Færsluflokkur: Lífstíll

Afi forvitinn

  Við vorum í jólaboði hjá nágrönnum og ættingjum.  Með í boðinu var sameiginlegur heimilisvinur,  ungur maður.  Afi kom öllum á óvart með tíðindi er hann spurði unga manninn:  "Er það rétt sem ég hef hlerað að þú sért tekinn upp á því að gera hosur þínar grænar fyrir Hönnu?"

  Unga manninum var brugðið.  Hann eldroðnaði og tautaði hikstandi og stamandi:  "Það er kannski eitthvað verið að slúðra um það."

  Þetta var greinilega viðkvæmt feimnismál.  Til að hressa hann við, sýna honum stuðning og hughreysta bætti afi við:  "Assgoti var það lipurt hjá Ella að hnoða í hana barn.  Þar með sannaði hann fyrir þér að hún er ekki óbyrja!

 


Gleyminn arkítekt

  2007 varð uppi fótur og fit á bæjarráðsfundi Hvergerðisbæjar.  Ástæðan var sú að bænum barst óvænt reikningur upp á 6 milljónir króna.  Reikninginn sendi arkitekt sem gengur undir nafninu Dr. Maggi.  Hann var að rukka fyrir hönnunarvinnu sem innt var af hendi 26 árum áður.   

  Við athugun á bókhaldi kom í ljós að Maggi hafði aldrei rukkað fyrir vinnuna og því aldrei fengið greitt fyrir hana.  Vandamálið var að krafan var fyrnd fyrir löngu síðan lögum samkvæmt.  Bænum var ekki heimilt að borga reikning sem fyrningarlög voru búin að ómerka.  

  Þegar þetta allt lá fyrir komst bæjarráð samt að þeirri niðurstöðu að um sanngirnismál væri að ræða.  Á einhvern hátt yrði að borga kallinum fyrir sína vinnu.  Með nánu samráði við Ölfusinga tókst að finna einhverja leikfléttu til komast framhjá fyrningarlögum.  

  En hvers vegna rukkaði Maggi ekki sínar 6 milljónir í 26 ár?  Við erum að tala um upphæð sem er að minnsta kosti tvöfalt hærri á núvirði. Skýring hans var: "Ég gleymdi því."   

         


Börn

 Börn geta verið fyndin.  Óvart.  Ég átti erindi í Krónuna.  Langaði í Malt.  Á einum gangi voru tveir ungir drengir.  Annar sennilega tveggja ára.  Hinn kannski sex eða sjö.  Sá yngri kallaði á hinn:  "Erum við ekki vinir?"  Hinn játti því.  Þá spurði sá stutti:  "Af hverju labbar þú þá svona langt á undan mér?"  Mér þótti þetta geggjað fyndið.


Lulla frænka í stimpingum

 Lulla föðursystir mín var ekki eins og fólk er flest.  Hennar andlega heilsa var ekki sem best.  Hún sagði og gerði margt óvenjulegt.  Oft var það eitthvað broslegt.  Hún var ljúfmenni og vildi öllum vel.  Okkur í fjölskyldunni þótti vænt um hana.  Það var ætíð gleðiefni að fá hana í heimsókn.

  Lulla ók allra sinna ferða;  hvort sem hún var með ökuskírteini í lagi eða ekki.  Það var allur háttur á.  Og aldrei borgaði hún sektir sem hlóðust upp í þykkum bunkum.  Hún fylgdi ekki alltaf umferðareglum.  Fyrir bragðið var bíll hennar jafnan dældaður á öllum hliðum.  Hún kippti sér ekkert upp við það.  Þess vegna vakti undrun þegar hún tók afar nærri sér að sjá dæld farþegamegin á bíl móður minnar.  Hún var alveg miður sín.  

  Svo bar við að þær mágkonur fóru til Dalvíkur á jarðarför.  Er þær nálguðust kirkjuna gaf Lulla mömmu ströng fyrirmæli um að leggja bílnum þannig að enginn sæi dældina.  Að útför lokinni óskaði kona nokkur eftir að fá far með þeim.  Lulla tók því illa.  Sagði að það væri lykkja á leið þeirra,  þær væru að flýta sér og þetta hentaði ekki.  Mamma hinsvegar tók vel í ósk konunnar og bauð hana velkomna í bílinn.  

  Er konan hugðist ganga að bílnum farþegamegin stökk Lulla í veg fyrir hana.  Var hún þó stirð til gangs.  Lulla tók á henni og hrinti í aftursætið bílstjóramegin.  Mömmu dauðbrá og reyndi að gera gott úr þessu með því að ræða eitthvað skemmtilegt við konuna.  Skutlið var innan Dalvíkur og tók stutta stund.  Er konan hafði yfirgefið bílinn spurði mamma Lullu:  "Hvers vegna í ósköpunum lentuð þið í stimpingum?"  Hún kveikti sér í sígarettu og svaraði síðan sallaróleg:  "Ég vildi akki að hún sæi dældina."    


Hve langt á að ganga?

  Ég er frekar andvígur Covid-19.  Eða eiginlega alveg andvígur kvikindinu.  Ég hallast að viðhorfi Kára Stefánssonar um að gripið verði til harkalegra varna.  Jafnvel að öllum verslunum verði lokað tímabundið - nema matvöruverslunum.  Vissulega sársaukafull aðgerð fyrir marga.  Á móti vegur að dragist Covid-faraldurinn á langinn þá mun hann valda ennþá fleirum harm.  Þetta er eins og valið á milli þess að rífa sársaukafullt af sér plástur hægt og bítandi eða kippa honum af og finna sársauka í 1 sekúndu.  

  Einu mótmæli ég harðlega:  Það er lokun lyfjaverslana.  Ég þarf að kaupa þar mínar daglegu gigtarpillur.  Ég ætla að fleiri þurfi nauðsynlega að kaupa lyf.  

   


mbl.is Vill loka fyrir helgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skelfileg upplifun í bíl

  Bíllinn minn er 14 ára.  Reyndar eiginlega 13 ára.  Hann á 14 ára afmæli eftir nokkra daga.  Hann ber aldurinn frekar illa.  Hann hefur áráttu til að bila.  Það er eins og þráhyggja hjá honum að komast sem oftast á verkstæði.  Iðulega ljómar mælaborðið eins og jólasería.  Ljósin eru rauð og gul og appelsínugul. Aðallega rauð.  Það er flott yfir jól og áramót. 

  Í dag átti ég erindi í bílinn.  Um leið og ég startaði honum hentist hann til og frá.  Ég sannfærðist þegar í stað um að nú væri sá gamli að gefa upp öndina.  Mér var mjög brugðið.  Maður sem hefur atvinnu af því að selja sólkrem er ekki vel staðsettur í Covid-19 launamálum.

  Mér fannst hamagangurinn standa yfir í hálfa mínútu.  Kannski varði hann skemur.  Síðar kom í ljós að um jarðskjálfta var að ræða.  Þá tókum við bíllinn gleði á ný.  

bíll 

 

 

      


Illmenni

  Ég er fæddur og uppalinn í sveit,  Hrafnhóli í Hjaltadal,  í útjaðri Hóla.  Öll unglingsár vann ég í Sláturhúsi Skagfirðinga á Sauðárkróki.  Það var gaman.  Við slátruðum hátt í sjö þúsund lömbum hvert haust.  Og slatta af öðrum dýrum.  Ég vann við að vigta skrokkana,  grysja þá og koma fyrir í frysti.  Í frystinum mátti maður bara vera í 25 mínútur í einu.  Á þeim tíma sturtaði ég í mig brennivíni.  Er komið var úr frystinum helltist víman hratt og skemmtilega yfir mann.  Það var gott "kikk".  .  

  Ég hef fullan skilning og umburðarlyndi gagnvart fólki sem drepur dýr sér til matar.  Mörg dýr gera það sjálf.  En sjaldnast sér til einskærrar skemmtunar.  Fólk sem drepur dýr sér til skemmtunar er vont fólk. 

dýradráp gdýradráp adýradráp bdýradráp ddýradráp edýradráp hdýradráp i


Bíll Önnu frænku á Hesteyri

  Góður frændi okkar Önnu Mörtu heitinnar á Hesteyri í Mjóafirði gaf henni bílpróf og bíl.  Þetta var á níunda áratugnum og Anna á sextugsaldri.  Bílprófið yrði hún að taka í Reykjavík.  Á ýmsu gekk.  Í sjálfu bilprófinu festist hún inni í hringtorgi.  Prófdómarinn sagðist ekki geta hleypt henni út í umferð þegar tæki hana 7 hringi að komast út úr hringtorgi.

  Anna var snögg að semja við hann.  Á Austfjörðum sé ekkert hringtorg.  Hún muni skuldbinda sig til að aka aldrei út fyrir Austfirði.  Þar með verði hringtorg ekkert flækjustig.  Eftir langar samningaviðræður keypti prófdómarinn rök Önnu.  Hún stóð við sitt. 

  Er hún var komin með bílpróf hringdi hún í mömmu.  Mamma hvatti hana til að heimsækja sig á Akureyri.  Anna spurði:  "Er hringtorg á Akureyri?"  Þegar mamma játaði því upplýsti Anna um heiðursmannasamkomulagið.

  Anna ók bílnum eins og dráttarvél.  Hún hélt sig við fyrstu tvo gírana.  Ók óvarlega yfir stokka og steina.  Að því kom að bíllinn pikkfestist í á.  Hún sagði mömmu tíðindin;  að bíllinn væri búinn að vera.  Mamma spurði hvort hann væri ekki bara fastur ofan á steini og mögulegt væri að draga hann af steininum.  Anna hafnaði því.  Sagðist oft hafa ekið bílnum yfir miklu stærri grjót.  Þetta væri alvarlegra.  Bíllinn væri dauður.  "Bílar endast ekki í mörg ár," útskýrði hún skilningsrík. 

  Anna sagði Gauja frænda okkar frá dauða bílsins.  Hún sagði:  "Hann er svo fastur að ég prófaði meira að segja að setja hann í kraftgírinn.  Samt haggaðist hann ekki."  Gauji frændi hefur í hálfa öld unnið með vélar af öllu tagi og átt marga bíla.  Hann veit ekki ennþá hvað kraftgír er.  Því síður ég. 

 

 


Smásaga um stefnumót

  Ný vinnuvika er að hefjast.  Tvær vinkonur og vinnufélagar ræða um helstu tíðindi helgarinnar.

  - Ég fór á dásamlegt stefnumót í gær,  upplýsir önnur.

  - Nú?  Segðu frá,  svarar hin forvitin.

  - Ég fór inn á stefnumótasíðu á netinu.  Hitti þar myndarlegan mann.  Eftir heilmikið spjall bauð hann mér á stefnumót.

  - Hvernig gekk það fyrir sig?

  - Hann sótti mig á slaginu klukkan sex.  Það veit á gott þegar karlmaður er stundvís.  Ekki síst af því að ég beið eftir honum úti á gangstétt og frekar kalt. 

  - Bölvað ógeðið.  Ég veit allt um svona perra.  Þeir nota öll fantabrögð til að komast að heimilisfangi konunnar.  Tilgangurinn er að geta njósnað um hana.  Jafnvel brjótast inn til hennar þegar hún er ekki heima og planta allskonar njósnabúnaði.

  - Róleg.  Þetta var allt mjög rómantískt.  Um leið og hann renndi í hlað þá stökk hann út úr bílnum,  rétti mér eina rós með orðunum "viltu þiggja þessa rós?"

  - Þvílíkur nirfill!  Ein ómerkileg rós!  Maðurinn er algjör aurapúki.

  - Þetta var tilvísun í bachelor-sjónvarpsþættina.  Svo sætt og rómantískt.  Við fórum á glæsilegt steikhús.  Hann stakk upp á því að við færum hægt yfir sögu.  Myndum verja góðum tíma í forrétti, aðalrétti,  eftirrétti og spjall. 

  - Karlhelvítið.  Þetta er aðferðin sem þeir nota;  sitja yfir konunum klukkutímum saman og endurtaka frasa.  Þetta er heilaþvottur.

 - Þetta var mjög notaleg stund.  Maturinn var algjör veisla og hann valdi handa mér besta rauðvín sem ég hef bragðað.  Sjálfur drekkur hann ekki áfenga drykki.

 - Dæmigerður óþverri;  hellir dömuna ofurölvi til að gera hana meðfærilegri.  Klárlega laumaði hann að auki nauðgunarlyfi í drykkinn.

  - Nei,  það voru engin vandræði.  Þvert á móti.  Stefnumótið var ljúft í alla staði.  Í miðju kafi stökk hann að píanói á sviðinu og söng og spilaði nokkra ljúfa íslenska ástarsöngva.

  - Helvítis ruddi.  Skildi þig eina eftir úti í sal eins og ódýra vændiskonu.  Neyddi þig samtímis til að sitja undir sóðalegum klámvísum.  Maðurinn er snargeggjaður og hættulegur.  Þú verður að kæra kvikindið til að forða öðrum konum frá því að lenda í klónum á skepnunni.

  - Allt stefnumótið var ævintýri.  Að vísu kom upp ágreiningur þegar ég krafðist þess að borga helminginn af matarreikningnum.  Hann tók það ekki í mál. 

  - Karlrembudjöfull.  Niðurlægir þig með skilaboðum um að þú sért honum óæðri.  Hann sé merkilegri en þú.  Hann sé með hærri tekjur og þú ekki borgunarmanneskja til jafns við hann.  Ef þú hittir hann aftur verður þú að hafa með þér piparsprey.  Ef hann reynir eitthvað þá spreyjar þú piparnum í augun á honum.

 - Ég gerði það í gær.  Þegar við gengum að bílnum hans þá spreyjaði ég piparnum í augun á honum.  Hann missti jafnvægi og skall í jörðina.  Ég sparkaði af alefli í hausinn á honum.  Rotaði hann.  Svo stal ég veskinu hans og bílnum.  Ég sel bílinn á eftir í partasölu.  

  - En hann veit nafn þitt og heimilisfang.

  - Nei,  ég var með falskt nafn á stefnumótasíðunni.  Ég er búin að eyða prófíl mínum þar.  Ég gaf honum aldrei upp heimilisfang mitt heldur heimilisfang næsta húss við hliðina.   


Breskir strompar

  Á dögunum þurfti ég að vera heimavið í nokkra daga.  Til að stytta mér stundir tók ég upp á því að horfa á sjónvarp úr hófi fram.  Meðal þess sem fyrir augu bar var breskur raunveruleikaþáttur,  Love island.  Hópi glæsilegra ungmenna á þrítugsaldri er komið fyrir i reisulegri villu á eyju.  Þar er dekrað við hópinn í mat og drykk.  Dömurnar spranga um á bikiní og drengirnir á sundskýlu.  Enda nýta þau sér sundlaugina.

  Leikurinn gengur út á að fólkið pari sig.  Þeim sem mistekst er sparkað af eyjunni.  Aðrir koma í staðinn.  Þeir þurfa að sprengja upp parasamband til að mynda nýtt par.  Nóg er að horfa á einn þátt.  Þeir eru allir eins.  Fátt ber til tíðinda.

  Eitt vekur athygli umfram annað.  Það er hvað hátt hlutfall þátttakenda keðjureykir.  Ég kannaði málið.  Í ljós kom að fjórðungur Breta reykir.  Til samanburðar eru Íslendingar ekki að standa sig.  Aðeins sjöundi hver reykir. 

lennonmccartneyharrisonringo starr

   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband