Færsluflokkur: Ferðalög

Færeyski Kínamúrinn

  Margir hafa heyrt talað um Kínamúrinn (gætið þess að rugla honum ekki saman við Kínakúrinn).  Hann er frægasti múr eða garður í heimi.  Miklu frægari en Berlínarmúrinn sálugi og aðskilnaðarmúrinn í Palestínu.  Á tímabili var því haldið fram í kennslubókum að Kínamúrinn væri eina mannvirkið sem sæist frá tunglinu.  Kínverjar könnuðu málið og fundu út að þetta var þýðingarvilla.  Kínamúrinn sést utan úr geimnum en ekki alla leið frá tunglinu.

  Á frummálinu heitir Kínamúrinn 長城 eða eitthvað álíka.  Á ensku heitir hann The Great Wall of China (gætið þess að rugla nafninu ekki saman við lagið  The Great Balls of Fire  með Jerry Lee Lewis).  Ég kalla hann Stóragarð.  Það er vegna þess að í Þórshöfn í Færeyjum er svipaður garður sem heitir Stórigarður.  Miðað við höfðatölu er færeyski Kínamúrinn miklu stærri og merkilegri en sá kínverski.  Og miklu flottari.  Fellur betur að landslaginu og setur sterkan og skemmtilegan svip á Þórshöfn.

Stórigarður í ÞórshöfnStórigarður í Þórshöfn IIStórigarður í Þórshöfn III

  Ég er kominn út fyrir umræðuefnið.  En það er allt í lagi.  John Lennon sagði að lagið  Whole Lotta Shakin' Going on  með Jerry Lee Lewis væri fullkomnasta lag rokksögunnar:


Nauðsynlegt að vita

flóðhestur

  Meðal allra skemmtilegustu hesta eru flóðhestar.  Þetta eru vinarlegar skepnur;  sterklegar og stæðilegar.  Oftast eru þær rólegar og lausar við æsing og fíflagang.  Stundum geispa flóðhestar.  Mörgum hættir til að tengja það við syfju og hugsa:  "Blessuð skepnan.  Núna langar hana að fara að lúlla."

  Þetta er alröng ályktun.  Þegar flóðhestur geispar þá þýðir það að farið sé að fjúka í hann.  Hann sé orðinn reiður og árásargjarn.  Þá er betra að forða sér.  Annars getur illa farið. 

flóðhestur-ræðst-á-mann


Q4U í heimsreisu

  Hljómleikar Q4U á Dillon Rokk Bar voru einn af hápunktum Menningarnætur.  Ég sá að vísu ekki alla dagskrárliði Menningarnætur.  Þess vegna hef ég ekki heildar samanburð.  Fyrir bragðið set ég þann fyrirvara að tala um einn af hápunktum í staðinn fyrir að setja ákveðinn greini við hápunkt.

   Q4U hefur aldrei verið betri.  Það er sprengikraftur í hljómsveitinni.  Spilagleðin geislar af hverjum tóni.  Fjörleg sviðsframkoma Ellýjar undirstrikar stuðið og spræka stemmninguna.
.
  Fyrir nokkrum dögum upplýsti ég hér á blogginu að brasilískt plötufyrirtæki hefði gefið út á þarlendan markað safnplötu með Q4U.  Sjá:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1183818/
.
  Platan,  Q4U Best of,  hefur fengið hlýjar móttökur hjá brasilískum útvarpsstöðvum,  músíkpressunni og á diskótekum.  Þó án þess að fara inn á vinsældalista.  Enda reiknaði enginn með slíku.  Hinsvegar hafa viðbrögðin verið það góð að plötuútgefandinn leggur nú hart að Q4U að koma í hljómleikaferð til Brasilíu.  Mjög hart.  Hann suðar og suðar.
.
  Svo sérkennilega vill til að á sama tíma hefur Q4U fengið beiðni um að spila í Þýskalandi og New York.  Í Þýskalandi á Q4U harðsnúinn hóp aðdáanda.  Þar hefur Q4U selt fleiri plötur en á Íslandi.  Áhugi á Q4U í New York er nýtilkominn og tengist sennilega útgáfunni á plötunni í Brasilíu.
.
  Vandamálið er það að liðsmenn Q4U eru fjölskyldufólk í fastri annarri vinnu en að spila rokkmúsík.  Þeir,  eða réttara sagt þau,  eiga börn á ýmsum aldri og barnabörn.  Sumarfrí þessa árs eru að baki.  Það er ekkert einfalt dæmi fyrir þessa miðaldra rokkara að stökkva frá vinnu,  heimilum,  börnum og barnabörnum og fara í hljómleikaferð til Þýskalands,  Bandaríkjanna og Brasilíu.  Fyrir utan að svoleiðis heimsreisa kallar á töluverð fjárútlát - þó að flug og gisting falli á hljómleikahaldara.   
.
  Hljómsveitin var stofnuð fyrir þremur áratugum sem "hobbý" hljómsveit (hliðarverkefni) og hefur alla tíð síðan verið "hobbý" hljómsveit.  Q4U vakti mikla athygli í bíómyndinni og á plötunni  Rokki í Reykjavík.  Nokkru síðar sló Q4U rækilega í gegn með ofursmellinum  Böring
.
  Eftir það hefur Q4U starfað með mislöngum hléum.  Komið fram af og til á hljómleikum og í sjónvarpi án þess að vera mjög áberandi.  Vinsældir Q4U í Þýskalandi blossuðu óvænt upp fyrir tveimur árum eða eitthvað svoleiðis.  Og nú ennþá óvænna í Brasilíu og New York.
.
  Á þessari stundu er alls óvíst hvernig Q4U afgreiðir skyndilega eftirspurn í útlöndum.  Fyrir aldarfjórðungi eða þremur áratugum hefðu svona tilboð frá útlöndum ekki vafist fyrir Q4U.  Það hefði verið stokkið á slík tækifæri án umhugsunar.  Í dag er þetta allt annað dæmi. 
.
  Hvað heldur þú?  Hvað er rétta skrefið í þessari stöðu?
.
q4u-best-of
 .
  Þegar plötutitlinum  Q4U Best of  er slegið upp í google koma upp fimm þúsund síður.  Það sýnir að platan sé komin í öfluga dreifingu.  Það er gaman að skoða þetta.  Hér er dæmi:  http://www.stormingthebase.com/q4u-best-of/
.
q4u Aq4u C

Færeyskir fjölskyldudagar á Stokkseyri - samantekt

  Með því að smella á eftirfarandi hlekk má sjá dagskrá Færeyskra fjölskyldudaga á Stokkseyri um síðustu helgi:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1181666/.  Færeyska hljómsveitin Kvönn hélt hljómleika öll kvöld helgarinnar.  Þetta er "instrumetal" þjóðlagahljómsveit (án söngs).  Nafnið Kvönn er sótt í nafn unga fiðlusnillingsins Angeliku Nielsen.  Angelika er latneska nafnið á kvönn. 

  Angelika var barnastjarna í Færeyjum.  Eða kannski frekar unglingastjarna.  Hún náði ung algjörri snilli á fiðlu.  Og reyndar ýmsu öðru.  14 ára gömul mætti hún á skrautskriftarnámskeið hjá mér í Færeyjum 1998.  Þetta var 3ja kvölda námskeið.  Hún missti af fyrsta kvöldinu.  En strax á öðru kvöldinu dúxaði hún.  Náði kennsluefninu með því sama og varð strax flinkust allra á námskeiðinu.  Hún hafði ekkert fyrir þessu.  Var eins og atvinnuskrautritari frá fyrstu mínútu.

  Nokkru síðar las ég í færeysku dagblaðið að hún hafi dúxað í frönsku.  Ég man ekki hvenær ég las í færeysku dagblaði að hún hafi verið valin í alþjóðlega hljómsveit undrabarna. 

  Einhverjum árum síðar spilaði færeyska djasshljómsveitin Yggdrasil á Íslandi.  Forsprakki hennar,  píanóleikarinn Kristian Blak,  sagði mér að Angelika væri komin í hljómsveitina.  Hann sagðist hafa útskýrt fyrir henni út á hvað djass gengi og á hvaða hátt djass væri ólíkur þjóðlagamúsík.  Síðan var hljómsveitaræfing.  Þá spilaði Angelika eins og hún hefði aldrei spilað annað en djass.  Hún spilaði óaðfinnanlega,  vatt sér í frábær djasssóló og þurfti enga æfingu.  Djassinn var henni eins eiginlegur og að drekka vatn.

  Kvönn bauð upp á fjölbreytta dagskrá.  Hverjir hljómleikar voru öðrum ólíkir.  Til að mynda var flauta eitt af aðalhljóðfærum fyrstu tvo hljómleikana en saxafónn á síðustu hljómleikunum.

  Píanóleikarinn Kristian Blak er skemmtilegur kynnir.  Húmor hans kemst ekki til skila í endursögn.  Hann gerir út á stemmningu augnabliksins.  Ég freistast þó til að nefna þegar hann kynnti til sögu lag frá 18. öld.  Hann sagði það hafa verið spilað í kvikmyndinni um Titanic þegar Titanic sökk.  Niðurlag kynningarinnar var þannig:  "Ég hef ekki séð kvikmyndina en ég hef sé ljósmynd af henni."

  Af öðrum færeyskum skemmtikröftum á Færeyskra fjölskyldudaga má nefna Guðríði (nafnið framborið Gúrí) og Benjamín.  Guðríð er rokkuð vísnasöngkona (alt-folk rock).  Hún er góður lagahöfundur og söngstíllinn í humátt að Kate Bush.  Hún syngur "jöfnum höndum" á færeysku og ensku.  Er mjög góð í gítarpikki.  Hún er með ágæta stöðu í Danmörku,  Þýskalandi og víðar.  Guðríð verður með hljómleika á Menningarnótt í Reykjavík og Airwaves.

  Benjamín er færeyskur gítarleikari,  söngvari og söngvahöfundur (singar/songwriter).  Lög hans eru grípandi.  Hann hefur m.a. spilað með Eivöru.

  Jógvan (nafnið er framborið "Ég vann") sló í gegn á Íslandi sem sigurvegari í X-Factor.  Áður sigraði hann í danska "So You Think You Can Dance".   Þar áður var hann stjarna í Færeyjum með unglingahljómsveitinni Aria. 

  Jógvan afgreiddi dansiball á laugardagskvöldinu á Færeyskum fjölskyldudögum ásamt Vigni Snæ.  Þeir spiluðu báðir á kassagítar.  Að óreyndu er það ekki uppskrift að stuðballi:  Tveir kassagítarar og söngur.  En þeir félagar hröktu allar efasemdir á haf út.  Þeir náðu upp þvílíku fjöri að engan endi ætlaði að taka stanslaust stuðið.  Dansgólfið iðaði allt kvöldið og þeir tvímenningar hittu stöðugt í mark.  Þeir kunnu svo sannarlega að lesa salinn.  Þar munaði um að Jógvan er fyndinn og orðheppinn í kynningum á milli laga.

  Að frátöldu færeyskum skemmtikröftum léku Labbi í Mánum og Bassi sonur hans (trommari) fyrir dansleikjum á föstudags- og sunnudagskvöldi.  Feðgarnir fóru á kostum.  Mér heyrðist sem Labbi væri með einhvers konar bassa-"effekt" á gítarnum þannig að dekkstu tónar væru afgreiddir eins og um bassaleikara væri að ræða.  Studdum af öflugum bassatrommuslætti Bassa. 

  Ýmislegt fleira mætti nefna af vel heppnuðum atriðum á Færeyskum fjölskyldudögum.  Til að mynda flugeldasýninguna,  varðeldinn og smakk á þjóðlegum færeyskum mat (skerpukjöt og ræstkjötssúpa) og færeyskum drykkjum.  Og ekki má gleyma sköruglegum kynningum Sigurgeirs Hilmars.  

  Ég er strax farinn að hlakka til næstu verslunarmannahelgar. 


Frábærlega vel heppnaðir Færeyskir fjölskyldudagar

  Ef lagt er út af málflutningi forsvarsmanna Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum má þakka fyrir að banni á bjórdrykkjum var aflétt og að fulltrúar Stígamóta voru ekki í Vestmannaeyjum um helgina.  Að þeirra mati æsa Stígamót til nauðgana og bjórinn slær á alls konar þannig ofbeldi og annað.  Staðan var því þannig að næstum eins og best var á kosið í Vestmannaeyjum um helgina.  Nauðganir frekar fáar,  aðrar líkamsárásir líka og dópneysla,  tengd bjórleysi,  í lágmarki.

  Þetta eru vandamál sem enginn þarf að velta fyrir sér á Færeyskum fjölskyldudögum á Stokkseyri.  Þar skemmtu allir sér hið besta.  Það kom ekki upp eitt einasta vandamál.  Þvert á móti.  Það var einungis glaðværð sem einkenndi Færeysku fjölskyldudagana.

  Það er ekki auðvelt að átta sig á hvað nákvæmlega margir sóttu heim Færeysku fjölskyldudagana á Stokkseyri um helgina.  Um 300 manns voru á tjaldstæðinu.  Sennilega annar eins fjöldi dvaldi í heimahúsum eða sumarhúsum á Stokkseyri og nágrenni.  Hátíðin var einnig sótt af íbúum á Selfossi,  Hveragerði,  Eyrarbakka og Þorlákshöfn.  Einhverjir óku til og frá höfuðborgarsvæðinu.

  Íbúar Stokkseyrar eru tæplega 500.  Á heimasíðunni www.stokkseyri.is sögðust 44% ætla að sækja Færeyska fjölskyldudaga. 

  Heildartala gesta á Færeyskum fjölskyldudögum er ekki auðútreiknanleg.  Fjöldi dagskráratriða var með ókeypis aðgangi.  Þar af kannski flestir á flugeldasýningu,  varðeldi og bryggjuballi. 

  Ætla má að einhversstaðar á bilinu 700 - 1000 manns hafi tekið þátt í Færeyskum fjölskyldudögum á Stokkseyri í ár.  Einhver sagði mér að um 800 matargestir hafi fengið sér í svanginn á veitingastaðnum Við fjöruborðið um helgina.  Sá veitingastaður er á heimsmælikvarða þegar kemur að humarsúpu og öðrum humarréttum.  Mjög líklega gerðu sumir sér erindi þangað oftar en einu sinni um helgina.  Sjálfur náði ég þar veislu einu sinni um helgina.  Og ætlaði að endurtaka dæmið.  En þá var 90 mínútna biðlisti svo að ég í 20 manna hópi varð frá að hverfa í það skiptið. 

  Meira um Færeyska fjölskyldudaga á Stokkseyri á morgun.

 


mbl.is „Við erum slegin yfir þessu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðríð á Færeyskum fjölskyldudögum á Stokkseyri

  Guðríð (nafnið er framborið Gúrí) er eitt af stóru færeysku nöfnunum sem skemmta á Færeyskum fjölskyldudögum um helgina.  Hún hefur sent frá sér 3 vinsælar plötur í Færeyjum og nýtur vinsælda í Danmörku,  Þýskalandi og víðar.  Hún hefur tvívegis fengið færeysku tónlistarverðlaunin,  Planet Awards:  Annarsvegar sem "Besta færeyska söngkonan".  Hinsvegar fyrir "Bestu færeysku plötuna". 

  Músíkstíl hennar má lýsa sem alt-folk-rokki.  Það er að segja "alternative" þjóðlagakenndu rokki.  Kate Bush með Jimi Hendrix ívafi.  Eða eitthvað svoleiðis. 

  Með því að smella á þennan hlekk má sjá og heyra smá spjall Arnars Eggerts við Guðríði:  http://www.mbl.is/folk/frettir/2011/07/17/arnar_eggert_a_g_6_hluti/

  Með því að fletta örlítið niður bloggsíðuna mína getur að líta kynningar á fleiri færeyskum tónlistarmönnum sem skemmta á Færeyskum fjölskyldudögum.


Kristian Blak á Færeyskum fjölskyldudögum á Stokkseyri um næstu helgi

  Færeyskir fjölskyldudagar eru nú haldnir um verslunarmannahelgina á Stokkseyri í þriðja skipti.  Þeir tókust rosalega vel í fyrri tvö skiptin.  Það var stanslaust fjör og mikil gleði.  Nákvæmlega ekki eitt einasta vandamál kom upp.  Engin slagsmál og ekki svo mikið sem deilur.  Að vísu kom upp í fyrra smávægilegur ágreiningur í lok knattspyrnukeppni á milli Færeyinga og Íslendinga.  Íslendingar unnu leikinn en einn færeysku leikmannanna hélt því fram að Íslendingar hafi verið rangstæðir allan leikinn.  Enginn leikmanna studdi ásökunina og þetta var ekki rætt frekar. 

  Meðal skemmtikrafta á Færeyskum fjölskyldudögum í ár er hljómborðsleikarinn Kristian Blak.  Hann er aðal driffjöðrin í færeysku tónlistarlífi undanfarin 35 ár eða svo.  Meðal annars rekur hann eina stóra plötufyrirtækið í Færeyjum,  Tutl (framborið tútl).  Það fyrirtæki hefur gefið út plötur með öllum helstu færeyskum tónlistarmönnum.  Þar á meðal Eivöru,  Tý,  Jógvan,  200,  Clickhaze, Teit,  Högna,  Orku,  Kvönn og svo framvegis.  Í fyrra gaf Tutl út plötuna  Baldur  með íslensku víkingarokkurunum Skálmöld.

  Kristian Blak hefur gert út fjölda hljómsveita.  Þar á meðal þjóðlagasveitina Spælimeninir og samnorrænu djass-rokkshljómsveitina Yggdrasil.  Um nokkurra ára skeið var Eivör í Yggdrasil og söng með hljómsveitinni á hljómleikum hérlendis.

  Kristian Blak er stuðkall og verður klárlega hrókur alls fagnaðar á Færeysku fjölskyldudögunum um helgina.  Myndbandið hérna efst segir frá hljómleikum sem Kristian Blak stendur árlega fyrir á færeysku eyjunni Mykanes. 

  Með því að smella léttilega á eftirfarandi hlekk má sjá dagskrána á Færeyskum fjölskyldudögum:

http://www.facebook.com/notes/f%C3%A6reyskir-fj%C3%B6lskyldudagar/f%C3%A6reyskir-fj%C3%B6lskyldudagar-2011-dagskr%C3%A1/222655274436351

 


Íslenskir fjölmiðlar og G!Festival

  Í ársbyrjun 2001 vissu Íslendingar fátt sem ekkert um færeyska tónlist.  Og vildu ekki af henni vita.  Svo sló  Ormurin langi  með Tý rækilega í gegn.  Þökk sé Guðna Má á rás 2.  Ormurin langi  varð vinsælasta lagið á Íslandi 2002.  Í kjölfar opnuð allar gáttir og Íslendingar uppgötvuðu að í Færeyjum var fjörlegt og blómlegt tónlistarlíf.  Íslendingar uppgötvuðu hverja hágæða færeysku poppstjörnuna á fætur annarri:  Eivör,  Makrel,  Clackhaze,  Hanus G.,  200,  Kára Sverrison,  Yggdrasil og svo framvegis.  Talað var um færeysku bylgjuna.  Færeyska barnastjarnan Brandur Enni varð ofurstjarna á Íslandi.  Næstu ár sá hvergi fyrir enda á vinsældum færeyskra tónlistarmanna á Íslandi:  Högni,  Teitur,  Lena Andersen,  Deja Vu,  Gestir,  Boys in a Band,  Orka og ég áreiðanlega að gleyma hellingi af nöfnum.

  2002 var fyrsta G!Festivalið haldið í Götu í Færeyjum.  Í ár var G!Festival haldið í 10. sinn.  Það hefur verið gaman að fylgjast með þróun G!Festivals,  áhuga Íslendinga á því og ekki síst afgreiðslu íslenskra fjölmiðla á þessari stærstu árlegu rokkhátíð í Færeyjum.

  Vel á annað hundrað Íslendinga sótti G!Festival í ár.  Þar á meðal voru íslenskir tónlistarmenn þátttakendur í dagskránni og íslenskir fjölmiðlar fylgdust náið með.  Þau íslensku nöfn sem mest kvað á í dagskránni voru Mugison og þungarokkssveitin Skálmöld.  Þeirra nöfn eru vel þekkt í Færeyjum.

  Rás 2,  X-ið,  Morgunblaðið,  DV og Fréttablaðið áttu sína "tíðindamenn" á G!Festivalinu.  Morgunblaðið trompaði með tíðum sjónvarpspistlum frá hátíðinni.  Arnar Eggert fór þar á kostum í virkilega vel unnum sjónvarpsþáttum á mbl.is (fólk),  svo og í blaðagreinum í prentmiðlinum.

  Atli Fannar gerði G!Festivali góð skil í helgarblaði Fréttablaðsins og laugardagsþætti sínum á X-inu.  X-ið var jafnframt með leik þar sem hlustendur unnu ferð á G!Festivalið.

  Andrea Jóns tók viðtöl við færeyska tónlistarmenn fyrir rás 2 og hefur verið að mjatla þeim út í kvölddagskrá rásar 2.  Andrea er snillingur eins og flestir eiga að vita.

  Sjálfur afgreiddi ég G!Festivali í opnufrásögn í DV síðasta miðvikudag.  Og einnig í nokkrum fréttum á netmiðli DV.

  Þetta er gaman.  Ekki síst vegna þess að flestir færeysku tónlistarmennirnir sem skemmtu á G!Festivali í ár hafa áður spilað á Íslandi:  Týr,  Hamferð,  Guðrið Hansen,  Högni,  Orka,  Búdam,  Benjamín,  Sic,  Spælimeninir,  Pétur Pólsen og enn og aftur er ég áreiðanlega að gleyma einhverjum. 

  Um verslunarmannahelgina verður Færeysk fjölskylduhátíð á Stokkseyri.  Það skemmta meðal annarra Kristian Blak,  Benjamín,  fiðlusnillingurinn Angelika Nielsen,  Guðrið og Jógvan.  Ég mun blogga um það ævintýri innan tíðar.

      


DV er að standa sig: Opnugrein um G!Festival

skalmold 

  Í DV í dag er heil opna lögð undir ljósmyndir og grein um G!Festival.  Það er til fyrirmyndar.  Ljósmyndir Ingólfs Júlíussonar eru hver annarri glæsilegri.  Hann er snillingur,  sá drengur.  Það er augnkonfekt að skoða ljósmyndirnar hans af Tý,  Skálmöld og fleirum þarna á G!Festivalinu,  stærstu árlegri rokkhátíð í Færeyjum.  Hún fór fram um liðna helgi í Götu á Austurey. 

  Hér eru fleiri myndir úr ljósmyndavél Ingólfs, teknar á G!Festivali:

Týr

  Heri gítarleikari og söngvari Týs

hanus

  Hanus G.  Hann er stundum kallaður færeyskur Megas.  Eivör hefur sungið lög eftir hann inn á plötur.  Hann semur fallega vísnasöngva.  En kann einnig að meta þungt rokk því hann lét sig ekki vanta á hljómleika Skálmaldar og Týs.

vest-trans

  Einhverjir vinnuþjarkar voru með þessa merkingu á gallanum sínum.  Hún vakti upp spurningar.  Helst datt mönnum í hug að þarna hafi orð vígslast.

Brennivín

  Þessi fallega flaska stóð ofan á þaki húsbíls.  Hún kom kunnuglega fyrir sjónir.

palma og Atli fannar

  Það var altalað að sterkur hjónasvipur væri með þessu fjölmiðlapari.  Hún heitir Palma Jacobsen og er ljósmyndari hjá færeyska vikublaðinu Norðurlýsið.  Hann heitir Atli Fannar og er blaðamaður hjá Fréttablaðinu og dagskrárgerðarmaður á X-inu.


Metallica drengirnir eru ekki alltaf vondir

  Margir hafa borið liðsmönnum dönsk-bandarísku þungarokkssveitarinnar Metallicu illa söguna.  Einkum trommaranum Larsi Ulrich og söngvaranum James Hetfield.  Gamli bassaleikarinn þeirra,  Jason Newsted,  segir þá hafa lagt sig í einelti með barsmíðum og öðrum leiðinlegheitum.  Þeir þykja sjálfhverfir,  frekir,  ofbeldisfullir og hrokafullir.

  En fáir eru svo með öllu illir að ekki leynist í þeim eitthvað gott.  Um daginn fékk 11 ára gamall færeyskur drengur óvænta upphringingu frá Larsi Ulrich.  Ekki bara einu sinni heldur var nánast símaónæði vegna upphringinga frá Larsi.  Erindið sem hann átti við Færeyinginn var að bjóða honum ásamt foreldrum hans á hljómleika Metallicu í Svíþjóð.   

  Forsagan er sú að færeyski drengurinn,  Ási Hilbertsson,  er illa haldinn vegna krabbameins.  Hann þarf að styðjast við hækjur vegna þess að bein hans eru illa farin.  Sömuleiðis er hann orðinn sjóndapur.  Bara svo fátt eitt sé nefnt.

  Um heilsuleysi Ása hefur verið fjallað í færeyskum fjölmiðlum.  Líkast til hefur einnig verið sagt frá því í dönskum fjölmiðli.  Einhvern veginn að minnsta kosti frétti Lars hinn danski af drengnum.  Í frásögnum af Ása kom fram að hann linar þjáningar sínar með því að hlusta á Metallicu.  Það snart Lars.

  Í boði Metallicu flaug Ási ásamt foreldrum sínum til Svíþjóðar og hitti Lars í hljómleikahöll sem tekur næstum 60 þúsund áhorfendur.  Þrátt fyrir að danskir ættingjar Lars mættu einnig á svæðið til að heilsa upp á trommarann átti Ási athygli hans óskipta.  Hann kynnti Ása fyrir hinum í hljómsveitinni,  sýndi honum hin ýmsu tæki og tól hljómsveitarinnar og bauð Ása að velja hvaða lög Metallica spilaði í hljóðprufunni. 

  Á sjálfum hljómleikunum var Ása og foreldrum hans komið fyrir í sérstakri stúku á sviðinu skáhalt fyrir aftan Lars.  Hvenær sem minnsta hlé varð á trommuleiknum spratt Lars upp eins og stálfjöður til að ganga úr skugga um að Ási og foreldrarnir hefðu nóg að borða og drekka og allt væri eins og best væri á kosið.

  Ási hefur verið í skýjunum eftir þennan höfðinglega gjörning Lars Ulrichs.  Foreldrarnir ekki síður.  Þau hafa ekki séð drenginn jafn hamingjusaman síðan krabbameinið lét á sér kræla.  Það fer ekki af honum gleðisvipurinn og brosið allan hringinn.  Foreldrunum þykir sérlega vænt um hvað Lars stóð vel að heimsókninni og var virkilega hugulsamur um að Ási fengi sem mest út úr henni.  

ási

  Ási og Lars Ulrich


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband