Færsluflokkur: Ferðalög
12.11.2012 | 21:35
Skammarlega illa lagt. Broslegar / neyðarlegar myndir
Fyrir nokkrum dögum velti ég vöngum - hér á þessum vettvangi - yfir framförum Íslendinga í umferðinni og á fleiri sviðum. Ennþá eiga Íslendingar samt margt ólært. Þar á meðal að leggja ekki í bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Það er að segja að bílstjórar með óskerta hreyfigetu virði þessi stæði og láti þau í friði. Annað vandamál er hvað margir leggja bílum sínum illa og af tillitsleysi gagnvart öðrum. Það er óskemmtilegt að koma að bíl sínum þegar öðrum bíl hefur verið lagt þétt upp við hurðina bílstjóramegin. Þá þarf að klöngrast inn í bílinn farþegamegin eða bíða eftir því að bílstjóri hins bílsins komi og aki á brott.
Svo er það þetta lið sem leggur bílnum að hálfu yfir í næsta bílastæði. Það er lítið gaman að aka um bílastæðissvæði, finna hvergi laust stæði en sjá einn eða fleiri bíla sem nota eitt og hálft stæði. Annar bílstjóri getur ekki nýtt hálfa stæðið.
Það er undarlegt en satt að sumstaðar í útlöndum er til fólk sem leggur bílum sínum eins og kjánalegustu og frekustu Íslendingar.
Stundum koma upp erfið mál þegar togast er á um það hvorn bílstjórann bar fyrr að garði og eigi þar með einskonar frumburðarrétt.
Þarna vildi ein frekjan endilega leggja á bakvið húsið þó að það væri enginn akvegur þangað og í raun alltof þröngt fyrir bíl að troðast þangað.
Sumir láta ekki smá drullufor aftra sér frá því að leggja þar sem þeir vilja.
Lögreglan er ekki alltaf til fyrirmyndar þegar kemur að því að leggja bíl snyrtilega í stæði. Einkum þegar mikið liggur á að gægjast inn um glugga hjá grunuðum.
Þrátt fyrir allt: Þó að illa gangi að leggja bíl á réttri hlið í stæði þá skiptir máli að hárið sé vel greitt. Það er engin reisn yfir því að standa með úfið og illa greitt hár fyrir utan dældaðan bíl. Það er sérstaklega neyðarlegt ef rúður bílsins hafa brotnað.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
9.11.2012 | 22:57
Íslendingar sýna framfarir
Íslendingar eru allir að koma til, hægt og bítandi, á mörgum sviðum. Við erum farnir að taka tillit til annarra í vaxandi mæli - með grófum undantekningum, eins og gengur.
Fyrir 20 - 30 árum kunnum við ekki að aka á götum þar sem tvær eða fleiri akreinar liggja í sömu átt. Það tók okkur, almennt, mörg mörg ár að átta okkur á því að þeir sem kjósa að keyra hægt eigi að halda sig á akrein lengst til hægri. Hinir, sem kjósa meiri hraða en aðrir, halda sig á á akrein lengst til vinstri.
Ennþá er algengt að sjá einstaka ökumann dóla sér löturhægt á vinstri akrein. En þeim fækkar.
Íslendingum gengur hinsvegar illa að heimfæra þessa reglu yfir á rúllustiga og aðra stiga. Við tökum eftir því erlendis að þeir sem eru ekkert að flýta sér standa lengst til hægri í stiganum. Hinir, þessir sem eru að flýta sér, hraða sér eftir vinstri hluta stigans.
Þegar ekið er um borgina kemur fyrir að gangandi vegfarendur standa við gangbraut og bíða eftir að komast yfir. Því fer fjarri að allir ökumenn stöðvi og hleypi viðkomandi yfir götuna. Ég hef vanið mig á að sýna lipurð hvað þetta varðar. Það einkennilega er að börn sýna þakklæti með því að veifa. Fullorðnir gera það aftur á móti fæstir.
Í fyrravor varð starfsfólk í stórmörkuðum vart við að Íslendingar fóru að apa eftir útlendingum: Að setja á færibandið statíf sem aðgreinir innkaup viðskiptavinanna. Áður þurfti afgreiðslufólkið að greina innkaupahrúgur viðskipta vina að með þessu statífi. En nú hafa íslenskir viðskiptavinir lært að gera þetta sjálfir. Það er eiginlega að verða algilt. Fyrir bragðið er hægt að raða þéttar á færibandið (kúnninn losnar þá við að halda á innkaupadóti sínu þangað til færibandið er orðið autt).
Næst þurfa Íslendingar að læra á stefnuljós og hætta að leggja í stæði fyrir hreyfihamlaða. Það verður erfitt.
![]() |
Virðingarleysið er algjört |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt 10.11.2012 kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.11.2012 | 22:15
Varúð! Ekki fyrir lofthrædda
Það er frískandi að sofa úti og anda að sér fersku fjallaloftinu; glugga í bók áður en draumheimar kalla og horfa yfir skógi vaxnar fjallahlíðarnar. Við þessar aðstæður getur verið varasamt að lenda á fylleríi. Líka getur verið varasamt að velta sér mikið og brölta um í svefni.
Fögur er hlíðin. Eða gilið. Maðurinn sem stendur efst til hægri stendur ekki nógu framarlega á klettabrúninni til að njóta stórbrotins útsýnisins til fulls. Þetta er ragmenni. Það er alveg hægt að standa næstum metra framar án þess að detta fram af.
Þetta er útsýnispallur í Kína. Kosturinn við svona útsýnispall er að hægt er að njóta útsýnis betur og lofthræðsla er ekki alveg rökrétt.
Þessi mynd er EKKI fótósjoppuð. Það hefur ekkert verið átt við myndina. Þetta gerðist í alvörunni.
Þetta er frægur útsýnispallur í Noregi. Hann heitir Preikistolen.
Á myndinni hér þarnæst fyrir ofan - af manninum sem hangir neðan í flugdreka: Maðurinn er svokallaður ofurhugi. Hann kom sér viljandi í þessar aðstæður. Ég las um þessa mynd fyrir margt löngu. Maðurinn er þekktur í "stunt-bransanum". Ég man ekki hvert tilefni þessa áhættuatriðis var. Hvort það var sýningaratriði fyrir sjónvarp eða sett upp fyrir auglýsingu. Kannski fyrir kvikmynd. Þegar ég rakst á myndina aftur nýverið þá var ég búinn að gleyma tilefninu. En þetta er ekki til eftirbreytni fyrir lofthrædda.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.11.2012 | 00:01
Íslenskur veitingastaður seldi 1944 rétti sem máltíð
Fyrir fimmtán árum eða svo dvaldi ég á hóteli úti á landi yfir helgi. Mætti þar á föstudegi og var til mánudags. Ég keypti hádegisverð og kvöldverð þessa daga, ásamt því að vera í morgunmat, síðdegiskaffi og bjór á kvöldin. Á sama hóteli dvöldu einnig nokkrir aðkomnir iðnaðarmenn sem voru í tímabundnu verkefni á staðnum.
Fljótlega varð ég var við að skömmu eftir að menn pöntuðu máltíð þá heyrðist frá eldhúsinu örbylgjuofn vera settur í gang. Á þessum tíma átti ég tvo unga syni í Reykjavík. Í ísskáp heimilisins í Reykjavík voru jafnan til staðar einhverjir tilbúnir réttir undir nafninu 1944, auglýstir sem þjóðlegir íslenskir réttir fyrir sjálfstæða Íslendinga. Þetta voru ítalskur Carbonara pasta-réttur, indverskur karrýréttur, tyrkneskur korma kjúklingaréttur, asískur mango kjúklingaréttur, ítalskur lasagna réttur, ungversk gúllassúpa, kínverskur súrsætur réttur, indverskur tikka masala kjúklingaréttur, rússneskur stroganoff réttur, ítalskur Bolonese spaghettí réttur og eitthvað svoleiðis. Það var þægilegt fyrir syni mína að geta gengið að þessum þjóðlegu íslensku réttum þegar strákarnir urðu svangir og foreldrarnir fjarverandi.
Ég var vel að mér um þjóðlegu íslensku 1944 réttina á þessum tíma. Eftir að hafa keypt nokkrar ágætar máltíðir á hótelinu þóttist ég merkja að þær væru nánast alveg eins og 1944 réttirnir. Reyndar að viðbættri slettu af hrásalati, niðurskornum gúrku- og tómatsneiðum. Matseðillinn var eins og upptalning á þjólegu íslensku 1944 réttum fyrir sjálfstæða Íslendinga.
Áður en dvöl minni á hótelinu lauk spurði ég hóteleigandann hvort grunur minn væri réttur: Að máltíðirnar væru að uppistöðu til 1944 skyndiréttir. Eigandanum brá til að byrja með en viðurkenndi að svo væri. Bað mig jafnframt um að hafa hljótt um það. Útskýrði síðan fyrir mér að yfir vetrartíma væri erfitt að liggja með annað hráefni en þessa 1944 rétti. Á þessum tíma fékk hótelið réttina frá SS á um það bil 200 krónur í heildsölu. Máltíðin með gúrkum, tómatsneiðum og hrásalati var seld á 960 kall eða því sem næst (sumir réttir á 920 krónur. Aðrir á 980 krónur).
Tekið skal fram að nokkru síðar var þessi aðferð lögð af á þessu hóteli. Eftir það hefur þar boðið upp á (dýrari) úrvals góðar máltíðir lagaðar á staðnum.
![]() |
70% franskra veitingahúsa ber fram tilbúna rétti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
25.10.2012 | 21:41
Það má öfunda
Allt bíladellufólk þekkir tilfinninguna. Hún er dásamleg: Að aka um í kraftmiklum blæjulausum bíl í sól og sumaryl; finna milda og hlýja gjóluna kyssa kinn. Þessir gaurar eru ekki að leika sér á rúntinum. Þeir fá borgað fyrir að rúnta um á þessum sportbíl. Þeir eru í vinnunni. Ég veit að öfundin blossar upp í ykkur við að sjá þetta. En ég stóðst ekki mátið.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
24.10.2012 | 22:25
Þegar menn urðu að leggja töluvert á sig til að redda hlutunum
Sumum þótti þetta all svakalega glæfralegt. Enda mátti fátt út af bera til að illa færi. Virkilega illa. Öðrum þótti þetta spennandi og ævintýralegt. Það fékk líkamann til að framleiða vænan skammt af adrenalíni sem leiddi til langvarandi vellíðunnar. Það sem skipti samt mestu máli er að það varð að gera þetta þegar flugvélin drap á sér á flugi. Það var ekki um annað að ræða en klifra út á hjólastellið, ná góðu taki á hreyfilblaði og snúa vélina í gang áður en hún tapaði of mikilli flughæð og myndi kollsteypast.
Þegar svona henti þótti kostur ef veður var gott.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.10.2012 | 02:49
Hættulegir jeppabílstjórar
Það er eitthvað sem gerist í hausnum á sumum bílstjórum um leið og þeir setjast undir stýri á jeppa. Ekki öllum. Alls ekki. Bara sumum. Það er eins og einhverskonar frekjukast hellist yfir þá, ásamt streitukasti á háu stigi. Það er eins og þeir upplifi sig sem kónga er eigi að njóta sérstaks forgangs í umferðinni. Aðrir í umferðinni séu aðeins að þvælast fyrir þeim. Jeppakarlarnir eru snöggir að leggjast á flautuna, steyta hnefa og senda öðrum ökumönnum fingurinn. Það má einnig sjá að jeppagaurarnir eru að hrópa eitthvað. Enginn veit hvað þeir hrópa en svipurinn lýsir ofsabræði.
Það eru þessir sömu jeppabílstjórar sem leggja í merkt stæði fyrir fatlaða. Ekki vegna þess að þeir hafi merki sem heimilar slíkt heldur vegna þess að það eru bestu stæðin. Reyndar er það fötlun út af fyrir sig að vera jeppabílstjóri með þetta hegðunarmynstur. En hún er ekki þess eðlis að jeppabílstjórar fái skírteini út á það.
Þegar þröngt er á þingi vegna einhvers viðburðar; fótboltaleiks, hljómleika og þess háttar þá bregst ekki að jeppum er lagt upp á gangstéttir, umferðareyjar og út um allt nema í almenn bílastæði.
Þegar jeppakallar sleppa út fyrir höfuðborgina eru þeir friðlausir þangað til þeir hafa ekið utanvegar og spænt upp viðkvæman jarðveg.
![]() |
Mátti engu muna að það yrði stórslys |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
5.10.2012 | 20:57
Færeyskt góðgæti
Núna eru færeyskir dagar í Smurbrauðsstofu Sylvíu á Laugavegi 170 (við gatnamótin fyrir ofan Nóatún í Nóatúni). Þeir vara til klukkan sex á morgun (laugardag). Þar er boðið upp á ræstkjötssúpu (rast kjöt). Einnig bakka með fjórum girnilegum smurbrauðssneiðum. Á einni er skerpukjöt (skerpikjöt). Á annarri er færeysk rúllupylsa. Á þeirri þriðju eru niðursneiddir knettir. Á þeirri fjórðu eru niðursneiddar fríkadellur.
Ræst kjöt og skerpukjöt eru hvorutveggja þurrkað lambakjöt. Ræstkjötið er hryggur og frampartur og hangir skemur uppi. Það er á stigi svipuðu því sem við köllum siginn fisk. Skerpukjötið er læri og hangir lengur uppi en er ekki jafn þurrt og harðfiskur. Það bragðast eitthvað í humátt að parmaskinku. Bæði skerpukjötið og ræstkjötið eru bragðsterk og gefa endingargott eftirbragð.
Það er algengt að Íslendingum þyki þetta ekki góður matur þegar það er smakkað í fyrsta skipti. Eftir að hafa smakkað það oftar vex sterk löngun í að komast sem allra fyrst í svona sælgæti oftar. Þetta er svipað og löngunin í kæstan hákarl, kæsta skötu og hangikjöt. Eitthvað sem maður verður að fá sér í það minnsta árlega. Helst miklu oftar.
Ræstkjötssúpunni svipar mjög til íslensku kjötsúpunnar. Þetta er matmikil grænmetissúpa með rófum, gulrótum, lauk, hrísgrjónum og þess háttar. Hlutfall ræstkjötsins er heldur minna en kjötið í íslensku kjötsúpunni. Enda gefur ræstkjötið mun skarpara bragð. Í Færeyjum er algengt að ræstkjötið sé fjarlægt úr súpunni og borðað sér með soðnum kartöflum. Í Smurbrauðsstofu Sylvíu er kjötið í súpunni. 600 krónur fyrir súpuna á Smurbrauðsstofu Sylvíu er gott verð og auðveldar óvönum að smakka. Innifalið í verðinu er ábót ef einhver er rosalega svangur. Ég hef aldrei þurft á því að halda. Súpan er saðsöm og ein besta ræstkjötssúpa sem ég hef fengið. Alveg eðal. 5 stjörnu súpa.
Smurðu heimilisbrauði er ekki ætlað að vera eiginlegur veislumatur sem keppir við alvöru "danskt smurbrauð". Brauðbakkinn gefur góða hugmynd um hefðbundið smurt brauð á færeyskum heimilum. Þó er skerpukjöt meira til spari í Færeyjum en snætt hvunndags.
Færeyska rúllupylsan er keimlík þeirri íslensku. Sú færeyska er mildari og hlutfall kjöts meira á móti fitu. Það er töluvert af lauk í henni og smávegis af púðursykri.
Knettir eru soðnar fiskbollur. Uppistöðu hráefnið í knöttum er þorskur og kindamör. Saman við það er blandað lauki, salti og pipar. Sumir hafa örlítið af sykri með. Færeysku knettirnir eru blessunarlega lausir við hveitibragð íslensku fiskbollanna. Fyrir bragðið (í bókstaflegri merkingu) eru knettirnir eins og ferskari. Að öðru leyti er bragðið líkt.
Fríkadellur eru steiktar fiskbollur. Að öðru leyti eru þær alveg eins og knettir.
Þannig er frá brauðbökkunum í Smurbrauðsstofu Sylvíu gengið að hægt er að grípa þá með sér heim. Það er upplagt að gera. Meðal annars til að gefa öðrum að smakka með sér. Og þess vegna að grípa með sér nokkra bakka til að eiga daginn eftir. Jafnvel marga bakka til að eiga í marga daga. Bakkinn kostar aðeins 1100 kall.
Það er bráðskemmtilegt og bragðgott ævintýri að gera sér og sínum dagamun með því að smakka þessar færeysku kræsingar.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.9.2012 | 22:28
Krúttlegar gamlar konur
Ég átti (brýnt) erindi í vínbúð á Eiðistorgi. Þar var fátt um manninn. Þó var þarna háöldruð kona með göngugrind. Hún þurfti margt að skoða. Miðaldra kona, hugsanlega dóttir hennar (hún kallaði hana mömmu. En það gæti hafa verið til að villa um fyrir nærstöddum), rak stöðugt á eftir þeirri gömlu. Fann áfengisflöskuna sem sú gamla vildi kaupa (ég heyrði þá gömlu tala um meðala-Sherrý) og kom sér strax að afgreiðsluborðinu. Sú gamla þurfti margt fleira að skoða og lét ekki reka mikið á eftir sér. Enda engin ástæða til að göslast í flýti í gegnum vínbúðina. Yngri konan var komin út að útidyrahurð og rak á eftir gömlu konunni. Gamla konan tók sér góðan tíma í að finna greiðslu fyrir áfengisflöskuna og skoðaði ýmislegt í leiðinni. Þegar sú gamla hafði gengið frá greiðslu ruglaðist hún á göngugrind sinni og hjólagrind fyrir innkaupakörfur vínbúðarinnar. Hún skildi göngugrindina sína eftir í búðinni en brölti út með hjólagrind fyrir innkaupakörfur. Það voru 2 eða 3 körfur í körfugrindinni. Sú gamla tók sig vel út með þetta. Það var reisn yfir þessu.
Ferðalög | Breytt 26.9.2012 kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
24.9.2012 | 23:01
Áhrifamikil og ævintýraleg byggingalist
Góðir arkítektar fella byggingar inn í landslagið. Leyfa náttúrinni að njóta sín og ráða för. Það kunna íslenskir arkítektar ekki. Sumir aðrir kunna það.
Fara jafnvel glannalega leið. Takið eftir kláfinum sem ferjar fólk til og frá á mynd nr. 2. Takið einnig eftir kaðalstiganum undir byggingunni á síðustu myndinni. Hann er varasamur í hvassviðri.
Ég átta mig ekki alveg á þessu timburhúsi. Fátt er um glugga í efri hæðum. Burðarþolið er allt í hægri hluta byggingarinnar. Kannski er þetta sumarbústaður?
Þessi varðstöð fellur ekki beinlínis að landslaginu. En sumir upplifa landslagið sterkt þegar farið er þarna um. Einkum þeim sem er snúið við. Þá er betra að vera ekki lofthræddur.
Þetta veitingahús í Kína er ekki heldur fyrir lofthrædda. Gönguleiðin er eftir tágarbrú sem sveiflast til og frá þegar eftir henni er gengið. Þunnt og gegnsætt tauefni tekur ekki fallið af ef menn hrasa.
Þessi gönguleið í Hunan í Kína er öruggari. En samt ekki fyrir lofthrædda. Þarna eru þó járnbent handrið sem hægt er að grípa í ef manni verður fótaskortur. Gönguleiðin er varasöm í frosti. Þá eru tröppurnar nefnilega hálar.
Ferðalög | Breytt 25.9.2012 kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)