Um allt land eru ljót hús. Þau eru aldrei til sölu. Nema parhús í Kópavogi. Það var til sölu. Eftir fréttaflutning af því var togast á um það. Fyrstur kom. Fyrstur fékk. Í auglýsingum fasteignasala eru öll hús og allar íbúðir á söluskrá þeirra ýmist fallegar og rúmgóðar eða sérlega fallegar og glæsilegar. Sumar eru bjartar og virkilega glæsilegar og snyrtilegar. Allar eru vel staðsettar. Jafnvel tekið fram að stutt sé í allar áttir. Gott útsýni eða eða sérlega gott útsýni. Þá eru þær vel skipulagðar eða bjóða upp á ýmsa möguleika.
Sumt í fasteignaauglýsingum kemur eins og þruma úr heiðskýru lofti. Til að mynda þegar tekið er fram að þvottaaðstaða sé í íbúðinni. Kætast þá börnin smá yfir að þurfa ekki að fara með allan þvott í þvottahús langt út í bæ.
Einnig þegar tekið er fram að gólfefni fylgi með. Hvernig er íbúð án gólfefnis? Svo er það aðal sölutrikkið: Mynddyrasími fylgir. Húsið er til sölu á 120 milljónir en án mynddyrasíma. Nei, jú, hann fylgir með. Sala!
Lífstíll | Breytt 7.2.2021 kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)