Færsluflokkur: Lífstíll
15.8.2021 | 03:31
Líkamsóvirðing
Sjónvarp Símans er skemmtilegt. Þar eru endursýndir þættir árum saman þangað til öruggt er að áhorfandinn kunni þá utanað. Þannig er haldið þétt utan um hlutina.
Ein áhugaverðasta þáttaserían heitir Love island. Hún sýnir mannlegt eðli ungs fólks. Þættirnir ganga út á það að breskum ungmennum er holað niður í afskekkt hótel á Spáni. Þar býr það í vellystingum. Eina kvöðin er að para sig. Sem er létt verk og löðurmannlegt.
Ýmsu er bryddað upp á til að freista. Við það skapast drama, ótryggð, afbrýðisemi og allskonar breskleiki. Til að skerpa á hefur þátttakandi möguleika á að eignast 20 milljón kall eða álíka.
Strákarnir í hópnum eru hugguleg húðflúruð líkamsræktartröll. Þeir tala um stelpur á máli boltaleikja. Þeir tala um að skora. Koss er fyrsta höfn, kynlíf önnur höfn og eitthvað svoleiðis. Öllum þreifingum er fagnað sem sigri.
Strákarnir eru íklæddir boxer sundskýlum. Stelpurnar eru íklæddar efnislitlu bikini. Þær farða sig svo ríflega að þær eru nánast óþekkjanlegar hver frá annarri. Sítt slétt hár niður á bak er litað ljóst. Allar eru með gerviaugnhár. Allt í góðu með það. Nema að þær eru með þrútnar botox-varir. Það er ekki flott. Ég fordæmi það sem vonda fyrirmynd ungra kvenna. Mér að meinalausu mega konur á elliheimilum þrykkja í ýktar botox-varir. Það er svo sem ekki margt annað um að vera á elliheimilum. Ef frá er talin harmónikkumúsík.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
29.7.2021 | 00:06
Illa farið með börn
Sumt fólk kemur illa fram við börn. Stundum svo undrum sætir. Það fengu sjö tólf ára stelpur að sannreyna er þær brugðu sér af bæ og hugðust horfa saman á kvikmynd, Hungurgeimana, í þar til gerðum bíósal.
Stelpurnar voru ekki búnar að sitja lengi undir myndinni er hávært sírenuvæl frá nokkrum lögreglubílum truflaði skemmtunina. Þetta var í Austur-Sussex í Englandi. Laganna verðir stormuðu inn gráir fyrir járnum. Þeir smöluðu stelpunum út á hlað og sökuðu þær um að brjóta höfundarrétt. Þær væru að taka myndina upp á síma og iPoda. Skoðun á tækjum stelpnanna sannaði sakleysi þeirra. Þar var ekkert höfundarvarið efni að finna. Þrjár stelpnanna voru ekki einu sinni með síma eða aðrar græjur til að taka neitt upp.
Fyrir utan hímdu stelpurnar í grenjandi rigningu og skulfu úr kulda baðaðar í bláum blikkljósum. Fjórar þeirra fengu taugaáfall hágrátandi og þurftu að kalla á foreldra til að ferja sig heim. Lögreglan meinaði stelpunum að halda hópinn. Þeim var haldið aðgreindum. Ein stúlkan sagði móður sinni síðar að hún hafi verið svo hrædd að henni hafi verið ómögulegt að gráta. Hún var bara í losti. Þær höfðu enga reynslu af samskiptum við lögregluna.
Eigendur kvikmyndahússins hafna sök. Vísa alfarið á lögregluna. Segja að í kjölfar símtals við hana hafi hún borið alla ábyrgð á framvindunni. Endurgreiðslu á miðum er hafnað. Nýjum miðum er hafnað. Stelpurnar eyddu um 20 þúsund kalli í kaup á miðum, poppkorni, gosdrykkjum og fleiru. En þær hafa ekki ennþá séð myndina. Hvorki í kvikmyndahúsi né á netinu. Lögreglan hefur beðist afsökunar.
Góðu fréttirnar eru að svona gerist ekki á Íslandi.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
21.7.2021 | 00:03
Aðdáunarverður metnaður
Á árum áður voru Prince Polo og kók þjóðarréttur Íslendinga - þá sjaldan er þeir gerðu sér dagamun. Í dag er þjóðarrétturinn pylsa og Kristall með sítrónubragði.
Þangað til nýverið samanstóð pylsan af uppsópi af gólfi kjötiðnaðarmannsins. Það eru breyttir tímar. Nú til dags er eru meiri er meiri sérviska við framleiðsluna.
Vinsælustu sölustaðir pylsunnar eru afgreiðslulúgur Bæjarins bestu. Varast ber að rugla þeim saman við samnefnt héraðsfréttablað á norðanverðum Vestfjörðum. Pylsan í Bæjarins bestu kostaði 430 kall uns verðið hækkaði í 480 á dögunum. Nokkru síðar skreið það í 500 kall. Núna er erlendir ferðamenn komu til landsins og hófu að hamstra pylsu var verðið snarlega hækkað í 550 kall.
Þetta er alvöru bisness. Fyrst að ferðamaðurinn er reiðubúinn að borga 550 kall með bros á vör þá um að gera að sæta lagi. Hann hefur ekki hugmynd um að í bensínsjoppum á borð við Kvikk kostar pylsan 349 kall. Verðmunurinn er 201 króna.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.7.2021 | 05:32
Hver er uppáhalds Bítlaplatan?
Hér til vinstri á bloggsíðunni hef ég stillt upp nýrri skoðanakönnun. Hún mun standa þangað til 1000 atkvæði hafa skilað sér í hús. Reynslan hefur þó kennt að línur skýrast strax með fyrstu 100 - 200 atkvæðum. Samt. 1000 atkvæði eru trúverðugri.
Varast ber að taka svona skoðanakönnun of hátíðlega. Þetta er fyrst og fremst skemmtilegur samkvæmisleikur. Úrslitin mæla ekki smekk þverskurðar af þjóðfélaginu. Þau túlka einungis smekk lesenda bloggsíðunnar. Þeir eru að uppistöðu til karlmenn komnir af léttasta skeiði og nokkrar konur á sama aldri.
Takið endilega þátt í könnuninni. Spurt er um uppáhalds Bítlaplötu. Ekki bestu Bítlaplötu. Á þessu er munur. Pavarotti er betri söngvari en Megas. Megas er skemmtilegri.
26.6.2021 | 07:28
Afi hótar bónda - framhald
Hvort bróðir minn braut rúðuna i skólanum er óvíst. Aldrei hefur fengist úr því skorið. Hann hélt fram sakleysi sínu. Og gerir enn. Þó er eins og hann verði pínulítið skömmustulegur á svipinn þegar þetta ber á góma. Bróðir húsbóndans hélt því fram að hann hafi séð bróðir minn brjóta rúðuna.
Afi trúði engu upp á sonarson sinn. Hann sór þess eið að ná fram hefndum. Tækifærið kom næst er hann fékk far með mjólkurbílnum að skólanum. Ekki var von á skólabílnum á allra næstu mínútum. Bóndinn bauð afa í kaffi. Á borð voru bornar kökur og tertur af ýmsu tagi. Segja má að afa hafi verið haldin veisla.
Afi sat gegnt bóndanum við eldhúsborðið. Þeir spjölluðu um heima og geima. Virtist fara vel á með þeim; uns bóndinn spurði: "Hvað er Mundi með margar ær í hverri kró í vetur?"
Afi brá við skjótt. Eldsnöggt teygði hann sig yfir borðið. Lætin voru svo mikil að gusaðist úr kaffibollanum hans. Hann lagði krepptan hnefa að kinn bóndans. Hann kýldi ekki. Lagði bara hnefann að kinn, skók hann og hrópaði reiðilega: "Sonur minn heitir Guðmundur. Ekki Mundi!"
Bóndanum dauðbrá. Hann hikstaði og stamaði: "Já, ég hérna...já, meina Guðmundur."
Afi róaðist þegar í stað og fékk sér síðasta kaffisopann um leið og hann svaraði sallarólegur: "Það eru ýmist 20 eða 21."
Næstu daga hældi afi sér aftur og aftur fyrir að hafa hrellt bóndann svo rækilega að hann myndi dreyma martraðir næstu nætur.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.6.2021 | 11:54
Hártískan
Í dægurlagaheimi er algengt að poppstjörnur veki athygli á sér með sérstakri hárgreiðslu. Í sumum tilfellum smitast þetta út til almennings og verður almenn tíska. Stærsta dæmið er þegar Bítlarnir tóku upp á því að greiða hárið niður á enni. Einnig síðar þegar þeir leyfðu hárinu að vaxa niður á herðar og skiptu í miðju. Svo voru það pönkararnir sem skörtuðu móhíkanakambi. Ekki má gleyma "sítt að aftan" á 8-unni.
Í upphafi 20. aldar voru tískustraumar í hárgreiðslu. Að minnsta kosti í Bandaríkjunum. Sérlega virðist hafa verið vinsælt að koma sér upp töluverðri hárhrúgu hægra megin á kollinum. Eða til beggja hliða. Hér eru sýnishorn:
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
28.5.2021 | 22:40
Ferðagjafarvandræði
Ég vaknaði upp með andfælum þegar í útvarpinu glumdi auglýsing um ferðagjöfina. Þar var upplýst að hún væri alveg við það að renna út. Ég hafði ekki leist mína út. Nú voru góð ráð dýr. Ég var ekki á leið í ferðalag eitt né neitt. Ég var bara á leið í Kringluna. Ég brá mér í Hamborgarafabrekkuna sem þar er staðsett.
Ég tilkynnti afgreiðsludömu að ég hefði hug á að virkja ferðagjöfina. Ég dró upp takkasímann minn. Hann hefur þjónað mér dyggilega frá síðustu öld. Hún spurði hvort ég væri ekki með snjallsíma. Nei, bara þennan. Ég veit ekki einu sinni hvað snjallsími er. Daman fórnaði höndum og skipaði mér að hinkra. Ég hlýddi möglunarlaust. Hún brá sér frá og sótti aðra afgreiðsludömu. Sú reyndi að virkja gjöfina. Án árangurs. Ég bað hana að reyna aftur. Hún fórnaði höndum og sagði að þetta virkaði ekki.
Næst átti ég erindi í Hamraborg í Kópavogi. Þar er Subway. Ég þangað. Afgreiðslumanneskjan komst ekki lengra en sú í Kringlunni. Hún reyndi samt aftur og aftur. Ungur karlmaður blandaði sér í málið. Hann var allur af vilja gerður að hjálpa. Eftir nokkrar atrennur áttaði hann sig á því hvernig hlutirnir virkuðu. Hann er greinilega tölvusnjall. Hann var allt í einu kominn með strikamerki í símann sinn. Hann gaf dömunni fyrirmæli um að taka mynd af því og þá væri dæmið í höfn. Það gekk eftir.
Til að klára inneignina gerði ég mér ferð í Pítuna í Skipholti. Afgreiðsludaman sagðist þurfa að gúggla hvernig hún gæti afgreitt dæmið. Eftir smástund sagði hún: "Þetta virkar ekki í tölvunni. En ég get græjað þetta í snjallsímanum mínum." Það gekk eins og í sögu.
Á meðan ég beið eftir matnum varð ég vitni að eftirfarandi: Ung kona fékk máltíð sína. Skömmu síðar stormaði hún með diskinn sinn að afgreiðsluborðinu. Spurði hvort að hún hefði pantað þennan rétt. Afgreiðsludaman játti því og benti á að það stæði á kvittun hennar. Konan sagði: "Ég ætlaði ekki að panta þetta. Ég ætlaði að panta..." Ég náði ekki hvað hún nefndi.
Afgreiðsludaman tók erindinu vel. Sagði eitthvað á þessa leið: Ekkert mál. Ég afskrifa pöntun þína og læt þig fá máltíðina sem þú ætlaðir að panta.
Þetta er þjónustulund til fyrirmyndar.
Lífstíll | Breytt 29.5.2021 kl. 09:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
23.5.2021 | 06:13
Hvað ef...?
Ef John, Paul, George og Ringo hefðu aldrei hist væri margt öðruvísi en það er í dag. Ekki aðeins tónlistin. Fjórmenningarnir frá Liverpool breyttu mörgu öðru. Allt frá hártísku til almennra viðhorfa til margs. Sprengikrafturinn lá í liðsheild kvartettsins. Hvað hefði orðið um einstaklingana ef þeir hefðu aldrei hist?
Fyrsta ályktum um John Lennon gæti verið að hann hefði orðið myndlistamaður. Hann var í myndlistaskóla. Fyrri eiginkona hans og barnsmóðir, Cynthia, var skólasystir hans. John var efnilegur myndlistamaður. Hinsvegar lauk hann aldrei námi í skólanum. Hann var rekinn úr honum fyrir ítrekuð agabrot og árekstra við kennara og samnemendur. Það einkenndi einnig grunnskólagöngu hans. Hann átti erfitt með að fylgja reglum, hafði ekki reiðistjórn og var ofbeldismaður. Það þurfti sérstakar manngerðir til að umbera skapofsaköst hans og ofbeldishneigð.
Líklegra er að John hefði orðið rithöfundur. Hann skrifaði frábærlega fyndnar og frumlegar smásögur sem voru gefnar út í bókarformi. Þorsteinn Eggertsson þýddi sumar þeirra og birti í dagblaðinu Tímanum. Gaman væri ef hann þýddi þær allar og gæfi út á íslensku í heilu lagi.
Sem tónlistarmaður hefði John ekki náð langt án Pauls, Georges og Ringos. Hann stofnaði hljómsveitina The Quarrymen sem varð undanfari Bítlanna. Þó að þetta væri hans hljómsveit, sem söngvara og allsráðandi, þá tókst ekki betur til en svo að hann spilaði banjóhljóma á gítarinn. Báðir foreldrar hans voru banjóleikarar og spiluðu að auki á ukoleli. Mamma hans var einnig píanóleikari. Pabbi hans var söngvari og lagahöfundur. John var með tónlistargen í blóðinu. Án Pauls hefðu þau gen aðeins gert John að glamrara og gutlara í hljóðfæraleik. Eins og foreldrana.
Hljómsveitin The Quarrymen er starfandi enn í dag. En er ekki að skora hátt. Fjarri því góð hljómsveit. Næstum 70 árum síðar stenst hún ekki samanburð við frumútgáfu af Bítlunum með John, Paul og George. Það er hrópandi munur á "karakterunum" í músíkinni.
. Vegna skapofsa Johns og ofbeldishneigðar er lílegt að hann hefði skrifað sínar sögur í fangelsi.
Þegar Paul kynntist John var hann á leið í háskólanám í læknisfræði og ensku. John stillti honum upp við vegg: Annað hvort velur þú skólann eða The Quarrymen. Það er ekkert bæði. Bara annað hvort. Paul valdi rétt. Ef hann hefði valið annað hefði hann orðið gutlari á pöbbum eins og pabbi sinn.
George var byrjaður að spila með Bítlunum þegar hann skráði sig í nám sem ratvirki. George drepleiddist námið. Kolféll á fyrsta prófi. Erfitt er að reikna út hvað hann hefði tekið sér fyrir hendur án Bítlanna. Sjálfur giskaði hann á garðyrkju eða grænmetisveitingastað.
John Lennon sagði eitt sinn að Ringo væri eini Bítillinn sem hefði "meikað það" án Bítlanna. Hann hefði gert það gott sem trommari og ennfremur orðið góður kvikmyndaleikari. Hann var í góðum málum sem trommari í vinsælli hljómsveit í Liverpool, áður en hann gekk til liðs við Bítlana. Hann tók niður fyrir sig með því. En honum þótti Bítlarnir svo brjálæðislega skemmtilegir að hann lét slag standa. Sá aldrei eftir því. Hann var eini Bítillinn sem John lamdi aldrei. Eru þá fyrsti bassalerikari Bítlanna, Stu, og trommuleikari The Quarrymen meðtaldir, svo og Cynthia.
Lífstíll | Breytt 9.11.2021 kl. 12:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
8.5.2021 | 02:28
Smásaga um glaðvakandi mann
Jónsi er í kvöldheimsókn hjá Binna vini sínum. Þeir hafa ekki hist síðan þeir voru saman í skóla. Það eru meira en tvær vikur síðan. Þeir hafa því frá mörgu að segja og draga hvergi undan. Mikið er hlegið og tíminn er fljótur að líða. Fyrr en varir slær stofuklukkan tíu.
Ella, kona Binna, rekur nefið inn um stofugættina. Hún segir honum að drífa sig í háttinn.
"Róleg, kona," svarar hann. "Þú sérð að ég er með gest."
Það snöggfýkur í Ellu. Hún hleypur að Binna og sparkar í fótinn á honum. Hann rekur upp sársaukavein. Ella forðar sér úr stofunni.
Skömmu síðar er barið harkalega á dyr. Ella opnar dyrnar. Fyrir utan standa tveir lögregluþjónar gráir fyrir járnum. Annar er tröllvaxinn rumur. Hinn er nett dama. Hún spyr valdmannslega: "Hvar er pésinn sem vill ekki fara að sofa?"
Ella bendir á Binna. Löggurnar ganga að honum. Þær skella honum með látum í gólfið. Hann berst um á hæl og hnakka. En er ofurliði borinn. Löggurnar tæta utan af honum fötin. Svo mikill er atgangurinn að tölurnar slitna af skyrtunni hans og spýtast í allar áttir. Jónsi notar tækifærið og læðist óséður úr húsi.
Binni róast þegar hann er aðeins á nærbuxunum. Löggudaman kallar til Ellu: "Á hann náttföt?" Hún kannast ekki við það. En segist geta lánað honum náttkjól. Löggurnar troða honum í kjólinn. Troða í bókstaflegri merkingu. Hann er nefnilega of lítill. Í honum svipar Binna til lundabagga.
Binna er dröslað inn í rúm. Ella er komin undir sæng. Rumurinn spyr: "Eigum við ekki að sekta kvikindið?" Daman svarar: "Nei, ég veiti honum bara skriflega áminningu."
Hún dregur upp áminningablokk og fyllir út formið. Rumurinn spyr: "En má ég ekki rásskella hann?" Hún samþykkir það en tekur fram: "Aðeins eitt högg."
Hann lætur ekki segja sér það tvisvar. Hann hendir Binna á magann og slær hann kröftuglega á bossann svo smellur hátt í. Því næst snýr hann honum á bakið og skorðar þétt við Ellu. Hann breiðir sængina yfir þau. Alveg upp að höku. Hann hvíslar: "Góða nótt" og kyssir hjúin á ennið. Svo hverfur hann út í náttmyrkrið ásamt dömunni.
Lífstíll | Breytt 9.5.2021 kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
11.4.2021 | 10:17
Samherjasvindlið
Eftir að ég tók virkan þátt í starfsemi Frjálslynda flokksins skipti ég um hest í miðri á; kúplaði mig út úr pólitískri umræðu. Hinsvegar brá svo við í gær að vinur minn bað mig um að snara fyrir sig yfir á íslensku yfirlýsingu frá Anfin Olsen, nánum samstarfsmanni Samherja í Færeyjum. Þetta á erindi í umræðuna: Reyndar treysti ég ekki minni lélegu færeysku til að þýða allt rétt. Þú skalt ekki heldur treysta henni. Ég á líka eftir að umorða þetta almennilega. Ég hef fengið flogakast af minna tilefni.
Hefst þá málsvörn Anfinns:
Lífstíll | Breytt 12.4.2021 kl. 08:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)