Færsluflokkur: Ferðalög
5.1.2013 | 22:27
Íslensk tónlist í Svíþjóð
Í hvert sinn sem ég fer til útlanda þá fagna ég því að vera áhugalaus um búðarráp. Fyrir bragðið skipti ég mér ekkert af búðum. Fer ekki í þær. Horfi helst framhjá þeim ef þær verða á vegi mínum. Eina undantekningu geri ég þó. Hún er sú að ég læt aldrei framhjá mér fara verslanir sem selja hljómplötur. Ég legg ekki á mig langar leiðir til að komast í plötubúð. En á hótelinu spyr ég hvort að plötubúð sé í nágrenninu. Sé svarið jákvætt þá fer ég þangað.
Fyrir áratug og meir voru plötubúðir í flestum flugstöðvum. Það er liðin tíð. Plötubúðirnar eru horfnar úr flugstöðvunum. Og bara mikið til horfnar.
Stokkhólmur er gullnáma fyrir plötusafnara. Þar er að finna tugi plötubúða. Margar þeirra eru með óvenju gott úrval af jaðarmúsík öfugt við þá þróun sem hefur orðið víðast hvar: Jaðarmúsíkin hefur horfið að mestu úr plötubúðum heimsins og færst inn á netsíður.
Að þessu sinni kíkti ég inn í 4 plötubúðir í Stokkhólmi. Samtals keypti ég þó innan við 20 plötur. Flestar sænskar. Það er af sem áður var þegar utanlandsferð stækkaði plötubunkann minn um 50 - 100 stk.
Eitt af því sem er gaman við að fletta í gegnum lager í útlendum plötubúðum er að rekast á íslenskar plötur. Fyrir ári síðan komst ég að því að plötur Sólstafa eru í finnskum plötubúðum. Það kom skemmtilega á óvart. Og einnig að uppgötva að þær hefðu náð inn á finnska vinsældalista.
Í Stokkhólmi urðu á vegi mínum plötur með Björk, Jónsa, Sigur Rós og FM Belfast. Ég vissi ekki áður að FM Belfast væri þetta stórt nafn í Svíþjóð. Þau eru víst að gera það gott víðar á meginlandinu.
Plata Of Monsters and Men var ekki til sölu í áðurnefndum fjórum búðum. Hinsvegar hljómaði lag þeirra Little Talks undir í sænskum sjónvarpsþætti, einhverskonar annál, svipmyndum frá síðasta ári. Það sérkennilega var að ég horfði ekkert á sjónvarp í þessari Stokkhólmsreisu. Ég sá þennan þátt bara út undan mér fyrir tilviljun, staddur á veitingastað. Ég hef frásögn af því að lög með Of Monsters and Men hafi notið mikilla vinsælda í sænsku útvarpi.
Til viðbótar þessum sjónvarpsþætti og íslenskum plötum í sænskum plötubúðum vísa ég á lag með Írisi Kjærnested sem er að finna í síðustu bloggfærslu minni: http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1275550/
Ferðalög | Breytt 8.1.2013 kl. 01:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.12.2012 | 21:07
Rasistar í löggunni
Ég á marga vini. Það er gaman. Einn vina minna flutti til Íslands sem flóttamaður frá Víetnam fyrir mörgum árum. Hann talar ágæta íslensku. Eins og frægt og nýlegt myndband úr Smáralindinni sýnir þá mæta Íslendingar af asísku bergi brotnir stundum dónaskap af hálfu Íslendinga með evrópskan svip. Það eru rasistar á Íslandi.
Vinur minn þessi sem nefndur er til sögunnar var eitt sinn stoppaður af lögreglunni þegar hann ók í rólegheitum eftir Dalvegi í Kópavogi. Lögreglumaðurinn ávarpaði hann með spurningunni: "Talar þú íslensku?"
"Já, dálítið," svaraði vinurinn í hógværð.
"Þú verður að læra íslensku almennilega ef þú ætlar að vera á Íslandi, drengur," skipaði lögreglumaðurinn. Og það valdsmannlega. Því næst spurði hann háðskur: "Kanntu að lesa?"
Jú, vinurinn kannaðist við það undanbragðalaust. Þá spurði lögreglumaðurinn: "Af hverju keyrir þú þá á yfir 50 km hraða þegar á skiltinu þarna stendur 50?"
Vinurinn sagðist vita hver væri hámarkshraði þarna og að hann hafi talið sig vera á löglegum hraða. Hann hafi þó ekki fylgst með hraðamælinum. Honum hafi þótt hraðinn vera um eða undir hámarkshraða og ekkert verið að pæla í því. Hann fylgdi aðeins hraða annarra bíla þarna.
Hann gerði engan ágreining við hraðamælingu lögreglunnar. Það var skrifuð skýrsla og allt gekk sinn vanagang. Nema að þegar kom að því að ganga frá sekt þá kom í ljós að í skýrsluna var skráð að hann hafi ekið örlítið of hratt á Dalbraut í Kópavogi. Það er engin Dalbraut í Kópavogi. Það er til Dalbraut í Reykjavík, á Dalvík, á Akranesi og víðar. Leikar fóru þannig að skýrslan var úrskurðuð ómarktæk og sektin felld niður.
Lögreglumaðurinn valdmannslegi og háðski hafði lesið vitlaust á götumerkingu á Dalvegi.
Spurning er hvort að lögreglumaðurinn hefði ávarpað mann með vestrænt útlit á sama hátt? Skipað honum að læra almennilega íslensku, spurt hvort að hann væri læs og kallað mann á fertugsaldri dreng? Ég held ekki. Ég held ekki heldur að íslenskir lögreglumenn séu almennt rasistar Margir lögregluþjónar eru gott fólk.
![]() |
Hættu að vera dónalegur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 23:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
7.12.2012 | 19:54
Grænmetisrækt hefst á tunglinu strax á næsta ári
Þetta hljómar eins og grín. En þetta er ekki grín. Á næsta ári hefja Kínverjar ræktun á fjórum tegundum grænmetis á tunglinu. Til að byrja með verður grænmetið ræktað á 300 fermetrum. Það nægir til að grænmetið framleiði súrefni sem dugir fjölda manns til að dvelja á tunglinu án þess að þurfa á súrefnisgrímum að halda. Grænmetið kemur jafnframt í stað nestispakka. Fólkið þarf ekki að taka nein matvæli með sér frá jörðinni. Þess í stað jórtrar það á ferska grænmetinu sem vex á tunglinu.
Grænmetisræktin er algjörlega sjálfbær.
Ef allt gengur að óskum mun tunglið leysa offjölgunarvandamál Kínverja og takmarkað landrými þessa fjölmennasta ríkis heims. Þetta gerist ekki 1, 2, 3. Á næstu árum munu aðeins tugir Kínverja dvelja á tunglinu. Því næst einhver hundruð. Á seinni hluta þessarar aldar verður komin upp myndarlegur kínverskur kaupstaður. Annað hvort á þessari öld eða þeirri næstu munu jarðarbúar sjá með berum augu að hluti tunglsins verður grænn. Þá verður talað um að tunglið sé úr grænum osti eða gráðosti.
Hvar Huang Nupo kemur inn í dæmið vita fáir.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 20:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.12.2012 | 00:33
Ósvífinn hrekkur
Þrír bandarískir hermenn horfðu ofan í hyldýpi og ræddu um hversu hættulegt væri að standa þarna fremst á klettabrún í Færeyjum. Sá í miðið brá á leik og hrópaði hátt og óvænt í eyra þess sem fremstur stóð: "Böh!" Þá voru eftir tveir. Húmoristinn í miðið skammaðist sín dálítið eftir á. En það var, jú, seinni heimstyrjöldin í gangi og margt spennandi að gerast. Seinni heimsstyrjöldin gekk ekki áfallalaust fyrir sig.
![]() |
Sendiherra framdi sjálfsvíg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 20:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.11.2012 | 22:15
Yfirgengileg drykkjuvandamál gamla fólksins
Ég hef lengi reynt að benda á og vara við yfirgengilegu og brjálæðislegu ofdrykkjuvandamáli aldraðra Íslendinga. En talað fyrir daufum eyrum. Og jafnvel augum. Staðreyndin er sú að það má ekki af þessu fólki líta né sleppa af því hendi; þá er það á augabragði búið að drekka frá sér ráð og rænu. Með tilheyrandi látum. Þeim mun eldra sem fólkið er því skæðara er það í drykkjulátunum. Og reyndar allskonar óhollustu og uppátækjum.
Verstir eru gamlingjarnir þegar þeir komast út fyrir landsteinana. Þá losnar um allar hömlur. Þeir haga sér eins og beljur sem er hleypt út að vori: Sletta ærlega úr klaufunum.
Mér er minnistæður einn sem fór til Kanarí. Hann drakk sig blindfullan hvern dag. Það fyrsta sem hann gerði er hann vaknaði á morgnana var að spyrja ferðafélagana hvort hann hafi skemmt sér vel daginn áður. Hann hafði ekki hugmynd um það sjálfur en varð þeim mun glaðari sem sögurnar af drykkjulátunum voru meira krassandi. Hann hvatti ferðafélagana til að ljósmynda uppátækin. Hann langaði til að sjá myndir af sér ælandi eða hálf rænulausum. Þetta var fyrir daga digitalmyndavéla. Kappinn var reyndar ekki kominn á aldur. En byrjaður að æfa sig fyrir elliárin.
Algengt er að gamla fólkið komi tannlaust heim úr drykkjutúrum í útlöndum. Gómarnir renna út úr því í ölvunarsvefni út um allt tún. Eftir hverja hópdrykkjuferð aldraðra Íslendinga til útlanda er nágrenni hótelsins útbíað í tanngómum í reiðuleysi.
Margir stela reiðhjóli. En komast sjaldnast á því lengra en út í næstu laut. Þar sofna þeir ölvunarsvefni.
Það þarf ekki hjólreiðatúr til. Sumir fá sér kríu hvar sem er á milli þess sem þeir rangla blindfullir og stefnulaust um nágrenni hótelsins.
Þegar gamlingjarnir eru í glasi verða þeir ruddalegir og ógnandi í framkomu. Þá forðar yngra fólk sér á hlaupum undan þeim.
Djöfladaður einkennir fulla gamlingja. Þeir reyna stöðugt að koma djöflahornum á ferðafélagana, Satani til dýrðar.
Gamla fólkið skerpir á vímunni með aðstoð sjónauka. Þá verður það glaseygt og þykir það gaman.
Um og upp úr 100 ára aldri má fulla fólkið ekki sjá logandi ljós öðru vísi en kveikja sér umsvifalaust í hassvindli eða hvaða vindli sem er.
Á drykkjuferðalögum í útlöndum rambar margur gamlinginn inn á húðflúrstofur. Kann sér ekki hóf á neinu sviði. Verður sér og sínum til skammar þegar heim er komið. Það er tilhlökkun að vera að detta í þennan aldurshóp. Alltaf fjör. Og nú er byrjað að selja áfengi á elliheimilunum hérlendis. Síðan gengur mikið á þar á bæ.
![]() |
Drukku frá sér ráð og rænu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt 24.11.2012 kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)
12.11.2012 | 21:35
Skammarlega illa lagt. Broslegar / neyðarlegar myndir
Fyrir nokkrum dögum velti ég vöngum - hér á þessum vettvangi - yfir framförum Íslendinga í umferðinni og á fleiri sviðum. Ennþá eiga Íslendingar samt margt ólært. Þar á meðal að leggja ekki í bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Það er að segja að bílstjórar með óskerta hreyfigetu virði þessi stæði og láti þau í friði. Annað vandamál er hvað margir leggja bílum sínum illa og af tillitsleysi gagnvart öðrum. Það er óskemmtilegt að koma að bíl sínum þegar öðrum bíl hefur verið lagt þétt upp við hurðina bílstjóramegin. Þá þarf að klöngrast inn í bílinn farþegamegin eða bíða eftir því að bílstjóri hins bílsins komi og aki á brott.
Svo er það þetta lið sem leggur bílnum að hálfu yfir í næsta bílastæði. Það er lítið gaman að aka um bílastæðissvæði, finna hvergi laust stæði en sjá einn eða fleiri bíla sem nota eitt og hálft stæði. Annar bílstjóri getur ekki nýtt hálfa stæðið.
Það er undarlegt en satt að sumstaðar í útlöndum er til fólk sem leggur bílum sínum eins og kjánalegustu og frekustu Íslendingar.
Stundum koma upp erfið mál þegar togast er á um það hvorn bílstjórann bar fyrr að garði og eigi þar með einskonar frumburðarrétt.
Þarna vildi ein frekjan endilega leggja á bakvið húsið þó að það væri enginn akvegur þangað og í raun alltof þröngt fyrir bíl að troðast þangað.
Sumir láta ekki smá drullufor aftra sér frá því að leggja þar sem þeir vilja.
Lögreglan er ekki alltaf til fyrirmyndar þegar kemur að því að leggja bíl snyrtilega í stæði. Einkum þegar mikið liggur á að gægjast inn um glugga hjá grunuðum.
Þrátt fyrir allt: Þó að illa gangi að leggja bíl á réttri hlið í stæði þá skiptir máli að hárið sé vel greitt. Það er engin reisn yfir því að standa með úfið og illa greitt hár fyrir utan dældaðan bíl. Það er sérstaklega neyðarlegt ef rúður bílsins hafa brotnað.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
9.11.2012 | 22:57
Íslendingar sýna framfarir
Íslendingar eru allir að koma til, hægt og bítandi, á mörgum sviðum. Við erum farnir að taka tillit til annarra í vaxandi mæli - með grófum undantekningum, eins og gengur.
Fyrir 20 - 30 árum kunnum við ekki að aka á götum þar sem tvær eða fleiri akreinar liggja í sömu átt. Það tók okkur, almennt, mörg mörg ár að átta okkur á því að þeir sem kjósa að keyra hægt eigi að halda sig á akrein lengst til hægri. Hinir, sem kjósa meiri hraða en aðrir, halda sig á á akrein lengst til vinstri.
Ennþá er algengt að sjá einstaka ökumann dóla sér löturhægt á vinstri akrein. En þeim fækkar.
Íslendingum gengur hinsvegar illa að heimfæra þessa reglu yfir á rúllustiga og aðra stiga. Við tökum eftir því erlendis að þeir sem eru ekkert að flýta sér standa lengst til hægri í stiganum. Hinir, þessir sem eru að flýta sér, hraða sér eftir vinstri hluta stigans.
Þegar ekið er um borgina kemur fyrir að gangandi vegfarendur standa við gangbraut og bíða eftir að komast yfir. Því fer fjarri að allir ökumenn stöðvi og hleypi viðkomandi yfir götuna. Ég hef vanið mig á að sýna lipurð hvað þetta varðar. Það einkennilega er að börn sýna þakklæti með því að veifa. Fullorðnir gera það aftur á móti fæstir.
Í fyrravor varð starfsfólk í stórmörkuðum vart við að Íslendingar fóru að apa eftir útlendingum: Að setja á færibandið statíf sem aðgreinir innkaup viðskiptavinanna. Áður þurfti afgreiðslufólkið að greina innkaupahrúgur viðskipta vina að með þessu statífi. En nú hafa íslenskir viðskiptavinir lært að gera þetta sjálfir. Það er eiginlega að verða algilt. Fyrir bragðið er hægt að raða þéttar á færibandið (kúnninn losnar þá við að halda á innkaupadóti sínu þangað til færibandið er orðið autt).
Næst þurfa Íslendingar að læra á stefnuljós og hætta að leggja í stæði fyrir hreyfihamlaða. Það verður erfitt.
![]() |
Virðingarleysið er algjört |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt 10.11.2012 kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.11.2012 | 22:15
Varúð! Ekki fyrir lofthrædda
Það er frískandi að sofa úti og anda að sér fersku fjallaloftinu; glugga í bók áður en draumheimar kalla og horfa yfir skógi vaxnar fjallahlíðarnar. Við þessar aðstæður getur verið varasamt að lenda á fylleríi. Líka getur verið varasamt að velta sér mikið og brölta um í svefni.
Fögur er hlíðin. Eða gilið. Maðurinn sem stendur efst til hægri stendur ekki nógu framarlega á klettabrúninni til að njóta stórbrotins útsýnisins til fulls. Þetta er ragmenni. Það er alveg hægt að standa næstum metra framar án þess að detta fram af.
Þetta er útsýnispallur í Kína. Kosturinn við svona útsýnispall er að hægt er að njóta útsýnis betur og lofthræðsla er ekki alveg rökrétt.
Þessi mynd er EKKI fótósjoppuð. Það hefur ekkert verið átt við myndina. Þetta gerðist í alvörunni.
Þetta er frægur útsýnispallur í Noregi. Hann heitir Preikistolen.
Á myndinni hér þarnæst fyrir ofan - af manninum sem hangir neðan í flugdreka: Maðurinn er svokallaður ofurhugi. Hann kom sér viljandi í þessar aðstæður. Ég las um þessa mynd fyrir margt löngu. Maðurinn er þekktur í "stunt-bransanum". Ég man ekki hvert tilefni þessa áhættuatriðis var. Hvort það var sýningaratriði fyrir sjónvarp eða sett upp fyrir auglýsingu. Kannski fyrir kvikmynd. Þegar ég rakst á myndina aftur nýverið þá var ég búinn að gleyma tilefninu. En þetta er ekki til eftirbreytni fyrir lofthrædda.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.11.2012 | 00:01
Íslenskur veitingastaður seldi 1944 rétti sem máltíð
Fyrir fimmtán árum eða svo dvaldi ég á hóteli úti á landi yfir helgi. Mætti þar á föstudegi og var til mánudags. Ég keypti hádegisverð og kvöldverð þessa daga, ásamt því að vera í morgunmat, síðdegiskaffi og bjór á kvöldin. Á sama hóteli dvöldu einnig nokkrir aðkomnir iðnaðarmenn sem voru í tímabundnu verkefni á staðnum.
Fljótlega varð ég var við að skömmu eftir að menn pöntuðu máltíð þá heyrðist frá eldhúsinu örbylgjuofn vera settur í gang. Á þessum tíma átti ég tvo unga syni í Reykjavík. Í ísskáp heimilisins í Reykjavík voru jafnan til staðar einhverjir tilbúnir réttir undir nafninu 1944, auglýstir sem þjóðlegir íslenskir réttir fyrir sjálfstæða Íslendinga. Þetta voru ítalskur Carbonara pasta-réttur, indverskur karrýréttur, tyrkneskur korma kjúklingaréttur, asískur mango kjúklingaréttur, ítalskur lasagna réttur, ungversk gúllassúpa, kínverskur súrsætur réttur, indverskur tikka masala kjúklingaréttur, rússneskur stroganoff réttur, ítalskur Bolonese spaghettí réttur og eitthvað svoleiðis. Það var þægilegt fyrir syni mína að geta gengið að þessum þjóðlegu íslensku réttum þegar strákarnir urðu svangir og foreldrarnir fjarverandi.
Ég var vel að mér um þjóðlegu íslensku 1944 réttina á þessum tíma. Eftir að hafa keypt nokkrar ágætar máltíðir á hótelinu þóttist ég merkja að þær væru nánast alveg eins og 1944 réttirnir. Reyndar að viðbættri slettu af hrásalati, niðurskornum gúrku- og tómatsneiðum. Matseðillinn var eins og upptalning á þjólegu íslensku 1944 réttum fyrir sjálfstæða Íslendinga.
Áður en dvöl minni á hótelinu lauk spurði ég hóteleigandann hvort grunur minn væri réttur: Að máltíðirnar væru að uppistöðu til 1944 skyndiréttir. Eigandanum brá til að byrja með en viðurkenndi að svo væri. Bað mig jafnframt um að hafa hljótt um það. Útskýrði síðan fyrir mér að yfir vetrartíma væri erfitt að liggja með annað hráefni en þessa 1944 rétti. Á þessum tíma fékk hótelið réttina frá SS á um það bil 200 krónur í heildsölu. Máltíðin með gúrkum, tómatsneiðum og hrásalati var seld á 960 kall eða því sem næst (sumir réttir á 920 krónur. Aðrir á 980 krónur).
Tekið skal fram að nokkru síðar var þessi aðferð lögð af á þessu hóteli. Eftir það hefur þar boðið upp á (dýrari) úrvals góðar máltíðir lagaðar á staðnum.
![]() |
70% franskra veitingahúsa ber fram tilbúna rétti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
25.10.2012 | 21:41
Það má öfunda
Allt bíladellufólk þekkir tilfinninguna. Hún er dásamleg: Að aka um í kraftmiklum blæjulausum bíl í sól og sumaryl; finna milda og hlýja gjóluna kyssa kinn. Þessir gaurar eru ekki að leika sér á rúntinum. Þeir fá borgað fyrir að rúnta um á þessum sportbíl. Þeir eru í vinnunni. Ég veit að öfundin blossar upp í ykkur við að sjá þetta. En ég stóðst ekki mátið.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)