Færsluflokkur: Lífstíll
24.3.2021 | 20:14
Færeyingar skara framúr
Í fréttum af erlendum vettvangi er iðulega tíundað hvernig norrænu þjóðunum vegnar í baráttunni við kóróna-vírusinn. Gallinn við þennan fréttaflutning er að Færeyingar eru taldir með Dönum. Fyrir bragðið fer glæsilegur árangur Færeyinga framhjá flestum. Nú skal bætt úr því:
Í Færeyjum er enginn smitaður. Enginn er að bíða eftir niðurstöðu úr skimun. Enginn er í innlögn. Enginn er í sóttkví.
Færeyingar hafa skimað um 240 þúsund manns. Það er mikið fyrir þjóð sem telur 53 þúsund. Skýringin er margþætt. Meðal annars hafa margir Færeyingar búsettir erlendis átt erindi til Færeyja oftar en einu sinni frá því að Covid gekk í garð fyrir tveimur árum. Sama er að segja um marga útlendinga sem þurfa að bregða sér til Færeyja vinnutengt. Einnig hefur verið töluvert um að Íslendingar og Danir sæki Færeyjar heim í sumar- og vetrarfríum. Erlend skip og togarar (þar af íslenskir) kaupa vistir í Færeyjum og landa þar. Svo eru það erlendu skemmtiferðaskipin.
Sjálfir gera Færeyingar út glæsilegt skemmtiferðaskip, Norrænu, sem siglir til og frá Færeyjum, Íslandi og Danmörku. Í þessum skrifuðu orðum er tveir Danir í sóttkví um borð í Norrænu.
Færeyingar hafa gefið 10 þúsund bólusprautur. Þar af hafa 11% af þjóðinni fengið fyrri sprautuna og 7,7% seinni sprautuna.
Danskur ráðherra, að mig minnir Mette Frederiksen, sagði í viðtali að Danir gætu lært margt af Færeyingum í baráttunni við Covid-19. Íslendingar geta það líka. Og reyndar lært margt annað af Færeyingum.
Lífstíll | Breytt 30.3.2021 kl. 08:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
11.3.2021 | 19:09
Hártískan
Tískan er harður húsbóndi. Ekki síst hártískan. Oft veldur lítil þúfa þungu hlassi. Eins og þegar fjórir guttar í Liverpool tóku upp á því að greiða hárið fram á enni og láta það vaxa yfir eyrun á fyrri hluta sjöunda áratugarins (6-unni). Þetta kallaðist bítlahár. Það fór eins og eldur um sinu um heimsbyggðina. Svo leyfðu þeir hárinu að síkka. Síða hárið varð einkenni ungra manna. Svo sítt að það óx niður á bak og var skipt í miðju.
Löngu síðar komu til sögunnar aðrar hártískur. Svo sem pönkara hanakambur og þar á eftir "sítt að aftan".
Margt af því sem um hríð þótti flottast í hártísku hefur elst mis vel. Skoðum nokkur dæmi:
Lífstíll | Breytt 13.3.2021 kl. 16:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
18.2.2021 | 19:10
Viðgerðarmaðurinn Albert
Hann er þúsundþjalasmiður. Sama hvað er bilað; hann lagar það. Engu skiptir hvort heimilistæki bili, húsgögn, pípulagnir, rafmagn, tölvur, bílar eða annað. Hann er snöggur að kippa hlutunum í lag. Hann smíðar, steypir, flísaleggur, grefur skurði, málar hvort sem er utan eða innan húss.
Um tíma bjuggum við á sama gistiheimili. Þar þurfti af og til að dytta að hinu og þessu. Þá var viðgerðarmaðurinn Albert í essinu sínu. Á gistiheimilinu bjuggu einnig hjón frá Kambódíu. Samkomulagið var gott. Ásamt öðrum íbúum vorum við eins og eins stór fjölskylda. Svo bar við að viðgerðarmaðurinn Albert og ég sátum í herbergi kambódísku hjónanna. Hjör á stórum fataskáp þeirra hafði gefið sig. Hurðin dinglaði kengskökk. Hjónin báru sig illa undan þessu.
Viðbrögð viðgerðarmannsins Alberts voru að sitja í sínum stól og líta í rólegheitum í kringum sig. Hann kom auga á járntappa af gosflösku. Teygði sig eftir honum. Um leið dró hann upp svissneskan hníf. Eða réttara sagt eftirlíkingu að svissneskum hníf. Með hnífnum hnoðaðist hann á tappanum án þess að skoða hjörina. Að skömmum tíma liðnum teygði hann sig í hana. Eftir smástund var hurðin komin í lag. Fataskápurinn var eins og nýr. Viðgerðarmaðurinn Albert stóð ekki upp af stól á meðan viðgerðarferlið stóð yfir.
Lífstíll | Breytt 15.5.2021 kl. 15:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
12.2.2021 | 21:33
Veitingaumsögn
- Réttur: International Basic Burger
- Veitingastaður: Junkyard, Skeifunni 13A í Reykjavík
- Verð: 1500 kr.
- Einkunn: ** (af 5)
Hamborgarinn er vegan en ekki úr nautakjöti. Samt bragðast hann eiginlega eins og grillaður nautakjötsborgari. Alveg ljómandi. Á matseðlinum segir að hann sé reiddur fram með tómatssósu, sinnepi, lauk og súrsuðum gúrkum. Ég sá ekki né fann bragð af sinnepi. Né heldur lauk. Ég hefði gjarnan vilja verða var við sinnep og lauk. Hinsvegar voru gúrkusneiðarnar að minnsta kosti tvær.
Borgaranum fylgdu franskar kartöflur og kokteilsósa. Á matseðlinum segir að sósa sé að eigin vali. Mér var ekki boðið upp á það. Kokteilsósa er allt í lagi. Verra er að hún var skorin við nögl. Dugði með helmingnum af frönskunum. Fór ég þó afar sparlega með hana. Á móti vegur að frönskuskammturinn var ríflegur.
Junkyard er lúgusjoppa við hliðina á Rúmfatalagernum. Á góðviðrisdegi er aðstaða fyrir fólk að setjast niður fyrir utan og snæða í ró og næði.
Á matseðlinum er mynd af hamborgara sem er mjög ólíkur raunverulegum International Basic Burger. Við gætum verið að tala um vörusvik. Auglýsingaborgarinn er til að mynda með osti og bólginn af meðlæti.
Lífstíll | Breytt 13.2.2021 kl. 19:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
6.2.2021 | 21:09
Hverjir selja ljótu húsin?
Um allt land eru ljót hús. Þau eru aldrei til sölu. Nema parhús í Kópavogi. Það var til sölu. Eftir fréttaflutning af því var togast á um það. Fyrstur kom. Fyrstur fékk. Í auglýsingum fasteignasala eru öll hús og allar íbúðir á söluskrá þeirra ýmist fallegar og rúmgóðar eða sérlega fallegar og glæsilegar. Sumar eru bjartar og virkilega glæsilegar og snyrtilegar. Allar eru vel staðsettar. Jafnvel tekið fram að stutt sé í allar áttir. Gott útsýni eða eða sérlega gott útsýni. Þá eru þær vel skipulagðar eða bjóða upp á ýmsa möguleika.
Sumt í fasteignaauglýsingum kemur eins og þruma úr heiðskýru lofti. Til að mynda þegar tekið er fram að þvottaaðstaða sé í íbúðinni. Kætast þá börnin smá yfir að þurfa ekki að fara með allan þvott í þvottahús langt út í bæ.
Einnig þegar tekið er fram að gólfefni fylgi með. Hvernig er íbúð án gólfefnis? Svo er það aðal sölutrikkið: Mynddyrasími fylgir. Húsið er til sölu á 120 milljónir en án mynddyrasíma. Nei, jú, hann fylgir með. Sala!
Lífstíll | Breytt 7.2.2021 kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
28.1.2021 | 21:46
Afi forvitinn
Við vorum í jólaboði hjá nágrönnum og ættingjum. Með í boðinu var sameiginlegur heimilisvinur, ungur maður. Afi kom öllum á óvart með tíðindi er hann spurði unga manninn: "Er það rétt sem ég hef hlerað að þú sért tekinn upp á því að gera hosur þínar grænar fyrir Hönnu?"
Unga manninum var brugðið. Hann eldroðnaði og tautaði hikstandi og stamandi: "Það er kannski eitthvað verið að slúðra um það."
Þetta var greinilega viðkvæmt feimnismál. Til að hressa hann við, sýna honum stuðning og hughreysta bætti afi við: "Assgoti var það lipurt hjá Ella að hnoða í hana barn. Þar með sannaði hann fyrir þér að hún er ekki óbyrja!"
Lífstíll | Breytt 29.1.2021 kl. 09:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.1.2021 | 00:59
Gleyminn arkítekt
2007 varð uppi fótur og fit á bæjarráðsfundi Hvergerðisbæjar. Ástæðan var sú að bænum barst óvænt reikningur upp á 6 milljónir króna. Reikninginn sendi arkitekt sem gengur undir nafninu Dr. Maggi. Hann var að rukka fyrir hönnunarvinnu sem innt var af hendi 26 árum áður.
Við athugun á bókhaldi kom í ljós að Maggi hafði aldrei rukkað fyrir vinnuna og því aldrei fengið greitt fyrir hana. Vandamálið var að krafan var fyrnd fyrir löngu síðan lögum samkvæmt. Bænum var ekki heimilt að borga reikning sem fyrningarlög voru búin að ómerka.
Þegar þetta allt lá fyrir komst bæjarráð samt að þeirri niðurstöðu að um sanngirnismál væri að ræða. Á einhvern hátt yrði að borga kallinum fyrir sína vinnu. Með nánu samráði við Ölfusinga tókst að finna einhverja leikfléttu til komast framhjá fyrningarlögum.
En hvers vegna rukkaði Maggi ekki sínar 6 milljónir í 26 ár? Við erum að tala um upphæð sem er að minnsta kosti tvöfalt hærri á núvirði. Skýring hans var: "Ég gleymdi því."
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
3.1.2021 | 11:56
Börn
Börn geta verið fyndin. Óvart. Ég átti erindi í Krónuna. Langaði í Malt. Á einum gangi voru tveir ungir drengir. Annar sennilega tveggja ára. Hinn kannski sex eða sjö. Sá yngri kallaði á hinn: "Erum við ekki vinir?" Hinn játti því. Þá spurði sá stutti: "Af hverju labbar þú þá svona langt á undan mér?" Mér þótti þetta geggjað fyndið.
Lífstíll | Breytt 6.1.2021 kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
4.12.2020 | 05:34
Lulla frænka í stimpingum
Lulla föðursystir mín var ekki eins og fólk er flest. Hennar andlega heilsa var ekki sem best. Hún sagði og gerði margt óvenjulegt. Oft var það eitthvað broslegt. Hún var ljúfmenni og vildi öllum vel. Okkur í fjölskyldunni þótti vænt um hana. Það var ætíð gleðiefni að fá hana í heimsókn.
Lulla ók allra sinna ferða; hvort sem hún var með ökuskírteini í lagi eða ekki. Það var allur háttur á. Og aldrei borgaði hún sektir sem hlóðust upp í þykkum bunkum. Hún fylgdi ekki alltaf umferðareglum. Fyrir bragðið var bíll hennar jafnan dældaður á öllum hliðum. Hún kippti sér ekkert upp við það. Þess vegna vakti undrun þegar hún tók afar nærri sér að sjá dæld farþegamegin á bíl móður minnar. Hún var alveg miður sín.
Svo bar við að þær mágkonur fóru til Dalvíkur á jarðarför. Er þær nálguðust kirkjuna gaf Lulla mömmu ströng fyrirmæli um að leggja bílnum þannig að enginn sæi dældina. Að útför lokinni óskaði kona nokkur eftir að fá far með þeim. Lulla tók því illa. Sagði að það væri lykkja á leið þeirra, þær væru að flýta sér og þetta hentaði ekki. Mamma hinsvegar tók vel í ósk konunnar og bauð hana velkomna í bílinn.
Er konan hugðist ganga að bílnum farþegamegin stökk Lulla í veg fyrir hana. Var hún þó stirð til gangs. Lulla tók á henni og hrinti í aftursætið bílstjóramegin. Mömmu dauðbrá og reyndi að gera gott úr þessu með því að ræða eitthvað skemmtilegt við konuna. Skutlið var innan Dalvíkur og tók stutta stund. Er konan hafði yfirgefið bílinn spurði mamma Lullu: "Hvers vegna í ósköpunum lentuð þið í stimpingum?" Hún kveikti sér í sígarettu og svaraði síðan sallaróleg: "Ég vildi akki að hún sæi dældina."
Lífstíll | Breytt 6.12.2020 kl. 21:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
28.10.2020 | 21:51
Hve langt á að ganga?
Ég er frekar andvígur Covid-19. Eða eiginlega alveg andvígur kvikindinu. Ég hallast að viðhorfi Kára Stefánssonar um að gripið verði til harkalegra varna. Jafnvel að öllum verslunum verði lokað tímabundið - nema matvöruverslunum. Vissulega sársaukafull aðgerð fyrir marga. Á móti vegur að dragist Covid-faraldurinn á langinn þá mun hann valda ennþá fleirum harm. Þetta er eins og valið á milli þess að rífa sársaukafullt af sér plástur hægt og bítandi eða kippa honum af og finna sársauka í 1 sekúndu.
Einu mótmæli ég harðlega: Það er lokun lyfjaverslana. Ég þarf að kaupa þar mínar daglegu gigtarpillur. Ég ætla að fleiri þurfi nauðsynlega að kaupa lyf.
![]() |
Vill loka fyrir helgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |