Færsluflokkur: Ferðalög
17.3.2009 | 00:28
Gríðarlegt fjör á Landsþinginu
Landsþing Frjálslynda flokksins var haldið um helgina í Stykkishólmi. Á annað hundrað manns sótti þingið. Nánar tiltekið 101. Ég man ekki eftir jafn góðri stemmningu á stærri samkomum Frjálslynda flokksins. Það voru allir eitthvað svo kátir og glaðværir. Menn og konur reittu af sér brandara út og suður; Guðjón Arnar brast á með einsöng og hreif fólkið með sér í fjöldasöng; harmónikka gekk á milli manna; það var dansað út um öll gólf og sungið og sprellað. Ég hef sjaldan skemmt mér jafn vel. Og hlegið jafn mikið undir gamansögum.
Guðjón Arnar var endurkjörinn formaður. Ásgerður Jóna var kosin varaformaður. Hanna Birna ekki Kristjánsdóttir var sjálfkjörin ritari. Helgi Helgason var kosinn formaður fjármálaráðs. Eftirtalin voru kosin í miðstjórn (í þessari röð):
Grétar Pétur Geirsson
Kolbeinn Guðjónsson
Ásthildur Cesil
Ragnheiður Ólafsdóttir
Helga Þórðardóttir
Guðmundur Hagalín frá Flateyri
Pétur Bjarnason
Ólafía Herborg frá Egilsstöðum
Sturla Jónsson
Maður gekk undir manns hönd um að etja mér fram í framboð til miðstjórnar. Ég varðist fimlega með þeim rökum að ég væri búinn að láta undan gífurlegum þrýstingi í að gefa kost á mér til fjármálaráðs. Vegna minna viðhorfa til lýðræðis og að vald sé dreift taldi ég nægja að vera í fjármálaráði til viðbótar að vera í stjórn kjördæmafélags RN og ritari þess. Með okkur Helga í fjármálaráði voru kjörin Ragnheiður Ólafsdóttir, Benedikt Heiðdal Þorbjörnsson og Grétar Pétur Geirsson.
Magnús Þór Hafsteinsson, fráfarandi varaformaður FF, bauð sig fram gegn sitjandi formanni. Þegar úrslit lágu fyrir lýsti Magnús Þór því yfir að hann væri sáttur og ekki hvarflaði að honum að yfirgefa flokkinn. Þar vísaði hann sennilega til þess að áður höfðu þeir sem urðu undir í framboði til varaformanns í FF yfirgefið flokkinn í fýlukasti: Gunnar Örlygsson og Margrét Sverrisdóttir.
Yfirlýsingu Magnúsar Þórs var tekið með langvarandi lófaklappi. Þingheimur stóð upp til að skerpa á lófaklappinu.
Ljósmyndinni efst hnuplaði ég af bloggi Ásthildar Cesil. Það elska allir og dýrka þá frábæru manneskju. Ég líka. Lengst til vinstri á myndinni eru Kristmann og Guðmundur Hagalínssynir. Því næst eru Magnús Reynir framkvæmdastjóri flokksins; Kolbrún Stefánsdóttir sem leiðir framboðslistann í Kraganum; gamli maðurinn; Grétar Pétur Geirsson og Benedikt Heiðdal. Við Benni unnum saman í álverinu í Straumsvík á áttunda áratug síðustu aldar, ásamt bræðrum hans og föður. Benni var ljúfur og þægilegur vinnufélagi. Frábær náungi.
Myndin hér fyrir neðan er af Sigga "ginseng" sem nú er að hjálpa okkur við að sniðganga kvef og smápestir með Immiflex, www.immiflex.is:
Fleiri skemmtilegar myndir frá Landsþinginu má finna á http://www.asthildurcesil.blog.is/blog/asthildurcesil/entry/829320/
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.2.2009 | 21:05
Íslenskir rokkarar vinsælir í Póllandi
Það fer lítið fyrir ensku í Póllandi. Lesefni er að uppistöðu til einungis á pólsku. Sama hvort um er að ræða matseðla, merkingar á verslunum eða annarsstaðar, dagblöð eða tímarit. Vinsæl erlend tímarit eru þýdd og gefin út á pólsku. Þetta á líka við um rokkblöð. Pólverjar gefa einnig sjálfir út sér pólsk rokkblöð. Í almennum bókabúðum má finna að minnsta kosti tug veglegra pólskra rokkblaða.
Eitt mitt fyrsta verk, nýkominn til Póllands, var að kaupa tvö helstu pólsku rokktímaritin, Garaz og Pasazer. Þeim fylgja safndiskar með forvitnilegri pólskri rokkmúsík.
Er ég fletti í gegnum blöðin kom í ljós að í báðum blöðunum er fjallað rækilega um plötuna Chainlike Burden með íslensku rokksveitinni I Adapt. Þessi plata var að margra mati besta íslenska platan 2007. Það er þess vegna ekki skrýtið að hún skjótist upp á yfirborðið í Póllandi núna - jafnvel þó meira en ár sé síðan I Adapt snéri upp tánum.
Þegar betur var að gáð uppgötvaði ég að Chainlike Burden er sérútgefin í Póllandi af stóru þarlendu plötufyrirtæki, Spook Records. Fyrirtækið mun hafa sent plötuna frá sér fyrir jól en pólska rokkpressan "kveikti ekki á perunni" fyrr en núna í febrúar.
Eftir að ég kom aftur til Íslands var ég fljótur að finna sömuleiðis á netinu sitthvað um þessa plötu á pólskum netsíðum. Að sjálfsögðu fæst þessi vinsæla íslenska plata í pólskum plötubúðum, ásamt örfáum öðrum íslenskum plötum. Ég mun skrifa færslu um það.
Eintökin af tímaritunum Garas og Pasazer burðaðist ég með mér til Íslands sem mikilvæg sönnunargögn um að hér er farið rétt með. Þau mun ég afhenda Birki Fjalari, söngvara I Adapt, við hátíðlega athöfn þegar hann kemur í hljómleikaferð til Íslands með kanadísku hljómsveitinni sinni, Man Up.
I Adapt "Chainlike Burden"
10 najnowszych utworów załogi z Islandii. Pełen pasji hard core, z zaangażowanymi politycznie i chwytającymi za serce tekstami. Między Modern Life Is War czy nawet Tragedy. Niestety jest to prawdopodobnie ich pożegnalna płyta. (22 zł)
-------------------------------
Love. Compassion. Tolerance. These words we celebrate. ("Celebrate").
Gorąco polecam!
Jeśli ktoś pochodzi z tak małej wyspy i staje się popularny w danym gronie, to z pewnością stanowi to o jego, swego rodzaju, wyjątkowości. A I Adapt ma do zaoferowania naprawdę sporo. Grupa pokazuje ja umiejętnie łączyć starą szkołę hardcore z jego nowoczesnym obliczem. Wkłada też w swą twórczość maksimum zaangażowania i emocji, a wrażliwości muzycznej mogliby się od nich uczyć inni krzykacze. Każdy poruszony temat, polityczny czy społeczny, urozmaicają dźwiękami oddającymi jego charakter. Rzecz ta jest coraz rzadziej spotykana, bo podczas gdy większości zależy na agresywnym „naparzaniu” I Adapt potrafi zagrać wolno i refleksyjnie, bez cienia nudy i nieuzasadnionych kompleksów. Koniecznie sięgnijcie po „Chainlike Burden”, gdyż krążą plotki, że to ostatnie wspólne dzieło spółki Birkir – Addi – Ingi – Elli.
1. Future In You
2. Subject To Change
3. Historical Manipulation In A Nice Suit
4. No Courage In Hate
5. Sinking Ship
6. Same As It Ever Was
7. Close To Home
8. 03.03.05
9. Thought Time Would Forget
10. Snakes And Intentions
Ferðalög | Breytt 24.2.2009 kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
21.2.2009 | 22:40
Meira af Póllandsferðinni
Það tekur um fjóra klukkutíma að fljúga frá Íslandi til Póllands. Álíka langan tíma tekur að fljúga frá Póllandi til Íslands. Í báðum tilfellum miðast við að færð sé þokkaleg, flugstjórinn sé ekki að drolla neitt og fljúgi bara stystu leið. Aðal flugvöllurinn í Varsjá heitir Chopin. Áríðandi er að rugla honum ekki saman við tónskáldið og píanistann Chopin. Samt er tenging þarna á milli. Flugvöllurinn - eins og margt fleira í Varsjá - er nefndur í höfuðið á tónskáldinu. Meira um það síðar.
Chopin flugvöllurinn er staðsettur á svipuðum stað í Varsjá og Reykjavíkurflugvöllur í Reykjavík. Það er margvísleg hagræðing fyrir almenning að hafa þessa flugvelli staðsetta þar sem þeir eru. Til að mynda er auðvelt að ferðast fyrir lítinn pening í strætó til og frá þessum flugvöllum. Það er lúxus að geta gengið út fyrir flugstöðina og þar að strætóbiðskýli í hlaðvarpanum; sest upp í næsta strætó og verið kominn niður í miðbæ á örfáum mínútum.
Fargjaldið kostar 94 kr. (2,80 pólskar krónur). Fargjald í pólskum strætisvögnum er mishátt eftir því hvað þjónustan er góð. Þeim mun styttra sem er á milli ferða því lægra er verðið.
Íslenskir bankar selja ekki pólskan pening. Ég tók með mér evrur og greiðslukort. Pólskar verslanir, hótel, pöbbar eða önnur fyrirtæki taka ekki við annarri mynt en pólskri. Sem betur fer uppgötvaði ég snemma að það er miklu dýrara að nota kort í Póllandi en brúka Johnny Cash (reiðufé). Þegar greiðslukort er notað er upphæðin yfirfærð í dollara og síðan í íslenskar krónur. Eitthvað misgengi gerir það að verkum að pólski peningurinn verður miklu dýrari en þegar skipt er úr evru. Það munar töluverðu. Gætið að því þegar þið farið til Póllands.
Það er margt fleira sameiginlegt með Varsjá og Reykjavík en vel staðsettir flugvellir. Hvorutveggja eru þetta höfuðborgir. Báðar ljótar. Sem að hluta ræðst af því hvernig mörgum ólíkum byggingastílum er hrúgað saman þannig að byggingarnar draga hver aðra niður.
Helstu kennimerki beggja borganna eru byggingar sem sjálfhverfir einræðissinnaðir stjórnmálamenn létu reisa sem minnisvarða um sjálfa sig. Í Varsjá sést menningar- og vísindaturnsbygging hvaðan sem er í borginni. Á turninum er stór klukka. Úr eru þess vegna sjaldséð í Varsjá. Menn gjóa bara auga í átt að turninum. Hann er næstum kvartkílómetri á hæð (mig minnir um 240 metrar). Hér sést efri hluti turnsins:
Stalín lét reisa þessa byggingu. Perlan sem Davíð Oddsson lét byggja í Reykjavík er flottari. Ráðhúsið sem hann lét reisa í andstöðu við Reykvíkinga er hinsvegar ljótari. Þegar allt er vegið saman er jafntefli hjá Stalín og kallinum í Svörtuloftum á þessu sviði. Hér sést meira af turnbyggingunni. Í samanburði við bílana sést glöggt stærð hennar:
Í nágrenni við turninn standa nokkrir skýjakljúfar í gjörólíkum byggingarstíl:
Myndin efst er af bar á Chopin flugvelli. Ég nennti ekki að skoða neitt annað í flugvallarbyggingunni. Eða réttara sagt átti ekki erindi annað þar á bæ.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
21.2.2009 | 00:35
Hvað hefur orðið um alla flugfarþegana?
Þriðjudaginn 10. febrúar síðastliðinn lagði ég land undir fót. Hélt til Póllands. Það var mín fyrsta utanlandsferð eftir frjálshyggjuhrunið. Undanfarin ár hef ég reglulega átt erindi til útlanda um það bil þrisvar á ári. Venjan var sú að langar biðraðir voru við innritun í flugstöðinni í Sandgerði. Allt gekk hægt fyrir sig og í Fríhöfninni var ætíð krökkt af viðskiptavinum. Innritunarborðum fjölgaði jafnt og þétt. Verslunarsvæðíð stækkaði jafnframt dag frá degi.
Nú brá hinsvegar svo við að flugstöðin var eins og draugabæli. Engin röð var við þau tvö innritunarborð sem voru opin. Um rúmgott verslunarsvæðið væfluðust innan við 100 manns. Engan heitan mat var að fá nema súpu. Verslanir voru rétt svo hálfopnar. Rimlahurðir þeirra voru niðri að hálfu. Viðskiptavinir urðu að beygja sig til að komast inn fyrir. Sumar rimlahurðir voru meira að segja svo lítið opnar að það þurfti að skríða undir þær.
Hvað hefur orðið um alla flugfarþegana (spurt undir laglínunni Where Have all the Flowers Gone)? Aðspurð upplýsti afgreiðsludama að eftir bankahrunið væri algengt að svona væru rólegheitin. Einkum þó um helgar. Sérstaklega á laugardögum.
Þegar ég snéri heim aftur að morgni miðvikudags í vikunni var álíka fámennt á svæðinu.
- 1. Green Tea Honey Drops
- 2. Proderm Sun Protection SPF 12
- 3. Lancome Bogage Deodorant Roll-on
- 4. Banana Boat After Sun
- 5. Kanebo Mascara 38°c Black
- 6. Lancome Hypnose Black
- 7. Naomi Campbell Edt Spray
- 8. Hr Spectacular Mascara
- 9. Dior Diorshow
- 10. Proderm Sun Protection SPF 20
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 00:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
9.2.2009 | 23:24
Furðulegt myndband
Einn kunningi minn var að fikta í tölvunni sinni. Svo hnerraði hann og allt í einu var meðfylgjandi myndband komið inn á youtube. Þetta er alveg furðulegt dæmi. Næstu daga verð ég staddur í reiðuleysi í Austur-Evrópu. Þar eru engar tölvur. Bara fátækt og eymd. Ekkert heyrist frá mér. En ég kem alltaf aftur. Aftur og aftur.
Ferðalög | Breytt 10.2.2009 kl. 09:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
8.2.2009 | 21:22
Glæsilegt uppátæki og G!Festival
Karlakórinn Fjallabræður - eða Fjallabröður eins og Færeyingar kalla þá - færði Færeyingum lag að gjöf núna fyrir helgi. Lagið heitir Minni Færeyinga. Höfundur þess er Halldór Gunnar Pálsson. Textann orti Ásgeir Andri Guðmundsson. Færeyingar geta halað gjöfinni niður af http://media.internet.fo/Minni%20Faereyinga.mp3. Íslendingar geta það líka. Lagið er sömuleiðis í tónspilaranum mínum hér við hliðina.
Með þessu vilja Fjallabræður sýna Færeyingum þakklæti fyrir góðvild og höfðingsskap gagnvart Íslendingum í áranna rás. Flestir Fjallabræðra koma frá Flateyri. Þar hafa þeir fyrir augum leikskóla sem Færeyingar gáfu þorpinu eftir að snjóflóð féll þar. Sama gerðu Færeyingar eftir snjóflóð á Súðavík. Færeyingar brugðust skjótt við neyð Vestmanneyinga í gosinu. Þegar íslenska bankakerfið hrundi á haustdögum voru Færeyingar fyrstir þjóða til að rétta Íslendingum hjálparhönd.
Færeyingar munu kynnast Fjallabræðrum ennþá betur í sumar. Síðustu helgina í júlí skemmta Fjallabræður á stærstu árlegri tónlistarhátíð í Færeyjum, G!Festivali. Hausmyndin á þessu bloggi er frá G!Festivali. Mig minnir að hljómleikasvæðið í Götu taki um 6000 gesti. Það er alltaf uppselt löngu áður en hátíðin skellur á.
Það er æðislega gaman á G!Festivali. Þar koma fram helstu færeysku hljómsveitirnar. Í ár verða það meðal annars pönksveitin 200, þunga þungarokkssveitin SIC, Lena Andersen Band og Boys in a Band. Allar þessar hljómsveitir hafa spilað á Íslandi við góðar undirtektir. Söngkonan Annika Hoydal kemur líka fram með hljómsveit á G!Festival. Hún var forsöngvari Harkaliðsins sem naut mikilla vinsælda á Íslandi um 1970 fyrir lagið um Ólaf Riddararós.
Færeyskum nöfnum á eftir að fjölga mikið á skrá G!Festivals þegar nær dregur. Á G!Festivalinu er einnig ætíð slatti af hljómsveitum frá Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Kanada.
Auk Fjallabræðra verður Bloodgroup fulltrúi Íslands á G!Festivalinu í sumar.
Hér er hægt að hlusta á fleiri lög með Fjallabræðrum:
http://www.facebook.com/pages/Fjallabraeur/44072663616
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
30.1.2009 | 19:33
Skemmtilega skrítið
Það er eitthvað skrítið á þessum myndum. Eitthvað sem passar ekki. Ég átta mig bara ekki á hvað það er.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 19:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
18.1.2009 | 15:26
Brosleg ljósmynd
Það er ljótt að hlæja að framandi menningu. Samt verða menn að leyfa sér það einstaka sinnum. En gæta þess að grínið sé góðlátlegt og litað umburðarlyndi. Á þessari ljósmynd má sjá olíufursta frá Mið-Austurlöndum. Hann brá sér í ferðalag með eiginkonum sínum. Til að hópurinn gæti síðar meir yljað sér við upprifjun á vel heppnaðri skemmtiferð var myndavél brugðið á loft. Sá sem tók myndina af olíufurstanum að ljósmynda konur sínar heyrði olíufurstann kalla eitthvað um leið og hann smellti af. Það er ágiskun að hann hafi kallað: "Tilbúnar! Allar brosa núna!"
Óskar Þorkelsson bendir á það í athugasemd hér fyrir neðan að átt hafi verið við myndina í "fótósjopp". Ég reyndi að finna "orginalinn". Þetta var það sem fannst:
Mér finnst ég kannast við dömuna sem er næst lengst til hægri. Þó getur verið að hún sé bara svona lík einhverri sem ég þekki.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 19:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
14.1.2009 | 13:30
Íslenskar hljómsveitir þátttakendur í alþjóðlegri hljómsveitakeppni
Í ár verður í fyrsta sinn haldin á Íslandi undankeppni fyrir alþjóðlegu hljómsveitakeppnina Wacken Metal Battle. Wacken er nafn á bæ í Norður-Þýskalandi sem á hverju sumri umturnast í einn allsherjar risa þungarokksbæ þegar Wacken:Open:Air hátíðin er haldin.
Í ár munu 20 þjóðir halda undankeppnir í sínu landi og er Ísland ein af þeim. Sigursveit hvers lands fyrir sig fær þátttökurétt í lokakeppninni sjálfri á Wacken hátíðinni. Það er ekki amalegt að hugsa til þess að loksins mun íslensk hljómsveit stíga á svið á þessari goðsagnakenndu þungarokkshátíð.
Sigurvegarar undankeppna eru valdir af dómnefnd. Á meðal dómara á Íslandi verður blaðamaður frá Hollandi, sem skrifar fyrir stærsta þungarokkstímarit Beneluxlandanna, Aardschok Magazine. Þessi maður er með sitt eigið bókunar- og umboðsskrifstofufyrirtæki. Það verður því mikill ávinningur að fá hann til landsins. Líklegt má telja að hann uppgötvi einhverja snillinga hér og bjóði þeim umboðssamning.
Sökum þess að undankeppnin mun fara fram síðar en áætlað var, hefur umsóknarfresturinn verið framlengdur til 1. febrúar en hann átti upphaflega að vera 15. janúar. Keppnin verður að öllum líkindum í apríl (í stað mars), en nánari dagsetning verður auglýst síðar.
Leitið upplýsinga hjá Þorsteini Kolbeinssyni hjá Restingmind Concerts, sími 823 4830. Restingmind hefur staðið fyrir hópferðum á Wacken:Open:Air undanfarin 5 ár í samvinnu við Livescenen í Danmörku. Í fyrra fóru næstum 100 manns á þessa hátíð frá Íslandi en nú er svo komið að það er hvorki meira né minna en uppselt á hátíðina í ár hjá söluaðilum úti - og hátíðin er ekki fyrr en í ágúst! Þó er eitthvað af miðum ennþá til hjá hópferðinni en hún tryggði sér miða áður en uppselt varð.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.1.2009 | 00:24
Óvænt uppgötvun. Ekki er allt sem sýnist!
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 00:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)