Færsluflokkur: Lífstíll
26.7.2020 | 23:42
Af hverju talar fólk um sig í þriðju persónu?
Ég var að horfa á sjónvarpsþátt með bandarískum réttarsálfræðingi, Dr. Phil. Hann talar ítrekað um sig í þriðju persónu. Þetta er ósjálfráð aðferð til að upphefja sig. Skrýtið að sálfræðingur átti sig ekki á þessu. Hann hefur þó upplýst hvað liggur að baki. Pabbi hans var sjálfhverfur alkahólisti. Phil þráði viðurkenningu frá honum. Þó ekki væri nema smá hrós. Það kom aldrei. Honum gekk vel í skóla. En pabbinn lét það sig engu skipta. Phil fékk aldrei neitt jákvætt frá honum.
Kunningi minn átti erfiða æsku. Ólst upp við ofbeldi. Hann talar oftast um sig í þriðju persónu. Og alltaf þegar hann hælir sér af einhverju. Hann segir: "Bjössi eldaði frábæran rétt í gær a la Björn" og "Bjössi veit nú margt um þetta!"
Annan þekki ég sem bætir nafni sínu alltaf við þegar hann vitnar í samtöl sín. Hann lætur viðmælandann hefja setningar á ávarpinu "Ólafur minn..." eða: "Ég get sagt þér, Ólafur minn..."
Lífstíll | Breytt 27.7.2020 kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
16.7.2020 | 00:54
Undarlegur leigjandi
Nonni kunningi minn er á áttræðisaldri. Hann leigir út 3 herbergi í íbúð sinni. Sjálfur er hann í því 4ða.
Eitt sinn vantaði hann leigjanda. Í auglýsingu í Fréttablaðinu óskaði fertugur Þjóðverji eftir herbergi. Nonni lærði þýsku á unglingsárum. Honum þótti spennandi að rifja hana upp.
Honum til vonbrigða vildi sá þýski lítið með þýsku hafa. Sagðist þess í stað þurfa að æfa sig í ensku. Í Þýskalandi biði hans starf sem túlkur.
Fljótlega varð Nonni var við rýrnun í ísskáp sínum og brauðskúffu. Hann leit framhjá því. Þetta var ekki fjárhagstjón sem skipti máli. Verra þótti honum þegar lækkaði í áfengisflöskum hans og leifarnar voru með vatnsbragði. Fremur en gera veður út af þessu þá tók hann til bragðs að geyma áfengið úti í bíl.
Einn daginn var uppáhaldsjakki Nonna horfinn. Þá gerði hann nokkuð sem hann annars gerði aldrei. Hann notaði aukalykil til að kíkja inn í herbergi Þjóðverjans. Þar var jakkinn á stólbaki. Hann lét jakkann vera.
Seint um kvöldið skilaði leigjandinn sér í hús. Nonni spurði hvort hann hefði séð jakkann. Jú, Þjóðverjinn kvaðst hafa fengið hann lánaðan. Sagðist hafa þurft á áríðandi fund og ekki átt nógu fínan jakka sjálfur. Svo snaraðist hann inn í herbergi og kom aftur fram í jakkanum. Saman dáðust þeir Nonni að fegurð jakkans. Skyndilega sagðist kauði þurfa að skjótast út. Hann var enn í jakkanum og skilaði sér ekki fyrr en um miðja nótt.
Næsta dag var leigjandinn enn í jakkanum. Nonni bað hann um að skila flíkinni. Það var auðsótt.
Upp frá þessu tók Þjóðverjinn að ganga í fleiri fötum af Nonna. Þegar hann gerði athugasemd við þetta þá útskýrði kauði að sínar skyrtur væru óhreinar, einu almennilegu buxurnar hefðu rifnað og svo framvegis. Nonni þurfti ávalt að biðja hann um að skila fötunum. Annars gerði hann það ekki.
Svo gerðist það að Nonni brá sér á skemmtistað. Þar hitti hann konu. Er vangadansi og dansleik lauk fylgdi hún honum heim. Hann keypti nokkra bjóra í nesti. Þar sem þau sátu í stofunni, keluðu og sötruðu veigarnar vaknaði leigjandinn við tal þeirra. Hann kom fram og þáði bjór. Síðan rakti hann fyrir konunni dapurlega ævi sína. Foreldrar hans voru myrtir af nasistum. Hann ólst upp við illan kost á munaðarleysingjahæli. Minningarnar voru svo sárar að hann brast í grát. Loks henti hann sér hágrátandi í faðm konunnar. Hún reyndi hvað hún gat að róa hann og hugga.
Nonni brá sér á salerni. Er hann snéri til baka voru konan og leigjandinn horfin. Hann bankaði á dyr leiguherbergisins og kallaði. Þjóðverjinn kallaði til baka að þau væru farin að sofa. Bauð svo góða nótt.
Það fauk í Nonna. Hann rak leigjandann daginn eftir. Konan bauð honum að flytja til sín til bráðabirgða. Lauk þar með samneyti karlanna.
Ári síðar hittust þeir á gangi. Þjóðverjinn leiddi frænku hans. Hún upplýsti að þau væru trúlofuð. Nonni hringdi í foreldra hennar. Sagði þeim frá kynnum sínum af manninnum. Fékk hann þá að vita að tengdasonurinn væri ekki þýskur heldur Íslendingur í húð og hár. En ekki hafði farið framhjá þeim að hann væri ósannsögull.
Lífstíll | Breytt 17.7.2020 kl. 19:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.6.2020 | 23:17
Svíi var svo fullur að lögreglan hélt að hann væri Dani
Sænskur saksóknari hefur ákært 29 ára Svía. Sakarefnið er ölvunarakstur, flótti frá árekstri og brot á vopnalögum. Við yfirheyrslu kvaðst hann hafa drukkið romm, koníak, brennivín og vatn. Síðan hafi hann farið í göngutúr og mokað smávegis snjó fyrir utan hús föður síns. Að því loknu vaknaði hann sér til undrunar upp af værum blund í fangaklefa.
Lögreglan kom auga á manninn flýja á hraðferð af vettvangi eftir að hafa klesst á tvo kyrrstæða bíla. Hraðferðin endaði í snjóskafli. Þar sat bíllinn fastur.
Þegar lögreglan opnaði bíldyrnar gus upp megn áfengislykt. Á bílgólfinu blasti við vodkaflaska. Jafnframt reyndist maðurinn vera vopnaður ólöglegum hníf.
Svo sauðdrukkinn var hann að lögreglan var lengst af sannfærð um að hann væri Dani.
Honum er gert að borga sveitarfélaginu Trollhattan 21 þúsund kall fyrir að hafa ekið niður staur. Að auki þarf hann að borga hálfa milljón fyrir bílana sem hann ók utan í. Einhverja sekt fær hann fyrir ölvun undir stýri.
Lífstíll | Breytt 28.6.2020 kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
12.6.2020 | 23:32
Dæmalausir fordómar
Ég veit ekki hvort ég fari rétt með orð Andreu Jónsdóttur; hún sagði eitthvað á þá leið að fordómar væru í lagi en ekki miklir fordómar. Allir hafa fordóma. Ég hef fordóma gegn skallapoppi, harmónikkumúsík, kórsöng og ýmsu öðru músíktengdu. Ég hugsa til þess með hryllingi að fara á elliheimili eftir 3 ár og sitja þar undir sömu músík og vistmenn þess í dag. Ekkert Slayer. Ekkert Dead Kennedys. Ekkert Pantera. Ekki einu sinni Skálmöld né Sólstafir.
Á elliheimilinu get ég væntanlega flúið inn á mitt herbergi og blastað í heyrnartólum Sepultura, Mínusi og I Adapt. Málið er að hæg líkamsstarfsemi aldraðra harmónerar ekki við hart og hratt rokk.
Verri eru fordómar gegn hörundslit, menningarmun, hárlit og appelsínugulum sjálfbrúnkulit.
Alltaf er gott að við sljóir hvítir eldri karlar fái olnbogaörskot og séu vaktir upp af værukærum svefni. Ritskoðun á rasisma er hið besta mál. Sérstaklega þegar hún beinist gegn styttum. Þær eru út í hött. Kannski. Nú hefur gríni Fawlty Towers verið úthýst af netveitum ásamst Gone with the Wind (Á hvervandi hveli).
Lífstíll | Breytt 13.6.2020 kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.5.2020 | 05:55
Smásaga um mann
Hann er kallaður Graði brúnn. Það er kaldhæðni. Hann hefur aldrei verið við kvenmann kenndur. Því síður karlmann. Ástæðan umfram annað er rosaleg feimni. Ef kona ávarpar hann þá fer hann í baklás. Hikstar, stamar og eldroðnar. Hann forðar sér á hlaupum úr þannig aðstæðum. Gárungar segja hann eiga sigurmöguleika í 100 metra spretthlaupi. Svo hratt hleypur hann.
Nýverið varð breyting á. Kallinn keypti sér tölvu. Þó að hann kunni lítið í ensku gat hann skráð sig á útlendar stefnumótasíður. Með aðstoð translate.google gat hann ávarpað útlenskar konur. Feimnin þvælist ekki fyrir honum fyrir framan tölvuskjá. Að vísu setur hann upp kolsvört sólgleraugu til að finna öryggi.
Svo skemmtilega vildi til að finnsk kona sýndi honum óvæntan áhug. Hún var sérlega spennt fyrir því að Graði brúnn safnar servíettum, merktum pennum og tannstönglum notuðum af frægum Íslendingum.
Finnska fraukan lýsti fljótlega yfir löngun til að heimsækja okkar mann. Framan af varðist hann fimlega. Bar fyrir sig dauðsfalli móður. Þvínæst dauðsfalli föður. Svo annara helstu ættingja. Vörnin brast þegar hann var farinn að telja upp dauðsfall fjarskyldra ættingja og vini þeirra. Dauðsföllin slöguðu upp í fórnarlömb Víetnam-stríðsins.
Einn daginn tilkynnti sú finnska að hún væri á leið til Íslands. Búin að kaupa flugmiða og hann ætti að sækja hana upp á flugstöð. Hann fékk áfall. Fyrst leið yfir hann. Svo fékk hann kvíðakast. Því næst át hann kornflex-pakka í taugaveiklunarkasti. Sporðrenndi ekki aðeins kornflexinu heldur einnig sjálfum pappakassanum. Honum datt í hug að skrökva því að hann væri dáinn. Hefði verið myrtur af ofbeldismanni. Aðrir eru ekki að drepa fólk.
Að lokum komst Graði brúnn að þeirri niðurstöðu að nú væri að duga eða drepast. Helst að duga. Hann keyrði á réttum tíma til flugstöðvarinnar. Hann þekkti finnsku dömuna þegar í stað. Enda eina konan á svæðinu búin að raka af sér allt hárið nema fjólubláa fléttu fyrir ofan annað eyrað.
Strax við fyrstu kynni í raunheimum blossaði feimnin upp. Komin út í bíl sýndi hann dömunni með leikrænum tilþrifum að hann væri að hlusta á útvarpið. Hann stillti það hátt. Þulurinn á Rás 2 malaði: "Klukkan er 5 mínútur gengin í sex. Nóg framundan til klukkan sex. Metsölubókahöfundur er að koma sér fyrir hérna. Um hálf sex leytið mætir vinsælasta hljómsveit landsins og frumflytur nýtt lag... Klukkan sex taka fréttir við..."
Þegar hér var komið sögu sló sú finnska hann af alefli í andlitið. Hann varð hissa og spurði: "Ertu að lemja mig í andlitið?" Blóðnasirnar svöruðu spurningunni.
Kella hafði ekki sagt sitt síðasta orð. Hún gargaði á kauða: "Hvernig vogar þú þér að spila fyrir framan mig klámútvarp? Sex, sex, sex í annarri hverri setningu. Heldur að ég fatti ekki neitt, klámhundur!"
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.5.2020 | 01:00
Kallinn sem reddar
Er eitthvað bilað? Þarf að breyta einhverju? Þarf að bæta eitthvað? Þarf að laga eitthvað? Þá getur komið sér vel að vita af kallinum sem reddar ÖLLU. Sjón er sögu ríkari:
15.4.2020 | 23:01
Vigdís
Nei, ekki Vigdís Hauks. Nú snýst allt um Vigdísi Finnbogadóttur út af afmæli hennar. Ég þekki hana ekki neitt. Samt hef ég skrautskrifað á ótal skjöl fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. Aðrir starfsmenn stofnunarinnar hafa séð um samskiptin við mig. Sem er hið besta mál. Ég á ekkert vantalað við Vigdísi. Áreiðanlega er hún þó viðræðugóð.
Dorrit Moussaieff segir Vigdísi vera besta forseta Íslands. Dáldið vandræðalegt fyrir Ólaf Ragnar.
1983 var ég beðinn um að skrifa bók um íslenska rokkmúsík. Sem ég gerði. Bókin, Poppbókin, hefur fylgt mér eins og skuggi og virðist - því miður - ekki falla í gleymskunnar dá. Árlega hringja í mig ungir námsmenn sem eru að skrifa ritgerð um íslenska rokkmúsík. Sömuleiðis hitti ég stöðugt rokkáhugafólk sem segist hafa verið að lesa hana núna næstum fjórum áratugum eftir útkomu hennar.
Ég frétti af tveimur mönnum sem toguðust á um hana í Góða hirðinum. Það urðu ekki slagsmál en næsti bær þar við.
Víkur þá sögu að útgáfuári Poppbókarinnar. Skyndileg birtist Vigdís Finnbogadóttir á skrifstofu Bókaútgáfu Æskunnar. Erindið var að kaupa bókina.
Þarna var Vigdís rösklega fimmtug. Hún hafði eitthvað sungið með hjómsveitum. Því kom áhugi hennar á Poppbókin ekki á óvart. Jú, reyndar kom það starfsmönnum Æskunnar á óvart. Þeir höfðu ekki vanist því að vera með forseta Íslands inni á sínu gólfi.
Á þessum árum var forsetaembættið hágöfugt og sveipað dýrðarljóma.
Næst gerðist það að ég átti leið í Pósthús á Eiðistorgi. Þetta var áður en númerakerfi var tekið upp. Viðskiptavinir tróðust. Aðallega ég. Ruddist með frekju framfyrir aðra. Var í tímahraki. Ég komst fram fyrir virðulega konu. Einhver orðskipti átti ég við afgreiðsludömuna. Í kjölfar segir virðulega konan við mig: "Afskaplega er gaman að heyra skagfirsku." Ég sá þá að þetta var Vigdís. Ég flutti úr Skagafirði til Reykjavíkur 16 ára. Ég hélt að næstum þremur áratugum síðar væri ég búinn að tapa niður allri norðlensku. En Vigdís er tungumálaséní umfram flesta aðra.
Heyra má Vigdísi syngja með því að smella á HÉR
Myndin er ekki af Bill Clinton og Monicu Lewinsky. Jú, reyndar af Bill.
Lífstíll | Breytt 21.4.2020 kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
28.3.2020 | 00:01
Falskt öryggi
Einnota hanskar eru í tísku um þessar mundir. Hvítir þykja flottastir. Bláir og grænir njóta einnig vinsælda. Annars fer þetta að mestu eftir litnum á fötunum sem fólk klæðist hverju sinni.
Einnota hanskar eru ekki aðeins skemmtilegur klæðnaður. Þeir geta líka spornað gegn útbreiðslu kórónaveirunnar. Eða hvað? Jú, ef rétt er að farið. Verra er að þeir geta einnig gefið falskt öryggi.
Veiran smitast ekki bara við snertingu. Hún svífur um loftin blá; ferðast allt í kringum smitað fólk. Veik manneskja þarf ekki einu sinni að hósta hraustlega til að smita aðra. Henni nægir að anda án rykgrímu.
Einnota hanski venur fólk ekki af því að snerta andlitið á sér. Í hanska flaðrar fólk upp hurðahúna sem löðra í veirum; stigahandrið, innkaupakerrur, slær inn PIN-númer og svo framvegis. Þegar hanskaklætt fólkið snertir síðan á sér andlitið þá er það engu betur sett en berhentir.
Yfirleitt liggja hanskarnir þétt um höndina. Við það verður húðin þvöl. Það er kjörlendi fyrir veiruna. Mikilvægt er að hendur séu vel þurrar þegar þeim er stungið í hanska.
Töluverð kúnst er að fara úr einnota hanska. Margir fara þannig úr þeim að þeir gætu eins sleikt hurðahún.
Tíður handþvottur er heppilegri en hanskar. Hann skilur heldur ekki eftir sig sama sóðaskap og hanskinn. Víða fyrir utan matvöruverslanir má sjá einnota hanska fjúkandi út um öll bílastæði.
Sumir klippa framan af fingrum hanskans; breyta honum í grifflur. Það er töff en veitir falskt öryggi gegn kórónaveirunni.
Lífstíll | Breytt 5.4.2020 kl. 08:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
27.2.2020 | 23:45
Þannig má laga skemmd lungu
Sígarettur eru ekki eins hollar og margir halda. Að reykja þær veldur ertingu og álagi á lungun. Einkum ef mikið og oft er reykt; þá skaðast lungun. Strompar fá þrálátan hósta, lungnateppu og jafnvel krabbamein, svo fátt eitt sé nefnt.
Háskóli í Maryland í Bandaríkjum Norður-Ameríku hefur rannsakað dæmið og skoðað hvað sé til ráða. Niðurstaðan kemur á óvart. Ávöxturinn tómatur getur gert kraftaverk. Aðeins þarf að snæða tvo tómata á dag til að þeir hefji viðamikla viðgerð á skemmdum lungum.
Tómatsósa skilar minni árangri. Skiptir þar engu máli hvort hún er framleidd úr tómötum eða eplamauki. Hinsvegar geta fersk epli hjálpað.
Lífstíll | Breytt 29.2.2020 kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.2.2020 | 23:23
Illa farið með góðan dreng
Ég rekst stundum á mann. Við erum málkunnugir. Köllum hann Palla. Hann býr í lítill blokk. Í sama stigagangi býr vinur hans. Köllum hann Kalla. Þeir eru hálfsjötugir einstæðingar. Fyrir bragðið sækja þeir í félagsskap hvors annars. Fá sér stundum bjór saman; tefla, skreppa í bingó og svo framvegis.
Í hvert sinn sem ég rekst á Palla hefst samtalið á þessum orðum: "Ég er alveg að gefast upp á Kalla." Í kjölfar kemur skýring á því. Í gær var hún svona:
"Hann bauð mér út að borða. Þegar við héldum af stað bað hann mig um að aka að Bæjarins bestu. Það var allt í lagi. Mér þykir pylsur góðar. Hann pantaði tvær pylsur með öllu og gos. Ég hélt að önnur væri handa mér og hann myndi spyrja hvernig gos ég vildi. En, nei, pylsurnar voru handa honum. Ég pantaði pylsu og gos. Þegar kom að því að borga sqagði hann: "Heyrðu, ég gleymdi að taka veskið með mér. Þú græjar þetta." Ekki í fyrsta skipti sem hann leikur þennan leik. Þegar við vorum búnir með pylsurnar sagðist hann verða að fá eitthvað sætt á eftir. Við keyrðum að konditorí-bakaríi. Ég keypti handa okkur tertusneiðar og heitt súkkulaði. Hann kvartaði undan tertunni. Skóf utan af henni allt besta gumsið og borðaði það. Skildi sjálfa tertukökuna eftir. Lét mig síðan kaupa aðra og öðruvísi tertusneið."
Fyrir mánuði rakst ég á Palla. Þá sagði hann:
"Ég er alveg að gefast upp á Kalla. Um daginn stakk hann upp á því að við myndum halda upp á jólin með stæl. Gefa hvor öðrum lúxus-jólagjafir. Samt eitthvað gagnlegt sem við myndum hvort sem er kaupa sjálfir fyrr eða síðar. Ég var tregur til. Enda auralítill. Honum tókst að tala mig til með þeim rökum að hann væri búinn að kaupa góða jólagjöf handa mér sem ég ætti eftir að nota oft. Er ég samþykkti þetta sagðist hann vera búinn að velja sér jólagjöf frá mér. Það væri tiltekinn snjallsími. Mér þótti heldur mikið í lagt. Um leið fékk ég þá flugu í hausinn að hann væri búinn að kaupa samskonar síma handa mér. Ég hafði stundum talað um að fá mér snjallsíma. Flestir eru með svoleiðis í dag. Á aðfangadag tók ég upp pakkann frá honum. Í honum voru tíu þvottapokar úr Rúmfatalagernum sem kosta 99 kr. stykkið"
Lífstíll | Breytt 9.2.2020 kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)