Færsluflokkur: Ferðalög
16.1.2013 | 01:51
Nýjasta tískuæðið
Gangnam Style dansinn (og lagið) var skæðasta tískubylgja síðasta árs. Nú hefur nýtt æði gripið um sig og fer um heiminn eins og stormsveipur. Það er kennt við íslenskan flugdólg. Sá er orðinn þekktasti flugdólgur gervallrar veraldarinnar og þar með sérkennileg auglýsing fyrir Ísland. Það mun væntanlega skila sér í auknum ferðamannastraumi til Íslands.
Myndir af íslenska flugdólgnum hafa þegar reynst límbandsframleiðendum öflugur söluhvati. Sala á pökkunarlímböndum hefur rokið upp. Það er komið í tísku að fólk lími sjálft sig eða aðra. Myndir af útkomunni flæða yfir Fésbókina.
Sjónvarpsþáttastjórinn David Letterman býður áhorfendum sínum upp á daglegt límbandsgrín. Hér hefur hann látið líma börn á hurðir að því er virðist (reyndar eru þetta aðeins ljósmyndir af börnum. Annars fengi David kæru á sig og leiðindi).
Fleiri gera grín. Einn límdi nestið sitt á hausinn:
Annar límdi keðjusögina sína:
Enn einn límdi bjórdósina sína:
Sumir líma leikfangadýr:
Ferðalög | Breytt 17.1.2013 kl. 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.1.2013 | 04:31
Kynnisferðir með óvænt útspil
Fyrir nokkrum dögum kom ég í flugvél frá útlandinu. Óvenju fáir farþegar voru í flugvélinni. Kannski tíu eða fimmtán eða eitthvað svoleiðis. Eftir að hafa skoðað mig um í Fríhöfninni og freistast til að kaupa þar eitt og annað skokkaði ég léttilega út í Flugrútuna. Aðrir farþegar fóru út í sinn eigin bíl eða í aðra bíla sem biðu þeirra. Ég var sá eini sem fór í Flugrútuna.
Bílstjóri rútunnar spurði mig að því hvort ég væri á hraðferð. Þetta var um miðja nótt og ég ekkert að flýta mér neitt. Þá sagði bílstjórinn: "Það var önnur flugvél að lenda. Ef ég hinkra eftir farþegum úr henni þá leggjum við af stað eftir 20 - 30 mínútur. Til að vega upp á móti þeirri bið get ég skutlað þér heim í hlað þar sem þú býrð. Þú þarft þá ekki að eltast við leigubíla og sparar þér leigubílakostnaðinn. Að auki sleppi ég þér við að borga 2000 króna fargjald með rútunni. Ef þig hinsvegar langar til að við brunum strax í bæinn þá get ég lagt af stað núna. Þá tekur rútan þarna hina farþegana. Þú bara ræður og segir til."
Ég valdi fyrri kostinn. Það var notalegt að vera skutlað heim að dyrum. Það var líka góð tilfinning að spara rútukostnað og leigubílakostnað. Gott ef það var ekki líka góð tilfinning að spara Flugrútunni kostnað við það að keyra með aðeins einn farþega til Reykjavíkur.
Út af fyrir sig hefði bílstjórinn ekkert þurft að semja við mig. Hann hefði getað látið duga að tilkynna mér að rútan legði af stað eftir 20 - 30 mínútur. Kannski hefði ég orðið smá óhress. En ég var ekki í sterkri samningsstöðu til að mótmæla því. Það var til fyrirmyndar að bjóða mér þennan höfðinglega kost. Kynnisferðir eru að standa sig. Viðskiptavild fyrirtækisins hjá mér er mun stærri í ár en áður.
Ljósmyndin frábæra er birt með leyfi höfundar, Kristjáns Jóhanns Bjarnasonar.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
10.1.2013 | 22:08
Færeyskur brandari
Færeyskir brandarar eru örlítið öðru vísi en íslenskir brandarar. Færeysku brandararnir eru stuttir og iðulega smá orðaleikur. Oft snúa þeir að Dönum. Hér er einn:
Dönsk fjölskylda fékk í heimsókn Englending. Danska húsfrúin tilkynnti: "We will serve fishing balls for a dinner." Englendingurinn: "I didn´t know the fish has balls."
Ferðalög | Breytt 11.1.2013 kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
10.1.2013 | 03:08
Einnar konu maður - framhald
Einnar konu maðurinn, sem bloggfærsla gærdagsins sagði frá (http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1276138/), var skemmtilega hvumpinn. Honum hætti til að taka hlutum illa og brást þá harkalega við. Dæmi um það var árekstur á milli hans og eldri hjóna sem einnig dvöldu á hótelinu. Forsagan er sú að gríski einnar konu maðurinn spjallaði reglulega við börn sín og konu í gegnum tölvu snemma morguns, kannski klukkan hálf átta til átta eða svo. Þetta gerði hann í opinni setustofu í útskoti á ganginum. Sennilega var netsamband fartölvunnar best þar. Að minnsta kosti söfnuðust gestir iðulega þangað með fartölvurnar sínar á kvöldin.
Þegar Grikkinn ræddi við fjölskyldu sína í gegnum tölvuna þá hækkaði hann röddina töluvert. Herbergi eldri hjónanna var staðsett við setustofuna. Einn morgun kom konan fram í herbergisdyrnar og sussaði á Grikkjann. Bað hann um að taka tillit til þess að hótelgestir væru almennt ennþá sofandi á þessum tíma sólarhrings.
Það snöggfauk í Grikkjann. Hann öskraði á konuna að gamalt fólk hefði ekkert að gera á hótelum. Það ætti að gista heima hjá ættingjum eða vinum í stað þess að flækjast fyrir yngri hótelgestum með stöðug leiðindi. "Komið ykkur í burtu héðan, skrattans gamlingjar!"
Gamla konan hrökk aftur inn í herbergið sitt og lokaði dyrunum. Grikkinn hrópaði á dyrnar endurteknar skammir. Síðar um daginn sagði hann mér að "gömlu svínin" hefðu klagað sig og hótelstýran bannað sér að tala hátt á morgnana. Hann var afar ósáttur við gömlu hjónin.
Eftir þetta hætti Grikkinn að taka undir kveðju gömlu hjónanna þegar þau urðu á vegi hans. Þess í stað sendi hann þeim hatursfullt augnráð.
Nokkrum dögum síðar rak hótelstýran Grikkjann af hótelinu. Mér tókst ekki að fá upplýsingar um ástæðuna. Ég spurði stýruna út í það síðar en hún sagðist ekki ræða mál einstakra gesta. Það eina sem ég veit um þetta er að ég heyrði Grikkjann hrópa æstan mjög frammi á gangi. Hótelstýran talaði of lágt til að ég heyrði hvað hún sagði í deilu þeirra. Hinsvegar heyrði ég Grikkjann öskra: "Af hverju sagðir þú mér þetta ekki í gær? Hringdu á lögguna! Þú heldur að þú sért rosalega gáfuð! Ég átti hund sem var tvöfalt gáfaðri en þú! Ég slátraði honum. Hann var svo heimskur!"
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.1.2013 | 22:25
Einnar konu maður
Á sama hóteli og ég dvaldi á í Stokkhólmi í Svíþjóð yfir jól og áramót bjó grískur maður. Hann á sænska konu. Hún og börn þeirra búa þarna í nágrenninu í Stokkhólmi. Maðurinn var duglegur að heimsækja fjölskyldu sína og ræddi einnig oft og tíðum við hana í gegnum tölvu. Það fór ekki framhjá öðrum gestum á hótelinu. Manninum lá óvenju hátt rómur þegar þau samskipti áttu sér stað.
Ég spurði manninn að því hvers vegna hjónin væru í fjarbúð. Hann svaraði þungbrýnn og alvarlegur: "Konan er mjög ruddaleg. Hún sakar mig stöðugt um óheiðarleika, ósannindi og framhjáhald. Það er ekki hægt að búa við svona ósvífnar ásakanir. Ég læt ekki bjóða mér það. En ég elska þessa konu og vil að við verðum hjón til lífstíðar. Ég er einnar konu maður."
Stundum rölti maðurinn með mér á barinn. Þá reyndi hann við hverja dömuna á fætur annarri. Eitt kvöldið með þeim árangri að hann fór heim með einni þeirra. Daginn eftir nefndi ég við hann að það benti til þess að flugufótur væri fyrir ásökum eiginkonunnar. Hann varð alvörugefinn og útskýrði málið: "Ég bað ekki um símanúmer hjá þessari konu. Ég mun aldrei hitta hana aftur. Þegar ég sef hjá konum úti í bæ þá nota ég alltaf smokk. Ef þær biðja mig um símanúmer þá gef ég þeim upp vitlaust númer. Ég vil aldrei hitta þær aftur. Ég vil bara eiginkonu mína. Ég er einnar konu maður."
Ferðalög | Breytt 9.1.2013 kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
5.1.2013 | 22:27
Íslensk tónlist í Svíþjóð
Í hvert sinn sem ég fer til útlanda þá fagna ég því að vera áhugalaus um búðarráp. Fyrir bragðið skipti ég mér ekkert af búðum. Fer ekki í þær. Horfi helst framhjá þeim ef þær verða á vegi mínum. Eina undantekningu geri ég þó. Hún er sú að ég læt aldrei framhjá mér fara verslanir sem selja hljómplötur. Ég legg ekki á mig langar leiðir til að komast í plötubúð. En á hótelinu spyr ég hvort að plötubúð sé í nágrenninu. Sé svarið jákvætt þá fer ég þangað.
Fyrir áratug og meir voru plötubúðir í flestum flugstöðvum. Það er liðin tíð. Plötubúðirnar eru horfnar úr flugstöðvunum. Og bara mikið til horfnar.
Stokkhólmur er gullnáma fyrir plötusafnara. Þar er að finna tugi plötubúða. Margar þeirra eru með óvenju gott úrval af jaðarmúsík öfugt við þá þróun sem hefur orðið víðast hvar: Jaðarmúsíkin hefur horfið að mestu úr plötubúðum heimsins og færst inn á netsíður.
Að þessu sinni kíkti ég inn í 4 plötubúðir í Stokkhólmi. Samtals keypti ég þó innan við 20 plötur. Flestar sænskar. Það er af sem áður var þegar utanlandsferð stækkaði plötubunkann minn um 50 - 100 stk.
Eitt af því sem er gaman við að fletta í gegnum lager í útlendum plötubúðum er að rekast á íslenskar plötur. Fyrir ári síðan komst ég að því að plötur Sólstafa eru í finnskum plötubúðum. Það kom skemmtilega á óvart. Og einnig að uppgötva að þær hefðu náð inn á finnska vinsældalista.
Í Stokkhólmi urðu á vegi mínum plötur með Björk, Jónsa, Sigur Rós og FM Belfast. Ég vissi ekki áður að FM Belfast væri þetta stórt nafn í Svíþjóð. Þau eru víst að gera það gott víðar á meginlandinu.
Plata Of Monsters and Men var ekki til sölu í áðurnefndum fjórum búðum. Hinsvegar hljómaði lag þeirra Little Talks undir í sænskum sjónvarpsþætti, einhverskonar annál, svipmyndum frá síðasta ári. Það sérkennilega var að ég horfði ekkert á sjónvarp í þessari Stokkhólmsreisu. Ég sá þennan þátt bara út undan mér fyrir tilviljun, staddur á veitingastað. Ég hef frásögn af því að lög með Of Monsters and Men hafi notið mikilla vinsælda í sænsku útvarpi.
Til viðbótar þessum sjónvarpsþætti og íslenskum plötum í sænskum plötubúðum vísa ég á lag með Írisi Kjærnested sem er að finna í síðustu bloggfærslu minni: http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1275550/
Ferðalög | Breytt 8.1.2013 kl. 01:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.12.2012 | 21:07
Rasistar í löggunni
Ég á marga vini. Það er gaman. Einn vina minna flutti til Íslands sem flóttamaður frá Víetnam fyrir mörgum árum. Hann talar ágæta íslensku. Eins og frægt og nýlegt myndband úr Smáralindinni sýnir þá mæta Íslendingar af asísku bergi brotnir stundum dónaskap af hálfu Íslendinga með evrópskan svip. Það eru rasistar á Íslandi.
Vinur minn þessi sem nefndur er til sögunnar var eitt sinn stoppaður af lögreglunni þegar hann ók í rólegheitum eftir Dalvegi í Kópavogi. Lögreglumaðurinn ávarpaði hann með spurningunni: "Talar þú íslensku?"
"Já, dálítið," svaraði vinurinn í hógværð.
"Þú verður að læra íslensku almennilega ef þú ætlar að vera á Íslandi, drengur," skipaði lögreglumaðurinn. Og það valdsmannlega. Því næst spurði hann háðskur: "Kanntu að lesa?"
Jú, vinurinn kannaðist við það undanbragðalaust. Þá spurði lögreglumaðurinn: "Af hverju keyrir þú þá á yfir 50 km hraða þegar á skiltinu þarna stendur 50?"
Vinurinn sagðist vita hver væri hámarkshraði þarna og að hann hafi talið sig vera á löglegum hraða. Hann hafi þó ekki fylgst með hraðamælinum. Honum hafi þótt hraðinn vera um eða undir hámarkshraða og ekkert verið að pæla í því. Hann fylgdi aðeins hraða annarra bíla þarna.
Hann gerði engan ágreining við hraðamælingu lögreglunnar. Það var skrifuð skýrsla og allt gekk sinn vanagang. Nema að þegar kom að því að ganga frá sekt þá kom í ljós að í skýrsluna var skráð að hann hafi ekið örlítið of hratt á Dalbraut í Kópavogi. Það er engin Dalbraut í Kópavogi. Það er til Dalbraut í Reykjavík, á Dalvík, á Akranesi og víðar. Leikar fóru þannig að skýrslan var úrskurðuð ómarktæk og sektin felld niður.
Lögreglumaðurinn valdmannslegi og háðski hafði lesið vitlaust á götumerkingu á Dalvegi.
Spurning er hvort að lögreglumaðurinn hefði ávarpað mann með vestrænt útlit á sama hátt? Skipað honum að læra almennilega íslensku, spurt hvort að hann væri læs og kallað mann á fertugsaldri dreng? Ég held ekki. Ég held ekki heldur að íslenskir lögreglumenn séu almennt rasistar Margir lögregluþjónar eru gott fólk.
![]() |
Hættu að vera dónalegur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 23:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
7.12.2012 | 19:54
Grænmetisrækt hefst á tunglinu strax á næsta ári
Þetta hljómar eins og grín. En þetta er ekki grín. Á næsta ári hefja Kínverjar ræktun á fjórum tegundum grænmetis á tunglinu. Til að byrja með verður grænmetið ræktað á 300 fermetrum. Það nægir til að grænmetið framleiði súrefni sem dugir fjölda manns til að dvelja á tunglinu án þess að þurfa á súrefnisgrímum að halda. Grænmetið kemur jafnframt í stað nestispakka. Fólkið þarf ekki að taka nein matvæli með sér frá jörðinni. Þess í stað jórtrar það á ferska grænmetinu sem vex á tunglinu.
Grænmetisræktin er algjörlega sjálfbær.
Ef allt gengur að óskum mun tunglið leysa offjölgunarvandamál Kínverja og takmarkað landrými þessa fjölmennasta ríkis heims. Þetta gerist ekki 1, 2, 3. Á næstu árum munu aðeins tugir Kínverja dvelja á tunglinu. Því næst einhver hundruð. Á seinni hluta þessarar aldar verður komin upp myndarlegur kínverskur kaupstaður. Annað hvort á þessari öld eða þeirri næstu munu jarðarbúar sjá með berum augu að hluti tunglsins verður grænn. Þá verður talað um að tunglið sé úr grænum osti eða gráðosti.
Hvar Huang Nupo kemur inn í dæmið vita fáir.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 20:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.12.2012 | 00:33
Ósvífinn hrekkur
Þrír bandarískir hermenn horfðu ofan í hyldýpi og ræddu um hversu hættulegt væri að standa þarna fremst á klettabrún í Færeyjum. Sá í miðið brá á leik og hrópaði hátt og óvænt í eyra þess sem fremstur stóð: "Böh!" Þá voru eftir tveir. Húmoristinn í miðið skammaðist sín dálítið eftir á. En það var, jú, seinni heimstyrjöldin í gangi og margt spennandi að gerast. Seinni heimsstyrjöldin gekk ekki áfallalaust fyrir sig.
![]() |
Sendiherra framdi sjálfsvíg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 20:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.11.2012 | 22:15
Yfirgengileg drykkjuvandamál gamla fólksins
Ég hef lengi reynt að benda á og vara við yfirgengilegu og brjálæðislegu ofdrykkjuvandamáli aldraðra Íslendinga. En talað fyrir daufum eyrum. Og jafnvel augum. Staðreyndin er sú að það má ekki af þessu fólki líta né sleppa af því hendi; þá er það á augabragði búið að drekka frá sér ráð og rænu. Með tilheyrandi látum. Þeim mun eldra sem fólkið er því skæðara er það í drykkjulátunum. Og reyndar allskonar óhollustu og uppátækjum.
Verstir eru gamlingjarnir þegar þeir komast út fyrir landsteinana. Þá losnar um allar hömlur. Þeir haga sér eins og beljur sem er hleypt út að vori: Sletta ærlega úr klaufunum.
Mér er minnistæður einn sem fór til Kanarí. Hann drakk sig blindfullan hvern dag. Það fyrsta sem hann gerði er hann vaknaði á morgnana var að spyrja ferðafélagana hvort hann hafi skemmt sér vel daginn áður. Hann hafði ekki hugmynd um það sjálfur en varð þeim mun glaðari sem sögurnar af drykkjulátunum voru meira krassandi. Hann hvatti ferðafélagana til að ljósmynda uppátækin. Hann langaði til að sjá myndir af sér ælandi eða hálf rænulausum. Þetta var fyrir daga digitalmyndavéla. Kappinn var reyndar ekki kominn á aldur. En byrjaður að æfa sig fyrir elliárin.
Algengt er að gamla fólkið komi tannlaust heim úr drykkjutúrum í útlöndum. Gómarnir renna út úr því í ölvunarsvefni út um allt tún. Eftir hverja hópdrykkjuferð aldraðra Íslendinga til útlanda er nágrenni hótelsins útbíað í tanngómum í reiðuleysi.
Margir stela reiðhjóli. En komast sjaldnast á því lengra en út í næstu laut. Þar sofna þeir ölvunarsvefni.
Það þarf ekki hjólreiðatúr til. Sumir fá sér kríu hvar sem er á milli þess sem þeir rangla blindfullir og stefnulaust um nágrenni hótelsins.
Þegar gamlingjarnir eru í glasi verða þeir ruddalegir og ógnandi í framkomu. Þá forðar yngra fólk sér á hlaupum undan þeim.
Djöfladaður einkennir fulla gamlingja. Þeir reyna stöðugt að koma djöflahornum á ferðafélagana, Satani til dýrðar.
Gamla fólkið skerpir á vímunni með aðstoð sjónauka. Þá verður það glaseygt og þykir það gaman.
Um og upp úr 100 ára aldri má fulla fólkið ekki sjá logandi ljós öðru vísi en kveikja sér umsvifalaust í hassvindli eða hvaða vindli sem er.
Á drykkjuferðalögum í útlöndum rambar margur gamlinginn inn á húðflúrstofur. Kann sér ekki hóf á neinu sviði. Verður sér og sínum til skammar þegar heim er komið. Það er tilhlökkun að vera að detta í þennan aldurshóp. Alltaf fjör. Og nú er byrjað að selja áfengi á elliheimilunum hérlendis. Síðan gengur mikið á þar á bæ.
![]() |
Drukku frá sér ráð og rænu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt 24.11.2012 kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)