Færsluflokkur: Lífstíll
16.9.2020 | 02:15
Afi landsfrægur til áratuga
Afi var heljarmenni; nautsterkur og fylginn sér. Skapið hljóp iðalega með hann í gönur. Hann var varla kominn á unglingsár þegar hann var farinn að slást við fullorðna menn. Þeir lömdu hann. Pabbi hans brá á það ráð að koma honum til náms í hnefaleikum. Eftir að hafa sótt tvo tíma gekk kennarinn á fund föðurins; tjáði honum að ekki væri hægt að kenna afa. Hann kynni ekki að taka leiðsögn. Þegar taka ætti létta æfingu þá missti afi ætið stjórn á skapi sínu og færi að slást eins og upp á líf og dauða.
Eljan í afa dugði vel til bústarfa. Hann breytti stórgrýttum melum í grösug tún. Hann greip ótal misstórra steina í fangið og henti þeim út fyrir túnstæðið. Sumum svo stórum að undrun sætir að hægt hafi verið að bifa þeim. Þetta þótti svo mikið afrek að Kristján 10. Danakonungur verðlaunaði afa fyrir ótrúlegar jarðumbætur. Verðlaunin voru fjármunir sem hjálpuðu afa að reisa glæsilegt íbúðarhús með samfastri hlöðu, fjósi og haughúsi 1937. Það var fyrsta steinhúsið í Hjaltadal.
Þremur áratugum síðar bankaði farandsölumaður á dyr. Hann var að selja stóla. Mamma keypti af honum skrifstofustól og bauð honum í kaffi. Í eldhúsinu sat afi. Þeir sölumaðurinn kynntu sig með nafni. Við að heyra nafn afa sagði sölumaðurinn: "Stefán Guðmundsson á Hrafnhóli. Þetta hljómar kunnuglegt. Ég hef heyrt þetta nafn áður."
Afi svaraði: "Það er nú líkast til. Það var sagt frá því í útvarpinu er ég fékk peningaverðlaun frá Kristjáni 10. Danakonungi."
Kristján 10.
Hrafnhóll
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 17:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.9.2020 | 00:00
Misgóð plötuumslög
Breskur netmiðill heitir Loudersound.com. Hann gerir þungu rokki af ýmsu tagi góð skil. Á dögunum birti hann samantekt á misvel heppnuðum plötuumslögum. Greinin heitir "Crap 80s Metal Art is our new favourite thing". Það má hafa gaman af þessu. Þungarokkið var í krísu á 8unni (níunda áratugnum). Nýbylgjan fór mikinn, einkum nýrómantíkin (sítt að aftan). Í Bandaríkjunum börðust Verndarsamtök foreldra af hörku gegn þungarokki - meeð töluverðum árangri.
Útvarpsstöðvar veigruðu sér við að spila þungarokk af ótta við Vrndarsamtökin.
Þungarokksplötuumslög voru mörg hver heimagerð. Drátthagur vinur eða vandamaður var fenginn til að henda saman umslagi - án þess að hann hefði skilning á "semilógíu" (táknmáli myndefnis). Engu skárri var þekking og skilningur á leturfræði. Útkoman var tilræði við dómgreind plötukaupandans. Það var talað niður til hans eins og krakkakjána.
Hér er nafnið Sound vægast sagt illa og hallærislega handteiknað. Að auki eru teiknuðu fígúrurnar litlu skárri.
Nafn flytjandans er illlæsilegt og óþungarokkslegt. Mér sýnist það vera Zarpa. Myndin á að vekja óhug og tákna að hér sé "brútal" þungarokk á ferð. Til þess ar hún aftur á móti alltof of aulaleg.
Önnur teikning sem á að vekja óhug og tákna grimmt þungarokk en er einungis barnalega kjánalegt.
Teikningin er þokkaleg en gerir illt verra fyrir þungarokk. Hún á heima í teiknimyndablaði fyrir krakka.
Teikningin er ekki vond. Bara asnaleg.
Teikningin er svo hrópandi and-þungarokksleg að það er vandræðalegt.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.8.2020 | 03:28
Kenning Gudda
Guddi keðjureykti. Sennilega áttu reykingarnar einhvern þátt í miklum hóstaköstum sem hann fékk í tíma og ótíma. Oftar í ótíma.
Guddi slóst í hóp með systkinum mínum er þau skelltu sér á dansleik í Varmahlíð. Er dansleik lauk sýndu gestir á sér fararsnið. Þar á meðal Guddi og systkinin. Líka piltur sem sýndi systir minni áhuga. Gudda þótti hann full ágengur. Hann snöggreiddist, greip þéttingsfast um hálsmálið á kauða og reiddi hnefann til höggs. Í sama mund fékk hann langt og heiftarlegt hóstakast. Hnefinn lak niður. En Guddi sleppti ekki takinu á hálsmálinu. Né heldur rauf hann augnsambandið. Hann starði heiftúðlegum augum á drenginn á meðan hann hann hóstaði og hóstaði. Gaurinn sýndi engin viðbrögð. Starði bara í forundran á Gudda. Hann var töluvert stærri og kraftalegri en Guddi.
Er hóstakastinu linnti var Guddi búinn á því. Hann sleppti takinu og bað systkinin um eitthvað að drekka. Hann yrði að væta kverkarnar eftir svona hóstakast.
Guddi var alltaf eldfljótur til svars. Hann, ég og pabbi vorum að stinga út úr fjárhúsum. Guddi lét reykingar sinar ekki trufla vinnuna. Hann hélt sígarettum á milli vara og hafði hendur lausar til athafna.
Bróðir minn, 4ra eða 5 ára, spurði Gudda: "Af hverju reykir þú svona mikið?"
Guddi svaraði þegar í stað: "Þeir sem vinna mikið þurfa að reykja mikið!"
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.8.2020 | 22:30
Guddi í áflogum við mannýg naut
Guddi hét maður. Hann varð heimilisvinur foreldra minna á Hrafnhóli í Hjaltadal. Kom og dvaldi þar dögum saman. Ég var fluttur að heiman. Hitti hann aðeins einu sinni er ég heimsótti foreldrana.
Þegar ég hitti hann þá sagði hann mér margar grobbsögur af sér. Þær líktust sögum Munchausens. Ein var af því þegar nautahjörð réðist á hann. Nautin komu hlaupandi í halarófu að honum með hausinn undir sig. Hátt í tuttugu skepnur. Hraðinn á þeim var svo mikill að Guddi sá að vonlaust væri að flýja. Eina ráðið var að standa gleiður og takast á við nautin. Hann greip um hornin á þeim og snéri svo hratt upp á þau að kvikindin urðu afvelta. Hann snéri þeim til skiptis til vinstri og hægri. Þegar atinu lauk var hjörðin í tveimur hrúgum. Svo dösuð var hún að Guddi gat gengið í rólegheitum á braut. En nokkuð móður.
Hann sagðist hafa sagt fólki í - eða frá - Keflavík frá þessu. Það hefði ekki trúað sér. Ég svaraði því til að það væri afar dónalegt að rengja frásagnir fólks. Guddi sagði: "Þú ert góður maður. Ég ætla að gefa þér skyrtuna mína." Svo reif hann síg úr skyrtunni og rétti að mér. Ég sagðist eiga alltof margar skyrtur og bað hann um að fara aftur í skyrtuna sína. Enda dálítið kjánalegt að sjá hann sitja beran að ofan við eldhúsborðið.
Lífstíll | Breytt 8.8.2020 kl. 18:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
1.8.2020 | 20:51
Afi tískufrumkvöðull
Undir lok sexunnar (sjöunda áratugarins) datt afa í hug gott sparnaðarráð. Í stað þess að fara til hárskera á Sauðárkróki - með tilheyrandi kostnaði - gæti ég klippt hann. Ég var um það bil 12 - 13 ára. Uppskriftin var sú að renna greiðu um hársvörð hans og klippa hárin sem stóðu upp úr greiðunni.
Til að gera þetta skemmtilegra þá brá ég á leik. Ég fylgdi uppskriftinni að undanskildu því að ég lét afa safna skotti neðst í hnakkanum. Afi vissi aldrei af þessu. Lyftigeta handa hans náði ekki til hnakkans.
Klippingin vakti undrun og kátínu hvert sem afi fór. Foreldrar mínir stóðu í þeirri trú að afa þætti þetta flott. Sennilega laug ég því í þau. Einhverra hluta vegna nefndi enginn þetta við afa. Mér er minnisstætt er mágkona pabba tók mömmu afsíðis og spurði hvaða uppátæki þetta væri hjá afa að vera með skott. Þær voru sammála um að þetta væri furðulegt uppátæki hjá tengdapabba þeirra en svo sem ekkert furðulegra en margt annað í hans fari.
Svo skemmtilega vildi til að um og uppúr 1980 komst svona skott í tísku. Bæði hérlendis og erlendis. Afi var fyrstur. Hann var frumkvöðullinn.
Lífstíll | Breytt 2.8.2020 kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
26.7.2020 | 23:42
Af hverju talar fólk um sig í þriðju persónu?
Ég var að horfa á sjónvarpsþátt með bandarískum réttarsálfræðingi, Dr. Phil. Hann talar ítrekað um sig í þriðju persónu. Þetta er ósjálfráð aðferð til að upphefja sig. Skrýtið að sálfræðingur átti sig ekki á þessu. Hann hefur þó upplýst hvað liggur að baki. Pabbi hans var sjálfhverfur alkahólisti. Phil þráði viðurkenningu frá honum. Þó ekki væri nema smá hrós. Það kom aldrei. Honum gekk vel í skóla. En pabbinn lét það sig engu skipta. Phil fékk aldrei neitt jákvætt frá honum.
Kunningi minn átti erfiða æsku. Ólst upp við ofbeldi. Hann talar oftast um sig í þriðju persónu. Og alltaf þegar hann hælir sér af einhverju. Hann segir: "Bjössi eldaði frábæran rétt í gær a la Björn" og "Bjössi veit nú margt um þetta!"
Annan þekki ég sem bætir nafni sínu alltaf við þegar hann vitnar í samtöl sín. Hann lætur viðmælandann hefja setningar á ávarpinu "Ólafur minn..." eða: "Ég get sagt þér, Ólafur minn..."
Lífstíll | Breytt 27.7.2020 kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
16.7.2020 | 00:54
Undarlegur leigjandi
Nonni kunningi minn er á áttræðisaldri. Hann leigir út 3 herbergi í íbúð sinni. Sjálfur er hann í því 4ða.
Eitt sinn vantaði hann leigjanda. Í auglýsingu í Fréttablaðinu óskaði fertugur Þjóðverji eftir herbergi. Nonni lærði þýsku á unglingsárum. Honum þótti spennandi að rifja hana upp.
Honum til vonbrigða vildi sá þýski lítið með þýsku hafa. Sagðist þess í stað þurfa að æfa sig í ensku. Í Þýskalandi biði hans starf sem túlkur.
Fljótlega varð Nonni var við rýrnun í ísskáp sínum og brauðskúffu. Hann leit framhjá því. Þetta var ekki fjárhagstjón sem skipti máli. Verra þótti honum þegar lækkaði í áfengisflöskum hans og leifarnar voru með vatnsbragði. Fremur en gera veður út af þessu þá tók hann til bragðs að geyma áfengið úti í bíl.
Einn daginn var uppáhaldsjakki Nonna horfinn. Þá gerði hann nokkuð sem hann annars gerði aldrei. Hann notaði aukalykil til að kíkja inn í herbergi Þjóðverjans. Þar var jakkinn á stólbaki. Hann lét jakkann vera.
Seint um kvöldið skilaði leigjandinn sér í hús. Nonni spurði hvort hann hefði séð jakkann. Jú, Þjóðverjinn kvaðst hafa fengið hann lánaðan. Sagðist hafa þurft á áríðandi fund og ekki átt nógu fínan jakka sjálfur. Svo snaraðist hann inn í herbergi og kom aftur fram í jakkanum. Saman dáðust þeir Nonni að fegurð jakkans. Skyndilega sagðist kauði þurfa að skjótast út. Hann var enn í jakkanum og skilaði sér ekki fyrr en um miðja nótt.
Næsta dag var leigjandinn enn í jakkanum. Nonni bað hann um að skila flíkinni. Það var auðsótt.
Upp frá þessu tók Þjóðverjinn að ganga í fleiri fötum af Nonna. Þegar hann gerði athugasemd við þetta þá útskýrði kauði að sínar skyrtur væru óhreinar, einu almennilegu buxurnar hefðu rifnað og svo framvegis. Nonni þurfti ávalt að biðja hann um að skila fötunum. Annars gerði hann það ekki.
Svo gerðist það að Nonni brá sér á skemmtistað. Þar hitti hann konu. Er vangadansi og dansleik lauk fylgdi hún honum heim. Hann keypti nokkra bjóra í nesti. Þar sem þau sátu í stofunni, keluðu og sötruðu veigarnar vaknaði leigjandinn við tal þeirra. Hann kom fram og þáði bjór. Síðan rakti hann fyrir konunni dapurlega ævi sína. Foreldrar hans voru myrtir af nasistum. Hann ólst upp við illan kost á munaðarleysingjahæli. Minningarnar voru svo sárar að hann brast í grát. Loks henti hann sér hágrátandi í faðm konunnar. Hún reyndi hvað hún gat að róa hann og hugga.
Nonni brá sér á salerni. Er hann snéri til baka voru konan og leigjandinn horfin. Hann bankaði á dyr leiguherbergisins og kallaði. Þjóðverjinn kallaði til baka að þau væru farin að sofa. Bauð svo góða nótt.
Það fauk í Nonna. Hann rak leigjandann daginn eftir. Konan bauð honum að flytja til sín til bráðabirgða. Lauk þar með samneyti karlanna.
Ári síðar hittust þeir á gangi. Þjóðverjinn leiddi frænku hans. Hún upplýsti að þau væru trúlofuð. Nonni hringdi í foreldra hennar. Sagði þeim frá kynnum sínum af manninnum. Fékk hann þá að vita að tengdasonurinn væri ekki þýskur heldur Íslendingur í húð og hár. En ekki hafði farið framhjá þeim að hann væri ósannsögull.
Lífstíll | Breytt 17.7.2020 kl. 19:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.6.2020 | 23:17
Svíi var svo fullur að lögreglan hélt að hann væri Dani
Sænskur saksóknari hefur ákært 29 ára Svía. Sakarefnið er ölvunarakstur, flótti frá árekstri og brot á vopnalögum. Við yfirheyrslu kvaðst hann hafa drukkið romm, koníak, brennivín og vatn. Síðan hafi hann farið í göngutúr og mokað smávegis snjó fyrir utan hús föður síns. Að því loknu vaknaði hann sér til undrunar upp af værum blund í fangaklefa.
Lögreglan kom auga á manninn flýja á hraðferð af vettvangi eftir að hafa klesst á tvo kyrrstæða bíla. Hraðferðin endaði í snjóskafli. Þar sat bíllinn fastur.
Þegar lögreglan opnaði bíldyrnar gus upp megn áfengislykt. Á bílgólfinu blasti við vodkaflaska. Jafnframt reyndist maðurinn vera vopnaður ólöglegum hníf.
Svo sauðdrukkinn var hann að lögreglan var lengst af sannfærð um að hann væri Dani.
Honum er gert að borga sveitarfélaginu Trollhattan 21 þúsund kall fyrir að hafa ekið niður staur. Að auki þarf hann að borga hálfa milljón fyrir bílana sem hann ók utan í. Einhverja sekt fær hann fyrir ölvun undir stýri.
Lífstíll | Breytt 28.6.2020 kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
12.6.2020 | 23:32
Dæmalausir fordómar
Ég veit ekki hvort ég fari rétt með orð Andreu Jónsdóttur; hún sagði eitthvað á þá leið að fordómar væru í lagi en ekki miklir fordómar. Allir hafa fordóma. Ég hef fordóma gegn skallapoppi, harmónikkumúsík, kórsöng og ýmsu öðru músíktengdu. Ég hugsa til þess með hryllingi að fara á elliheimili eftir 3 ár og sitja þar undir sömu músík og vistmenn þess í dag. Ekkert Slayer. Ekkert Dead Kennedys. Ekkert Pantera. Ekki einu sinni Skálmöld né Sólstafir.
Á elliheimilinu get ég væntanlega flúið inn á mitt herbergi og blastað í heyrnartólum Sepultura, Mínusi og I Adapt. Málið er að hæg líkamsstarfsemi aldraðra harmónerar ekki við hart og hratt rokk.
Verri eru fordómar gegn hörundslit, menningarmun, hárlit og appelsínugulum sjálfbrúnkulit.
Alltaf er gott að við sljóir hvítir eldri karlar fái olnbogaörskot og séu vaktir upp af værukærum svefni. Ritskoðun á rasisma er hið besta mál. Sérstaklega þegar hún beinist gegn styttum. Þær eru út í hött. Kannski. Nú hefur gríni Fawlty Towers verið úthýst af netveitum ásamst Gone with the Wind (Á hvervandi hveli).
Lífstíll | Breytt 13.6.2020 kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.5.2020 | 05:55
Smásaga um mann
Hann er kallaður Graði brúnn. Það er kaldhæðni. Hann hefur aldrei verið við kvenmann kenndur. Því síður karlmann. Ástæðan umfram annað er rosaleg feimni. Ef kona ávarpar hann þá fer hann í baklás. Hikstar, stamar og eldroðnar. Hann forðar sér á hlaupum úr þannig aðstæðum. Gárungar segja hann eiga sigurmöguleika í 100 metra spretthlaupi. Svo hratt hleypur hann.
Nýverið varð breyting á. Kallinn keypti sér tölvu. Þó að hann kunni lítið í ensku gat hann skráð sig á útlendar stefnumótasíður. Með aðstoð translate.google gat hann ávarpað útlenskar konur. Feimnin þvælist ekki fyrir honum fyrir framan tölvuskjá. Að vísu setur hann upp kolsvört sólgleraugu til að finna öryggi.
Svo skemmtilega vildi til að finnsk kona sýndi honum óvæntan áhug. Hún var sérlega spennt fyrir því að Graði brúnn safnar servíettum, merktum pennum og tannstönglum notuðum af frægum Íslendingum.
Finnska fraukan lýsti fljótlega yfir löngun til að heimsækja okkar mann. Framan af varðist hann fimlega. Bar fyrir sig dauðsfalli móður. Þvínæst dauðsfalli föður. Svo annara helstu ættingja. Vörnin brast þegar hann var farinn að telja upp dauðsfall fjarskyldra ættingja og vini þeirra. Dauðsföllin slöguðu upp í fórnarlömb Víetnam-stríðsins.
Einn daginn tilkynnti sú finnska að hún væri á leið til Íslands. Búin að kaupa flugmiða og hann ætti að sækja hana upp á flugstöð. Hann fékk áfall. Fyrst leið yfir hann. Svo fékk hann kvíðakast. Því næst át hann kornflex-pakka í taugaveiklunarkasti. Sporðrenndi ekki aðeins kornflexinu heldur einnig sjálfum pappakassanum. Honum datt í hug að skrökva því að hann væri dáinn. Hefði verið myrtur af ofbeldismanni. Aðrir eru ekki að drepa fólk.
Að lokum komst Graði brúnn að þeirri niðurstöðu að nú væri að duga eða drepast. Helst að duga. Hann keyrði á réttum tíma til flugstöðvarinnar. Hann þekkti finnsku dömuna þegar í stað. Enda eina konan á svæðinu búin að raka af sér allt hárið nema fjólubláa fléttu fyrir ofan annað eyrað.
Strax við fyrstu kynni í raunheimum blossaði feimnin upp. Komin út í bíl sýndi hann dömunni með leikrænum tilþrifum að hann væri að hlusta á útvarpið. Hann stillti það hátt. Þulurinn á Rás 2 malaði: "Klukkan er 5 mínútur gengin í sex. Nóg framundan til klukkan sex. Metsölubókahöfundur er að koma sér fyrir hérna. Um hálf sex leytið mætir vinsælasta hljómsveit landsins og frumflytur nýtt lag... Klukkan sex taka fréttir við..."
Þegar hér var komið sögu sló sú finnska hann af alefli í andlitið. Hann varð hissa og spurði: "Ertu að lemja mig í andlitið?" Blóðnasirnar svöruðu spurningunni.
Kella hafði ekki sagt sitt síðasta orð. Hún gargaði á kauða: "Hvernig vogar þú þér að spila fyrir framan mig klámútvarp? Sex, sex, sex í annarri hverri setningu. Heldur að ég fatti ekki neitt, klámhundur!"
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)