Færsluflokkur: Lífstíll

Skelfileg upplifun í bíl

  Bíllinn minn er 14 ára.  Reyndar eiginlega 13 ára.  Hann á 14 ára afmæli eftir nokkra daga.  Hann ber aldurinn frekar illa.  Hann hefur áráttu til að bila.  Það er eins og þráhyggja hjá honum að komast sem oftast á verkstæði.  Iðulega ljómar mælaborðið eins og jólasería.  Ljósin eru rauð og gul og appelsínugul. Aðallega rauð.  Það er flott yfir jól og áramót. 

  Í dag átti ég erindi í bílinn.  Um leið og ég startaði honum hentist hann til og frá.  Ég sannfærðist þegar í stað um að nú væri sá gamli að gefa upp öndina.  Mér var mjög brugðið.  Maður sem hefur atvinnu af því að selja sólkrem er ekki vel staðsettur í Covid-19 launamálum.

  Mér fannst hamagangurinn standa yfir í hálfa mínútu.  Kannski varði hann skemur.  Síðar kom í ljós að um jarðskjálfta var að ræða.  Þá tókum við bíllinn gleði á ný.  

bíll 

 

 

      


Illmenni

  Ég er fæddur og uppalinn í sveit,  Hrafnhóli í Hjaltadal,  í útjaðri Hóla.  Öll unglingsár vann ég í Sláturhúsi Skagfirðinga á Sauðárkróki.  Það var gaman.  Við slátruðum hátt í sjö þúsund lömbum hvert haust.  Og slatta af öðrum dýrum.  Ég vann við að vigta skrokkana,  grysja þá og koma fyrir í frysti.  Í frystinum mátti maður bara vera í 25 mínútur í einu.  Á þeim tíma sturtaði ég í mig brennivíni.  Er komið var úr frystinum helltist víman hratt og skemmtilega yfir mann.  Það var gott "kikk".  .  

  Ég hef fullan skilning og umburðarlyndi gagnvart fólki sem drepur dýr sér til matar.  Mörg dýr gera það sjálf.  En sjaldnast sér til einskærrar skemmtunar.  Fólk sem drepur dýr sér til skemmtunar er vont fólk. 

dýradráp gdýradráp adýradráp bdýradráp ddýradráp edýradráp hdýradráp i


Bíll Önnu frænku á Hesteyri

  Góður frændi okkar Önnu Mörtu heitinnar á Hesteyri í Mjóafirði gaf henni bílpróf og bíl.  Þetta var á níunda áratugnum og Anna á sextugsaldri.  Bílprófið yrði hún að taka í Reykjavík.  Á ýmsu gekk.  Í sjálfu bilprófinu festist hún inni í hringtorgi.  Prófdómarinn sagðist ekki geta hleypt henni út í umferð þegar tæki hana 7 hringi að komast út úr hringtorgi.

  Anna var snögg að semja við hann.  Á Austfjörðum sé ekkert hringtorg.  Hún muni skuldbinda sig til að aka aldrei út fyrir Austfirði.  Þar með verði hringtorg ekkert flækjustig.  Eftir langar samningaviðræður keypti prófdómarinn rök Önnu.  Hún stóð við sitt. 

  Er hún var komin með bílpróf hringdi hún í mömmu.  Mamma hvatti hana til að heimsækja sig á Akureyri.  Anna spurði:  "Er hringtorg á Akureyri?"  Þegar mamma játaði því upplýsti Anna um heiðursmannasamkomulagið.

  Anna ók bílnum eins og dráttarvél.  Hún hélt sig við fyrstu tvo gírana.  Ók óvarlega yfir stokka og steina.  Að því kom að bíllinn pikkfestist í á.  Hún sagði mömmu tíðindin;  að bíllinn væri búinn að vera.  Mamma spurði hvort hann væri ekki bara fastur ofan á steini og mögulegt væri að draga hann af steininum.  Anna hafnaði því.  Sagðist oft hafa ekið bílnum yfir miklu stærri grjót.  Þetta væri alvarlegra.  Bíllinn væri dauður.  "Bílar endast ekki í mörg ár," útskýrði hún skilningsrík. 

  Anna sagði Gauja frænda okkar frá dauða bílsins.  Hún sagði:  "Hann er svo fastur að ég prófaði meira að segja að setja hann í kraftgírinn.  Samt haggaðist hann ekki."  Gauji frændi hefur í hálfa öld unnið með vélar af öllu tagi og átt marga bíla.  Hann veit ekki ennþá hvað kraftgír er.  Því síður ég. 

 

 


Smásaga um stefnumót

  Ný vinnuvika er að hefjast.  Tvær vinkonur og vinnufélagar ræða um helstu tíðindi helgarinnar.

  - Ég fór á dásamlegt stefnumót í gær,  upplýsir önnur.

  - Nú?  Segðu frá,  svarar hin forvitin.

  - Ég fór inn á stefnumótasíðu á netinu.  Hitti þar myndarlegan mann.  Eftir heilmikið spjall bauð hann mér á stefnumót.

  - Hvernig gekk það fyrir sig?

  - Hann sótti mig á slaginu klukkan sex.  Það veit á gott þegar karlmaður er stundvís.  Ekki síst af því að ég beið eftir honum úti á gangstétt og frekar kalt. 

  - Bölvað ógeðið.  Ég veit allt um svona perra.  Þeir nota öll fantabrögð til að komast að heimilisfangi konunnar.  Tilgangurinn er að geta njósnað um hana.  Jafnvel brjótast inn til hennar þegar hún er ekki heima og planta allskonar njósnabúnaði.

  - Róleg.  Þetta var allt mjög rómantískt.  Um leið og hann renndi í hlað þá stökk hann út úr bílnum,  rétti mér eina rós með orðunum "viltu þiggja þessa rós?"

  - Þvílíkur nirfill!  Ein ómerkileg rós!  Maðurinn er algjör aurapúki.

  - Þetta var tilvísun í bachelor-sjónvarpsþættina.  Svo sætt og rómantískt.  Við fórum á glæsilegt steikhús.  Hann stakk upp á því að við færum hægt yfir sögu.  Myndum verja góðum tíma í forrétti, aðalrétti,  eftirrétti og spjall. 

  - Karlhelvítið.  Þetta er aðferðin sem þeir nota;  sitja yfir konunum klukkutímum saman og endurtaka frasa.  Þetta er heilaþvottur.

 - Þetta var mjög notaleg stund.  Maturinn var algjör veisla og hann valdi handa mér besta rauðvín sem ég hef bragðað.  Sjálfur drekkur hann ekki áfenga drykki.

 - Dæmigerður óþverri;  hellir dömuna ofurölvi til að gera hana meðfærilegri.  Klárlega laumaði hann að auki nauðgunarlyfi í drykkinn.

  - Nei,  það voru engin vandræði.  Þvert á móti.  Stefnumótið var ljúft í alla staði.  Í miðju kafi stökk hann að píanói á sviðinu og söng og spilaði nokkra ljúfa íslenska ástarsöngva.

  - Helvítis ruddi.  Skildi þig eina eftir úti í sal eins og ódýra vændiskonu.  Neyddi þig samtímis til að sitja undir sóðalegum klámvísum.  Maðurinn er snargeggjaður og hættulegur.  Þú verður að kæra kvikindið til að forða öðrum konum frá því að lenda í klónum á skepnunni.

  - Allt stefnumótið var ævintýri.  Að vísu kom upp ágreiningur þegar ég krafðist þess að borga helminginn af matarreikningnum.  Hann tók það ekki í mál. 

  - Karlrembudjöfull.  Niðurlægir þig með skilaboðum um að þú sért honum óæðri.  Hann sé merkilegri en þú.  Hann sé með hærri tekjur og þú ekki borgunarmanneskja til jafns við hann.  Ef þú hittir hann aftur verður þú að hafa með þér piparsprey.  Ef hann reynir eitthvað þá spreyjar þú piparnum í augun á honum.

 - Ég gerði það í gær.  Þegar við gengum að bílnum hans þá spreyjaði ég piparnum í augun á honum.  Hann missti jafnvægi og skall í jörðina.  Ég sparkaði af alefli í hausinn á honum.  Rotaði hann.  Svo stal ég veskinu hans og bílnum.  Ég sel bílinn á eftir í partasölu.  

  - En hann veit nafn þitt og heimilisfang.

  - Nei,  ég var með falskt nafn á stefnumótasíðunni.  Ég er búin að eyða prófíl mínum þar.  Ég gaf honum aldrei upp heimilisfang mitt heldur heimilisfang næsta húss við hliðina.   


Breskir strompar

  Á dögunum þurfti ég að vera heimavið í nokkra daga.  Til að stytta mér stundir tók ég upp á því að horfa á sjónvarp úr hófi fram.  Meðal þess sem fyrir augu bar var breskur raunveruleikaþáttur,  Love island.  Hópi glæsilegra ungmenna á þrítugsaldri er komið fyrir i reisulegri villu á eyju.  Þar er dekrað við hópinn í mat og drykk.  Dömurnar spranga um á bikiní og drengirnir á sundskýlu.  Enda nýta þau sér sundlaugina.

  Leikurinn gengur út á að fólkið pari sig.  Þeim sem mistekst er sparkað af eyjunni.  Aðrir koma í staðinn.  Þeir þurfa að sprengja upp parasamband til að mynda nýtt par.  Nóg er að horfa á einn þátt.  Þeir eru allir eins.  Fátt ber til tíðinda.

  Eitt vekur athygli umfram annað.  Það er hvað hátt hlutfall þátttakenda keðjureykir.  Ég kannaði málið.  Í ljós kom að fjórðungur Breta reykir.  Til samanburðar eru Íslendingar ekki að standa sig.  Aðeins sjöundi hver reykir. 

lennonmccartneyharrisonringo starr

   


Afi landsfrægur til áratuga

  Afi var heljarmenni;  nautsterkur og fylginn sér.  Skapið hljóp iðalega með hann í gönur. Hann var varla kominn á unglingsár þegar hann var farinn að slást við fullorðna menn.  Þeir lömdu hann.  Pabbi hans brá á það ráð að koma honum til náms í hnefaleikum.  Eftir að hafa sótt tvo tíma gekk kennarinn á fund föðurins;  tjáði honum að ekki væri hægt að kenna afa.  Hann kynni ekki að taka leiðsögn.  Þegar taka ætti létta æfingu þá missti afi ætið stjórn á skapi sínu og færi að slást eins og upp á líf og dauða. 

  Eljan í afa dugði vel til bústarfa.  Hann breytti stórgrýttum melum í grösug tún.  Hann greip ótal misstórra steina í fangið og henti þeim út fyrir túnstæðið.  Sumum svo stórum að undrun sætir að hægt hafi verið að bifa þeim.  Þetta þótti svo mikið afrek að Kristján 10. Danakonungur verðlaunaði afa fyrir ótrúlegar jarðumbætur.  Verðlaunin voru fjármunir sem hjálpuðu afa að reisa glæsilegt íbúðarhús með samfastri hlöðu, fjósi og haughúsi 1937.  Það var fyrsta steinhúsið í Hjaltadal. 

  Þremur áratugum síðar bankaði farandsölumaður á dyr.  Hann var að selja stóla.  Mamma keypti af honum skrifstofustól og bauð honum í kaffi.  Í eldhúsinu sat afi.  Þeir sölumaðurinn kynntu sig með nafni.  Við að heyra nafn afa sagði sölumaðurinn:  "Stefán Guðmundsson á Hrafnhóli.  Þetta hljómar kunnuglegt.  Ég hef heyrt þetta nafn áður."

  Afi svaraði:  "Það er nú líkast til.  Það var sagt frá því í útvarpinu er ég fékk peningaverðlaun frá Kristjáni 10. Danakonungi."

kristján 10.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kristján 10.

Hrafnhóll

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hrafnhóll


Misgóð plötuumslög

  Breskur netmiðill heitir Loudersound.com.  Hann gerir þungu rokki af ýmsu tagi góð skil.  Á dögunum birti hann samantekt á misvel heppnuðum plötuumslögum.  Greinin heitir "Crap 80s Metal Art is our new favourite thing".  Það má hafa gaman af þessu.  Þungarokkið var í krísu á 8unni (níunda áratugnum).  Nýbylgjan fór mikinn,  einkum nýrómantíkin (sítt að aftan).  Í Bandaríkjunum börðust Verndarsamtök foreldra af hörku gegn þungarokki - meeð töluverðum árangri. 

  Útvarpsstöðvar veigruðu sér við að spila þungarokk af ótta við Vrndarsamtökin. 

  Þungarokksplötuumslög voru mörg hver heimagerð.  Drátthagur vinur eða vandamaður var fenginn til að henda saman umslagi - án þess að hann hefði skilning á "semilógíu" (táknmáli myndefnis).  Engu skárri var þekking og skilningur á leturfræði.  Útkoman var tilræði við dómgreind plötukaupandans.  Það var talað niður til hans eins og krakkakjána. 

umslag a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér er nafnið Sound vægast sagt illa og hallærislega handteiknað.  Að auki eru teiknuðu fígúrurnar litlu skárri.

albúm b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nafn flytjandans er illlæsilegt og óþungarokkslegt.  Mér sýnist það vera Zarpa.  Myndin á að vekja óhug og tákna að hér sé "brútal" þungarokk á ferð.  Til þess ar hún aftur á móti alltof of aulaleg.  

umslag c

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Önnur teikning sem á að vekja óhug og tákna grimmt þungarokk en er einungis barnalega kjánalegt.

umslag d

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Teikningin er þokkaleg en gerir illt verra fyrir þungarokk.  Hún á heima í teiknimyndablaði fyrir krakka. 

umslag e

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Teikningin er ekki vond.  Bara asnaleg.

umslag f

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Teikningin er svo hrópandi and-þungarokksleg að það er vandræðalegt. 

umslag g


Kenning Gudda

  Guddi keðjureykti.  Sennilega áttu reykingarnar einhvern þátt í miklum hóstaköstum sem hann fékk í tíma og ótíma.  Oftar í ótíma.

  Guddi slóst í hóp með systkinum mínum er þau skelltu sér á dansleik í Varmahlíð.  Er dansleik lauk sýndu gestir á sér fararsnið.  Þar á meðal Guddi og systkinin.  Líka piltur sem sýndi systir minni áhuga.  Gudda þótti hann full ágengur.  Hann snöggreiddist,  greip þéttingsfast um hálsmálið á kauða og reiddi hnefann til höggs.  Í sama mund fékk hann langt og heiftarlegt hóstakast.  Hnefinn lak niður.  En Guddi sleppti ekki takinu á hálsmálinu.  Né heldur rauf hann augnsambandið.  Hann starði heiftúðlegum augum á drenginn á meðan hann hann hóstaði og hóstaði.  Gaurinn sýndi engin viðbrögð.  Starði bara í forundran á Gudda.  Hann var töluvert stærri og kraftalegri en Guddi.  

  Er hóstakastinu linnti var Guddi búinn á því.  Hann sleppti takinu og bað systkinin um eitthvað að drekka.  Hann yrði að væta kverkarnar eftir svona hóstakast.

  Guddi var alltaf eldfljótur til svars.  Hann, ég og pabbi vorum að stinga út úr fjárhúsum.  Guddi lét reykingar sinar ekki trufla vinnuna.  Hann hélt sígarettum á milli vara og hafði hendur lausar til athafna. 

  Bróðir minn,  4ra eða 5 ára,  spurði Gudda:  "Af hverju reykir þú svona mikið?"

  Guddi svaraði þegar í stað:  "Þeir sem vinna mikið þurfa að reykja mikið!"

   


Guddi í áflogum við mannýg naut

  Guddi hét maður.  Hann varð heimilisvinur foreldra minna á Hrafnhóli í Hjaltadal.  Kom og dvaldi þar dögum saman.  Ég var fluttur að heiman.  Hitti hann aðeins einu sinni er ég heimsótti foreldrana.

  Þegar ég hitti hann þá sagði hann mér margar grobbsögur af sér.  Þær líktust sögum Munchausens.  Ein var af því þegar nautahjörð réðist á hann.  Nautin komu hlaupandi í halarófu að honum með hausinn undir sig.  Hátt í tuttugu skepnur.  Hraðinn á þeim var svo mikill að Guddi sá að vonlaust væri að flýja.  Eina ráðið var að standa gleiður og takast á við nautin.  Hann greip um hornin á þeim og snéri svo hratt upp á þau að kvikindin urðu afvelta.  Hann snéri þeim til skiptis til vinstri og hægri.  Þegar atinu lauk var hjörðin í tveimur hrúgum.  Svo dösuð var hún að Guddi gat gengið í rólegheitum á braut.  En nokkuð móður.

  Hann sagðist hafa sagt fólki í - eða frá - Keflavík frá þessu.  Það hefði ekki trúað sér.  Ég svaraði því til að það væri afar dónalegt að rengja frásagnir fólks.  Guddi sagði:  "Þú ert góður maður.  Ég ætla að gefa þér skyrtuna mína."  Svo reif hann síg úr skyrtunni og rétti að mér.  Ég sagðist eiga alltof margar skyrtur og bað hann um að fara aftur í skyrtuna sína.  Enda dálítið kjánalegt að sjá hann sitja beran að ofan við eldhúsborðið.  

 

naut      

 


Afi tískufrumkvöðull

  Undir lok sexunnar (sjöunda áratugarins) datt afa í hug gott sparnaðarráð.  Í stað þess að fara til hárskera á Sauðárkróki - með tilheyrandi kostnaði - gæti ég klippt hann.  Ég var um það bil 12 - 13 ára.  Uppskriftin var sú að renna greiðu um hársvörð hans og klippa hárin sem stóðu upp úr greiðunni.  

  Til að gera þetta skemmtilegra þá brá ég á leik.  Ég fylgdi uppskriftinni að undanskildu því að ég lét afa safna skotti neðst í hnakkanum.  Afi vissi aldrei af þessu.  Lyftigeta handa hans náði ekki til hnakkans.  

  Klippingin vakti undrun og kátínu hvert sem afi fór.  Foreldrar mínir stóðu í þeirri trú að afa þætti þetta flott.  Sennilega laug ég því í þau.  Einhverra hluta vegna nefndi enginn þetta við afa.  Mér er minnisstætt er mágkona pabba tók mömmu afsíðis og spurði hvaða uppátæki þetta væri hjá afa að vera með skott.  Þær voru sammála um að þetta væri furðulegt uppátæki hjá tengdapabba þeirra en svo sem ekkert furðulegra en margt annað í hans fari.  

  Svo skemmtilega vildi til að um og uppúr 1980 komst svona skott í tísku.  Bæði hérlendis og erlendis.  Afi var fyrstur.  Hann var frumkvöðullinn.

skott í hnakka askott í hnakka bskott í hnakka  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband